Tunglkökur

tunglkaka_efst

Tunglkökur eru framleiddar í tonnatali í Kína ár hvert í tengslum við miðhausthátíðina. Umbúðir og vörumerki þykja oft mikilvægari en bragð og gæði vörunnar og rándýrar tunglkökur í skrautlegum umbúðum eru orðnar að stöðutákni. Flestir kaupa tunglkökur til gjafa því margir Kínverjar eru lítt hrifnir af bragðinu, ekki síst yngri kynslóðin. Söluhæstu tunglkökurnar í Kína undanfarin ár hafa verið uppfærðar útgáfur bandaríska ísframleiðandans Häagen-Dazs.

mooncake packaging

Dæmigerðar tunglkökur eru hringlaga eins og fullt tungl. Eins og svo oft í Kína er gerð þeirra tengd alls kyns táknmyndum. Sem dæmi má nefna að í hefðbundna uppskrift eru yfirleitt notaðar fjórar eggjarauður sem standa fyrir fjóra fasa tunglsins. Kökurnar eru stundum sætar og eru þá til dæmis fylltar með sætum baunum eða lótusfræjum en geta einnig verið matmeiri og bragðsterkar, fylltar með kryddjurtum og kjöti, jafnvel Peking önd!

Framleiðsla hefðbundinnar tunglköku mun vera frekar ódýr þótt varan sé seld háu verði. Það eru því miklir peningar í húfi og margir reyna að eigna sér hlut í kínverska tunglkökuævintýrinu. Hótelkeðjur og veitingastaðir framleiða kökurnar undir eigin vörumerkjum og fyrirtæki frá Vesturlöndum sem hafa náð vinsældum í Kína markaðssetja nú sínar eigin gerðir. Þá eru tunglkökurnar gjarnan færðar til nútímalegra horfs, jafnvel er talað um tunglköku “make over” og þar sem fræg vörumerki seljast jafnan best í Kína, berast æ oftar fréttir af tunglkökueftirlíkingum.

zondag1

Hefðbundar tunglkökur eru ekki aðeins svolítið furðulegar á bragðið heldur innihalda þær gríðarlegt magn hitaeininga, allt upp í 800 kaloríur stykkið! Þetta kann að einhverju leyti að skýra vinsældir tunglkakanna frá Häagen-Dazs. Fólk kaupir slíkar kökur fremur til að borða sjálft, hinar hefðbundnu eru hafðar til gjafa. Hvað sem öðru líður hafa tilraunir til að færa tunglkökuna nær þörfum nútímans tekist ágætlega og næsta víst að tunglkökur verða áfram hluti af hátíðahöldum haustsins hér í Kína.

Færðu inn athugasemd