Deilan um framtíð flugvallar í Vatnsmýri virðist ósköp smá í sniðum þegar horft er til áætlana um fjölgun flugvalla í Kína. Sé tekið mark á kínverskum fjölmiðlum er gert ráð fyrir byggingu 56 nýrra flugvalla á árunum 2011-2015, auk þess sem unnið er að endurbótum og stækkunum á þeim sem fyrir eru. Samkvæmt þessu verða flugvellir landsins orðnir 230 í árslok 2015. Þetta gera Kínverjar þrátt fyrir að meirihluti flugvalla í landinu sé nú rekinn með tapi. Trúin á framtíðina á sér engin takmörk enda ljóst að flugfarþegum í Kína mun fjölga mikið á næstu árum. Spár segja að árið 2016 verði þeir orðnir fleiri en í Bandaríkjunum, en þar hefur fjöldi flugfarþega verið mestur hingað til. Umferð um flugvöllinn í Beijing hefur þrefaldast síðustu tíu ár og á næsta ári mun hefjast þar bygging nýs flugvallar, aðeins fjórum árum eftir að algjörri endurbyggingu og stækkun núverandi flugvallar lauk.
Eins og jafnan í Kína eru flugvallarframkvæmdir stórtækar. Hér má sjá nokkur dæmi:
Í Dalian-borg við norðausturströndina er unnið að rúmlega 21 ferkílómetra uppfyllingu þar sem meðal annars rís nýr flugvöllur. Framkvæmdin á landfyllingunni er sú stærsta í heimi með þessu sniði en hönnun var í höndum BNA Planning sem er alþjóðlegt fyrirtæki með rætur í Frakklandi.
Í náttúruparadísinni Shennongjia í Hubei-héraði hafa hæðir og dalverpi verið flött út í 2,580 metra hæð yfir sjávarmáli svo byggja megi alþjóðlegan flugvöll. Fáar fréttir höfðu borist af framkvæmdinni sem hófst árið 2011, þar til tilkynnt var í sumar að flug myndi hefjast nú í október. Uppbyggingin á sér stað í friðlandi ósnortins skóglendis og hefur vakið reiði umhverfissinna. Aðrir trúa að völlurinn muni auka á lífsgæði og ferðamannastraum í héraðinu og í yfirlýsingum stjórnvalda er fullyrt að framkvæmdin muni ekki raska lífríki svæðisins.
Í síðustu viku, nánar til tekið 16. september, hófst áætlunarflug til Daocheng Yading flugvallarins í Sichuan-héraði. Hann var byggður í 4,411 metra hæð og er þar með sá flugvöllur í heiminum sem liggur hæst yfir sjávarmáli. Frá flugvellinum má auðveldlega ferðast til ósnortinna landsvæða í Tíbet og þótt sumir Tíbetbúar fagni mögulegum ferðamannastraumi er framkvæmdin umdeild. Mörgum þykir vald flokksforystunnar í Beijing nú færast nær og óttast að unnin verði spjöll á náttúrunni í þágu “uppbyggingar hagkerfisins.“
Hefei er höfuðborg Anhui-héraðs í austurhluta Kína. Nýr alþjóðlegur flugvöllur hóf starfssemi í borginni í maí á þessu ári.
Árið 2012 opnaði nýr flugvöllur í Kunming í Yunnan-héraði. Changshui flugvöllurinn leysir af hólmi eldri flugvöll og var hannaður af Beijing Institute of Architectural Design (BIAD) sem er arkitektastofa í eigu kínverska ríkisins.
Árið 2008 unnu ítölsku arkitektarnir Massimiliano og Dorian Fuksas samkeppni um nýja flugstöðvarbyggingu á Bao´an flugvellininum í Shenzhen-borg í suðurhluta Kína. Flugstöðin verður byggð í þremur áföngum og sá fyrsti opnaður árið 2015.
Árið 2014 hefjast í suðurhluta Beijing framkvæmdir við annan flugvöll höfuðborgarinnar. Opnun hans er fyrirhuguð árið 2018 og verður nýi völlurinn þá sá stærsti í heimi. Flugvöllurinn í Beijing er nú þegar sá næstfjölfarnasti í heimi (á eftir Atlanta í Bandaríkjunum) auk þess að eiga met sem lengsta bygging í heimi en flugstöðvarbygging breska arkitektsins Norman Foster er 3,25 km löng.







