Hlutfallslega smár

37

Eins og margir vita hefur Bo Xilai, sem áður var helsta vonarstjarna kínverska kommúnistaflokksins, verið dæmdur í ævilangt fangelsi. Réttarhöldin fóru fram fyrir skemmstu og eins og svo oft í Kína áttu þau sér skrítnar hliðar. Vangaveltur um gæslumenn sakborningsins bárust til dæmis víða um netheima. Bo Xilai er óvenju hávaxinn á kínverskan mælikvarða (186 cm) en við réttarhöldin gnæfðu tveir lögreglumenn yfir hann. Sviðsetning af þessum toga er engin nýlunda í Kína og tilgangurinn væntanlega sá að láta hinn sakfellda sýnast smærri. Við nánari eftirgrennslan netverja kom í ljós að annar gæslumannanna er að öllum líkindum fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta sem er yfir tveir metrar að hæð. Hann mun vera nokkuð þekkt nafn úr kínverskum körfubolta frá síðasta áratug og þjálfar nú körfuboltalið í Shandong-héraði þar sem réttarhöldin áttu sér stað. Ekki er vitað til þess að hann hafi áður unnið við löggæslustörf.

Færðu inn athugasemd