Allir þekkja Kínamúrinn sem lengi var talinn sjást alla leið utan úr geimnum vegna stærðarinnar. Múrinn var byggður til að vernda hin fjölmörgu keisaraveldi Kínverja fyrir utanaðkomandi innrásum. Tilgangur kínverska eldmúrsins er ekki ósvipaður, því þótt hann sé ósýnilegur hindrar hann að óæskileg utanaðkomandi áhrif berist til Kína í netheimum.
Ritskoðun í Kína er nokkuð oft til umfjöllunar í vestrænum fjölmiðlum, ekki síst í tengslum við frelsissviptingu blaðamanna og rithöfunda. Amnesty International hefur til dæmis bent á að hvergi í heiminum sitji fleiri í fangelsi fyrir skoðanir sínar en í Kína. Gríðarlegt eftirlit er með allri miðlun upplýsinga og margar vestrænar samfélagssíður hljóta ekki náð fyrir augum kínverskra yfirvalda. Facebook, Twitter, Youtube og WordPress eru dæmi um síður sem eru blokkaðar og komið hafa tímabil þar sem ekki er hægt að komast inn í Google leitarvélina. Sambærilegar kínverskar síður eru leyfðar en þær eru vandlega ritskoðaðar. Færslur sem falla ekki að opinberum skoðunum yfirvalda eru látnar hverfa og einnig heyrast sögur af ríkisstarfsmönnum sem hafa af því atvinnu að pósta réttum skoðunum og reyna þar með að hafa áhrif í netsamfélaginu. Yfir 30 þúsund manns eiga að starfa hjá kínversku netlögreglunni og í öllum opinberum fjölmiðlum birtist aðeins það sem fellur að hugmyndafræði kínverska kommúnistaflokksins hverju sinni.
Daglegt líf innan múrsins
Eitt er að lesa um ritskoðun, annað að lifa með henni. Internetið er er augljóslega þyrnir í augum yfirvalda enda erfitt að hafa stjórn á því. Þegar framundan eru stórir viðburðir á borð við flokksþing kommúnistaflokksins, þjóðhátíðir eða leiðtogaheimsóknir og þegar athygli heimsins beinist að umdeildum atburðum í Kína eins og uppreisnum í Tíbet og Xinjiang-héraði, svo ekki sé minnst á Nóbelsverðlaunahafann Liu Xiaobo, þá verður allt eftirlit enn meira, netið virðist hægja á sér og sjónvarpsútsendingar eru slitnar úr sambandi. Flestir geta kannski ímyndað sér hvernig þetta virkar í tölvu, að leitarvélar birti ekki upplýsingar tengdar nöfnum umdeildra einstaklinga og vefsíður komi ekki upp á skjáinn. Erfiðara getur verið að ímynda sér ritskoðun í sjónvarpi. Í miðjum fréttatíma á alþjóðlegum rásum eins og BBC og CNN er einfaldlega slökkt á útsendingunni og skjárinn verður svartur. Ekkert “afsakið hlé“, skjárinn verður bara svartur. Öll umfjöllun um Nóbelsverðlaun Liu Xiaobo var á sínum tíma blokkeruð með þessum hætti og fyrir skemmstu mátti upplifa að slökkt var á fréttunum þegar BBC var með umfjöllun um Bo Xilai. Þegar kínverskur fréttaskýrandi kom sér fyrir í sjónvarpssettinu til að ræða við fréttaþulinn um lífstíðardóminn yfir Bo varð skjárinn undireins svartur. Ekki birtist aftur mynd á skjánum fyrr en íþróttafréttir tóku við.
Hjáleiðir og VPN
Í tölvuheiminum eru alltaf einhverjar leiðir til að fara fram hjá hlutunum, jafnvel öflugri ritskoðunarvélinni í Kína. Áskrift að svokallaðri VPN-þjónustu Virtual Private Network, sem keypt er erlendis frá, kemur okkur útlendingunum til bjargar. VPN-hjáleiðir gera okkur kleift að skrifa og birta þetta blogg, halda úti Facebook síðu og yfirhöfuð að fylgjast með fjölmörgu sem er að gerast á Íslandi og í umheiminum sem ekki nær í gegnum kínverska eldvegginn. Að sjálfsögðu hefur kínverska netlögreglan horn í síðu VPN-fyrirtækja sem þó virðast eflast við hverja raun og halda aðgangnum opnum með því að uppfæra stöðugt forrit og móttökusenda sem eru staðsettir út um allan heim.
Ritskoðun er varin með lögum í Kína og um hana gilda fjölmargar reglugerðir. Tækjabúnaður sem er notaður til að ritskoða kínverska internetið er talinn sá öflugasti í veröldinni. Ekki er aðeins hægt að blokkera síður á landsvísu, heldur er mögulegt að fylgjast með netnotkun einstaklinga. Það er því alltaf dálítið ónotaleg tilfinning að lauma sér yfir kínverska eldmúrinn og hvort sem það er ímyndun eða ekki, þá er eins og “stóri bróðir” sé alltaf að fylgjast með.
Rétt er að taka það fram að ofangreind færsla endurspeglar einfaldlega okkar reynslu og upplifun og ekki er um nein sérstök vísindi að ræða.



Bakvísun: Stórveldi í ritskoðun | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA
Bakvísun: Konfúsíus og hin ráðandi öfl | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA