Hús af ýmsum gerðum

Mannlíf og hlutir endurspegla sögu landa en það gerir einnig húsagerðin. Þótt Shanghai sé ein frægasta og stærsta borg Kína telst hún þó ekki til hefðbundinna sögustaða. Í landi þar sem sagan er mæld í þúsundum ára þykir saga borgarinnar stutt. Síðustu tvö hundruð ár hafa þó verið afar viðburðarrík í Shanghai. Eins og eftirfarandi myndir og textar bera með sér má lesa í kínverska sögu og menningu með því að skoða fjölbreytilega byggingargerðina.

DSC_0239

Kínahverfið

yuyuan1Sögu byggðar í Shanghai má rekja aftur til 13. aldar. Bærinn lá þétt við árbakka Huangpu árinnar og innan borgarmúranna myndaðist samfélag sem snemma varð þekkt af verslun. Viðskipti eru enn í dag aðall borgarinnar og því má kannski segja að það sé við hæfi að elsti hluti hennar hafi verið byggður upp sem verslunarhverfi. Þótt ferðamenn sem heimsækja gamla bæinn í Shanghai sjái merki um fornar kínverskar byggingarhefðir var mest af svæðinu byggt upp skömmu eftir 1990. Sumir ganga svo langt að tala í þessu samhengi um stærsta China Town í heimi.

DSC_0831

Franska hverfið

Útlendingar öðluðust yfirráð yfir ýmsum svæðum í Kína eftir að svokölluðu Ópíumstríði lauk árið 1842, meðal annars í Shanghai. Tveir borgarhlutar frá þessum tíma eru enn vel þekktir: Alþjóðlega byggðin (International Settlement) og franska hverfið (French Concession). Uppbygging og saga svæðanna nær allt fram undir stofnun Alþýðulýðveldisins árið 1949 og þrátt fyrir mikið niðurrif á síðustu árum má enn finna fjölmargar byggingar í evrópskum stíl. Frá þessum tíma eru líka hin svokölluðu Lilong-hús sem þýða mætti sem „íbúðir í kringum húsasund“. Húsasundin voru byggð í ýmsum útgáfum, stundum sem einbýlishúsahverfi, stundum sem fjölbýlishúsabyggð. Þau setja enn mikinn svip á Shanghai, ekki síst í franska hverfinu. Ásýnd húsanna hefur þó breyst því nær öllum húsum var skipt upp við valdatöku kommúnista. Þannig búa nú fjölmargar fjölskyldur í húsum sem áður hýstu jafnvel bara eina fjölskyldu. Viðhaldi er víða ábótavant en þrátt fyrir það býr hverfið enn yfir miklum sjarma og þeim íbúðarhúsum fjölgar sem gerð hafa verið upp í sinni upprunalegu mynd.

DSC_0840

DSC_0822

Fjármálahverfið

Eftir að Deng Xiaoping opnaði á nýja möguleika í Kína upp úr 1990 og sagði þjóðinni að það væri gott að græða peninga hefur ásýnd kínverskra borga breyst svo mikið að margar þeirra eru nær óþekkjanlegar. Útlínur háhýsabyggðarinnar á Pudong svæðinu í Shanghai eru ein frægasta táknmynd nýrra tíma. Sjónvarpsturn kenndur við perlu og þrenning húsa sem öll eru meðal hæstu húsa veraldar ber þar hæst. Uppbygging borgarhlutans hefur verið ógnarhröð, fyrir rúmum tuttugu árum var þar enn akurlendi. Myndir af skýjakljúfunum í Pudong breytast því stöðugt en með byggingu nýjasta turnsins, sem jafnframt verður sá hæsti í Kína, er ásýndin smám saman að taka á sig endanlega mynd. Í Pudong er fjármálamiðstöð Alþýðulýðveldins, þ.e. einskonar Wall Street þeirra Kínverja og hér var fyrir skemmstu opnað fríverslunarsvæði. Markmiðin eru háleit og eflaust er ætlunin að gera Shanghai að einni af stærstu fjármálamiðstöðvum heims.

DSC_0377

Færðu inn athugasemd