Flestir sem heimsækja Kína taka fljótlega eftir því hversu oft jaðasteininum bregður fyrir. Stórbrotin listaverk í hofum, höllum og söfnum eru skorin út í jaða og víða má sjá sölubása með jaðaskarti í verslunarmiðstöðvum og á mörkuðum. Athugulir gætu einnig tekið eftir því að Kínverjar, jafnt karlar sem konur, bera mjög oft jaðaarmbönd og hálsmen. Hægt er að verða margs vísari um Kína með því að fræðast um þennan þýðingarmikla stein sem enn í dag er vinsælt tákn fyrir mátt og fegurð.
Á kínversku heitir steinninn yù. Orðið hefur í gegnum tíðina verið notað um fleiri en eina steintegund og enn í dag tala Kínverjar um yù í almennu tali um verðmæta steina og skrautsteina. Það getur því verið erfitt að átta sig almennilega á hvað jaði er og ekki kom í ljós fyrr en eftir miðja 19. öld að orðið jaði (á ensku jade) hafði verið notað um fleiri en eina steintegund, annarsvegar jaðeít, hinsvegar nefrít. Í kínversku er gerður greinarmunur á steinunum með því að tala um þann fyrrnefnda sem harðan jaða (ying yù), hinn síðarnefnda sem mjúkan jaða (ruan yù). Báðar steintegundirnar teljast vera ósvikinn jaði og þótt þær séu í eðli sínu ólíkar er útlitið ekki ósvipað. Litbrigði jaðans eru fjölmörg en algengt er að sjá hann í grænu, allt frá fölgrænu yfir í dökkgræna tóna. Því hreinni og tærari sem steinninn er því verðmætari telst hann.
Kraftmikil hjátrú
Þótt jaðinn sé þekktur í menningarsögu fleiri þjóða er fátt sem getur keppt við langa sögu steinsins í Kína. Segir það nokkuð um mikilvægi hans að kínverska táknið fyrir jaða er aðeins einni stroku frá því að vera eins og upphaflega táknið fyrir orðið keisari. Jaði kemur fyrir í kínverskum goðsögum og einstæðir jaðasteinar tryggðu konungleg völd til forna. Innsigli skorin út í jaða eru mikilvægt tákn um vald í kínverskri sögu og keisarinn í Kína var sagður ná sambandi við æðri máttarvöld í gegnum einskæran jaðadisk. Trúin á mátt jaðasteinsins lifir enn á meðal þjóðarinnar og tengist oft allskyns hjátrú. Þannig á það til dæmis að hafa góð áhrif á alla ákvarðanatöku, ekki síst í viðskiptum, að nudda jaðastein í höndunum.
Heimspekin um hin andstæðu öfl sköpunar og náttúru, yin og yang, sem ætíð þurfa að finna jafnvægi, eru stór þáttur í öllu sem tengist menningu Kínverja. Það á einnig við um jaðann sem hefur einkenni yang. Sem slíkur er hann þekktur í kínverskri læknisfræði og þá notaður í duftformi gegn ýmsum kvillum. Því hefur einnig verið trúað að jaðinn endurspegli heilsu og örlög, ef steinninn fölnar og missir ljóma sinn bendi það til þess að eigandinn sé veikur eða eigi á hættu að verða fyrir áföllum.
Jaðinn tengist mörgum eftirsóknarverðum eiginleikum og er því vinsæll sem verndargripur. Algengt er að ung börn fái að gjöf jaðaskart og margir Kínverjar bera daglega á sér jaða í einhverri mynd í þeirri trú að hann færi þeim betra líf. Á ferðalögum um heiminn má ganga að því sem vísu að þar sem verslað er með jaða hittir maður Kínverja, en jaðanámur finnast á nokkrum svæðum í heiminum, til dæmis í Bandaríkjunum og Búrma.



