Akademískt frelsi í alþýðulýðveldinu

Hér í Kína ríkir ekki tjáningarfrelsi. Á undanförnum mánuðum hefur eftirlit með fjölmiðlum og bloggsíðum verið hert og margir bloggarar og aðgerðasinnar hafa verið handteknir. Á meðan ráðamenn á Íslandi hittu Ma Kai var mál Xia Yeliang, sem nýverið var sagt upp störfum við Pekingháskóla, áberandi í fréttum bæði hér og erlendis. Við drögum hér fram það  helsta í fjölmiðlaumfjölluninni um Xia Yeliang enda er saga hans ágætt dæmi um hvernig kínversk stjórnvöld setja tjáningarfrelsinu mörk.

xia_Yeliang_620x350

Xia Yeliang er hagfræðingur og hefur kennt við Pekingháskóla í rúman áratug. Hann hefur talað fyrir auknu lýðræði í Kína og var einn af þjú hundruð og þremur sem skrifuðu undir Charter 08 yfirlýsinguna sem var ákall til stjórnvalda um lýðræði, mannréttindi og réttarríki. Xia er vinur Liu Xiaobo, sem stóð fyrir Charter 08, og fékk fyrir það friðarverðlaun Nóbels árið 2010. Liu Xiabob situr nú í fangelsi í Kína og konan hans í stofufangelsi.

Xia hefur opinberlega gagnrýnt stjórnvöld í Kína. Árið 2009 skrifaði hann opið bréf til Liu Yunshan þar sem hann fordæmdi ritskoðun yfirvalda. Liu, sem nú situr í æðsta ráði (politburo) kommúnistaflokksins, var þá yfirmaður áróðursstofnunar ríkisins en sú stofnun hefur umsjón með ritskoðun í landinu. Xia hefur einnig gagnrýnt núverandi forseta, Xi Jingping, fyrir herferðina um kínverska drauminn.

Í enskum fréttum ríkisfjölmiðla hér í Kína kemur fram að Xia hafi verið látinn fara vegna kvartana frá nemendum og að þær nái allt aftur til ársins 2006. Kennsluaðferðir hans og viðhorf hafi ekki fallið þeim í geð. Eitt af umkvörtunarefnunum var að Xia væri með árróður gegn kommúnistaflokknum í tímum. Ennfremur er sagt að hann hafi komið illa út úr kennslukönnunum og verið þar með lægstu einkunn allra kennara síðustu ár.

Okkur lék forvitni á að vita meira um brottrekstur Xia í meðförum kínverskra fjölmiðla, á kínversku án allra túlkana og þýðinga. Við fengum heimamann til að hjálpa okkur að gera leit að nafni hans á kínverska netinu. Fréttirnar sem þar birtust voru í samræmi við enskar þýðingar ríkisfjölmiðla. Þar var einnig að finna frétt sem sagði að stjórnvöld litu svo á að Xia Yeliang stæði í vegi fyrir því  að kínverski draumurinn gæti ræst.

Við sem erum með VPN tengingu og getum lesið á fleiri tungumálum sjáum aðrar hliðar á málinu í erlendum fjölmiðlum og fáum að heyra rödd Xia sjálfs. Hann segir í símaviðtali við breska blaðið The Guardian að háskólinn hafi látið hann fara vegna mikils þrýsings frá yfirvöldum og hann tengir það meðal annars áðurnefndri gagnrýni á æðstu menn flokksins. Hann sagðist að sjálfsögðu reiður og þá ekki síst vegna þess að verið væri að koma á hann illu orði. Hann sagði yfirlýsingar yfirvalda fullar af rangfærslum og mótsögnum.

Pekinghaskoli

Í öðru símaviðtali, nú við David Feith, blaðamann hjá The Wall Street Journal í Hong Kong, segir Xia að öllum háskólum í Kína sé stjórnað af kommúnistaflokknum. Raunverulegur yfirmaður Pekingháskóla sé ekki forseti háskólans heldur sérstakur flokksritari skólans. Xia segir frá því hvernig hann var varaður við af flokknum í júní um að til stæði að láta hann fara. Hann ætti ekki að segja skoðanir sínar opinberlega þar sem það gæti eyðilagt ímynd kommúnistaflokksins.

Xia segist hafa fengið viðvaranir af þessu tagi síðan 2009. Honum hafi verið bannað að koma fram í viðtalsþáttum í sjónvarpi, verið rekinn frá tveimur rannsóknarstofnunum, eltur af óeinkennisklæddum lögreglumönnum, endurtekið verið handtekinn og yfirheyrður, haldið í stofufangelsi svo dögum skipti, áreittur með símhringingum á nóttunni og sífellt hafi verið fylgst með honum á netinu auk þess sem brotist hefur verið inn í tölvuna hans.

Á undanförnum árum hafa margir vestrænir háskólar myndað tengsl við háskóla í Kína og jafnvel stofnað útibú í landinu. Pekingháskóli, sem talinn er einn sá besti í Kína, er í samstarfi við fjölda þekktra háskóla um allan heim, skóla sem leggja mikið upp úr akademísku frelsi. Þegar blaðamaður spyr Xia hvers vegna enginn af þeim skólum hafi mótmælt brottrekstri hans segist hann ekki vilja skella skuldinni á þá eða hvetja þá til að slíta samvinnunni. Sjálfur myndi hann þó standa með eigin sannfæringu um akademíkst frelsi ef hann væri í þeirra sporum. Hann bætir við að þegar fræðimenn og stjórnendur háskóla komi til Kína séu þeir oft meðhöndlaðir eins og þjóðhöfðingjar. Þeir fái vel launað fyrir að flytja fyrirlestra eða ræður, þeim séu haldnar miklar veislur og þeir dvelji á fimm stjörnu hótelum.

Þó að stóru þekktu skólarnir hafi ekki lýst opinberlega yfir stuðningi við Xia, stendur hann ekki einn. Kennarar í Wellesleyháskóla í New York hafa skrifað bréf þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við hann og The Committee of Concerned Scientists sendi bréf til forseta Pekingháskóla þar sem skorað var á hann að koma í veg fyrir uppsögnina en allt kom fyrir ekki.

Eins og sést á ofangreindu dæmi, sem er bara það nýjasta af mörgum, þá eru hlutirnir ekki einfaldir hér í Kína. Sannleikurinn er oft fyrir borð borinn og yfirvöld fara sínu fram.  Xia Yeliang segir að vestræn ríki líti Kína ekki réttum augum, heldur einblíni á efnahagsundrið. Það hafi hins vegar ekki gerst án fórna, mikil mengun, skortur á mataröryggi og ákaflega slæmt skólakerfi sem stjórnað er af hugmyndafræði flokksins sé hluti af þeim fórnarkostnaði. Xia segir þetta mjög hættulegt og við getum tekið undir það. Við höfum áhyggjur af því hvernig íslensk stjórnvöld líta til Kína, það má ekki gleymast að Kína er alræðisríki.

Færðu inn athugasemd