Lykill að kínversku: Pinyin

Hvort heitir höfuðborgin í Kína Peking eða Beijing? Og hvers vegna er stundum skrifað Mao Tse-tung en annars staðar Mao Zedong? Er rétt að skrifa Sjanghæ eða heitir borgin einfaldlega Shanghai? Ekki er ólíklegt að þeir sem fylgjast með málum í Kína velti slíkum spurningum einhverntíma fyrir sér.

Kínverskum nöfnum er stundum fundinn íslenskur ritháttur í þeirri trú að annars sé verið að apa upp eftir ensku. Algengt er að sjá skrifað Sjanghæ eða Sjanghaí og í íslensku er nokkur hefð er fyrir því að skrifa nafn Mao með ó. Nöfn nokkurra kínverskra borga, eins og til dæmis Peking og Kanton, hafa fest sig í sessi í íslensku. Rithátturinn er þó ekki í samræmi við þann sem nú er notaður í Kína, sem myndi vera Beijing og Guangzhou.

Það er nefnilega engin tilviljun hvernig kínverska er skrifuð með latnesku letri og byggir það á kerfi sem kallast Hànyǔ pīnyīn, eða einfaldlega pinyin. Kerfið er notað við lestrarkennslu í kínverskum barnaskólum og flestir Kínverjar nota pinyin til að skrifa á tölvur og senda textaskilaboð í síma. Pinyin er einnig notað til að stafa kínversk nöfn í erlendum útgáfum og kærkomið hjálpartæki fyrir útlendinga sem eru að læra kínversku.

Að lesa tákn

Í kínversku hefur hvert orð sitt eigið tákn sem segir þó ekki til um hvernig á að segja orðið. Kínversk tákn fela sem sé ekki í sér hljóðmyndir sem þýðir að ekki er hægt að vita hvernig orð hljómar með því að horfa á hvernig það er skrifað. Þetta skapar erfiðleika því þegar fólk þekkir ekki erfið tákn hefur það einfaldlega ekki hugmynd um merkinguna. Pinyin breytir þessu og gerir fólki kleift að stafa sig fram úr kínversku með því að nota latneska bókstafi. Á þann hátt er hægt að lesa hvernig á að segja orðið líkt og við erum vön að gera í íslensku og skyldum tungumálum.

Áður en pinyin kerfið kom til sögunnar höfðu verið gerðar ýmsar tilraunir til að gera kínversk tákn læsileg, margar þeirra af vestrænum mönnum. Útgáfa portúgalsk-kínverskrar orðabókar frá 16. öld er oft nefnd í þessu samhengi sem og þýðingar sem eiga rætur að rekja til erlendra kristniboða í Kína. Það var þó ekki fyrr með aðferðum pinyin sem tókst að breiða út almenna lestrarþekkingu í Kína og raunar voru það kommúnistar sem lyftu þessu grettistaki í byrjun valdatímans.

Höfundur pinyin kerfisins heitir Zhou Youguang. Uppfinning hans olli byltingu í lestrarkunnáttu kínversku þjóðarinnar, gerði mandarín kínversku að þjóðtungu í Kína og hefur á síðustu árum sannað gildi sitt enn frekar sem mikilvægt hjálpartæki á tölvuöld. Þótt ótrúlegt sé er Zhou, sem er fæddur árið 1906, enn til frásagnar um hvernig pinyin kerfið kom til sögunnar og hefur á undanförnum árum verið óhræddur við að tjá sig frjálslega um menn og málefni, oft í óþökk kommúnistastjórnarinnar.

Faðir Pinyin

Zhou_Youguang_1920sZhou Youguang er oft nefndur faðir pinyin hér í Kína. Sjálfur hefur hann sagt að hann líti miklu fremur á sig sem son pinyin. Hann hafi einfaldlega byggt ofan á þekkingu sem þegar var til staðar en strax sem ungur maður varð hann mjög áhugasamur um tilraunir annarra til að gera kínversk tákn læsileg. Áhugamálið mótaði þó ekki feril hans í fyrstu því hann lagði stund á nám í hagfræði og fluttist síðan til Bandaríkjanna þar sem hann starfaði við kínverskan banka í New York. Eins og svo margir ungir Kínverjar sem höfðu hlotið góða menntun og reynslu erlendis sneri hann vongóður til heimalandsins eftir valdatöku kommúnista. Unga fólkið vildi leggja sitt af mörkum við uppbyggingu hins nýja Kína og grunaði á þeim tíma ekki hvað biði þess undir ógnarstjórn Mao formanns.

Fljótlega eftir heimkomuna frá Ameríku upp úr 1950 komst Zhou að því að lítil eftirspurn var eftir hagfræðiþekkingu hjá hinum nýju stjórnvöldum í Kína. Hann hefur sagt að líklega hafi það orðið honum til lífs því margir félagar hans sem reyndu að hafa áhrif með fræðiþekkingu sinni týndu fljótt lífi eða voru færðir í fangabúðir. Yfirvöld höfðu aftur á móti mikinn áhuga á að stuðla að sameiginlegri þjóðtungu allra Kínverja. Fjölmörg ólík tungumál og mállýskur eru til í Kína og á þessum tíma var engin ein tunga sem öll þjóðin skildi. Eitt af því sem ákveðið var að gera til að styrkja mandarín kínversku í sessi var að einfalda táknmálið og finna upp einhverskonar hljóðstafróf. Vegna gamalla kynna Zhou Youguangs við Zhou Enlai, helsta samstarfsmanns Mao formanns, vissu ráðamenn af áhuga og þekkingu Zhou Youguangs á tungumálafræðum. Hann var því beðinn um að taka að sér formennsku í nefnd sem var ætlað að efla tungumálakunnáttuna í landinu með því að finna upp heppilega hljóðskrift.

Pinyin kerfið var fullskapað árið 1958 og stuðlaði strax að miklum breytingum á lestrarkunnáttu kínversku þjóðarinnar. Áður en pinyin kom til sögunnar er talið að um 80% almennings í Kína hafi verið ólæs. Átak kommúnistastjórnarinnar í menntamálum, einföldun táknskriftarinnar og innleiðing pinyin eru talin hafa leitt til þess að ólæsi fór á nokkrum áratugum niður í 10%. Ekki eru þó allir sammála um áreiðanleika tölfræðinnar.

Maður með skoðanir

Afrek Zhou Youguang og félaga sem sköpuðu pinyin er óumdeilt sem þýðir þó ekki að Zhou hafi verið hampað sem hetju í gengum tíðina. Þótt hann slyppi við fyrstu hreinsanir kommúnistastjórnarinnar var hann eins og flestir menntamenn sendur í sveitina í menningarbyltingunni. Á síðustu árum hefur kínverskum yfirvöldum þótt Zhou Youguang til nokkurra vandræða því hann hefur verið duglegur að koma hugleiðingum sínum á prent. Eftir aldarafmælið árið 2006 hefur hann gefið út tíu bækur þar sem hann hefur meðal annars talað fyrir auknu lýðræði í Kína og hafa sum rit hans verið bönnuð. Hvað sem því líður hélt kínverska ríkissjónvarpið upp á fimmtíu ára afmæli pinyin árið 2008 með því að gera þátt um Zhou, þá 102 ára að aldri.

Nokkur viðtöl við Zhou Youguang hafa einnig birst í vestrænum fjölmiðlum á síðustu árum, m.a. í Guardian og New York Times. Þar liggur Zhou ekki á skoðunum sínum og hefur meðal annars sagt að kínverska þjóðin trúi ekki lengur á kommúnistaflokkinn og að hann telji að flestir menntamenn í Kína séu talsmenn lýðræðis. Gamli hagfræðingurinn er heldur ekki sannfærður um kínverska efnahagsundrið, segir að þar sé ekkert kraftaverk á ferðinni og hefur því til stuðnings bent á að þjóðarframleiðsla á íbúa sé til að mynda aðeins einn tíundi af því sem er í Tawain. Zhou hefur líka sagt að uppgangurinn hafi kostað of miklar fórnir, laun séu lág og náttúran stórskemmd. Og eftir að hafa fylgst með þróun mála í Kína í meira en öld er það hans skoðun að Kína sé nú menningarleg eyðimörk. Hann gagnrýnir kommúnistaflokkinn fyrir hversu hart var ráðist gegn kínverskri menningu eftir valdatökuna 1949 og að ekkert hafi fyllt skarðið nema tómarúm. Zhou gefur líka lítið fyrir stuðning almennings við flokkinn enda sé ekkert hægt að segja til um hann í dag því fólk hafi ekki frelsi til að tjá sig. Það þarf því ekki að vekja furðu þegar hann segir frá því að hann hafi eitt sinn á síðustu stundu verið afboðaður í opinbera móttöku allra æðstu yfirvalda í Peking. Ástæðan var sögð slæmt veður.

Zhou Youguang varð 108 ára gamall í janúar á þessu ári og er samkvæmt nýjustu heimildum enn í fullu fjöri. Hann skrifar mikið og heldur meðal annars úti bloggsíðu: http://blog.sina.com.cn/zhouyouguang. Hans helsti aðstoðarmaður er 79 ára gamall sonur hans sem hefur sagt frá því að bloggsíðan sé ritskoðuð og öll ummæli sem styðja bloggið hverfi þaðan jafnharðan. Neikvæðar athugasemdir fái aftur á móti alltaf að standa.

hanyu-pinyin-master

Pinyin og kínverskunám

Pinyin kerfið hjálpar ekki aðeins útlendingum að læra kínversku heldur líka kínverskum börnum að læra að lesa og skrifa í fyrstu bekkjum grunnskólans. Þeir sem alast upp við að tala mállýskur nota pinyin til að læra hvernig á að bera fram orð á staðlaðri kínversku, þ.e. mandarín kínversku eða putonghua eins og hún er kölluð hér í alþýðulýðveldinu og mætti þýða sem tungumál alþýðunnar.

Tilgangurinn með pinyin hefur aldrei verið að koma í staðinn fyrir kínversku táknskriftina heldur var markmiðið að auðvelda fólki að læra að lesa. Eins og Zhou Youguang hefur bent á eiga táknin sér djúpar rætur í árþúsunda sögu Kína og hann hefur spáð því að Kínverjar muni nota táknin í það minnsta 500 ár enn. Zhou hefur jafnframt sagt að hann telji ekki að mandarín kínverska muni senn taka við af ensku sem heimstungumál, til þess hafi enska að hans mati of mikið forskot.

Þeir eru þó ófáir útlendingarnir sem vilja læra kínversku í dag og hugsa þá gjarnan til framtíðar. Rithöfundurinn Adeline Yen Mah er ein þeirra sem vakið hafa máls á mikilvægi pinyin við kínverskukennslu. Hún hefur staðið að þróun tölvuleiks þar sem hægt er að æfa sig í kínversku með hjálp pinyin. Appið, PinYinPal, fæst frítt á iTunes fyrir iPad og tölvur.

Adeline Yen Mah er fædd á meginlandi Kína en flutti þaðan ellefu ára gömul, nam læknisfræði í Englandi en hefur lengst af starfað við ritstörf þar og í Bandaríkjunum. Kínversk saga og menning, kínverska tungumálið og bætt samskipti milli austurs og vesturs eiga hug hennar allan. Hún hefur skrifað fjölmargar bækur um málefnið, bæði fyrir börn og fullorðna, og staðið að ýmsum verkefnum sem hafa það að markmiði að efla tengsl og skiling milli þessara ólíku heimshluta. Áhugi Adeline á pinyin kerfinu varð til þess að hún heimsótti hinn 108 ára gamla Zhou Youguang til Peking fyrr á þessu ári. Hún birti í kjölfarið stutt myndskeið um heimsóknina á Youtube. Hún heimsótti einnig bókabúðir í borginni og vekur máls á því að pinyin sé of lítið notað í kínverskum kennslubókum. Adeline er þeirra skoðunar að nauðsynlegt sé að efla kínverskukennslu með því að nota til jafns tákn, pinyin og ensku. Aukinn tungumálaskilningur muni á endanum efla samkennd milli ólíkra heimshluta og sameina heimsbyggðina eins og hún kemst sjálf að orði.

Þótt Zhou Youguang sé sannfærður um að kínversku táknin verði við lýði lengi enn er ljóst að pinyin er mikilvæg viðbót við kínverskunám, bæði hér í Kína og erlendis. Sú staðreynd að nær óhugsandi er að nota nútímatækni eins og tölvur og snjallsíma án pinyin gæti bent til þess að gamla kínverska ritmálið muni eiga undir högg að sækja er fram líða stundir. Þó má allt eins vera að eitthvað algjörlega nýtt komi til sögunnar með framtíðartækni. En ennþá er pinyin besta tækið sem við útlendingarnir höfum til að skilja kínversk orð. Í því samhengi er mikilvægt að samræma rithátt kínverskra orða í íslensku samkvæmt því sem er opinberlega viðurkennt hér í Kína og aðrar þjóðir styðjast við. Annars gæti orðið óþarflega snúið fyrir Íslendinga að finna réttu leitarorðin í upplýsingaleit um Kína á netinu og víðar.

Færðu inn athugasemd