Dálítið kínversk jól

Jólin teljast ekki til almennra frídaga hér í Kína enda er talið að innan við tvö prósent kínversku þjóðarinnar aðhyllist kristna trú. Flestir Kínverjar tengja jólin þó ekkert endilega við kristindóminn og margir eru farnir að gera sér dagamun á jólum þótt þau beri upp á hefðbundinn vinnudag. Við höfum líka komist að því að margt ungt fólk skreytir heima hjá sér og setur jafnvel upp jólatré. Einnig verður sífellt algengara að gefnar séu jólagjafir enda eru jólin í alþýðulýðveldinu fyrst og fremst keyrð áfram af verslunarmiðstöðvum sem leggja mikið í jólaskreytingarnar.

DSC_0101

Alþjóðleg veitingahús og hótel taka einnig þátt í gleðinni og víða er boðið upp á sérstakan matseðil í tilefni af jólunum. Í stórmörkuðum er hægt að kaupa jólaskraut og afgreiðslufólkið er stundum með jólasveinahúfur.

IMG_3934

IMG_3930

Kínverska nýárið er stærsta hátíð Kínverja og er hún yfirleitt haldin í lok janúar eða byrjun febrúar í samræmi við tungldagatalið. Jólaljósin fá því víða að loga fram yfir kínversku hátíðahöldin, stundum með örlitlum áherslubreytingum. Verslunarmiðstöðvar sem hvað lengst hafa starfað í Shanghai eru augljóslega farnar að laga sig að þessu umhverfi og jólaskreytingarnar vísa þá jafnvel bæði til nýs árs 2014 og kínverska nýja ársins sem að þessu sinni er ár hestsins. Slagorðið Hold Your Horses er ef til vill skemmtileg tilvísun í að enn sé nokkur bið eftir kínversku nýárshátíðahöldunum sem verða í lok janúar að þessu sinni.

DSC_1235DSC_1254 

Enska orðið christmas þykir ekki alltaf heppilegt þegar talað er um jólahátíðina vegna augljósra tengsla þess við Jesú Krist. Svæði sem heitir Xintiandi og samanstendur af verslunum og veitingahúsum í fallega uppgerðum byggingum er þekkt fyrir líflegar jólaskreytingar hér í Shanghai. Í ár var það breski lýsingarhönnuðinn Paul Cockegde sem skapaði hlýlega hátíðarstemninguna undir slagorðinu Merry Kissmas.

IMG_3980

DSC_0111

Vörumerki ýmisskonar, hvort sem um er að ræða skart, ferðatöskur eða bjór, eru mjög oft hluti af jólaskreytingunum.

IMG_3942

DSC_0062

DSC_0074

Jólaskreytingarnar eru afar vinsælar fyrir myndartökur meðal heimamanna og jafnt börn sem fullorðnir keppast við að stilla sér upp við dýrðina.

DSC_0044

DSC_1244

Gamlir siðir og venjur eru stór hluti af jólahátíðahöldunum á Íslandi og víðar. Slíkar jólahefðir eru að sjálfsögðu ekki til hér í Kína og þess vegna er mesta furða hvað hátíðin fær mikla athygli. Vissulega má tengja áhugann við aukna neyslu í kínversku samfélagi en í spjalli við innfædda hér í Shanghai höfum við þó ekki síður fundið að stórborgarbúarnir eru í leit að tækifærum til að gleðjast með vinum og fjölskyldu. Og kannski má segja að hinn eiginlegi andi jólanna sé einmitt þá til staðar þegar fólk kemur saman yfir góðum mat, skiptist á gjöfum og nýtur samverunnar.

DSC_0066

Við sendum öllum lesendum bloggsins bestu óskir um gleðileg jól. Sheng dan kuai le!

merrychristmas

1 hugrenning um “Dálítið kínversk jól

Færðu inn athugasemd