Fjársjóðsleit á kínverska netinu

Póstsendingum frá Kína til Íslands mun hafa fjölgað um 700% í aðdraganda jóla. Flestar þeirra má rekja til kínversku netverslunarinnar AliExpress. Ekki er víst að allir Íslendingar viti að netsíðan tilheyrir kínverska stórveldinu Alibaba Group og að stofnandi þess heitir Jack Ma og er einn ríkasti maður í Alþýðulýðveldinu Kína.

Taobao, eða fjársjóðsleitin sé nafnið þýtt yfir á íslensku, heitir skærasta stjarnan í netheimum Jacks Ma. Netversluninni er gjarnan líkt við Amazon og eBay þótt kínverski netmarkaðurinn sé í raun mun stærri en á Vesturlöndum. Almennt nýtur verslun á netinu gríðarlegra vinsælda meðal Kínverja og í fjölmiðlum hefur komið fram að 60% af öllum póstsendingum innan Kína séu á vegum Alibaba Group.

logo

Segja má að Jack Ma hafi uppgötvað falinn fjársjóð þegar hann stofnaði Taobao sem nú er stærsta netverslunarsíða í heimi. Kína er langstærsti netsölumarkaður í veröldinni og fyrirtæki Alibaba samsteypunnar selja meira en Amazon og eBay til samans. Stór hluti netgreiðslna í Kína fer auk þess í gegnum greiðslugáttina Alipay sem er einnig í eigu Alibaba.

jackma

Milljarðamæringurinn Ma

Jack Ma er fæddur árið 1964 í borginni Hangzhou. Hann féll tvisvar á inntökuprófunum sem skera úr um hvort viðkomandi kemst í háskóla hér í Kína, en í þriðju tilraun árið 1984 fékk hann inngöngu í háskóla í heimaborginni. Hann útskrifaðist með gráðu í ensku árið 1988 og starfrækti í framhaldinu þýðingarþjónustu sem leiddi til þess að honum gafst kostur á að ferðast til Bandaríkjanna árið 1995. Þar komst Jack Ma í fyrsta sinn í kynni við internetið. Þegar hann sneri aftur til Kína kom hann á fót upplýsingasíðu á netinu, á borð við Gulu síðurnar, en á þessum tímum mátti ekki svo mikið sem minnast á internetið í kínverskum ríkisfjölmiðlum. Ma seldi fyrirtækið fljótlega til ríkisrekins fjarskiptafyrirtækis en hóf sjálfur störf við deild innan kínverska viðskiptaráðuneytisins. Þar komst hann í kynni við áhrifamenn sem stýra kínverska internetinu og setja um það reglur. Eftir að hafa safnað reynslu og réttu samböndunum í ráðuneytinu stofnaði Jack Ma í samstarfi við nokkra aðra netvettvanginn Alibaba árið 1999 og fékk til þess styrk frá bandaríska fjárfestingarbankanum Goldman Sachs og japanska SoftBank bankanum. Alibaba var í fyrstu starfrækt á heimili Jacks Ma í Hangzhou en er nú eitt öflugusta einkafyrirtæki í Kína og án vafa eitt hið frægasta.

Sjálfur er Jack Ma mjög þekktur maður í Kína og víðar. Hann þykir nokkuð sérstakur í útliti og miðað við það sem hann hefur sagt í fyrirlestrum sínum gekk honum illa í barnaskóla og var spáð litlum frama. Annað kom á daginn og Ma hefur hlotið margvíslegar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir árangur í viðskiptum. Hann var til dæmis tilnefndur Young Global Leader af World Economic Forum árið 2003, átti sæti á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamestu menn veraldar árið 2009 og í lok síðasta árs hlaut hann heiðursdoktorstitil við Hong Kong University of Science and Technology.

Áhrif Alibaba Group hafa á undanförnum árum teygt sig langt út fyrir landamæri Alþýðulýðveldins Kína og margir hafa dáðst að frumkvöðlinum Jack Ma. Hann er oft til umfjöllunar í erlendum viðskiptamiðlum og hefur flutt fyrirlestra við fræga háskóla á borð við Harvard og Stanford í Bandaríkjunum. Þar hefur hann gantast með þá staðreynd að hann sótti á sínum tíma tíu sinnum um inngöngu í Harvard án árangurs.  Slík er frægðarsól Jacks Ma að í þriggja daga opinberri heimsókn Davids Cameron til Kína í desember síðastliðnum átti breski forsætisráðherrann einkafund með Ma. Samkvæmt bloggsíðu Alibaba mun markmið fundarins meðal annars hafa verið að styrkja stöðu breskra vörumerkja á vettvangi Alibaba og svokölluð selfie mynd sem Cameron birti af þeim köppum á Twitter fór víða.

Baráttan við eftirlíkingar

En umræðan um fyrirtæki Jacks Ma hefur líka oft verið neikvæð. Hæst ber þar gagnrýni á sölu eftirlíkinga á Taobao og öðrum netsíðum á vettvangi Alibaba. Að vísu er það yfirlýst stefna fyrirtækisins að selja ekki óekta vörur og fyrirtækið hvetur alla til að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda. Samsteypan hefur einnig sent frá sér yfirlýsingar þar sem samstarf Alibaba við kínversk yfirvöld í baráttunni gegn sölu á eftirlíkingum er ítrekað. Herferð lögreglunnar í Nanjing í mars á síðasta ári er dæmi um slíka samvinnu en þá leiddu kvartanir til rannsóknar á Taobao verslun sem seldi próteinduft undir vörumerkinu Nutrilite. Eigendur vörumerkisins létu kanna innihaldið og í ljós kom að um eftirlíkingu var að ræða. Lögreglan gerði í framhaldinu upptækar 170.000 dósir af duftinu og var áætlað verðmæti þeirra um 22 milljóna Bandaríkjadala, eða yfir 2,5 milljarðar íslenskra króna. Í öðru slíku áhlaupi lagði lögreglan í Shanghai hald á 20 þúsund snyrtivörur sem seldar voru undir ýmsum þekktum vestrænum vörumerkjum. Virði þeirra var talið um 1,6 milljón dollara, eða 186 milljónir króna, og átta voru handteknir. Alibaba hefur einnig átt í samstarfi við þekkt tískufyrirtæki á borð við hið franska Louis Vuitton með það að markmiði að stöðva sölu á fölsuðum vörum í Kína. Loks má nefna að árið 2012 tóku bandarísk yfirvöld Taobao út af lista yfir sjóræningjasíður og af því tilefni sendu yfirmenn Alibaba frá sér yfirlýsingu og töldu það vera mikilvægt skref í rétta átt.

Þrátt fyrir allt þetta þarf ekki að leita lengi á Taobao eða AliExpress til að finna allkyns eftirlíkingar. Það geta því fylgt því bæði kostir og gallar að selja þekkt vörumerki í Kína eins og þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas hefur reynt, en vörumerkið nýtur mikilla vinsælda meðal Kínverja. Að sama skapi eru kóperingar af vörum fyrirtækisins afar algengar. Fyrirtækið átti lengi í baráttu við ýmsar smásölusíður á Taobao en í nýlegri kínverskri blaðaumfjöllun kemur fram að hjá Adidas hafi fólk hreinlega gefist upp á að eltast við smæstu aðilana og einbeiti sér nú að stærri netbúðum í þeirri von að þeim sé frekar umhugað um góðan orðstír og jákvæðar umsagnir viðskiptavina. Í greininni kemur einnig fram að það virðist þó ekki skipta miklu máli hvað fyrirtæki á borð við Adidas beiti sér hart gegn eftirlíkingum, hætti ein netsíða að selja vöru, þá skjóti hún alltaf upp kollinum einhverstaðar annarsstaðar á Taobao.

Íslenska stoðtækjafyrirtækið Össur hf. er eitt þeirra fyrirtækja sem þarf að glíma við eftirlíkingar á kínverska netinu. Í fyrra uppgötvaðist að á Taobao var rekin sölusíða með merki Össurar þar sem vörur fyrirtækisins voru seldar og því haldið fram að um opinbera sölusíðu fyrirtækisins væri að ræða. Því fór þó fjarri og tókst að stöðva söluna með aðstoð kínverskra lögfræðinga, sem beindu spjótum sínum bæði að söluaðilanum og Alibaba. Vörur frá Össuri hf. eru þó enn í boði hjá hinum og þessum smásölum á Taobao sem hafa engin tengsl við fyrirtækið. Það er því erfitt að meta hvaðan vörurnar koma, þær gætu verið notaðar, þeim gæti hafa verið stolið eða þær keyptar erlendis. Sama gildir í raun um allar aðrar vörur sem eru seldar á Taobao og AliExpress. Sá vettvangur Alibaba sem þykir öruggastur heitir Tmall en þar hafa mörg erlend fyrirtæki sett upp eigin netverslanir. Þó þykir ljóst að Alibaba þarf að setja miklu strangari reglur um sölu á falsvarningi á netsíðum sínum til að tryggja hagsmuni löglegra söluaðila.

Umdeild auglýsing

Í lok síðasta árs beindist sviðsljósið hér í Kína enn og aftur að Alibaba í kjölfar umdeildrar auglýsingarherferðar fyrir Taobao. Þar var ímynd bandaríska mannréttindafrömuðarins Martins Luther King notuð til að auglýsa sérstakan tilboðsdag, 12. desember. Myndband sýndi King veifandi rauðu umslagi, sem er tákn um ríkidæmi og peningagjafir í Kína, hrópandi hin fleygu orð sín I have a dream í átt að risavöxnu peningatré. Í framhaldinu birtist annað rautt umslag sem á stendur eitthvað á þessa leið: Ef þú sáir einu rauðu umslagi, uppskerðu mörg rauð umslög. Ekki er gott að segja hver átti að vera boðskapurinn með þessari auglýsingu og hér er á einkennilegan hátt blandað saman tilbeiðslu á ríkidæmi og peningum, sem á sér sterka hefð hér í Kína, og arfleið hugsjónamanns sem barðist fyrir mannréttindum blökkumanna í Ameríku. Skemmst er frá því að segja að mörgum þótti auglýsingin einstaklega ósmekkleg. Svo mikil umræða varð um málið á kínverskum samfélagsmiðlum að Alibaba sá ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem beðist var afsökunar á ,,menningarlegri ónærgætni”. Ekki var setið við orðin tóm því í kjölfarið var auglýsingaherferðin fjarlægð af netinu.

mlk2_0

mlk1_0

mlk3_0

Á hlutabréfamarkað 

Í maí 2013 ákvað Jack Ma að stíga af stóli sem forstjóri Alibaba, að eigin sögn til þess að hleypa að ferskara blóði. Hann mun þó áfram hafa mest áhrifavald innan fyrirtækisins og undir hans forystu er hafin vinna við að gera Alibaba að alþjóðlegu hlutafélagi. Til stóð að skrá félagið í Hong Kong en í kauphöllinni þar féllu áætlanir Ma um að vera bæði ráðandi í fyrirtækinu, en gera það jafnframt að almenningshlutafélagi, í grýttan jarðveg. Gert var ráð fyrir að Ma sjálfur og 27 aðrir yfirstjórnendur myndu ráða yfir um það bil 10% hlut af fyrirtækinu sem myndi jafnframt tryggja þeim ævilangan rétt til að skipa fólk í stjórn þess. Yfirmenn hlutabréfamarkaðins í Hong Kong bentu á að lög kveði á um að allir hluthafar séu jafn réttháir í hlutafélagi og slíkt væri því ekki gerlegt. Viðbrögð Ma voru þau að draga umsóknina til baka en freista þess í staðinn að skrá félagið á markað í New York. Síðustu fréttir herma að hann vonist nú eftir betri undirtektum á Wall Street. Á meðan situr Jack Ma ekki auðum höndum og hefur meðal annars sést við kynningar á snjallsímaappinu Laiwang sem er nýjusta afurð Alibaba. Uppboð á Taobao á málverki eftir Ma sjálfan í desember var liður í þeirri kynningu og seldist málverkið á 2,4 milljónir kínverskra yuan, eða um 46 milljónir króna, en upphæðin var látin renna til góðgerðarmála. Þótt uppboðið hafi sannarlega beint athyglinni að Laiwang forritinu hefur það þó einnig sætt gagnrýni og þykir líkjast of mikið hinu kínverska WeChat appi, sem hefur átt gríðarlegri velgengni að fagna.

malverk (1)

Hingað til hefur mest af starfssemi Alibaba verið í Kína, þar sem hundruðir milljóna notenda kaupa vörur í gegnum Taobao og Tmall og greiða fyrir vöruna í gegnum greiðslugáttina Alipay á þessu stærsta netmarkaðstorgi veraldar. Að undanförnu hefur fyrirtækið hafið sókn erlendis, meðal annars með því að fjárfesta í netfyrirtækjum á borð við ShopRunner í Bandaríkjunum sem er samkeppnisaðili Amazon. Alibaba hefur einnig fjárfest í bandaríska fyrirtækinu sem stendur að leitarvélinni Quixey. Augljóslega hafa áhrif Alibaba þegar náð til Íslands í formi AliExpress netverslunarinnar og gera má ráð fyrir að töluverður hluti ágóðans af jólainnkaupum Íslendinga í ár hafi runnið í vasa Jacks Ma.

jackma3

1 hugrenning um “Fjársjóðsleit á kínverska netinu

  1. Bakvísun: Kínversk hönnun | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA

Færðu inn athugasemd