Í fyrstu greininni hér á blogginu fjölluðum við um áróður kínverskra stjórnvalda á tímum Mao. Áróður sem stjórnunaraðferð lifir enn góðu lífi hér í Kina þar sem stjórnvöld beita ríkisfjölmiðlum fyrir sig og jafnvel ríkisstofnunum og samtökum.
Ógiftar, vel menntaðar konur um þrítugt hafa undanfarin ár verið fórnarlömb slíkrar herferðar þar sem þeim og öðrum í samfélaginu er talin trú um að þær séu að kasta lífi sínu á glæ með því að sinna starfsframanum í stað þess að giftast og eignast börn.
Afgangsstærð
Einhleypum vel menntuðum konum hefur fjölgað undanfarna áratugi hér í Kína. Stúlkur, líkt og drengir, eru hvattar til náms og gríðarleg áhersla er lögð á mikilvægi menntunar fyrir framtíðina. Allt kapp er lagt á að komast inn í góðan háskóla. Þegar svo þessar ungu konur ljúka námi og hefja störf er of stór hluti þeirra einhleypur að mati stjórnvalda.
Ógiftar vel menntaðar konur á framabraut, 27 ára og eldri, eru kallaðar sheng nu eða afgangskonur, í ríkisfjölmiðlum hér í Kína. Sheng í kínversku vísar til afganga eða þess sem er eftir. Enginn vill vera afgangs og þetta hefur því sett gífurlega pressu á þennan hóp kvenna að giftast. Foreldrar þessara ógiftu ungu kvenna vilja heldur ekki eiga afgangsdætur og ýta því á þær að ná sér í eiginmenn og ganga jafnvel enn lengra með því að sækja hjónabandsmarkaði fyrir þeirra hönd. Stefnumótaiðnaðurinn blómstrar sem aldrei fyrr.

Saga herferðarinnar og líklegar ástæður hennar
Umfjöllun um afgangskonurnar hefur verið áberandi í fjölmiðlum í meira en fimm ár, eða síðan 2007. Eins ótrúlega og það hljómar birtist nafngiftin, sheng nu, þá í grein á vefsíðu All China Women’s Federation (ACWF) en hlutverk stofnunarinnar er að berjast fyrir réttindum og hagsmunum kvenna og stuðla að jafnrétti í landinu. Um svipað leyti var orðasambandið sett inn á orðalista kínverska menntamálaráðuneytisins á netinu. Í kjölfarið tóku fleiri greinar að birtast á vefsíðunni, meðal annars með alls konar leiðbeiningum til þessara kvenna um hvernig þær gætu náð sér í mann. Ríkisfjölmiðlar tóku svo við kyndlinum og hafa haldið honum uppi meira eða minna síðan.
Samkvæmt Leta Hong Fincher, doktorsnema sem er að skrifa bók um þessi mál, birtist fyrsta greinin um afgangskonurnar á vefsíðu ACWF stuttu eftir að ríkisráð Kína setti fram tilskipun um að styrkja skyldi stefnu í íbúa- og fjölskyldumálum í þeim tilgangi að koma til móts við áður óþekkt vandamál á borð við ójafnvægi í kynjahlutfalli og „lítil gæði almennings.“
Eins og margir vita þá hafa Kínverjar síðustu áratugi, með örfáum undantekningum, einungis mátt eiga eitt barn. Flestir vilja eignast drengi og því hefur mörgum kvenkyns fóstrum verið eytt. Þetta hefur orðið til þess að karlmenn í landinu eru mun fleiri en konur.
Kínverjar eru duglegir við að skilgreina hlutina og í umræðu um þessi mál er þjóðinni gjarnan skipt í ákveðna gæðaflokka, A, B, C og D þar sem í A flokki er besta fólkið og svo koll af kolli. Afgangskonurnar tilheyra hæsta gæðaflokki kvenna, þetta eru gáfaðar og vel menntaðar konur í góðum störfum. Í karlaveldinu Kína hefur það tíðkast að karlmenn kvænist niður fyrir sig, þannig að A karlar kvænast til dæmis B konum og B karlar kvænast C konum og svo framvegis. Eftir standa því A konurnar og D karlarnir og þeir hópar passa, samkvæmt umræðunni, ákaflega illa saman.
Tilgangur herferðarinnar var því trúlega, fyrir utan að kynbæta kínverska þjóð, að koma sem flestum í hjónaband bæði til þess að viðhalda ríkjandi karlaveldi og koma festu á sem flesta einhleypa karlmenn, sem væru þá síður líklegri til að taka þátt í uppþotum eða óeirðum. Stjórnvöldum hefur trúlega fundist D karlarnir líklegastir til vandræða og viljað beisla þá.
Ráðleggingar til kvenna
Til að gefa innsýn í umræðuna og þær leiðbeiningar sem konum hafa staðið til boða fylgja hér nokkur dæmi úr greinum sem birtst hafa á vefsíðu ACWF síðan 2007.
Fallegar stúlkur geta gifst inn í ríka og valdamikla fjölskyldu án þess að vera mikið menntaðar en það sama gildir ekki um konur sem eru venjulegar í útliti eða ljótar. Slíkar stúlkur binda vonir við að menntunin auki tækifæri þeirra. Það sorglega er að þær gera sér ekki grein fyrir því að með aldrinum verða konur minna og minna virði svo að þegar þær loks klára meistara- eða doktorspróf þá hafa þær elst og eru orðnar eins og gulnaðar perlur.
Aðalástæða þess að stúlkur verða afgangskonur er sú að þær gera of miklar kröfur í makavali. Ef stúlkur eru ekki of vandlátar ætti það að ná sér í mann að vera jafn auðvelt og að blása í burtu ryki.
Það er bara óskhyggja að leita að manni sem er ríkur, klár, rómantískur og vinnusamur. Er slíkur maður til? Kannski er hann til en hvers vegna í ósköpunum myndi hann þá vilja giftast þér?
Í sumum greinanna má einnig finna ráð til kvenna sem hafa náð sér í mann. Þá er til dæmis kennt hvernig bregðast eigi við framhjáhaldi:
Þegar þú kemst að því að eignmaðurinn heldur framhjá þér er líklegt að þú fyllist mikilli reiði. Þú verður þó að muna að ef þú gerir mál úr þessu þá ertu að gera lítið úr honum … Enginn maður er fær um að vera trúr einni konu, sem aldrei breytist, allt lífið … Reyndu til dæmis að breyta um hárgreiðslu. Konur þurfa sífellt að breytast til hins betra.
Það sem að baki liggur og staðan í dag
Eins og sjá má af þessum dæmum er ungu konunum álasað fyrir að vera of vandlátar í makavali. Málið er þó ekki alveg svona einfalt því niðurstöður nýlegrar doktorsritgerðar Sandy To við Cambridge háskóla benda til að þeim sé hreinlega hafnað vegna þess að körlum standi ógn af þeim. To tók viðtöl við fimmtíu konur í Shanghai og í ljós kom að konurnar ungu vildu langflestar giftast, enda sterk félagsleg krafa um slíkt í Kína. Flestar fundu þær fyrir áðurnefndri höfnun eða þá kröfum frá verðandi maka um að þær þyrftu að breyta sínum lífsháttum, eins og að hætta að vinna þegar þær gengju í hjónaband.

Það er því ekki einfalt mál að vera ung og vel menntuð kona í Kína í dag. Skilaboð samfélagsins eru að konur eiga að mennta sig og leggja allt í sölurnar til þess að komast inn í góðan háskóla og svo er starfsframinn næstur á dagskrá. Þær eiga samt sem áður að giftast sem allra fyrst og þá þarf að ná í eiginmann sem er helst með meiri menntun og betri tekjur en þær sjálfar og með svipaðan eða betri félagslegan bakgrunn. Slíkir menn virðast þó alls ekki vera að leita að vel menntuðum konum á framabraut. Ef þeir hafa áhuga gera þeir oft kröfur um að konan fórni starfi sínu. Á sama tíma hljómar í eyrum þessara ungu kvenna sífelldur áróður um að þær séu afgangsafurðir og geri allt of miklar kröfur.
Eins og gefur að skilja hafa margar konur mótmælt þessu óréttlæti. Það er hinsvegar ekki auðvelt að mótmæla opinberlega hér í Kína og því hefur það verið styrkur að vestrænir fjölmiðlar hafa tekið málið upp. Þeir hafa allra síðustu ár fjallað um þessi mál og nýlega voru greinarnar á vefsíðu ACWF fjarlægðar. Vonandi er það skref í rétta átt.
