Fölleit og fögur

Hugmyndir um kvenlega fegurð virðast nokkuð fastmótaðar hér í Kína; konur eiga að vera ofurgrannar, ljósar á hörund, og með stór augu. Egglaga andlit og smávaxið nef þykja mesta prýði og ekki er verra að vera hávaxin, helst hærri en 165 cm. Ýmsar aðferðir eru notaðar til að mæta þessum kröfum, allt frá einföldum ráðum á borð við háa hæla og sólhlífar til afdrifaríkra skurðaðgerða. 

Þótt fegurðarímyndin í Kína sé nokkuð dæmigerð á asískan mælikvarða má velta því fyrir sér hvort útlit þeirra kínversku kvenna sem öðlast hafa alþjóðlega frægð á undanförnum árum hafi áhrif á almenn viðhorf, en útlit þeirra er ekki alltaf í fullu samræmi við tíðarandann í heimalandinu. Súpermódelið Liu Wen og leikkonan Zhang Ziyi þykja til dæmis báðar afar glæsilegar á vestrænan mælikvarða – nafn hinnar síðarnefndu hefur jafnvel komið fyrir á lista yfir fegurstu konur heims – en heima í Kína þykir útlit þeirra frekar hversdagslegt.

kinabeauty

Mismunandi menningarheimar hafa ólík viðmið þegar kemur að fegurð og hugmyndir um hið fullkomna útlit eru líka breytilegar á hverjum tíma í sögunni. Af andlitsmyndum af hásettum konum á tímum Qing ættarveldisins að dæma, var ímyndin af kvenlegri fegurð þá að mörgu leyti lík þeirri sem enn gildir í Kína. Keisaraynjan Xiao Xianchun (1712-1748) með sína reglulegu andlitsdrætti er enn  talin falleg kona. Á málverkinu sjást hins vegar ekki fætur hefðarkonunnar sem hafa vafalaust verið agnarsmáir í samræmi við kröfur sem gerðar voru til kínverskra kvenna um aldir. Við fimm ára aldur voru beinin í fótum ungra telpna brotin og fótunum upp frá því haldið í skorðum með föstum línvafninum. Með þessu móti urðu fæturnir örsmáir og þóttu þá afar kvenlegir og fagrir. Varla er hægt að ímynda sér hversu sársaukafullt þetta hefur verið og sem betur fer lagðist hefðin um að reyra fætur kvenna smám saman af eftir fall síðasta keisaraveldisins í byrjun 20. aldar.

528

Stóreygð, föl og létt eins og lauf í vindi

Séu fegurðarviðmið í nútíma Kína skoðuð kemur einkum þrennt upp í hugann:

1. Stór augu

Nú vitum við öll að augu Kínverja og margra annarra Asíubúa eru öðruvísi að lögun en algengast er í Vesturheimi. Ekki er talið að konur hér í Asíu hafi veitt augnumgjörð sinni mikla athygli fyrr en í seinni tíð. Líklegt þykir að viðkynningin við Vesturlandabúa hafi leitt til þess að á tuttugustu öld fór að bera á því að litið væri á konur sem ekki höfðu sýnileg augnlok, og augun þá minna áberandi, sem ólaglegar. Þessar hugmyndir lifa enn góðu lífi og algengasta fegrunaraðgerð meðal asískra kvenna í dag er aðgerð á augnlokum sem leiðir til þess að augun virðast stærri.

augu

2. Fölleit húð

Sólin skín sjaldan á kínverskar konur því hvít og jafnlit húð er mikilvægt tákn um fegurð. Kínverjar segja hlutina gjarnan hreint út og leyna ekki andúð sinni ef þeim finnst húð einhvers illa farin og blettótt eftir sólarljós. Á sama hátt höfum við báðar, sem hér skrifum, í fyrsta sinn á ævinni uppskorið mikið hrós fyrir litarhaftið sem á norðurslóðum er í neikvæðum tón kallað glært! Verra er að óbeit margra Kínverja á dökkri húð beinist einnig að fólki með náttúrulega dökkan húðlit, til dæmis blökkumönnum. Og þótt andúð á dekkri húðlit sé sprottin úr menningu sem sér ljósa húð sem tákn um fegurð er erfitt að horfa framhjá því að hér ráði líka ferð fordómar og hrein fáfræði.

Skýringin á því hvers vegna Kínverjar (og margar aðrar Asíuþjóðir) eru svona uppteknir af hvítri húð snýst þó fyrst og fremst um stétt og stöðu. Dökk húð er tengd við þrældóm og útivinnu á meðan ljós húð þykir merki um velmegun og ríkidæmi. Svipaðar hugmyndir eru þekktar úr sögu annarra menningarheima, til dæmis í Evrópu þar sem fölleit yfirstéttin gerði það sýnilegt með litarhaftinu að hún hefði efni á að láta aðra þræla fyrir sig. Hugmyndin um fegurð ljósrar húðar á sér líka langa sögu í Kína og tengist ætíð upphefð. Oft eru konurnar við Han keisarahirðina nefndar sem dæmi en hvítmáluð andlit þeirra, umkringd síðu svörtu hárinu, þóttu nánast yfirnáttúrulega fögur. En þótt hefðin eigi sér djúpar rætur í sögunni má líka leiða rök að því að húðlitur hvíta mannsins, mestu forrréttindastéttar veraldar síðustu aldir, eigi einnig þátt í því að margir Kínverjar setja fölan húðlit í samhengi við efnahagslega hagsæld og yfirburði.

ad

Í nútímanum keppast margar kínverskar konur ekki aðeins við að halda húðinni frá sólarljósinu heldur eyða líka drjúgum peningum í allskyns hvíttunaraðferðir. Þær taka pillur, fara í leysigeislaaðgerðir og bera á sig allskyns krem í von um að verða fallegri og þá væntanlega hamingjusamari. Í sjónvarpi, kvikmyndum og tískublöðum hér í Kína er fræga og fallega fólkið hvítt, oftar en ekki með hjálp Photoshop og Airbrush (sama tækni og notuð er á Vesturlöndum til að gera fólk útitekið!). Nær öll andlits- og líkamskrem sem seld eru í Kína eru hvíttunarkrem og þeir erlendu framleiðendur sem ætla sér stóra hluti hafa allir sett á markað ,,hvítar” vörulínur. Fleiri hafa séð markaðstækifæri í þessu hvíttunarfári og jafn furðulegar vörur og hið svokallaða Facekini hafa náð vinsældum á kínverskum sólarströndum, en það er einskonar lambhúshetta sem hylur hár og andlit svo sólin nái ekki að skína á hörundið. Þegar bjart er í veðri ganga kínverskar konur gjarnan um með regnhlífar til að skýla sér frá geislum sólarinnar og allskyns derhúfur, hattar og armhlífar eru algeng sjón á sólríkum dögum.

facekini

3. Tágrannur líkami

Það er ekki aðeins á Vesturlöndum sem grannar konur þykja fallegastar. Kínverskar konur eru alltaf í megrun því þótt okkur finnist þær flestar frekar fíngerðar og grannvaxnar finnst þeim sjálfum þær aldrei nægilega mjóar og nettar. Ef kínversk kona er feitlagin þykir heldur ekkert feimnismál að segja það við hana. Þótt slík hreinskilni sé talin nokkuð eðlileg í Kína eru þessar kínverskar konur þó ekkert betur undirbúnar til að taka slíkri gagnrýni en aðrar konur í heiminum. Konur frá Kína sem búa á Vesturlöndum tala gjarnan um hvað þeim finnst gott að losna undan ofurkröfunum um að vera tágrannar því í augum Vesturlandabúa eru þær flestar fínlegar og mjóar. Þess má geta að þessu er alveg öfugt farið hjá erlendum konum sem búa í Kína, flestar höfum við einhverntíma heyrt að við séum stórar, ef ekki hreinlega feitar.

Engin feimni við lýtaaðgerðir

Augljóslega eru það ekki bara kínverskar konur sem láta staðalímyndir um útlit hafa áhrif á sig. Konur út um allan heim eru sífellt að reyna að grenna sig og sumar fara í lýtaaðgerðir til að fullkomna útlitið. Það sem kann að vera ólíkt er að í Kína virðist það ekki sérlega mikið feimnismál að láta breyta útliti sínu. Hér í Shanghai eru ótrúlega margar lýtaaðgerðastofur. Utan á byggingunum hanga auglýsingaspjöld svo það fer ekkert á milli mála hvað fer þar fram og oft sér maður sjúklinga koma út með allkyns umbúðir án þess að nokkuð sé verið að reyna að fela það. Frægar eru líka sögur af kínverskum konum sem fljúga til S-Kóreu í lýtaaðgerðir, en það er vinsælt meðal þeirra efnameiri, og lenda svo í vandræðum í vegabréfseftirlitinu á heimleið því þar þekkjast þær ekki aftur á myndinni í passanum. Hátt fór líka saga af hjónaskilnaði kínverskra hjóna í kjölfar þess að upp komst að konan hafði farið í svo margar lýtaaðgerðir að hún var sem ný. Eiginmaðurinn uppgötvaði það sem hann kallaði svik þegar þessum laglegu hjónum fæddist óvenju ófríð dóttir. Manninn grunaði konuna um framhjáhald en á daginn kom að hún hafði eytt háum fjárhæðum í lýtaaðgerðir áður en þau kynntust. Enn ótrúlegra er kannski sú hlið sögunnar að manninum voru dæmdar bætur. En hvað sem öllum slíkum kjaftagangi líður, aðgerðirnar virðast sífellt umsvifameiri og nýjustu fréttir herma að lýtaaðgerð sem felst í því að láta hækka kinnbeinin og skafa af kjálkabeinunum svo lögun andlitsins verði egglaga sé nú að verða ein sú vinsælasta hér í Asíu.

beforeafter

August-Cover-2013_1280

Alþjóðleg fegurð

Á tímum alþjóðavæðingar og alheimsnets berast hugmyndir um fegurð hratt á milli menningarheima. Þegar erlend tískublöð á borð við Vogue og Elle hófu að gefa út kínverskar útgáfur fyrir nokkrum árum prýddu vestræn andlit oftar en ekki forsíður þeirra. Nú hafa hlutföllinn breyst og augljóslega selur kínversk fegurð á forsíðu líka vel. Á sama tíma hafa ungar kínverskar konur á borð við áðurnefnda Liu Wen og leikkonuna Fan Bingbing náð frama á Vesturlöndum og andlit þeirra birtast oft í auglýsingum vestrænna vörumerkja, nú síðast hjá Louis Vuitton. Fan Bingbing er ein vinsælasta leikkona Kína og í augum samlanda sinna þykir hún fullkomlega fögur.

fanbingbing

Um fegurð mannslíkamans gildir ekkert náttúrulögmál og ekki er gott að segja hvernig fegurð verður skilgreind í framtíðinni. Augljóslega munu kínverskar konur verða sýnilegri og hafa mótandi áhrif á útlitshugmyndir um allan heim. Þó er erfitt að sjá fyrir sér að ímyndin um fölleitu og stóreygu kvenveruna sem sveiflast eins og viðkvæmt blóm í vindi muni ná alþjóðlegri fótfestu enda í fullkominni andstöðu við nútíma kröfur um jafnrétti. Kínversk vinkona okkar telur að 90% ungra kvenna hér í alþýðulýðveldinu eltist þó enn við þessi óraunhæfu viðmið. Sjálfri finnst henni mikilvægara að kínverskar konur beini sjónum sínum að heilbrigðari lífsstíl, hreyfi sig meira og borði heilsusamlegra fæði. Og vonandi mun aukin menntun kvenna í Kína opna augu þeirra fyrir öðrum mannkostum og tækifærum en þeim sem felast í útlitinu. Þrátt fyrir að náttúruleg fegurð kínverskra kvenna sé augljós öllum sem koma hingað til Kína er staðan því miður sú að sífellt fleiri kínverskar konur fara í róttækar lýtaaðgerðir til að breyta útliti sínu.

MissUniverseChina872

 

Færðu inn athugasemd