Nú þegar hið íslenska Eimskip hefur skrifað undir framtíðarsamkomulag við kínverska skipafélagið Cosco er freistandi að fara yfir það helsta sem sést hefur á prenti um þetta kínverska félag og móðurfélag þess, ríkisreknu samsteypuna China Ocean Shipping Group, eða Cosco Group.

Cosco er annað af tveimur stórum skipafélögum kínverska ríkisins og mun vera það fimmta stærsta í heimi. Nafn þess hefur komið nokkuð við sögu í alþjóðlegum fréttum á síðustu misserum vegna umfangsmikilla kaupa þess á hafnarmannvirkjum í Grikklandi. Fyrirtækið hefur einnig komist í sviðsljósið vegna tapreksturs og spillingar meðal yfirmanna. Fjölmiðlar í Kína og erlendis hafa fjallað um lélega afkomu Cosco tvö ár í röð, árið 2011 og 2012. Efnahagskreppan í heiminum á að hafa valdið afleitri afkomu fyrirtækisins. Málið vakti athygli ekki síst fyrir þá sök að fyrirtækinu var hótað afskráningu í kauphöllinni í Shanghai ef það bætti ekki afkomu sína. Til þess kom þó ekki og sýnt var fram á betri afkomu Cosco fyrir árið 2013, eftir því sem sumir segja með sölu eigna og tilfæringum innan samsteypunnar.
Spillingarmál hafa vakið enn meiri athygli á Cosco en lélegur reksturinn. Eins og oft vill verða í Kína eru upplýsingar um slík mál af skornum skammti en komið hefur fram að frá árinu 2011 hafi fjórir framkvæmdastjórar í þremur starfsstöðvum samsteypunnar verið látnir sæta rannsókn vegna spillingar. Margir eru sannfærðir um að rannsóknirnar séu hluti af herferð stjórnvalda gegn spillingu í landinu, þeirri sem Xi Jinping forseti boðaði þegar hann var settur í embætti á síðasta ári. Herferðin felst í því að berjast gegn víðtækri spillingu í kínversku samfélagi enda er hún talin geta ógnað framtíð kommúnistaflokksins.
Í yfirlýsingu frá móðurfyrirtækinu Cosco Group hefur komið fram að þar á bæ styðji menn af öllum mætti herferð kommúnistaflokksins gegn spillingu og sætti sig því við vera undir smásjá fjölmiðla og almennings. Þegar Xu Minjie, einn valdamesti maður fyrirtækisins, var sakaður um misferli í nóvember á síðasta ári birtist yfirlýsing á vefsíðu samsteypunnar. Þar kom fram að Xu sætti rannsókn viðeigandi yfirvalda en það myndi ekki hafa nein áhrif á rekstur fyrirtækisins. Sem gæti komið á óvart þar sem Xu gengdi þremur mikilvægum stöðum innan samsteypunnar; sem varaforstjóri China Ocean Shipping Group, varaframkvæmdastjóri Cosco Holding og framkvæmdastjóri Cosco Pacific. Frekari upplýsingar um málið var ekki að finna í tilkynningunni en í skilaboðum fyrirsækisins til kauphallarinnar í Hong Kong í janúar kom aftur á móti fram að Xu Minjie hefði sagt upp störfum af persónulegum ástæðum.
Fleiri yfirmenn hjá Cosco hafa verið sakaðir um spillingu. Nokkrum mánuðum áður en Xu komst í fréttirnar höfðu kínverskir ríkisfjölmiðlar birt fréttir af Meng Qinglin sem sætti rannsókn vegna spillingar í júlí. Meng Qinglin var framkvæmdastjóri Cosco Dalian sem sinnir rekstri tanksskipa og misferlið er talið tengjast kaupleigu á skipum. Nokkrum dögum síðar sagði Ma Zehua, núverandi forstjóri Cosco samsteypunnar, að það hefðu vissulega verið einhver vandræði með Cosco Dalian en skýrði það ekki frekar. Meng hætti síðan störfum hjá Cosco Dalian í janúar vegna aldurs, sextugur að aldri. Á fundi þar sem tilkynnt var um starfslokin mun framkvæmdastjórn fyrirtækisins hafa sagt að þeir kynnu vel að meta framlag Meng sem hafði unnið hjá fyrirtækinu í áratugi. Og það þótt sagan segi að starfsorka Meng hafi að mestu farið í að byggja upp sinn eigin rekstur á meðan hann var enn við störf hjá Cosco. Ekki þykir ólíklegt að svipað hafi legið að baki þegar varaframkvæmdastjóri Cosco í Qingdao, Song Jun, komst í fréttirnar árið 2011 þegar hann var handtekinn vegna gruns um spillingu. Ekki fer þó frekari sögum af því.
Frægastur þeirra Cosco kappa sem komist hafa í sviðsljósið vegna gruns um spillingu er fyrrverandi forstjóri samsteypunnar, Wei Jiafu, gjarnan kallaður Kapteinn Wei. Hann er einn áhrifamesti viðskiptamaður Kína og mun hafa notið mikillar virðingar innan skipabransans sem æðsti yfirmaður í stærsta skipafélagi landsins. Þegar sögur fóru á stjá síðasta sumar um að Wei hefði verið bannað að fara úr landi meðan á rannsókn á starfssemi Cosco samsteypunnar stæði yfir, þótti ljóst að spillingarrannsóknin hefði teygt anga sína alla leið á toppinn. Talsmenn fyrirtækisins sögðu reyndar að þetta væru bara kjaftasögur sem blöðin væru að birta en engu að síður lét kapteinninn af störfum í júlí. Sumar sögur segja að hann hafi verið látinn hætta þar sem hlutahafar hefðu gert uppreisn í kjölfar afleitrar afkomu Cosco. Annarsstaðar hefur því verið haldið fram að afsögnin skýrist af spillingu og vitnað hefur verið í heimildamenn innan fyrirtækisins sem segja að allskonar svindl og grunsamlegar aðferðir tíðkist við stjórn hinna ýmsu eininga innan samsteypunnar. Skortur á góðu regluverki hafi leitt til þess að margir yfirmenn hafi misnotað stöðu sína til að vinna að eigin hagsmunum. Aðrir skýra spillinguna með því að benda á flókna yfirbyggingu og afskipti ríkisins sem leiði til þess að starfsmönnum sé alveg sama um eignir og þjónustu fyrirtækisins.

Þetta er svona það helsta sem hægt er að grafa upp um þennan nýja bandamann Eimskipafélagsins í fljótu bragði. Cosco er stórveldi þar sem sumir hlutar fyrirtækisins eru skráðir á markað en samsteypan er þrátt fyrir það í eigu kínverska ríkisins. Eins og áður sagði eru fréttir af atburðum innan opinberra fyrirtækja og stofnana í Kína mjög óljósar og erfitt að átta sig á raunverulegri framvindu mála. Gott dæmi um slíkan rugling er að samkvæmt frásögnum, sem bæði má finna í kínverskum fjölmiðlum og á erlendum fréttaveitum á borð við Reuters, er Kapteinn Wei Jiafu ekki lengur við störf. Á heimasíðu Cosco birtist hinsvegar enn ávarp hans sem æðsti stjórnandi fyrirtækisins, dagsett 29. mars 2012.
Ekki er víst að allir myndu leggja blessun sína yfir samband við fyrirtæki þar sem svo mikið hefur gengið á síðustu mánuði. En hjá Eimskip er augljóslega litið á Cosco sem verðugan samferðamann á ferðalagi þessa fyrrverandi óskabarns íslensku þjóðarinnar inn í framtíðina.
