Hún ljómar þessa dagana, kona sem við þekkjum hér í Shanghai, því nú hefur fjölskyldan sameinast. Hún og maðurinn hennar fluttu úr sveitinni til borgarinnar fyrir tíu árum og hafa búið hér síðan. Þau skildu sex ára son sinn eftir hjá ættingjum, yfirgáfu heimahéraðið og komu til Shanghai í von um betri lífsafkomu. Draumurinn var að vinna sér inn næga peninga svo að þau gætu snúið heim aftur, keypt sér betra húsnæði og séð fjölskyldunni farborða. Síðan eru liðin tíu ár og ýmislegt óvænt hefur komið upp, eins og gengur og gerist í lífinu. Þau fundu bæði vinnu, hann sem kokkur í mötuneyti hjá kínversku fyrirtæki og hún sem heimilishjálp, oftast hjá útlendingum sem búið hafa í borginni. Fyrir sex árum varð konan ófrísk og þá þurfti hún að fara heim til að eiga barnið. Dóttirin fæddist heilbrigð og fín og eftir stutta dvöl í sveitinni snéri konan aftur til borgarinnar og nú voru það tvö börn sem skilin voru eftir hjá ættingjum í heimahéraðinu.
Til að gera langa sögu stutta má segja að líf hjónanna hafi einkennst af mikilli vinnu fjarri ættingum og vinum, en þau hafa þó hvort annað. Börnin sín hafa þau hitt einu sinni á ári, stundum tvisvar. Þau hafa yfirleitt komið til Shanghai í sumarfríinu en það hefur samt verið erfiðleikum bundið því hjónin vinna bæði langan vinnudag og því hefur drengurinn þurft að passa litlu systur sína. Hjónin eiga hvorugt rétt á fríi, þau eru upp á góðvild vinnuveitanda komin hvað það varðar. Konan hefur verið heppin því útlendingarnir sem hún hefur unnið fyrir fara oft heim á sumrin og þá fær hún frí að mestu leyti og getur verið með börnunum. Hjónin hafa líka stundum farið heim yfir kínverska nýárið og þá hitt börnin og aðra ættingja og vini en það hefur verið kostnaðarsamt og þau hafa því sjaldan leyft sér þann munað. Fyrir stuttu flosnaði drengurinn þeirra upp úr skóla og flutti til foreldra sinna í borginni í leit að tækifærum rétt eins og þau fyrir tíu árum. Hann er nú farinn að vinna sem aðstoðarkokkur á veitingastað sextán ára gamall. Fyrir nokkrum dögum kom svo dóttirin ásamt föðurafa sínum til Shanghai og þau ætla að dvelja hjá fjölskyldunni yfir kínverska nýárið. Fjölskyldan er því sameinuð í nokkrar vikur og það er því ekki skrýtið að konan ljómi.
Saga þessarar fjölskyldu er ekkert einsdæmi. Á undanförnum áratugum hafa orðið gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar hér í Kína. Í kjölfar efnahagsbreytinganna sem hófust árið 1978 hefur ungt vinnufært fólk þyrpst í borgir í leit að vinnu og betri lífsafkomu sér og sínum til handa. Gamalt fólk og börn verða eftir í sveitunum, sjá um eignir fjölskyldunnar og bíða þess að endurheimta þá fjölskyldumeðlimi sem freistuðu gæfunnar. Sveitir Kína eru fullar af öldruðu fólki, börnum og ungmennum. Fyrir okkur, sem komum úr allt öðru umhverfi, er erfitt að skilja hvað fær foreldra til að yfirgefa börn sín og skilja þau eftir í umsjá annarra árum saman og sjá þau kannski ekki nema einu sinni á ári. En ástæðan er einföld, kerfið býður ekki upp á annað og þar á hukou búsetuskráningarkerfið stóran þátt.
Upphaf hukou kerfisins
Þó að Kínverjar hafi í gegnum aldirnar haldið skrár um íbúa landsins er hukou búsetuskráningarkerfið, sem þróaðist á fimmta áratug síðustu aldar, allt annars eðlis. Því var komið á laggirnar af kommúnistum, eftir að þeir komust til valda, í þeim tilgangi að stjórna flæði fólks um landið. Kerfið var hannað að sovéskri fyrirmynd og átti það að hjálpa til við að hraða iðn- og nútímavæðingu landsins. Bændur áttu að vera í sveitunum og framleiða mat fyrir þá sem unnu í verksmiðjunum í borginni. Borgarbúarnir fengu lág laun fyrir vinnu sína en það var bætt upp með ókeypis menntun, heilsugæslu, eftirlaunum og skömmtunarseðlum fyrir mat og öðrum nauðsynjum.
Heimili voru skráð á ákveðnum stað og á þeim stað átti fjölskyldan að vera allt sitt líf. Þjóðinni var skipt í tvennt og þeir sem bjuggu í sveitum fengu sveitahukou á meðan að þeir sem bjuggu í borgum fengu borgarhukou. Borgarbúar nutu áðurnefndra réttinda og höfðu því ákveðin forréttindi. Fólkið í sveitunum fékk afnot af landskika sem það ræktaði innan stærri samyrkjubúa og innan þeirra átti öll þjónusta að rúmast. Bændur, sem voru um 80% þjóðarinnar, réðu engu um sitt líf, hvorki hvað þeir ræktuðu né hversu mikið. Þeir voru dæmdir til að framleiða mat fyrir borgarbúana auk þess að vinna að ýmsum framkvæmdum á vegum ríkisins. Líf þeirra var algjörlega samofið samyrkjubúinu og þeir máttu ekkert eiga sjálfir.
Fólk gat ekki flutt, því öll réttindi voru bundin þeim stað þar sem viðkomandi var skráður, annars staðar var engin réttindi að fá og heldur ekki mat því hann var skammtaður. Það var ekki hægt að fara út í búð og kaupa mat að vild fyrir peninga því sérstaka skömmtunarseðla (liangpiao) þurfti til að kaupa nauðsynjavörur. Hvert hérað/borg var með sérstaka gerð af slíkum seðlum og því var ekki auðvelt að fara á milli svæða. Í landinu ríkti því eins konar efnahagsleg aðskilnaðarstefna. Á meðan lifðu flokksforingjarnir í Peking með Mao í broddi fylkingar í vellystingum og gátu farið hvert á land sem var.

Hukou kerfið lifir enn góðu lífi
Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá er hukou kerfið enn við lýði hér í Kína og enn þann dag í dag hefur það áhrif á líf fólks. Nú er hægt að ferðast á milli staða án þess að svelta, enda ódýrt vinnuafl ein af forsendum efnahagsbatans á undanförnum áratugum, en öll félagsleg þjónusta og réttindi eru þó enn bundin við þann stað þar sem fólk er skráð. Allt þetta gerir flutninga á milli svæða erfiðari en áhrifin eru þó mismunandi eftir því hver á í hlut og peningar og tengsl skipta þar öllu máli.
Ríka fólkið þarf auðvitað minna á félagslegri þjónustu að halda, þar sem flest af því sem hér hefur verið talið upp er hægt að kaupa. Þeir sem eiga næga peninga geta jafnvel keypt sér hukou, en það er miserfitt eftir borgum og erfiðast í þeim stærstu. Ein leiðin er að fara í gegnum ríkisfyrirtækin. Sum þeirra fá árlega ákveðinn fjölda af hukou sem þau geta úthlutað til starfsmanna. Stundum eru “afgangskvótar” ríkisfyrirtækja seldir á uppsprengdu verði í gegnum umboðsskrifstofur og þá geta þeir sem eiga peninga keypt sér hukou.
Menntafólk sem flytur til borganna til að vinna fær tímabundið dvalarleyfi í gegnum vinnuveitendur en ekki er um eiginlegt hukou að ræða. Fyrirtækin borga ennfremur oft heilsutryggingar fyrir sína starfsmenn svo að þeir geti nýtt sér heilbrigðisþjónustu í borginni. Þetta fólk þarf þó að sækja ýmsa þjónustu í heimahéraðið, eins og að fá vegabréf, vegabréfsáritanir, öll vottorð og slíkt. Kína er stórt land og því getur þetta verið mjög tímafrekt og kostnaðarsamt. Réttindin verða heldur aldrei þau sömu og hjá þeim sem hafa hukou í borginni. Aðgengi að skólum fyrir börn er til dæmis ekki það sama, þeir skólar sem bestir eru taldir hér í Shanghai krefjast þess að báðir foreldrar hafi Shanghai hukou. Í höfuðborginni Peking þurfa þeir sem eru að kaupa íbúð, og ekki hafa hukou, að framvísa skattaskýrslum fimm ár aftur í tímann og auk þess þarf að sýna fram á góðar tryggingar. Aðeins þeir sem hafa hukou í Peking mega kaupa fleiri en eina íbúð. Þar eru einnig takmarkanir á því að kaupa bíla, fá ellilífeyri, rétti til félagslegra íbúða, aðgengi að skólum og fleiru.
Sá hópur sem finnur mest fyrir þessari skiptingu eru þeir sem minnst hafa, þeir sem þurfa mest á félagslegri þjónustu að halda, farandverkafólkið sem dvelur oft í borgunum án allra réttinda. Það eru börnin þeirra sem eru skilin eftir heima í héraði vegna þess að þau geta ekki gengið í skóla í borginni.

Sögur frá Shanghai
Á undanförnum árum hefur dregið úr miðstýringu hér í Kína og því marka borgirnar sjálfar nú sína stefnu í búsetumálum. Þeim er því misjafnlega háttað á milli staða. Við höfum spurt nokkra sem við þekkjum hér í Shanghai um þeirra hukou mál en í borginni búa um 23 milljónir og þar af hafa um 13 milljónir Shanghai hukou. Það eru því um 10 milljón manns sem búa hér án þess að hafa hukou. Kerfið hefur því áhrif á gríðarlega marga, en mismikil eftir stöðu og stétt eins og áður sagði.
Ung kona í góðri stöðu sem við töluðum við sagðist ekki hafa hukou hér þó að hún væri gift manni frá Shanghai. Þau hjónin eiga einn son og þar sem foreldrar geta í dag valið um hvort barn fær hukou föður eða móður völdu þau að drengurinn fengi hukou í Shanghai. Hukou erfist frá foreldrum og því er ekki sjálfgefið að þó að barn fæðist hér í Shanghai að það fái hér hukou. Sjálf sagðist unga konan geta sótt um hukou í borginni eftir að hafa verið gift manni sínum í ákveðinn árafjölda, en ekki væri hægt að ganga að neinu vísu í þeim efnum. Hún sagði að stundum væri hægt að fá Shanghai hukou í gegnum vinnuveitanda, ef unnið væri hjá ríkisfyrirtæki, og svo væru nýjar reglur sem leyfðu fólki að sækja um hukou eftir sjö ára samfellda dvöl í borginni. Umsækjendur eru þá metnir eftir ákveðnu punktakerfi og þeir sem þykja hæfastir geta dottið í lukkupottinn.
Ungur velmenntaður karlmaður sem hefur dvalið í Shanghai í nokkur ár sagði okkur að sér liði oft eins og útlendingi í eigin landi vegna þessara hukou mála. Hann er giftur og á unga dóttur og hann er þegar farinn að kvíða því hvað gerist þegar hún eldist og þarf að taka hið alræmda inntökupróf í háskóla. Það þarf hún nefnilega að gera í héraðinu þar sem þau eiga sitt hukou, þó dóttirin hafi aldrei búið þar. Inntökuprófið er mismunandi eftir héruðum/borgum og því er best að sækja menntaskóla í sama héraði og prófið er tekið.
Önnur leið sem alltaf virðist fær hér í Kína, er að kaupa sér leið út úr vandamálunum. Hjónin sem við sögðum frá hér í upphafi eiga tvö börn, en eins og allir vita mega langflest hjón einungis eiga eitt barn. Við spurðum konuna hvort að dóttirin hefði við fæðingu fengið hukou í þeirra heimahéraði þó að hún væri þeirra annað barn. Hún sagði að þau hjónin hefðu þurft að kaupa það hukou. Þau hefðu verið heppin og þekkt aðila sem vann við búsetuskráninguna og því fengið það ódýrt. Dóttirin gæti því gengið í skóla og fengið aðra samfélagsþjónustu í þeirra heimasveit. Hún sagði að með hverju barni umfram eitt þyrfti að borga fyrir hukou og að það yrði dýrara eftir því sem börnunum fjölgaði. Hún sagði okkur frá kunningjahjónum sínum sem eiga fimm börn, fyrst fæddust fjórar stúlkur og loks kom drengurinn sem beðið var eftir. Fjölskyldan hafði ekki efni á að borga hukou fyrir allan þennan skara og lét því skrá dæturnar á heimilum vina og ættingja sem einungis voru með eitt barn á sínu framfæri. Þetta var hægt í þeirra heimahéraði en gengi trúlega ekki í Shanghai.
Margir hafa kallað eftir breytingum á hukou búsetukerfinu, kerfinu sem neyðir margar milljónir til að búa við óöryggi og aðskilnað frá nánustu fjölskyldumeðlimum. Hingað til hafa breytingarnar verið ótrúlega hægar.

Bakvísun: Gleðilegt ár hestsins! | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA
Bakvísun: Konfúsíus og hin ráðandi öfl | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA