Gleðilegt ár hestsins!

Dagurinn í dag, 30. janúar, er sá síðasti á kínverska tungldagatalinu og á miðnætti gengur í garð nýtt ár. Ár snáksins kveður og við tekur ár hestsins. Hér í Kína er hesturinn tákn um persónulegar framfarir og samkvæmt stjörnuspeki heimamanna eru þeir sem fæddir eru í merki hestsins taldir gáfaðir, heilbrigðir og tilfinningasamir. Fólk í hestamerkinu býr yfir skarpskyggni og glaðværð, en einnig töluverðri þrjósku. Þetta þykir sumum benda til þess að á árinu 2014 muni mörg góðra manna ráð ekki ná eyrum þeirra sem þyrftu að hlusta. Happatölur ársins munu vera 2, 3 og 7 en óhappatölurnar eru 1, 5 og 6. Loks má bæta því við að fólk fætt í merki hestsins laðast gjarnan að fólki sem er fætt á ári tígrisdýrsins og ári hundsins. Það dregst hinsvegar síður að fólki sem er fætt í merki uxans og kanínunnar.

DSC_0122

Kínversku áramótin skipa svipaðan sess í Kína og jólin á Vesturlöndum og stressið í aðdraganda þessara mestu hátíðahalda ársins hjá Kínverjum er síst minna en við eigum að venjast við jólaundirbúninginn. Hátíðin í kringum nýja árið er þekkt sem vorhátíðin og á sér djúpar rætur í sögu lands og þjóðar. Þótt hugmyndafræðin sé gjörólík þeirri sem tengist jólunum þá má kannski segja að í grunninn snúist hátíðin um það sama; að verja tíma með fjölskyldunni, gefa gjafir og síðast en ekki síst, um mat.

IMG_4227

Nokkrum vikum áður en hátíðin gengur í garð fer að bera á allskonar kræsingum í matvöruverslunum og á mörkuðum. Þurrkað og reykt kjöt, fiskmeti og sjávarfang ýmisskonar, te, hnetur og ávextir. Sumt er dálítið furðulegt og stundum minnir þjóðlegur hátíðamatur í Kína á íslenskan þorramat þar sem hann er ósjaldan þurrkaður, sýrður eða reyktur.

IMG_4239

IMG_4215

DSC_0174

Skólafrí hefjast nokkru áður en hátíðin gengur í garð svo börn með foreldrum sínum verða algengari sjón á götum borgarinnar en venjulega. Borgarbúar sem hafa hukou í öðrum héruðum halda velflestir heim á leið til að hitta sín eigin börn sem oft ganga þar í skóla. Farþegatölur í lestum, flugvélum og rútum fara fram úr öllum mælikvörðum og á einum degi fara fleiri ferðalangar um flugvellina og lestarstöðvarnar hér í Shanghai en sem nemur allri íslensku þjóðinni. Sem dæmi fóru 166 þúsund farþegar um eina af samgöngumiðstöðvum borgarinnar á einum degi þann 27. janúar. Fyrir þá sem vilja fræðast meira um þessa gríðarlegu tilflutninga á fólki í kringum kínverska nýárið viljum við benda á mjög áhugaverða heimildamynd sem heitir Last Train Home (myndin er hér á Youtube).

hongqiao

Trommusláttur, drekadans og flugeldar eru mikilvægur liður í hátíðahöldunum. Mikið ber á ýmisskonar skreytingum þar sem allskyns happatákn eru hengd utan á hús og í glugga til að laða að góða orku fyrir nýja árið. Algengt er að sjá mandarínutré sem er stillt upp sitthvoru megin við inngang húsa en þau standa fyrir lukku í fjármálum þar sem appelsínugulur litur ávaxanna er eins og gull. Allt rautt boðar gæfu, og peningagjöfum er komið fyrir í rauðu umslagi, svokölluðu hongbao. Þótt hongbao sé líka notað um afmælis- og brúðargjafir í Kína þá er það nýársgjöfin sem mestu skiptir. Upphaflega var hugmyndin sú að fullorðnir gæfu börnum hongbao en slíkar peningagjafir eru nú einnig algengar frá vinnuveitendum til starfsfólks og víðar. Þeir sem ferðast heim um hátíðarnar finna fyrir pressu að koma með nógu ríflegt hongbao og dýrar gjafir handa ættingjunum.

DSC_0148

DSC_0151

Kínverjar fundu upp púðrið og skoteldar með tilheyrandi hávaða og ljósadýrð hafa um aldir, ef ekki árþúsund, verið hluti af nýárshátíðahöldunum. Óhætt er að segja skotgleði Kínverja sé engu minni en Íslendinga og stundum finnst manni að allt hér í Kína byrji og endi með skoteldum. Það þarf ekki áramót til því hvort sem um er að ræða brúðkaup, opnanir verslana, stofnana og veitingastaða, flutninga í nýtt húsnæði eða afmæli, allt er þetta tilefni til að skjóta upp flugeldum. Skiptir þá ekki máli hvort bjart er af degi eða myrkur, í Kína má heyra í flugeldum allan ársins hring og á öllum tímum sólarhrings. Ekkert toppar þó kínverska gamlárskvöldið og í kvöld má búast við miklum hávaða eins og Íslendingar geta kannski gert sér í hugarlund nema að hér þarf að margfalda allt með nokkrum milljónum. Í fyrra voru það víst 30 þúsund borgarstarfsmenn sem fóru út á götunar í Shanghai á nýársnótt til að þrífa upp sóðaskapinn eftir flugeldana sem mældist í tonnum. Hér gæti þó orðið breyting á, því samkvæmt nýjustu fréttum hafa borgaryfirvöld í Shanghai og víðar hvatt íbúa til að stilla sprengingunum um áramótin í hóf. Ástæðan er mengunin sem hlýst af flugeldunum og stillt veðrið í ár hjálpar ekki til. Í fyrra voru mengunartölur í Shanghai á miðnætti himinháar, eða yfir 500 á PM2,5 mælikvarðanum, sem er áhyggjuefni eins og öll sú gríðarlega mengun sem landið glímir við.

IMG_4285

Skömmu fyrir kínversk áramót verða rauðar nærbuxur áberandi í verslunum (og á þvottasnúrum) í borgum og bæjum í Kína. Úrvalið af rauðum undirfatnaði er fyrir bæði kynin og ósjaldan með gylltum bryddingum. Hér er það almenn (hjá)trú að rauður fatnaður geti afstýrt hugsanlegri ógæfu sem sækir fólk heim á tólf ára fresti. Kínversku dýramerkin eru tólf og við 12, 24, 36 o.s.frv ára aldur verða því þáttaskil í lífinu. Þetta kallast benming nian á kínversku og þá er hætta á slæmu ári. Til að hindra að slæm öfl nái til manna er talið hjálplegt að klæðast rauðu. Þá eru rauðar nærbuxur náttúrlega einföld lausn og Kínverjar hafa tröllatrú á rauða litnum sem táknar tryggð, frama og hamingju.

IMG_4274

DSC_0159

Þótt kalt sé í veðri í stærstum hluta landsins á þessum árstíma markar nýja árið líka upphaf vorsins í huga kínversku þjóðarinnar. Skreytingar sem eru settar upp í tilefni af hátíðahöldunum bera það dálítið með sér með tilheyrandi blóma- og litadýrð. Í gamla bænum hér í Shanghai eru skreytingarnar í ár íburðarmiklar að venju. Flestar vísa þær með einhverjum hætti í kínverskar sögur og hefðir en af einhverjum ástæðum slæddust biblíusögurnar með þetta árið og sjá mátti Adam og Evu í Paradís.

DSC_0120

DSC_0091

Með þessu myndum sendum við lesendum bloggsins okkar bestu kveðjur á nýju ári hestsins. Ýmsar kveðjur eiga við af þessu tilefni en hér eru þrjár þær algengustu:

1. 新年快乐 Xīnnián kuàilè! (gleðilegt ár)

DSC_0127

2. 过年好 Guònián hǎo!  (gleðilegt ár)

DSC_0060

3. 恭喜发财 Gōngxǐ fācaí! (bestu óskir um hagsæld/velmegun/ríkidæmi)

IMG_4248

Færðu inn athugasemd