Kínversku nýárshátíðinni lýkur í dag. Hátíðin, sem Kínverjar kenna við vorið, stendur yfir í fimmtán daga ár hvert. Fimmtándi dagurinn er haldinn hátíðlegur, ekki ósvipað og þegar jólin eru kvödd á þrettándanum. Dagurinn er kenndur við ljósker enda er þá til siðs að kveikja á pappírsluktum og ganga með þær um götur. Ljóskerin eru send upp í himingeiminn og gömul trú segir að þau vísi villuráfandi öndum leiðina heim.
Við ætlum aftur á móti að nota tilefnið til að senda út á netið nokkur eftirminnileg myndbrot úr kínversku sjónvarpi.
Fyrst er að nefna atriði sem hlotið hefur mikla athygli og er úr hátíðarskemmtiþætti kínverska sjónvarpins 30. janúar. Þátturinn er sendur út um allt Kína og er þar með sá sjónvarpsþáttur heimsins sem mest áhorf hefur. Yfir 700 milljónir manna fylgdust með þessari fjögurra klukkustunda löngu dagskrá á meðan beðið var eftir að ár hestsins gengi í garð á miðnætti. Og í jafnlangan tíma sneri ung kínversk dansmær sér á sjónvarpssviðinu sem tákn um líðandi stund og árstíðaskiptin. Stúlkan heitir Wei Caiqi og er frænka hinnar víðfrægu dansmeyjar Fang Liping sem er hálfgerð goðsögn hér í Kína og þekkt fyrir geysifagra og óvenjulega dansa. Snúningsdans hinnar fimmtán ára gömlu frænku hennar vakti mikla athygli og ekki voru allir jafn hrifnir. Var jafnvel talað um grimmd í kínverskum netheimum. Sjálf líkti Wei gjörningnum við hugleiðslu í athugasemd á eigin samskiptasíðu.
Sjónvarpsgalað er mikil áróðurs- og skrautsýning og skemmtiatriðin af ýmsum toga; dans, grínatriði, leikur og söngur. Þátturinn hefur verið sendur út á þessum tímamótum frá árinu 1983 en í ár var í fyrsta sinn í sögunni aðili utan ríkissjónvarpsins ráðinn til að stýra þættinum. Fyrir valinu varð þekktur gamanmyndaleikstjóri að nafni Feng Xiaogang. Reynt var að höfða meira til ungu kynslóðarinnar og aðkoma kóresku poppstjörnunnar Lee Min-ho var augljóslega liður í því. Flutningur frönsku leikkonunnar Sophie Marceau og kínverska listamannsins Liu Huan á franska slagaranum La vie en rose ljáði þættinum einnig alþjóðlegra yfirbragð. Það kom því nokkuð á óvart þegar dansflokkur frá kínverska þjóðarballettinum fyllti sviðið og dansaði byltingarkenndan kommúnistaballett í búningum rauðu varðliðanna. Í viðtali í kínverska sjónvarpinu sagði sýningarstjóri ballettflokksins að hún væri mjög ánægð að dansararnir hefðu fengið þetta tækifæri til að koma fram og að ákveðið hefði verið að helga atriðið fortíðinni og hylla um leið klassíkina.
Skömmu síðar var komið að baráttusöngvum með þjóðlegu hernaðarívafi.
Allt verður að pólitískum áróðri hér í Kína og yfirvöld í Peking hafa nú gengið svo langt að gera áramótaþáttinn að svokölluðu þjóðarverkefni en opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking árið 2008 var einmitt skilgreind á sama hátt. Þetta þykir sýna hversu mikilvægur þátturinn er í augum stjórnvalda.
Á vefsíðu NTD sjónvarpsstöðvarinnar í New York sver Feng, leikstjórinn vinsæli sem var valinn til að stýra þættinum í ár, þess eið að hann muni aldrei aftur taka að sér slíkt verkefni. Hann segir að eftir að hann tók við stjórn þáttarins hafi samstarfsmenn hans verið farnir að halda að hann væri ekki heill á geði. Á sama stað segir að Feng hafi viljað ögra yfirvöldum með því að bjóða rokkaranum Cui Jian, sem sumir kalla föður kínverska rokksins, að koma fram í þættinum. Cui Jian sem er á bannlista kínverska kommúnistaflokksins þáði boðið en fór fram á að syngja lagið ,,Nothing to my name” sem fjallar um vanda ungu kynslóðarinnar í Kína eftir dauða Mao formanns og stúdentana sem létu lífið í óeirðunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Sumir fjölmiðlar segja að fallist hafi verið á Cui Jian flytti lagið ef hann myndi breyta textanum. Rokkarinn hafði engan áhuga á slíku samkomulagi en kannski má segja að tilganginum hafi verið náð þar sem málið beindi sjónum að ritskoðun stjórnvalda á þættinum.
NTD sjónvarpstöðin var stofnuð af amerískum Kínverjum og veitir oft annað sjónarhorn á gang mála í Kína en ríkisfjölmiðlarnir hér í Alþýðulýðveldinu gera. Þar er haft eftir Yang Hengjun, sem er ritstjóri kínverskrar útgáfu ástralska dagblaðsins Sydney Times, að þátturinn sem eigi að vera fólki til skemmtunar, sé fullkomlega pólitískur og smitaður af þjóðernislegum áróðri og heilaþvotti. Í þessari sömu frétt NTD um áramótaþáttinn er skáldið Ye Kuangzheng inntur eftir áliti og kallar hann þáttinn árlega trúarathöfn stjórnmálanna og segir hann áróðurstæki til að dreifa pólitískum goðsögum um kommúnistaflokkinn. Hann segir að þegar hann heyrði að Feng Xiaogang hefði verið fenginn til að stýra þættinum í ár hefði hann haft að orði að jafnvel þótt sjálfur Chaplin væri fenginn til að leikstýra hefði honum ekki tekist að breyta neinu.
Dæmi nú hver fyrir sig því þótt Youtube sé bannað í Kína er þar að finna fjölmörg myndbönd með atriðum úr nýársþættinum. Fyrir þá þolinmóðustu er meira að segja hægt að horfa á rúmlega fjögurra klukkustunda útgáfu af þættinum öllum hér.

