PISA og Shanghai

Niðurstöður PISA könnunarinnar, sem lögð var fyrir 15 ára nemendur í 65 löndum/borgum árið 2012 og birtar voru í desember síðastliðnum, hafa verið mikið í fréttum víðs vegar um heiminn. Það var okkar heimaborg, Shanghai, sem stóð sig best allra í PISA 2012, rétt eins og í könnuninni 2009. Nemendur í Shanghai voru efstir allra þátttökuþjóða/borga í öllum þremur þáttunum sem mældir voru; í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði. En í huga okkar sem höfum búið hér í nokkur ár og kynnst samfélaginu eru kínverskir skólar ekki eftirsóknarverðir og ekki heldur skólarnir í Shanghai sem stóðu sig þó með eindæmum vel í PISA.

Ekki er allt sem sýnist?

Í umfjöllun um niðurstöður PISA, bæði núna og síðast, vill það brenna við að talað sé um Kína í stað Shanghai, sem er auðvitað alrangt. Landið Kína tók ekki þátt í PISA heldur borgin Shanghai. Það er óneitanlega sérstakt að OECD leyfi borgum að vera þátttakendur í könnuninni og Tom Loveless, hjá Brown Center on Education Policy og fyrrum prófessor við Harvard háskóla, gagnrýnir þessi vinnubrögð. Hann segir að Shanghai sé ein ríkasta borgin í Kína og alls ekki dæmigerð fyrir landið í heild sinni. Um það bil 1,7 prósent af áætluðum íbúafjölda Kína býr í Shanghai, eða um 23 milljónir. Heildarframleiðsla (GDP) Shanghai  á mann er meiri en tvöföld þjóðarframleiðsla Kína á mann og um það bil 84% af nemendum í Shanghai sem lýkur grunnnámi fer í framhaldsnám, samanborið við 24% á landsvísu.

Annað sem vert er að hafa í huga í sambandi við niðurstöður Shanghai er að um 40% íbúa hafa flutt til borgarinnar frá öðrum héruðum og hafa því ekki svokallað hukou í Shanghai sem þýðir að þetta fólk á ekki rétt á sömu samfélagslegu þjónustu og innfæddir Shanghaibúar. Hluti þessa fólks eru farandverkamenn og fjölskyldur þeirra sem eiga oft erfitt með að koma börnunum sínum í skóla í borginni þrátt fyrir einhverjar úrbætur í þeim efnum af hálfu yfirvalda á allra síðustu árum. Nýleg könnun sýnir að rúmlega helmingur barna farandverkamanna í borginni býr ekki með foreldrum sínum af þessum sökum. Börnin verða eftir í sínu héraði oft í umsjá ömmu og afa og ganga í skóla þar. Þau börn sem búa með foreldrunum í Shanghai og hafa stundað þar skóla, oft í sérstökum skólum fyrir innflytjendur sem eru alls ekki sambærilegir við aðra skóla borgarinnar, þurfa samt sem áður að fara í sitt gamla hérað til þess að stunda nám í framhaldsskóla. Þetta eru jafnvel börn sem hafa fæðst og alist upp í Shanghai þar sem hukou erfist frá foreldrum. Það er því líklegt að stór hluti af 15 ára nemendum sem ekki eiga sitt hukou í Shanghai sé ekki í skóla í borginni þó að foreldrarnir búi þar. Þessi börn eru því útilokuð frá PISA.

PisaShanghai2

Tom Loveless fjallar skilmerkilega um þetta í þremur greinum, PISA’s China ProblemAttention OECD-PISA: Your Silence on China is Wrong og PISA’s China Problem Continues: A Response to Schleicher, Zhang, and Tucker. Í kjölfarið hafa mörg blöð fjallað um málið og meðal þeirra New York Times Sinophere í greininni Shanghai test scores and the mystery of the missing children.

Hvað veldur þessum góða árangri í PISA?

Eftir stendur að þeir nemendur sem tóku PISA hér í Shanghai stóðu sig ákaflega vel og skara fram úr jafnöldrum sínum í hinum þátttökulöndunum/borgunum í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði. Á því eru margar skýringar.

Hér snýst allt um að komast inn í góðan háskóla og allt virðist lagt í sölurnar til þess að því markmiði sé náð. Samkeppnin í menntakerfinu er geysihörð og byrjar í raun áður en skólagangan hefst. Við höfum rætt við kínverskar mæður ungra barna sem eru að byrja í skóla hér í Shanghai. Þær eru áhyggjufullar yfir því hvað barnið þurfi að kunna fyrir sér í stærðfræði, lestri og skrift áður en skólaganga hefst. Foreldrarnir hafa markvisst kennt börnum sínum heima með von um að þau komist að í þeim skólum sem taldir eru betri. Metnaðarfullir foreldrar reyna hvað þeir geta til að koma börnum sínum í bestu skólana. Ein móðir sagði okkur að sonur hennar færi trúlega í sinn hverfisskóla en það væri mikilvægt að hann kynni töluvert fyrir sér áður en skólagangan hæfist því í  byrjun skólaársins yrðu börnin prófuð í stærðfræði, lestri og skrift og þau sem stæðu sig best færu í bestu tvo bekkina sem meðal annars fengju bestu kennarana.

Eftir að skólagangan byrjar er mikið lagt upp úr náminu, heimanám er mjög mikið og frítími lítill. Mikil áhersla er á próf. Mörg börn fara beint í aðra skóla, svokallaða Cram skóla, eftir að venjulegum skóladegi er lokið og þeir skólar kenna sérstaklega fyrir próf. Önnur börn fara í einkakennslu. Lítil áhersla virðist vera á sköpunargleði eða gagnrýna hugsun. Eins og áður segir virðast foreldrar leggja allt í sölurnar til þess að börnin komist í sem besta háskóla enda eiga einkabörnin samkvæmt kínverskri menningu að sjá fyrir foreldrunum í ellinni. Þegar í háskóla er komið verður líf ungmennanna auðveldara, þá má slaka á og njóta lífsins. Þetta er að því er virðist alveg öfugt við það sem gengur og gerist í hinum vestræna heimi, þar sem áherslan er á að börn séu börn og svo taki alvaran við þegar lengra dregur í náminu.

PisaShanghai3

Jiang Xueqin er aðstoðarskólastjóri í Tsinghua High School í Beijing, en sá skóli þykir mjög góður. Hann hefur ákveðnar skoðanir á skólakerfinu í Kína og segir á vefsíðu CNN að þessi góði árangur Shanghai í PISA kosti miklar fórnir. Hann tekur svo djúpt í árinni að segja að sú gríðarlega samkeppni sem ríki í skólum landsins valdi ekki einungis óhamingju nemenda  heldur leiði beinlínis af sér svindl, mútur og ósanngjarnt og óréttlátt skólakerfi. Jiang segir að vissulega sé margt jákvætt, vel skipulagðir og metnaðarfullir kennarar og viljinn til að gera vel sé oft það sem sameini skólasamfélagið. Þrautseigja nemenda í Kína geri það að verkum að fátækir nemendur standa sig betur en búast mætti við. Yfirvöld í Shanghai standi sig vel í að koma á markvissum tengslum á milli skóla sem standa sig vel og þeirra sem eiga undir högg að sækja, auk þess sem skólastjórum sem tekst að koma illa settum skólum á réttan kjöl sé umbunað með skjótum starfsframa. Kennarar eru vel launaðir á Shanghaimælikvarða og tilheyra millistéttinni í borginni. En Jiang segir að kennarar geti keyrt um á rándýrum bílum ef nemendum þeirra gengur nógu vel á prófum, því þeir fái bónusa fyrir góða frammistöðu. Aðalpeningurinn komi samt frá foreldrum og því að starfa við fyrrnefnda Cram skólana sem nemendur sækja að skóladegi loknum.

PISA3

Fasteignaverð í Shanghai er mjög hátt, sérstaklega í miðborginni þar sem bestu skólarnir eru. Foreldrar sem vilja koma börnum sínum í þá skóla vilja því búa þar. Jiang segir að ef það gangi ekki upp reyni margir að múta skólastjórnendum eða yfirvöldum til þess að koma börnum sínum að. Skólastjórnandinn Jiang segir að þetta hafi valdið sér vandræðum, hann hafi til dæmis lent í því að kona sem hann fór á stefnumót með bauð honum 200.000 yuan (4 milljónir íslenskra króna) fyrir að koma systur sinni inn í skólann hjá honum. Jiang segir ennfremur frá því að þar sem bekkir séu oft fjölmennir gefi foreldrar kennurum gjafir og bjóði þeim í mat í þeirri von að barnið þeirra fái meiri athygli. Mikil áhersla á próf í Kína hafi einnig leitt til ákveðinnar svindlmenningar og þegar yfirvöld ætluðu að stoppa svindl í skólakerfinu í fyrra varð uppi fótur og fit. Foreldrar urðu reiðir yfir því að verið væri að ráðast að þeirra barni þegar allir aðrir væru hvort sem er að svindla.

Markmiðið með þessu öllu, segir Jiang, er að börnin komist í sem besta háskóla. Mjög erfið inntökupróf eru í háskólana og allt gengur út á að undirbúa nemendur fyrir þau. Það að komast inn í góðan háskóla er Kínverjum mjög mikilvægt og mikil virðing fylgir þeirri upphefð, sem eflir svo sjálfsmynd viðkomandi. Jiang klykkir út með því að segja að langir skóladagar í Shanghai, Cram skólar og mikil heimavinna hafi ekkert með það að gera að hjálpa nemendum að læra, þetta snúist miklu frekar um að þóknast stressuðum, kröfuhörðum og allt of kappsömum foreldrum. Margir foreldrar í Kína séu þó að átta sig á þessu og þeir setji börnin sín gjarnan í alþjóðlega skóla í borginni (þá þarf barnið að vera með erlent vegabréf) eða flytji hreinlega af landi brott.

Þessar grein Jiang kemur vel heim og saman við þá mynd sem við vorum búnar að gera okkur af kínversku skólakerfi með því að tala við fólk hér. Skólakerfi sem margir í hinum vestræna heimi líta nú til með öfundaraugum eftir PISA kannanirnar 2009 og 2012.

1 hugrenning um “PISA og Shanghai

  1. Bakvísun: Konfúsíus og hin ráðandi öfl | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA

Færðu inn athugasemd