Að læra um friðsamlega frelsun Tíbets

Það er afskaplega áhugavert, en oft og tíðum erfitt, að búa í menningarheimi sem er gerólíkur þeim sem maður hefur alist upp í. Útlendingar í Shanghai búa að vissu leyti í sinni eigin veröld, einhvers konar sér samfélagi við hlið þess kínverska. Og þá skiptir ekki máli hvaðan manneskjan kemur, hún er útlendingur eða wai guo ren. Útlendingasamfélagið er þó auðvitað ekki einangrað og reglulega dettur aðkomumaðurinn inn í kínverskan heim. Þá gerast oft skrýtnir hlutir. Allir eru mótaðir af sinni menningu og Íslendingar sjá hlutina með sínum íslensku augum. Hér verður því lýst þegar íslensk kona settist á skólabekk með öðrum útlendingum til að læra um kínverska sögu og menningu hjá kínverskum kennara, sem að sjálfsögðu er einnig barn síns samfélags. Úr varð furðuleg blanda.

Þegar konan frá Íslandi var nýflutt til Shanghai ákvað hún að fara á námskeið um menningu og sögu Kína. Það var haldið í skóla sem býður útlendingum upp á alls konar fræðslu, ekki ósvipað og námsflokkarnir gerðu á Íslandi. Námskeiðið kostaði um 70.000 íslenskar krónur, kennt var einu sinni í viku í tíu vikur, þrjá tíma í senn. Konan hafði lesið sér til um skólann og vissi að kennarinn var vel menntaður með mikla kennslureynslu úr kínverskum menntaskólum. Það var því með mikilli tilhlökkun sem konan frá Íslandi mætti fyrsta kvöldið, hún var spennt að fræðast um sín nýju heimkynni og hún vonaði að þetta yrði einnig góður vettvangur til að kynnast nýju fólki sem væri í sömu sporum og hún, vinafá í framandi landi.

Konan var fimm mínútum of sein í fyrsta tímann og kennslan var hafin þegar hún kom. Kennarinn, hnellin og brosmild kínversk kona á besta aldri, lét eins og hún sæi ekki þennan nýja nemanda þegar hann læddist skömmustulegur inn. Í kennslustofunni sátu fyrir sjö konur og einn karl, fólk á ýmsum aldri, öll vestræn í útliti. Kennarinn var að fara yfir dagskrá námskeiðsins, hún var greinilega óörugg og enskan hennar ekki góð. Hún þuldi dagskrána upp eins og hún væri að lesa upp úr símaskránni. Sú íslenska varð hissa á að ekki hefði verið byrjað á léttum nótum, þar sem nemendur hefðu til dæmis kynnt sig og sinn bakgrunn.

Að loknum lestri dagskrárinnar dembdi kennarinn því út úr sér, stundarhátt, að á námskeiðinu yrði boðið upp á umræður um t-in þrjú, og átti þá við Tíbet, Taiwan og Tiananmen eða Torg hins himneska friðar, þar sem það ætti við. Hún tilkynnti líka að það yrði ekki víst að nemendum myndi líka hennar skoðanir. Svo klikkti hún út með því að segja að útlendingar vildu alltaf ræða þessi mál. Hún reyndist heppin með þennan hóp því flestir voru nýkomnir til Kína, kurteisir gestir sem greinilega treystu sér ekki í miklar rökræður. Einungis tvær konur í hópnum höfðu ensku að móðurmáli, enska hinna var misgóð. Það var helst að eini Bandaríkjamaðurinn maldaði í móinn þegar kennarinn skellti fram skrýtnum staðhæfingum en andrúmslofið bauð aldrei upp á gefandi umræður. Flestir horfðu bara niður þegar við átti og stundum heyrðist stöku fliss.

Konan frá Íslandi varð miður sín þarna á þessum fyrstu mínútunum þegar hún áttaði sig á því að hún var búin að borga 70.000 krónur fyrir námskeið sem mundi á engan hátt standast væntingar. Þegar leið á fyrsta tímann rann þó upp fyrir henni að hún mundi sennilega læra heilmikið um menningu og sögu Kína, bara á allt annan hátt en hún hafði búist við. Hún ákvað að halda sig til hlés, skrifa niður allt sem fram fór og gera sína eigin litlu rannsókn.

Dagskrá námskeiðsins var metnaðarfull og í fyrsta tímanum var gefin eins konar yfirlitsmynd af Kína þar sem farið var í landafræði landsins, fjallað um íbúa þess og sögu. Vandlega var farið yfir helstu keisaradæmin, allir keisarar og ártöl þulin upp. Íslenska konan tók eftir því að kennarinn horfði aldrei á einstaka nemendur, heldur yfir hópinn og oftast einblíndi hún á skjávarpatjaldið. Hún leit oft á klukkuna. Þetta breytist ekkert þann tíma sem sú íslenska sat í tímum.

Þegar kom að Tíbet varpaði kennarinn þeirri spurningu yfir hópinn hvort að Tíbet væri hluti af Kína en greinilegt var að hún ætlaðist ekki til að nemendur svöruðu. Í þeim töluðum orðum dreifði hún hefti til nemenda, fjórum þéttskrifuðum A4 blöðum með litlu letri og línubili. Fyrirsögnin var “History of Tibet” og undir henni stóð “For 700 years part of China.” Svo settist hún í kennarastólinn án þess að segja nokkuð. Flestir byrjuðu að lesa, það var greinilega það sem ætlast var til þó að engin fyrirmæli hefðu verið gefin. Íslenska konan gat það ekki, henni misbauð svo þó ekki væri nema bara fyrir kennsluaðferðina. Hún sat á fremsta bekk, ýtti blaðinu til hliðar og reyndi að ná augnsambandi við kennarann. Það tókst ekki. Þá fór sú íslenska að lesa tölvupóst í símanum sínum. Sumir virtust lesa, öðrum leið greinilega ekki vel. Eftir um tíu mínútur stóð kennarinn upp og sýndi nemendum myndrænt hvernig Tíbet er eins og egg hænunnar Kína á korti. Hún var augsýnilega stolt af Tíbet og reigði sig eins og montinn hani þegar hún lýsti hæstu fjöllum í heimi, Himalajafjöllunum.

Tíbet1

Heftið sem nemendur áttu að lesa lýsir því hvernig Tíbet hefur verið hluti af Kína síðan 1279 í gegnum Yuan, Ming og Qing ættarveldin og raunar óslitið allt fram til dagsins í dag. Hvergi er minnst á sjálfstæði Tíbet og orðið sjálfstæði kemur ekki fyrir. Ekkert er heldur fjallað um útlegð Dalai Lama. Kennarinn fór yfir þessa sögu í fljótheitum. Hún sagðist aldrei hafa komið til Tíbet en að landið væri hernaðarlega mikilvægt því erfitt væri að komast að Kína þeim megin frá. Þar væru einnig upptök mikilvægra áa. Hún sagði jafnframt að frelsun Tíbet hefði verið friðsamlegt stríð þar sem einungis nokkur hundruð dóu. Einn nemandinn spurði hvort ekki væri rétt að gefa fólkinu í Tíbet kost á því að kjósa um það hvort landið ætti að tilheyra Kína eða ekki. Kennarinn taldi kosningar ekkert leysa. Þessari umfjöllun um Tíbet lauk með því að kennarinn lýsti því hvernig dvöl svona hátt uppi, eins og Tíbet liggur, er erfið fyrir hjartað og að þess vegna ráðleggi læknar konum sem þangað vilja fara að vera búnar að eiga sín börn.

Eftir fræðsluna um friðsamlega freslun Tíbets fengu nemendur fimm mínútna pásu. Svo var haldið áfram þar sem frá var horfið. Konan frá Íslandi hélt áfram að fylgjast með og skrifa niður það sem fram fór en eftir því sem leið á tímana þrjá og upptalningin endalausa á staðreyndum hélt áfram var þolinmæðin næstum þrotin. Hún var farin að iða í sætinu sínu og gat ekki beðið eftir að komast út í heitt og rakt haustkvöldið.

Hér má sjá minnismerki sem Kínverjar reistu um friðsamlega frelsun Tíbets í Lhasa:

Tíbet3

Heftið sem kennarinn dreifði er stytt útgáfa af þessum texta.

Færðu inn athugasemd