Við vitum öll um það gríðarlega magn af vörum sem framleitt er í Kína og þeir sem fylgjast með þróun mála vita líka að í landinu á sér stað geysihröð uppbygging með tilheyrandi mannvirkjagerð. Kína er einnig frægt fyrir eftirlíkingar, ekki bara á ýmsum varningi, heldur eru jafnvel heilu borgarhverfin byggð upp að erlendri fyrirmynd. Og þegar fjallað er um kínverska menntakerfið heyrast ætíð raddir sem gagnrýna áhugaleysið sem þar ríkir um kennslu í skapandi greinum. Því er ekki fjarri lagi að spyrja hvort til sé eitthvað sem heitir kínversk hönnun.
The Waterhouse, hótel í Shanghai hannað af Neri&Hu.
Á allra síðustu árum hafa nokkrir athyglisverðir kínverskir hönnuðir og arkitektar vakið eftirtekt bæði heima og erlendis. Það er kannski ekki síst kínversk fatahönnun sem nýtur vaxandi hylli og fyrir tveimur árum hlaut í fyrsta sinn í sögunni arkitekt frá alþýðulýðveldinu hin alþjóðlegu Pritzker byggingarlistarverðlaun. Umfjöllun á ensku um kínverska hönnun hefur aukist svo aðgengilegra er að átta sig á umhverfinu fyrir útlendinga. Erlendir hönnuðir sem starfa í Kína, erlend fyrirtæki og Kínverjar sem eru fæddir og hafa alist upp utan alþýðulýðveldisins eru enn miklir áhrifavaldar í þessu umhverfi. Heimamönnum sem leggja fyrir sig hönnun fjölgar þó hratt.
Við ætlum hér, og í fleiri pistlum á næstunni, að fjalla um hönnun í Kína og byrjum á að fjalla um nokkur nöfn og vörumerki sem gjarnan ber á góma í því samhengi.
Mary Ching
Margir tengja framleiðslu í Kína við ódýrar vörur og ekki að ástæðulausu. Nú eru aftur á móti að koma fram á sjónarsviðið hönnuðir sem leggja mikið upp úr gæðum og góðu handverki og vilja samt tengja nafn sitt við Kína. Einn þeirra er skóhönnuðurinn Alison Yeung en hönnun hennar er oft nefnd í tengslum við kínverskar lúxusvörur. Yeung er hálfkínversk, alin upp á flakki um heiminn en foreldrar hennar unnu fyrir utanríkisþjónustuna í Hong Kong. Yeung lærði fatahönnun í London og fyrir fjórum árum setti hún sína fyrstu skólínu á markað í Shanghai undir merkinu Mary Ching. Yeung segir að hugmyndaheimur hennar sé 100% kínverskur og að hún hafi sett sér það markmið að breyta hughrifunum sem merkimiðinn “Made in China” vekur í hugum fólks.
Feiyue
Ekki er öll kínversk hönnun ný af nálinni eins og sannast á Feiyue strigaskónum sem eiga rætur að rekja aftur til ársins 1920. Það var hinsvegar franskur athafnamaður að nafni Patrice Bastian sem eygði tækifærin sem strigaskórnir gætu skapað í nútímanum enda falla þeir óneitanlega vel að retrotískunni sem hefur verið vinsæl á Vesturlöndum. Árið 2006 var Feiyue merkið kynnt til sögunnar á ný og segja má að skórnir hafi staðið undir nafni, en feiyue má þýða sem ,,flogið fram á við”. Nú fást þessir frönsk-kínversku strigaskór um alla Asíu og búið er að setja upp verslun í París. Feiyue vefverslunin sendir auk þess vörur sínar um allan heim.
Mercato, veitingastaður í Shanghai hannaður af Neri&Hu.
Neri&Hu
Arkitektarnir og hjónin Lyndon Neri og Rossana Hu eru bæði af kínverskum uppruna en fædd og uppalin í Bandaríkjum. Með menntun og reynslu frá Ameríku í farteskinu komu þau til Shanghai árið 2004 og settu á fót hönnunarfyrirtækið Neri&Hu. Fyrirtækið er áberandi þegar fjallað er um hönnun í Shanghai, til dæmis eru margir af vinsælustu veitingastöðum borgarinnar hannaðir af Neri&Hu. Neri og Hu stofnuðu einnig verslunina Design Republic sem selur bæði innfluttar og kínverskar hönnunarvörur, þar á meðal þeirra eigin húsgagnalínu. Vegur Neri&Hu hefur vaxið hratt og hönnunarfyrirtækið kemur nú að verkefnum víða um heim. Athygli alþjóðlegu pressunnar beinist æ meir að þeim hjónum og þau hafa unnið til fjölmargra alþjóðlegra verðlauna.
Ningbo Museum, hannað af Wang Shu.
Wang Shu
Wang Shu er fæddur árið 1963 og uppalinn í Xinjiang héraði í vesturhluta Kína og höfuðborginni Beijing. Sem námsmaður fluttist hann suður á bóginn og lærði arkitektúr í Nanjing og seinna í Shanghai. Eftir námið flutti hann til Hangzhou og stofnaði þar teiknistofuna Amateur Architecture Studio ásamt Lu Wenyu konu sinni sem einnig er arkitekt. Hjónin gegna líka bæði mikilvægum stöðum við arkitektadeild Chinese Academy of Arts í sömu borg. Sem kínverskur arkitekt leitast Wang Shu við að nýta hefðbundinn efnivið og gamlar kínverskar bygginarhefðir á nýjan hátt. Ningbo Museum er sú bygging eftir Wang sem hefur fengið mesta umfjöllun til þessa, en safnið er byggt úr múrbrotum sem safnað var saman við niðurrif eldri húsa. Með slíkum hugmyndum þykir Wang hafa tekist að skapa algjörlega nýjan og nútímalegan kínverskan arkitektúr og hefur það án vafa haft mikið um það að segja að Wang hlaut hin virtu alþjóðlegu Pritzker verðlaun árið 2012.
Fatastandur og kollur frá Smartwood.
Smartwood
Zhao Lei heitir ungur hönnuður í Hangzhou. Hann er ágætt dæmi um þá fjölmörgu frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref í kínverskri húsgagna- og vöruhönnun. Fyrirtækið hans heitir Smartwood og eins og nafnið gefur til kynna einbeitir hönnuðurinn sér að viðarvörum. Zhou segir í viðtali að hann noti eingöngu innfluttan við frá Ameríku og Þýskalandi en með því móti geti hann haft vissu fyrir því að tréð komi úr sjálfbærum skógi. Í sömu umfjöllun segir Zhao Lei að fatastandar fyrirtækisins séu hans helsta stolt en þá hafi hann hannað þar sem fáir kínverskir hönnuðir sýni slíkri hönnun áhuga. Zhao finnst áhugaverðast að hanna hluti með notagildi og leggur áherslu á að auðvelt sé að taka hlutina í sundur og setja í flatar pakkingar. Hægt er að nálgast vörurnar frá Smartwood hér í gegnum netverslun fyrirtækisins á Taobao.



Bakvísun: Framtíðarhönnun til sýnis í Shanghai | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA