Sjónvarpsstöðin CNN í Asíu sýnir mánaðarlega áhugaverða þáttaröð, sem kallast On China, þar sem eitt ákveðið mál sem hefur verið ofarlega á baugi er skoðað ofan í kjölinn. Þátturinn í febrúar fjallaði um blaðamennsku í Kína. Þetta hentaði okkur vel þar sem við höfðum í hyggju að skrifa um ritskoðun hér á blogginu. Önnur okkar ákvað að horfa á þáttinn á sunnudagskvöldi og settist fyrir framan sjónvarpið rétt áður en hann átti að hefjast. Á skjánum voru auglýsingar en svo varð allt svart og útsendingin var rofin. Efnið var greinilega of viðkvæmt til þess að hægt væri að leyfa þeim sem hér búa að horfa á þáttinn. Óneitanlega kaldhæðið en svona er lífið í Kína, í draumalandi margra ráðamanna á Íslandi í dag. Þetta gerði umfjöllun á blogginu enn meira viðeigandi og þar sem CNN fjallaði einnig um efni þáttarins á sinni heimasíðu, gátum við leitað heimilda þar.
Stjórnvöld stýra fréttaflutningi
Fjölmiðlun er ekki frjáls hér í Kína og er landið eitt af verst stöddu ríkjum í heiminum hvað frelsi fjölmiðla varðar eða í 175. sæti af 180 þjóðum á lista sem samtökin Blaðamenn án landamæra gefa út.

Í okkar huga hefur ástandið farið versnandi á undanförnum árum og einn af gestum On China, Charles Hutzler yfirmaður skrifstofu The Wall Street Journal í Beijing sem er með yfir tuttugu ára reynslu af blaðamennsku hér, er greinilega sömu skoðunar og sagði ritskoðun hafa verið herta til muna á undanförnum árum. Hann benti á að ástandið væri sérlega slæmt á landsbyggðinni og í minni borgum þar sem myndavélar eru jafnvel teknar og eyðilagðar ef stjórnvöld á staðnum vilja koma í veg fyrir að fjallað sé um ákveðin mál. Aðrir gestir þáttarins, Peter Ford forseti félags erlendra blaðamann í Kína og Ying Chan prófessor í fjölmiðlafræði við Hong Kong háskóla, tóku undir þetta og fram kom að það er ákaflega erfitt að afla upplýsinga um það sem er að gerast í landinu hvort sem um er að ræða mál tengd stjórnvöldum eða aðra fréttanæma atburði.
Stjórnvöld nota ýmsar aðferðir við að beita fjölmiðla og fréttamenn þrýstingi. Í fyrra refsuðu stjórnvöld fréttastofum The New York Times og Bloomberg fyrir að fjalla um persónuleg fjármál æðstu manna í kommúnistaflokknum. Refsingin fólst í að loka vefsíðum þeirra í Kína og draga fram á síðustu stundu að endurnýja dvalarleyfi fréttamanna án nokkurra skýringa. Enn bíða þrír starfsmenn New York Times eftir dvalarleyfi.
Önnur aðferð sem stjórnvöld nota er að veita fréttamönnum eftirför og gera þannig þrýstinginn sýnilegan og stundum eru þeir jafnvel heimsóttir og þeim hótað beint. Hutzler sagðist kannast við hvoru tveggja en segir þó fyrst og fremst innlenda blaðamenn lenda í slíku og að þeir eigi á hættu að vera reknir úr starfi eða jafnvel fangelsaðir ef þeir fara út fyrir þann ramma sem stjórnvöld setja fréttamiðlum, sem oft er ansi þröngur. Í þættinum kom einnig fram að fréttamenn hafi oft miklar áhyggjur af öryggi innlendra heimildamanna sinna því hvorki þeir né kínverskir blaðamenn geta flúið land, líkt og erlendir fréttamenn geta, ef nauðsyn krefur.
Tvö nýleg dæmi um ritskoðun
Fréttamönnum frá BBC og CNN var beinlínis ýtt burt með valdi þegar þeir þóttu koma of nálægt inngangi dómhússins þar sem verið var að dæma í máli Xu Zhiyong, lögfræðings og aðgerðasinna sem barist hefur gegn spilingu í Kína. Fyrir þá sem áhuga hafa á að fræðast meira um hans mál þá fjallaði RÚV um það á dögunum. Hér má sjá myndband af því þegar fréttamaður BBC var að reyna að flytja fréttir af málinu en fékk engan frið fyrir óeinkennisklæddum lögreglumönnum.
Annað skýrt dæmi um ritskoðun yfirvalda birtist eftir hnífaárásina þann 1. mars á lestarstöðinni í Kunming í Yunnan héraði þar sem 29 manns létu lífið og yfir 130 særðust. Þá sendu stjórnvöld frá sér tilkynningu til fjölmiðla þar sem þeim var sagt að ef fjalla eigi um árásina eigi að styðjast við opinbera útgáfu Xinhua fréttastofunnar af atburðunum. Ekki megi nota stórar fyrirsagnir eða birta ljótar myndir. Fjölmiðlar voru svo beðnir að staðfesta mótttöku tilkynningarinnar. Samtökin Blaðamenn án landamæra hafa fordæmt þessa ritskoðun.
Netið, Weibo og WeChat
Tækniþróun undanfarinna áratuga gerir ritskoðun snúnari en áður, því erfitt er að ráða við internetið. Hér er það þó reynt eftir fremsta megni og fjölmargar síður eru bannaðar, til dæmis Facebook og Twitter svo ekki sé minnst á síður sem fjalla um viðkvæm málefni. Við höfum komið inn á þessi mál áður í færslunni Ósýnilegi Kínamúrinn.
Vefmiðillinn Weibo hefur verið einn helsti vettvangur þjóðfélagslegrar umræðu og gagnrýni hér í Kína um nokkurt skeið. Honum má kannski helst líkja við Twitter, fólk setur þar fram sínar skoðanir og getur póstað myndum. Snjallsímaeign er orðin algeng og aðgangur almennings að netinu hefur því gjörbreyst á stuttum tíma. Weibo er opinn fyrir óskráða notendur að hluta til og fréttamenn hafa oft komist á snoðir um fréttir í gegnum miðilinn.
Rétt eins og með aðra ritskoðun þá hafa yfirvöld hert til muna eftirlit með Weibo á undanförnum árum og það hefur það fælt marga frá. Sumir segja að þar hafi vendipunkturinn verið sú mikla ritskoðun sem yfirvöld viðhöfðu þegar tvær nýjar háhraðalestir rákust á rétt við borgina Wenzhou (ekki langt frá Shanghai) árið 2011 með þeim afleiðingum að fjórir vagnar féllu af sporinu og 40 manns létust og að minnsta kosti 192 slösuðust. Viðbrögð stjórnvalda eftir slysið voru með ólíkindum, allt var gert til að fela sannleikann og þagga niður í gagnrýnisröddum og jafnvel gengið svo langt að reynt var að grafa vagnana í jörðu. Gagnrýnisfærslur um atburðinn á Weibo hurfu jafnhratt og þær birtust. Þessi mikla ritskoðun hefur síðan loðað við Weibo og orðið til þess að æ fleiri hafa snúið sér að WeChat sem er annars konar miðill, líkari Facebook að því leyti að færslur eru ekki opnar á netinu heldur aðgengilegar vinum. Í On China kom fram að sjálfstæðir fjölmiðlar í Kína hafa verið að koma sér fyrir á WeChat sem er þó einnig ritskoðað.
Það er mikil mótsögn fólgin í að á meðan að kínversk stjórnvöld og fyrirtæki hafa haslað sér völl á alþjóðavísu er upplýsingaflæði á heimavígstöðvunum í algjöru lágmarki. Þegar fyrirtæki eru skráð á markaði fylgir því ákveðin upplýsingaskylda og það hafa fréttamenn nýtt sér í óþökk kínverskra yfirvalda, sér í lagi þegar fjallað er um persónuleg fjármál háttsettra einstaklinga. Spurningin er hversu lengi stjórnvöld geta komist upp með ritskoðun af því tagi sem viðhöfð er hér í Kína, hvort sem er innávið eða gagnvart alþjóðasamfélaginu.
Í ritskoðuðu samfélagi verða þegnarnir færir í að lesa á milli línanna og einnig úr því sem ekki er sagt en þá er auðvitað hættan á oftúlkun og misskilningi til staðar. Traust á fjölmiðlum hverfur. Nien Cheng lýsir þessu ástandi ágætlega í bók sinni Life and death in Shanghai, bók sem er alveg þess virði að lesa. Ritskoðun er hluti af menningarheimi Kínverja og þó sumir kunni við henni ýmis ráð þá eru áhrifin á kínverska þjóð augljós hverjum þeim sem hér dvelur til lengri tíma.
Annað sem vert er að hafa í huga er hættan á sjálfsritskoðun, fólk spyr sig hverju það er tilbúið að fórna fyrir sannleikann. Þetta á við um alla sem hér búa eða eiga einhverra hagsmuna að gæta. Sem betur fer eru alltaf einhverjir hugsjónamenn sem þora að taka áhættuna og segja það sem þeim býr í brjósti.

Bakvísun: Ísland í augum almennings í Kína | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA