Qipao kjólar og kvenfrelsi

Klæddar bróderuðum qipao kjólum úr silki, perlum skreyttar og kæruleysislegar í fasi eru þær kvenleikinn uppmálaður kínversku fegurðardísirnar sem birtast okkur á teikningum og ljósmyndum frá upphafi síðustu aldar. En þótt töfraljómi hvíli yfir dömunum er kjóllinn sem þær klæðast líka táknrænn fyrir aukið frjálsræði kínverskra kvenna á mikilvægum tímamótum í sögu Kína. Þegar keisaravaldið sem ríkt hafði yfir landinu um árþúsundir var að líða undir lok og tekist var á um stjórnarfar framtíðarinnar klæddust konurnar í Kína qipao kjólum.

shanghaiposters

Slík er frægð qipao kjólsins að honum hafa verið tileinkaðar sýningar í stórborgum á borð við Hong Kong, Singapore og New York og um hann hafa verið skrifaðar bækur. Saga kjólsins er nokkuð merkileg heimild, hvort sem ætlunin er að fræðast um tísku og fagurfræði, eða kvennasögu með tilheyrandi breytingum á lífi kínverskra kvenna á umbrotatímum í Kína. Qipao kjóllinn hefur notið vinsælda í heila öld og fylgt kínverskum konum víða um heim.

Qipao eða cheongsam?

Á mandarín-kínversku er kjóllinn kallaður qipao. Orðið átti upphaflega við um hefðbundinn búning kvenna þegar Mansjúríumenn réðu ríkjum í Kína á tímum Qing ættarveldisins. Qipao kjólar kvennanna við keisarahirðina voru íburðarmiklir, úr silki, heilbróderaðir og skreyttir með blúndum.

qingdynasty

Kínverjar sem tala kantónsku kalla kjólinn cheongsam. Orðið er komið af changshan í mandarín-kínversku sem merkir síður kjóll og átti upphaflega við um klæðnað kínverskra karla. Bæði qipao og cheongsam eru semsagt fullkomlega rétt kínversk heiti sem hafa fengið nýja merkingu. Á meginlandi Kína er talað um qipao en í Hong Kong, þar sem töluð er kantónska, aldrei um annað en cheongsam. Utan Kína er cheongsam sennilega þekktara nafn þar sem kínversk áhrif bárust frekar frá Hong Kong til Vesturlanda á meðan Kína var lokað land undir stjórn Mao formanns.

qingdynastymen

Og svo segir sagan 

Eins og svo oft í Kína er til þjóðsaga um tilurð qipao kjólsins. Sagan segir frá ungri konu sem bjó við Jingbo stöðuvatnið og hafði afkomu sína af fiskveiðum. Hún var ekki aðeins undurfögur, heldur líka gáfuð og hæfileikarík. Við veiðarnar voru víðir og síðir kjólarnir sem tíðkuðust á þessum tíma oft til óþæginda og henni hugkvæmdist að búa til praktískari vinnuklæðnað. Útkoman var kjóll með háum hliðarklaufum og hneppingum sem auðvelt var að losa um svo auðveldara væri að hreyfa sig við vinnuna.

Stúlkan var fátæk og grunaði ekki að örlög hennar myndu ráðast í draumum keisarans í Kína. En nótt eina vitjaði látinn faðir keisarans hans í svefni og sagði honum að unga konan í qipao kjólnum við Jingbo vatnið myndi verða eiginkona hans. Þegar keisarinn vaknaði lét hann menn sína leita stúlkuna uppi og flytja hana (og qipao kjólinn hennar) til hallarinnar. Upp frá því tóku allar konurnar við hirðina kjól keisaraynjunnar sér til fyrirmyndar og brátt klæddust allar konur í Kínaveldi qipao kjólum.

Qing-Dynasty-clothes-2

Keisaraveldið kvatt

Keisaraveldið leið undir lok og Lýðveldið Kína var stofnað árið 1912. Samfélagslegar umbætur sköpuðu ný tækifæri fyrir kínverskar konur og margar sýndu framfarahug sinn í verki með breyttum klæðaburði. Síðu kjólarnir sem áður voru aðeins fyrir karlmenn og kóngafólk náðu nú almennum vinsældum meðal kvenna en tóku breytingum sem féllu betur að nýjum lífsstíl. Sniðin urðu þrengri og líkari þeim sem konur á Vesturlöndum klæddust. Qipao kjólarnir gátu verið síðir og stuttir, með háum eða lágum kínakraga, ermalausir eða með ermum og misjafnt var hversu hátt hliðarklaufarnar voru skornar. Þannig gat útlit kjólsins verið íhaldssamt eða djarft og allt þar á milli, allt eftir því hvernig kjóllinn var sniðinn. Skáskorið opið sem nær frá hálsi niður að handarbótinni setur sterkan svip á qipao kjólinn en því er hneppt saman með hnöppum eða lykkjum. Efnið gat verið allt frá handbróderuðu silki til áprentaðra ullar- og bómullarefna. Kjólarnir voru ætíð sérsaumaðir en þrátt fyrir það hugsaðir til daglegra nota og jafnvel verksmiðjustúlkur klæddust slíkum kjólum við vinnuna. Þannig gat hver kona látið sníða kjólinn að sínum eigin persónuleika og var hann um leið tákn fyrir nýjan og frjálsari lífsstíl kínverskra kvenna.

Gullaldarárin í Shanghai

Um aldamótin 1800 leiddi ótraust stjórn keisaraveldisins til innrásar erlendra ríkja og þegar Kínverjar lutu í lægra haldi fyrir Bretum í hinu svokallaða ópíumstríði féllu ýmsar hafnir og borgir í Kína í hendur erlendra valdhafa. Þannig kom það til að árið 1843 var gerður sáttmáli um Shanghai sem fól í sér yfirráð útlendinga. Borgin varð fljótt mesta viðskiptahöfn í Kína og dró til sín fólk frá öllum heimshornum.

Á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar þótti Shanghai glæsilegri og nýtískulegri en aðrar kínverskar borgir og stóð stöðum eins og París fyllilega á sporði þegar kom að skemmtanalífinu. Einstök blanda vestrænna og austurlenskra áhrifa einkenndi andrúmsloftið á umbrotatímum millistríðsáranna. Fagrar art deco byggingar risu, jazzinn dunaði á næturklúbbunum og orðspor kabarettsýninganna og dansleikjanna í Shanghai barst um allan heim. Þessari sögu eru gerð ágæt skil í bók sem heitir Shanghai´s Dancing World eftir Andrew Field.

dancinginshanghai

Eftir stofnun lýðveldis í Kína stýrðu kínverskir þjóðernissinnar (kuomintang) landinu en útlendingar höfðu eftir sem áður völd og áhrif. Helstu tískustraumar bárust úr vestri og endurspegluðust glöggt í umhverfi og athöfnum borgarbúa. Það var flott að vera frá París eða London á þessum árum en almennilegur heimsborgari varð enginn nema hafa komið til Shanghai.

qipao1

Konur í qipao kjólum eru ein frægasta birtingarmynd gullaldaráranna í Shanghai. Myndirnar sýna þær sitjandi við snyrtiborð, spilandi golf eða með veiðistöng í hönd, reykjandi sígarettur, í sveiflu á dansgólfinu og stundum drekkandi amerískt kók. Sumar stilla sér upp í loðfeldum, með perlur og demanta en allar eru þær í qipao kjólum. Þrátt fyrir kynþokkafulla ímyndina er kjóllinn í margra augum mikilvægt tákn um aukið frelsi og sjálfstæði kínverskra kvenna á lýðræðistímum. Stúdínur, kvikmyndastjörnur, dansmeyjar, húsmæður, listakonur; allar gengu þær um stræti Shanghai borgar í qipao kjólunum sínum og gerðu sig gildandi í frjálsara samfélagi.

Áhrifamiklar konur í qipao

wuyifang

Konan sem skrifaði undir Sáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd Kína árið 1945 var klædd í qipao. Wu Yifang (1893-1985) hét hún og var meðal fyrstu kvenna til að ljúka prófi frá kínverskum háskóla. Hún varð síðar æðsti stjórnandi Ginling kvennaháskólans í Nanjing og barðist alla tíð fyrir jafnrétti kynjanna og félagslegu réttlæti.

En frægastar og áhrifamestar kínverskra kvenna á þessum tíma voru án vafa Soong systurnar þrjár frá Shanghai og varpar ævi þeirra ágætu ljósi á tíðarandann.

1280px-Soong_Sisters_visiting_Nationalist_soldiersAi-ling, Mei-ling og Ching-ling Soong heilsa upp á konur í her þjóðernissinna.

Frægust hér í Kína er Soong Ching-ling (1893-1981) sem ung að árum varð áberandi í baráttunni fyrir auknu frelsi kínverskra kvenna. Það vakti mikla athygli þegar hún giftist byltingarforingjanum Sun Yat-sen sem var mun eldri en hún. Sun Yat-sen er goðsögn í Kína fyrir framlag sitt til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hann var formaður í flokki þjóðernissinna (kuomintang) og fyrsti forseti hins nýja lýðveldis. Þegar Sun Yat-sen féll frá árið 1925 var Soong Ching-ling eiginkona hans kosin til áhrifa meðal þjóðernissinna. Skömmu síðar flúði hún til Moskvu og fylgdi upp frá því kommúnistum að málum. Þegar Mao lýsti yfir stofnun alþýðulýðveldisins á Torgi hins himneska friðar árið 1949 var hún meðal áhrifafólks sem stóð við hlið hans og skömmu fyrir andlátið árið 1981 var hún gerð að heiðursforseta alþýðulýðveldisins. Ekki eru nema nokkur ár síðan reynt var að reisa Soong Ching-ling minnisvarða í borginni Zhengzhou í Henan héraði. Um var að ræða 24 metra háa brjóstmynd. Listaháskólinn á staðnum kom að verkefninu og þó að andlitsdrættir Soong virtust furðu karlmannlegir (sumir sögðu að þetta væri alls ekki hún) var styttan kvenlega klædd í qipao kjól. En eitthvað voru yfirvöld óviss um réttmæti styttunnar því árið 2011, skömmu áður en hún var fullgerð, bárust fréttir af eyðileggingu hennar.

styttan

Minningunni um yngstu systurina, Soong Mei-ling (1898-2003), er aftur á móti lítt haldið á lofti hér í alþýðulýðveldinu enda var hún eiginkona Chiang Kai-shek, hershöfðingjans fræga sem jafnframt var pólitískur leiðtogi landsins eftir fráfall Sun Yat-sen, allt fram að valdatöku kommúnista. Forsetahjónin voru mjög þekkt á Vesturlöndum enda ferðuðust þau víða um heim og vakti Madame Chiang Kai-shek, eins og hún var gjarnan kölluð, jafnan athygli fyrir fallegan klæðaburð. Hún klæddist aldrei öðru en qipao og er sögð hafa átt yfir 1000 slíka kjóla. Eftir valdatöku kommúnista í Kína flúðu hjónin til Taiwan þar sem lýðveldið Kína lifði áfram undir stjórn þjóðernissinna. Eftir dauða Chiang Kai-shek árið 1975 fjaraði undan áhrifum flokksins og Soong Mei-ling flutti til Bandaríkjanna. Eftir það fór hún sjaldan til Taiwan en reyndi þó nokkrum sinnum, án árangurs, að beita áhrifum sínum í þágu flokks þjóðernissinna, síðast þegar kosið var í Taiwan árið 2000, en þá var hún rúmlega aldargömul! Sögu Soong Mei-ling hefur verið gerð skil í bókum, til dæmis hér, en hún lést í hárri elli í New York árið 2003.

soongchurchillfdrchiangChiang Kai-shek, Roosevelt, Churchill og Soong Mei-ling í Kaíró í Egyptalandi árið 1943.

soongmeilingrooseveltEleanor Roosevelt og Soong Mei-ling þegar sú síðarnefnda heimsótti Hvíta húsið í Washington árið 1943. Á bandaríska forsetafrúin að hafi sagt um kínversku stallsystur sína að hún talaði fallega um lýðræðið en vissi hinsvegar ekki hvernig ætti að lifa samkvæmt því.

Þriðja og elsta Soong systirin hét Soong Ai-ling (1890-1973). Hún var gift ríkasta manni Kína á þessum tíma, bankamanninum Kung Hsiang-hsi (H.H. Kung) en hann var einnig ráðherra í ríkisstjórn Chiang Kai-shek. Þegar hylla fór undir endalok lýðveldistímans í Kína flúðu þau hjón til Taiwan og síðar til Bandaríkjanna þar Soong Ai-ling lést á heimili sínu í New York.

soongsysturEin elskar peninga, önnur elskar völd og sú þriðja elskar landið sitt. Einhvernveginn svona hljómar orðatiltæki frá Mao tímanum og vísar það til Soong systra. Hér sitja þær systur saman, Mei-ling til vinstri, Ching-ling fyrir miðju og Ai-ling lengst til hægri.

Soong systurnar áttu efnaða foreldra, hlutu góða menntun erlendis og nutu alls þess besta (og allra þeirra forréttinda) sem Kína hafði upp á að bjóða á þessum árum. Líf þeirra er áhugaverð heimild um þjóðfélagslegar breytingar í Kína í byrjun síðustu aldar og því skiljanlegt að reynt hafi verið að gera þeim skil í kvikmynd. The Soong Sisters er kvikmynd frá 1997 sem hlaut nokkra athygli, ekki síst fyrir ágætan leik, en sú gríðarlega ritskoðun sem myndin mátti una við þótti þó sýna vel hversu erfitt er að fjalla um nútímasögu Kína undir smásjá yfirvalda í Beijing.

Kapitalískur klæðnaður

Þrátt fyrir gleði og glaum á fyrstu áratugunum voru lýðveldisárin miklir átakatímar í sögu Kína. Innrás Japana í árslok 1937 í Nanjing, sem þá var höfuðborg landsins, markaði upphaf að átökum sem lauk ekki fyrr en við endalok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945. Þá tók við blóðug borgarastyrjöld milli þjóðernissinna undir forystu Chiang Kai-shek og kommúnista með Mao Zedong fremstan í flokki. Kommúnistar náðu völdum árið 1949 og í hinu nýja alþýðulýðveldi hvarf qipao kjóllinn smám saman af götunum uns hann var loks bannaður með öllu. Kommúnistar töldu kjólinn dæmi um kapitalískan klæðnað og til vitnis um spilltan lífstílinn sem viðhafst hafði í landinu undir áhrifum útlendinga.

suzielife

Þegar ljóst var að kommúnistar myndu ná völdum á meginlandi Kína flúðu flestir íbúar alþjóðlega samfélagsins í Shanghai og settust margir að í bresku nýlendunni í Hong Kong. Meðal þeirra voru fjölmargir skraddarar sem lögðu grunn að nýju blómaskeiði qipao kjólsins í Hong Kong sem náði hámarki á fimmta og sjötta áratugnum. Þetta má glöggt sjá í kvikmyndum frá þessum tíma, til dæmis í myndinni The World of Suzie Wong frá árinu 1960. Nýrri kvikmynd sem einnig varpar ljósi á þetta tímabil í Hong Kong er In the Mood for Love frá árinu 2000 sem vann til fjölmargra alþjóðlegra verðlauna.

inthemoodforlove

Þegar vestræn menningaráhrif og tíska urðu áhrifameiri meðal kínverskra íbúa Hong Kong á sjöunda áratugnum datt qipao kjóllinn smám saman úr tísku. Hann hvarf þó aldrei með öllu og er enn vinsæll við formlegar viðhafnir eins og brúðkaup. Kjólar með qipao sniði eru einnig algengir einkennisbúningar á veitingastöðum, hótelum og sem flugbúningar hjá asískum flugfélögum.

Framboð af qipao sniðnum kjólum er mikið hér í Kína en ekki þykja þeir þó allir merkilegir. Sumir eru verksmiðjuframleiddir og aðrir saumaðir meira af vilja en getu. Til að sníða og sauma sanna qipao kjóla þarf handverkskunnáttu sem margir óttast að sé við það að deyja út enda hefur ungt fólk lítinn áhuga á að tileinka sér hana. En þótt skröddurunum fækki má enn eignast vandaða sérsaumaða qipao kjóla í Shanghai og Hong Kong. Verðbilið er gríðarstórt, allt eftir gæðum og orðspori klæðskeranna.

Greina hefur mátt áhrif frá qipao kjólnum í hátísku á síðustu árum. Til dæmis hafa tískuhúsið Gucci og bandaríski hönnuðurinn Ralph Lauren sótt innblástur í kjólinn. Einnig má nefna Shanghai Tang vörumerkið frá Hong Kong sem er brautryðjandi í nútímahönnun undir áhrifum frá hefðbundnum kínverskum sniðum. Í nýrri Shanghai Tang verslun hér í Shanghai er nú hægt að velja silki og láta sérsníða á sig qipao kjól líkt og tíðkaðist fyrir hundrað árum. Kannski má segja má að kjóllinn sé ekki aðeins aftur kominn í tísku, heldur hafi hann líka snúið aftur heim.

runway

Færðu inn athugasemd