Chollywood

Vera má að bandaríski leikstjórinn Oliver Stone hafi bent á hið augljósa á kvikmyndahátíðinni í Beijing þegar hann sagði að kínversk kvikmyndalist myndi aldrei ná sér almennilega á strik nema menn horfust í augu við sögu kínversku þjóðarinnar og fjölluðu um valdatíma Mao Zedong á gagnrýninn hátt. Stone reyndi á tíunda áratugnum að gera kvikmynd um menningarbyltinguna en gekk á vegg eins og hann segir sjálfur. Hann hlaut einnig lítinn hljómgrunn þegar hann vildi gera ólympíuleikunum í Beijing árið 2008 skil.

6-20-13-chinese-movie-censored

Þetta kom fram í máli Olivers Stone á ráðstefnu sem haldin var í tengslum við kvikmyndahátíðina í Beijing nú í apríl og fjallaði um samstarfsverkefni á sviði kvikmyndagerðarlistar á milli Kína og annarra þjóða. Í slíkum verkefnum er til dæmis samið um þátttöku ákveðins fjölda kínverskra leikara og starfsmanna og að viss fjöldi af atriðum sé tekinn upp í Kína. Á móti er viðkomandi mynd tryggður betri sýningartími (til dæmis frumsýning á frídegi í Kína) og framleiðendur fá hærra hlutfall af tekjum af myndinni en aðrar erlendar myndir eiga kost á. Iron Man 3 mun vera gott dæmi um hvernig slíkt samstarf birtist á hvíta tjaldinu. Kínversk útgáfa myndarinnar er fjórum mínútum lengri en sú sem sýnd var annarsstaðar og þar má sjá nokkra kínverska leikara og tökustaði. Þar bregður einnig fyrir kínverskri mjólk sem ekki er að sjá í hefðbundu útgáfunni og heyrst hefur að hér hafi verið reynt að hressa upp á ímynd mjólkurframleiðandans Yili sem varð fyrir miklum skakkaföllum í kjölfar mjólkurduftshneykslisins mikla. Aðrar myndir sem eru þekktar fyrir að hafa verið gerðar ,,kínavænar” fyrir sýningar á kínverskum markaði eru James Bond myndin Skyfall, Man in Black 3 og Mission Impossible 3.

Að mati Olivers Stone eru slíkir samningar lítils virði á meðan Kínverjar eru ekki reiðubúnir til að fjalla um sögu Kína nema samkvæmt tilskipunum frá yfirvöldum. Í umfjöllun New York Times um framsögu bandaríska leikstjórans er eftirfarandi haft eftir honum: ,,Við erum að tala um grundvallaratriði í sögu þessa lands, hvernig það var byggt upp árið 1949 og einnig áður en að því kom, alla þessa öld. Það er spennandi. Þið hafið ekki tekist á við það.” Stone gefur lítið fyrir mótmælaraddir sem segja að hann skilji ekki Kína, hann hafi aldrei hikað við að fjalla á gagnrýninn hátt um sitt eigið land og telji gagnrýni sína einnig eiga erindi í öðrum löndum.

Chollywood / Chinawood

Samstarfsverkefni við Kínverja eru þrátt fyrir allt vinsæl í Hollywood enda tryggja þau sýningarrétt á kínverskum markaði sem er nú sá næststærsti í heimi eftir að hafa vaxið um 30% á ári síðustu tíu ár. Fyrir ekki svo löngu síðan höfðu 80-90% Kínverja aldrei komið í bíó og kvikmyndahús var aðeins að finna í allra stærstu borgunum. Nú er verið að byggja bíóhús í öllum borgum landsins og möguleikarnir gríðarlegir. Ríkasti maður Kína, Wang Jianlin, er einn þeirra sem sér tækifæri í kvikmyndaheiminum og í fyrra kynnti hann til sögunnar áætlanir sínar um opnun hins kínverska Hollywood, sem margir vilja kalla Chollywood, en aðrir Chinawood. Kvikmyndaborg Wangs, Oriental Movie Metropolis, mun rísa á næstu fjórum árum við sjávarsíðuna í útjarðri Qingdao borgar. Þar verða 20 kvikmyndaver og hægt að vinna árlega að allt að 100 kvikmyndum, innlendum og erlendum, sem ætlað er að höfða til fólks um allan heim. Engu var til sparað þegar framkvæmdir hófust við hátíðalega athöfn og sagt er að Wang hafi eytt milljónum bandaríkjadollara til að fá heimsfrægu kvikmyndastjörnurnar Leonardo DiCaprio, Catherine Zeta-Jones, Nicole Kidman and John Travolta til að vera viðstaddar. Við þetta tækifæri sagði Wang að hann vonaðist til að kvikmyndaborgin yrði stórt skref í rétta átt í þeim áætlunum að gera Kína að meiriháttar drifkrafti á sviði menningar á alþjóðavísu.

Actress Nicole Kidman shakes hands with fans at a red carpet event promoting Wanda Group's Oriental Movie Metropolis project in Qingdao

Ekki er þetta þó í fyrsta sinn sem byggð er kvikmyndaborg í Kína. Hér í nágrenni Shanghai er risavaxinn kvikmyndavettvangur, Hengdian World Studios, og er hann sá stærsti í heimi. Þar má finna þemagarða fyrir mismunandi tímabil í sögu Kína, allt frá keisarhöllum, þar á meðal eftirlíkingu af forboðnu borginni, til bygginga lýðveldistímans í byrjun síðustu aldar. Ferðamenn eru velkomnir að heimsækja garðinn og geta ferðast um í tíma í viðeigandi búningum.

Árið 2013 gerðist það í fyrsta sinn að fleiri aðgöngumiðar voru seldir inn á innlendar kvikmyndir í Kína en erlendar. Yfirvöld hér leyfa reyndar aðeins sýningar á 34 erlendum kvikmyndum á ári til að vernda innlenda kvikmyndaiðnaðinn. Auk þess fá innlendir framleiðendur hærra hlutfall af tekjum myndanna í sinn hlut en erlendir. Þetta gerir það óneitanlega freistandi fyrir útlenda aðila að vinna með heimamönnum.

avatar

Söluhæstu kvikmyndir í Kína

Uppbygging kvikmyndahúsa hér í Kína hefur verið geysihröð og mikill áhugi er á tækni. Kvikmyndahátíðin í Beijing í ár var til dæmis að mestu leyti helguð 3D og 4D tækninni. Það kemur því ekki á óvart að bandaríska þrívíddarmyndin Avatar er sú mynd sem notið hefur mestrar hylli meðal kínverska kvikmyndahúsagesta. Avatar þótti raunar ,,of vinsæl” og eftir að myndin hafði verið sýnd í tvær vikur víða um land árið 2010 gáfu yfirvöld út tilskipun um að hætta 2D sýningum í hátt í tvö þúsund sýningarsölum. Í staðinn var ákveðið að bjóða upp á kínversku stórmyndina Konfúsíus. Sýningar á Avatar héldu þó áfram í bíóhúsum sem buðu upp á 3D tæknina og þrátt fyrir inngrip yfirvalda trónir Avatar enn efst á lista yfir söluhæstu kvikmyndir í Kína. Það kann að hafa hjálpað að landslagið í Avatar myndinni er kínverskt, en myndin var að hluta tekin upp Zhangjiajie þjóðgarðinum í Hunan héraði og þar hafa nú heilu fjöllin verið nefnd upp á nýtt í samræmi við veruleikann í Avatar.

Aðrar bandarískar myndir sem komast á lista yfir tíu vinsælustu kvikmyndir í Kína eru Transformers: Dark of the Moon, Titanic, Iron Man 3 og Captain America. Mission Impossible – Ghost Protocol, Kung Fu Panda og Life of Pi (eftir kínverska Hollywood leikstjórann Ang Lee) hafa líka verið vinsælar.

Heropage-980x560_70

Söluhæsta kínverska bíómyndin til þessa heitir Lost in Thailand og er hún í öðru sæti yfir söluhæstu myndir í Kína á eftir Avatar. Þetta er gamanmynd sem gerist í Taílandi. Kínverskur vísinda- og viðskiptamaður sem hefur fundið upp íblöndunarefni fyrir bensín flýgur til Taílands til að stöðva yfirmann sinn í að selja uppfinninguna. Hann lendir í ýmsum ævintýrum sem gera honum ljóst að hann er ekki bara týndur í Taílandi heldur hefur tapað sjónum á mikilvægustu gildum lífsins þar sem peningar eru ekki allt.

Vinsældir myndarinnar hafa haft óútreiknanlegar afleiðingar. Áfangastaðir sem koma fyrir í myndinni eru nú ofurvinsælir hjá kínverskum ferðamönnum sem í seinni tíð flykkjast í hundruðum þúsundum talið í frí til Taílands. Háskólinn i Chiang Mai í norðurhluta landins hefur ekki farið varhluta af athyglinni og á háskólasvæði borgarinnar, þar sem áður ríktu mestu rólegheit, hefur þurft að koma á fót sérstökum öryggisráðstöfunum. Ástæðan er sá gríðarlegi fjöldi kínverskra túrista sem sækir á svæðið til að leika eftir atriði í myndinni vinsælu. Til að bregðast við vandanum hefur taílenski háskólinn nú bannað heimsóknir einstaklinga inn á svæðið en býður þess í stað upp á hópferðir undir handleiðslu kínverskumælandi leiðsögumanna.

02-Aftershock_(2010)_CHINESE_R6_CUSTOM-[front].jpg

Enn koma flestar vinsælar myndir á kínversku frá Hong Kong þar sem nútíma kvikmyndagerð blómstraði á meðan meginlandið tókst á við erfiða áratugi undir stjórn Mao og kínverska kommúnistaflokksins. Á síðustu árum hafa margar myndir verið gerðar í samstarfi milli Hong Kong og Kína og eru vinsælar myndir á borð við Journey to the West: Conquering the Demons, The Monkey King, Aftershock og CZ12 gott dæmi um slíkar. Þeim fjölgar þó hratt myndunum sem eiga uppruna sinn eingöngu á meginlandinu. So Young frá árinu 2013 og The Flowers of War frá 2011 hafa til dæmis báðar laðað til sín mikinn fjölda áhorfenda. Sú síðarnefnda fjallar um hræðilega atburði sem áttu sér stað í Nanjing þegar borgin var hertekin af Japönum í seinni heimsstyrjöldinni og skartar hinum enska Christian Bale í aðalhlutverki. Bale varð einmitt frægur fyrir hlutverk sitt í Spielberg myndinni Empire of the Sun frá árinu 1987 en hún segir sögu útlendinga í Shanghai á stríðsárunum.

The-Flowers-of-war-wallpaper-overallsite

Í landi þar sem þrívíddarmyndir og tæknibrellur hafa notið hvað mestar hylli þykir árangur kínversku myndarinnar Where are we going, Dad? sem frumsýnd var í byrjun þess árs merkilegur, en hún siglir nú harðbyri upp listann yfir söluhæstu myndir allra tíma í Kína. Myndin á rætur í afar vinsælum raunveruleikaþætti í sjónvarpi, sem byggður er á hugmynd frá Kóreu, og fjallar um fræga feður sem ferðast til ýmissa staða í Kína ásamt börnum sínum og takast þar á við óvæntar og óvenjulegar aðstæður.

kynning

En þótt þeim fjölgi hratt kínversku myndunum sem fylla alla nýju bíósalina í Kína er það bandaríska myndin Captain America sem hefur slegið aðsóknarmet á þessu ári. Peningarnir flæða í kínverska kvikmyndaheiminum og í von um gróða hefur Hollywood mjög lagt sig fram við að höfða til kínverskra áhorfenda og sefa kínversk ritskoðunaryfirvöld í leiðinni. Þeir sem vilja taka þátt í kínverska kvikmyndaævintýrinu eru þó margir farnir að átta sig á að þeir þurfi að fylgjast betur með því sem er að gerast á kínverskum markaði. Augljóslega eru Kínverjar að horfa á fleira en það sem Hollywood heldur að þeir vilji horfa á. Kínverska áhorfendur þyrstir í eigin sögur og virðast hrifnir af myndum á léttu nótunum sem gerast í nútímanum. Yfir öllu ævintýrinu vofir ritskoðun kínverskra yfirvalda og því óttast sumir að aukin áhrif Kínverja í kvikmyndagerð heimsins muni leiða til lítils innihalds.

captainamerica

100 bestu kínversku myndirnar

Nú er ekki víst að vinsælustu kvikmyndinar séu endilega þær bestu og því viljum við að lokum benda á nýlega úttekt tímaritsins Time Out Shanghai á 100 bestu kvikmyndum allra tíma frá meginlandi Kína. Við gerð listans var leitað álits 88 sérfræðinga á sviði kvikmyndagerðar, meðal þeirra voru leikarar, leikstjórar, framleiðendur, gagnrýnendur, fræðimenn og áhugafólk um kvikmyndagerð. Það er áhugavert að fletta í gengum valið sem endurspeglar ágætlega þróun kínverskar kvikmyndagerðar allt frá því að hún festi rætur í landinu við lok 19. aldar. Ofarlega á listanum má til dæmis finna myndir sem gerðar voru á gullaldarárunum í gömlu Shanghai á þriðja áratug síðustu aldar.

lkjh

Efst a listanum trónir kvikmyndin Far Well My Concubine frá árinu 1993. Eins og oft á við um áhugaverðar kínverskar kvikmyndir spannar saga myndarinnar nokkra áratugi og veitir þar með innsýn inn í þær gífurlegu þjóðfélagsbreytingar sem urðu í Kína á síðustu öld. Fleiri myndir þar sem áhrif pólitískra átaka birtast í daglegu lífi venjulegs fólks voru gerðar á svipuðum tíma og eru kenndar við svokallaða fimmtu kynslóð leikstjóra, Fifth Generation Movement, sem á stærstan þátt í að vekja athygli heimsins á kínverskri kvikmyndagerð á ný en átti síðan undir högg að sækja eftir uppreisnina á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Kvikmyndirnar To Live frá 1994, í 8. sæti listans, og The Blue Kite frá 1994, í 14. sæti listans, eru gott dæmi um slíkar kvikmyndir.

ToLive

Þótt mikill vöxtur sé nú í kínverskri kvikmyndagerð er Chen Kaige, leikstjóri Far Well My Concubine, ekki sérlega bjarsýnn og í viðtali sem birtist í tengslum við umfjöllunina segir hann: ,,Allar kvikmyndir, hvort sem þær eru sögulegar eða ekki, endurspegla það sem gerist í samfélaginu. Ég vil ekki segja fólki hvað er satt né hvar sannleikann sé að finna. En þótt kínverskur kvikmyndamarkaður vaxi hratt sjáum við ekki margar af þeim myndum sem hreyfa við okkur ná miklum vinsældum. Hvers vegna? Peningar eru loka takmarkið, það er meira en augljóst. Þessi markaður, það get ég sagt ykkur, er blindur.”

cinema_2144703b

Áður en langt um líður verður kvikmyndamarkaðurinn í Kína sá stærsti í heimi. Erlendar myndir hafa átt stóran þátt í að drífa markaðinn áfram á undanförnum áratug og kínverskir áhorfendur hafa verið hrifnir af stórmyndum og áhrifamiklum tæknibrellum. Á síðustu tveimur árum hafa hinsvegar komið fram á sjónarsviðið innlendar gamanmyndir sem slegið hafa aðsóknarmet í Kína og kínverskar myndir á borð við Lost in Beijing frá 2007 og  A Touch of Sin frá 2013 hafa hlotið lof utan Kína. Hvort kínverskar kvikmyndir muni leggja undir sig heiminn er ekki gott að segja en hver veit nema kínversk gamanmyndaleikkona verði næsta Jennifer Aniston. En hvort við sjáum eitthvað innhaldsríkara um raunverulega sögu Kína í bíó eins og Oliver Stone hefur kallað eftir er annað mál.

OR_A-Touch-of-Sin-2013-movie-Wallpaper-1280x800

 

 

Færðu inn athugasemd