Lokað vegna fyrirmenna

Ráðstefna um gagnkvæm samskipti og ráðstafanir til að byggja upp traust í Asíu gæti hún kallast á íslensku ráðstefnan sem er haldin hér í Shanghai í dag, 21. maí. Til þess að háttsettir herramenn frá fjörutíu löndum innan Asíu (kvenkyns fulltrúar setja ekki mikinn svip á ráðstefnuna) geti farið óheftir um borgina hefur athafnafrelsi þeirra 24 milljón manna sem hér búa verið skert. Skólastarf liggur niðri, stórir vinnustaðir eru lokaðir og varað er við miklum umferðartöfum vegna lokana á helstu samgönguæðum á vissum tímum dags. Heyrst hefur að öll vændishús borgarinnar séu lokuð í viku og í dag voru margar vinsælar búðir sem selja ólöglega mynddiska lokaðar. Íbúar sumra svæða mega sætta sig við að komast ekki til og frá heimili sínu þegar þessir mikilvægu menn fara um og þeim sem búa í húsum sem snúa í átt að áfangastöðum stórmennanna hefur verið bannað að opna glugga. Til að tryggja að allir fari eftir reglunum eru lögreglumenn á nánast hverju götuhorni. Brynvarðir sérsveitarbílar gefa til kynna mikilvægustu staðina og einkennisklædd lögregla stendur vörð um neðanjarðarlestarkerfið. Þúsundir sjálfboðaliða í appelsínugulum vestum standa auk þess vaktina víðsvegar um borgina.

133349557_14006436679581n

Íburðarmiklar blómaskreytingar, auglýsingaborðar á ljósastaurum við helstu umferðargötur, stóraukin löggæsla og sýnilegar sérsveitir hafa á undanförnum vikum gefið til kynna að mikið stæði til í Shanghai. Fram til þessa hefur þessi ráðstefna, sem nú er haldin í fjórða sinn, látið lítið yfir sér. Samkvæmt frétt í South China Morning Post eru margir ráðstefnugestir hálf hissa á hversu mikið hefur verið gert úr fundinum hér í Kína. Á móti kemur að Kínverjar eru iðulega stórtækir í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur og er þá skemmst að minnast Expo heimssýningarinnar sem haldin var í Shanghai árið 2010.

Asískir ráðamenn hafa streymt til Kína á síðustu dögum og sé mark takandi á sjöfréttum rásar eitt í kínverska sjónvarpinu tekur Xi Jinping Kínaforseti á móti hverjum og einum með viðhöfn. Opinberar móttökuathafnir fara venjulega fram í höfuðborginni Beijing en hér í Shanghai er vettvangurinn innan Xijiao garðsins. Hefð er fyrir því að æðstu menn í kínverska kommúnistaflokknum gisti þar (þar með talinn Mao formaður) þegar þeir dvelja í borginni. Innan garðsins má finna margskonar móttökurými, veitingastaði, veislu- og fundarsali, hótel og gistibústaði auk forsetabústaðarins.

Garðurinn er í fimm mínútna göngufjarlægð frá heimili annarrar okkar. Það fer ekkert á milli mála í hverfinu þegar einhver mikilvægur heimsækir Xijiao garðinn og engar ferðir utanaðkomandi eru leyfðar um þetta umfangsmikla svæði. Útlendingar hafa þó komist upp með að fara þar í gegn ef vel stendur á, ekki síst ef þeir eru á skokki, og það er óhætt að segja að hvorki sé til friðsælli né fegurri garður í borginni.

xijiao2

Síðustu tveir dagar hafa verið annasamir í Xijiao garðinum, rauðum dreglum hefur verið rúllað út og skotið úr fallbyssum fyrir bæði forseta Kazakstan og Rússlands, hugsanlega fleiri. Mesta athygli fær Vladimir Pútin, sjónvarpsfréttirnar sýndu myndir frá komu hans í gær og hann er á forsíðu allra helstu netmiðla og dagblaða í dag. En þegar Xi Jingping, Pútin, Ban Ki-moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna, og 38 aðrir höfðingjar bruna um göturnar í Shanghai raskast líf almennra borgara. Þannig hafa til dæmis margir í nágrenni Xijiao garðsins verið lokaðir inni í hverfum sínum þegar bílalestirnar fara hjá. Vinkona okkar sem býr í næsta nágrenni garðsins komst ekki á réttum tíma til að sækja dóttur sína í skólann í gær þar sem hliðið að hennar eigin hverfi var lokað á meðan bílalest Pútíns keyrði framhjá. Engum var leyft að fara út á götuna, hvorki á bíl, fótgangandi né á hjóli.

kaz

xijiao

Fyrirmennin voru greinilega einnig á ferðinni í miðborginni í gær því þangað streymdu brynvarðir bílar og hertrukkar. Önnur okkar átti, ásamt syni sínum, erindi í verslunina Zöru við Torg fólksins, Peoples Square, í hjarta Shanghai síðdegis í gær. Torgið sjálft var afgirt og alveg lokað og mikil öryggisgæsla allt í kring. Búið var að loka nálægum veitingastöðum en flestar verslanir virtust opnar. Zara var opin en óvenju fáir viðskiptavinir voru inni í búðinni. Nóg var af sjálfboðaliðum og óeinkennisklæddum lögreglumönnum og það var hálf ónotalegt að vera einu viðskiptavinirnir á efri hæðinni þar sem einn slíkur fylgdist vel með hverri hreyfingu. Þegar haldið var fótgangandi heim á leið, tók það helmingi lengri tíma en venjulega því að búið var að loka göngubrú sem gerir gangandi umferð kleift að fara yfir hraðbrautina, Yanan Road, sem sker borgina endilanga frá austri til vesturs. Það er ekki auðvelt að komast yfir þessa götu, sem er á tveimur hæðum, og vegfarendur þurftu að taka á sig mikinn krók. Það var greinilegt að Shanghaibúum var ekki skemmt, sumir reyndu að malda í móinn en lögreglan svaraði fullum hálsi og bandaði almúganum frá.

collageshanghai

Nokkuð er síðan tilkynnt var að skólum í Shanghai yrði lokað 21. maí vegna ráðstefnunnar. Lengi vel leit þó út fyrir að alþjóðlegu skólarnir myndu komast upp með að bindast böndum um að halda skólastarfi og ferðum skólabílanna til og frá skóla gangandi. Á síðustu stundu neyddust stjórnendur skólanna þó til að láta í minni pokann fyrir yfirvöldum. Öll skólabörn í Shanghai eru því heima í dag nema þeir nemendur sem eru að taka alþjóðleg stúdenstspróf þessa dagana. Þeim þurfti að ,,smygla” inn í skólana svo hægt væri að halda alþjóðlegri áætlun.

020140515014952

Fæstir sem hér búa skilja almennilega um hvað þessi fyrirferðarmikla ráðstefna snýst og enn síður hvers vegna borgin hefur verið vopnavædd í nafni öryggis. Í gær heyrði önnur okkar á tal tveggja kvenna í matvöruverslun sem fjórir lögreglumenn vöktuðu. Önnur kvennanna, sem greinilega var frá Belgíu, sagði að það væri nú ekki gott ef slíkar ráðstafanir yrðu gerðar í hvert sinn sem þjóðhöfðingi kæmi til Brussel. Kínverskur vinur okkar sagði að vinur hans sem býr í fjármálahverfinu í Pudong væri á síðustu dögum búinn að þurfa að sanna tilvist sína og búsetu svo oft fyrir lögreglumönnum í hverfinu að honum væri farið að líða eins og hann væri í stofufangelsi. Þegar farið er í neðarjarðarlestina er eins og allir séu þar í lögguleik, allar töskur eru skannaðar og umferðarlögreglan í sparibúningum gengur um og spyr fólk um skilríki. Áætlanir yfirvalda virðast hafa gengið eftir því yfirbragð borgarinnar er mjög rólegt í dag og flestir virðast hafa ákveðið að halda sig heima við. Og ekki er ósennilegt að boðið verði upp á skemmtidagsskrá í sjónvarpinu í kvöld, að minnsta kosti var heilmikil dans- og söngvasýning á dagskrá í gær með þá félaga Xi Jingping og Pútín á fremsta bekk áhorfenda. Meðal annars komu fram söngvarar í þjóðbúningi frá Tíbet sem sungu hugljúfa söngva með hina frægu Potala höll í Lhasa í bakgrunni.

IMG_5014

Erlendir fjölmiðlar reyna, að því er virðist, í nokkurri örvæntingu að skilja um hvað Fourth Summit of Conference on Interaction and Confidence Building Measures in Asia, CICA ráðstefnan í Shanghai snýst, til dæmis virðist óljóst hvers vegna hér eru nú samankomnar fjörutíu Asíuþjóðir en ekki allar hinar. Flestir virðast vera að komast að þeirri niðurstöðu að hér hafi verið sköpuð heppileg umgjörð utan um sögulega samstarfssamninga milli Rússlands og Kína, en saga þjóðanna hefur oft áður fléttast saman í Shanghai. Xi Jinping og Pútín, sem báðir hafa verið fyrirferðarmiklir í alþjóðlegum fréttum undanfarið vegna deilna við nágrannaþjóðir, Rússar í Úkraníu og Kínverjar í landshelgisdeilu við Japani, Filippseyjar og Víetnam, standa nú í kastljósi kínverskra fjölmiðla eins og hetjur á asísku herrakvöldi.

Fyrir okkur sem hér búum er það tilhlökkunarefni að þessum pólitískum hátíðahöldum lýkur í kvöld og valdamenn með tilheyrandi öryggisgæslu halda aftur til síns heima í Beijing, Astana, Ashgabat, Teheran, Moskvu eða öðrum borgum. Þá fyrst mun okkur finnast Shanghai örugg á ný.

photo-38

 

 

 

Færðu inn athugasemd