Samkvæmt kínverska dagatalinu byrjar nýtt ár 19. febrúar 2015. Þá lýkur ári hestsins og við tekur ár kindarinnar eða geitarinnar. Það má velta því fyrir sér hvers vegna ekki er gerður greinarmunur á geitum og kindum í þessu samhengi en skýringuna má finna í kínverska tungumálinu.

Kindin, eða geitin, er eitt af tólf merkjum í kínverska dýrahringnum. Hvert stjörnumerki nær yfir tólf mánuði og er þá miðað við gamla kínverska dagatalið þar sem nýtt ár byrjar á tímabilinu frá janúarlokum og fram yfir miðjan febrúar (kínverska dagatalið og stjörnumerkin hafa verið til umfjöllunar hér á blogginu, sjá Kínversk stjörnuspeki).
Á kínversku er árið kennt við ,,yang”. Sé flett upp í kínversk-enskri orðabók er orðið oftast þýtt sem ,,sheep”, það er kind á íslensku. Þetta er þó ekki allskostar rétt og í kínverskri orðabók er skilgreining orðsins mun óljósari, eða eitthvað á þessa leið: jórtrandi spendýr, yfirleitt með horn á höfðinu sem greinist í ólíkar tegundir á borð við shanyang (fjalla yang = geit), mianyang (ullar yang = kind), lingyang (gasella) o.s.frv. Með öðrum orðum, geitur, kindur og jafnvel antilópur eru allt ólíkar tegundir af ,,yang”.
Þar sem ,,yang” eitt og sér segir ekki til um hvort um geit eða kind er að ræða er ómögulegt að þýða orðið sem annaðhvort. Í Kína er borðað ,,yangrou” eða yang kjöt. Flestir útlendingar myndu halda að um væri að ræða kjöt af kind og þannig er það skilgreint í kínversk-enskum orðabókum. Það gæti þó allt eins verið um geitakjöt ræða enda er það mikið borðað í Kína.

Að ofansögðu er ljóst að jafnrétt er að tala um ár kindarinnar og ár geitarinnar þar sem ,,yang” nær yfir báðar tegundir. Í Japan og Víetnam, sem í gegnum söguna hafa tileinkað sér kínverska dagatalið, eru til ólík orð yfir geitur og kindur og því hefur þurft að velja á milli. Þannig kemur það til að í Japan fagnar fólk ári kindarinnar á meðan Víetnamar halda upp á ár geitarinnar. Í nýársskreytingum í Kína og í Kínahverfum um allan heim er geitin yfirleitt fyrirferðarmeiri en það má líka sjá bregða fyrir kindum hér og þar.
Við kjósum að óska ykkur gleðilegs árs kindarinnar, enda sauðkindin Íslendingum hjartfólgnari en geitin.
Xin nian kuai le! Gong xi fa cai!

