Svara
Greinasafn eftir: medkvedjufrakina
Gleðilegt ár kinda og geita!
Samkvæmt kínverska dagatalinu byrjar nýtt ár 19. febrúar 2015. Þá lýkur ári hestsins og við tekur ár kindarinnar eða geitarinnar. Það má velta því fyrir sér hvers vegna ekki er gerður greinarmunur á geitum og kindum í þessu samhengi en skýringuna má finna í kínverska tungumálinu.

Kindin, eða geitin, er eitt af tólf merkjum í kínverska dýrahringnum. Hvert stjörnumerki nær yfir tólf mánuði og er þá miðað við gamla kínverska dagatalið þar sem nýtt ár byrjar á tímabilinu frá janúarlokum og fram yfir miðjan febrúar (kínverska dagatalið og stjörnumerkin hafa verið til umfjöllunar hér á blogginu, sjá Kínversk stjörnuspeki).
Á kínversku er árið kennt við ,,yang”. Sé flett upp í kínversk-enskri orðabók er orðið oftast þýtt sem ,,sheep”, það er kind á íslensku. Þetta er þó ekki allskostar rétt og í kínverskri orðabók er skilgreining orðsins mun óljósari, eða eitthvað á þessa leið: jórtrandi spendýr, yfirleitt með horn á höfðinu sem greinist í ólíkar tegundir á borð við shanyang (fjalla yang = geit), mianyang (ullar yang = kind), lingyang (gasella) o.s.frv. Með öðrum orðum, geitur, kindur og jafnvel antilópur eru allt ólíkar tegundir af ,,yang”.
Þar sem ,,yang” eitt og sér segir ekki til um hvort um geit eða kind er að ræða er ómögulegt að þýða orðið sem annaðhvort. Í Kína er borðað ,,yangrou” eða yang kjöt. Flestir útlendingar myndu halda að um væri að ræða kjöt af kind og þannig er það skilgreint í kínversk-enskum orðabókum. Það gæti þó allt eins verið um geitakjöt ræða enda er það mikið borðað í Kína.

Að ofansögðu er ljóst að jafnrétt er að tala um ár kindarinnar og ár geitarinnar þar sem ,,yang” nær yfir báðar tegundir. Í Japan og Víetnam, sem í gegnum söguna hafa tileinkað sér kínverska dagatalið, eru til ólík orð yfir geitur og kindur og því hefur þurft að velja á milli. Þannig kemur það til að í Japan fagnar fólk ári kindarinnar á meðan Víetnamar halda upp á ár geitarinnar. Í nýársskreytingum í Kína og í Kínahverfum um allan heim er geitin yfirleitt fyrirferðarmeiri en það má líka sjá bregða fyrir kindum hér og þar.
Við kjósum að óska ykkur gleðilegs árs kindarinnar, enda sauðkindin Íslendingum hjartfólgnari en geitin.
Xin nian kuai le! Gong xi fa cai!
Konfúsíus og hin ráðandi öfl
„Að læra án þess að hugsa er tilgangslaust. Að hugsa án þess að læra er hættulegt“.
Þessi tilvitnum er skráð á stólpa í Konfúsíusarhofi í Shanghai. Önnur okkar kom í hofið vorið 2008 og skrifaði þetta hjá sér. Annars var heimsóknin eftirminnilegust fyrir friðsældina. Fyrir utan örfá ungmenni sem sögðust vera nemendur í konfúsískum fræðum var enginn á staðnum. Það er ekki oft sem slíkt gerist í margmenninu í Kína.
Nú, aðeins nokkrum árum seinna, er Konfúsíus heldur fyrirferðarmeiri í alþýðulýðveldinu. Lifnað hefur yfir Konfúsíusarhofum landsins með tilheyrandi helgiathöfunum og hundruð þúsunda ferðamanna flykkjast til fæðingarborgar heimspekingsins sem í auglýsingum hefur verið líkt við Mekka. Klassísk kínversk verk hafa náð vinsældum á ný og konfúsísk rit raunar selst svo vel að útgáfufyrirtækið sem gefur þau út á stafrænu formi hefur verið skráð á kínverskan hlutabréfamarkað. Þá mun Peking háskóli bjóða viðskiptamönnum upp á hraðnámskeið í almennri þekkingu á sígildum ritum. Þetta rímar allt vel við hraðann sem einkennir efnahagslegan uppgang Kína.
Erlendis tengja margir nafn Konfúsíusar við stofnanir sem fjármagnaðar eru af kínverska ríkinu og starfræktar innan háskóla víða um heim, meðal annars Háskóla Íslands. Tilgangur þeirra er að stuðla að aukinni fræðslu um kínverska tungu, menningu og samfélag.
En það er ekki tilviljun að nafn Konfúsíusar er notað til að beina athygli umheimsins að Kína.

Hver var Konfúsíus?
Konfúsíus (Kongzi 孔子) var uppi fyrir meira en 2500 árum, fæddur árið 551 f.Kr. Þegar hann var þriggja ára dó faðir hans og móðirin fór á vergang í leit að vinnu og húsaskjóli. Drengurinn þótti dreyminn og gleymdi sér gjarnan í ímynduðum heimi og skáldskap. Hann langaði að verða embættismaður en hafði ekki réttu samböndin. Þess í stað hóf Konfúsíus ungur að kenna og voru nemendur hans af öllum stéttum. Þetta var á tímum ófriðar og spillingar og hann var sannfærður um að kenna þyrfti fólki að samrýma þrár sínar þörfum fjölskyldunnar og samfélagsins. Honum lánaðist fyrir rest að komast í starf hjá yfirvöldum en aðrir valdamenn voru hræddir við þær umbætur sem hann boðaði. Konfúsíus var hrakinn úr starfinu og niðurlægður lagði hann af stað í ferð um landið og benti á ýmislegt sem miður fór. Sagan segir að hann hafi hitt konu eina sem missti mann sinn og son í gin tígrísdýrs. Þá sagði Konfúsíus við lærisveina sína að harðneskjuleg yfirvöld væru hræðilegri en tígrisdýr.
Konfúsíus var frumkvöðull í kennslu og lærisveinar hans skiptu þúsundum. Um sjötíu þeirra voru honum mjög nánir og eftir dauða spekingsins skráðu þeir hugmyndir hans í rit sem á kínversku kallast Lunyu, á ensku The Analects. Íslenska þýðingin heitir Speki Konfúsíusar.
Þótt Konfúsíus færi víða og reyndi að hafa áhrif á valdamenn tókst honum ekki sérlega vel upp. En margir eftirmenn hans tileinkuðu sér hugmyndirnar og með tímanum varð til sá konfúsismi sem var opinber hugmyndafræði í Kína á keisaratímum, frá 221 f.Kr. og þar til síðasta keisaraveldið féll árið 1911.
Við endalok keisaraveldisins voru margir gagnrýnir á hvort stjórnarhættir í anda konfúsisma hefðu verið landinu til góðs. Sumir vildu meina að þeir hefðu komið í veg fyrir framfarir og stuðlað að því að Kína var nú vanþróað ríki í samanburði við Vesturlönd. Aðrir töldu að ekki væri hægt að afneita konfúsískri hugsun nema hafna um leið kínverskri menningu. Þeir vildu aðlaga stefnuna nýjum tímum og slíkar hugmyndir þróuðust áfram í Taiwan, Hong Kong og Singapúr. Konfúsisma var hinsvegar úthýst á meginlandi Kína þegar kommúnistar tóku þar völd árið 1949. Mao taldi stefnuna af hinu illa og í menningarbyltingunni voru hundruð Konfúsíusarhofa eyðilögð og skemmdarverk unnin á grafreit hugsuðarins og afkomenda hans.
Konfúsismi
Á vísindavef háskólans má finna eftirfarandi lýsingu á konfúsisma: ,,Í örstuttu og ofureinfölduðu máli snýst konfúsísk heimspeki um að tileinka sér siði og hefðir sem ríkt hafa í Kína frá og með Zhou-veldinu en laga þau að breyttum aðstæðum. Konfúsíus sagði sjálfur að viska fælist í því að færa fram hið nýja á grundvelli hins gamla. Í þessu felst mikil og sterk fjölskylduhefð og krafa um virðingu hinna yngri og óreyndu gagnvart hinum eldri og lífsreyndari. Hinum yngri er ætlað að taka sér eldra fólk til fyrirmyndar en um leið tjá reynslu þess í framkvæmd með persónulegum hætti í ljósi ríkjandi aðstæðna. Þannig er gífurleg áhersla lögð á lærdóm og námsfýsi.”
Konfúsíus boðaði samhug, skyldurækni og venjur sem minna á helgiathafnir. Þótt margt í iðkun konfúsisma minni á átrúnað er hann ekki prestaregla og almennt ekki talinn til trúarbragða.
Konfúsíus og hinn ráðandi flokkur
Augljóslega spretta kenningar Konfúsíusar ekki upp á yfirborðið í alþýðulýðveldinu nema með samþykki kommúnistaflokksins. Eftir dauða Mao árið 1976 urðu miklar breytingar á stefnu flokksins og með Deng Xiaoping í broddi fylkingar var kúrsinn tekinn á efnahagslega hagsæld. Valdabreytingar voru þó ekki liður í nýrri stefnu eins og glöggt kom í ljós á Torgi hins himneska friðar árið 1989 þegar uppreisn lýðræðisþenkjandi stúdenta var kæfð niður með herafli. Í kjölfar hörmulegs blóðbaðsins á torginu var aðkallandi að skapa nýja og betri ímynd fyrir flokkinn og endurvekja trú almennings á yfirvöldum. Leitað var í gamlar hefðir og það var á þessum tíma sem forystumenn í kommúnistaflokknum hófu að nefna Konfúsíus á nafn í ræðum sínum. Þættir um forna menningu hófu göngu sína í ríkissjónvarpinu og mun tilgangur þeirra hafa verið að efla sjálfsvirðingu og sjálfstraust þjóðarinnar og hvetja til þjóðernislegrar samkenndar. Árið 2002 hætti flokkurinn opinberlega að kalla sig byltingarflokk og byrjað var að tala um ,,hinn ráðandi flokk” (Party in Power). Helstu ráðamenn hófu að boða samhug og stöðugleika í samfélaginu og í febrúar 2005 vitnaði Hu Jintao, þá æðsti maður í flokknum, í Konfúsíus og sagði að harmónía væri eitthvað sem vert væri að hlúa að (harmony is something to be cherished).

Smám saman varð samhugur að kjörorði kommúnistaflokksins og orðinu harmóníu fór að bregða æ oftar fyrir á veggspjöldum, í sjónvarpsauglýsingum og í orðræðu embættismanna. Á 2.557 afmælisdegi Konfúsíusar, árið 2006, var gefin út það sem kallað var stöðluð mynd af Konfúsíusi, stytta sem sýnir vingjarnlegan öldung með mikið skegg og krosslagða handleggi. Með opinberum stuðningi voru kynntar til sögunnar ýmsar hefðir sem ekki höfðu tíðkast fram að þessu, til dæmis sú að pör gætu endurnýjað hjúskaparheitið fyrir framan líkneski af Konfúsíusi.
Það var svo í janúar árið 2011 að risavaxin 17 tonna stytta af Konfúsíusi var reist á Torgi hins himneska friðar. Þarna horfðust þeir nú í augu sitt hvoru megin á torginu, Mao og Konfúsíus. Í ljósi sögunnar, en Mao hafði barist á móti öllu sem Konfúsíus stóð fyrir, þótti þetta náttúrlega heldur kaldhæðnislegt. Enda stoppaði Konfúsíus stutt, í skugga nætur þann 20. apríl sama ár hvarf styttan jafn skyndilega af torginu og hún hafði birst. Gárungarnir töldu að Konfúsíus, sveitamaður frá Shandong héraði, hefði ekki verið með hukou í höfuðborginni. Ekki var mikið fjallað um hvarf styttunnar í kínverskum fjölmiðlum en greinilega var ekki samhugur um málið innan flokksins.

Konfúsíusarstofnanir
Þótt ásjóna Mao ríki enn yfir torginu stóra í höfuðborg Kína þá gefur hinn vinalegi öldungur, Konfúsíus, tvímælalaust mildari mynd af Kínaveldi út á við. Svip Mao brá hvergi fyrir á opnunarhátíð Ólympíuleikanna árið 2008 en mikið var um tilvitnanir í harmóníu og klassísk rit. Konfúsíusarstofnanirnar sem stofnað hefur verið til innan háskóla bera hróður heimsspekingsins víða um lönd. Flestir háskólar hafa tekið því opnum örmum að fá fjármagn og kennsluefni frá yfirvöldum í Kína til að efla kínverskukennslu og kynna kínverska menningu innan sinna raða. Í seinni tíð heyrast þó sífellt fleiri raddir sem kvarta undan því að stofnanirnar takmarki tjáningarfrelsið og fyrsti háskólinn til að loka Konfúsíusarstofnun af þeim sökum var McMaster háskóli í Kanada. Fleiri skólar hafa bæst í hópinn, nú síðast Stokkhólmsháskóli. (sjá frétt RÚV um málið hér).
Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins, Hua Chunying, hefur svarað þessum ásökunum og sagt að Konfúsíusstofnanir séu ,,brú sem tengir Kína við aðra heimshluta.” Hún leggur áherslu á að starfið sé opið og lúti gagnsæi. Í merkilegu viðtali sem fréttamaður BBC tók við áhrifakonuna Xu Lin kemur aftur á móti í ljós að ekki eiga allar spurningar við þegar fjallað er um Konfúsíusarstofnanir. Xu er forstöðukona Hanban, opinbers embættis sem hefur það að markmiði að efla og kynna kínverska tungu erlendis og hefur jafnframt umsjón með starfi Konfúsíusarstofnana um allan heim. Viðtalið má sjá hér:
Friðarverðlaun Konfúsíusar
Nafn Konfúsíus varð fyrir valinu þegar kínversk stjórnvöld komu á fót alþjóðlegum friðarverðlaunum, Confusius Peace Prize, árið 2010. Þetta var sama ár og kínverski uppreisnarmaðurinn Liu Xiaobo vann til Friðarverðlauna Nóbels, vægast sagt í mikilli óþökk kínverskra yfirvalda. Liu var hnepptur í hald til að koma í veg fyrir að hann gæti flogið til Osló og tekið á móti verðlaununum og í framhaldinu var hann dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir skoðanir sínar. Skömmu áður en heiðra átti Liu Xiaobo í Noregi voru Friðarverðlaun Konfúsíusar afhent í fyrsta sinn í Kína. Heiðurinn hlaut Vladimir Putin Rússlandsforseti fyrir að koma á ,,öryggi og stöðugleika” í Rússlandi. Þess má geta að verðlaunahafi árins 2014 var Fidel Castro.
Áhugi almennings og Hin heilaga borg Austurlanda fjær
Fyrir nokkrum árum keypti önnur okkar eintak af enskri útgáfu bókarinnar Confusius from the Heart í bókabúð í Shanghai en hafði þá ekki grun um gríðarlegar vinsældir hennar meðal heimamanna. Höfundurinn heitir Yu Dan og er prófessor við fjölmiðladeild Beijing Normal háskóla. Bókin, sem selst hefur í tugmilljónum eintaka, og vinsælir sjónvarpsþættir sem hún gerði um sama efni, hafa gert Yu að dægurstjörnu í Kína. Túlkun Yu Dan á konfúsisma er þó ekki óumdeild og einn efasemdarmaðurinn mun eitt sinn hafa mætt á bókakynningu hjá Yu Dan í bol með áletruninni ,,Konfúsíus er mjög áhyggjurfullur”. Staðreyndin er hinsvegar sú að Yu er einn tekjuhæsti rithöfundur Kína og tíður gestur á ráðstefnum. Bókin hefur verið þýdd á íslensku undir nafninu Heilræði hjartans.
Í seinni tíð er oft talað um að í Kína nútímans hafi skapast einskonar menningarlegt tómarúm sem efnahagsleg uppsveifla og aukin velsæld hafa ekki náð að fylla. Það gæti skýrt mikinn áhuga hinnar nýju kínversku millistéttar á eldri hefðum og þjóðmenningu, þar með talin heimspeki Konfúsíusar. Foreldrar innrita börnin sín í Konfúsíusarskóla þar sem börn niður í þriggja ára aldur læra kennisetningar utanbókar með því að þylja þær upp í hundruði skipta. Ferðamenn innanlands flykkjast í þau Konfúsíusarhof sem eftir standa í landinu og fylla þar út bænaspjöld. Munu mörg þeirra snúa að óskum um gott gengi í prófum, ekki síst hið margumtalaða inngöngupróf í kínverska háskóla.

Alþjóðlega Konfúsíusarhátíðin sem haldin er árlega í borginni Qufu í Shandong héraði nýtur sívaxandi vinsælda. Qufu er fæðingarborg heimsspekingsins og var fyrsta hátíðin haldin árið 2007. Þá fylltu þúsundir manna helsta vettvang hátíðarinnar sem skreyttur var með blöðrum með nafni Konfúsíusar og hlýddu á vinsæla popptónlist frá Kóreu. Í borginni er nú verið að byggja risavaxið Konfúsíusarsafn og samkvæmt upplýsingamiðstöð ferðamála í Jining héraði er framkvæmdin metin á 500 milljón yuan (um 80 milljónir bandaríkjadollara). Mun safnið, sem er rúmir 56 þúsund fermetrar að stærð, opna á þessu ári. Í markaðssetningu á Qufu er borginni líkt við Mekka og Jerúsalem og kölluð Heilög borg Austurlanda fjær (The Oriental Holy City). Gestir borgarinnar eru nú taldir í milljónum og þar með þegar mun fleiri en þeir sem heimsækja Ísrael á ári hverju. Ekkert lát er á sköpunargleðinni í ferðamálaráði Qufu borgar og í haust mátti lesa um nýjustu áformin í frétt á Xinhua. Þar kemur fram að unnið sé að því að mennta leiðbeinendur sem síðan munu fara um nágrannahéruðin og kenna konfúsisma. Boðið verður upp á kennslustundir á þorpstorgum, byggð bókasöfn og settar upp leiksýningar. Í fréttinni kemur fram að tilgangurinn sé að gera þekkingu á konfúsisma vinsæla, bæta lífsgæði þorpsbúa og skapa harmóníu í samfélaginu.


Í framtíðinni geta ferðamenn sem eru áhugasamir um Konfúsíus einnig lagt leið sína til Beidaihe. Þar hefur flokksmaður í kommúnistaflokknum og fyrrum foringi í kínverska hernum, Wang Dianming, komið upp 50 milljón yuan (um 8 milljónir bandaríkjadollara) skemmtigarði þar sem risavaxið líkneski af Konfúsíusi með útrétta arma hefur vakið athygli. Styttan er ekki í samræmi við stöðluðu útgáfuna, heilir 19 metrar á hæð og minnir helst á heimsþekkt líkneski af Kristi í Ríó de Janeiro í Brasílíu. Í viðtali við fjölmiðla sem birtist m.a. í The Japan Times, segir Wang: „Kínverski draumurinn nærist á einstakri menningu Kína og konfúsisma.” Í umfjölluninni segir einnig að á stalli styttunnar séu kínversk tákn, fyrir kínverska drauminn á framhliðinni, en á bakhliðinni er vitnað í sósíalíska hugmyndafræði. Þá tryggir lítil stytta af Mao í einu horni garðsins að öll hugmyndafræði kínverska ríkisins eigi sinn fulltrúa á staðnum.
Kínverskri draumurinn og konfúsismi
Síðan Xi Jinping tók við æðsta embætti í landinu snemma árs 2013 hefur hugmyndinni um kínverska drauminn vaxið fiskur um hrygg. Framtíðarsýn forsetans felur í sér einhverskonar endurfæðingu Kína á grunni framúrskarandi fortíðar. ,,Fyrir nokkrum árþúsundum síðan fetaði kínverska þjóðin slóðir sem voru frábrugðnar menningu og þróun annarra þjóða“ var haft eftir forsetanum í People´s Daily, opinberu málgagni kínverska kommúnistaflokksins, í október 2014. ,,Við ættum að virða og minnast óslitinnar 5000 ára menningarsögu Kína“ sagði hann ennfremur. Skömmu áður talaði Xi á ráðstefnu sem haldin var á vegum Alþjóðlegu Konfúsíusarsamtakanna í tilefni af 2565. afmælisdegi Konfúsíusar og sagði þá: ,,Framúrskarandi hefðbundin kínversk menning, þar með talinn konfúsismi, hefur að geyma mikilvægar vísbendingar til að leysa þau vandamál sem herja á mannkynið nú um stundir.“
En ekki hafa allir í Kína sama skilning á konfúsisma og kommúnistaflokkurinn, þar með talinn Li Ling, prófessor við Peking háskóla. Í bókinni Stray Dog: My Reading of the Analects gagnrýnir hann það sem hann kallar verksmiðjuframleiddan Konfúsíus og skrifar meðal annars: ,,Hinn sanni Konfúsíus, sá sem lifði, var hvorki kóngur né vitringur. Hann hafði hvorki vald né stöðu – aðeins siðgæði og fróðleik – og þorði að gagnrýna valdaelítu síns tíma.“ Li skrifar einnig að Konfúsíus hafi lifað eins og flækingur, fylgt eftir skoðunum sínum og stöðugt reynt að sannfæra valdamenn um réttlætið. Þegar bók Li kom út í maí árið 2007 var hún strax fordæmd af öðrum fræðimönnum, til dæmis af Jiang Qing, sem er áberandi maður í pólitískri túlkun á konfúsisma. Jiang kallaði Li Ling háðskan heimsendaspámann og sagði að hugmyndir hans væru ekki svaraverðar. Nóbelsverðlaunahafinn Liu Xiaobo var einn þeirra sem komu Li til varnar og varaði við því að átrúnaður á konfúsisma myndi leiða til þess að aðrar stefnur yrðu bannaðar.

Harmónía
Í þessu andrúmslofti getur verið snúið fyrir kínverskan almenning að finna réttu svörin og harmónískt faðmlag flokksins við konfúsisma er ekki óumdeilt í Kína. Manna á milli, í nokkru háði, hefur til dæmis orðið til nýtt orð. Þegar kínverska ritskoðunarvélin eyðir kommentum út af internetinu jafnharðan og þau birtast er talað um að ummælin hafi verið ,,harmóniseruð.”
Hvort harmónían sem kínverski kommúnistaflokkurinn boðar geti bjargað heiminum á eftir að koma í ljós. Fagnaðarerindið breiðist að minnsta kosti hratt út. Þegar hafa hátt á fimmta hundruð Konfúsíusarstofnana verið opnaðar í yfir hundrað löndum og stefnt er að því að þær verði orðnar 1000 árið 2020.
Lokað vegna fyrirmenna
Ráðstefna um gagnkvæm samskipti og ráðstafanir til að byggja upp traust í Asíu gæti hún kallast á íslensku ráðstefnan sem er haldin hér í Shanghai í dag, 21. maí. Til þess að háttsettir herramenn frá fjörutíu löndum innan Asíu (kvenkyns fulltrúar setja ekki mikinn svip á ráðstefnuna) geti farið óheftir um borgina hefur athafnafrelsi þeirra 24 milljón manna sem hér búa verið skert. Skólastarf liggur niðri, stórir vinnustaðir eru lokaðir og varað er við miklum umferðartöfum vegna lokana á helstu samgönguæðum á vissum tímum dags. Heyrst hefur að öll vændishús borgarinnar séu lokuð í viku og í dag voru margar vinsælar búðir sem selja ólöglega mynddiska lokaðar. Íbúar sumra svæða mega sætta sig við að komast ekki til og frá heimili sínu þegar þessir mikilvægu menn fara um og þeim sem búa í húsum sem snúa í átt að áfangastöðum stórmennanna hefur verið bannað að opna glugga. Til að tryggja að allir fari eftir reglunum eru lögreglumenn á nánast hverju götuhorni. Brynvarðir sérsveitarbílar gefa til kynna mikilvægustu staðina og einkennisklædd lögregla stendur vörð um neðanjarðarlestarkerfið. Þúsundir sjálfboðaliða í appelsínugulum vestum standa auk þess vaktina víðsvegar um borgina.

Íburðarmiklar blómaskreytingar, auglýsingaborðar á ljósastaurum við helstu umferðargötur, stóraukin löggæsla og sýnilegar sérsveitir hafa á undanförnum vikum gefið til kynna að mikið stæði til í Shanghai. Fram til þessa hefur þessi ráðstefna, sem nú er haldin í fjórða sinn, látið lítið yfir sér. Samkvæmt frétt í South China Morning Post eru margir ráðstefnugestir hálf hissa á hversu mikið hefur verið gert úr fundinum hér í Kína. Á móti kemur að Kínverjar eru iðulega stórtækir í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur og er þá skemmst að minnast Expo heimssýningarinnar sem haldin var í Shanghai árið 2010.

Asískir ráðamenn hafa streymt til Kína á síðustu dögum og sé mark takandi á sjöfréttum rásar eitt í kínverska sjónvarpinu tekur Xi Jinping Kínaforseti á móti hverjum og einum með viðhöfn. Opinberar móttökuathafnir fara venjulega fram í höfuðborginni Beijing en hér í Shanghai er vettvangurinn innan Xijiao garðsins. Hefð er fyrir því að æðstu menn í kínverska kommúnistaflokknum gisti þar (þar með talinn Mao formaður) þegar þeir dvelja í borginni. Innan garðsins má finna margskonar móttökurými, veitingastaði, veislu- og fundarsali, hótel og gistibústaði auk forsetabústaðarins.
Garðurinn er í fimm mínútna göngufjarlægð frá heimili annarrar okkar. Það fer ekkert á milli mála í hverfinu þegar einhver mikilvægur heimsækir Xijiao garðinn og engar ferðir utanaðkomandi eru leyfðar um þetta umfangsmikla svæði. Útlendingar hafa þó komist upp með að fara þar í gegn ef vel stendur á, ekki síst ef þeir eru á skokki, og það er óhætt að segja að hvorki sé til friðsælli né fegurri garður í borginni.
Síðustu tveir dagar hafa verið annasamir í Xijiao garðinum, rauðum dreglum hefur verið rúllað út og skotið úr fallbyssum fyrir bæði forseta Kazakstan og Rússlands, hugsanlega fleiri. Mesta athygli fær Vladimir Pútin, sjónvarpsfréttirnar sýndu myndir frá komu hans í gær og hann er á forsíðu allra helstu netmiðla og dagblaða í dag. En þegar Xi Jingping, Pútin, Ban Ki-moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna, og 38 aðrir höfðingjar bruna um göturnar í Shanghai raskast líf almennra borgara. Þannig hafa til dæmis margir í nágrenni Xijiao garðsins verið lokaðir inni í hverfum sínum þegar bílalestirnar fara hjá. Vinkona okkar sem býr í næsta nágrenni garðsins komst ekki á réttum tíma til að sækja dóttur sína í skólann í gær þar sem hliðið að hennar eigin hverfi var lokað á meðan bílalest Pútíns keyrði framhjá. Engum var leyft að fara út á götuna, hvorki á bíl, fótgangandi né á hjóli.


Fyrirmennin voru greinilega einnig á ferðinni í miðborginni í gær því þangað streymdu brynvarðir bílar og hertrukkar. Önnur okkar átti, ásamt syni sínum, erindi í verslunina Zöru við Torg fólksins, Peoples Square, í hjarta Shanghai síðdegis í gær. Torgið sjálft var afgirt og alveg lokað og mikil öryggisgæsla allt í kring. Búið var að loka nálægum veitingastöðum en flestar verslanir virtust opnar. Zara var opin en óvenju fáir viðskiptavinir voru inni í búðinni. Nóg var af sjálfboðaliðum og óeinkennisklæddum lögreglumönnum og það var hálf ónotalegt að vera einu viðskiptavinirnir á efri hæðinni þar sem einn slíkur fylgdist vel með hverri hreyfingu. Þegar haldið var fótgangandi heim á leið, tók það helmingi lengri tíma en venjulega því að búið var að loka göngubrú sem gerir gangandi umferð kleift að fara yfir hraðbrautina, Yanan Road, sem sker borgina endilanga frá austri til vesturs. Það er ekki auðvelt að komast yfir þessa götu, sem er á tveimur hæðum, og vegfarendur þurftu að taka á sig mikinn krók. Það var greinilegt að Shanghaibúum var ekki skemmt, sumir reyndu að malda í móinn en lögreglan svaraði fullum hálsi og bandaði almúganum frá.

Nokkuð er síðan tilkynnt var að skólum í Shanghai yrði lokað 21. maí vegna ráðstefnunnar. Lengi vel leit þó út fyrir að alþjóðlegu skólarnir myndu komast upp með að bindast böndum um að halda skólastarfi og ferðum skólabílanna til og frá skóla gangandi. Á síðustu stundu neyddust stjórnendur skólanna þó til að láta í minni pokann fyrir yfirvöldum. Öll skólabörn í Shanghai eru því heima í dag nema þeir nemendur sem eru að taka alþjóðleg stúdenstspróf þessa dagana. Þeim þurfti að ,,smygla” inn í skólana svo hægt væri að halda alþjóðlegri áætlun.

Fæstir sem hér búa skilja almennilega um hvað þessi fyrirferðarmikla ráðstefna snýst og enn síður hvers vegna borgin hefur verið vopnavædd í nafni öryggis. Í gær heyrði önnur okkar á tal tveggja kvenna í matvöruverslun sem fjórir lögreglumenn vöktuðu. Önnur kvennanna, sem greinilega var frá Belgíu, sagði að það væri nú ekki gott ef slíkar ráðstafanir yrðu gerðar í hvert sinn sem þjóðhöfðingi kæmi til Brussel. Kínverskur vinur okkar sagði að vinur hans sem býr í fjármálahverfinu í Pudong væri á síðustu dögum búinn að þurfa að sanna tilvist sína og búsetu svo oft fyrir lögreglumönnum í hverfinu að honum væri farið að líða eins og hann væri í stofufangelsi. Þegar farið er í neðarjarðarlestina er eins og allir séu þar í lögguleik, allar töskur eru skannaðar og umferðarlögreglan í sparibúningum gengur um og spyr fólk um skilríki. Áætlanir yfirvalda virðast hafa gengið eftir því yfirbragð borgarinnar er mjög rólegt í dag og flestir virðast hafa ákveðið að halda sig heima við. Og ekki er ósennilegt að boðið verði upp á skemmtidagsskrá í sjónvarpinu í kvöld, að minnsta kosti var heilmikil dans- og söngvasýning á dagskrá í gær með þá félaga Xi Jingping og Pútín á fremsta bekk áhorfenda. Meðal annars komu fram söngvarar í þjóðbúningi frá Tíbet sem sungu hugljúfa söngva með hina frægu Potala höll í Lhasa í bakgrunni.

Erlendir fjölmiðlar reyna, að því er virðist, í nokkurri örvæntingu að skilja um hvað Fourth Summit of Conference on Interaction and Confidence Building Measures in Asia, CICA ráðstefnan í Shanghai snýst, til dæmis virðist óljóst hvers vegna hér eru nú samankomnar fjörutíu Asíuþjóðir en ekki allar hinar. Flestir virðast vera að komast að þeirri niðurstöðu að hér hafi verið sköpuð heppileg umgjörð utan um sögulega samstarfssamninga milli Rússlands og Kína, en saga þjóðanna hefur oft áður fléttast saman í Shanghai. Xi Jinping og Pútín, sem báðir hafa verið fyrirferðarmiklir í alþjóðlegum fréttum undanfarið vegna deilna við nágrannaþjóðir, Rússar í Úkraníu og Kínverjar í landshelgisdeilu við Japani, Filippseyjar og Víetnam, standa nú í kastljósi kínverskra fjölmiðla eins og hetjur á asísku herrakvöldi.

Fyrir okkur sem hér búum er það tilhlökkunarefni að þessum pólitískum hátíðahöldum lýkur í kvöld og valdamenn með tilheyrandi öryggisgæslu halda aftur til síns heima í Beijing, Astana, Ashgabat, Teheran, Moskvu eða öðrum borgum. Þá fyrst mun okkur finnast Shanghai örugg á ný.

Chollywood
Vera má að bandaríski leikstjórinn Oliver Stone hafi bent á hið augljósa á kvikmyndahátíðinni í Beijing þegar hann sagði að kínversk kvikmyndalist myndi aldrei ná sér almennilega á strik nema menn horfust í augu við sögu kínversku þjóðarinnar og fjölluðu um valdatíma Mao Zedong á gagnrýninn hátt. Stone reyndi á tíunda áratugnum að gera kvikmynd um menningarbyltinguna en gekk á vegg eins og hann segir sjálfur. Hann hlaut einnig lítinn hljómgrunn þegar hann vildi gera ólympíuleikunum í Beijing árið 2008 skil.
Þetta kom fram í máli Olivers Stone á ráðstefnu sem haldin var í tengslum við kvikmyndahátíðina í Beijing nú í apríl og fjallaði um samstarfsverkefni á sviði kvikmyndagerðarlistar á milli Kína og annarra þjóða. Í slíkum verkefnum er til dæmis samið um þátttöku ákveðins fjölda kínverskra leikara og starfsmanna og að viss fjöldi af atriðum sé tekinn upp í Kína. Á móti er viðkomandi mynd tryggður betri sýningartími (til dæmis frumsýning á frídegi í Kína) og framleiðendur fá hærra hlutfall af tekjum af myndinni en aðrar erlendar myndir eiga kost á. Iron Man 3 mun vera gott dæmi um hvernig slíkt samstarf birtist á hvíta tjaldinu. Kínversk útgáfa myndarinnar er fjórum mínútum lengri en sú sem sýnd var annarsstaðar og þar má sjá nokkra kínverska leikara og tökustaði. Þar bregður einnig fyrir kínverskri mjólk sem ekki er að sjá í hefðbundu útgáfunni og heyrst hefur að hér hafi verið reynt að hressa upp á ímynd mjólkurframleiðandans Yili sem varð fyrir miklum skakkaföllum í kjölfar mjólkurduftshneykslisins mikla. Aðrar myndir sem eru þekktar fyrir að hafa verið gerðar ,,kínavænar” fyrir sýningar á kínverskum markaði eru James Bond myndin Skyfall, Man in Black 3 og Mission Impossible 3.
Að mati Olivers Stone eru slíkir samningar lítils virði á meðan Kínverjar eru ekki reiðubúnir til að fjalla um sögu Kína nema samkvæmt tilskipunum frá yfirvöldum. Í umfjöllun New York Times um framsögu bandaríska leikstjórans er eftirfarandi haft eftir honum: ,,Við erum að tala um grundvallaratriði í sögu þessa lands, hvernig það var byggt upp árið 1949 og einnig áður en að því kom, alla þessa öld. Það er spennandi. Þið hafið ekki tekist á við það.” Stone gefur lítið fyrir mótmælaraddir sem segja að hann skilji ekki Kína, hann hafi aldrei hikað við að fjalla á gagnrýninn hátt um sitt eigið land og telji gagnrýni sína einnig eiga erindi í öðrum löndum.
Chollywood / Chinawood
Samstarfsverkefni við Kínverja eru þrátt fyrir allt vinsæl í Hollywood enda tryggja þau sýningarrétt á kínverskum markaði sem er nú sá næststærsti í heimi eftir að hafa vaxið um 30% á ári síðustu tíu ár. Fyrir ekki svo löngu síðan höfðu 80-90% Kínverja aldrei komið í bíó og kvikmyndahús var aðeins að finna í allra stærstu borgunum. Nú er verið að byggja bíóhús í öllum borgum landsins og möguleikarnir gríðarlegir. Ríkasti maður Kína, Wang Jianlin, er einn þeirra sem sér tækifæri í kvikmyndaheiminum og í fyrra kynnti hann til sögunnar áætlanir sínar um opnun hins kínverska Hollywood, sem margir vilja kalla Chollywood, en aðrir Chinawood. Kvikmyndaborg Wangs, Oriental Movie Metropolis, mun rísa á næstu fjórum árum við sjávarsíðuna í útjarðri Qingdao borgar. Þar verða 20 kvikmyndaver og hægt að vinna árlega að allt að 100 kvikmyndum, innlendum og erlendum, sem ætlað er að höfða til fólks um allan heim. Engu var til sparað þegar framkvæmdir hófust við hátíðalega athöfn og sagt er að Wang hafi eytt milljónum bandaríkjadollara til að fá heimsfrægu kvikmyndastjörnurnar Leonardo DiCaprio, Catherine Zeta-Jones, Nicole Kidman and John Travolta til að vera viðstaddar. Við þetta tækifæri sagði Wang að hann vonaðist til að kvikmyndaborgin yrði stórt skref í rétta átt í þeim áætlunum að gera Kína að meiriháttar drifkrafti á sviði menningar á alþjóðavísu.
Ekki er þetta þó í fyrsta sinn sem byggð er kvikmyndaborg í Kína. Hér í nágrenni Shanghai er risavaxinn kvikmyndavettvangur, Hengdian World Studios, og er hann sá stærsti í heimi. Þar má finna þemagarða fyrir mismunandi tímabil í sögu Kína, allt frá keisarhöllum, þar á meðal eftirlíkingu af forboðnu borginni, til bygginga lýðveldistímans í byrjun síðustu aldar. Ferðamenn eru velkomnir að heimsækja garðinn og geta ferðast um í tíma í viðeigandi búningum.
Árið 2013 gerðist það í fyrsta sinn að fleiri aðgöngumiðar voru seldir inn á innlendar kvikmyndir í Kína en erlendar. Yfirvöld hér leyfa reyndar aðeins sýningar á 34 erlendum kvikmyndum á ári til að vernda innlenda kvikmyndaiðnaðinn. Auk þess fá innlendir framleiðendur hærra hlutfall af tekjum myndanna í sinn hlut en erlendir. Þetta gerir það óneitanlega freistandi fyrir útlenda aðila að vinna með heimamönnum.
Söluhæstu kvikmyndir í Kína
Uppbygging kvikmyndahúsa hér í Kína hefur verið geysihröð og mikill áhugi er á tækni. Kvikmyndahátíðin í Beijing í ár var til dæmis að mestu leyti helguð 3D og 4D tækninni. Það kemur því ekki á óvart að bandaríska þrívíddarmyndin Avatar er sú mynd sem notið hefur mestrar hylli meðal kínverska kvikmyndahúsagesta. Avatar þótti raunar ,,of vinsæl” og eftir að myndin hafði verið sýnd í tvær vikur víða um land árið 2010 gáfu yfirvöld út tilskipun um að hætta 2D sýningum í hátt í tvö þúsund sýningarsölum. Í staðinn var ákveðið að bjóða upp á kínversku stórmyndina Konfúsíus. Sýningar á Avatar héldu þó áfram í bíóhúsum sem buðu upp á 3D tæknina og þrátt fyrir inngrip yfirvalda trónir Avatar enn efst á lista yfir söluhæstu kvikmyndir í Kína. Það kann að hafa hjálpað að landslagið í Avatar myndinni er kínverskt, en myndin var að hluta tekin upp Zhangjiajie þjóðgarðinum í Hunan héraði og þar hafa nú heilu fjöllin verið nefnd upp á nýtt í samræmi við veruleikann í Avatar.
Aðrar bandarískar myndir sem komast á lista yfir tíu vinsælustu kvikmyndir í Kína eru Transformers: Dark of the Moon, Titanic, Iron Man 3 og Captain America. Mission Impossible – Ghost Protocol, Kung Fu Panda og Life of Pi (eftir kínverska Hollywood leikstjórann Ang Lee) hafa líka verið vinsælar.
Söluhæsta kínverska bíómyndin til þessa heitir Lost in Thailand og er hún í öðru sæti yfir söluhæstu myndir í Kína á eftir Avatar. Þetta er gamanmynd sem gerist í Taílandi. Kínverskur vísinda- og viðskiptamaður sem hefur fundið upp íblöndunarefni fyrir bensín flýgur til Taílands til að stöðva yfirmann sinn í að selja uppfinninguna. Hann lendir í ýmsum ævintýrum sem gera honum ljóst að hann er ekki bara týndur í Taílandi heldur hefur tapað sjónum á mikilvægustu gildum lífsins þar sem peningar eru ekki allt.
Vinsældir myndarinnar hafa haft óútreiknanlegar afleiðingar. Áfangastaðir sem koma fyrir í myndinni eru nú ofurvinsælir hjá kínverskum ferðamönnum sem í seinni tíð flykkjast í hundruðum þúsundum talið í frí til Taílands. Háskólinn i Chiang Mai í norðurhluta landins hefur ekki farið varhluta af athyglinni og á háskólasvæði borgarinnar, þar sem áður ríktu mestu rólegheit, hefur þurft að koma á fót sérstökum öryggisráðstöfunum. Ástæðan er sá gríðarlegi fjöldi kínverskra túrista sem sækir á svæðið til að leika eftir atriði í myndinni vinsælu. Til að bregðast við vandanum hefur taílenski háskólinn nú bannað heimsóknir einstaklinga inn á svæðið en býður þess í stað upp á hópferðir undir handleiðslu kínverskumælandi leiðsögumanna.
Enn koma flestar vinsælar myndir á kínversku frá Hong Kong þar sem nútíma kvikmyndagerð blómstraði á meðan meginlandið tókst á við erfiða áratugi undir stjórn Mao og kínverska kommúnistaflokksins. Á síðustu árum hafa margar myndir verið gerðar í samstarfi milli Hong Kong og Kína og eru vinsælar myndir á borð við Journey to the West: Conquering the Demons, The Monkey King, Aftershock og CZ12 gott dæmi um slíkar. Þeim fjölgar þó hratt myndunum sem eiga uppruna sinn eingöngu á meginlandinu. So Young frá árinu 2013 og The Flowers of War frá 2011 hafa til dæmis báðar laðað til sín mikinn fjölda áhorfenda. Sú síðarnefnda fjallar um hræðilega atburði sem áttu sér stað í Nanjing þegar borgin var hertekin af Japönum í seinni heimsstyrjöldinni og skartar hinum enska Christian Bale í aðalhlutverki. Bale varð einmitt frægur fyrir hlutverk sitt í Spielberg myndinni Empire of the Sun frá árinu 1987 en hún segir sögu útlendinga í Shanghai á stríðsárunum.
Í landi þar sem þrívíddarmyndir og tæknibrellur hafa notið hvað mestar hylli þykir árangur kínversku myndarinnar Where are we going, Dad? sem frumsýnd var í byrjun þess árs merkilegur, en hún siglir nú harðbyri upp listann yfir söluhæstu myndir allra tíma í Kína. Myndin á rætur í afar vinsælum raunveruleikaþætti í sjónvarpi, sem byggður er á hugmynd frá Kóreu, og fjallar um fræga feður sem ferðast til ýmissa staða í Kína ásamt börnum sínum og takast þar á við óvæntar og óvenjulegar aðstæður.
En þótt þeim fjölgi hratt kínversku myndunum sem fylla alla nýju bíósalina í Kína er það bandaríska myndin Captain America sem hefur slegið aðsóknarmet á þessu ári. Peningarnir flæða í kínverska kvikmyndaheiminum og í von um gróða hefur Hollywood mjög lagt sig fram við að höfða til kínverskra áhorfenda og sefa kínversk ritskoðunaryfirvöld í leiðinni. Þeir sem vilja taka þátt í kínverska kvikmyndaævintýrinu eru þó margir farnir að átta sig á að þeir þurfi að fylgjast betur með því sem er að gerast á kínverskum markaði. Augljóslega eru Kínverjar að horfa á fleira en það sem Hollywood heldur að þeir vilji horfa á. Kínverska áhorfendur þyrstir í eigin sögur og virðast hrifnir af myndum á léttu nótunum sem gerast í nútímanum. Yfir öllu ævintýrinu vofir ritskoðun kínverskra yfirvalda og því óttast sumir að aukin áhrif Kínverja í kvikmyndagerð heimsins muni leiða til lítils innihalds.
100 bestu kínversku myndirnar
Nú er ekki víst að vinsælustu kvikmyndinar séu endilega þær bestu og því viljum við að lokum benda á nýlega úttekt tímaritsins Time Out Shanghai á 100 bestu kvikmyndum allra tíma frá meginlandi Kína. Við gerð listans var leitað álits 88 sérfræðinga á sviði kvikmyndagerðar, meðal þeirra voru leikarar, leikstjórar, framleiðendur, gagnrýnendur, fræðimenn og áhugafólk um kvikmyndagerð. Það er áhugavert að fletta í gengum valið sem endurspeglar ágætlega þróun kínverskar kvikmyndagerðar allt frá því að hún festi rætur í landinu við lok 19. aldar. Ofarlega á listanum má til dæmis finna myndir sem gerðar voru á gullaldarárunum í gömlu Shanghai á þriðja áratug síðustu aldar.
Efst a listanum trónir kvikmyndin Far Well My Concubine frá árinu 1993. Eins og oft á við um áhugaverðar kínverskar kvikmyndir spannar saga myndarinnar nokkra áratugi og veitir þar með innsýn inn í þær gífurlegu þjóðfélagsbreytingar sem urðu í Kína á síðustu öld. Fleiri myndir þar sem áhrif pólitískra átaka birtast í daglegu lífi venjulegs fólks voru gerðar á svipuðum tíma og eru kenndar við svokallaða fimmtu kynslóð leikstjóra, Fifth Generation Movement, sem á stærstan þátt í að vekja athygli heimsins á kínverskri kvikmyndagerð á ný en átti síðan undir högg að sækja eftir uppreisnina á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Kvikmyndirnar To Live frá 1994, í 8. sæti listans, og The Blue Kite frá 1994, í 14. sæti listans, eru gott dæmi um slíkar kvikmyndir.
Þótt mikill vöxtur sé nú í kínverskri kvikmyndagerð er Chen Kaige, leikstjóri Far Well My Concubine, ekki sérlega bjarsýnn og í viðtali sem birtist í tengslum við umfjöllunina segir hann: ,,Allar kvikmyndir, hvort sem þær eru sögulegar eða ekki, endurspegla það sem gerist í samfélaginu. Ég vil ekki segja fólki hvað er satt né hvar sannleikann sé að finna. En þótt kínverskur kvikmyndamarkaður vaxi hratt sjáum við ekki margar af þeim myndum sem hreyfa við okkur ná miklum vinsældum. Hvers vegna? Peningar eru loka takmarkið, það er meira en augljóst. Þessi markaður, það get ég sagt ykkur, er blindur.”
Áður en langt um líður verður kvikmyndamarkaðurinn í Kína sá stærsti í heimi. Erlendar myndir hafa átt stóran þátt í að drífa markaðinn áfram á undanförnum áratug og kínverskir áhorfendur hafa verið hrifnir af stórmyndum og áhrifamiklum tæknibrellum. Á síðustu tveimur árum hafa hinsvegar komið fram á sjónarsviðið innlendar gamanmyndir sem slegið hafa aðsóknarmet í Kína og kínverskar myndir á borð við Lost in Beijing frá 2007 og A Touch of Sin frá 2013 hafa hlotið lof utan Kína. Hvort kínverskar kvikmyndir muni leggja undir sig heiminn er ekki gott að segja en hver veit nema kínversk gamanmyndaleikkona verði næsta Jennifer Aniston. En hvort við sjáum eitthvað innhaldsríkara um raunverulega sögu Kína í bíó eins og Oliver Stone hefur kallað eftir er annað mál.
Qipao kjólar og kvenfrelsi
Klæddar bróderuðum qipao kjólum úr silki, perlum skreyttar og kæruleysislegar í fasi eru þær kvenleikinn uppmálaður kínversku fegurðardísirnar sem birtast okkur á teikningum og ljósmyndum frá upphafi síðustu aldar. En þótt töfraljómi hvíli yfir dömunum er kjóllinn sem þær klæðast líka táknrænn fyrir aukið frjálsræði kínverskra kvenna á mikilvægum tímamótum í sögu Kína. Þegar keisaravaldið sem ríkt hafði yfir landinu um árþúsundir var að líða undir lok og tekist var á um stjórnarfar framtíðarinnar klæddust konurnar í Kína qipao kjólum.

Slík er frægð qipao kjólsins að honum hafa verið tileinkaðar sýningar í stórborgum á borð við Hong Kong, Singapore og New York og um hann hafa verið skrifaðar bækur. Saga kjólsins er nokkuð merkileg heimild, hvort sem ætlunin er að fræðast um tísku og fagurfræði, eða kvennasögu með tilheyrandi breytingum á lífi kínverskra kvenna á umbrotatímum í Kína. Qipao kjóllinn hefur notið vinsælda í heila öld og fylgt kínverskum konum víða um heim.
Qipao eða cheongsam?
Á mandarín-kínversku er kjóllinn kallaður qipao. Orðið átti upphaflega við um hefðbundinn búning kvenna þegar Mansjúríumenn réðu ríkjum í Kína á tímum Qing ættarveldisins. Qipao kjólar kvennanna við keisarahirðina voru íburðarmiklir, úr silki, heilbróderaðir og skreyttir með blúndum.

Kínverjar sem tala kantónsku kalla kjólinn cheongsam. Orðið er komið af changshan í mandarín-kínversku sem merkir síður kjóll og átti upphaflega við um klæðnað kínverskra karla. Bæði qipao og cheongsam eru semsagt fullkomlega rétt kínversk heiti sem hafa fengið nýja merkingu. Á meginlandi Kína er talað um qipao en í Hong Kong, þar sem töluð er kantónska, aldrei um annað en cheongsam. Utan Kína er cheongsam sennilega þekktara nafn þar sem kínversk áhrif bárust frekar frá Hong Kong til Vesturlanda á meðan Kína var lokað land undir stjórn Mao formanns.

Og svo segir sagan
Eins og svo oft í Kína er til þjóðsaga um tilurð qipao kjólsins. Sagan segir frá ungri konu sem bjó við Jingbo stöðuvatnið og hafði afkomu sína af fiskveiðum. Hún var ekki aðeins undurfögur, heldur líka gáfuð og hæfileikarík. Við veiðarnar voru víðir og síðir kjólarnir sem tíðkuðust á þessum tíma oft til óþæginda og henni hugkvæmdist að búa til praktískari vinnuklæðnað. Útkoman var kjóll með háum hliðarklaufum og hneppingum sem auðvelt var að losa um svo auðveldara væri að hreyfa sig við vinnuna.
Stúlkan var fátæk og grunaði ekki að örlög hennar myndu ráðast í draumum keisarans í Kína. En nótt eina vitjaði látinn faðir keisarans hans í svefni og sagði honum að unga konan í qipao kjólnum við Jingbo vatnið myndi verða eiginkona hans. Þegar keisarinn vaknaði lét hann menn sína leita stúlkuna uppi og flytja hana (og qipao kjólinn hennar) til hallarinnar. Upp frá því tóku allar konurnar við hirðina kjól keisaraynjunnar sér til fyrirmyndar og brátt klæddust allar konur í Kínaveldi qipao kjólum.

Keisaraveldið kvatt
Keisaraveldið leið undir lok og Lýðveldið Kína var stofnað árið 1912. Samfélagslegar umbætur sköpuðu ný tækifæri fyrir kínverskar konur og margar sýndu framfarahug sinn í verki með breyttum klæðaburði. Síðu kjólarnir sem áður voru aðeins fyrir karlmenn og kóngafólk náðu nú almennum vinsældum meðal kvenna en tóku breytingum sem féllu betur að nýjum lífsstíl. Sniðin urðu þrengri og líkari þeim sem konur á Vesturlöndum klæddust. Qipao kjólarnir gátu verið síðir og stuttir, með háum eða lágum kínakraga, ermalausir eða með ermum og misjafnt var hversu hátt hliðarklaufarnar voru skornar. Þannig gat útlit kjólsins verið íhaldssamt eða djarft og allt þar á milli, allt eftir því hvernig kjóllinn var sniðinn. Skáskorið opið sem nær frá hálsi niður að handarbótinni setur sterkan svip á qipao kjólinn en því er hneppt saman með hnöppum eða lykkjum. Efnið gat verið allt frá handbróderuðu silki til áprentaðra ullar- og bómullarefna. Kjólarnir voru ætíð sérsaumaðir en þrátt fyrir það hugsaðir til daglegra nota og jafnvel verksmiðjustúlkur klæddust slíkum kjólum við vinnuna. Þannig gat hver kona látið sníða kjólinn að sínum eigin persónuleika og var hann um leið tákn fyrir nýjan og frjálsari lífsstíl kínverskra kvenna.
Gullaldarárin í Shanghai
Um aldamótin 1800 leiddi ótraust stjórn keisaraveldisins til innrásar erlendra ríkja og þegar Kínverjar lutu í lægra haldi fyrir Bretum í hinu svokallaða ópíumstríði féllu ýmsar hafnir og borgir í Kína í hendur erlendra valdhafa. Þannig kom það til að árið 1843 var gerður sáttmáli um Shanghai sem fól í sér yfirráð útlendinga. Borgin varð fljótt mesta viðskiptahöfn í Kína og dró til sín fólk frá öllum heimshornum.
Á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar þótti Shanghai glæsilegri og nýtískulegri en aðrar kínverskar borgir og stóð stöðum eins og París fyllilega á sporði þegar kom að skemmtanalífinu. Einstök blanda vestrænna og austurlenskra áhrifa einkenndi andrúmsloftið á umbrotatímum millistríðsáranna. Fagrar art deco byggingar risu, jazzinn dunaði á næturklúbbunum og orðspor kabarettsýninganna og dansleikjanna í Shanghai barst um allan heim. Þessari sögu eru gerð ágæt skil í bók sem heitir Shanghai´s Dancing World eftir Andrew Field.

Eftir stofnun lýðveldis í Kína stýrðu kínverskir þjóðernissinnar (kuomintang) landinu en útlendingar höfðu eftir sem áður völd og áhrif. Helstu tískustraumar bárust úr vestri og endurspegluðust glöggt í umhverfi og athöfnum borgarbúa. Það var flott að vera frá París eða London á þessum árum en almennilegur heimsborgari varð enginn nema hafa komið til Shanghai.

Konur í qipao kjólum eru ein frægasta birtingarmynd gullaldaráranna í Shanghai. Myndirnar sýna þær sitjandi við snyrtiborð, spilandi golf eða með veiðistöng í hönd, reykjandi sígarettur, í sveiflu á dansgólfinu og stundum drekkandi amerískt kók. Sumar stilla sér upp í loðfeldum, með perlur og demanta en allar eru þær í qipao kjólum. Þrátt fyrir kynþokkafulla ímyndina er kjóllinn í margra augum mikilvægt tákn um aukið frelsi og sjálfstæði kínverskra kvenna á lýðræðistímum. Stúdínur, kvikmyndastjörnur, dansmeyjar, húsmæður, listakonur; allar gengu þær um stræti Shanghai borgar í qipao kjólunum sínum og gerðu sig gildandi í frjálsara samfélagi.
Áhrifamiklar konur í qipao

Konan sem skrifaði undir Sáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd Kína árið 1945 var klædd í qipao. Wu Yifang (1893-1985) hét hún og var meðal fyrstu kvenna til að ljúka prófi frá kínverskum háskóla. Hún varð síðar æðsti stjórnandi Ginling kvennaháskólans í Nanjing og barðist alla tíð fyrir jafnrétti kynjanna og félagslegu réttlæti.
En frægastar og áhrifamestar kínverskra kvenna á þessum tíma voru án vafa Soong systurnar þrjár frá Shanghai og varpar ævi þeirra ágætu ljósi á tíðarandann.
Ai-ling, Mei-ling og Ching-ling Soong heilsa upp á konur í her þjóðernissinna.
Frægust hér í Kína er Soong Ching-ling (1893-1981) sem ung að árum varð áberandi í baráttunni fyrir auknu frelsi kínverskra kvenna. Það vakti mikla athygli þegar hún giftist byltingarforingjanum Sun Yat-sen sem var mun eldri en hún. Sun Yat-sen er goðsögn í Kína fyrir framlag sitt til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hann var formaður í flokki þjóðernissinna (kuomintang) og fyrsti forseti hins nýja lýðveldis. Þegar Sun Yat-sen féll frá árið 1925 var Soong Ching-ling eiginkona hans kosin til áhrifa meðal þjóðernissinna. Skömmu síðar flúði hún til Moskvu og fylgdi upp frá því kommúnistum að málum. Þegar Mao lýsti yfir stofnun alþýðulýðveldisins á Torgi hins himneska friðar árið 1949 var hún meðal áhrifafólks sem stóð við hlið hans og skömmu fyrir andlátið árið 1981 var hún gerð að heiðursforseta alþýðulýðveldisins. Ekki eru nema nokkur ár síðan reynt var að reisa Soong Ching-ling minnisvarða í borginni Zhengzhou í Henan héraði. Um var að ræða 24 metra háa brjóstmynd. Listaháskólinn á staðnum kom að verkefninu og þó að andlitsdrættir Soong virtust furðu karlmannlegir (sumir sögðu að þetta væri alls ekki hún) var styttan kvenlega klædd í qipao kjól. En eitthvað voru yfirvöld óviss um réttmæti styttunnar því árið 2011, skömmu áður en hún var fullgerð, bárust fréttir af eyðileggingu hennar.

Minningunni um yngstu systurina, Soong Mei-ling (1898-2003), er aftur á móti lítt haldið á lofti hér í alþýðulýðveldinu enda var hún eiginkona Chiang Kai-shek, hershöfðingjans fræga sem jafnframt var pólitískur leiðtogi landsins eftir fráfall Sun Yat-sen, allt fram að valdatöku kommúnista. Forsetahjónin voru mjög þekkt á Vesturlöndum enda ferðuðust þau víða um heim og vakti Madame Chiang Kai-shek, eins og hún var gjarnan kölluð, jafnan athygli fyrir fallegan klæðaburð. Hún klæddist aldrei öðru en qipao og er sögð hafa átt yfir 1000 slíka kjóla. Eftir valdatöku kommúnista í Kína flúðu hjónin til Taiwan þar sem lýðveldið Kína lifði áfram undir stjórn þjóðernissinna. Eftir dauða Chiang Kai-shek árið 1975 fjaraði undan áhrifum flokksins og Soong Mei-ling flutti til Bandaríkjanna. Eftir það fór hún sjaldan til Taiwan en reyndi þó nokkrum sinnum, án árangurs, að beita áhrifum sínum í þágu flokks þjóðernissinna, síðast þegar kosið var í Taiwan árið 2000, en þá var hún rúmlega aldargömul! Sögu Soong Mei-ling hefur verið gerð skil í bókum, til dæmis hér, en hún lést í hárri elli í New York árið 2003.
Chiang Kai-shek, Roosevelt, Churchill og Soong Mei-ling í Kaíró í Egyptalandi árið 1943.
Eleanor Roosevelt og Soong Mei-ling þegar sú síðarnefnda heimsótti Hvíta húsið í Washington árið 1943. Á bandaríska forsetafrúin að hafi sagt um kínversku stallsystur sína að hún talaði fallega um lýðræðið en vissi hinsvegar ekki hvernig ætti að lifa samkvæmt því.
Þriðja og elsta Soong systirin hét Soong Ai-ling (1890-1973). Hún var gift ríkasta manni Kína á þessum tíma, bankamanninum Kung Hsiang-hsi (H.H. Kung) en hann var einnig ráðherra í ríkisstjórn Chiang Kai-shek. Þegar hylla fór undir endalok lýðveldistímans í Kína flúðu þau hjón til Taiwan og síðar til Bandaríkjanna þar Soong Ai-ling lést á heimili sínu í New York.
Ein elskar peninga, önnur elskar völd og sú þriðja elskar landið sitt. Einhvernveginn svona hljómar orðatiltæki frá Mao tímanum og vísar það til Soong systra. Hér sitja þær systur saman, Mei-ling til vinstri, Ching-ling fyrir miðju og Ai-ling lengst til hægri.
Soong systurnar áttu efnaða foreldra, hlutu góða menntun erlendis og nutu alls þess besta (og allra þeirra forréttinda) sem Kína hafði upp á að bjóða á þessum árum. Líf þeirra er áhugaverð heimild um þjóðfélagslegar breytingar í Kína í byrjun síðustu aldar og því skiljanlegt að reynt hafi verið að gera þeim skil í kvikmynd. The Soong Sisters er kvikmynd frá 1997 sem hlaut nokkra athygli, ekki síst fyrir ágætan leik, en sú gríðarlega ritskoðun sem myndin mátti una við þótti þó sýna vel hversu erfitt er að fjalla um nútímasögu Kína undir smásjá yfirvalda í Beijing.
Kapitalískur klæðnaður
Þrátt fyrir gleði og glaum á fyrstu áratugunum voru lýðveldisárin miklir átakatímar í sögu Kína. Innrás Japana í árslok 1937 í Nanjing, sem þá var höfuðborg landsins, markaði upphaf að átökum sem lauk ekki fyrr en við endalok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945. Þá tók við blóðug borgarastyrjöld milli þjóðernissinna undir forystu Chiang Kai-shek og kommúnista með Mao Zedong fremstan í flokki. Kommúnistar náðu völdum árið 1949 og í hinu nýja alþýðulýðveldi hvarf qipao kjóllinn smám saman af götunum uns hann var loks bannaður með öllu. Kommúnistar töldu kjólinn dæmi um kapitalískan klæðnað og til vitnis um spilltan lífstílinn sem viðhafst hafði í landinu undir áhrifum útlendinga.

Þegar ljóst var að kommúnistar myndu ná völdum á meginlandi Kína flúðu flestir íbúar alþjóðlega samfélagsins í Shanghai og settust margir að í bresku nýlendunni í Hong Kong. Meðal þeirra voru fjölmargir skraddarar sem lögðu grunn að nýju blómaskeiði qipao kjólsins í Hong Kong sem náði hámarki á fimmta og sjötta áratugnum. Þetta má glöggt sjá í kvikmyndum frá þessum tíma, til dæmis í myndinni The World of Suzie Wong frá árinu 1960. Nýrri kvikmynd sem einnig varpar ljósi á þetta tímabil í Hong Kong er In the Mood for Love frá árinu 2000 sem vann til fjölmargra alþjóðlegra verðlauna.

Þegar vestræn menningaráhrif og tíska urðu áhrifameiri meðal kínverskra íbúa Hong Kong á sjöunda áratugnum datt qipao kjóllinn smám saman úr tísku. Hann hvarf þó aldrei með öllu og er enn vinsæll við formlegar viðhafnir eins og brúðkaup. Kjólar með qipao sniði eru einnig algengir einkennisbúningar á veitingastöðum, hótelum og sem flugbúningar hjá asískum flugfélögum.
Framboð af qipao sniðnum kjólum er mikið hér í Kína en ekki þykja þeir þó allir merkilegir. Sumir eru verksmiðjuframleiddir og aðrir saumaðir meira af vilja en getu. Til að sníða og sauma sanna qipao kjóla þarf handverkskunnáttu sem margir óttast að sé við það að deyja út enda hefur ungt fólk lítinn áhuga á að tileinka sér hana. En þótt skröddurunum fækki má enn eignast vandaða sérsaumaða qipao kjóla í Shanghai og Hong Kong. Verðbilið er gríðarstórt, allt eftir gæðum og orðspori klæðskeranna.
Greina hefur mátt áhrif frá qipao kjólnum í hátísku á síðustu árum. Til dæmis hafa tískuhúsið Gucci og bandaríski hönnuðurinn Ralph Lauren sótt innblástur í kjólinn. Einnig má nefna Shanghai Tang vörumerkið frá Hong Kong sem er brautryðjandi í nútímahönnun undir áhrifum frá hefðbundnum kínverskum sniðum. Í nýrri Shanghai Tang verslun hér í Shanghai er nú hægt að velja silki og láta sérsníða á sig qipao kjól líkt og tíðkaðist fyrir hundrað árum. Kannski má segja má að kjóllinn sé ekki aðeins aftur kominn í tísku, heldur hafi hann líka snúið aftur heim.

Flatskjár handa framliðnum
Í dag heiðra kínverskar fjölskyldur minningu forfeðra sinna á qingming hátíðinni. Kínversku orðin standa fyrir birtu og tærleika en í ensku er hefð fyrir því að kalla daginn Tomb Sweeping Day. Það á vel við því þennan dag heimsækja Kínverjar grafstaði forfeðranna, hreinsa þar til og færa fórnir. Fórnirnar endurspegla tíðarandann hverju sinni og hafa peningaseðlar, iPad, iPhone og flatskjáir verið vinsælar gjafir á síðustu árum, en reyndar er um að ræða eftirlíkingar úr pappír. Og ekki er aðeins líkt eftir nútímatækni því nú hafa komið fram á sjónarsviðið þjónustufyrirtæki sem bjóða upp á staðgengla til að sjá um verkið gegn gjaldi.

Veglegar fórnarathafnir forfeðrunum til heiðurs eiga sér langa hefð í Kína og segir sagan að gjafir til hinna látnu hafi verið orðnar svo íburðarmiklar og framferðið svo tímafrekt að keisaranum þótti nóg um. Fyrir 2500 árum síðan skipaði hann því svo fyrir að athafnirnar skyldu héðan í frá takmarkast við einn dag á ári. Æ síðan hefur qingming hátíðin verið haldin í heiðri. Miðað við það sem við höfum lesið og heyrt í spjalli við heimamenn fer fjölskyldan venjulega öll saman að grafreitnum. Þegar búið er að snyrta leiðið og leggja á það blóm, gjarnan tryggðarblóm (krýsantema), er komið að því að reiða fram uppáhaldsrétti hins látna. Víni er hellt í bolla og skammtinum í bolla grafarbúans er hellt yfir jarðveginn. Síðan borða gestirnir matinn við leiðið rétt eins og um lautarferð sé að ræða.

Þegar búið er að færa þeim framliðna mat og drykk er komið að því að tryggja góða fjárhagslega afkomu. Margir Kínverjar trúa að lífið eftir dauðann sé svipað lífinu í veruleikanum hverju sinni. Peningafórnir sem brenndar eru við grafreitina endurspegla þessa trú. Þær varpa reyndar líka ágætu ljósi á þann gríðarlega mikla áhuga á peningum sem öðru fremur einkennir Kína nútímans. Pappírsseðlarnir eru ýmist eftirlíkingar af kínversku yuan eða amerískum dollar og munu yfir 1000 tonn af pappír vera brennd í Kína á þessum tímamótum ár hvert. Fram hefur komið að andvirðið megi reikna í þúsundum milljóna þótt peningarnir séu ekki ekta.
En það eru ekki bara eftirlíkingar af peningaseðlum sem fuðra upp yfir kínverskum grafreitum. Eftirlifendur eru einnig mjög kappsamir í að deila nútímatækni með framliðnum ættingjum og pappírseftirlíkingar af tölvum, snjallsímum og spjaldtölvum seljast eins og heitar lummur. Langvinsælastar eru pappírsútgáfur af Apple vörum en flatskjáir og ýmis önnur rafmagnstæki seljast líka vel. Góðærið takmarkast ekki við heimilistæki því pappírsútgáfur af bílum, merkjatöskum, snyrtivörum af ýmsu tagi og jafnvel heilu húsunum mælast vel fyrir. Þá hafa heyrst sögur af hjúskaparvottorðum sem brenna upp í himinhvolfinu og staðfesta samband framliðinna ættingja og landsfrægra súperstjarna.

Grafreitirnir eru í úthverfum borga og bæja og í stórborgum eins og Shanghai skapast mikið umferðaröngþveiti á helstu leiðum. Í fyrra heimsóttu til dæmis 2,42 milljónir manna tvo stærstu grafreitina í borginni þessa hátíðarhelgi. Í slíku óreiðuástandi má gera ráð fyrir að fjölskylduferðin geti tekið á sig misánægjulegar myndir. Margir stórborgarbúar komast heldur ekki frá vinnu og aðrir eiga um langan veg að fara til heimahéraðanna og hafa kannski hvorki fjárráð né tíma til að vitja látinna ættingja. Það er því ekki að ástæðulausu að nú hafa menn séð viðskiptatækifæri í þessari gömlu hefð og bjóða upp á þjónustu þar sem hægt er láta aðra vinna verkin.
Á Taobao, stærstu netverslunarmiðstöð Kína, má finna ýmsa þjónustuaðila sem spara fjölskyldunni ferðalög og fyrirhöfn á qingming hátíðinni. Í nýlegri grein New York Times kemur fram að sé gerð leit á borð við ,,hreinsum fyrir þig leiðið” á Taobao poppi upp tugir fyrirtækja sem bjóða upp á slíka þjónustu í meira en tuttugu borgum í Kína.
Samkvæmt greininni í NYT er boðið upp á staðlaða pakka sem innhalda mat, blóm, hreinsun og fegrun grafreitsins, auk þess sem brenndar eru peningagjafir og reykelsi. Kyrrðarstundin mun taka um hálftíma og kostar á bilinu 100-800 yuan, eða um 1.800-15.000 íslenskar krónur. Viðskiptavinurinn fær sendar ljósmyndir af athöfninni áður en greitt er til að tryggja að ekki séu svik í tafli. Aðrir þjónustuaðilar ganga enn lengra og lofa beinni útsendingu á netinu frá grafstaðnum. Enn aðrir bjóða upp á bænastund gegn aukagreiðslu upp á 1.000-2.000 íslenskar krónur en þá beygir viðkomandi sig fram í bæn og snertir leiðið með enninu. Í annarri auglýsingu þykir rétt að taka fram að sá sem tekur að sé verkið sé ætíð látinn þvo sér vel daginn áður en verkið er unnið. Þá auglýsir þjónustufyrirtæki í höfuðborginni Beijing þjónustu gegn aukagjaldi sem felst í því að senda starfsmenn sem gráta yfir gröfinni á svæðið og telur hana henta vel fyrir Kínverja sem búa erlendis og eiga látna ættingja í Kína. Í grein NYT er talað við frú Zhang sem rekur slíka þjónustu í borginni Tianjin og segir hún að viðskiptin gangi mjög vel. Hún segir að hreinsun grafreita snúist fyrst og fremst um hugsanir og séu látnir ættingjar í huga þínum muni þeir skilja hvers vegna þú kemst ekki á svæðið í eigin persónu. Með því að kaupa þjónustu eins og hennar sértu að segja að þér standi ekki á sama.
Það er hefðbundin trú meðal Kínverja að andar forfeðranna vaki yfir eftirlifandi ættingjum og því er vel skiljanlegt að þeir vilji gera vel við þá látnu. Kannski má segja að hér ríki því ekki bara góðæri í raunheimum heldur líka meðal framliðinna Kínverja.

Qingming hátíðin er haldin ár hvert 15 dögum eftir vorjafndægur, sem að þessu sinni er 5. apríl.






![02-Aftershock_(2010)_CHINESE_R6_CUSTOM-[front].jpg](https://medkvedjufrakina.com/wp-content/uploads/2014/05/aftershock.jpg)






