Gleðilegt ár hestsins!

Dagurinn í dag, 30. janúar, er sá síðasti á kínverska tungldagatalinu og á miðnætti gengur í garð nýtt ár. Ár snáksins kveður og við tekur ár hestsins. Hér í Kína er hesturinn tákn um persónulegar framfarir og samkvæmt stjörnuspeki heimamanna eru þeir sem fæddir eru í merki hestsins taldir gáfaðir, heilbrigðir og tilfinningasamir. Fólk í hestamerkinu býr yfir skarpskyggni og glaðværð, en einnig töluverðri þrjósku. Þetta þykir sumum benda til þess að á árinu 2014 muni mörg góðra manna ráð ekki ná eyrum þeirra sem þyrftu að hlusta. Happatölur ársins munu vera 2, 3 og 7 en óhappatölurnar eru 1, 5 og 6. Loks má bæta því við að fólk fætt í merki hestsins laðast gjarnan að fólki sem er fætt á ári tígrisdýrsins og ári hundsins. Það dregst hinsvegar síður að fólki sem er fætt í merki uxans og kanínunnar.

DSC_0122

Kínversku áramótin skipa svipaðan sess í Kína og jólin á Vesturlöndum og stressið í aðdraganda þessara mestu hátíðahalda ársins hjá Kínverjum er síst minna en við eigum að venjast við jólaundirbúninginn. Hátíðin í kringum nýja árið er þekkt sem vorhátíðin og á sér djúpar rætur í sögu lands og þjóðar. Þótt hugmyndafræðin sé gjörólík þeirri sem tengist jólunum þá má kannski segja að í grunninn snúist hátíðin um það sama; að verja tíma með fjölskyldunni, gefa gjafir og síðast en ekki síst, um mat.

IMG_4227

Nokkrum vikum áður en hátíðin gengur í garð fer að bera á allskonar kræsingum í matvöruverslunum og á mörkuðum. Þurrkað og reykt kjöt, fiskmeti og sjávarfang ýmisskonar, te, hnetur og ávextir. Sumt er dálítið furðulegt og stundum minnir þjóðlegur hátíðamatur í Kína á íslenskan þorramat þar sem hann er ósjaldan þurrkaður, sýrður eða reyktur.

IMG_4239

IMG_4215

DSC_0174

Skólafrí hefjast nokkru áður en hátíðin gengur í garð svo börn með foreldrum sínum verða algengari sjón á götum borgarinnar en venjulega. Borgarbúar sem hafa hukou í öðrum héruðum halda velflestir heim á leið til að hitta sín eigin börn sem oft ganga þar í skóla. Farþegatölur í lestum, flugvélum og rútum fara fram úr öllum mælikvörðum og á einum degi fara fleiri ferðalangar um flugvellina og lestarstöðvarnar hér í Shanghai en sem nemur allri íslensku þjóðinni. Sem dæmi fóru 166 þúsund farþegar um eina af samgöngumiðstöðvum borgarinnar á einum degi þann 27. janúar. Fyrir þá sem vilja fræðast meira um þessa gríðarlegu tilflutninga á fólki í kringum kínverska nýárið viljum við benda á mjög áhugaverða heimildamynd sem heitir Last Train Home (myndin er hér á Youtube).

hongqiao

Trommusláttur, drekadans og flugeldar eru mikilvægur liður í hátíðahöldunum. Mikið ber á ýmisskonar skreytingum þar sem allskyns happatákn eru hengd utan á hús og í glugga til að laða að góða orku fyrir nýja árið. Algengt er að sjá mandarínutré sem er stillt upp sitthvoru megin við inngang húsa en þau standa fyrir lukku í fjármálum þar sem appelsínugulur litur ávaxanna er eins og gull. Allt rautt boðar gæfu, og peningagjöfum er komið fyrir í rauðu umslagi, svokölluðu hongbao. Þótt hongbao sé líka notað um afmælis- og brúðargjafir í Kína þá er það nýársgjöfin sem mestu skiptir. Upphaflega var hugmyndin sú að fullorðnir gæfu börnum hongbao en slíkar peningagjafir eru nú einnig algengar frá vinnuveitendum til starfsfólks og víðar. Þeir sem ferðast heim um hátíðarnar finna fyrir pressu að koma með nógu ríflegt hongbao og dýrar gjafir handa ættingjunum.

DSC_0148

DSC_0151

Kínverjar fundu upp púðrið og skoteldar með tilheyrandi hávaða og ljósadýrð hafa um aldir, ef ekki árþúsund, verið hluti af nýárshátíðahöldunum. Óhætt er að segja skotgleði Kínverja sé engu minni en Íslendinga og stundum finnst manni að allt hér í Kína byrji og endi með skoteldum. Það þarf ekki áramót til því hvort sem um er að ræða brúðkaup, opnanir verslana, stofnana og veitingastaða, flutninga í nýtt húsnæði eða afmæli, allt er þetta tilefni til að skjóta upp flugeldum. Skiptir þá ekki máli hvort bjart er af degi eða myrkur, í Kína má heyra í flugeldum allan ársins hring og á öllum tímum sólarhrings. Ekkert toppar þó kínverska gamlárskvöldið og í kvöld má búast við miklum hávaða eins og Íslendingar geta kannski gert sér í hugarlund nema að hér þarf að margfalda allt með nokkrum milljónum. Í fyrra voru það víst 30 þúsund borgarstarfsmenn sem fóru út á götunar í Shanghai á nýársnótt til að þrífa upp sóðaskapinn eftir flugeldana sem mældist í tonnum. Hér gæti þó orðið breyting á, því samkvæmt nýjustu fréttum hafa borgaryfirvöld í Shanghai og víðar hvatt íbúa til að stilla sprengingunum um áramótin í hóf. Ástæðan er mengunin sem hlýst af flugeldunum og stillt veðrið í ár hjálpar ekki til. Í fyrra voru mengunartölur í Shanghai á miðnætti himinháar, eða yfir 500 á PM2,5 mælikvarðanum, sem er áhyggjuefni eins og öll sú gríðarlega mengun sem landið glímir við.

IMG_4285

Skömmu fyrir kínversk áramót verða rauðar nærbuxur áberandi í verslunum (og á þvottasnúrum) í borgum og bæjum í Kína. Úrvalið af rauðum undirfatnaði er fyrir bæði kynin og ósjaldan með gylltum bryddingum. Hér er það almenn (hjá)trú að rauður fatnaður geti afstýrt hugsanlegri ógæfu sem sækir fólk heim á tólf ára fresti. Kínversku dýramerkin eru tólf og við 12, 24, 36 o.s.frv ára aldur verða því þáttaskil í lífinu. Þetta kallast benming nian á kínversku og þá er hætta á slæmu ári. Til að hindra að slæm öfl nái til manna er talið hjálplegt að klæðast rauðu. Þá eru rauðar nærbuxur náttúrlega einföld lausn og Kínverjar hafa tröllatrú á rauða litnum sem táknar tryggð, frama og hamingju.

IMG_4274

DSC_0159

Þótt kalt sé í veðri í stærstum hluta landsins á þessum árstíma markar nýja árið líka upphaf vorsins í huga kínversku þjóðarinnar. Skreytingar sem eru settar upp í tilefni af hátíðahöldunum bera það dálítið með sér með tilheyrandi blóma- og litadýrð. Í gamla bænum hér í Shanghai eru skreytingarnar í ár íburðarmiklar að venju. Flestar vísa þær með einhverjum hætti í kínverskar sögur og hefðir en af einhverjum ástæðum slæddust biblíusögurnar með þetta árið og sjá mátti Adam og Evu í Paradís.

DSC_0120

DSC_0091

Með þessu myndum sendum við lesendum bloggsins okkar bestu kveðjur á nýju ári hestsins. Ýmsar kveðjur eiga við af þessu tilefni en hér eru þrjár þær algengustu:

1. 新年快乐 Xīnnián kuàilè! (gleðilegt ár)

DSC_0127

2. 过年好 Guònián hǎo!  (gleðilegt ár)

DSC_0060

3. 恭喜发财 Gōngxǐ fācaí! (bestu óskir um hagsæld/velmegun/ríkidæmi)

IMG_4248

Hukou kerfið

Hún ljómar þessa dagana, kona sem við þekkjum hér í Shanghai, því nú hefur fjölskyldan sameinast. Hún og maðurinn hennar fluttu úr sveitinni til borgarinnar fyrir tíu árum og hafa búið hér síðan. Þau skildu sex ára son sinn eftir hjá ættingjum, yfirgáfu heimahéraðið og komu til Shanghai í von um betri lífsafkomu. Draumurinn var að vinna sér inn næga peninga svo að þau gætu snúið heim aftur, keypt sér betra húsnæði og séð fjölskyldunni farborða. Síðan eru liðin tíu ár og ýmislegt óvænt hefur komið upp, eins og gengur og gerist í lífinu. Þau fundu bæði vinnu, hann sem kokkur í mötuneyti hjá kínversku fyrirtæki og hún sem heimilishjálp, oftast hjá útlendingum sem búið hafa í borginni. Fyrir sex árum varð konan ófrísk og þá þurfti hún að fara heim til að eiga barnið. Dóttirin fæddist heilbrigð og fín og eftir stutta dvöl í sveitinni snéri konan aftur til borgarinnar og nú voru það tvö börn sem skilin voru eftir hjá ættingjum í heimahéraðinu.

Til að gera langa sögu stutta má segja að líf hjónanna hafi einkennst af mikilli vinnu fjarri ættingum og vinum, en þau hafa þó hvort annað. Börnin sín hafa þau hitt einu sinni á ári, stundum tvisvar. Þau hafa yfirleitt komið til Shanghai í sumarfríinu en það hefur samt verið erfiðleikum bundið því hjónin vinna bæði langan vinnudag og því hefur drengurinn þurft að passa litlu systur sína. Hjónin eiga hvorugt rétt á fríi, þau eru upp á góðvild vinnuveitanda komin hvað það varðar. Konan hefur verið heppin því útlendingarnir sem hún hefur unnið fyrir fara oft heim á sumrin og þá fær hún frí að mestu leyti og getur verið með börnunum. Hjónin hafa líka stundum farið heim yfir kínverska nýárið og þá hitt börnin og aðra ættingja og vini en það hefur verið kostnaðarsamt og þau hafa því sjaldan leyft sér þann munað. Fyrir stuttu flosnaði drengurinn þeirra upp úr skóla og flutti til foreldra sinna í borginni í leit að tækifærum rétt eins og þau fyrir tíu árum. Hann er nú farinn að vinna sem aðstoðarkokkur á veitingastað sextán ára gamall. Fyrir nokkrum dögum kom svo dóttirin ásamt föðurafa sínum til Shanghai og þau ætla að dvelja hjá fjölskyldunni yfir kínverska nýárið. Fjölskyldan er því sameinuð í nokkrar vikur og það er því ekki skrýtið að konan ljómi.

Saga þessarar fjölskyldu er ekkert einsdæmi. Á undanförnum áratugum hafa orðið gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar hér í Kína. Í kjölfar efnahagsbreytinganna sem hófust árið 1978 hefur ungt vinnufært fólk þyrpst í borgir í leit að vinnu og betri lífsafkomu sér og sínum til handa. Gamalt fólk og börn verða eftir í sveitunum, sjá um eignir fjölskyldunnar og bíða þess að endurheimta þá fjölskyldumeðlimi sem freistuðu gæfunnar. Sveitir Kína eru fullar af öldruðu fólki, börnum og ungmennum. Fyrir okkur, sem komum úr allt öðru umhverfi, er erfitt að skilja hvað fær foreldra til að yfirgefa börn sín og skilja þau eftir í umsjá annarra árum saman og sjá þau kannski ekki nema einu sinni á ári. En ástæðan er einföld, kerfið býður ekki upp á annað og þar á hukou búsetuskráningarkerfið stóran þátt.

Upphaf hukou kerfisins

Þó að Kínverjar hafi í gegnum aldirnar haldið skrár um íbúa landsins er hukou búsetuskráningarkerfið, sem þróaðist á fimmta áratug síðustu aldar, allt annars eðlis. Því var komið á laggirnar af kommúnistum, eftir að þeir komust til valda, í þeim tilgangi að stjórna flæði fólks um landið. Kerfið var hannað að sovéskri fyrirmynd og átti það að hjálpa til við að hraða iðn- og nútímavæðingu landsins. Bændur áttu að vera í sveitunum og framleiða mat fyrir þá sem unnu í verksmiðjunum í borginni. Borgarbúarnir fengu lág laun fyrir vinnu sína en það var bætt upp með ókeypis menntun, heilsugæslu, eftirlaunum og skömmtunarseðlum fyrir mat og öðrum nauðsynjum.

Heimili voru skráð á ákveðnum stað og á þeim stað átti fjölskyldan að vera allt sitt líf. Þjóðinni var skipt í tvennt og þeir sem bjuggu í sveitum fengu sveitahukou á meðan að þeir sem bjuggu í borgum fengu borgarhukou. Borgarbúar nutu áðurnefndra réttinda og höfðu því ákveðin forréttindi. Fólkið í sveitunum fékk afnot af landskika sem það ræktaði innan stærri samyrkjubúa og innan þeirra átti öll þjónusta að rúmast. Bændur, sem voru um 80% þjóðarinnar, réðu engu um sitt líf, hvorki hvað þeir ræktuðu né hversu mikið. Þeir voru dæmdir til að framleiða mat fyrir borgarbúana auk þess að vinna að ýmsum framkvæmdum á vegum ríkisins. Líf þeirra var algjörlega samofið samyrkjubúinu og þeir máttu ekkert eiga sjálfir.

Fólk gat ekki flutt, því öll réttindi voru bundin þeim stað þar sem viðkomandi var skráður, annarstaðar var engin réttindi að fá og heldur ekki mat því hann var skammtaður. Það var ekki hægt að fara út í búð og kaupa mat að vild fyrir peninga því sérstaka skömmtunarseðla (liangpiao) þurfti til að kaupa nauðsynjavörur. Hvert hérað/borg var með sérstaka gerð af slíkum seðlum og því var ekki auðvelt að fara á milli svæða. Í landinu ríkti því eins konar efnahagsleg aðskilnaðarstefna. Á meðan lifðu flokksforingjarnir í Peking með Mao í broddi fylkingar í vellystingum og gátu farið hvert á land sem var.

Hukou2

Hukou kerfið lifir enn góðu lífi

Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá er hukou kerfið enn við lýði hér í Kína og enn þann dag í dag hefur það áhrif á líf fólks. Nú er hægt að ferðast á milli staða án þess að svelta, enda ódýrt vinnuafl ein af forsendum efnahagsbatans á undanförnum áratugum, en öll félagsleg þjónusta og réttindi eru þó enn bundin við þann stað þar sem fólk er skráð. Allt þetta gerir flutninga á milli svæða erfiðari en áhrifin eru þó mismunandi eftir því hver á í hlut og peningar og tengsl skipta þar öllu máli.

Ríka fólkið þarf auðvitað minna á félagslegri þjónustu að halda, þar sem flest af því sem hér hefur verið talið upp er hægt að kaupa. Þeir sem eiga næga peninga geta jafnvel keypt sér hukou, en það er miserfitt eftir borgum og erfiðast í þeim stærstu. Ein leiðin er að fara í gegnum ríkisfyrirtækin. Sum þeirra fá árlega ákveðinn fjölda af hukou sem þau geta úthlutað til starfsmanna. Stundum eru “afgangskvótar” ríkisfyrirtækja seldir á uppsprengdu verði í gegnum umboðsskrifstofur og þá geta þeir sem eiga peninga keypt sér hukou.

Menntafólk sem flytur til borganna til að vinna fær tímabundið dvalarleyfi í gegnum vinnuveitendur en ekki er um eiginlegt hukou að ræða. Fyrirtækin borga ennfremur oft heilsutryggingar fyrir sína starfsmenn svo að þeir geti nýtt sér heilbrigðisþjónustu í borginni. Þetta fólk þarf þó að sækja ýmsa þjónustu í heimahéraðið, eins og að fá vegabréf, vegabréfsáritanir, öll vottorð og slíkt. Kína er stórt land og því getur þetta verið mjög tímafrekt og kostnaðarsamt. Réttindin verða heldur aldrei þau sömu og hjá þeim sem hafa hukou í borginni. Aðgengi að skólum fyrir börn er til dæmis ekki það sama, þeir skólar sem bestir eru taldir hér í Shanghai krefjast þess að báðir foreldrar hafi Shanghai hukou. Í höfuðborginni Peking þurfa þeir sem eru að kaupa íbúð, og ekki hafa hukou, að framvísa skattaskýrslum fimm ár aftur í tímann og auk þess þarf að sýna fram á góðar tryggingar. Aðeins þeir sem hafa hukou í Peking mega kaupa fleiri en eina íbúð. Þar eru einnig takmarkanir á því að kaupa bíla, fá ellilífeyri, rétti til félagslegra íbúða, aðgengi að skólum og fleiru.

Sá hópur sem finnur mest fyrir þessari skiptingu eru þeir sem minnst hafa, þeir sem þurfa mest á félagslegri þjónustu að halda, farandverkafólkið sem dvelur oft í borgunum án allra réttinda. Það eru börnin þeirra sem eru skilin eftir heima í héraði vegna þess að þau geta ekki gengið í skóla í borginni.

Hukou1

Sögur frá Shanghai

Á undanförnum árum hefur dregið úr miðstýringu hér í Kína og því marka borgirnar sjálfar nú sína stefnu í búsetumálum. Þeim er því misjafnlega háttað á milli staða. Við höfum spurt nokkra sem við þekkjum hér í Shanghai um þeirra hukou mál en í borginni búa um 23 milljónir og þar af hafa um 13 milljónir Shanghai hukou. Það eru því um 10 milljón manns sem búa hér án þess að hafa hukou. Kerfið hefur því áhrif á gríðarlega marga, en mismikil eftir stöðu og stétt eins og áður sagði.

Ung kona í góðri stöðu sem við töluðum við sagðist ekki hafa hukou hér þó að hún væri gift manni frá Shanghai. Þau hjónin eiga einn son og þar sem foreldrar geta í dag valið um hvort barn fær hukou föður eða móður völdu þau að drengurinn fengi hukou í Shanghai. Hukou erfist frá foreldrum og því er ekki sjálfgefið að þó að barn fæðist hér í Shanghai að það fái hér hukou. Sjálf sagðist unga konan geta sótt um hukou í borginni eftir að hafa verið gift manni sínum í ákveðinn árafjölda, en ekki væri hægt að ganga að neinu vísu í þeim efnum. Hún sagði að stundum væri hægt að fá Shanghai hukou í gegnum vinnuveitanda, ef unnið væri hjá ríkisfyrirtæki, og svo væru nýjar reglur sem leyfðu fólki að sækja um hukou eftir sjö ára samfellda dvöl í borginni. Umsækjendur eru þá metnir eftir ákveðnu punktakerfi og þeir sem þykja hæfastir geta dottið í lukkupottinn.

Ungur velmenntaður karlmaður sem hefur dvalið í Shanghai í nokkur ár sagði okkur að sér liði oft eins og útlendingi í eigin landi vegna þessara hukou mála. Hann er giftur og á unga dóttur og hann er þegar farinn að kvíða því hvað gerist þegar hún eldist og þarf að taka hið alræmda inntökupróf í háskóla. Það þarf hún nefnilega að gera í héraðinu þar sem þau eiga sitt hukou, þó dóttirin hafi aldrei búið þar. Inntökuprófið er mismunandi eftir héruðum/borgum og því er best að sækja menntaskóla í sama héraði og prófið er tekið.

Önnur leið sem alltaf virðist fær hér í Kína, er að kaupa sér leið út úr vandamálunum. Hjónin sem við sögðum frá hér í upphafi eiga tvö börn, en eins og allir vita mega langflest hjón einungis eiga eitt barn. Við spurðum konuna hvort að dóttirin hefði við fæðingu fengið hukou í þeirra heimahéraði þó að hún væri þeirra annað barn. Hún sagði að þau hjónin hefðu þurft að kaupa það hukou. Þau hefðu verið heppin og þekkt aðila sem vann við búsetuskráninguna og því fengið það ódýrt. Dóttirin gæti því gengið í skóla og fengið aðra samfélagsþjónustu í þeirra heimasveit. Hún sagði að með hverju barni umfram eitt þyrfti að borga fyrir hukou og að það yrði dýrara eftir því sem börnunum fjölgaði. Hún sagði okkur frá kunningjahjónum sínum sem eiga fimm börn, fyrst fæddust fjórar stúlkur og loks kom drengurinn sem beðið var eftir. Fjölskyldan hafði ekki efni á að borga hukou fyrir allan þennan skara og lét því skrá dæturnar á heimilum vina og ættingja sem einungis voru með eitt barn á sínu framfæri. Þetta var hægt í þeirra heimahéraði en gengi trúlega ekki í Shanghai.

Margir hafa kallað eftir breytingum á hukou búsetukerfinu, kerfinu sem neyðir margar milljónir til að búa við óöryggi og aðskilnað frá nánustu fjölskyldumeðlimum. Hingað til hafa breytingarnar verið ótrúlega hægar.

Spillingin í skipafélaginu

Nú þegar hið íslenska Eimskip hefur skrifað undir framtíðarsamkomulag við kínverska skipafélagið Cosco er freistandi að fara yfir það helsta sem sést hefur á prenti um þetta kínverska félag og móðurfélag þess, ríkisreknu samsteypuna China Ocean Shipping Group, eða Cosco Group.

cosco

Cosco er annað af tveimur stórum skipafélögum kínverska ríkisins og mun vera það fimmta stærsta í heimi. Nafn þess hefur komið nokkuð við sögu í alþjóðlegum fréttum á síðustu misserum vegna umfangsmikilla kaupa þess á hafnarmannvirkjum í Grikklandi. Fyrirtækið hefur einnig komist í sviðsljósið vegna tapreksturs og spillingar meðal yfirmanna. Fjölmiðlar í Kína og erlendis hafa fjallað um lélega afkomu Cosco tvö ár í röð, árið 2011 og 2012. Efnahagskreppan í heiminum á að hafa valdið afleitri afkomu fyrirtækisins. Málið vakti athygli ekki síst fyrir þá sök að fyrirtækinu var hótað afskráningu í kauphöllinni í Shanghai ef það bætti ekki afkomu sína. Til þess kom þó ekki og sýnt var fram á betri afkomu Cosco fyrir árið 2013, eftir því sem sumir segja með sölu eigna og tilfæringum innan samsteypunnar.

Spillingarmál hafa vakið enn meiri athygli á Cosco en lélegur reksturinn. Eins og oft vill verða í Kína eru upplýsingar um slík mál af skornum skammti en komið hefur fram að frá árinu 2011 hafi fjórir framkvæmdastjórar í þremur starfsstöðvum samsteypunnar verið látnir sæta rannsókn vegna spillingar. Margir eru sannfærðir um að rannsóknirnar séu hluti af herferð stjórnvalda gegn spillingu í landinu, þeirri sem Xi Jinping forseti boðaði þegar hann var settur í embætti á síðasta ári. Herferðin felst í því að berjast gegn víðtækri spillingu í kínversku samfélagi enda er hún talin geta ógnað framtíð kommúnistaflokksins.

Í yfirlýsingu frá móðurfyrirtækinu Cosco Group hefur komið fram að þar á bæ styðji menn af öllum mætti herferð kommúnistaflokksins gegn spillingu og sætti sig því við vera undir smásjá fjölmiðla og almennings. Þegar Xu Minjie, einn valdamesti maður fyrirtækisins, var sakaður um misferli í nóvember á síðasta ári birtist yfirlýsing á vefsíðu samsteypunnar. Þar kom fram að Xu sætti rannsókn viðeigandi yfirvalda en það myndi ekki hafa nein áhrif á rekstur fyrirtækisins. Sem gæti komið á óvart þar sem Xu gengdi þremur mikilvægum stöðum innan samsteypunnar; sem varaforstjóri China Ocean Shipping Group, varaframkvæmdastjóri Cosco Holding og framkvæmdastjóri Cosco Pacific. Frekari upplýsingar um málið var ekki að finna í tilkynningunni en í skilaboðum fyrirsækisins til kauphallarinnar í Hong Kong í janúar kom aftur á móti fram að Xu Minjie hefði sagt upp störfum af persónulegum ástæðum.

Fleiri yfirmenn hjá Cosco hafa verið sakaðir um spillingu. Nokkrum mánuðum áður en Xu komst í fréttirnar höfðu kínverskir ríkisfjölmiðlar birt fréttir af Meng Qinglin sem sætti rannsókn vegna spillingar í júlí. Meng Qinglin var framkvæmdastjóri Cosco Dalian sem sinnir rekstri tanksskipa og misferlið er talið tengjast kaupleigu á skipum. Nokkrum dögum síðar sagði Ma Zehua, núverandi forstjóri Cosco samsteypunnar, að það hefðu vissulega verið einhver vandræði með Cosco Dalian en skýrði það ekki frekar. Meng hætti síðan störfum hjá Cosco Dalian í janúar vegna aldurs, sextugur að aldri. Á fundi þar sem tilkynnt var um starfslokin mun framkvæmdastjórn fyrirtækisins hafa sagt að þeir kynnu vel að meta framlag Meng sem hafði unnið hjá fyrirtækinu í áratugi. Og það þótt sagan segi að starfsorka Meng hafi að mestu farið í að byggja upp sinn eigin rekstur á meðan hann var enn við störf hjá Cosco. Ekki þykir ólíklegt að svipað hafi legið að baki þegar varaframkvæmdastjóri Cosco í Qingdao, Song Jun, komst í fréttirnar árið 2011 þegar hann var handtekinn vegna gruns um spillingu. Ekki fer þó frekari sögum af því.

Frægastur þeirra Cosco kappa sem komist hafa í sviðsljósið vegna gruns um spillingu er fyrrverandi forstjóri samsteypunnar, Wei Jiafu, gjarnan kallaður Kapteinn Wei. Hann er einn áhrifamesti viðskiptamaður Kína og mun hafa notið mikillar virðingar innan skipabransans sem æðsti yfirmaður í stærsta skipafélagi landsins. Þegar sögur fóru á stjá síðasta sumar um að Wei hefði verið bannað að fara úr landi meðan á rannsókn á starfssemi Cosco samsteypunnar stæði yfir, þótti ljóst að spillingarrannsóknin hefði teygt anga sína alla leið á toppinn. Talsmenn fyrirtækisins sögðu reyndar að þetta væru bara kjaftasögur sem blöðin væru að birta en engu að síður lét kapteinninn af störfum í júlí. Sumar sögur segja að hann hafi verið látinn hætta þar sem hlutahafar hefðu gert uppreisn í kjölfar afleitrar afkomu Cosco. Annarsstaðar hefur því verið haldið fram að afsögnin skýrist af spillingu og vitnað hefur verið í heimildamenn innan fyrirtækisins sem segja að allskonar svindl og grunsamlegar aðferðir tíðkist við stjórn hinna ýmsu eininga innan samsteypunnar. Skortur á góðu regluverki hafi leitt til þess að margir yfirmenn hafi misnotað stöðu sína til að vinna að eigin hagsmunum. Aðrir skýra spillinguna með því að benda á flókna yfirbyggingu og afskipti ríkisins sem leiði til þess að starfsmönnum sé alveg sama um eignir og þjónustu fyrirtækisins.

Photo Arnaldur Halldórsson

Þetta er svona það helsta sem hægt er að grafa upp um þennan nýja bandamann Eimskipafélagsins í fljótu bragði. Cosco er stórveldi þar sem sumir hlutar fyrirtækisins eru skráðir á markað en samsteypan er þrátt fyrir það í eigu kínverska ríkisins. Eins og áður sagði eru fréttir af atburðum innan opinberra fyrirtækja og stofnana í Kína mjög óljósar og erfitt að átta sig á raunverulegri framvindu mála. Gott dæmi um slíkan rugling er að samkvæmt frásögnum, sem bæði má finna í kínverskum fjölmiðlum og á erlendum fréttaveitum á borð við Reuters, er Kapteinn Wei Jiafu ekki lengur við störf. Á heimasíðu Cosco birtist hinsvegar enn ávarp hans sem æðsti stjórnandi fyrirtækisins, dagsett 29. mars 2012.

Ekki er víst að allir myndu leggja blessun sína yfir samband við fyrirtæki þar sem svo mikið hefur gengið á síðustu mánuði. En hjá Eimskip er augljóslega litið á Cosco sem verðugan samferðamann á ferðalagi þessa fyrrverandi óskabarns íslensku þjóðarinnar inn í framtíðina.

Fölleit og fögur

Hugmyndir um kvenlega fegurð virðast nokkuð fastmótaðar hér í Kína; konur eiga að vera ofurgrannar, ljósar á hörund, og með stór augu. Egglaga andlit og smávaxið nef þykja mesta prýði og ekki er verra að vera hávaxin, helst hærri en 165 cm. Ýmsar aðferðir eru notaðar til að mæta þessum kröfum, allt frá einföldum ráðum á borð við háa hæla og sólhlífar til afdrifaríkra skurðaðgerða. 

Þótt fegurðarímyndin í Kína sé nokkuð dæmigerð á asískan mælikvarða má velta því fyrir sér hvort útlit þeirra kínversku kvenna sem öðlast hafa alþjóðlega frægð á undanförnum árum hafi áhrif á almenn viðhorf, en útlit þeirra er ekki alltaf í fullu samræmi við tíðarandann í heimalandinu. Súpermódelið Liu Wen og leikkonan Zhang Ziyi þykja til dæmis báðar afar glæsilegar á vestrænan mælikvarða – nafn hinnar síðarnefndu hefur jafnvel komið fyrir á lista yfir fegurstu konur heims – en heima í Kína þykir útlit þeirra frekar hversdagslegt.

kinabeauty

Mismunandi menningarheimar hafa ólík viðmið þegar kemur að fegurð og hugmyndir um hið fullkomna útlit eru líka breytilegar á hverjum tíma í sögunni. Af andlitsmyndum af hásettum konum á tímum Qing ættarveldisins að dæma, var ímyndin af kvenlegri fegurð þá að mörgu leyti lík þeirri sem enn gildir í Kína. Keisaraynjan Xiao Xianchun (1712-1748) með sína reglulegu andlitsdrætti er enn  talin falleg kona. Á málverkinu sjást hins vegar ekki fætur hefðarkonunnar sem hafa vafalaust verið agnarsmáir í samræmi við kröfur sem gerðar voru til kínverskra kvenna um aldir. Við fimm ára aldur voru beinin í fótum ungra telpna brotin og fótunum upp frá því haldið í skorðum með föstum línvafninum. Með þessu móti urðu fæturnir örsmáir og þóttu þá afar kvenlegir og fagrir. Varla er hægt að ímynda sér hversu sársaukafullt þetta hefur verið og sem betur fer lagðist hefðin um að reyra fætur kvenna smám saman af eftir fall síðasta keisaraveldisins í byrjun 20. aldar.

528

Stóreygð, föl og létt eins og lauf í vindi

Séu fegurðarviðmið í nútíma Kína skoðuð kemur einkum þrennt upp í hugann:

1. Stór augu

Nú vitum við öll að augu Kínverja og margra annarra Asíubúa eru öðruvísi að lögun en algengast er í Vesturheimi. Ekki er talið að konur hér í Asíu hafi veitt augnumgjörð sinni mikla athygli fyrr en í seinni tíð. Líklegt þykir að viðkynningin við Vesturlandabúa hafi leitt til þess að á tuttugustu öld fór að bera á því að litið væri á konur sem ekki höfðu sýnileg augnlok, og augun þá minna áberandi, sem ólaglegar. Þessar hugmyndir lifa enn góðu lífi og algengasta fegrunaraðgerð meðal asískra kvenna í dag er aðgerð á augnlokum sem leiðir til þess að augun virðast stærri.

augu

2. Fölleit húð

Sólin skín sjaldan á kínverskar konur því hvít og jafnlit húð er mikilvægt tákn um fegurð. Kínverjar segja hlutina gjarnan hreint út og leyna ekki andúð sinni ef þeim finnst húð einhvers illa farin og blettótt eftir sólarljós. Á sama hátt höfum við báðar, sem hér skrifum, í fyrsta sinn á ævinni uppskorið mikið hrós fyrir litarhaftið sem á norðurslóðum er í neikvæðum tón kallað glært! Verra er að óbeit margra Kínverja á dökkri húð beinist einnig að fólki með náttúrulega dökkan húðlit, til dæmis blökkumönnum. Og þótt andúð á dekkri húðlit sé sprottin úr menningu sem sér ljósa húð sem tákn um fegurð er erfitt að horfa framhjá því að hér ráði líka ferð fordómar og hrein fáfræði.

Skýringin á því hvers vegna Kínverjar (og margar aðrar Asíuþjóðir) eru svona uppteknir af hvítri húð snýst þó fyrst og fremst um stétt og stöðu. Dökk húð er tengd við þrældóm og útivinnu á meðan ljós húð þykir merki um velmegun og ríkidæmi. Svipaðar hugmyndir eru þekktar úr sögu annarra menningarheima, til dæmis í Evrópu þar sem fölleit yfirstéttin gerði það sýnilegt með litarhaftinu að hún hefði efni á að láta aðra þræla fyrir sig. Hugmyndin um fegurð ljósrar húðar á sér líka langa sögu í Kína og tengist ætíð upphefð. Oft eru konurnar við Han keisarahirðina nefndar sem dæmi en hvítmáluð andlit þeirra, umkringd síðu svörtu hárinu, þóttu nánast yfirnáttúrulega fögur. En þótt hefðin eigi sér djúpar rætur í sögunni má líka leiða rök að því að húðlitur hvíta mannsins, mestu forrréttindastéttar veraldar síðustu aldir, eigi einnig þátt í því að margir Kínverjar setja fölan húðlit í samhengi við efnahagslega hagsæld og yfirburði.

ad

Í nútímanum keppast margar kínverskar konur ekki aðeins við að halda húðinni frá sólarljósinu heldur eyða líka drjúgum peningum í allskyns hvíttunaraðferðir. Þær taka pillur, fara í leysigeislaaðgerðir og bera á sig allskyns krem í von um að verða fallegri og þá væntanlega hamingjusamari. Í sjónvarpi, kvikmyndum og tískublöðum hér í Kína er fræga og fallega fólkið hvítt, oftar en ekki með hjálp Photoshop og Airbrush (sama tækni og notuð er á Vesturlöndum til að gera fólk útitekið!). Nær öll andlits- og líkamskrem sem seld eru í Kína eru hvíttunarkrem og þeir erlendu framleiðendur sem ætla sér stóra hluti hafa allir sett á markað ,,hvítar” vörulínur. Fleiri hafa séð markaðstækifæri í þessu hvíttunarfári og jafn furðulegar vörur og hið svokallaða Facekini hafa náð vinsældum á kínverskum sólarströndum, en það er einskonar lambhúshetta sem hylur hár og andlit svo sólin nái ekki að skína á hörundið. Þegar bjart er í veðri ganga kínverskar konur gjarnan um með regnhlífar til að skýla sér frá geislum sólarinnar og allskyns derhúfur, hattar og armhlífar eru algeng sjón á sólríkum dögum.

facekini

3. Tágrannur líkami

Það er ekki aðeins á Vesturlöndum sem grannar konur þykja fallegastar. Kínverskar konur eru alltaf í megrun því þótt okkur finnist þær flestar frekar fíngerðar og grannvaxnar finnst þeim sjálfum þær aldrei nægilega mjóar og nettar. Ef kínversk kona er feitlagin þykir heldur ekkert feimnismál að segja það við hana. Þótt slík hreinskilni sé talin nokkuð eðlileg í Kína eru þessar kínverskar konur þó ekkert betur undirbúnar til að taka slíkri gagnrýni en aðrar konur í heiminum. Konur frá Kína sem búa á Vesturlöndum tala gjarnan um hvað þeim finnst gott að losna undan ofurkröfunum um að vera tágrannar því í augum Vesturlandabúa eru þær flestar fínlegar og mjóar. Þess má geta að þessu er alveg öfugt farið hjá erlendum konum sem búa í Kína, flestar höfum við einhverntíma heyrt að við séum stórar, ef ekki hreinlega feitar.

Engin feimni við lýtaaðgerðir

Augljóslega eru það ekki bara kínverskar konur sem láta staðalímyndir um útlit hafa áhrif á sig. Konur út um allan heim eru sífellt að reyna að grenna sig og sumar fara í lýtaaðgerðir til að fullkomna útlitið. Það sem kann að vera ólíkt er að í Kína virðist það ekki sérlega mikið feimnismál að láta breyta útliti sínu. Hér í Shanghai eru ótrúlega margar lýtaaðgerðastofur. Utan á byggingunum hanga auglýsingaspjöld svo það fer ekkert á milli mála hvað fer þar fram og oft sér maður sjúklinga koma út með allkyns umbúðir án þess að nokkuð sé verið að reyna að fela það. Frægar eru líka sögur af kínverskum konum sem fljúga til S-Kóreu í lýtaaðgerðir, en það er vinsælt meðal þeirra efnameiri, og lenda svo í vandræðum í vegabréfseftirlitinu á heimleið því þar þekkjast þær ekki aftur á myndinni í passanum. Hátt fór líka saga af hjónaskilnaði kínverskra hjóna í kjölfar þess að upp komst að konan hafði farið í svo margar lýtaaðgerðir að hún var sem ný. Eiginmaðurinn uppgötvaði það sem hann kallaði svik þegar þessum laglegu hjónum fæddist óvenju ófríð dóttir. Manninn grunaði konuna um framhjáhald en á daginn kom að hún hafði eytt háum fjárhæðum í lýtaaðgerðir áður en þau kynntust. Enn ótrúlegra er kannski sú hlið sögunnar að manninum voru dæmdar bætur. En hvað sem öllum slíkum kjaftagangi líður, aðgerðirnar virðast sífellt umsvifameiri og nýjustu fréttir herma að lýtaaðgerð sem felst í því að láta hækka kinnbeinin og skafa af kjálkabeinunum svo lögun andlitsins verði egglaga sé nú að verða ein sú vinsælasta hér í Asíu.

beforeafter

August-Cover-2013_1280

Alþjóðleg fegurð

Á tímum alþjóðavæðingar og alheimsnets berast hugmyndir um fegurð hratt á milli menningarheima. Þegar erlend tískublöð á borð við Vogue og Elle hófu að gefa út kínverskar útgáfur fyrir nokkrum árum prýddu vestræn andlit oftar en ekki forsíður þeirra. Nú hafa hlutföllinn breyst og augljóslega selur kínversk fegurð á forsíðu líka vel. Á sama tíma hafa ungar kínverskar konur á borð við áðurnefnda Liu Wen og leikkonuna Fan Bingbing náð frama á Vesturlöndum og andlit þeirra birtast oft í auglýsingum vestrænna vörumerkja, nú síðast hjá Louis Vuitton. Fan Bingbing er ein vinsælasta leikkona Kína og í augum samlanda sinna þykir hún fullkomlega fögur.

fanbingbing

Um fegurð mannslíkamans gildir ekkert náttúrulögmál og ekki er gott að segja hvernig fegurð verður skilgreind í framtíðinni. Augljóslega munu kínverskar konur verða sýnilegri og hafa mótandi áhrif á útlitshugmyndir um allan heim. Þó er erfitt að sjá fyrir sér að ímyndin um fölleitu og stóreygu kvenveruna sem sveiflast eins og viðkvæmt blóm í vindi muni ná alþjóðlegri fótfestu enda í fullkominni andstöðu við nútíma kröfur um jafnrétti. Kínversk vinkona okkar telur að 90% ungra kvenna hér í alþýðulýðveldinu eltist þó enn við þessi óraunhæfu viðmið. Sjálfri finnst henni mikilvægara að kínverskar konur beini sjónum sínum að heilbrigðari lífsstíl, hreyfi sig meira og borði heilsusamlegra fæði. Og vonandi mun aukin menntun kvenna í Kína opna augu þeirra fyrir öðrum mannkostum og tækifærum en þeim sem felast í útlitinu. Þrátt fyrir að náttúruleg fegurð kínverskra kvenna sé augljós öllum sem koma hingað til Kína er staðan því miður sú að sífellt fleiri kínverskar konur fara í róttækar lýtaaðgerðir til að breyta útliti sínu.

MissUniverseChina872

 

Afgangskonurnar í Kína

Í fyrstu greininni hér á blogginu fjölluðum við um áróður kínverskra stjórnvalda á tímum Mao. Áróður sem stjórnunaraðferð lifir enn góðu lífi hér í Kina þar sem stjórnvöld beita ríkisfjölmiðlum fyrir sig og jafnvel ríkisstofnunum og samtökum.

Ógiftar, vel menntaðar konur um þrítugt hafa undanfarin ár verið fórnarlömb slíkrar herferðar þar sem þeim og öðrum í samfélaginu er talin trú um að þær séu að kasta lífi sínu á glæ með því að sinna starfsframanum í stað þess að giftast og eignast börn.

Afgangsstærð

Einhleypum vel menntuðum konum hefur fjölgað undanfarna áratugi hér í Kína. Stúlkur, líkt og drengir, eru hvattar til náms og gríðarleg áhersla er lögð á mikilvægi menntunar fyrir framtíðina. Allt kapp er lagt á að komast inn í góðan háskóla. Þegar svo þessar ungu konur ljúka námi og hefja störf er of stór hluti þeirra einhleypur að mati stjórnvalda.

Ógiftar vel menntaðar konur á framabraut, 27 ára og eldri, eru kallaðar sheng nu eða afgangskonur, í ríkisfjölmiðlum hér í Kína. Sheng í kínversku vísar til afganga eða þess sem er eftir. Enginn vill vera afgangs og þetta hefur því sett gífurlega pressu á þennan hóp kvenna að giftast. Foreldrar þessara ógiftu ungu kvenna vilja heldur ekki eiga afgangsdætur og ýta því á þær að ná sér í eiginmenn og ganga jafnvel enn lengra með því að sækja hjónabandsmarkaði fyrir þeirra hönd. Stefnumótaiðnaðurinn blómstrar sem aldrei fyrr.

Shengnu2

Saga herferðarinnar og líklegar ástæður hennar

Umfjöllun um afgangskonurnar hefur verið áberandi í fjölmiðlum í meira en fimm ár, eða síðan 2007. Eins ótrúlega og það hljómar birtist nafngiftin, sheng nu, þá í grein á vefsíðu All China Women’s Federation (ACWF) en hlutverk stofnunarinnar er að berjast fyrir réttindum og hagsmunum kvenna og stuðla að jafnrétti í landinu. Um svipað leyti var orðasambandið sett inn á orðalista kínverska menntamálaráðuneytisins á netinu. Í kjölfarið tóku fleiri greinar að birtast á vefsíðunni, meðal annars með alls konar leiðbeiningum til þessara kvenna um hvernig þær gætu náð sér í mann. Ríkisfjölmiðlar tóku svo við kyndlinum og hafa haldið honum uppi meira eða minna síðan.

Samkvæmt Leta Hong Fincher, doktorsnema sem er að skrifa bók um þessi mál, birtist fyrsta greinin um afgangskonurnar á vefsíðu ACWF stuttu eftir að ríkisráð Kína setti fram tilskipun um að styrkja skyldi stefnu í íbúa- og fjölskyldumálum í þeim tilgangi að koma til móts við áður óþekkt vandamál á borð við ójafnvægi í kynjahlutfalli og „lítil gæði almennings.“ 

Eins og margir vita þá hafa Kínverjar síðustu áratugi, með örfáum undantekningum, einungis mátt eiga eitt barn. Flestir vilja eignast drengi og því hefur mörgum kvenkyns fóstrum verið eytt. Þetta hefur orðið til þess að karlmenn í landinu eru mun fleiri en konur.

Kínverjar eru duglegir við að skilgreina hlutina og í umræðu um þessi mál er þjóðinni gjarnan skipt í ákveðna gæðaflokka, A, B, C og D þar sem í A flokki er besta fólkið og svo koll af kolli.  Afgangskonurnar tilheyra hæsta gæðaflokki kvenna, þetta eru gáfaðar og vel menntaðar konur í góðum störfum. Í karlaveldinu Kína hefur það tíðkast að karlmenn kvænist niður fyrir sig, þannig að A karlar kvænast til dæmis B konum og B karlar kvænast C konum og svo framvegis. Eftir standa því A konurnar og D karlarnir og þeir hópar passa, samkvæmt umræðunni, ákaflega illa saman.

Tilgangur herferðarinnar var því trúlega, fyrir utan að kynbæta kínverska þjóð, að koma sem flestum í hjónaband bæði til þess að viðhalda ríkjandi karlaveldi og koma festu á sem flesta einhleypa karlmenn, sem væru þá síður líklegri til að taka þátt í uppþotum eða óeirðum. Stjórnvöldum hefur trúlega fundist D karlarnir líklegastir til vandræða og viljað beisla þá.

Ráðleggingar til kvenna

Til að gefa innsýn í umræðuna og þær leiðbeiningar sem konum hafa staðið til boða fylgja hér nokkur dæmi úr greinum sem birtst hafa á vefsíðu ACWF síðan 2007.

Fallegar stúlkur geta gifst inn í ríka og valdamikla fjölskyldu án þess að vera mikið menntaðar en það sama gildir ekki um konur sem eru venjulegar í útliti eða ljótar. Slíkar stúlkur binda vonir við að menntunin auki tækifæri þeirra. Það sorglega er að þær gera sér ekki grein fyrir því að með aldrinum verða konur minna og minna virði svo að þegar þær loks klára meistara- eða doktorspróf þá hafa þær elst og eru orðnar eins og gulnaðar perlur.

Aðalástæða þess að stúlkur verða afgangskonur er sú að þær gera of miklar kröfur í makavali. Ef stúlkur eru ekki of vandlátar ætti það að ná sér í mann að vera jafn auðvelt og að blása í burtu ryki.

Það er bara óskhyggja að leita að manni sem er ríkur, klár, rómantískur og vinnusamur. Er slíkur maður til? Kannski er hann til en hvers vegna í ósköpunum myndi hann þá vilja giftast þér?

Í sumum greinanna má einnig finna ráð til kvenna sem hafa náð sér í mann. Þá er til dæmis kennt hvernig bregðast eigi við framhjáhaldi:

Þegar þú kemst að því að eignmaðurinn heldur framhjá þér er líklegt að þú fyllist mikilli reiði. Þú verður þó að muna að ef þú gerir mál úr þessu þá ertu að gera lítið úr honum … Enginn maður er fær um að vera trúr einni konu, sem aldrei breytist, allt lífið … Reyndu til dæmis að breyta um hárgreiðslu. Konur þurfa sífellt að breytast til hins betra.

Það sem að baki liggur og staðan í dag

Eins og sjá má af þessum dæmum er ungu konunum álasað fyrir að vera of vandlátar í makavali. Málið er þó ekki alveg svona einfalt því niðurstöður nýlegrar doktorsritgerðar Sandy To við Cambridge háskóla benda til að þeim sé hreinlega hafnað vegna þess að körlum standi ógn af þeim. To tók viðtöl við fimmtíu konur í Shanghai og í ljós kom að konurnar ungu vildu langflestar giftast, enda sterk félagsleg krafa um slíkt í Kína. Flestar fundu þær fyrir áðurnefndri höfnun eða þá kröfum frá verðandi maka um að þær þyrftu að breyta sínum lífsháttum, eins og að hætta að vinna þegar þær gengju í hjónaband.

A vendor stands next to wedding dresses during the China International Wedding Expo in Shanghai

Það er því ekki einfalt mál að vera ung og vel menntuð kona í Kína í dag. Skilaboð samfélagsins eru að konur eiga að mennta sig og leggja allt í sölurnar til þess að komast inn í góðan háskóla og svo er starfsframinn næstur á dagskrá. Þær eiga samt sem áður að giftast sem allra fyrst og þá þarf að ná í eiginmann sem er helst með meiri menntun og betri tekjur en þær sjálfar og með svipaðan eða betri félagslegan bakgrunn. Slíkir menn virðast þó alls ekki vera að leita að vel menntuðum konum á framabraut. Ef þeir hafa áhuga gera þeir oft kröfur um að konan fórni starfi sínu. Á sama tíma hljómar í eyrum þessara ungu kvenna sífelldur áróður um að þær séu afgangsafurðir og geri allt of miklar kröfur.

Eins og gefur að skilja hafa margar konur mótmælt þessu óréttlæti. Það er hinsvegar ekki auðvelt að mótmæla opinberlega hér í Kína og því hefur það verið styrkur að vestrænir fjölmiðlar hafa tekið málið upp. Þeir hafa allra síðustu ár fjallað um þessi mál og nýlega voru greinarnar á vefsíðu ACWF fjarlægðar. Vonandi er það skref í rétta átt.

Fjársjóðsleit á kínverska netinu

Póstsendingum frá Kína til Íslands mun hafa fjölgað um 700% í aðdraganda jóla. Flestar þeirra má rekja til kínversku netverslunarinnar AliExpress. Ekki er víst að allir Íslendingar viti að netsíðan tilheyrir kínverska stórveldinu Alibaba Group og að stofnandi þess heitir Jack Ma og er einn ríkasti maður í Alþýðulýðveldinu Kína.

Taobao, eða fjársjóðsleitin sé nafnið þýtt yfir á íslensku, heitir skærasta stjarnan í netheimum Jacks Ma. Netversluninni er gjarnan líkt við Amazon og eBay þótt kínverski netmarkaðurinn sé í raun mun stærri en á Vesturlöndum. Almennt nýtur verslun á netinu gríðarlegra vinsælda meðal Kínverja og í fjölmiðlum hefur komið fram að 60% af öllum póstsendingum innan Kína séu á vegum Alibaba Group.

logo

Segja má að Jack Ma hafi uppgötvað falinn fjársjóð þegar hann stofnaði Taobao sem nú er stærsta netverslunarsíða í heimi. Kína er langstærsti netsölumarkaður í veröldinni og fyrirtæki Alibaba samsteypunnar selja meira en Amazon og eBay til samans. Stór hluti netgreiðslna í Kína fer auk þess í gegnum greiðslugáttina Alipay sem er einnig í eigu Alibaba.

jackma

Milljarðamæringurinn Ma

Jack Ma er fæddur árið 1964 í borginni Hangzhou. Hann féll tvisvar á inntökuprófunum sem skera úr um hvort viðkomandi kemst í háskóla hér í Kína, en í þriðju tilraun árið 1984 fékk hann inngöngu í háskóla í heimaborginni. Hann útskrifaðist með gráðu í ensku árið 1988 og starfrækti í framhaldinu þýðingarþjónustu sem leiddi til þess að honum gafst kostur á að ferðast til Bandaríkjanna árið 1995. Þar komst Jack Ma í fyrsta sinn í kynni við internetið. Þegar hann sneri aftur til Kína kom hann á fót upplýsingasíðu á netinu, á borð við Gulu síðurnar, en á þessum tímum mátti ekki svo mikið sem minnast á internetið í kínverskum ríkisfjölmiðlum. Ma seldi fyrirtækið fljótlega til ríkisrekins fjarskiptafyrirtækis en hóf sjálfur störf við deild innan kínverska viðskiptaráðuneytisins. Þar komst hann í kynni við áhrifamenn sem stýra kínverska internetinu og setja um það reglur. Eftir að hafa safnað reynslu og réttu samböndunum í ráðuneytinu stofnaði Jack Ma í samstarfi við nokkra aðra netvettvanginn Alibaba árið 1999 og fékk til þess styrk frá bandaríska fjárfestingarbankanum Goldman Sachs og japanska SoftBank bankanum. Alibaba var í fyrstu starfrækt á heimili Jacks Ma í Hangzhou en er nú eitt öflugusta einkafyrirtæki í Kína og án vafa eitt hið frægasta.

Sjálfur er Jack Ma mjög þekktur maður í Kína og víðar. Hann þykir nokkuð sérstakur í útliti og miðað við það sem hann hefur sagt í fyrirlestrum sínum gekk honum illa í barnaskóla og var spáð litlum frama. Annað kom á daginn og Ma hefur hlotið margvíslegar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir árangur í viðskiptum. Hann var til dæmis tilnefndur Young Global Leader af World Economic Forum árið 2003, átti sæti á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamestu menn veraldar árið 2009 og í lok síðasta árs hlaut hann heiðursdoktorstitil við Hong Kong University of Science and Technology.

Áhrif Alibaba Group hafa á undanförnum árum teygt sig langt út fyrir landamæri Alþýðulýðveldins Kína og margir hafa dáðst að frumkvöðlinum Jack Ma. Hann er oft til umfjöllunar í erlendum viðskiptamiðlum og hefur flutt fyrirlestra við fræga háskóla á borð við Harvard og Stanford í Bandaríkjunum. Þar hefur hann gantast með þá staðreynd að hann sótti á sínum tíma tíu sinnum um inngöngu í Harvard án árangurs.  Slík er frægðarsól Jacks Ma að í þriggja daga opinberri heimsókn Davids Cameron til Kína í desember síðastliðnum átti breski forsætisráðherrann einkafund með Ma. Samkvæmt bloggsíðu Alibaba mun markmið fundarins meðal annars hafa verið að styrkja stöðu breskra vörumerkja á vettvangi Alibaba og svokölluð selfie mynd sem Cameron birti af þeim köppum á Twitter fór víða.

Baráttan við eftirlíkingar

En umræðan um fyrirtæki Jacks Ma hefur líka oft verið neikvæð. Hæst ber þar gagnrýni á sölu eftirlíkinga á Taobao og öðrum netsíðum á vettvangi Alibaba. Að vísu er það yfirlýst stefna fyrirtækisins að selja ekki óekta vörur og fyrirtækið hvetur alla til að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda. Samsteypan hefur einnig sent frá sér yfirlýsingar þar sem samstarf Alibaba við kínversk yfirvöld í baráttunni gegn sölu á eftirlíkingum er ítrekað. Herferð lögreglunnar í Nanjing í mars á síðasta ári er dæmi um slíka samvinnu en þá leiddu kvartanir til rannsóknar á Taobao verslun sem seldi próteinduft undir vörumerkinu Nutrilite. Eigendur vörumerkisins létu kanna innihaldið og í ljós kom að um eftirlíkingu var að ræða. Lögreglan gerði í framhaldinu upptækar 170.000 dósir af duftinu og var áætlað verðmæti þeirra um 22 milljóna Bandaríkjadala, eða yfir 2,5 milljarðar íslenskra króna. Í öðru slíku áhlaupi lagði lögreglan í Shanghai hald á 20 þúsund snyrtivörur sem seldar voru undir ýmsum þekktum vestrænum vörumerkjum. Virði þeirra var talið um 1,6 milljón dollara, eða 186 milljónir króna, og átta voru handteknir. Alibaba hefur einnig átt í samstarfi við þekkt tískufyrirtæki á borð við hið franska Louis Vuitton með það að markmiði að stöðva sölu á fölsuðum vörum í Kína. Loks má nefna að árið 2012 tóku bandarísk yfirvöld Taobao út af lista yfir sjóræningjasíður og af því tilefni sendu yfirmenn Alibaba frá sér yfirlýsingu og töldu það vera mikilvægt skref í rétta átt.

Þrátt fyrir allt þetta þarf ekki að leita lengi á Taobao eða AliExpress til að finna allkyns eftirlíkingar. Það geta því fylgt því bæði kostir og gallar að selja þekkt vörumerki í Kína eins og þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas hefur reynt, en vörumerkið nýtur mikilla vinsælda meðal Kínverja. Að sama skapi eru kóperingar af vörum fyrirtækisins afar algengar. Fyrirtækið átti lengi í baráttu við ýmsar smásölusíður á Taobao en í nýlegri kínverskri blaðaumfjöllun kemur fram að hjá Adidas hafi fólk hreinlega gefist upp á að eltast við smæstu aðilana og einbeiti sér nú að stærri netbúðum í þeirri von að þeim sé frekar umhugað um góðan orðstír og jákvæðar umsagnir viðskiptavina. Í greininni kemur einnig fram að það virðist þó ekki skipta miklu máli hvað fyrirtæki á borð við Adidas beiti sér hart gegn eftirlíkingum, hætti ein netsíða að selja vöru, þá skjóti hún alltaf upp kollinum einhverstaðar annarsstaðar á Taobao.

Íslenska stoðtækjafyrirtækið Össur hf. er eitt þeirra fyrirtækja sem þarf að glíma við eftirlíkingar á kínverska netinu. Í fyrra uppgötvaðist að á Taobao var rekin sölusíða með merki Össurar þar sem vörur fyrirtækisins voru seldar og því haldið fram að um opinbera sölusíðu fyrirtækisins væri að ræða. Því fór þó fjarri og tókst að stöðva söluna með aðstoð kínverskra lögfræðinga, sem beindu spjótum sínum bæði að söluaðilanum og Alibaba. Vörur frá Össuri hf. eru þó enn í boði hjá hinum og þessum smásölum á Taobao sem hafa engin tengsl við fyrirtækið. Það er því erfitt að meta hvaðan vörurnar koma, þær gætu verið notaðar, þeim gæti hafa verið stolið eða þær keyptar erlendis. Sama gildir í raun um allar aðrar vörur sem eru seldar á Taobao og AliExpress. Sá vettvangur Alibaba sem þykir öruggastur heitir Tmall en þar hafa mörg erlend fyrirtæki sett upp eigin netverslanir. Þó þykir ljóst að Alibaba þarf að setja miklu strangari reglur um sölu á falsvarningi á netsíðum sínum til að tryggja hagsmuni löglegra söluaðila.

Umdeild auglýsing

Í lok síðasta árs beindist sviðsljósið hér í Kína enn og aftur að Alibaba í kjölfar umdeildrar auglýsingarherferðar fyrir Taobao. Þar var ímynd bandaríska mannréttindafrömuðarins Martins Luther King notuð til að auglýsa sérstakan tilboðsdag, 12. desember. Myndband sýndi King veifandi rauðu umslagi, sem er tákn um ríkidæmi og peningagjafir í Kína, hrópandi hin fleygu orð sín I have a dream í átt að risavöxnu peningatré. Í framhaldinu birtist annað rautt umslag sem á stendur eitthvað á þessa leið: Ef þú sáir einu rauðu umslagi, uppskerðu mörg rauð umslög. Ekki er gott að segja hver átti að vera boðskapurinn með þessari auglýsingu og hér er á einkennilegan hátt blandað saman tilbeiðslu á ríkidæmi og peningum, sem á sér sterka hefð hér í Kína, og arfleið hugsjónamanns sem barðist fyrir mannréttindum blökkumanna í Ameríku. Skemmst er frá því að segja að mörgum þótti auglýsingin einstaklega ósmekkleg. Svo mikil umræða varð um málið á kínverskum samfélagsmiðlum að Alibaba sá ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem beðist var afsökunar á ,,menningarlegri ónærgætni”. Ekki var setið við orðin tóm því í kjölfarið var auglýsingaherferðin fjarlægð af netinu.

mlk2_0

mlk1_0

mlk3_0

Á hlutabréfamarkað 

Í maí 2013 ákvað Jack Ma að stíga af stóli sem forstjóri Alibaba, að eigin sögn til þess að hleypa að ferskara blóði. Hann mun þó áfram hafa mest áhrifavald innan fyrirtækisins og undir hans forystu er hafin vinna við að gera Alibaba að alþjóðlegu hlutafélagi. Til stóð að skrá félagið í Hong Kong en í kauphöllinni þar féllu áætlanir Ma um að vera bæði ráðandi í fyrirtækinu, en gera það jafnframt að almenningshlutafélagi, í grýttan jarðveg. Gert var ráð fyrir að Ma sjálfur og 27 aðrir yfirstjórnendur myndu ráða yfir um það bil 10% hlut af fyrirtækinu sem myndi jafnframt tryggja þeim ævilangan rétt til að skipa fólk í stjórn þess. Yfirmenn hlutabréfamarkaðins í Hong Kong bentu á að lög kveði á um að allir hluthafar séu jafn réttháir í hlutafélagi og slíkt væri því ekki gerlegt. Viðbrögð Ma voru þau að draga umsóknina til baka en freista þess í staðinn að skrá félagið á markað í New York. Síðustu fréttir herma að hann vonist nú eftir betri undirtektum á Wall Street. Á meðan situr Jack Ma ekki auðum höndum og hefur meðal annars sést við kynningar á snjallsímaappinu Laiwang sem er nýjusta afurð Alibaba. Uppboð á Taobao á málverki eftir Ma sjálfan í desember var liður í þeirri kynningu og seldist málverkið á 2,4 milljónir kínverskra yuan, eða um 46 milljónir króna, en upphæðin var látin renna til góðgerðarmála. Þótt uppboðið hafi sannarlega beint athyglinni að Laiwang forritinu hefur það þó einnig sætt gagnrýni og þykir líkjast of mikið hinu kínverska WeChat appi, sem hefur átt gríðarlegri velgengni að fagna.

malverk (1)

Hingað til hefur mest af starfssemi Alibaba verið í Kína, þar sem hundruðir milljóna notenda kaupa vörur í gegnum Taobao og Tmall og greiða fyrir vöruna í gegnum greiðslugáttina Alipay á þessu stærsta netmarkaðstorgi veraldar. Að undanförnu hefur fyrirtækið hafið sókn erlendis, meðal annars með því að fjárfesta í netfyrirtækjum á borð við ShopRunner í Bandaríkjunum sem er samkeppnisaðili Amazon. Alibaba hefur einnig fjárfest í bandaríska fyrirtækinu sem stendur að leitarvélinni Quixey. Augljóslega hafa áhrif Alibaba þegar náð til Íslands í formi AliExpress netverslunarinnar og gera má ráð fyrir að töluverður hluti ágóðans af jólainnkaupum Íslendinga í ár hafi runnið í vasa Jacks Ma.

jackma3

Dálítið kínversk jól

Jólin teljast ekki til almennra frídaga hér í Kína enda er talið að innan við tvö prósent kínversku þjóðarinnar aðhyllist kristna trú. Flestir Kínverjar tengja jólin þó ekkert endilega við kristindóminn og margir eru farnir að gera sér dagamun á jólum þótt þau beri upp á hefðbundinn vinnudag. Við höfum líka komist að því að margt ungt fólk skreytir heima hjá sér og setur jafnvel upp jólatré. Einnig verður sífellt algengara að gefnar séu jólagjafir enda eru jólin í alþýðulýðveldinu fyrst og fremst keyrð áfram af verslunarmiðstöðvum sem leggja mikið í jólaskreytingarnar.

DSC_0101

Alþjóðleg veitingahús og hótel taka einnig þátt í gleðinni og víða er boðið upp á sérstakan matseðil í tilefni af jólunum. Í stórmörkuðum er hægt að kaupa jólaskraut og afgreiðslufólkið er stundum með jólasveinahúfur.

IMG_3934

IMG_3930

Kínverska nýárið er stærsta hátíð Kínverja og er hún yfirleitt haldin í lok janúar eða byrjun febrúar í samræmi við tungldagatalið. Jólaljósin fá því víða að loga fram yfir kínversku hátíðahöldin, stundum með örlitlum áherslubreytingum. Verslunarmiðstöðvar sem hvað lengst hafa starfað í Shanghai eru augljóslega farnar að laga sig að þessu umhverfi og jólaskreytingarnar vísa þá jafnvel bæði til nýs árs 2014 og kínverska nýja ársins sem að þessu sinni er ár hestsins. Slagorðið Hold Your Horses er ef til vill skemmtileg tilvísun í að enn sé nokkur bið eftir kínversku nýárshátíðahöldunum sem verða í lok janúar að þessu sinni.

DSC_1235DSC_1254 

Enska orðið christmas þykir ekki alltaf heppilegt þegar talað er um jólahátíðina vegna augljósra tengsla þess við Jesú Krist. Svæði sem heitir Xintiandi og samanstendur af verslunum og veitingahúsum í fallega uppgerðum byggingum er þekkt fyrir líflegar jólaskreytingar hér í Shanghai. Í ár var það breski lýsingarhönnuðinn Paul Cockegde sem skapaði hlýlega hátíðarstemninguna undir slagorðinu Merry Kissmas.

IMG_3980

DSC_0111

Vörumerki ýmisskonar, hvort sem um er að ræða skart, ferðatöskur eða bjór, eru mjög oft hluti af jólaskreytingunum.

IMG_3942

DSC_0062

DSC_0074

Jólaskreytingarnar eru afar vinsælar fyrir myndartökur meðal heimamanna og jafnt börn sem fullorðnir keppast við að stilla sér upp við dýrðina.

DSC_0044

DSC_1244

Gamlir siðir og venjur eru stór hluti af jólahátíðahöldunum á Íslandi og víðar. Slíkar jólahefðir eru að sjálfsögðu ekki til hér í Kína og þess vegna er mesta furða hvað hátíðin fær mikla athygli. Vissulega má tengja áhugann við aukna neyslu í kínversku samfélagi en í spjalli við innfædda hér í Shanghai höfum við þó ekki síður fundið að stórborgarbúarnir eru í leit að tækifærum til að gleðjast með vinum og fjölskyldu. Og kannski má segja að hinn eiginlegi andi jólanna sé einmitt þá til staðar þegar fólk kemur saman yfir góðum mat, skiptist á gjöfum og nýtur samverunnar.

DSC_0066

Við sendum öllum lesendum bloggsins bestu óskir um gleðileg jól. Sheng dan kuai le!

merrychristmas

Lykill að kínversku: Pinyin

Hvort heitir höfuðborgin í Kína Peking eða Beijing? Og hvers vegna er stundum skrifað Mao Tse-tung en annars staðar Mao Zedong? Er rétt að skrifa Sjanghæ eða heitir borgin einfaldlega Shanghai? Ekki er ólíklegt að þeir sem fylgjast með málum í Kína velti slíkum spurningum einhverntíma fyrir sér.

Kínverskum nöfnum er stundum fundinn íslenskur ritháttur í þeirri trú að annars sé verið að apa upp eftir ensku. Algengt er að sjá skrifað Sjanghæ eða Sjanghaí og í íslensku er nokkur hefð er fyrir því að skrifa nafn Mao með ó. Nöfn nokkurra kínverskra borga, eins og til dæmis Peking og Kanton, hafa fest sig í sessi í íslensku. Rithátturinn er þó ekki í samræmi við þann sem nú er notaður í Kína, sem myndi vera Beijing og Guangzhou.

Það er nefnilega engin tilviljun hvernig kínverska er skrifuð með latnesku letri og byggir það á kerfi sem kallast Hànyǔ pīnyīn, eða einfaldlega pinyin. Kerfið er notað við lestrarkennslu í kínverskum barnaskólum og flestir Kínverjar nota pinyin til að skrifa á tölvur og senda textaskilaboð í síma. Pinyin er einnig notað til að stafa kínversk nöfn í erlendum útgáfum og kærkomið hjálpartæki fyrir útlendinga sem eru að læra kínversku.

Að lesa tákn

Í kínversku hefur hvert orð sitt eigið tákn sem segir þó ekki til um hvernig á að segja orðið. Kínversk tákn fela sem sé ekki í sér hljóðmyndir sem þýðir að ekki er hægt að vita hvernig orð hljómar með því að horfa á hvernig það er skrifað. Þetta skapar erfiðleika því þegar fólk þekkir ekki erfið tákn hefur það einfaldlega ekki hugmynd um merkinguna. Pinyin breytir þessu og gerir fólki kleift að stafa sig fram úr kínversku með því að nota latneska bókstafi. Á þann hátt er hægt að lesa hvernig á að segja orðið líkt og við erum vön að gera í íslensku og skyldum tungumálum.

Áður en pinyin kerfið kom til sögunnar höfðu verið gerðar ýmsar tilraunir til að gera kínversk tákn læsileg, margar þeirra af vestrænum mönnum. Útgáfa portúgalsk-kínverskrar orðabókar frá 16. öld er oft nefnd í þessu samhengi sem og þýðingar sem eiga rætur að rekja til erlendra kristniboða í Kína. Það var þó ekki fyrr með aðferðum pinyin sem tókst að breiða út almenna lestrarþekkingu í Kína og raunar voru það kommúnistar sem lyftu þessu grettistaki í byrjun valdatímans.

Höfundur pinyin kerfisins heitir Zhou Youguang. Uppfinning hans olli byltingu í lestrarkunnáttu kínversku þjóðarinnar, gerði mandarín kínversku að þjóðtungu í Kína og hefur á síðustu árum sannað gildi sitt enn frekar sem mikilvægt hjálpartæki á tölvuöld. Þótt ótrúlegt sé er Zhou, sem er fæddur árið 1906, enn til frásagnar um hvernig pinyin kerfið kom til sögunnar og hefur á undanförnum árum verið óhræddur við að tjá sig frjálslega um menn og málefni, oft í óþökk kommúnistastjórnarinnar.

Faðir Pinyin

Zhou_Youguang_1920sZhou Youguang er oft nefndur faðir pinyin hér í Kína. Sjálfur hefur hann sagt að hann líti miklu fremur á sig sem son pinyin. Hann hafi einfaldlega byggt ofan á þekkingu sem þegar var til staðar en strax sem ungur maður varð hann mjög áhugasamur um tilraunir annarra til að gera kínversk tákn læsileg. Áhugamálið mótaði þó ekki feril hans í fyrstu því hann lagði stund á nám í hagfræði og fluttist síðan til Bandaríkjanna þar sem hann starfaði við kínverskan banka í New York. Eins og svo margir ungir Kínverjar sem höfðu hlotið góða menntun og reynslu erlendis sneri hann vongóður til heimalandsins eftir valdatöku kommúnista. Unga fólkið vildi leggja sitt af mörkum við uppbyggingu hins nýja Kína og grunaði á þeim tíma ekki hvað biði þess undir ógnarstjórn Mao formanns.

Fljótlega eftir heimkomuna frá Ameríku upp úr 1950 komst Zhou að því að lítil eftirspurn var eftir hagfræðiþekkingu hjá hinum nýju stjórnvöldum í Kína. Hann hefur sagt að líklega hafi það orðið honum til lífs því margir félagar hans sem reyndu að hafa áhrif með fræðiþekkingu sinni týndu fljótt lífi eða voru færðir í fangabúðir. Yfirvöld höfðu aftur á móti mikinn áhuga á að stuðla að sameiginlegri þjóðtungu allra Kínverja. Fjölmörg ólík tungumál og mállýskur eru til í Kína og á þessum tíma var engin ein tunga sem öll þjóðin skildi. Eitt af því sem ákveðið var að gera til að styrkja mandarín kínversku í sessi var að einfalda táknmálið og finna upp einhverskonar hljóðstafróf. Vegna gamalla kynna Zhou Youguangs við Zhou Enlai, helsta samstarfsmanns Mao formanns, vissu ráðamenn af áhuga og þekkingu Zhou Youguangs á tungumálafræðum. Hann var því beðinn um að taka að sér formennsku í nefnd sem var ætlað að efla tungumálakunnáttuna í landinu með því að finna upp heppilega hljóðskrift.

Pinyin kerfið var fullskapað árið 1958 og stuðlaði strax að miklum breytingum á lestrarkunnáttu kínversku þjóðarinnar. Áður en pinyin kom til sögunnar er talið að um 80% almennings í Kína hafi verið ólæs. Átak kommúnistastjórnarinnar í menntamálum, einföldun táknskriftarinnar og innleiðing pinyin eru talin hafa leitt til þess að ólæsi fór á nokkrum áratugum niður í 10%. Ekki eru þó allir sammála um áreiðanleika tölfræðinnar.

Maður með skoðanir

Afrek Zhou Youguang og félaga sem sköpuðu pinyin er óumdeilt sem þýðir þó ekki að Zhou hafi verið hampað sem hetju í gengum tíðina. Þótt hann slyppi við fyrstu hreinsanir kommúnistastjórnarinnar var hann eins og flestir menntamenn sendur í sveitina í menningarbyltingunni. Á síðustu árum hefur kínverskum yfirvöldum þótt Zhou Youguang til nokkurra vandræða því hann hefur verið duglegur að koma hugleiðingum sínum á prent. Eftir aldarafmælið árið 2006 hefur hann gefið út tíu bækur þar sem hann hefur meðal annars talað fyrir auknu lýðræði í Kína og hafa sum rit hans verið bönnuð. Hvað sem því líður hélt kínverska ríkissjónvarpið upp á fimmtíu ára afmæli pinyin árið 2008 með því að gera þátt um Zhou, þá 102 ára að aldri.

Nokkur viðtöl við Zhou Youguang hafa einnig birst í vestrænum fjölmiðlum á síðustu árum, m.a. í Guardian og New York Times. Þar liggur Zhou ekki á skoðunum sínum og hefur meðal annars sagt að kínverska þjóðin trúi ekki lengur á kommúnistaflokkinn og að hann telji að flestir menntamenn í Kína séu talsmenn lýðræðis. Gamli hagfræðingurinn er heldur ekki sannfærður um kínverska efnahagsundrið, segir að þar sé ekkert kraftaverk á ferðinni og hefur því til stuðnings bent á að þjóðarframleiðsla á íbúa sé til að mynda aðeins einn tíundi af því sem er í Tawain. Zhou hefur líka sagt að uppgangurinn hafi kostað of miklar fórnir, laun séu lág og náttúran stórskemmd. Og eftir að hafa fylgst með þróun mála í Kína í meira en öld er það hans skoðun að Kína sé nú menningarleg eyðimörk. Hann gagnrýnir kommúnistaflokkinn fyrir hversu hart var ráðist gegn kínverskri menningu eftir valdatökuna 1949 og að ekkert hafi fyllt skarðið nema tómarúm. Zhou gefur líka lítið fyrir stuðning almennings við flokkinn enda sé ekkert hægt að segja til um hann í dag því fólk hafi ekki frelsi til að tjá sig. Það þarf því ekki að vekja furðu þegar hann segir frá því að hann hafi eitt sinn á síðustu stundu verið afboðaður í opinbera móttöku allra æðstu yfirvalda í Peking. Ástæðan var sögð slæmt veður.

Zhou Youguang varð 108 ára gamall í janúar á þessu ári og er samkvæmt nýjustu heimildum enn í fullu fjöri. Hann skrifar mikið og heldur meðal annars úti bloggsíðu: http://blog.sina.com.cn/zhouyouguang. Hans helsti aðstoðarmaður er 79 ára gamall sonur hans sem hefur sagt frá því að bloggsíðan sé ritskoðuð og öll ummæli sem styðja bloggið hverfi þaðan jafnharðan. Neikvæðar athugasemdir fái aftur á móti alltaf að standa.

hanyu-pinyin-master

Pinyin og kínverskunám

Pinyin kerfið hjálpar ekki aðeins útlendingum að læra kínversku heldur líka kínverskum börnum að læra að lesa og skrifa í fyrstu bekkjum grunnskólans. Þeir sem alast upp við að tala mállýskur nota pinyin til að læra hvernig á að bera fram orð á staðlaðri kínversku, þ.e. mandarín kínversku eða putonghua eins og hún er kölluð hér í alþýðulýðveldinu og mætti þýða sem tungumál alþýðunnar.

Tilgangurinn með pinyin hefur aldrei verið að koma í staðinn fyrir kínversku táknskriftina heldur var markmiðið að auðvelda fólki að læra að lesa. Eins og Zhou Youguang hefur bent á eiga táknin sér djúpar rætur í árþúsunda sögu Kína og hann hefur spáð því að Kínverjar muni nota táknin í það minnsta 500 ár enn. Zhou hefur jafnframt sagt að hann telji ekki að mandarín kínverska muni senn taka við af ensku sem heimstungumál, til þess hafi enska að hans mati of mikið forskot.

Þeir eru þó ófáir útlendingarnir sem vilja læra kínversku í dag og hugsa þá gjarnan til framtíðar. Rithöfundurinn Adeline Yen Mah er ein þeirra sem vakið hafa máls á mikilvægi pinyin við kínverskukennslu. Hún hefur staðið að þróun tölvuleiks þar sem hægt er að æfa sig í kínversku með hjálp pinyin. Appið, PinYinPal, fæst frítt á iTunes fyrir iPad og tölvur.

Adeline Yen Mah er fædd á meginlandi Kína en flutti þaðan ellefu ára gömul, nam læknisfræði í Englandi en hefur lengst af starfað við ritstörf þar og í Bandaríkjunum. Kínversk saga og menning, kínverska tungumálið og bætt samskipti milli austurs og vesturs eiga hug hennar allan. Hún hefur skrifað fjölmargar bækur um málefnið, bæði fyrir börn og fullorðna, og staðið að ýmsum verkefnum sem hafa það að markmiði að efla tengsl og skiling milli þessara ólíku heimshluta. Áhugi Adeline á pinyin kerfinu varð til þess að hún heimsótti hinn 108 ára gamla Zhou Youguang til Peking fyrr á þessu ári. Hún birti í kjölfarið stutt myndskeið um heimsóknina á Youtube. Hún heimsótti einnig bókabúðir í borginni og vekur máls á því að pinyin sé of lítið notað í kínverskum kennslubókum. Adeline er þeirra skoðunar að nauðsynlegt sé að efla kínverskukennslu með því að nota til jafns tákn, pinyin og ensku. Aukinn tungumálaskilningur muni á endanum efla samkennd milli ólíkra heimshluta og sameina heimsbyggðina eins og hún kemst sjálf að orði.

Þótt Zhou Youguang sé sannfærður um að kínversku táknin verði við lýði lengi enn er ljóst að pinyin er mikilvæg viðbót við kínverskunám, bæði hér í Kína og erlendis. Sú staðreynd að nær óhugsandi er að nota nútímatækni eins og tölvur og snjallsíma án pinyin gæti bent til þess að gamla kínverska ritmálið muni eiga undir högg að sækja er fram líða stundir. Þó má allt eins vera að eitthvað algjörlega nýtt komi til sögunnar með framtíðartækni. En ennþá er pinyin besta tækið sem við útlendingarnir höfum til að skilja kínversk orð. Í því samhengi er mikilvægt að samræma rithátt kínverskra orða í íslensku samkvæmt því sem er opinberlega viðurkennt hér í Kína og aðrar þjóðir styðjast við. Annars gæti orðið óþarflega snúið fyrir Íslendinga að finna réttu leitarorðin í upplýsingaleit um Kína á netinu og víðar.

Mengun á heimsmælikvarða

Hreint loft mun hafa mikil áhrif þegar gerðar eru mælingar á hamingju þjóða. Íslendingar eru svo lánsamir að búa við eitt hreinasta andrúmsloft í heimi en hér í Kína er svo komið að hreint loft er ekki lengur sjálfsagður hlutur. Mælingar á loftmengun eru hluti af daglegu lífi í Shanghai og undanfarna daga hefur mengunin sprengt alla viðmiðunarkvarða.

Sem betur fer vita fæstir hvernig svo mikil mengun lítur út né hvernig upplifunin er. ,,Nú stíg ég út á hættusvæði!” kallaði ungur sonur annarrar okkar í morgun þegar hann opnaði útihurðina á heimilinu og hélt út í daginn. Úti fyrir fitjaði hann upp á nefið og líkti lyktinni við þefinn af reyktu kjöti. Því miður er ekkert jólalegt við þá hangikjötslykt.

Við höfum áður skrifað grein um mengunina í Kína hér á blogginu en á degi sem þessum er einfaldlega ekkert annað sem kemst að í huga manns. Því birtum við hér nokkrar myndir sem við tókum í dag og tala sínu máli um ástandið.

DSC_1182

DSC_1220

photo-17

DSC_1221

DSC_1218

photo-18

DSC_1199  DSC_1173  DSC_1226

DSC_1251

DSC_1210

photo

DSC_1231

Kynt undir kaupæði

Kínverjar með fulla vasa fjár ferðast um heiminn og kaupa merkjavöru. Á þessum nótum er oft fjallað um kaupgetu kínverskra ferðamanna; þeir fylla Harrod’s í London, standa í biðröð fyrir utan Louis Vuitton í París og kæta kaupmenn í Kaupmannahöfn. Af þessu mætti draga þá ályktun að skortur sé á nútímalegum vörum í Kína en því fer þó fjarri og í kínverskum stórborgum, eins og hér í Shanghai, fjölgar glæsilegum verslunarmiðstöðvum og alþjóðlegum verslunum með undraverðum hraða.

IMG_1230

Til marks um hraðann þarf ekki að líta lengra aftur en til ársins 2007 þegar önnur okkar flutti hingað til Kína. Á þessum tíma flæddu Range Rover bílarnir út á göturnar í Reykjavík og á Saga Class sátu bjartsýnir Íslendingar klæddir í flotta merkjavöru sem þeir keyptu í London og New York, eða jafnvel bara í Kringlunni eða á Laugaveginum. Í samanburði við vestrænar allsnægtir var vöruúrvalið í stórborginni Shanghai fátæklegt árið 2007. Það gat verið erfitt að finna góð barnaföt, föt í vestrænum stærðum voru ekki sjálfsagður hlutur og nánast ómögulegt var að finna kvenskó stærri en númer 38. Á stöku stað í borginni glitti þó í flotta búðarglugga hátískumerkja á borð við Chanel og Gucci en úrval af venjulegum varningi var afar óspennandi fyrir okkur Vesturlandabúana. Flestar verslunarmiðstöðvar voru enn nokkuð “alþýðulýðveldislegar.“ Við vörukaup fékk maður til dæmis afhentan handskrifaðan miða í viðkomandi verslun og fór með hann á miðlægan kassa. Þar greiddi maður fyrir vöruna hjá sviplausum og einkennisklæddum gjaldkera, sneri síðan aftur í verslunina og fékk þá vöruna afhenta gegn því að framvísa greiðslukvittuninni sem gjaldkerinn var búinn að stimpla með rauðu tákni; greitt!

DSC_1071

IMG_3627

Nú, árið 2013, eru verslunarmiðstöðvarnar hér í Shanghai orðnar óteljandi og af ýmsum gerðum. Sumar þeirra minna meira á Disneyland en verslunarhús og aðrar eru meðal þeirra allra flottustu í heimi enda er veðjað á Shanghai sem eina af helstu tísku- og verslunarborgum framtíðarinnar. Á þeim rúma áratug sem liðinn er síðan fyrstu erlendu hátískufyrirtækin hófu að selja lúxusvarning í Kína hefur slíkum verslunum fjölgað svo hratt að erfitt er að henda reiður á tölu þeirra í fljótu bragði.

DSC_1090

DSC_1171

Innrás ódýrari vörumerkja frá Vesturlöndum hófst svo eftir að gerðar voru breytingar á kínversku verslunarlögunum árið 2005 og Kínverjar fengu fulla aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Þar með skapaðist betri grundvöllur til verslunarreksturs í Kína fyrir alþjóðlegar verslunarkeðjur. Í kjölfarið hafa búðir sem selja ódýrari tískufatnað rutt sér leið inn á kínverskan markað. Sem dæmi opnaði Zara sína fyrstu búð árið 2006, H&M ári síðar og GAP árið 2010. Til marks um hraða markaðssetningarinnar má nefna að aðeins fimm árum eftir að fyrsta H&M búðin var opnuð í Shanghai voru búðirnar orðnar eitt hundrað á landsvísu.

IMG_1228

DSC_1214

DSC_1095

Enn er tiltölulega lítið um að vera í öllum þessum flottu búðum, sérstaklega þeim allra dýrustu. Hagstæðara er fyrir Kínverja að versla í útlöndum því kínversk yfirvöld leggja háa tolla og gjöld á vörurnar. Það gæti þó átt eftir að breytast því stjórnvöld hafa markviss reynt að ýta undir persónulega neyslu í landinu til að halda uppi hagvexti, meðal annars með því að fjölga frídögum og opna fyrir verslun erlendra fyrirtækja. Þótt enn sé langt í land að allar þessar búðir komist á flug er augljóst að enginn kaupmaður vill missa af ævintýrinu þegar það hefst fyrir alvöru!

DSC_1079

Myndirnar tala sínu máli en þær höfum við tekið í verslunarmiðstöðvum víðsvegar um Shanghai á síðustu vikum.

IMG_3606

DSC_1198

DSC_1085

DSC_1104