Í hæstu hæðum

Þegar önnur okkar var á ferðalagi um Toskana héraðið á Ítalíu nýlega voru rifjaðar upp sögur af ríkum fjölskyldum í bænum San Gimignano sem kepptust á miðöldum við að byggja sem hæsta turna. Þær sýndu mátt sinn og megin með því að byggja hærri turn en óvinurinn eða nágranninn. Til að gera langa sögu stutta voru í þessum litla bæ í lok miðalda um 72 turnar, allt upp í 50 metra háir. Á endanum þurfti að grípa í taumana og setja mörk á hæð húsa. Turnarnir gerðu ásýnd bæjarins úr fjarska ógleymanlega, sem hljómar óneitanlega kunnuglega fyrir Shanghaibúa.

Í Kína rísa nú háhýsin hvert á fætur öðru.

dscf3968b

Shanghai World Financial Center (492 metrar) er hæsta bygging í Kína og fjórða hæsta bygging veraldar á eftir Burj Khalifa í Dubai (828 metrar), Makkah Royal Clock Tower Hotel í Mecca (601 metri) og Taipei 101 í Taipei (508 metrar). Möstur og útsýnisturnar eru þá ekki talin með. Til samanburðar má nefna að hæsta bygging Íslands, turninn við Smáratorg, er 77,6 metra hár svo hæsta bygging heims er rúmlega 10 sinnum hærri en okkar hæsta hús.

Mynd2

En hlutirnir breytast hratt í henni veröld og ekki síst í Kína því nú er að rísa enn hærri bygging við hlið SWFC, Shanghai Tower, sem verður annað hæsta hús í heiminum þegar byggingu hennar lýkur á næsta ári, eða 632 metrar með hæsta útsýnispalli veraldar og hraðskreiðustu lyftum í heimi. Kostnaðurinn við bygginguna er áætlaður um 300 milljarðar íslenskra króna.

shanghaitower

Shanghai Tower verður þó ekki lengi hæsta byggingin í Kína því nú þegar er verið að byggja tvær hærri í Wuhan og Shenzhen og tvær til viðbótar eru fyrirhugaðar.

Sky City í Changsha í Hunan héraði er önnur af þessum fyrirhuguðu byggingum. Undirbúningsframkvæmdir hófust í sumar og á húsið að verða það hæsta í heimi, eða 838 metrar. Það sem er sérstakt við þá byggingu er byggingarhraðinn, því til stóð að klára hana á 10 mánuðum.

sky-city-renderings3Fyrirtækið sem byggir Sky City er þekkt fyrir að nota ákveðna tækni, þar sem fyrst eru framleiddir stál- og steypukubbar í verksmiðju sem svo er raðað saman á byggingastað, ekki ólíkt legókubbum. Með þessari tækni byggði fyrirtækið fimmtán hæða hótel á sex dögum árið 2010 og þrjátíu hæða hús á fimmtán dögum ári síðar.

Aðeins nokkrum dögum eftir að framkvæmdir á Sky City hófust voru þær stöðvaðar vegna skorts á tilskildum leyfum en áður höfðu margir látið í ljós efasemdir um öryggi byggingarinnar. Ekkert hefur heyrst af málinu síðan og áhugavert verður að fylgjast með því hvort Sky City verður að veruleika.

Af tíu hæstu byggingum í smíðum í heiminum í dag eru sjö í Kína. Það er því ekkert lát á byggingu háhýsa hér og greinilegt að Kínverjar leggja mikið upp úr því að byggja mikið og hátt. Hvort þeir eru að sanna mátt sinn og megin með þessu móti líkt og Ítalirnir forðum skal ósagt látið en hún er skondin sagan af Kínverjanum sem kom til Íslands í vinnuferð árið 2007 og hélt að landið væri mjög fátækt því húsin væru svo lágreist.

Hús af ýmsum gerðum

Mannlíf og hlutir endurspegla sögu landa en það gerir einnig húsagerðin. Þótt Shanghai sé ein frægasta og stærsta borg Kína telst hún þó ekki til hefðbundinna sögustaða. Í landi þar sem sagan er mæld í þúsundum ára þykir saga borgarinnar stutt. Síðustu tvö hundruð ár hafa þó verið afar viðburðarrík í Shanghai. Eins og eftirfarandi myndir og textar bera með sér má lesa í kínverska sögu og menningu með því að skoða fjölbreytilega byggingargerðina.

DSC_0239

Kínahverfið

yuyuan1Sögu byggðar í Shanghai má rekja aftur til 13. aldar. Bærinn lá þétt við árbakka Huangpu árinnar og innan borgarmúranna myndaðist samfélag sem snemma varð þekkt af verslun. Viðskipti eru enn í dag aðall borgarinnar og því má kannski segja að það sé við hæfi að elsti hluti hennar hafi verið byggður upp sem verslunarhverfi. Þótt ferðamenn sem heimsækja gamla bæinn í Shanghai sjái merki um fornar kínverskar byggingarhefðir var mest af svæðinu byggt upp skömmu eftir 1990. Sumir ganga svo langt að tala í þessu samhengi um stærsta China Town í heimi.

DSC_0831

Franska hverfið

Útlendingar öðluðust yfirráð yfir ýmsum svæðum í Kína eftir að svokölluðu Ópíumstríði lauk árið 1842, meðal annars í Shanghai. Tveir borgarhlutar frá þessum tíma eru enn vel þekktir: Alþjóðlega byggðin (International Settlement) og franska hverfið (French Concession). Uppbygging og saga svæðanna nær allt fram undir stofnun Alþýðulýðveldisins árið 1949 og þrátt fyrir mikið niðurrif á síðustu árum má enn finna fjölmargar byggingar í evrópskum stíl. Frá þessum tíma eru líka hin svokölluðu Lilong-hús sem þýða mætti sem „íbúðir í kringum húsasund“. Húsasundin voru byggð í ýmsum útgáfum, stundum sem einbýlishúsahverfi, stundum sem fjölbýlishúsabyggð. Þau setja enn mikinn svip á Shanghai, ekki síst í franska hverfinu. Ásýnd húsanna hefur þó breyst því nær öllum húsum var skipt upp við valdatöku kommúnista. Þannig búa nú fjölmargar fjölskyldur í húsum sem áður hýstu jafnvel bara eina fjölskyldu. Viðhaldi er víða ábótavant en þrátt fyrir það býr hverfið enn yfir miklum sjarma og þeim íbúðarhúsum fjölgar sem gerð hafa verið upp í sinni upprunalegu mynd.

DSC_0840

DSC_0822

Fjármálahverfið

Eftir að Deng Xiaoping opnaði á nýja möguleika í Kína upp úr 1990 og sagði þjóðinni að það væri gott að græða peninga hefur ásýnd kínverskra borga breyst svo mikið að margar þeirra eru nær óþekkjanlegar. Útlínur háhýsabyggðarinnar á Pudong svæðinu í Shanghai eru ein frægasta táknmynd nýrra tíma. Sjónvarpsturn kenndur við perlu og þrenning húsa sem öll eru meðal hæstu húsa veraldar ber þar hæst. Uppbygging borgarhlutans hefur verið ógnarhröð, fyrir rúmum tuttugu árum var þar enn akurlendi. Myndir af skýjakljúfunum í Pudong breytast því stöðugt en með byggingu nýjasta turnsins, sem jafnframt verður sá hæsti í Kína, er ásýndin smám saman að taka á sig endanlega mynd. Í Pudong er fjármálamiðstöð Alþýðulýðveldins, þ.e. einskonar Wall Street þeirra Kínverja og hér var fyrir skemmstu opnað fríverslunarsvæði. Markmiðin eru háleit og eflaust er ætlunin að gera Shanghai að einni af stærstu fjármálamiðstöðvum heims.

DSC_0377

Hvíta kanínukaramellan frá Shanghai

Saga Kína spannar þúsundir ára sem engin leið er að gera skil í stuttum texta. Það má þó reyna að varpa ljósi á atburðarásina og tíðarandann með því að segja sögu hlutanna. Kínverska kanínukaramellan White Rabbit endurspeglar til dæmis ágætlega þær miklu breytingar sem orðið hafa á kínversku samfélagi á síðustu áratugum. Lengst af var hún talin hið besta hátíðargóðgæti en nú þykir flestum hún frekar gamaldags. Endurkoma karamellunnar virðist þó ekki útilokuð eins og við komumst að.

white_rabbit_candies

Mjólk er uppistaðan í hvítu karamellunni en framleiðsla hennar hófst árið 1943 í Shanghai. Mynd af hinum ameríska Mikka mús prýddi í upphafi umbúðirnar enda var borgin þá eitt af mörgum svæðum í Kína sem laut stjórn útlendinga. Þó var stutt í að alþjóðlegu blómaskeiði borgarinnar lyki, heimsstyrjöldin síðari og uppgangur kommúnista voru um það bil að breyta lífi borgarbúa til framtíðar.

Árið 1949 lýsti Mao formaður yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Ameríkaniseraðar umbúðir kanínukaramellunar þóttu ekki lengur við hæfi og leitað var að þjóðlegri táknmynd. Hvít kanína varð fyrir valinu og hefur vörumerkið haldist nær óbreytt síðan.

Margt er á huldu um afdrif karamellunnar næstu árin eins og svo margt annað í sögu landsins undir stjórn formannsins. Karamelluframleiðslan virðist þó hafa lifað af erfiða tíma og heimildir benda til þess að varan hafi einnig verið flutt út til annarra landa. Ljóst er að kanínukaramellan var um langt skeið meðal vinsælustu sælgætistegunda í Kína. Hún þótti ómissandi á kínverskum veisluborðum, ekki síst þegar mikið lá við eins og á vorhátíðinni (kínverska nýárinu) og við brúðkaup. Þótti hún bera vitni um góðan smekk gestgjafans og ríkidæmi.

Skömmu eftir dauða Mao formanns tók við valdatímabil Deng Xiaoping þar sem hlið Kína gagnvart umheiminum tóku að opnast á ný. Kanínukaramellan kynntist nú harðri samkeppni við nýjar tegundir og erlend vörumerki. Síðan hafa vinsældir kanínukaramellunnar dalað og nú tengja flestir Kínverjar hana fyrst og fremst við gamla tíma.

goldenrabbit2Framleiðslan hélt samt velli og árið 2007 var aukinni samkeppni mætt með því að fríska upp á útlit og vörumerki karamellunnar. Í samræmi við óbilandi trú Kínverja á velgengi alls þess sem er gyllt og glóir var nafninu breytt í Golden Rabbit og karamellunni vafið inn í gylltar umbúðir. Framleiðslu White Rabbit var þó einnig haldið áfram.

Ári síðar féll stór skuggi á ímynd karamellunnar þegar gerð var rannsókn á framleiðslunni í tengslum við mjólkurduftshneykslið mikla sem olli veikindum tugþúsunda kínverskra ungbarna og dró nokkur til dauða. Líkt og í ungbarnamjólkurduftinu fannst melamín í mjólkinni sem hafði verið notuð við karamellugerðina. Kanínukaramellur voru í kjölfarið fjarlægðar úr hillum verslana um allan heim og á heimamarkaði dró fyrirtækið sig í hlé um tíma. Karamellan kom aftur á markað árið 2009, þá framleidd úr mjólk frá Nýja-Sjálandi.

Til að freista þess að meta stöðu kanínukaramellunnar í kínversku nútímasamfélagi ákváðum við að spyrjast aðeins fyrir meðal unga fólksins hér í Shanghai. Fyrir valinu varð að heimsækja stóran vörumarkað því þar vinnur ungt fólk sem flest kemur úr öðrum héruðum og hefur sýn á tvo heima ef svo má segja. Undantekningarlaust þekktu allir karamelluna og sögðu hana minna á barnæskuna (hjá flestum árin á milli 1970-90). Þeim fannst hún mjög gamaldags og sögðust ekki sjá hana oft í búðum. Þegar við spurðum hvort þau myndu velja að kaupa hana ef hún biðist neituðu því flestir.

IMG_3548

Svo skemmtilega vildi til að daginn áður hafði ung kona sem þarna vinnur og er nýbúin að eignast barn deilt út pokum með sælgæti. Í þessum litla poka sem jafnframt flutti á tveimur tungumálum boðskap um að barnið væri drengur var meðal annars að finna kanínukaramellur! Hvort þar var hefðinni fyrir að þakka eða hrein nostalgía er ekki gott að segja. Eða gæti verið að kanínukaramellan í sínum upprunalega búningi sé einfaldlega orðin “retro” og þar af leiðandi smart á ný?

IMG_3528

Kanínukaramellan í fjölbreyttum félagssskap nýrra tegunda í nammilandi stórmarkaðar í Shanghai í október 2013.

IMG_3533

Gyllt vika veldur vandræðum

Í dag hóf kínverska þjóðin störf á ný eftir afar viðburðarríka gyllta viku, en svo er hún kölluð frívikan sem yfirvöld hafa fyrirskipað í kringum þjóðhátíðardaginn. Með því að safna saman opinberum frídögum, hreyfa til virka vinnudaga og vinna um helgar í staðinn fær meginþorri kínverskra launþega vikufrí sem þeir nýta gjarnan til ferðalaga. Þetta óvenjulega fyrirkomulag frídaga hefur nú leitt til hálfgerðs óreiðuástands í landinu.

crowd2

Helgidagahagfræði

Í kjölfar efnahagskreppu í Asíu fyrir rúmum áratug ákváðu kínversk stjórnvöld að kynda undir efnahag landsins með því að fjölga almennum frídögum. Meðal annars var ákveðið að búa til frí í tengslum við þjóðhátíðardaginn og var það nefnt gyllta vikan. Upphaflega snerist hugmyndin um að fólk tæki sér frí, slappaði af og hefði þar með tíma til að eyða peningum sem kæmi efnahagslífinu til góða.

Fyrstu árin leiddu aukin frí til þess að persónuleg neysla jókst og fyrirtæki í verslun og ferðaþjónustu möluðu gull á ótrúlega skömmum tíma. Í þessu samhengi hefur hugtakið “holiday economy“ verið notað eða það sem kalla mætti helgidagahagfræði, til að lýsa ástandinu sem skapast þegar milljónir Kínverja halda af stað í ferðalag, allir á sama tíma, til að skoða sig um í veröldinni og versla.

Fljótlega fór þó að bera á neikvæðum áhrifum þessarar nýju hagfræði. Í samræmi við aukna kaupgetu kínversku þjóðarinnar hefur ferðagleðin aukist meira en samfélagið ræður við. Fréttir af umferðaröngþveiti, yfirfullum almenningssamgöngutækjum og óskiljanlegri mannmergð á helstu ferðamannastöðum ber nú hæst í umræðunni um gylltu vikuna. Auk þess er kvartað yfir stjórnlausu verðlagi þar sem til dæmis verð aðgöngumiða í söfn og þjóðgarða er hækkað á þessum dögum. Þá lýsa æ fleiri fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum yfir óánægju með fyrirkomulagið.

forbiddencitycrowd

Himinháar ferðamannatölur

Fjöldi fólks á faraldsfæti í gylltu vikunni er gríðarlegur og eykst frá ári til árs. Sem dæmi um himinháar tölur kínverskra ferðamanna innanlands má nefna að 2. október síðastliðinn heimsóttu 175 þúsund manns keisarahöllina í Beijing en hingað til hafa heimsóknartölur verið takmarkaðar við 80 þúsund manns á dag. Forráðamenn hallarsafnsins sáu sig hins vegar knúna til að halda áfram að selja miða til að forðast uppnám meðal fjöldans.

Sama dag heimsóttu 80 þúsund ferðalangar vinsælu ferðamannaeyjuna Gulangyu í suðausturhluta Kína. Ef allt væri eins og á verður kosið hefði fjöldinn verið 30 þúsund enda eyjan ekki nema 1,87 ferkílómetrar að flatarmáli, eða svipuð að stærð og Viðey.

Undir lok vikunnar ákváðu yfirmenn þjóðgarðs í Sichuan-fylki að fara að tilmælum yfirvalda og hætta miðasölu þegar viðmiðunarmörkum um 41 þúsund gesti á dag var náð. Það gerðist þó ekki fyrr en yfir 4000 manns höfðu lokast inni í þjóðgarðinum í 10 klukkustundir á miðvikudag þegar allar samgöngur um garðinn hrundu undan álaginu.

Í borginni Nanjing heimsóttu 230 þúsund manns grafhýsi þjóðhetjunnar Sun Yat-sen á miðvikudaginn. Í fréttum var talað við hóp ungra manna sem höfðu með sér níu sett af labbrabb-tækjum af ótta við að týnast í mannfjöldanum.

Hér í Shanghai voru borgarbúar beðnir að halda sig heima við til að gefa rými þeim 8 milljónum ferðamanna sem talið er að heimsæki borgina í gylltu vikunni.

Ofan á allt annað hafa óveður og mengun sett strik í reikninginn. Samgöngur hafa farið úr skorðum í austurhluta landsins vegna fellibylsins Fitow og í höfuðborginni þurfti að vara fólk við að dvelja utandyra sökum mengunar sem náði um helgina hæstu hæðum.

mengun

Þeir kínversku ferðamenn sem héldu út fyrir landsteinana voru heldur ekki einir á ferð. Allar ferðir frá Kína til Bandaríkjanna og Kanada á tímabilinu 18. september til 10. október seldust upp. Kínverskir ferðamenn heimsóttu einnig fjölda vinsælla áfangastaða í Evrópu og Asíu en við munum fljótlega fjalla um utanferðir Kínverja í annarri grein.

Tungldagatalið truflar

Flestir kínverskir frídagar taka mið af tungldagatalinu og eru því hreyfanlegir. Ekki ósvipað og við Íslendingar eigum að venjast með páska. Því getur það gerst að stuttur tími líði á milli fría. Í ár bar miðhausthátíðina til dæmis upp skömmu fyrir þjóðhátíðardaginn 1. október. Þetta hefur haft í för með sér dálítið ruglingslegt frídagafyrirkomulag. Þótt miðhausthátíðin feli í raun bara í sér einn frídag og þjóðhátíðin þrjá, er venjan í Kína að færa til vinnudaga svo úr verði annars vegar þriggja daga hausthátíð og hinsvegar vikulöng þjóðhátíð. Til að gera þetta mögulegt er vinnudögum víxlað og fólk þarf að vinna um helgar til að bæta upp vinnutap á virkum dögum.

Þetta er dálítið flókið! Til þess að gefa fólki hugmynd um fyrirkomulagið listum við hér upp opinbert skipulag í kringum þessa frídaga haustið 2013. Ferlið hefst fimmtudaginn 19. september:

  • Þriggja daga frí (fim, fös, lau)
  • Á sunnudegi hefst ný 6 daga vinnuvika (sun, mán, þri, mið, fim, fös)
  • Þá kemur einn frídagur (lau)
  • Við taka tveir vinnudagar (sun, mán)
  • Þá hefst 7 daga frívika (þri, mið, fim, fös, lau, sun, mán)
  • Þriðjudaginn 8. október hefst vinna á ný í 5 daga (þri, mið, fim, fös, lau).
  • Eftir hana kemur einn frídagur (sun)

Úr sambandi við umheiminn

Ekki líkar öllum peningamönnum fyrirkomulagið. Margir fjárfestar og viðskiptamenn hafa bent á glötuð tækifæri til að græða peninga þegar hlutabréfamörkuðum á meginlandi Kína er lokað í heila viku. Fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum kvarta einnig hástöfum undan truflun á starfsemi þeirra. Bent er á að afar lítið sé um að vera um helgar og því lítið gagn í að hafa fyrirtækin opin á laugardögum eða sunnudögum í stað virkra daga. Því kemur ekki á óvart að fulltrúar margra alþjóðlegra fyrirtækja og alþjóðlegra skóla í Kína hafa einfaldlega hundsað opinberar vinnuáætlanir og haldið sínu striki. Starfsmennirnir fá þá í staðinn orlofsdaga sem þeir geta kosið að nýta annaðhvort í tengslum við kínverska frídaga eða á öðrum tímum. Opinberir starfsmenn og flestir kínverskir launþegar hafa ekki um slíkt að velja og geta aðeins tekið frí á þeim tímum og með þeim skilyrðum sem yfirvöld fyrirskipa. Því má einnig bæta við að ekki eiga allir frí þessa daga því verslanir, veitingastaðir og fjölmörg önnur þjónustufyrirtæki eru opin samkvæmt venju, þ.e. í það minnsta 12 tíma á dag.

Hvort öll þessi neikvæða umræða, jafnt í kínverskum fjölmiðlum sem manna á meðal, og hin ýmsu óþægindi sem gyllta vikan hefur skapað í ár hafi áhrif til breytinga í framtíðinni er ómögulegt að segja. Mörgum þykir óreiðan þó sýna að nóg sé komið af miðstýringu yfirvalda á frítíma fólksins, jafnvel þótt ásetningurinn hafi upphaflega verið góður.

Ósýnilegi Kínamúrinn

Allir þekkja Kínamúrinn sem lengi var talinn sjást alla leið utan úr geimnum vegna stærðarinnar. Múrinn var byggður til að vernda hin fjölmörgu keisaraveldi Kínverja fyrir utanaðkomandi innrásum. Tilgangur kínverska eldmúrsins er ekki ósvipaður, því þótt hann sé ósýnilegur hindrar hann að óæskileg utanaðkomandi áhrif berist til Kína í netheimum.

eldveggurinn

Ritskoðun í Kína er nokkuð oft til umfjöllunar í vestrænum fjölmiðlum, ekki síst í tengslum við frelsissviptingu blaðamanna og rithöfunda. Amnesty International hefur til dæmis bent á að hvergi í heiminum sitji fleiri í fangelsi fyrir skoðanir sínar en í Kína. Gríðarlegt eftirlit er með allri miðlun upplýsinga og margar vestrænar samfélagssíður hljóta ekki náð fyrir augum kínverskra yfirvalda. Facebook, Twitter, Youtube og WordPress eru dæmi um síður sem eru blokkaðar og komið hafa tímabil þar sem ekki er hægt að komast inn í Google leitarvélina. Sambærilegar kínverskar síður eru leyfðar en þær eru vandlega ritskoðaðar. Færslur sem falla ekki að opinberum skoðunum yfirvalda eru látnar hverfa og einnig heyrast sögur af ríkisstarfsmönnum sem hafa af því atvinnu að pósta réttum skoðunum og reyna þar með að hafa áhrif í netsamfélaginu. Yfir 30 þúsund manns eiga að starfa hjá kínversku netlögreglunni og í öllum opinberum fjölmiðlum birtist aðeins það sem fellur að hugmyndafræði kínverska kommúnistaflokksins hverju sinni.

eldveggur2

Daglegt líf innan múrsins

Eitt er að lesa um ritskoðun, annað að lifa með henni. Internetið er er augljóslega þyrnir í augum yfirvalda enda erfitt að hafa stjórn á því. Þegar framundan eru stórir viðburðir á borð við flokksþing kommúnistaflokksins, þjóðhátíðir eða leiðtogaheimsóknir og þegar athygli heimsins beinist að umdeildum atburðum í Kína eins og uppreisnum í Tíbet og Xinjiang-héraði, svo ekki sé minnst á Nóbelsverðlaunahafann Liu Xiaobo, þá verður allt eftirlit enn meira, netið virðist hægja á sér og sjónvarpsútsendingar eru slitnar úr sambandi. Flestir geta kannski ímyndað sér hvernig þetta virkar í tölvu, að leitarvélar birti ekki upplýsingar tengdar nöfnum umdeildra einstaklinga og vefsíður komi ekki upp á skjáinn. Erfiðara getur verið að ímynda sér ritskoðun í sjónvarpi. Í miðjum fréttatíma á alþjóðlegum rásum eins og BBC og CNN er einfaldlega slökkt á útsendingunni og skjárinn verður svartur. Ekkert “afsakið hlé“, skjárinn verður bara svartur. Öll umfjöllun um Nóbelsverðlaun Liu Xiaobo var á sínum tíma blokkeruð með þessum hætti og fyrir skemmstu mátti upplifa að slökkt var á fréttunum þegar BBC var með umfjöllun um Bo Xilai. Þegar kínverskur fréttaskýrandi kom sér fyrir í sjónvarpssettinu til að ræða við fréttaþulinn um lífstíðardóminn yfir Bo varð skjárinn undireins svartur. Ekki birtist aftur mynd á skjánum fyrr en íþróttafréttir tóku við.

Hjáleiðir og VPN

Í tölvuheiminum eru alltaf einhverjar leiðir til að fara fram hjá hlutunum, jafnvel öflugri ritskoðunarvélinni í Kína. Áskrift að svokallaðri VPN-þjónustu Virtual Private Network, sem keypt er erlendis frá, kemur okkur útlendingunum til bjargar. VPN-hjáleiðir gera okkur kleift að skrifa og birta þetta blogg, halda úti Facebook síðu og yfirhöfuð að fylgjast með fjölmörgu sem er að gerast á Íslandi og í umheiminum sem ekki nær í gegnum kínverska eldvegginn. Að sjálfsögðu hefur kínverska netlögreglan horn í síðu VPN-fyrirtækja sem þó virðast eflast við hverja raun og halda aðgangnum opnum með því að uppfæra stöðugt forrit og móttökusenda sem eru staðsettir út um allan heim.

Ritskoðun er varin með lögum í Kína og um hana gilda fjölmargar reglugerðir. Tækjabúnaður sem er notaður til að ritskoða kínverska internetið er talinn sá öflugasti í veröldinni. Ekki er aðeins hægt að blokkera síður á landsvísu, heldur er mögulegt að fylgjast með netnotkun einstaklinga. Það er því alltaf dálítið ónotaleg tilfinning að lauma sér yfir kínverska eldmúrinn og hvort sem það er ímyndun eða ekki, þá er eins og “stóri bróðir” sé alltaf að fylgjast með.

Rétt er að taka það fram að ofangreind færsla endurspeglar einfaldlega okkar reynslu og upplifun og ekki er um nein sérstök vísindi að ræða.

Dálítið kínverskt á þjóðhátíð

Alþýðulýðveldið Kína var stofnað 1. október 1949 og er því 64 ára í dag. Af því tilefni birtum við nokkrar myndir sem við tókum í Shanghai þegar búið var að flagga við helstu umferðargötur:

DSC_0982

DSC_0960

DSC_0968

DSC_0943

Og svona var mannlífið á sjálfan þjóðhátíðardaginn á þekktustu verslunargötu Shanghai, Nanjing Rd.:

Nanjing

NanjingSvampur

Þessi voru uppáklædd í tilefni dagsins:

Tiskan

Á norðurslóðum í Shanghai

DSC_0782

Fyrir um áratug var hrundið af stað skipulagsverkefni í Shanghai sem kallast Ein borg, níu bæir, þar sem byggja átti níu bæi í úthverfum Shanghai. Tilgangurinn var að dreifa byggðinni og létta þannig á miðborginni. Við skipulagsvinnuna var horft til aukinnar velmegunnar með ört stækkandi millistétt og fjölgun auðmanna. Byggt var í samræmi við það og reynt að höfða til þessara hópa.

Ákveðið var að bæirnir yrðu eftirmyndir bæja í öðrum löndum og erlendar arkitektastofur voru kallaðar til aðstoðar. Þeir spruttu svo upp einn af öðrum, Thames Town, sá breski, með sínum rauðum símaklefum, bresku vörðum og að sjálfsögðu ánni Thames og sá hollenski með vindmyllum og risastórum tréklossa svo eitthvað sé nefnt.

Við ákváðum að heimsækja einn þessara bæja og fyrir valinu varð Norður-Evrópubærinn, eða Luodian New Town. Við höfðum lesið að þar sæti lítil hafmeyja á steini og hægt væri að dást að eftirmynd af alþingishúsi okkar Íslendinga.

DSC_0830

DSC_0820

DSC_0806

Norður-Evrópubærinn var hannaður af sænskum arkitektum og fyrirmyndin er bærinn Sigtuna í Svíþjóð. Flest er í sænskum stíl, húsin, göturnar, kirkjan og vatnið í miðjum bænum heitir eftir Lake Malaren í Svíþjóð. Í kringum vatnið er stór garður með gróðri frá Norður-Evrópu, fyrir utan stöku pálmatré, sem virðast hafa villst með. Mikið er af styttum á víð og dreif um svæðið, allar af nöktu fólki í einkennilegum stellingum. Á svæðinu eru golfvöllur, hótel og ráðstefnuhöll en hótelið minnir reyndar meira á Disneykastala en hótel í Norður-Evrópu.

DSC_0791

DSC_0790

DSC_0841

DSC_0812

Í blaðaviðtali við sænskan landslagsarkitekt sem kom að hönnun bæjarins kemur fram að hönnunin og byggingin hafi tekið ótrúlega skamman tíma og að fyrsti hlutinn hafi verið tilbúinn eftir um þrjú ár. Í gegnum allt ferlið var þó stöðugt verið að breyta skipulaginu að ósk heimamanna. Hann sagðist sáttur við lokaniðurstöðuna þó að ekki sé allt nákvæmlega samkvæmt þeirra plani.

Ekki fundum við alþingishúsið og enga hafmey á steini en hún gæti einfaldlega verið horfin því hlutirnir breytast hratt hér í Kína. Þarna voru mörg brúðhjón í myndatökum og flest fyrirtækin í bænum eru ljósmyndastofur, ein slík var meira að segja i kirkjunni.

DSC_0762

DSC_0765

DSC_0758

Það var kostuleg upplifun að ganga um í eftirlíkingu af skandinavískum bæ með kínverskum skiltum og kínverskri lykt og fylgjast með brúðhjónamyndatökum.

Þó er dapurlegt að hugsa til þess að markmiðin með verkefninu Ein borg, níu bæir virðast alls ekki hafa náðst þrátt fyrir mikinn tilkostnað. Bærinn er hálfgerður draugabær þar sem fáir búa og það sama virðist gilda um flesta hina bæina í verkefninu.

DSC_0817

Dálítið kínverskt

Það má segja margt um Kína, en hér er aldrei leiðinlegt.

Þessi orð eru höfð eftir Tess Johnston, sem er þekkt fræðikona og fyrirlesari í Shanghai. Þau lifa í minninu því fátt lýsir lífinu í Kína betur en þessi einfalda setning. Ef dagarnir gerast dauflegir er óbrigðult ráð að drífa sig út í mannlífið, helst með myndavél, og undantekningarlaust mun eitthvað óvenjulegt eða skemmtilegt verða á vegi þínum.

Þú gætir til dæmis rekist á einhvern sem er að þvo sér um hárið úti á götu í náttfötunum:

DSC_0273

Eða gengið fram á einhvern sem sefur í vinnutímanum:

DSC_0363

DSC_0473

Kannski sæir þú herramann ganga um götur haldandi á handtösku dömunnar:

DSC_0949

DSC_0946

Og það er ekki ólíklegt að þú sæir barn pissa á götuna með dyggri aðstoð fullorðinna:

DSCN2433-1

DSC_0923

Myndirnar eru allar úr einkasafni bloggsins.

Markaðstorg hjónabandsins

Hjónabandið er afar mikilvægt í Kína og foreldrar leggja mikla áherslu á að uppkomin börn festi ráð sitt, helst vel fyrir þrítugt. Enn meiri pressa er á ungum konum en karlmönnum hvað þetta varðar.

DSC_0918

Hjónabandið sameinar fjölskyldur og foreldrar ungu hjónanna hafa meira um sambandið að segja en við Íslendingar erum vön. Það að eignast barn og síðar barnabarn/börn er sérstaklega þýðingarmikið fyrir Kínverja. Unga fólkið á helst að að mennta sig, síðan að ganga í hjónaband og svo að eignast barn. Sambúð fyrir hjónaband er ekki algeng og að eignast barn utan hjónabands er afar óæskilegt svo ekki sé meira sagt.

Það er ákveðin krafa um að karlmaðurinn eigi íbúð áður en hann kvænist og foreldrar hans reyna eftir bestu getu að hjálpa til með það. Ungar konur leita gjarnan að vel menntuðum manni sem á íbúð, er með góðar tekjur og ekki spillir fyrir ef hann er hávaxinn.

Foreldrar fara að ókyrrast þegar barnið þeirra er komið vel á þrítugsaldurinn og ekkert hefur gerst í hjónabandsmálunum. Þá þarf oft að grípa í taumana. Ein leiðin til að koma barninu út er að mæta á hjónabandsmarkaðinn í Shanghai á sunnudegi. Þar safnast áhyggjufullir foreldrar uppkominna einhleypra barna saman og reyna að finna hentuga maka fyrir syni sína og dætur. Foreldrarnir skrifa þá upplýsingar um börn sín á blöð sem eru svo til sýnis fyrir þá sem markaðinn sækja. Þar má meðal annars lesa um aldur, menntun og starf, hæð og persónueinkenni og stundum fylgir mynd. Svo gengur fólk um og skoðar og ræðir málin og skiptist á upplýsingum. Ef foreldri sér einhvern sem er álitlegur eru málin rædd og svo er skipst á símanúmerum ef líkur eru taldar á árangri. Oft eru foreldrarnir þarna í óþökk barna sinna, sem jafnvel hálfskammast sín fyrir tiltækið.

DSC_0914

DSC_0907

Við höfum rætt við nokkrar ungar konur hér í Kína um hjónabandið og þeim ber öllum saman um að pressan frá foreldrum um að þær festi ráð sitt sé mjög mikil. Ein af þeim sem við spjölluðum við sagði pressuna nærri óbærilega. Hún er ógift, komin fast að þrítugu, vel menntuð og í góðu starfi. Pressan er oft mest í kringum hátíðir þegar fjölskyldur eyða miklum tíma saman. Enda bárust af því fréttir í febrúar síðastliðnum, fyrir kínverska nýárið, að hægt væri að leigja sér kærasta á Tabao (eins konar eBay þeirra Kínverja) til að fara með heim til fjölskyldunnar!

Við spjölluðum einnig við miðaldra karlmann frá Shanghai um þessi mál. Hann á eina dóttur fædda árið 1989. Hann sagðist ákaflega glaður þessa dagana þar sem dóttir hans væri að fara að gifta sig í nóvember. Honum líst vel á verðandi tengdason þó hann hefði kosið að hann hefði meiri menntun og betri vinnu. Hann hefði einnig vonað að einkadóttirin gengi menntaveginn en sú ósk hefði ekki ræst. Hann var ánægður með fjölskyldu kærastans og framundan væri einmitt að bjóða þeim í mat. Helgina þar á undan hefðu þau hjónin verið í mat hjá foreldrum unga mannsins. Nú væri verið að efla tengslin. Hann sagðist hlakka til að eignast barnabörn og nú væri þungu fargi af honum létt.

Hér má sjá nokkur dæmi um auglýsingar á myndum sem við tókum á „markaðstorgi hjónabandsins“ í Shanghai sunnudaginn 22. september 2013:

dsc_0904

Karlmaður, fæddur 1980, háskólapróf, 1,65 á hæð, mánaðarlaun 3,500 RMB, er í fríi um helgar, er nærgætinn og traustur, leitar að heiðarlegri stúlku í fastri vinnu sem þarf að vera mannblendin. Engar kröfur um Hukou, upplýsingar í síma…

Karlmaður, ógiftur, einbirni, fæddur 1976, hæð 1,80, meistaragráða, Shanghai Hukou, á hús og vinnur hjá stóru opinberu fyrirtæki. Lítur vel út og hefur persónutöfra, er heiðarlegur og áreiðanlegur, leitar að ógiftri stúlku fæddri eftir 1980, 1,65 á hæð eða stærri, með háskólagráðu eða meira, með Shanghai Hukou, upplýsingar í síma… (betra ef hún vinnur í Hongkou-hverfi).

dsc_0901

Kona, ógift, aðstoðarmaður og þýðandi á skrifstofu fransks fyrirtækis í Shanghai, meistaragráða frá Frakklandi, fædd 1985, hæð 1,63, leitar að karlmanni á aldrinum 27-35 ára, með bachelor gráðu eða meira, 1,72 á hæð eða hærri, sem hefur ekki verið giftur áður, vinnur í Shanghai eða Nanjing, eða er Kínverji sem vinnur í Bandaríkjunum eða Kanada.

Kona, einbirni, fædd 1979, hæð 1,55, bachelor gráða í grafískri hönnun, starfar sem hönnuður hjá alþjóðlegu fyrirtæki, laun 5.000 RMB, er viðmótsþýð og blíðlynd, Shanghai Hukou, á hús í Putuo hverfi, leitar að ungum og heilbrigðum manni sem er vinalegur við foreldra.

DSC_0881

Hlutfallslega smár

37

Eins og margir vita hefur Bo Xilai, sem áður var helsta vonarstjarna kínverska kommúnistaflokksins, verið dæmdur í ævilangt fangelsi. Réttarhöldin fóru fram fyrir skemmstu og eins og svo oft í Kína áttu þau sér skrítnar hliðar. Vangaveltur um gæslumenn sakborningsins bárust til dæmis víða um netheima. Bo Xilai er óvenju hávaxinn á kínverskan mælikvarða (186 cm) en við réttarhöldin gnæfðu tveir lögreglumenn yfir hann. Sviðsetning af þessum toga er engin nýlunda í Kína og tilgangurinn væntanlega sá að láta hinn sakfellda sýnast smærri. Við nánari eftirgrennslan netverja kom í ljós að annar gæslumannanna er að öllum líkindum fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta sem er yfir tveir metrar að hæð. Hann mun vera nokkuð þekkt nafn úr kínverskum körfubolta frá síðasta áratug og þjálfar nú körfuboltalið í Shandong-héraði þar sem réttarhöldin áttu sér stað. Ekki er vitað til þess að hann hafi áður unnið við löggæslustörf.