Þegar önnur okkar var á
ferðalagi um Toskana héraðið á Ítalíu nýlega voru rifjaðar upp sögur af ríkum fjölskyldum í bænum San Gimignano sem kepptust á miðöldum við að byggja sem hæsta turna. Þær sýndu mátt sinn og megin með því að byggja hærri turn en óvinurinn eða nágranninn. Til að gera langa sögu stutta voru í þessum litla bæ í lok miðalda um 72 turnar, allt upp í 50 metra háir. Á endanum þurfti að grípa í taumana og setja mörk á hæð húsa. Turnarnir gerðu ásýnd bæjarins úr fjarska ógleymanlega, sem hljómar óneitanlega kunnuglega fyrir Shanghaibúa.
Í Kína rísa nú háhýsin hvert á fætur öðru.

Shanghai World Financial Center (492 metrar) er hæsta bygging í Kína og fjórða hæsta bygging veraldar á eftir Burj Khalifa í Dubai (828 metrar), Makkah Royal Clock Tower Hotel í Mecca (601 metri) og Taipei 101 í Taipei (508 metrar). Möstur og útsýnisturnar eru þá ekki talin með. Til samanburðar má nefna að hæsta bygging Íslands, turninn við Smáratorg, er 77,6 metra hár svo hæsta bygging heims er rúmlega 10 sinnum hærri en okkar hæsta hús.
En hlutirnir breytast hratt í henni veröld og ekki síst í Kína því nú er að rísa enn hærri bygging við hlið SWFC, Shanghai Tower, sem verður annað hæsta hús í heiminum þegar byggingu hennar lýkur á næsta ári, eða 632 metrar með hæsta útsýnispalli veraldar og hraðskreiðustu lyftum í heimi. Kostnaðurinn við bygginguna er áætlaður um 300 milljarðar íslenskra króna.

Shanghai Tower verður þó ekki lengi hæsta byggingin í Kína því nú þegar er verið að byggja tvær hærri í Wuhan og Shenzhen og tvær til viðbótar eru fyrirhugaðar.
Sky City í Changsha í Hunan héraði er önnur af þessum fyrirhuguðu byggingum. Undirbúningsframkvæmdir hófust í sumar og á húsið að verða það hæsta í heimi, eða 838 metrar. Það sem er sérstakt við þá byggingu er byggingarhraðinn, því til stóð að klára hana á 10 mánuðum.
Fyrirtækið sem byggir Sky City er þekkt fyrir að nota ákveðna tækni, þar sem fyrst eru framleiddir stál- og steypukubbar í verksmiðju sem svo er raðað saman á byggingastað, ekki ólíkt legókubbum. Með þessari tækni byggði fyrirtækið fimmtán hæða hótel á sex dögum árið 2010 og þrjátíu hæða hús á fimmtán dögum ári síðar.
Aðeins nokkrum dögum eftir að framkvæmdir á Sky City hófust voru þær stöðvaðar vegna skorts á tilskildum leyfum en áður höfðu margir látið í ljós efasemdir um öryggi byggingarinnar. Ekkert hefur heyrst af málinu síðan og áhugavert verður að fylgjast með því hvort Sky City verður að veruleika.
Af tíu hæstu byggingum í smíðum í heiminum í dag eru sjö í Kína. Það er því ekkert lát á byggingu háhýsa hér og greinilegt að Kínverjar leggja mikið upp úr því að byggja mikið og hátt. Hvort þeir eru að sanna mátt sinn og megin með þessu móti líkt og Ítalirnir forðum skal ósagt látið en hún er skondin sagan af Kínverjanum sem kom til Íslands í vinnuferð árið 2007 og hélt að landið væri mjög fátækt því húsin væru svo lágreist.



Sögu byggðar í Shanghai má rekja aftur til 13. aldar. Bærinn lá þétt við árbakka Huangpu árinnar og innan borgarmúranna myndaðist samfélag sem snemma varð þekkt af verslun. Viðskipti eru enn í dag aðall borgarinnar og því má kannski segja að það sé við hæfi að elsti hluti hennar hafi verið byggður upp sem verslunarhverfi. Þótt ferðamenn sem heimsækja gamla bæinn í Shanghai sjái merki um fornar kínverskar byggingarhefðir var mest af svæðinu byggt upp skömmu eftir 1990. Sumir ganga svo langt að tala í þessu samhengi um stærsta China Town í heimi.


Eftir að Deng Xiaoping opnaði á nýja möguleika í Kína upp úr 1990 og sagði þjóðinni að það væri gott að græða peninga hefur ásýnd kínverskra borga breyst svo mikið að margar þeirra eru nær óþekkjanlegar. Útlínur háhýsabyggðarinnar á Pudong svæðinu í Shanghai eru ein frægasta táknmynd nýrra tíma. Sjónvarpsturn kenndur við perlu og þrenning húsa sem öll eru meðal hæstu húsa veraldar ber þar hæst. Uppbygging borgarhlutans hefur verið ógnarhröð, fyrir rúmum tuttugu árum var þar enn akurlendi. Myndir af skýjakljúfunum í Pudong breytast því stöðugt en með byggingu nýjasta turnsins, sem jafnframt verður sá hæsti í Kína, er ásýndin smám saman að taka á sig endanlega mynd. Í Pudong er fjármálamiðstöð Alþýðulýðveldins, þ.e. einskonar Wall Street þeirra Kínverja og hér var fyrir skemmstu opnað fríverslunarsvæði. Markmiðin eru háleit og eflaust er ætlunin að gera Shanghai að einni af stærstu fjármálamiðstöðvum heims.

Framleiðslan hélt samt velli og árið 2007 var aukinni samkeppni mætt með því að fríska upp á útlit og vörumerki karamellunnar. Í samræmi við óbilandi trú Kínverja á velgengi alls þess sem er gyllt og glóir var nafninu breytt í Golden Rabbit og karamellunni vafið inn í gylltar umbúðir. Framleiðslu White Rabbit var þó einnig haldið áfram.







































