Dálítið kínverskt í H&M

Margir sem eru áhugasamir um tísku og hrifnir af hönnun hinnar frönsku Isabel Marant hafa beðið 14. nóvember með eftirvæntingu. Dagurinn í dag markar upphafið á sölu nýrrar vörulínu sem Marant hefur gert fyrir H&M og fetar hún þar með í fótspor fleiri hátískuhönnuða sem hafa hannað fyrir sænsku verslunarkeðjuna. Okkur lék forvitni á að vita hvernig Shanghai dömur myndu bregðast við tíðindunum og eins og svo oft í Kína varð niðurstaðan allt önnur en við ætluðum.

IMG_3762

Búðin var opnuð klukkan átta í morgun og um níu var fremur rólegt um að litast. Fjöldamargir öryggisverðir voru í viðbragðsstöðu og starfsmenn deildu út armböndum til viðskiptavina þar sem fram kom klukkan hvað þeir mættu koma í Isabel Marant hornið. Þeim var svo smalað saman og hleypt inn í áföngum á viðeigandi tíma. Biðin klukkan hálftíu var innan við klukkustund.

IMG_3797

IMG_3816

Kínversku viðskiptavinirnir voru flestir mjög ungir og keyptu mest sömu flíkurnar. Þarna voru líka margar erlendar konur.

IMG_3802

Þegar bæklingi um vörulínu Isabel Marant var útdeilt í verslunum H&M hér í Kína var búið að setja inn merkingar sem sýndu að sumar af vörunum yrðu ekki í boði á meginlandi Kína. Þetta var auglýst vel og vandlega og sniðugir kínverskir sölumenn sáu þarna augljóslega strax tækifæri…

IMG_3779

…og voru búnir að opna sína eigin sölubúð á gangstéttinni beint fyrir utan verslun H&M! Vöruúrvalið hjá þeim samanstóð af Marant flíkum sem ekki voru í boði inni í versluninni og voru allar vandlega merktar, Isabel Marant pour H&M.

DSC_1159

Uppátækið vakti fljótt athygli vegfarenda og innan skamms hafði hópur fólks safnast saman í kringum sölumennina.

DSC_1162

IMG_3783

Ekki leið þó á löngu þar til starfsmaður H&M skarst í leikinn…

IMG_3767

…og ræddi síðan málin við sænskan fulltrúa frá H&M.

IMG_3782

Nokkru síðar mætti lögreglan á svæðið…

IMG_3791

IMG_3789

…og skömmu eftir það tóku félagarnir til við að pakka saman og koma vörunum yfir í bíl sem stóð þarna í götukantinum. Þeir yfirgáfu síðan svæðið. Takið eftir að annar þeirra klæðist dömupeysu úr Marant vörulínunni.

IMG_3760

Tekið skal fram að allt fór þetta ferli fram í mestu vinsemd. Ólíkt því sem oft vill verða í viðburðaríku götulífinu í Shanghai héldu allir ró sinni og svo virtist sem þetta væri bara alls ekkert svo mikið mál. Svíarnir með sitt jafnaðargeð brostu út í annað og kínversku lögregluþjónarnir voru mjög afslappaðir. Höfundarréttur var greinilega ekki til umræðu hér en hitt er svo annað mál að líklega hafa sænsku yfirmennirnir velt því fyrir sér hvaðan H&M vörurnar sem boðið var upp á á götunni voru fengnar!

IMG_3813

Jafnrétti í umferðinni

Umferðarmenningin hér í Kína er sérkennileg. Í Shanghai treðst hver sem betur getur og hver ökumaður hugsar um sig. Oft má sjá fleiri bíla hlið við hlið á götunum en akreinarnar segja til um. Biðskylda virðist alls ekki þýða að maður eigi að bíða eftir því að gatan sem ekið er inn á sé auð, heldur búa kínverskir bílstjórar sér til sitt pláss sjálfir og keyra bara beint inn á, í veg fyrir þá bíla sem fyrir eru á götunni. Þá eru einhverjar óskrifaðar reglur í gangi, því bílar hægja á sér og leyfa þennan átroðning. Svo eru það öll hin farartækin, hjól og mótorhjól af öllum stærðum og gerðum. Ekkert tillit er tekið til gangandi vegfarenda. Slys í umferðinni eru mjög algeng og ekki er gert ráð fyrir sjúkrabílum, þeir bíða í kösinni eins og aðrir. Það er mjög erfitt fyrir Vesturlandabúa að keyra í Kína og flestir kjósa að gera það ekki.

Nýjustu tíðindin í umferðarmenningu Kínverja eru þó af öðrum toga. Lögreglan í Peking sá sig knúna í vikunni til að gefa út sérstakar leiðbeiningar á vefsíðu sinni til kvenkyns ökumanna þar í borg undir heitinu „Kvenkyns ökumenn vinsamlega reynið að forðast eftirfarandi mistök.” Rétt er að taka fram að við þýðum hér beinar tilvitnanir úr ensku frá Sinophere, bloggi The New York Times um Kína.

Eitt vandamálið sem lögreglan virðist standa frammi fyrir er hvað konur eru áttavilltar í umferðinni. Á vefsíðunni i stendur: “Sumar konur eru áttavilltar. Þær geta oft ekki ákveðið í hvaða átt þær eiga að keyra. Þegar þær svo átta sig svo á mistökum sínum er það of seint og þær snúa þá stýrinu í örvæntingu og valda þannig slysum.” Og önnur óborganleg setning: “Þegar konur eru einar á ferð finna þær jafnvel ekki staði sem þær hafa farið margoft á.” Hin vandamálin sem kvenkyns ökumenn í Peking standa frammi fyrir að mati lögreglunnar eru; að vera í háum hælum við akstur, að fyllast skelfingu þegar slys gerast, að keyra um með handbremsuna á, að ráða ekki við alla pedalana og að gleyma að skipta um gír. 

Konur eru varaðar við að fyllast skelfingu þegar slys ber að höndum: “Það kemur gjarnan mikið fát á kvenkyns ökumenn þegar slys verða. Þær verða oft alveg tómar og þá sjá glæpamenn sér leik á borði.” Hér að neðan er skýringarmynd lögreglunnar með þessum lið.

4cd3493fjw1ea21f43lijj20ci0950u9

Sinophere tilgreinir tvö nýleg atvik sem gætu hugsanlega skýrt hvers vegna lögreglan sá sig knúna til þess að gefa út þessar leiðbeiningar til kvenna. Í öðru þeirra fór kona út úr bílnum sínum til að huga að gangandi vegfaranda sem hún hafði keyrt á og á meðan var veskinu hennar stolið úr framsæti bílsins. Hún hafði gleymt að læsa bílnum og lái henni hver sem vill. Í hinu atvikinu keyrði kona aftan á annan bíl vegna þess að hún festi hælinn á skónum sínum á milli pedalanna.

Þessum leiðbeiningum lögreglunnar hefur, eins og gefur að skilja, ekki verið sérlega vel tekið á netinu. Kannski ætti kínverska lögreglan líka frekar að leggja áherslu á mikilvægi þess að virða einfaldar umferðareglur og að sýna tillitsemi í umferðinni í sinni umferðarfræðslu.

Dálítið kínverskt á þjóðhátíð

Alþýðulýðveldið Kína var stofnað 1. október 1949 og er því 64 ára í dag. Af því tilefni birtum við nokkrar myndir sem við tókum í Shanghai þegar búið var að flagga við helstu umferðargötur:

DSC_0982

DSC_0960

DSC_0968

DSC_0943

Og svona var mannlífið á sjálfan þjóðhátíðardaginn á þekktustu verslunargötu Shanghai, Nanjing Rd.:

Nanjing

NanjingSvampur

Þessi voru uppáklædd í tilefni dagsins:

Tiskan

Á norðurslóðum í Shanghai

DSC_0782

Fyrir um áratug var hrundið af stað skipulagsverkefni í Shanghai sem kallast Ein borg, níu bæir, þar sem byggja átti níu bæi í úthverfum Shanghai. Tilgangurinn var að dreifa byggðinni og létta þannig á miðborginni. Við skipulagsvinnuna var horft til aukinnar velmegunnar með ört stækkandi millistétt og fjölgun auðmanna. Byggt var í samræmi við það og reynt að höfða til þessara hópa.

Ákveðið var að bæirnir yrðu eftirmyndir bæja í öðrum löndum og erlendar arkitektastofur voru kallaðar til aðstoðar. Þeir spruttu svo upp einn af öðrum, Thames Town, sá breski, með sínum rauðum símaklefum, bresku vörðum og að sjálfsögðu ánni Thames og sá hollenski með vindmyllum og risastórum tréklossa svo eitthvað sé nefnt.

Við ákváðum að heimsækja einn þessara bæja og fyrir valinu varð Norður-Evrópubærinn, eða Luodian New Town. Við höfðum lesið að þar sæti lítil hafmeyja á steini og hægt væri að dást að eftirmynd af alþingishúsi okkar Íslendinga.

DSC_0830

DSC_0820

DSC_0806

Norður-Evrópubærinn var hannaður af sænskum arkitektum og fyrirmyndin er bærinn Sigtuna í Svíþjóð. Flest er í sænskum stíl, húsin, göturnar, kirkjan og vatnið í miðjum bænum heitir eftir Lake Malaren í Svíþjóð. Í kringum vatnið er stór garður með gróðri frá Norður-Evrópu, fyrir utan stöku pálmatré, sem virðast hafa villst með. Mikið er af styttum á víð og dreif um svæðið, allar af nöktu fólki í einkennilegum stellingum. Á svæðinu eru golfvöllur, hótel og ráðstefnuhöll en hótelið minnir reyndar meira á Disneykastala en hótel í Norður-Evrópu.

DSC_0791

DSC_0790

DSC_0841

DSC_0812

Í blaðaviðtali við sænskan landslagsarkitekt sem kom að hönnun bæjarins kemur fram að hönnunin og byggingin hafi tekið ótrúlega skamman tíma og að fyrsti hlutinn hafi verið tilbúinn eftir um þrjú ár. Í gegnum allt ferlið var þó stöðugt verið að breyta skipulaginu að ósk heimamanna. Hann sagðist sáttur við lokaniðurstöðuna þó að ekki sé allt nákvæmlega samkvæmt þeirra plani.

Ekki fundum við alþingishúsið og enga hafmey á steini en hún gæti einfaldlega verið horfin því hlutirnir breytast hratt hér í Kína. Þarna voru mörg brúðhjón í myndatökum og flest fyrirtækin í bænum eru ljósmyndastofur, ein slík var meira að segja i kirkjunni.

DSC_0762

DSC_0765

DSC_0758

Það var kostuleg upplifun að ganga um í eftirlíkingu af skandinavískum bæ með kínverskum skiltum og kínverskri lykt og fylgjast með brúðhjónamyndatökum.

Þó er dapurlegt að hugsa til þess að markmiðin með verkefninu Ein borg, níu bæir virðast alls ekki hafa náðst þrátt fyrir mikinn tilkostnað. Bærinn er hálfgerður draugabær þar sem fáir búa og það sama virðist gilda um flesta hina bæina í verkefninu.

DSC_0817

Dálítið kínverskt

Það má segja margt um Kína, en hér er aldrei leiðinlegt.

Þessi orð eru höfð eftir Tess Johnston, sem er þekkt fræðikona og fyrirlesari í Shanghai. Þau lifa í minninu því fátt lýsir lífinu í Kína betur en þessi einfalda setning. Ef dagarnir gerast dauflegir er óbrigðult ráð að drífa sig út í mannlífið, helst með myndavél, og undantekningarlaust mun eitthvað óvenjulegt eða skemmtilegt verða á vegi þínum.

Þú gætir til dæmis rekist á einhvern sem er að þvo sér um hárið úti á götu í náttfötunum:

DSC_0273

Eða gengið fram á einhvern sem sefur í vinnutímanum:

DSC_0363

DSC_0473

Kannski sæir þú herramann ganga um götur haldandi á handtösku dömunnar:

DSC_0949

DSC_0946

Og það er ekki ólíklegt að þú sæir barn pissa á götuna með dyggri aðstoð fullorðinna:

DSCN2433-1

DSC_0923

Myndirnar eru allar úr einkasafni bloggsins.

Hlutfallslega smár

37

Eins og margir vita hefur Bo Xilai, sem áður var helsta vonarstjarna kínverska kommúnistaflokksins, verið dæmdur í ævilangt fangelsi. Réttarhöldin fóru fram fyrir skemmstu og eins og svo oft í Kína áttu þau sér skrítnar hliðar. Vangaveltur um gæslumenn sakborningsins bárust til dæmis víða um netheima. Bo Xilai er óvenju hávaxinn á kínverskan mælikvarða (186 cm) en við réttarhöldin gnæfðu tveir lögreglumenn yfir hann. Sviðsetning af þessum toga er engin nýlunda í Kína og tilgangurinn væntanlega sá að láta hinn sakfellda sýnast smærri. Við nánari eftirgrennslan netverja kom í ljós að annar gæslumannanna er að öllum líkindum fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta sem er yfir tveir metrar að hæð. Hann mun vera nokkuð þekkt nafn úr kínverskum körfubolta frá síðasta áratug og þjálfar nú körfuboltalið í Shandong-héraði þar sem réttarhöldin áttu sér stað. Ekki er vitað til þess að hann hafi áður unnið við löggæslustörf.