Gleðilegt ár kinda og geita!

Samkvæmt kínverska dagatalinu byrjar nýtt ár 19. febrúar 2015. Þá lýkur ári hestsins og við tekur ár kindarinnar eða geitarinnar. Það má velta því fyrir sér hvers vegna ekki er gerður greinarmunur á geitum og kindum í þessu samhengi en skýringuna má finna í kínverska tungumálinu.

geit 2

Kindin, eða geitin, er eitt af tólf merkjum í kínverska dýrahringnum. Hvert stjörnumerki nær yfir tólf mánuði og er þá miðað við gamla kínverska dagatalið þar sem nýtt ár byrjar á tímabilinu frá janúarlokum og fram yfir miðjan febrúar (kínverska dagatalið og stjörnumerkin hafa verið til umfjöllunar hér á blogginu, sjá Kínversk stjörnuspeki).

Á kínversku er árið kennt við ,,yang”. Sé flett upp í kínversk-enskri orðabók er orðið oftast þýtt sem ,,sheep”, það er kind á íslensku. Þetta er þó ekki allskostar rétt og í kínverskri orðabók er skilgreining orðsins mun óljósari, eða eitthvað á þessa leið: jórtrandi spendýr, yfirleitt með horn á höfðinu sem greinist í ólíkar tegundir á borð við shanyang (fjalla yang = geit), mianyang (ullar yang = kind), lingyang (gasella) o.s.frv. Með öðrum orðum, geitur, kindur og jafnvel antilópur eru allt ólíkar tegundir af ,,yang”.

Þar sem ,,yang” eitt og sér segir ekki til um hvort um geit eða kind er að ræða er ómögulegt að þýða orðið sem annaðhvort. Í Kína er borðað ,,yangrou” eða yang kjöt. Flestir útlendingar myndu halda að um væri að ræða kjöt af kind og þannig er það skilgreint í kínversk-enskum orðabókum. Það gæti þó allt eins verið um geitakjöt ræða enda er það mikið borðað í Kína.

IMG_1554

Að ofansögðu er ljóst að jafnrétt er að tala um ár kindarinnar og ár geitarinnar þar sem ,,yang” nær yfir báðar tegundir. Í Japan og Víetnam, sem í gegnum söguna hafa tileinkað sér kínverska dagatalið, eru til ólík orð yfir geitur og kindur og því hefur þurft að velja á milli. Þannig kemur það til að í Japan fagnar fólk ári kindarinnar á meðan Víetnamar halda upp á ár geitarinnar. Í nýársskreytingum í Kína og í Kínahverfum um allan heim er geitin yfirleitt fyrirferðarmeiri en það má líka sjá bregða fyrir kindum hér og þar.

Við kjósum að óska ykkur gleðilegs árs kindarinnar, enda sauðkindin Íslendingum hjartfólgnari en geitin.

Xin nian kuai le! Gong xi fa cai!

IMG_1708

Skrautlegur sjónvarpsáróður

Kínversku nýárshátíðinni lýkur í dag. Hátíðin, sem Kínverjar kenna við vorið, stendur yfir í fimmtán daga ár hvert. Fimmtándi dagurinn er haldinn hátíðlegur, ekki ósvipað og þegar jólin eru kvödd á þrettándanum. Dagurinn er kenndur við ljósker enda er þá til siðs að kveikja á pappírsluktum og ganga með þær um götur. Ljóskerin eru send upp í himingeiminn og gömul trú segir að þau vísi villuráfandi öndum leiðina heim.

ljosker

Við ætlum aftur á móti að nota tilefnið til að senda út á netið nokkur eftirminnileg myndbrot úr kínversku sjónvarpi.

Fyrst er að nefna atriði sem hlotið hefur mikla athygli og er úr hátíðarskemmtiþætti kínverska sjónvarpins 30. janúar. Þátturinn er sendur út um allt Kína og er þar með sá sjónvarpsþáttur heimsins sem mest áhorf hefur. Yfir 700 milljónir manna fylgdust með þessari fjögurra klukkustunda löngu dagskrá á meðan beðið var eftir að ár hestsins gengi í garð á miðnætti. Og í jafnlangan tíma sneri ung kínversk dansmær sér á sjónvarpssviðinu sem tákn um líðandi stund og árstíðaskiptin. Stúlkan heitir Wei Caiqi og er frænka hinnar víðfrægu dansmeyjar Fang Liping sem er hálfgerð goðsögn hér í Kína og þekkt fyrir geysifagra og óvenjulega dansa. Snúningsdans hinnar fimmtán ára gömlu frænku hennar vakti mikla athygli og ekki voru allir jafn hrifnir. Var jafnvel talað um grimmd í kínverskum netheimum. Sjálf líkti Wei gjörningnum við hugleiðslu í athugasemd á eigin samskiptasíðu.

Sjónvarpsgalað er mikil áróðurs- og skrautsýning og skemmtiatriðin af ýmsum toga; dans, grínatriði, leikur og söngur. Þátturinn hefur verið sendur út á þessum tímamótum frá árinu 1983 en í ár var í fyrsta sinn í sögunni aðili utan ríkissjónvarpsins ráðinn til að stýra þættinum. Fyrir valinu varð þekktur gamanmyndaleikstjóri að nafni Feng Xiaogang. Reynt var að höfða meira til ungu kynslóðarinnar og aðkoma kóresku poppstjörnunnar Lee Min-ho var augljóslega liður í því. Flutningur frönsku leikkonunnar Sophie Marceau og kínverska listamannsins Liu Huan á franska slagaranum La vie en rose ljáði þættinum einnig alþjóðlegra yfirbragð. Það kom því nokkuð á óvart þegar dansflokkur frá kínverska þjóðarballettinum fyllti sviðið og dansaði byltingarkenndan kommúnistaballett í búningum rauðu varðliðanna. Í viðtali í kínverska sjónvarpinu sagði sýningarstjóri ballettflokksins að hún væri mjög ánægð að dansararnir hefðu fengið þetta tækifæri til að koma fram og að ákveðið hefði verið að helga atriðið fortíðinni og hylla um leið klassíkina.

Skömmu síðar var komið að baráttusöngvum með þjóðlegu hernaðarívafi.

Allt verður að pólitískum áróðri hér í Kína og yfirvöld í Peking hafa nú gengið svo langt að gera áramótaþáttinn að svokölluðu þjóðarverkefni en opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking árið 2008 var einmitt skilgreind á sama hátt. Þetta þykir sýna hversu mikilvægur þátturinn er í augum stjórnvalda.

Á vefsíðu NTD sjónvarpsstöðvarinnar í New York sver Feng, leikstjórinn vinsæli sem var valinn til að stýra þættinum í ár, þess eið að hann muni aldrei aftur taka að sér slíkt verkefni. Hann segir að eftir að hann tók við stjórn þáttarins hafi samstarfsmenn hans verið farnir að halda að hann væri ekki heill á geði. Á sama stað segir að Feng hafi viljað ögra yfirvöldum með því að bjóða rokkaranum Cui Jian, sem sumir kalla föður kínverska rokksins, að koma fram í þættinum. Cui Jian sem er á bannlista kínverska kommúnistaflokksins þáði boðið en fór fram á að syngja lagið ,,Nothing to my name” sem fjallar um vanda ungu kynslóðarinnar í Kína eftir dauða Mao formanns og stúdentana sem létu lífið í óeirðunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Sumir fjölmiðlar segja að fallist hafi verið á Cui Jian flytti lagið ef hann myndi breyta textanum. Rokkarinn hafði engan áhuga á slíku samkomulagi en kannski má segja að tilganginum hafi verið náð þar sem málið beindi sjónum að ritskoðun stjórnvalda á þættinum.

NTD sjónvarpstöðin var stofnuð af amerískum Kínverjum og veitir oft annað sjónarhorn á gang mála í Kína en ríkisfjölmiðlarnir hér í Alþýðulýðveldinu gera. Þar er haft eftir Yang Hengjun, sem er ritstjóri kínverskrar útgáfu ástralska dagblaðsins Sydney Times, að þátturinn sem eigi að vera fólki til skemmtunar, sé fullkomlega pólitískur og smitaður af þjóðernislegum áróðri og heilaþvotti. Í þessari sömu frétt NTD um áramótaþáttinn er skáldið Ye Kuangzheng inntur eftir áliti og kallar hann þáttinn árlega trúarathöfn stjórnmálanna og segir hann áróðurstæki til að dreifa pólitískum goðsögum um kommúnistaflokkinn. Hann segir að þegar hann heyrði að Feng Xiaogang hefði verið fenginn til að stýra þættinum í ár hefði hann haft að orði að jafnvel þótt sjálfur Chaplin væri fenginn til að leikstýra hefði honum ekki tekist að breyta neinu.

Dæmi nú hver fyrir sig því þótt Youtube sé bannað í Kína er þar að finna fjölmörg myndbönd með atriðum úr nýársþættinum. Fyrir þá þolinmóðustu er meira að segja hægt að horfa á rúmlega fjögurra klukkustunda útgáfu af þættinum öllum hér.

Gleðilegt ár hestsins!

Dagurinn í dag, 30. janúar, er sá síðasti á kínverska tungldagatalinu og á miðnætti gengur í garð nýtt ár. Ár snáksins kveður og við tekur ár hestsins. Hér í Kína er hesturinn tákn um persónulegar framfarir og samkvæmt stjörnuspeki heimamanna eru þeir sem fæddir eru í merki hestsins taldir gáfaðir, heilbrigðir og tilfinningasamir. Fólk í hestamerkinu býr yfir skarpskyggni og glaðværð, en einnig töluverðri þrjósku. Þetta þykir sumum benda til þess að á árinu 2014 muni mörg góðra manna ráð ekki ná eyrum þeirra sem þyrftu að hlusta. Happatölur ársins munu vera 2, 3 og 7 en óhappatölurnar eru 1, 5 og 6. Loks má bæta því við að fólk fætt í merki hestsins laðast gjarnan að fólki sem er fætt á ári tígrisdýrsins og ári hundsins. Það dregst hinsvegar síður að fólki sem er fætt í merki uxans og kanínunnar.

DSC_0122

Kínversku áramótin skipa svipaðan sess í Kína og jólin á Vesturlöndum og stressið í aðdraganda þessara mestu hátíðahalda ársins hjá Kínverjum er síst minna en við eigum að venjast við jólaundirbúninginn. Hátíðin í kringum nýja árið er þekkt sem vorhátíðin og á sér djúpar rætur í sögu lands og þjóðar. Þótt hugmyndafræðin sé gjörólík þeirri sem tengist jólunum þá má kannski segja að í grunninn snúist hátíðin um það sama; að verja tíma með fjölskyldunni, gefa gjafir og síðast en ekki síst, um mat.

IMG_4227

Nokkrum vikum áður en hátíðin gengur í garð fer að bera á allskonar kræsingum í matvöruverslunum og á mörkuðum. Þurrkað og reykt kjöt, fiskmeti og sjávarfang ýmisskonar, te, hnetur og ávextir. Sumt er dálítið furðulegt og stundum minnir þjóðlegur hátíðamatur í Kína á íslenskan þorramat þar sem hann er ósjaldan þurrkaður, sýrður eða reyktur.

IMG_4239

IMG_4215

DSC_0174

Skólafrí hefjast nokkru áður en hátíðin gengur í garð svo börn með foreldrum sínum verða algengari sjón á götum borgarinnar en venjulega. Borgarbúar sem hafa hukou í öðrum héruðum halda velflestir heim á leið til að hitta sín eigin börn sem oft ganga þar í skóla. Farþegatölur í lestum, flugvélum og rútum fara fram úr öllum mælikvörðum og á einum degi fara fleiri ferðalangar um flugvellina og lestarstöðvarnar hér í Shanghai en sem nemur allri íslensku þjóðinni. Sem dæmi fóru 166 þúsund farþegar um eina af samgöngumiðstöðvum borgarinnar á einum degi þann 27. janúar. Fyrir þá sem vilja fræðast meira um þessa gríðarlegu tilflutninga á fólki í kringum kínverska nýárið viljum við benda á mjög áhugaverða heimildamynd sem heitir Last Train Home (myndin er hér á Youtube).

hongqiao

Trommusláttur, drekadans og flugeldar eru mikilvægur liður í hátíðahöldunum. Mikið ber á ýmisskonar skreytingum þar sem allskyns happatákn eru hengd utan á hús og í glugga til að laða að góða orku fyrir nýja árið. Algengt er að sjá mandarínutré sem er stillt upp sitthvoru megin við inngang húsa en þau standa fyrir lukku í fjármálum þar sem appelsínugulur litur ávaxanna er eins og gull. Allt rautt boðar gæfu, og peningagjöfum er komið fyrir í rauðu umslagi, svokölluðu hongbao. Þótt hongbao sé líka notað um afmælis- og brúðargjafir í Kína þá er það nýársgjöfin sem mestu skiptir. Upphaflega var hugmyndin sú að fullorðnir gæfu börnum hongbao en slíkar peningagjafir eru nú einnig algengar frá vinnuveitendum til starfsfólks og víðar. Þeir sem ferðast heim um hátíðarnar finna fyrir pressu að koma með nógu ríflegt hongbao og dýrar gjafir handa ættingjunum.

DSC_0148

DSC_0151

Kínverjar fundu upp púðrið og skoteldar með tilheyrandi hávaða og ljósadýrð hafa um aldir, ef ekki árþúsund, verið hluti af nýárshátíðahöldunum. Óhætt er að segja skotgleði Kínverja sé engu minni en Íslendinga og stundum finnst manni að allt hér í Kína byrji og endi með skoteldum. Það þarf ekki áramót til því hvort sem um er að ræða brúðkaup, opnanir verslana, stofnana og veitingastaða, flutninga í nýtt húsnæði eða afmæli, allt er þetta tilefni til að skjóta upp flugeldum. Skiptir þá ekki máli hvort bjart er af degi eða myrkur, í Kína má heyra í flugeldum allan ársins hring og á öllum tímum sólarhrings. Ekkert toppar þó kínverska gamlárskvöldið og í kvöld má búast við miklum hávaða eins og Íslendingar geta kannski gert sér í hugarlund nema að hér þarf að margfalda allt með nokkrum milljónum. Í fyrra voru það víst 30 þúsund borgarstarfsmenn sem fóru út á götunar í Shanghai á nýársnótt til að þrífa upp sóðaskapinn eftir flugeldana sem mældist í tonnum. Hér gæti þó orðið breyting á, því samkvæmt nýjustu fréttum hafa borgaryfirvöld í Shanghai og víðar hvatt íbúa til að stilla sprengingunum um áramótin í hóf. Ástæðan er mengunin sem hlýst af flugeldunum og stillt veðrið í ár hjálpar ekki til. Í fyrra voru mengunartölur í Shanghai á miðnætti himinháar, eða yfir 500 á PM2,5 mælikvarðanum, sem er áhyggjuefni eins og öll sú gríðarlega mengun sem landið glímir við.

IMG_4285

Skömmu fyrir kínversk áramót verða rauðar nærbuxur áberandi í verslunum (og á þvottasnúrum) í borgum og bæjum í Kína. Úrvalið af rauðum undirfatnaði er fyrir bæði kynin og ósjaldan með gylltum bryddingum. Hér er það almenn (hjá)trú að rauður fatnaður geti afstýrt hugsanlegri ógæfu sem sækir fólk heim á tólf ára fresti. Kínversku dýramerkin eru tólf og við 12, 24, 36 o.s.frv ára aldur verða því þáttaskil í lífinu. Þetta kallast benming nian á kínversku og þá er hætta á slæmu ári. Til að hindra að slæm öfl nái til manna er talið hjálplegt að klæðast rauðu. Þá eru rauðar nærbuxur náttúrlega einföld lausn og Kínverjar hafa tröllatrú á rauða litnum sem táknar tryggð, frama og hamingju.

IMG_4274

DSC_0159

Þótt kalt sé í veðri í stærstum hluta landsins á þessum árstíma markar nýja árið líka upphaf vorsins í huga kínversku þjóðarinnar. Skreytingar sem eru settar upp í tilefni af hátíðahöldunum bera það dálítið með sér með tilheyrandi blóma- og litadýrð. Í gamla bænum hér í Shanghai eru skreytingarnar í ár íburðarmiklar að venju. Flestar vísa þær með einhverjum hætti í kínverskar sögur og hefðir en af einhverjum ástæðum slæddust biblíusögurnar með þetta árið og sjá mátti Adam og Evu í Paradís.

DSC_0120

DSC_0091

Með þessu myndum sendum við lesendum bloggsins okkar bestu kveðjur á nýju ári hestsins. Ýmsar kveðjur eiga við af þessu tilefni en hér eru þrjár þær algengustu:

1. 新年快乐 Xīnnián kuàilè! (gleðilegt ár)

DSC_0127

2. 过年好 Guònián hǎo!  (gleðilegt ár)

DSC_0060

3. 恭喜发财 Gōngxǐ fācaí! (bestu óskir um hagsæld/velmegun/ríkidæmi)

IMG_4248

Dálítið kínversk jól

Jólin teljast ekki til almennra frídaga hér í Kína enda er talið að innan við tvö prósent kínversku þjóðarinnar aðhyllist kristna trú. Flestir Kínverjar tengja jólin þó ekkert endilega við kristindóminn og margir eru farnir að gera sér dagamun á jólum þótt þau beri upp á hefðbundinn vinnudag. Við höfum líka komist að því að margt ungt fólk skreytir heima hjá sér og setur jafnvel upp jólatré. Einnig verður sífellt algengara að gefnar séu jólagjafir enda eru jólin í alþýðulýðveldinu fyrst og fremst keyrð áfram af verslunarmiðstöðvum sem leggja mikið í jólaskreytingarnar.

DSC_0101

Alþjóðleg veitingahús og hótel taka einnig þátt í gleðinni og víða er boðið upp á sérstakan matseðil í tilefni af jólunum. Í stórmörkuðum er hægt að kaupa jólaskraut og afgreiðslufólkið er stundum með jólasveinahúfur.

IMG_3934

IMG_3930

Kínverska nýárið er stærsta hátíð Kínverja og er hún yfirleitt haldin í lok janúar eða byrjun febrúar í samræmi við tungldagatalið. Jólaljósin fá því víða að loga fram yfir kínversku hátíðahöldin, stundum með örlitlum áherslubreytingum. Verslunarmiðstöðvar sem hvað lengst hafa starfað í Shanghai eru augljóslega farnar að laga sig að þessu umhverfi og jólaskreytingarnar vísa þá jafnvel bæði til nýs árs 2014 og kínverska nýja ársins sem að þessu sinni er ár hestsins. Slagorðið Hold Your Horses er ef til vill skemmtileg tilvísun í að enn sé nokkur bið eftir kínversku nýárshátíðahöldunum sem verða í lok janúar að þessu sinni.

DSC_1235DSC_1254 

Enska orðið christmas þykir ekki alltaf heppilegt þegar talað er um jólahátíðina vegna augljósra tengsla þess við Jesú Krist. Svæði sem heitir Xintiandi og samanstendur af verslunum og veitingahúsum í fallega uppgerðum byggingum er þekkt fyrir líflegar jólaskreytingar hér í Shanghai. Í ár var það breski lýsingarhönnuðinn Paul Cockegde sem skapaði hlýlega hátíðarstemninguna undir slagorðinu Merry Kissmas.

IMG_3980

DSC_0111

Vörumerki ýmisskonar, hvort sem um er að ræða skart, ferðatöskur eða bjór, eru mjög oft hluti af jólaskreytingunum.

IMG_3942

DSC_0062

DSC_0074

Jólaskreytingarnar eru afar vinsælar fyrir myndartökur meðal heimamanna og jafnt börn sem fullorðnir keppast við að stilla sér upp við dýrðina.

DSC_0044

DSC_1244

Gamlir siðir og venjur eru stór hluti af jólahátíðahöldunum á Íslandi og víðar. Slíkar jólahefðir eru að sjálfsögðu ekki til hér í Kína og þess vegna er mesta furða hvað hátíðin fær mikla athygli. Vissulega má tengja áhugann við aukna neyslu í kínversku samfélagi en í spjalli við innfædda hér í Shanghai höfum við þó ekki síður fundið að stórborgarbúarnir eru í leit að tækifærum til að gleðjast með vinum og fjölskyldu. Og kannski má segja að hinn eiginlegi andi jólanna sé einmitt þá til staðar þegar fólk kemur saman yfir góðum mat, skiptist á gjöfum og nýtur samverunnar.

DSC_0066

Við sendum öllum lesendum bloggsins bestu óskir um gleðileg jól. Sheng dan kuai le!

merrychristmas

Gyllt vika veldur vandræðum

Í dag hóf kínverska þjóðin störf á ný eftir afar viðburðarríka gyllta viku, en svo er hún kölluð frívikan sem yfirvöld hafa fyrirskipað í kringum þjóðhátíðardaginn. Með því að safna saman opinberum frídögum, hreyfa til virka vinnudaga og vinna um helgar í staðinn fær meginþorri kínverskra launþega vikufrí sem þeir nýta gjarnan til ferðalaga. Þetta óvenjulega fyrirkomulag frídaga hefur nú leitt til hálfgerðs óreiðuástands í landinu.

crowd2

Helgidagahagfræði

Í kjölfar efnahagskreppu í Asíu fyrir rúmum áratug ákváðu kínversk stjórnvöld að kynda undir efnahag landsins með því að fjölga almennum frídögum. Meðal annars var ákveðið að búa til frí í tengslum við þjóðhátíðardaginn og var það nefnt gyllta vikan. Upphaflega snerist hugmyndin um að fólk tæki sér frí, slappaði af og hefði þar með tíma til að eyða peningum sem kæmi efnahagslífinu til góða.

Fyrstu árin leiddu aukin frí til þess að persónuleg neysla jókst og fyrirtæki í verslun og ferðaþjónustu möluðu gull á ótrúlega skömmum tíma. Í þessu samhengi hefur hugtakið “holiday economy“ verið notað eða það sem kalla mætti helgidagahagfræði, til að lýsa ástandinu sem skapast þegar milljónir Kínverja halda af stað í ferðalag, allir á sama tíma, til að skoða sig um í veröldinni og versla.

Fljótlega fór þó að bera á neikvæðum áhrifum þessarar nýju hagfræði. Í samræmi við aukna kaupgetu kínversku þjóðarinnar hefur ferðagleðin aukist meira en samfélagið ræður við. Fréttir af umferðaröngþveiti, yfirfullum almenningssamgöngutækjum og óskiljanlegri mannmergð á helstu ferðamannastöðum ber nú hæst í umræðunni um gylltu vikuna. Auk þess er kvartað yfir stjórnlausu verðlagi þar sem til dæmis verð aðgöngumiða í söfn og þjóðgarða er hækkað á þessum dögum. Þá lýsa æ fleiri fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum yfir óánægju með fyrirkomulagið.

forbiddencitycrowd

Himinháar ferðamannatölur

Fjöldi fólks á faraldsfæti í gylltu vikunni er gríðarlegur og eykst frá ári til árs. Sem dæmi um himinháar tölur kínverskra ferðamanna innanlands má nefna að 2. október síðastliðinn heimsóttu 175 þúsund manns keisarahöllina í Beijing en hingað til hafa heimsóknartölur verið takmarkaðar við 80 þúsund manns á dag. Forráðamenn hallarsafnsins sáu sig hins vegar knúna til að halda áfram að selja miða til að forðast uppnám meðal fjöldans.

Sama dag heimsóttu 80 þúsund ferðalangar vinsælu ferðamannaeyjuna Gulangyu í suðausturhluta Kína. Ef allt væri eins og á verður kosið hefði fjöldinn verið 30 þúsund enda eyjan ekki nema 1,87 ferkílómetrar að flatarmáli, eða svipuð að stærð og Viðey.

Undir lok vikunnar ákváðu yfirmenn þjóðgarðs í Sichuan-fylki að fara að tilmælum yfirvalda og hætta miðasölu þegar viðmiðunarmörkum um 41 þúsund gesti á dag var náð. Það gerðist þó ekki fyrr en yfir 4000 manns höfðu lokast inni í þjóðgarðinum í 10 klukkustundir á miðvikudag þegar allar samgöngur um garðinn hrundu undan álaginu.

Í borginni Nanjing heimsóttu 230 þúsund manns grafhýsi þjóðhetjunnar Sun Yat-sen á miðvikudaginn. Í fréttum var talað við hóp ungra manna sem höfðu með sér níu sett af labbrabb-tækjum af ótta við að týnast í mannfjöldanum.

Hér í Shanghai voru borgarbúar beðnir að halda sig heima við til að gefa rými þeim 8 milljónum ferðamanna sem talið er að heimsæki borgina í gylltu vikunni.

Ofan á allt annað hafa óveður og mengun sett strik í reikninginn. Samgöngur hafa farið úr skorðum í austurhluta landsins vegna fellibylsins Fitow og í höfuðborginni þurfti að vara fólk við að dvelja utandyra sökum mengunar sem náði um helgina hæstu hæðum.

mengun

Þeir kínversku ferðamenn sem héldu út fyrir landsteinana voru heldur ekki einir á ferð. Allar ferðir frá Kína til Bandaríkjanna og Kanada á tímabilinu 18. september til 10. október seldust upp. Kínverskir ferðamenn heimsóttu einnig fjölda vinsælla áfangastaða í Evrópu og Asíu en við munum fljótlega fjalla um utanferðir Kínverja í annarri grein.

Tungldagatalið truflar

Flestir kínverskir frídagar taka mið af tungldagatalinu og eru því hreyfanlegir. Ekki ósvipað og við Íslendingar eigum að venjast með páska. Því getur það gerst að stuttur tími líði á milli fría. Í ár bar miðhausthátíðina til dæmis upp skömmu fyrir þjóðhátíðardaginn 1. október. Þetta hefur haft í för með sér dálítið ruglingslegt frídagafyrirkomulag. Þótt miðhausthátíðin feli í raun bara í sér einn frídag og þjóðhátíðin þrjá, er venjan í Kína að færa til vinnudaga svo úr verði annars vegar þriggja daga hausthátíð og hinsvegar vikulöng þjóðhátíð. Til að gera þetta mögulegt er vinnudögum víxlað og fólk þarf að vinna um helgar til að bæta upp vinnutap á virkum dögum.

Þetta er dálítið flókið! Til þess að gefa fólki hugmynd um fyrirkomulagið listum við hér upp opinbert skipulag í kringum þessa frídaga haustið 2013. Ferlið hefst fimmtudaginn 19. september:

  • Þriggja daga frí (fim, fös, lau)
  • Á sunnudegi hefst ný 6 daga vinnuvika (sun, mán, þri, mið, fim, fös)
  • Þá kemur einn frídagur (lau)
  • Við taka tveir vinnudagar (sun, mán)
  • Þá hefst 7 daga frívika (þri, mið, fim, fös, lau, sun, mán)
  • Þriðjudaginn 8. október hefst vinna á ný í 5 daga (þri, mið, fim, fös, lau).
  • Eftir hana kemur einn frídagur (sun)

Úr sambandi við umheiminn

Ekki líkar öllum peningamönnum fyrirkomulagið. Margir fjárfestar og viðskiptamenn hafa bent á glötuð tækifæri til að græða peninga þegar hlutabréfamörkuðum á meginlandi Kína er lokað í heila viku. Fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum kvarta einnig hástöfum undan truflun á starfsemi þeirra. Bent er á að afar lítið sé um að vera um helgar og því lítið gagn í að hafa fyrirtækin opin á laugardögum eða sunnudögum í stað virkra daga. Því kemur ekki á óvart að fulltrúar margra alþjóðlegra fyrirtækja og alþjóðlegra skóla í Kína hafa einfaldlega hundsað opinberar vinnuáætlanir og haldið sínu striki. Starfsmennirnir fá þá í staðinn orlofsdaga sem þeir geta kosið að nýta annaðhvort í tengslum við kínverska frídaga eða á öðrum tímum. Opinberir starfsmenn og flestir kínverskir launþegar hafa ekki um slíkt að velja og geta aðeins tekið frí á þeim tímum og með þeim skilyrðum sem yfirvöld fyrirskipa. Því má einnig bæta við að ekki eiga allir frí þessa daga því verslanir, veitingastaðir og fjölmörg önnur þjónustufyrirtæki eru opin samkvæmt venju, þ.e. í það minnsta 12 tíma á dag.

Hvort öll þessi neikvæða umræða, jafnt í kínverskum fjölmiðlum sem manna á meðal, og hin ýmsu óþægindi sem gyllta vikan hefur skapað í ár hafi áhrif til breytinga í framtíðinni er ómögulegt að segja. Mörgum þykir óreiðan þó sýna að nóg sé komið af miðstýringu yfirvalda á frítíma fólksins, jafnvel þótt ásetningurinn hafi upphaflega verið góður.

Dálítið kínverskt á þjóðhátíð

Alþýðulýðveldið Kína var stofnað 1. október 1949 og er því 64 ára í dag. Af því tilefni birtum við nokkrar myndir sem við tókum í Shanghai þegar búið var að flagga við helstu umferðargötur:

DSC_0982

DSC_0960

DSC_0968

DSC_0943

Og svona var mannlífið á sjálfan þjóðhátíðardaginn á þekktustu verslunargötu Shanghai, Nanjing Rd.:

Nanjing

NanjingSvampur

Þessi voru uppáklædd í tilefni dagsins:

Tiskan

Tunglkökur

tunglkaka_efst

Tunglkökur eru framleiddar í tonnatali í Kína ár hvert í tengslum við miðhausthátíðina. Umbúðir og vörumerki þykja oft mikilvægari en bragð og gæði vörunnar og rándýrar tunglkökur í skrautlegum umbúðum eru orðnar að stöðutákni. Flestir kaupa tunglkökur til gjafa því margir Kínverjar eru lítt hrifnir af bragðinu, ekki síst yngri kynslóðin. Söluhæstu tunglkökurnar í Kína undanfarin ár hafa verið uppfærðar útgáfur bandaríska ísframleiðandans Häagen-Dazs.

mooncake packaging

Dæmigerðar tunglkökur eru hringlaga eins og fullt tungl. Eins og svo oft í Kína er gerð þeirra tengd alls kyns táknmyndum. Sem dæmi má nefna að í hefðbundna uppskrift eru yfirleitt notaðar fjórar eggjarauður sem standa fyrir fjóra fasa tunglsins. Kökurnar eru stundum sætar og eru þá til dæmis fylltar með sætum baunum eða lótusfræjum en geta einnig verið matmeiri og bragðsterkar, fylltar með kryddjurtum og kjöti, jafnvel Peking önd!

Framleiðsla hefðbundinnar tunglköku mun vera frekar ódýr þótt varan sé seld háu verði. Það eru því miklir peningar í húfi og margir reyna að eigna sér hlut í kínverska tunglkökuævintýrinu. Hótelkeðjur og veitingastaðir framleiða kökurnar undir eigin vörumerkjum og fyrirtæki frá Vesturlöndum sem hafa náð vinsældum í Kína markaðssetja nú sínar eigin gerðir. Þá eru tunglkökurnar gjarnan færðar til nútímalegra horfs, jafnvel er talað um tunglköku “make over” og þar sem fræg vörumerki seljast jafnan best í Kína, berast æ oftar fréttir af tunglkökueftirlíkingum.

zondag1

Hefðbundar tunglkökur eru ekki aðeins svolítið furðulegar á bragðið heldur innihalda þær gríðarlegt magn hitaeininga, allt upp í 800 kaloríur stykkið! Þetta kann að einhverju leyti að skýra vinsældir tunglkakanna frá Häagen-Dazs. Fólk kaupir slíkar kökur fremur til að borða sjálft, hinar hefðbundnu eru hafðar til gjafa. Hvað sem öðru líður hafa tilraunir til að færa tunglkökuna nær þörfum nútímans tekist ágætlega og næsta víst að tunglkökur verða áfram hluti af hátíðahöldum haustsins hér í Kína.

Hátíð á miðju hausti

Mid-Autumn-Festival-Chinese-Festival-004-485x728

Miðhausthátíðin er ein af mikilvægustu hátíðum Kínverja. Í samræmi við kínverska dagatalið ber mitt haust upp á 15. dag 8. mánaðar og af því dregur hátíðin nafn sitt. Í ár ber daginn upp á fimmtudaginn 19. september samkvæmt okkar tímatali. Því var trúað að þennan dag næði kringlótt form tunglsins og ljómi þess hámarki. Samkvæmt kínverskri þjóðtrú táknar fullt tungl endurfundi og því fagna Kínverjar deginum gjarnan í faðmi fjölskyldunnar. Tunglkökur eru einnig órjúfanlegur partur af hátíðahöldunum.

Tilbeiðsla tunglsins er aldagömul hefð í Kína. Finna má útsýnisskála til tunglskoðunar í flestum sögufrægum byggingum og í gegnum árþúsundin hafa orðið til ýmsir siðir og venjur sem tilheyra þessari árlegu hátíð. Allt frá Tang keisaratímanum hefur miðhausthátíðin verið ein af opinberum hátíðum í Kína. Á Song tímabilinu urðu almenn hátíðarhöld algengari og flykktist þá almenningur gjarnan í útsýnisskála til að njóta tunglsins, þeir efnameiri heimsóttu sína eigin skála. Fjölskyldur söfnuðust þá saman til kvöldverðar, jafnframt því að njóta þess að horfa á tunglið. Frá tímum Ming og Qing keisaraættanna hafa skapast ýmsar matarhefðir á þessum tímamótum, svo sem að borða rótarávöxtinn taro og tunglkökur.

Líkt og fyrr á tímum safnast kínverskar nútímafjölskyldur saman og borða kvöldverð á þessum frídegi. Gufusoðnar jarðhnetur, sneiðar af taro, hrísgrjónaseyði, fiskur og núðlur eru hefðbundir réttir við þessi tímamót. Enginn þeirra kemst þó í hálfkvisti við vinsældir tunglkökunnar. Vikum fyrir sjálfa hátíðina má sjá tunglkökur til sölu í öllum helstu verslunum, hótelum og kaffihúsum enda eftirsótt gjöf til vina og ættingja. Fyrirtæki nota gjarnan tækifærið til að senda tunglkökur til viðskiptavina sem þakklætisvott.