Í dag hóf kínverska þjóðin störf á ný eftir afar viðburðarríka gyllta viku, en svo er hún kölluð frívikan sem yfirvöld hafa fyrirskipað í kringum þjóðhátíðardaginn. Með því að safna saman opinberum frídögum, hreyfa til virka vinnudaga og vinna um helgar í staðinn fær meginþorri kínverskra launþega vikufrí sem þeir nýta gjarnan til ferðalaga. Þetta óvenjulega fyrirkomulag frídaga hefur nú leitt til hálfgerðs óreiðuástands í landinu.

Helgidagahagfræði
Í kjölfar efnahagskreppu í Asíu fyrir rúmum áratug ákváðu kínversk stjórnvöld að kynda undir efnahag landsins með því að fjölga almennum frídögum. Meðal annars var ákveðið að búa til frí í tengslum við þjóðhátíðardaginn og var það nefnt gyllta vikan. Upphaflega snerist hugmyndin um að fólk tæki sér frí, slappaði af og hefði þar með tíma til að eyða peningum sem kæmi efnahagslífinu til góða.
Fyrstu árin leiddu aukin frí til þess að persónuleg neysla jókst og fyrirtæki í verslun og ferðaþjónustu möluðu gull á ótrúlega skömmum tíma. Í þessu samhengi hefur hugtakið “holiday economy“ verið notað eða það sem kalla mætti helgidagahagfræði, til að lýsa ástandinu sem skapast þegar milljónir Kínverja halda af stað í ferðalag, allir á sama tíma, til að skoða sig um í veröldinni og versla.
Fljótlega fór þó að bera á neikvæðum áhrifum þessarar nýju hagfræði. Í samræmi við aukna kaupgetu kínversku þjóðarinnar hefur ferðagleðin aukist meira en samfélagið ræður við. Fréttir af umferðaröngþveiti, yfirfullum almenningssamgöngutækjum og óskiljanlegri mannmergð á helstu ferðamannastöðum ber nú hæst í umræðunni um gylltu vikuna. Auk þess er kvartað yfir stjórnlausu verðlagi þar sem til dæmis verð aðgöngumiða í söfn og þjóðgarða er hækkað á þessum dögum. Þá lýsa æ fleiri fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum yfir óánægju með fyrirkomulagið.

Himinháar ferðamannatölur
Fjöldi fólks á faraldsfæti í gylltu vikunni er gríðarlegur og eykst frá ári til árs. Sem dæmi um himinháar tölur kínverskra ferðamanna innanlands má nefna að 2. október síðastliðinn heimsóttu 175 þúsund manns keisarahöllina í Beijing en hingað til hafa heimsóknartölur verið takmarkaðar við 80 þúsund manns á dag. Forráðamenn hallarsafnsins sáu sig hins vegar knúna til að halda áfram að selja miða til að forðast uppnám meðal fjöldans.
Sama dag heimsóttu 80 þúsund ferðalangar vinsælu ferðamannaeyjuna Gulangyu í suðausturhluta Kína. Ef allt væri eins og á verður kosið hefði fjöldinn verið 30 þúsund enda eyjan ekki nema 1,87 ferkílómetrar að flatarmáli, eða svipuð að stærð og Viðey.
Undir lok vikunnar ákváðu yfirmenn þjóðgarðs í Sichuan-fylki að fara að tilmælum yfirvalda og hætta miðasölu þegar viðmiðunarmörkum um 41 þúsund gesti á dag var náð. Það gerðist þó ekki fyrr en yfir 4000 manns höfðu lokast inni í þjóðgarðinum í 10 klukkustundir á miðvikudag þegar allar samgöngur um garðinn hrundu undan álaginu.
Í borginni Nanjing heimsóttu 230 þúsund manns grafhýsi þjóðhetjunnar Sun Yat-sen á miðvikudaginn. Í fréttum var talað við hóp ungra manna sem höfðu með sér níu sett af labbrabb-tækjum af ótta við að týnast í mannfjöldanum.
Hér í Shanghai voru borgarbúar beðnir að halda sig heima við til að gefa rými þeim 8 milljónum ferðamanna sem talið er að heimsæki borgina í gylltu vikunni.
Ofan á allt annað hafa óveður og mengun sett strik í reikninginn. Samgöngur hafa farið úr skorðum í austurhluta landsins vegna fellibylsins Fitow og í höfuðborginni þurfti að vara fólk við að dvelja utandyra sökum mengunar sem náði um helgina hæstu hæðum.

Þeir kínversku ferðamenn sem héldu út fyrir landsteinana voru heldur ekki einir á ferð. Allar ferðir frá Kína til Bandaríkjanna og Kanada á tímabilinu 18. september til 10. október seldust upp. Kínverskir ferðamenn heimsóttu einnig fjölda vinsælla áfangastaða í Evrópu og Asíu en við munum fljótlega fjalla um utanferðir Kínverja í annarri grein.
Tungldagatalið truflar
Flestir kínverskir frídagar taka mið af tungldagatalinu og eru því hreyfanlegir. Ekki ósvipað og við Íslendingar eigum að venjast með páska. Því getur það gerst að stuttur tími líði á milli fría. Í ár bar miðhausthátíðina til dæmis upp skömmu fyrir þjóðhátíðardaginn 1. október. Þetta hefur haft í för með sér dálítið ruglingslegt frídagafyrirkomulag. Þótt miðhausthátíðin feli í raun bara í sér einn frídag og þjóðhátíðin þrjá, er venjan í Kína að færa til vinnudaga svo úr verði annars vegar þriggja daga hausthátíð og hinsvegar vikulöng þjóðhátíð. Til að gera þetta mögulegt er vinnudögum víxlað og fólk þarf að vinna um helgar til að bæta upp vinnutap á virkum dögum.
Þetta er dálítið flókið! Til þess að gefa fólki hugmynd um fyrirkomulagið listum við hér upp opinbert skipulag í kringum þessa frídaga haustið 2013. Ferlið hefst fimmtudaginn 19. september:
- Þriggja daga frí (fim, fös, lau)
- Á sunnudegi hefst ný 6 daga vinnuvika (sun, mán, þri, mið, fim, fös)
- Þá kemur einn frídagur (lau)
- Við taka tveir vinnudagar (sun, mán)
- Þá hefst 7 daga frívika (þri, mið, fim, fös, lau, sun, mán)
- Þriðjudaginn 8. október hefst vinna á ný í 5 daga (þri, mið, fim, fös, lau).
- Eftir hana kemur einn frídagur (sun)
Úr sambandi við umheiminn
Ekki líkar öllum peningamönnum fyrirkomulagið. Margir fjárfestar og viðskiptamenn hafa bent á glötuð tækifæri til að græða peninga þegar hlutabréfamörkuðum á meginlandi Kína er lokað í heila viku. Fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum kvarta einnig hástöfum undan truflun á starfsemi þeirra. Bent er á að afar lítið sé um að vera um helgar og því lítið gagn í að hafa fyrirtækin opin á laugardögum eða sunnudögum í stað virkra daga. Því kemur ekki á óvart að fulltrúar margra alþjóðlegra fyrirtækja og alþjóðlegra skóla í Kína hafa einfaldlega hundsað opinberar vinnuáætlanir og haldið sínu striki. Starfsmennirnir fá þá í staðinn orlofsdaga sem þeir geta kosið að nýta annaðhvort í tengslum við kínverska frídaga eða á öðrum tímum. Opinberir starfsmenn og flestir kínverskir launþegar hafa ekki um slíkt að velja og geta aðeins tekið frí á þeim tímum og með þeim skilyrðum sem yfirvöld fyrirskipa. Því má einnig bæta við að ekki eiga allir frí þessa daga því verslanir, veitingastaðir og fjölmörg önnur þjónustufyrirtæki eru opin samkvæmt venju, þ.e. í það minnsta 12 tíma á dag.
Hvort öll þessi neikvæða umræða, jafnt í kínverskum fjölmiðlum sem manna á meðal, og hin ýmsu óþægindi sem gyllta vikan hefur skapað í ár hafi áhrif til breytinga í framtíðinni er ómögulegt að segja. Mörgum þykir óreiðan þó sýna að nóg sé komið af miðstýringu yfirvalda á frítíma fólksins, jafnvel þótt ásetningurinn hafi upphaflega verið góður.