Qipao kjólar og kvenfrelsi

Klæddar bróderuðum qipao kjólum úr silki, perlum skreyttar og kæruleysislegar í fasi eru þær kvenleikinn uppmálaður kínversku fegurðardísirnar sem birtast okkur á teikningum og ljósmyndum frá upphafi síðustu aldar. En þótt töfraljómi hvíli yfir dömunum er kjóllinn sem þær klæðast líka táknrænn fyrir aukið frjálsræði kínverskra kvenna á mikilvægum tímamótum í sögu Kína. Þegar keisaravaldið sem ríkt hafði yfir landinu um árþúsundir var að líða undir lok og tekist var á um stjórnarfar framtíðarinnar klæddust konurnar í Kína qipao kjólum.

shanghaiposters

Slík er frægð qipao kjólsins að honum hafa verið tileinkaðar sýningar í stórborgum á borð við Hong Kong, Singapore og New York og um hann hafa verið skrifaðar bækur. Saga kjólsins er nokkuð merkileg heimild, hvort sem ætlunin er að fræðast um tísku og fagurfræði, eða kvennasögu með tilheyrandi breytingum á lífi kínverskra kvenna á umbrotatímum í Kína. Qipao kjóllinn hefur notið vinsælda í heila öld og fylgt kínverskum konum víða um heim.

Qipao eða cheongsam?

Á mandarín-kínversku er kjóllinn kallaður qipao. Orðið átti upphaflega við um hefðbundinn búning kvenna þegar Mansjúríumenn réðu ríkjum í Kína á tímum Qing ættarveldisins. Qipao kjólar kvennanna við keisarahirðina voru íburðarmiklir, úr silki, heilbróderaðir og skreyttir með blúndum.

qingdynasty

Kínverjar sem tala kantónsku kalla kjólinn cheongsam. Orðið er komið af changshan í mandarín-kínversku sem merkir síður kjóll og átti upphaflega við um klæðnað kínverskra karla. Bæði qipao og cheongsam eru semsagt fullkomlega rétt kínversk heiti sem hafa fengið nýja merkingu. Á meginlandi Kína er talað um qipao en í Hong Kong, þar sem töluð er kantónska, aldrei um annað en cheongsam. Utan Kína er cheongsam sennilega þekktara nafn þar sem kínversk áhrif bárust frekar frá Hong Kong til Vesturlanda á meðan Kína var lokað land undir stjórn Mao formanns.

qingdynastymen

Og svo segir sagan 

Eins og svo oft í Kína er til þjóðsaga um tilurð qipao kjólsins. Sagan segir frá ungri konu sem bjó við Jingbo stöðuvatnið og hafði afkomu sína af fiskveiðum. Hún var ekki aðeins undurfögur, heldur líka gáfuð og hæfileikarík. Við veiðarnar voru víðir og síðir kjólarnir sem tíðkuðust á þessum tíma oft til óþæginda og henni hugkvæmdist að búa til praktískari vinnuklæðnað. Útkoman var kjóll með háum hliðarklaufum og hneppingum sem auðvelt var að losa um svo auðveldara væri að hreyfa sig við vinnuna.

Stúlkan var fátæk og grunaði ekki að örlög hennar myndu ráðast í draumum keisarans í Kína. En nótt eina vitjaði látinn faðir keisarans hans í svefni og sagði honum að unga konan í qipao kjólnum við Jingbo vatnið myndi verða eiginkona hans. Þegar keisarinn vaknaði lét hann menn sína leita stúlkuna uppi og flytja hana (og qipao kjólinn hennar) til hallarinnar. Upp frá því tóku allar konurnar við hirðina kjól keisaraynjunnar sér til fyrirmyndar og brátt klæddust allar konur í Kínaveldi qipao kjólum.

Qing-Dynasty-clothes-2

Keisaraveldið kvatt

Keisaraveldið leið undir lok og Lýðveldið Kína var stofnað árið 1912. Samfélagslegar umbætur sköpuðu ný tækifæri fyrir kínverskar konur og margar sýndu framfarahug sinn í verki með breyttum klæðaburði. Síðu kjólarnir sem áður voru aðeins fyrir karlmenn og kóngafólk náðu nú almennum vinsældum meðal kvenna en tóku breytingum sem féllu betur að nýjum lífsstíl. Sniðin urðu þrengri og líkari þeim sem konur á Vesturlöndum klæddust. Qipao kjólarnir gátu verið síðir og stuttir, með háum eða lágum kínakraga, ermalausir eða með ermum og misjafnt var hversu hátt hliðarklaufarnar voru skornar. Þannig gat útlit kjólsins verið íhaldssamt eða djarft og allt þar á milli, allt eftir því hvernig kjóllinn var sniðinn. Skáskorið opið sem nær frá hálsi niður að handarbótinni setur sterkan svip á qipao kjólinn en því er hneppt saman með hnöppum eða lykkjum. Efnið gat verið allt frá handbróderuðu silki til áprentaðra ullar- og bómullarefna. Kjólarnir voru ætíð sérsaumaðir en þrátt fyrir það hugsaðir til daglegra nota og jafnvel verksmiðjustúlkur klæddust slíkum kjólum við vinnuna. Þannig gat hver kona látið sníða kjólinn að sínum eigin persónuleika og var hann um leið tákn fyrir nýjan og frjálsari lífsstíl kínverskra kvenna.

Gullaldarárin í Shanghai

Um aldamótin 1800 leiddi ótraust stjórn keisaraveldisins til innrásar erlendra ríkja og þegar Kínverjar lutu í lægra haldi fyrir Bretum í hinu svokallaða ópíumstríði féllu ýmsar hafnir og borgir í Kína í hendur erlendra valdhafa. Þannig kom það til að árið 1843 var gerður sáttmáli um Shanghai sem fól í sér yfirráð útlendinga. Borgin varð fljótt mesta viðskiptahöfn í Kína og dró til sín fólk frá öllum heimshornum.

Á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar þótti Shanghai glæsilegri og nýtískulegri en aðrar kínverskar borgir og stóð stöðum eins og París fyllilega á sporði þegar kom að skemmtanalífinu. Einstök blanda vestrænna og austurlenskra áhrifa einkenndi andrúmsloftið á umbrotatímum millistríðsáranna. Fagrar art deco byggingar risu, jazzinn dunaði á næturklúbbunum og orðspor kabarettsýninganna og dansleikjanna í Shanghai barst um allan heim. Þessari sögu eru gerð ágæt skil í bók sem heitir Shanghai´s Dancing World eftir Andrew Field.

dancinginshanghai

Eftir stofnun lýðveldis í Kína stýrðu kínverskir þjóðernissinnar (kuomintang) landinu en útlendingar höfðu eftir sem áður völd og áhrif. Helstu tískustraumar bárust úr vestri og endurspegluðust glöggt í umhverfi og athöfnum borgarbúa. Það var flott að vera frá París eða London á þessum árum en almennilegur heimsborgari varð enginn nema hafa komið til Shanghai.

qipao1

Konur í qipao kjólum eru ein frægasta birtingarmynd gullaldaráranna í Shanghai. Myndirnar sýna þær sitjandi við snyrtiborð, spilandi golf eða með veiðistöng í hönd, reykjandi sígarettur, í sveiflu á dansgólfinu og stundum drekkandi amerískt kók. Sumar stilla sér upp í loðfeldum, með perlur og demanta en allar eru þær í qipao kjólum. Þrátt fyrir kynþokkafulla ímyndina er kjóllinn í margra augum mikilvægt tákn um aukið frelsi og sjálfstæði kínverskra kvenna á lýðræðistímum. Stúdínur, kvikmyndastjörnur, dansmeyjar, húsmæður, listakonur; allar gengu þær um stræti Shanghai borgar í qipao kjólunum sínum og gerðu sig gildandi í frjálsara samfélagi.

Áhrifamiklar konur í qipao

wuyifang

Konan sem skrifaði undir Sáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd Kína árið 1945 var klædd í qipao. Wu Yifang (1893-1985) hét hún og var meðal fyrstu kvenna til að ljúka prófi frá kínverskum háskóla. Hún varð síðar æðsti stjórnandi Ginling kvennaháskólans í Nanjing og barðist alla tíð fyrir jafnrétti kynjanna og félagslegu réttlæti.

En frægastar og áhrifamestar kínverskra kvenna á þessum tíma voru án vafa Soong systurnar þrjár frá Shanghai og varpar ævi þeirra ágætu ljósi á tíðarandann.

1280px-Soong_Sisters_visiting_Nationalist_soldiersAi-ling, Mei-ling og Ching-ling Soong heilsa upp á konur í her þjóðernissinna.

Frægust hér í Kína er Soong Ching-ling (1893-1981) sem ung að árum varð áberandi í baráttunni fyrir auknu frelsi kínverskra kvenna. Það vakti mikla athygli þegar hún giftist byltingarforingjanum Sun Yat-sen sem var mun eldri en hún. Sun Yat-sen er goðsögn í Kína fyrir framlag sitt til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hann var formaður í flokki þjóðernissinna (kuomintang) og fyrsti forseti hins nýja lýðveldis. Þegar Sun Yat-sen féll frá árið 1925 var Soong Ching-ling eiginkona hans kosin til áhrifa meðal þjóðernissinna. Skömmu síðar flúði hún til Moskvu og fylgdi upp frá því kommúnistum að málum. Þegar Mao lýsti yfir stofnun alþýðulýðveldisins á Torgi hins himneska friðar árið 1949 var hún meðal áhrifafólks sem stóð við hlið hans og skömmu fyrir andlátið árið 1981 var hún gerð að heiðursforseta alþýðulýðveldisins. Ekki eru nema nokkur ár síðan reynt var að reisa Soong Ching-ling minnisvarða í borginni Zhengzhou í Henan héraði. Um var að ræða 24 metra háa brjóstmynd. Listaháskólinn á staðnum kom að verkefninu og þó að andlitsdrættir Soong virtust furðu karlmannlegir (sumir sögðu að þetta væri alls ekki hún) var styttan kvenlega klædd í qipao kjól. En eitthvað voru yfirvöld óviss um réttmæti styttunnar því árið 2011, skömmu áður en hún var fullgerð, bárust fréttir af eyðileggingu hennar.

styttan

Minningunni um yngstu systurina, Soong Mei-ling (1898-2003), er aftur á móti lítt haldið á lofti hér í alþýðulýðveldinu enda var hún eiginkona Chiang Kai-shek, hershöfðingjans fræga sem jafnframt var pólitískur leiðtogi landsins eftir fráfall Sun Yat-sen, allt fram að valdatöku kommúnista. Forsetahjónin voru mjög þekkt á Vesturlöndum enda ferðuðust þau víða um heim og vakti Madame Chiang Kai-shek, eins og hún var gjarnan kölluð, jafnan athygli fyrir fallegan klæðaburð. Hún klæddist aldrei öðru en qipao og er sögð hafa átt yfir 1000 slíka kjóla. Eftir valdatöku kommúnista í Kína flúðu hjónin til Taiwan þar sem lýðveldið Kína lifði áfram undir stjórn þjóðernissinna. Eftir dauða Chiang Kai-shek árið 1975 fjaraði undan áhrifum flokksins og Soong Mei-ling flutti til Bandaríkjanna. Eftir það fór hún sjaldan til Taiwan en reyndi þó nokkrum sinnum, án árangurs, að beita áhrifum sínum í þágu flokks þjóðernissinna, síðast þegar kosið var í Taiwan árið 2000, en þá var hún rúmlega aldargömul! Sögu Soong Mei-ling hefur verið gerð skil í bókum, til dæmis hér, en hún lést í hárri elli í New York árið 2003.

soongchurchillfdrchiangChiang Kai-shek, Roosevelt, Churchill og Soong Mei-ling í Kaíró í Egyptalandi árið 1943.

soongmeilingrooseveltEleanor Roosevelt og Soong Mei-ling þegar sú síðarnefnda heimsótti Hvíta húsið í Washington árið 1943. Á bandaríska forsetafrúin að hafi sagt um kínversku stallsystur sína að hún talaði fallega um lýðræðið en vissi hinsvegar ekki hvernig ætti að lifa samkvæmt því.

Þriðja og elsta Soong systirin hét Soong Ai-ling (1890-1973). Hún var gift ríkasta manni Kína á þessum tíma, bankamanninum Kung Hsiang-hsi (H.H. Kung) en hann var einnig ráðherra í ríkisstjórn Chiang Kai-shek. Þegar hylla fór undir endalok lýðveldistímans í Kína flúðu þau hjón til Taiwan og síðar til Bandaríkjanna þar Soong Ai-ling lést á heimili sínu í New York.

soongsysturEin elskar peninga, önnur elskar völd og sú þriðja elskar landið sitt. Einhvernveginn svona hljómar orðatiltæki frá Mao tímanum og vísar það til Soong systra. Hér sitja þær systur saman, Mei-ling til vinstri, Ching-ling fyrir miðju og Ai-ling lengst til hægri.

Soong systurnar áttu efnaða foreldra, hlutu góða menntun erlendis og nutu alls þess besta (og allra þeirra forréttinda) sem Kína hafði upp á að bjóða á þessum árum. Líf þeirra er áhugaverð heimild um þjóðfélagslegar breytingar í Kína í byrjun síðustu aldar og því skiljanlegt að reynt hafi verið að gera þeim skil í kvikmynd. The Soong Sisters er kvikmynd frá 1997 sem hlaut nokkra athygli, ekki síst fyrir ágætan leik, en sú gríðarlega ritskoðun sem myndin mátti una við þótti þó sýna vel hversu erfitt er að fjalla um nútímasögu Kína undir smásjá yfirvalda í Beijing.

Kapitalískur klæðnaður

Þrátt fyrir gleði og glaum á fyrstu áratugunum voru lýðveldisárin miklir átakatímar í sögu Kína. Innrás Japana í árslok 1937 í Nanjing, sem þá var höfuðborg landsins, markaði upphaf að átökum sem lauk ekki fyrr en við endalok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945. Þá tók við blóðug borgarastyrjöld milli þjóðernissinna undir forystu Chiang Kai-shek og kommúnista með Mao Zedong fremstan í flokki. Kommúnistar náðu völdum árið 1949 og í hinu nýja alþýðulýðveldi hvarf qipao kjóllinn smám saman af götunum uns hann var loks bannaður með öllu. Kommúnistar töldu kjólinn dæmi um kapitalískan klæðnað og til vitnis um spilltan lífstílinn sem viðhafst hafði í landinu undir áhrifum útlendinga.

suzielife

Þegar ljóst var að kommúnistar myndu ná völdum á meginlandi Kína flúðu flestir íbúar alþjóðlega samfélagsins í Shanghai og settust margir að í bresku nýlendunni í Hong Kong. Meðal þeirra voru fjölmargir skraddarar sem lögðu grunn að nýju blómaskeiði qipao kjólsins í Hong Kong sem náði hámarki á fimmta og sjötta áratugnum. Þetta má glöggt sjá í kvikmyndum frá þessum tíma, til dæmis í myndinni The World of Suzie Wong frá árinu 1960. Nýrri kvikmynd sem einnig varpar ljósi á þetta tímabil í Hong Kong er In the Mood for Love frá árinu 2000 sem vann til fjölmargra alþjóðlegra verðlauna.

inthemoodforlove

Þegar vestræn menningaráhrif og tíska urðu áhrifameiri meðal kínverskra íbúa Hong Kong á sjöunda áratugnum datt qipao kjóllinn smám saman úr tísku. Hann hvarf þó aldrei með öllu og er enn vinsæll við formlegar viðhafnir eins og brúðkaup. Kjólar með qipao sniði eru einnig algengir einkennisbúningar á veitingastöðum, hótelum og sem flugbúningar hjá asískum flugfélögum.

Framboð af qipao sniðnum kjólum er mikið hér í Kína en ekki þykja þeir þó allir merkilegir. Sumir eru verksmiðjuframleiddir og aðrir saumaðir meira af vilja en getu. Til að sníða og sauma sanna qipao kjóla þarf handverkskunnáttu sem margir óttast að sé við það að deyja út enda hefur ungt fólk lítinn áhuga á að tileinka sér hana. En þótt skröddurunum fækki má enn eignast vandaða sérsaumaða qipao kjóla í Shanghai og Hong Kong. Verðbilið er gríðarstórt, allt eftir gæðum og orðspori klæðskeranna.

Greina hefur mátt áhrif frá qipao kjólnum í hátísku á síðustu árum. Til dæmis hafa tískuhúsið Gucci og bandaríski hönnuðurinn Ralph Lauren sótt innblástur í kjólinn. Einnig má nefna Shanghai Tang vörumerkið frá Hong Kong sem er brautryðjandi í nútímahönnun undir áhrifum frá hefðbundnum kínverskum sniðum. Í nýrri Shanghai Tang verslun hér í Shanghai er nú hægt að velja silki og láta sérsníða á sig qipao kjól líkt og tíðkaðist fyrir hundrað árum. Kannski má segja má að kjóllinn sé ekki aðeins aftur kominn í tísku, heldur hafi hann líka snúið aftur heim.

runway

Framtíðarhönnun til sýnis

Margir hönnuðir binda vonir við að koma hugmyndum sínum á framfæri í Kína. Tækifærin virðast óendanleg á þessum nýja, risavaxna markaði og kaupgetu kínversku þjóðarinnar, eða að minnsta kosti hluta hennar, virðist engin takmörk sett. Á hinn bóginn getur verið vandasamt að finna verðugan vettvang til að kynna hönnun fyrir áhugasömum Kínverjum. Síðustliðin ár hafa verið gerðar tilraunir til að skapa slíkan vettvang hér í Shanghai, nú síðast með hönnunarsýningunni Design Shanghai sem fram fór 27. febrúar til 2. mars. Við ákváðum að kíkja á sýninguna og upplifa stemninguna.

Screen Shot 2014-03-04 at 4.36.39 PM

Þetta er í fyrsta skipti sem sýningin er haldin undir þessu nafni en tilraunir með árlegar 100% Design Shanghai sýningar frá árinu 2008 eru þó augljós undanfari hennar. 100% Design er hugmynd sem lifir góðu lífi í London og Tokyo en náði sér ekki á strik í Shanghai. Fyrirtækið sem er bakhjarl 100% sýninganna, Media 10, kemur eftir sem áður að verkefninu og að þessu sinni var kínverskur sýningarstjóri fenginn til að stjórna verkefninu. Sá heitir Gu Zhihua og hefur náð góðum árangri við uppbyggingu alþjóðlegu myndlistarmessunnar Shanghai Art Fair. Meira var lagt í hönnunarsýninguna í ár og fjölmargir erlendir framleiðendur mættu til leiks í fyrsta sinn, þar á meðal heimsþekkt vörumerki á borð við Fritz Hansen, HAY, Cappellini og Vitra. Auk hinnar hefðbundnu vörusýningar var boðið upp á fyrirlestraröð þar sem fram komu innlendir og erlendir arkitektar, listamenn og hönnuðir. Þar á meðal var að finna fræg nöfn á borð við Michael Young og Ilse Crawford, Shanghai arkitektana Neri&Hu og hina íslensku Kristjönu S. Williams. Allt fór þetta fram í boði bílaframleiðandans Jaguar Land Rover.

Heimsókn á sýninguna

Design Shanghai sýningin er kynnt sem spennandi alþjóðlegur vettvangur sem leiðir saman arkitekta, hönnuði og framleiðendur frá öllum heimshornum. Í kynningarefninu er einnig talin ástæða til að bæta því við þessa upptalningu að til leiks mæti þeir kínversku auðmenn sem áhuga hafi á hönnun.

IMG_4448

Umgjörð sýningarinnar er íburðarmikil enda er hún haldin í glæsilegri sýningarhöll sem byggð er í klassískum rússneskum stíl. Byggingin er frá árinu 1955 og hét upphaflega Sino-Soviet Friendship Building og var á sínum tíma gjöf frá kommúnistastjórninni í Moskvu. Nafninu var breytt í Shanghai Exibition Center árið 1984.

Í forsal sýningarinnar minna glæsibifreiðar frá Jaguar og Land Rover á aðalstyrktaraðila sýningarinnar og með fagurskreyttum bar frá einum frægasta kampavínsframleiðanda Frakklands er tilfinningunni um lúxusveröldina gefið enn frekar undir fótinn.

IMG_4417

Þegar komið er inn á sýninguna virðist okkur þó lítið fara fyrir kínverskum auðmönnum í samanburði við allan þann fjölda kínverskra ungmenna sem streymir um svæðið og tekur myndir af öllu sem fyrir augu ber. Og þrátt fyrir gestafjöldann virtist lítið um hefðbundin samtöl og samingaviðræður í sýningarbásunum.

IMG_4470

IMG_4439

Mörg fyrirtæki veðja á Shanghai til að hefja sölu á vörum sínum í Kína. Að sama skapi er borgin af mörgum talin vænlegur framtíðarvettvangur fyrir hverskyns hönnun. Helstu fatahönnuðir heims hafa á undanförnum árum keppst við að setja hér upp verslanir og heimsfrægir húsgagnaframleiðendur feta nú margir í fótspor þeirra.

Sýningin Design Shanghai er augljóslega liður í að kynna erlendar hönnunarvörur fyrir kínverskum neytendum. Fyrirlestarröðin sem fram fór samfara sýningunni og fjallaði um framtíð hönnunar kann að miðla faglegri þekkingu en sölumennskan var þó allsráðandi. Þema sýningarinnar var West meets East en þeir sem mættu þangað til að kynna sér það nýjasta í kínverskri hönnun hafa örugglega margir orðið fyrir vonbrigðum því þátttakendur frá Kína voru fáir.

IMG_4466

Þátttakendur frá Kína

Nútímahönnun er að feta sín fyrstu fótspor í Kína og sama gildir um flesta kínverska hönnuði frá alþýðulýðveldinu. Þeir reyna margir hverjir að skapa sér sérstöðu í alþjóðlegu umhverfi og áberandi eru hlutir sem hafa tilvísun í fortíð lands og þjóðar, ekki ósvipað og hefur verið áberandi á meðal ungra íslenskra hönnuða á undanförnum árum. Á meðan sauðkindin og náttúran eru algeng viðfangsefni á Íslandi sækja ungir hönnuðir hér í Kína fyrirmyndir sínar í kínverskar hefðir og menningu. Kínversk nútímahönnun ber til dæmis oft keim af húsgögnum frá tímum Ming ættarveldisins og hugmyndaheimurinn snýst gjarnan um að sameina gamla og nýja tíma.

pusu

PuSu Lifestyle er vörumerki kínverska hönnuðarins Cheng Yanfei. Í kynningu fyrirtækisins segir að það leggi áherslu á að skapa jafnvægi milli hefðbundinnar og nútímalegrar hönnunar.

shanliang_exhib

Shanliang heitir fyrirtæki Shan Huabiao and Liang Guanbo en með hönnun sinni leitast þeir við að sameina kínverskan menningararf og nútíma lífshætti.

danfulyang

Pearl Lam Design er hönnunargallerí í Shanghai og Hong Kong sem styður við erlenda og kínverska hönnuði. Galleríið hvetur hönnuðina til að sprengja af sér hefðbundin gildi kínverskrar menningar og nota nýja tækni og efnivið til að skapa verk sem endurspegli reynslu þeirra í Kína nútímans.

SONY DSC

Zishaoze er fyrirtæki kínverska hönnuðarins Song Tao sem trúir því að tilgangur með hönnun sé að bræða saman hefðbundin form og nútímamenningu.

neri&hu

Neri&Hu. Við fjölluðum um eigendur fyrirtækisins, arkitektahjónin Lyndon Neri og Rossana Hu hér. Þau komu að sýningunni á margvíslegan hátt enda hafa þau verið ötul við að efla umræðu um hönnun í Kína þau tíu ár sem þau hafa starfað í Shanghai.

IMG_4425

Það er fullkomlega eðlilegt að sölutækifærin í Kína freisti þeirra sem leita nýrra markaða fyrir vörur sínar. Það rímar líka ágætlega við Shanghai, sem er miðstöð fjármála og viðskipta í landinu, að hér verði í framtíðinni helsti vettvangur í Kína til að versla með hönnunarvörur. Hitt er svo annað mál að verslun með hönnun hefur sáralítið með framtíðarsýn í hönnun að gera. Það er mikilvægara, jafnt fyrir Kína og heiminn í heild sinni, að tengja hugtakið hönnun við annað og meira en aukna neyslu. Þannig gæti hönnun orðið afl sem knýr fram breytingar. Hönnun má ekki bara snúast um flottheit og nýjar vörur heldur liggja verðmætin í hugmyndum sem geta breytt lífi okkar í átt að sjálfbærari framtíð. Tækni, vísindi og hönnun geta skipt sköpum um hvernig umhverfi maðurinn mun skapa sér í framtíðinni. Framtíð sem þegar er hafin í Kína, en með því að notast við aðferðir fortíðar blasa hér nú þegar við hrikaleg umhverfis- og mengunarvandamál sem kaupstefna, þar sem lúxusbílar og rándýrar hönnunarvörur eru í forgrunni, getur engu um breytt.

IMG_4457

Kínversk hönnun

Við vitum öll um það gríðarlega magn af vörum sem framleitt er í Kína og þeir sem fylgjast með þróun mála vita líka að í landinu á sér stað geysihröð uppbygging með tilheyrandi mannvirkjagerð. Kína er einnig frægt fyrir eftirlíkingar, ekki bara á ýmsum varningi, heldur eru jafnvel heilu borgarhverfin byggð upp að erlendri fyrirmynd. Og þegar fjallað er um kínverska menntakerfið heyrast ætíð raddir sem gagnrýna áhugaleysið sem þar ríkir um kennslu í skapandi greinum. Því er ekki fjarri lagi að spyrja hvort til sé eitthvað sem heitir kínversk hönnun.

nerihu3The Waterhouse, hótel í Shanghai hannað af Neri&Hu.

Á allra síðustu árum hafa nokkrir athyglisverðir kínverskir hönnuðir og arkitektar vakið eftirtekt bæði heima og erlendis. Það er kannski ekki síst kínversk fatahönnun sem nýtur vaxandi hylli og fyrir tveimur árum hlaut í fyrsta sinn í sögunni arkitekt frá alþýðulýðveldinu hin alþjóðlegu Pritzker byggingarlistarverðlaun. Umfjöllun á ensku um kínverska hönnun hefur aukist svo aðgengilegra er að átta sig á umhverfinu fyrir útlendinga. Erlendir hönnuðir sem starfa í Kína, erlend fyrirtæki og Kínverjar sem eru fæddir og hafa alist upp utan alþýðulýðveldisins eru enn miklir áhrifavaldar í þessu umhverfi. Heimamönnum sem leggja fyrir sig hönnun fjölgar þó hratt.

Við ætlum hér, og í fleiri pistlum á næstunni, að fjalla um hönnun í Kína og byrjum á að fjalla um nokkur nöfn og vörumerki sem gjarnan ber á góma í því samhengi.

MaryChing

Mary Ching

Margir tengja framleiðslu í Kína við ódýrar vörur og ekki að ástæðulausu. Nú eru aftur á móti að koma fram á sjónarsviðið hönnuðir sem leggja mikið upp úr gæðum og góðu handverki og vilja samt tengja nafn sitt við Kína. Einn þeirra er skóhönnuðurinn Alison Yeung en hönnun hennar er oft nefnd í tengslum við kínverskar lúxusvörur. Yeung er hálfkínversk, alin upp á flakki um heiminn en foreldrar hennar unnu fyrir utanríkisþjónustuna í Hong Kong. Yeung lærði fatahönnun í London og fyrir fjórum árum setti hún sína fyrstu skólínu á markað í Shanghai undir merkinu Mary Ching. Yeung segir að hugmyndaheimur hennar sé 100% kínverskur og að hún hafi sett sér það markmið að breyta hughrifunum sem merkimiðinn “Made in China” vekur í hugum fólks.feiyueFeiyue

Ekki er öll kínversk hönnun ný af nálinni eins og sannast á Feiyue strigaskónum sem eiga rætur að rekja aftur til ársins 1920. Það var hinsvegar franskur athafnamaður að nafni Patrice Bastian sem eygði tækifærin sem strigaskórnir gætu skapað í nútímanum enda falla þeir óneitanlega vel að retrotískunni sem hefur verið vinsæl á Vesturlöndum. Árið 2006 var Feiyue merkið kynnt til sögunnar á ný og segja má að skórnir hafi staðið undir nafni, en feiyue má þýða sem ,,flogið fram á við”. Nú fást þessir frönsk-kínversku strigaskór um alla Asíu og búið er að setja upp verslun í París. Feiyue vefverslunin sendir auk þess vörur sínar um allan heim.

nerihuMercato, veitingastaður í Shanghai hannaður af Neri&Hu.

Neri&Hu

Arkitektarnir og hjónin Lyndon Neri og Rossana Hu eru bæði af kínverskum uppruna en fædd og uppalin í Bandaríkjum. Með menntun og reynslu frá Ameríku í farteskinu komu þau  til Shanghai árið 2004 og settu á fót hönnunarfyrirtækið Neri&Hu. Fyrirtækið er áberandi þegar fjallað er um hönnun í Shanghai, til dæmis eru margir af vinsælustu veitingastöðum borgarinnar hannaðir af Neri&Hu. Neri og Hu stofnuðu einnig verslunina Design Republic sem selur bæði innfluttar og kínverskar hönnunarvörur, þar á meðal þeirra eigin húsgagnalínu. Vegur Neri&Hu hefur vaxið hratt og hönnunarfyrirtækið kemur nú að verkefnum víða um heim. Athygli alþjóðlegu pressunnar beinist æ meir að þeim hjónum og þau hafa unnið til fjölmargra alþjóðlegra verðlauna.

ningbomuseumNingbo Museum, hannað af Wang Shu.

Wang Shu

Wang Shu er fæddur árið 1963 og uppalinn í Xinjiang héraði í vesturhluta Kína og höfuðborginni Beijing. Sem námsmaður fluttist hann suður á bóginn og lærði arkitektúr í Nanjing og seinna í Shanghai. Eftir námið flutti hann til Hangzhou og stofnaði þar teiknistofuna Amateur Architecture Studio ásamt Lu Wenyu konu sinni sem einnig er arkitekt. Hjónin gegna líka bæði mikilvægum stöðum við arkitektadeild Chinese Academy of Arts í sömu borg. Sem kínverskur arkitekt leitast Wang Shu við að nýta hefðbundinn efnivið og gamlar kínverskar bygginarhefðir á nýjan hátt. Ningbo Museum er sú bygging eftir Wang sem hefur fengið mesta umfjöllun til þessa, en safnið er byggt úr múrbrotum sem safnað var saman við niðurrif eldri húsa. Með slíkum hugmyndum þykir Wang hafa tekist að skapa algjörlega nýjan og nútímalegan kínverskan arkitektúr og hefur það án vafa haft mikið um það að segja að Wang hlaut hin virtu alþjóðlegu Pritzker verðlaun árið 2012.

ningbo2

smartwoodFatastandur og kollur frá Smartwood.

Smartwood

Zhao Lei heitir ungur hönnuður í Hangzhou. Hann er ágætt dæmi um þá fjölmörgu frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref í kínverskri húsgagna- og vöruhönnun. Fyrirtækið hans heitir Smartwood og eins og nafnið gefur til kynna einbeitir hönnuðurinn sér að viðarvörum. Zhou segir í viðtali að hann noti eingöngu innfluttan við frá Ameríku og Þýskalandi en með því móti geti hann haft vissu fyrir því að tréð komi úr sjálfbærum skógi. Í sömu umfjöllun segir Zhao Lei að fatastandar fyrirtækisins séu hans helsta stolt en þá hafi hann hannað þar sem fáir kínverskir hönnuðir sýni slíkri hönnun áhuga. Zhao finnst áhugaverðast að hanna hluti með notagildi og leggur áherslu á að auðvelt sé að taka hlutina í sundur og setja í flatar pakkingar. Hægt er að nálgast vörurnar frá Smartwood hér í gegnum netverslun fyrirtækisins á Taobao.

Vindur, vatn og Feng Shui

Feng er vindurinn og shui er vatnið. Saman ná þessi tvö kínversku orð yfir sambland af fornum vísindum og þjóðtrú þar sem tengsl mannsins við náttúruna og alheimsöflin eru í forgrunni. Feng shui snýst um orkuna sem umlykur okkur og hvernig má beina henni í réttan farveg svo henni fylgi hagsæld. Leiðbeiningarnar geta verið almenns eðlis eða sniðnar að þörfum hvers og eins í samráði við feng shui meistara.

Í þessum pistli ætlum við hvorki að gefa feng shui ráð né skýra að fullu kenningar feng shui heldur reyna að varpa ljósi á uppruna þessara fornu kínversku fræða. Við munum fjalla lítillega um þátt þeirra í kínverskri sögu, fara yfir nokkur grundvallarhugtök og hugmyndir og beina sjónum að stöðu feng shui í Kína nútímans.

Feng shui fjallar um heillavænlega dvalarstaði og hagkvæmt fyrirkomulag í umhverfi manna. Þetta getur átt við um staðsetningar bygginga í landslagi, hönnun rýma eða einfaldlega hvernig best er að koma hlutunum fyrir í sínu nánasta umhverfi. Á heimilum eru aðferðir feng shui notaðar til að stuðla að hamingjusamara fjölskyldulífi og það er bjargföst trú margra að gott feng shui geti hafi áhrif í viðskiptum.

Aðferðafræði og rök feng shui fræðanna gætu á köflum virðst nokkuð dularfull en flestir geta líklega fallist á að niðurstöðurnar eru oft nokkuð rökréttar. Þannig ráðlögðu feng shui meistarar fortíðarinnar smíði hárra dyraþröskulda í híbýlum til að hindra að slóttugir drekar næðu að slæðast þar inn og flytja með sér vonda orku. Í raun eru slíkir þröskuldar skynsamleg vörn gegn regnvatni. Einföld ráð eins og að forðast að hafa sorptunnur mjög nálægt aðalinngangi húsa heyrast oft í tengslum við feng shui nútímans. Sorpið kemur í veg fyrir gott orkuflæði inn á heimilið enda er það dæmi um hnignandi orku.

cheungkongtowerÞeir sem heimsækja gamlar kínverskar byggingar og söfn heyra oft talað um að hitt og þetta sé dæmi um feng shui. Dæmin tala sínu máli um fortíðina en skilningur á feng shui er þó ekki almennur hér í Alþýðulýðveldinu Kína. Þessi forna kínverska hugmyndafræði lifir aftur aftur á móti góðu lífi víða annarsstaðar í heiminum, ekki síst meðal efnaðra Kínverja sem telja ekki eftir sér að eyða miklum fjármunum í feng shui lausnir. Til eru dæmi frá Hong Kong þar sem heilu háhýsin hafa verið endurgerð með miklum tilkostnaði til þess eins að uppfylla kröfur um betra feng shui. Það vakti til að mynda athygli þegar gerður var nýr inngangur á Cheung Kong skrifstofuturninn fyrir nokkrum árum en þá höfðu forsendur fyrir hagstæðu viðskipta feng shui breyst í samræmi við hringrás kínverska dagatalsins. Þetta kann að hljóma sem fullmikið af því góða en í raun er skrifstofubyggingin ein sú eftirsóttasta í Hong Kong og þykir mikið lán að fá að stunda þar viðskipti. Ekki skemmir fyrir að eigandinn, Li Ka-Shing, hefur sjálfur notið mikillar velgengni í viðskiptalífinu og er samkvæmt nýjustu heimildum ríkasti maður Asíu.

Á Vesturlöndum vaknaði forvitni margra um feng shui í tengslum við svokallaða nýöld. Almennur áhugi er nú meiri en áður enda fellur hugmyndafræðin ágætlega að leit margra vestrænna manna að jafnvægi í lífi og starfi.

Fornar rætur Feng Shui

Segja má að rætur feng shui nái þúsundir ára aftur í tímann. Ljóst er að menn hafa alltaf gefið því góðan gaum hvar best er að búa sér dvalarstað; í skjóli frá vondum veðrum, fjarri hættulegum dýrategundum og þar sem auðvelt er að finna fæðu. Talið er að þessi vitund mannanna hafi smá saman mótað grunn að þekkingu um eðli náttúruaflanna og skilað sér í því að menn fóru að velja sér hagkvæmustu staðina til búsetu. Með tímanum mótuðu menn sér einnig skoðanir á áhrifum himintunglanna, uppgötvuðu höfuðáttirnar og smíðuðu kenningar um hin ósýnilegu öfl sem hafa áhrif á velferð manna. Margar slíkar athuganir og uppfinningar má rekja til Kína til forna enda er saga landsins lengsta samfellda saga einnar þjóðar í heiminum og nær þúsundir ára aftur í tímann.

Í kínverskri heimild frá því 250 árum fyrir Kristsburð hafa fundist ráðleggingar um val á hagkvæmum dvalarstað þar sem vindur og vatn koma mikið við sögu. Þar segir að stöðva megi slæma orku, annarsvegar með vindinum sem tvístri henni, hinsvegar með vatninu sem stöðvi hana. Lögð er áhersla á að menn skýli dvalarstað sínum fyrir vindi og að vatn sé mikilvægt til að geyma orku. Það er semsagt í þessari gömlu heimild sem í fyrsta sinn kemur fram að vindurinn og vatnið séu grundvallarþættir við að stýra orku og þaðan dregur hugmyndafræðin um feng shui nafn sitt.

palace

Í þjónustu keisarans í Kína

Feng shui varð vinsælt í Kína á tímum Han ættarveldisins á árunum 206 f. Kr – 220 e.Kr. og var uppfrá því ávallt notað þegar kom að því að ákvarða byggingar- og greftrarstaði fyrir keisarann. Ákvörðun um grafarstað var ekki síst mikilvæg enda er það stór þáttur í kínverskri hugsun að örlög þeirra sem eftir lifa mótist af því hvernig málum er háttað hjá framliðnum ættingjum.

Upp frá þessu höfðu keisaraættirnar ætíð feng shui meistara í sinni þjónustu. Með tíð og tíma komu fram nýjar hugmyndir og þekking innan hirðarinnar sem saman mynda þá hugmyndafræði sem við þekkjum í dag sem feng shui.

Hugtök og stefnur í Feng Shui

Í mjög stuttu máli snýst feng shui um að beina orku á rétta staði og finna lausnir til að koma hlutunum í jafnvægi. Til þess er notast við ýmis hugtök og hugmyndir og munum við fara yfir nokkur af þeim helstu hér á eftir. Einnig verður fjallað um þrjá helstu skóla eða stefnur feng shui; formskólann, hin átta höfuðsetur og hinar níu fljúgandi stjörnur.

En byrjum á nokkrum grundvallarhugtökum:

Qi (chi)

symbol-for-qiLykilatriði í feng shui er heildarhugmyndin um qi en orðið lýsir orkunni sem gerir tilvist okkar mögulega. Qi er allt um kring, í okkur sjálfum og náttúrunni. Samkvæmt því búa allar mannverur yfir sínu eigin innra qi, en það er sú orka sem unnið er með í hefðbundinni kínverskri læknisfræði. Feng shui fjallar um hið ytra qi, utanaðkomandi orkuna sem hefur áhrif á okkur mennina.

Orkan sem knýr alheiminn er kölluð sheng chi á kínversku en orðin lýsa því hvernig andardráttur tilverunnar kemur úr gini drekans. Andstæðan er shar chi en þar notar tungumálið eitraðar örvar til að lýsa hinni deyðandi orku. Aðferðir feng shui miða að því að stöðva neikvæðu orkuna og laða til sín þá góðu.

Frumefnin fimm

elementsEldur, jörð, málmur, vatn og viður eru þau fimm efni sem kenningin um frumefnin byggir á. Talið er að hugmyndirnar hafi komið fram 500 f. Kr. og vega þær þungt í feng shui eins og öðrum fornum kínverskum fræðum, svo sem nálastungum og stjörnuspeki. Óhætt er að segja að í kínverskri hugmyndafræði tilheyri allir hlutir tilverunnar einhverju af þessum fimm grunnelementum.

Innbyrðis samband frumefnanna og áhrif þeirra á hvert annað eru mikilvæg í feng shui. Efnin geta haft eyðileggjandi áhrif á hvert annað, byggt hvert annað upp eða dregið úr áhrifum hvers annars. Þegar gerðar eru feng shui greiningar snúast lausnirnar meðal annars um að virkja krafta frumefnanna með ýmsu móti, til dæmis með formum og litum.

Yin og yang

YinYang

Hugtökin yin og yang eru grundvallaratriði í feng shui og notuð til að skilgreina orku á ákveðnum svæðum. Sé svæði of yin þykir það óhagstætt vegna þess að ekki er til staðar nægileg orka sem skapar hagsæld. Of yang felur í sér eyðileggjandi áhrif vegna þess að þar er of mikið af orku sem getur valdið slysum og tjóni.

Taiji merkið, sem flestir þekkja betur sem yin og yang, byggir á hugmyndum sem hinn kínverski Fu Xi (Fu Hsi) setti fram fjögur þúsund árum fyrir fæðingu Krists og fjalla um hið fullkomna jafnvægi alheimsins og þar með allra hluta. Þótt yin og yang séu andstæð öfl sýnir flæðandi bogadregin línan sem skilur á milli að öflin tvö eru háð hvort öðru. Stundum er því talað um yin og yang sem einingu andstæðna.

Dæmi um yin eru kvenleikinn, tunglið, næturmyrkrið og kuldinn. Karlkynið, sólin, dagsbirtan og hitinn eru dæmi um yang.

Luo Pan áttavitinn 

Áttavitinn var fundinn upp í Kína 2700 f.Kr. og skipar hann stóran sess í feng shui mælingum. Í flóknara kenningum feng shui er notaður áttaviti sem er umkringdur myndmáli og heitir hann þá luo pan. Táknar luo netið sem umkringir allt en pan þýðir diskur. Nafnið vísar til sambands himins og jarðar og segulorkunnar sem heldur alheiminum saman.

Fyrir miðju luo pan áttavitans er hefðbundinn áttaviti nákvæmlega eins og við þekkjum hann. Táknmálið á skífunni í kring hefur þróast á löngum tíma og felur í sér margvíslegar upplýsingar. Það krefst mikillar þjálfunar að lesa af slíkum áttavita en tölurnar og táknin gera sérfræðingum í feng shui kleift að gera sínar athuganir og finna lausnir í samræmi við feng shui skóla hinna fljúgandi stjarna.

DSC_1166

Eins og áður sagði eru til mismunandi skólar eða stefnur innan feng shui. Hér verður farið yfir þær þrjár helstu:

Formskólinn – San He

Fyrst er að nefna San He skólann, eða formskólann, sem nær yfir klassískar kenningar feng shui. Stundum er  líka talað um landslagsskólann því landslagið er undirstaðan í hugmyndunum.

Fornar reglur formskólans gera ráð fyrir að hús hvíli þannig í landslaginu að fyrir aftan fái húsið stuðning af fjöllum, fyrir framan sé víðátta í suðurátt og til beggja hliða skýli lægri hæðir eða hólar húsinu fyrir veðrum og vindum. Það má líka sjá þessi áhrif fyrir sér með því að ímynda sér mannveru sem situr í stól með baki og örmum og tyllir fótunum á koll fyrir framan sig. Í feng shui eru slíkar kjöraðstæður dregnar upp á táknrænan hátt þar sem fjórar goðsagnarkenndar dýrategundir túlka áttirnar fjórar; svört skjaldbaka, grænn dreki, hvítur tígur og rauður fönix.

Skoðum þetta betur og setjum í samhengi við nútímahíbýli:

screen-shot-2013-11-23-at-10-43-21-am1-e1385189455117

Fönix: Framhliðin á heimili þínu, skrifstofunni eða jafnvel herberginu sem þú dvelur í er tengd fönix. Fönix táknar suðrið og ef allt væri fullkomið myndi renna lækur fyrir framan húsið hjá þér. En ekki snúa öll hús mót suðri, hvað þá að lækur fljóti framhjá. Það kemur þó ekki í veg fyrir að laða megi góða orku að híbýlunum og halda frá þeirri slæmu. Umferðarstraumur getur komið í staðinn fyrir flæðandi vatn og hringlaga blómabeð og lágir runnar eru dæmi um fönix feng shui lausnir.

Dreki: Tengist vinstri og austrinu (miðað við sýn frá inngangi). Drekinn þinn getur verið nærliggjandi bygging, hús nágrannans eða tré. Ef ekkert í umhverfinu skapar skjól er feng shui ráð að planta tré eða smíða meðalhátt grindverk.

Skaldbaka: Tengist bakhlið húsa og norðrinu. Fjall eða hæð aftan við húsið myndi skapa gott feng shui en í þéttbýli skapa nálægar byggingar líka gott bakland. Ef þær eru ekki til staðar er ráðlegt að koma einhverju fyrir í staðinn svo sem hárri girðingu eða  röð af trjám.

Tígrisdýr: Tengist hægri og vestrinu (miðað við sýn frá inngangi). Hér gildir það sama og um drekann, tígrísdýrið getur verið bygging, tré eða runnar. Ef tígurhliðin er hærri en drekahliðin skapar það góðan stuðning við konuna á heimilinu (yin), ef drekahliðin er hærri er það húsbóndanum í hag (yang).

Þetta eru aðeins lítið dæmi um hvernig unnið er með kenningar formskólans en meginhugmyndin er alltaf sú að umhverfið hefur áhrif á hvernig okkur mönnunum farnast í lífinu og feng shui leitast við að bæta það. Einhverjir kunna að furða sig á þessu tali um dreka og tígrísdýr en hafa ber í huga að rætur formskólans eru taldar liggja 6000 ár aftur í tímann.

Hin átta höfuðsetur – Ba Zhai (Bagua)

Hugmyndir Bai Zhai (Bagua) skólans byggja á áttavitanum og megináttum hans sem eru átta. Með því að reikna út svokallaða kua tölu er fólki skipt upp í átta hópa. Hóparnir skiptast síðan í tvo flokka, austur og vestur. Með kua tölunni má finna út hvaða áttir eru hagstæðar hverjum og einum. Byggingar tilheyra líka annaðhvort austur- eða vesturhópi en það ákvarðast af staðsetningu þeirra í landslaginu.

Þótt formskólinn gefi ágætis hugmynd um jafnvægi milli manns og umhverfis verða feng shui ráðleggingarnar persónulegri með kua tölunni. Hún er fundin út með því að gera svokallaðan ming gua útreikning og byggir hann á fæðingarári viðkomandi. Eins og svo oft gefa kínversku orðin vísbendingu um hvað er að ræða; ming þýðir líf og gua þýðir mynstur. Það má því segja að útkoman, svokölluð kua tala, tákni lífsleið einstaklingsins.

Mikilvægt er að hafa í huga þegar kua talan er reiknuð út að fæðingarár miðast við kínverska tungldagatalið. Þá eru áramót ekki fyrr en í janúar/febrúar, sjá upplýsingar hér. Þá er fæðingarár þess sem er fæddur 9. janúar 1969 til dæmis 1968.

Fyrir karla:

  • þú tekur tölurnar fjórar í fæðingarárinu þínu og leggur þær saman (t.d. 1970)
  • 1 + 9 + 7 + 0 = 17
  • og heldur áfram þar til þú færð út eins stafs tölu: 1 + 7 = 8
  • dragðu útkomuna frá tölunni 11: 11 – 8 = 3
  • útkoman er Kua talan þín (í dæminu er hún 3)
  • ef þú hefur fengið útkomuna 5, þá er 2 Kua talan þín

Fyrir konur:

  • þú tekur tölurnar fjórar í fæðingarártalinu þínu og leggur þær saman:
  • 2 + 0 + 0 + 3 = 5
  • legðu þessa tölu við töluna 4 (5 + 4 = 9)
  • útkoman er Kua talan þín (í dæminu er hún 9)
  • ef þú hefur fengið töluna 5, þá er 8 Kua talan þín

Talan sem þú hefur nú reiknað út hjálpar þér við að finna þær áttir og svæði sem henta þér best.

Kua tölurnar 1, 3, 4 og 9 mynda Austurhóp. Farsælar áttir eru: A, SA, N, S.

Kua tölurnar  2, 6, 7 og 8 mynda Vesturhóp. Farsælar áttir eru:  V, SV, NV, NA.

Taflan sýnir síðan nánar hvaða áttir henta þinni kua tölu og fyrir hvað áttirnar standa:

tafla

Þessa vitneskju má nýta sér á ýmsan hátt. Til dæmis er gott að dyrnar að heimili þínu snúi í átt sem er þér hagstæð. Gott er að vinna við borð sem snýr í eina af áttunum þínum og að sofa í herbergi sem snýr í rétta átt í húsinu. Ekki er verra að snúa höfðinu líka í rétta átt á meðan þú sefur. Í raun á þetta við um allar athafnir, hvort sem verið er að borða, læra, semja við aðra í viðskiptum eða halda fyrirlestur eða kynningar. Að sama skapi er gott að forðast að gera nokkuð af ofannefndu ef þú snýrð í óhagstæða átt.

Fljúgandi stjörnur – San Yuan

Fullkomnasti og jafnframt flóknasti feng shui skólinn heitir San Yuan eða skóli hinna fljúgandi stjarna. Byggir hann á fornum hugmyndum sem eru þekktar sem hin átta I Ching “trigram” (enska) og lo shu töfraferningurinn. Húsum og rýmum er skipt upp í níu svæði og tengist hvert svæði áttunum, frumefnunum fimm, árstíðunum, litum og formum. Meðlimir fjölskyldunnar tengjast líka vissum svæðum og sama gildir um margt fleira, jafnvel líffæri. Þessi skóli krefst dýpri skilnings á yin og yang, eðli frumefnanna fimm og kínverskri stjörnuspeki.

bagua

Luo pan áttavitinn er grundvallarmælitæki í skóla hinna fljúgandi stjarna og er notaður til að ákvarða áttir og teikna upp svæði innan heimila eða bygginga. Fæðingardagar íbúa og byggingarár húsa skipta einnig máli í tengslum við stærðfræðilega útreikningana. Til að reyna að gera þetta skiljanlegra má ímynda sér að í umhverfi (híbýlum) sérhvers manns séu til staðar níu mismunandi gerðir af orku. Orkutegundirnar eru skilgreindar með númerum frá 1-9. Þær breytast og hreyfast með síendurtæknum hætti (fljúga um) og hafa þar af leiðandi mismunandi áhrif á hamingju og velferð húsráðenda á hverjum tíma.

Við greiningar í feng shui hinna níu fljúgandi stjarna koma semsagt bæði formskólinn og hugmyndir ba zhai skólans við sögu en auk þess bætast við flóknari útreikningar þar frumefnin fimm, yin og yan, kínversk stjörnuspeki, kínverska tungdagatalið og margt fleira er skoðað. Niðurstöðurnar leiða því af sér mun nákvæmari og persónulegri feng shui lausnir sem eru sniðnar að hverjum og einum.

Það er útilokað að læra um þessar flóknu hliðar feng shui á skömmum tíma með því einu að lesa bækur eða tímaritagreinar. Þeir sem hafa tileinkað sér aðferðirnar eiga að baki langt nám undir leiðsögn svokallaðra feng shui meistara.

Feng shui meistarar

Að gefa öðrum góð feng shui ráð krefst bæði þekkingar og reynslu, ekki síst ef notast er við kenningarnar um hinar fljúgandi stjörnur. Feng shui meistarar verja ævinni í að tileinka sér fræðin og sumt af þeirri þekkingu sem er kennd í dag var lengst af vel geymt leyndarmál í fórum kínversku keisarahirðarinnar.

Eins og áður segir geta greiningar feng shui meistara verið klæðskerasniðnar að hverjum og einum og ótal þættir koma til álita. Hringrás kínverska tungldagatalsins krefst þess líka að gerðir séu nýir útreikningar ár hvert, svo ekki sé talað um á 20 ára fresti þegar þáttaskil verða í dagatalinu. Eftirsóttir feng shui meistarar hafa því nóg að gera og á stöðum eins og Hong Kong, Singapore og Dubai eru slíkir meistarar til ráðgjafar við allar meginframkvæmdir og viðburði. Dæmi um frægan kínverskan feng shui meistara er Edward Li frá Hong Kong. Hann á að hafa veitt fyrirtækjum á borð við hið ameríska Coca Cola feng shui ráð og sagt er að flestir milljónamæringar í Hong Kong hafi hann í sinni þjónustu.

Feng shui tákn

dragon_and_phoenix1

Almenningur hér í Kína notar mikið heillatákn í daglegu lífi og eiga mörg þeirra rætur í hugmyndafræði feng shui. Þannig er drekinn ótvírætt gæfutákn, jafnt í feng shui sem kínverskri þjóðtrú. Merki sem sýna tvöfalda hamingju eru vinsæl og ómissandi hluti af heillaóskum fyrir brúðhjón. Góð fyrir ástina og hjónabandið eru einnig heillatákn þar sem drekinn og fönixfuglinn birtast saman því það er til marks um að yin og yang séu í fullkomnu jafnvægi. Tvö “ljón” eða svokölluð chilin (sambland dreka, hests og fisks) við inngang húsa eru dæmigerð feng shui tákn og er ætlað að gleypa vonda orku. Fiskabúr og vatnskúlptúrar eru vinsælir en máli skiptir að koma þeim fyrir á réttum stöðum svo áhrifin verði rétt. Eitt er það merki sem oft sést í Asíu og okkur Evrópumönnum bregður við að sjá, en það er swastika (hakakrossinn). Hér er um að ræða 2000 ára gamalt tákn sem á rætur í búddisma og er kallað fa lun á kínversku. Til gamans má geta að þetta sama orð kemur fyrir í nafni Falun Gong hreyfingarinnar og þýðir lífsins hjól og getur táknað bæði framtíðina og fortíðina, allt eftir því hvernig það snýr. Snúi armar merkisins í átt til fortíðar eins og nasistar gerðu er ekki von á mikilli gæfu.

Feng shui í alþýðulýðveldinu

Gamlar kínverskar hefðir og siðir voru lagðar til hliðar þegar Kína varð kommúnistaríki árið 1949. Menningararfleifðinni hefur verið gert hærra undir höfði á síðustu árum og ekki er ólíklegt að áhugi á feng shui glæðist, líka hjá ráðamönnum í Kína. Á feng shui námsskeiði sem önnur okkar sótti var til dæmis sýnd ljósmynd af skrifstofu mjög háttsetts embættismanns í Peking sem hafði verið greind út frá kenningum feng shui. Kennari á námsskeiðinu var kínversk kona sem hefur sett sig vel inn í kenningarnar. Hún var sannfærð um að þótt hugmyndirnar hafi fylgt kínversku þjóðinni í gegnum árþúsundin viti Kínverjar á meginlandinu almennt mjög lítið um feng shui. Yngri kynslóðin virðist áhugasömust um að kynnast gömlum siðum og gildum, ekki síst þeir sem starfa við að kynna landið fyrir útlendingum.

fengshui_characters

Ljóst er að ekki er hægt að fjalla öllu ítarlegar um feng shui í stuttum pistli frá Kína. Viðfangsefnið er gríðarlega umfangsmikið og góð þekking í feng shui hefur að öllum líkindum aldrei verið á færi almúgans. Nákvæmar greiningar voru og eru í höndum sprenglærðra feng shui meistara og lærisveina þeirra. Hitt er annað mál að flestir geta haft gaman af hinum ýmsu þáttum feng shui, hvort sem fjallað er um uppröðun í rými, örlagaspá eftir höfuðáttunum eða einfaldlega hinum stórmerkilega sögulega grunni og í leiðinni má læra ótal margt um kínverska menningu og siði. Og ekki væri verra ef áhugi kínverskra ráðamanna á feng shui myndi glæðast enn frekar, því ef einhvers er óskandi í þeirri hröðu uppbyggingu sem á sér nú stað í Kína, er að betur takist að skapa gott jafnvægi milli manns og náttúru.

Í hæstu hæðum

Þegar önnur okkar var á ferðalagi um Toskana héraðið á Ítalíu nýlega voru rifjaðar upp sögur af ríkum fjölskyldum í bænum San Gimignano sem kepptust á miðöldum við að byggja sem hæsta turna. Þær sýndu mátt sinn og megin með því að byggja hærri turn en óvinurinn eða nágranninn. Til að gera langa sögu stutta voru í þessum litla bæ í lok miðalda um 72 turnar, allt upp í 50 metra háir. Á endanum þurfti að grípa í taumana og setja mörk á hæð húsa. Turnarnir gerðu ásýnd bæjarins úr fjarska ógleymanlega, sem hljómar óneitanlega kunnuglega fyrir Shanghaibúa.

Í Kína rísa nú háhýsin hvert á fætur öðru.

dscf3968b

Shanghai World Financial Center (492 metrar) er hæsta bygging í Kína og fjórða hæsta bygging veraldar á eftir Burj Khalifa í Dubai (828 metrar), Makkah Royal Clock Tower Hotel í Mecca (601 metri) og Taipei 101 í Taipei (508 metrar). Möstur og útsýnisturnar eru þá ekki talin með. Til samanburðar má nefna að hæsta bygging Íslands, turninn við Smáratorg, er 77,6 metra hár svo hæsta bygging heims er rúmlega 10 sinnum hærri en okkar hæsta hús.

Mynd2

En hlutirnir breytast hratt í henni veröld og ekki síst í Kína því nú er að rísa enn hærri bygging við hlið SWFC, Shanghai Tower, sem verður annað hæsta hús í heiminum þegar byggingu hennar lýkur á næsta ári, eða 632 metrar með hæsta útsýnispalli veraldar og hraðskreiðustu lyftum í heimi. Kostnaðurinn við bygginguna er áætlaður um 300 milljarðar íslenskra króna.

shanghaitower

Shanghai Tower verður þó ekki lengi hæsta byggingin í Kína því nú þegar er verið að byggja tvær hærri í Wuhan og Shenzhen og tvær til viðbótar eru fyrirhugaðar.

Sky City í Changsha í Hunan héraði er önnur af þessum fyrirhuguðu byggingum. Undirbúningsframkvæmdir hófust í sumar og á húsið að verða það hæsta í heimi, eða 838 metrar. Það sem er sérstakt við þá byggingu er byggingarhraðinn, því til stóð að klára hana á 10 mánuðum.

sky-city-renderings3Fyrirtækið sem byggir Sky City er þekkt fyrir að nota ákveðna tækni, þar sem fyrst eru framleiddir stál- og steypukubbar í verksmiðju sem svo er raðað saman á byggingastað, ekki ólíkt legókubbum. Með þessari tækni byggði fyrirtækið fimmtán hæða hótel á sex dögum árið 2010 og þrjátíu hæða hús á fimmtán dögum ári síðar.

Aðeins nokkrum dögum eftir að framkvæmdir á Sky City hófust voru þær stöðvaðar vegna skorts á tilskildum leyfum en áður höfðu margir látið í ljós efasemdir um öryggi byggingarinnar. Ekkert hefur heyrst af málinu síðan og áhugavert verður að fylgjast með því hvort Sky City verður að veruleika.

Af tíu hæstu byggingum í smíðum í heiminum í dag eru sjö í Kína. Það er því ekkert lát á byggingu háhýsa hér og greinilegt að Kínverjar leggja mikið upp úr því að byggja mikið og hátt. Hvort þeir eru að sanna mátt sinn og megin með þessu móti líkt og Ítalirnir forðum skal ósagt látið en hún er skondin sagan af Kínverjanum sem kom til Íslands í vinnuferð árið 2007 og hélt að landið væri mjög fátækt því húsin væru svo lágreist.

Hús af ýmsum gerðum

Mannlíf og hlutir endurspegla sögu landa en það gerir einnig húsagerðin. Þótt Shanghai sé ein frægasta og stærsta borg Kína telst hún þó ekki til hefðbundinna sögustaða. Í landi þar sem sagan er mæld í þúsundum ára þykir saga borgarinnar stutt. Síðustu tvö hundruð ár hafa þó verið afar viðburðarrík í Shanghai. Eins og eftirfarandi myndir og textar bera með sér má lesa í kínverska sögu og menningu með því að skoða fjölbreytilega byggingargerðina.

DSC_0239

Kínahverfið

yuyuan1Sögu byggðar í Shanghai má rekja aftur til 13. aldar. Bærinn lá þétt við árbakka Huangpu árinnar og innan borgarmúranna myndaðist samfélag sem snemma varð þekkt af verslun. Viðskipti eru enn í dag aðall borgarinnar og því má kannski segja að það sé við hæfi að elsti hluti hennar hafi verið byggður upp sem verslunarhverfi. Þótt ferðamenn sem heimsækja gamla bæinn í Shanghai sjái merki um fornar kínverskar byggingarhefðir var mest af svæðinu byggt upp skömmu eftir 1990. Sumir ganga svo langt að tala í þessu samhengi um stærsta China Town í heimi.

DSC_0831

Franska hverfið

Útlendingar öðluðust yfirráð yfir ýmsum svæðum í Kína eftir að svokölluðu Ópíumstríði lauk árið 1842, meðal annars í Shanghai. Tveir borgarhlutar frá þessum tíma eru enn vel þekktir: Alþjóðlega byggðin (International Settlement) og franska hverfið (French Concession). Uppbygging og saga svæðanna nær allt fram undir stofnun Alþýðulýðveldisins árið 1949 og þrátt fyrir mikið niðurrif á síðustu árum má enn finna fjölmargar byggingar í evrópskum stíl. Frá þessum tíma eru líka hin svokölluðu Lilong-hús sem þýða mætti sem „íbúðir í kringum húsasund“. Húsasundin voru byggð í ýmsum útgáfum, stundum sem einbýlishúsahverfi, stundum sem fjölbýlishúsabyggð. Þau setja enn mikinn svip á Shanghai, ekki síst í franska hverfinu. Ásýnd húsanna hefur þó breyst því nær öllum húsum var skipt upp við valdatöku kommúnista. Þannig búa nú fjölmargar fjölskyldur í húsum sem áður hýstu jafnvel bara eina fjölskyldu. Viðhaldi er víða ábótavant en þrátt fyrir það býr hverfið enn yfir miklum sjarma og þeim íbúðarhúsum fjölgar sem gerð hafa verið upp í sinni upprunalegu mynd.

DSC_0840

DSC_0822

Fjármálahverfið

Eftir að Deng Xiaoping opnaði á nýja möguleika í Kína upp úr 1990 og sagði þjóðinni að það væri gott að græða peninga hefur ásýnd kínverskra borga breyst svo mikið að margar þeirra eru nær óþekkjanlegar. Útlínur háhýsabyggðarinnar á Pudong svæðinu í Shanghai eru ein frægasta táknmynd nýrra tíma. Sjónvarpsturn kenndur við perlu og þrenning húsa sem öll eru meðal hæstu húsa veraldar ber þar hæst. Uppbygging borgarhlutans hefur verið ógnarhröð, fyrir rúmum tuttugu árum var þar enn akurlendi. Myndir af skýjakljúfunum í Pudong breytast því stöðugt en með byggingu nýjasta turnsins, sem jafnframt verður sá hæsti í Kína, er ásýndin smám saman að taka á sig endanlega mynd. Í Pudong er fjármálamiðstöð Alþýðulýðveldins, þ.e. einskonar Wall Street þeirra Kínverja og hér var fyrir skemmstu opnað fríverslunarsvæði. Markmiðin eru háleit og eflaust er ætlunin að gera Shanghai að einni af stærstu fjármálamiðstöðvum heims.

DSC_0377

Á norðurslóðum í Shanghai

DSC_0782

Fyrir um áratug var hrundið af stað skipulagsverkefni í Shanghai sem kallast Ein borg, níu bæir, þar sem byggja átti níu bæi í úthverfum Shanghai. Tilgangurinn var að dreifa byggðinni og létta þannig á miðborginni. Við skipulagsvinnuna var horft til aukinnar velmegunnar með ört stækkandi millistétt og fjölgun auðmanna. Byggt var í samræmi við það og reynt að höfða til þessara hópa.

Ákveðið var að bæirnir yrðu eftirmyndir bæja í öðrum löndum og erlendar arkitektastofur voru kallaðar til aðstoðar. Þeir spruttu svo upp einn af öðrum, Thames Town, sá breski, með sínum rauðum símaklefum, bresku vörðum og að sjálfsögðu ánni Thames og sá hollenski með vindmyllum og risastórum tréklossa svo eitthvað sé nefnt.

Við ákváðum að heimsækja einn þessara bæja og fyrir valinu varð Norður-Evrópubærinn, eða Luodian New Town. Við höfðum lesið að þar sæti lítil hafmeyja á steini og hægt væri að dást að eftirmynd af alþingishúsi okkar Íslendinga.

DSC_0830

DSC_0820

DSC_0806

Norður-Evrópubærinn var hannaður af sænskum arkitektum og fyrirmyndin er bærinn Sigtuna í Svíþjóð. Flest er í sænskum stíl, húsin, göturnar, kirkjan og vatnið í miðjum bænum heitir eftir Lake Malaren í Svíþjóð. Í kringum vatnið er stór garður með gróðri frá Norður-Evrópu, fyrir utan stöku pálmatré, sem virðast hafa villst með. Mikið er af styttum á víð og dreif um svæðið, allar af nöktu fólki í einkennilegum stellingum. Á svæðinu eru golfvöllur, hótel og ráðstefnuhöll en hótelið minnir reyndar meira á Disneykastala en hótel í Norður-Evrópu.

DSC_0791

DSC_0790

DSC_0841

DSC_0812

Í blaðaviðtali við sænskan landslagsarkitekt sem kom að hönnun bæjarins kemur fram að hönnunin og byggingin hafi tekið ótrúlega skamman tíma og að fyrsti hlutinn hafi verið tilbúinn eftir um þrjú ár. Í gegnum allt ferlið var þó stöðugt verið að breyta skipulaginu að ósk heimamanna. Hann sagðist sáttur við lokaniðurstöðuna þó að ekki sé allt nákvæmlega samkvæmt þeirra plani.

Ekki fundum við alþingishúsið og enga hafmey á steini en hún gæti einfaldlega verið horfin því hlutirnir breytast hratt hér í Kína. Þarna voru mörg brúðhjón í myndatökum og flest fyrirtækin í bænum eru ljósmyndastofur, ein slík var meira að segja i kirkjunni.

DSC_0762

DSC_0765

DSC_0758

Það var kostuleg upplifun að ganga um í eftirlíkingu af skandinavískum bæ með kínverskum skiltum og kínverskri lykt og fylgjast með brúðhjónamyndatökum.

Þó er dapurlegt að hugsa til þess að markmiðin með verkefninu Ein borg, níu bæir virðast alls ekki hafa náðst þrátt fyrir mikinn tilkostnað. Bærinn er hálfgerður draugabær þar sem fáir búa og það sama virðist gilda um flesta hina bæina í verkefninu.

DSC_0817

Á flugi inn í framtíðina

PASSENGERS

Deilan um framtíð flugvallar í Vatnsmýri virðist ósköp smá í sniðum þegar horft er til áætlana um fjölgun flugvalla í Kína. Sé tekið mark á kínverskum fjölmiðlum er gert ráð fyrir byggingu 56 nýrra flugvalla á árunum 2011-2015, auk þess sem unnið er að endurbótum og stækkunum á þeim sem fyrir eru. Samkvæmt þessu verða flugvellir landsins orðnir 230 í árslok 2015. Þetta gera Kínverjar þrátt fyrir að meirihluti flugvalla í landinu sé nú rekinn með tapi. Trúin á framtíðina á sér engin takmörk enda ljóst að flugfarþegum í Kína mun fjölga mikið á næstu árum. Spár segja að árið 2016 verði þeir orðnir fleiri en í Bandaríkjunum, en þar hefur fjöldi flugfarþega verið mestur hingað til. Umferð um flugvöllinn í Beijing hefur þrefaldast síðustu tíu ár og á næsta ári mun hefjast þar bygging nýs flugvallar, aðeins fjórum árum eftir að algjörri endurbyggingu og stækkun núverandi flugvallar lauk.

Eins og jafnan í Kína eru flugvallarframkvæmdir stórtækar. Hér má sjá nokkur dæmi:

airport_dalian

Í Dalian-borg við norðausturströndina er unnið að rúmlega 21 ferkílómetra uppfyllingu þar sem meðal annars rís nýr flugvöllur. Framkvæmdin á landfyllingunni er sú stærsta í heimi með þessu sniði en hönnun var í höndum BNA Planning sem er alþjóðlegt fyrirtæki með rætur í Frakklandi.

shennongjia

Í náttúruparadísinni Shennongjia í Hubei-héraði hafa hæðir og dalverpi verið flött út í 2,580 metra hæð yfir sjávarmáli svo byggja megi alþjóðlegan flugvöll. Fáar fréttir höfðu borist af framkvæmdinni sem hófst árið 2011, þar til tilkynnt var í sumar að flug myndi hefjast nú í október. Uppbyggingin á sér stað í friðlandi ósnortins skóglendis og hefur vakið reiði umhverfissinna. Aðrir trúa að völlurinn muni auka á lífsgæði og ferðamannastraum í héraðinu og í yfirlýsingum stjórnvalda er fullyrt að framkvæmdin muni ekki raska lífríki svæðisins.

flughofnsichuan

Í síðustu viku, nánar til tekið 16. september, hófst áætlunarflug til Daocheng Yading flugvallarins í Sichuan-héraði. Hann var byggður í 4,411 metra hæð og er þar með sá flugvöllur í heiminum sem liggur hæst yfir sjávarmáli. Frá flugvellinum má auðveldlega ferðast til ósnortinna landsvæða í Tíbet og þótt sumir Tíbetbúar fagni mögulegum ferðamannastraumi er framkvæmdin umdeild. Mörgum þykir vald flokksforystunnar í Beijing nú færast nær og óttast að unnin verði spjöll á náttúrunni í þágu “uppbyggingar hagkerfisins.“

hefeixinqiaoairport

Hefei er höfuðborg Anhui-héraðs í austurhluta Kína. Nýr alþjóðlegur flugvöllur hóf starfssemi í borginni í maí á þessu ári.

kunming

Árið 2012 opnaði nýr flugvöllur í Kunming í Yunnan-héraði. Changshui flugvöllurinn leysir af hólmi eldri flugvöll og var hannaður af Beijing Institute of Architectural Design (BIAD) sem er arkitektastofa í eigu kínverska ríkisins.

shenzhenÁrið 2008 unnu ítölsku arkitektarnir Massimiliano og Dorian Fuksas samkeppni um nýja flugstöðvarbyggingu á Bao´an flugvellininum í Shenzhen-borg í suðurhluta Kína. Flugstöðin verður byggð í þremur áföngum og sá fyrsti opnaður árið 2015.

Árið 2014 hefjast í suðurhluta Beijing framkvæmdir við annan flugvöll höfuðborgarinnar. Opnun hans er fyrirhuguð árið 2018 og verður nýi völlurinn þá sá stærsti í heimi. Flugvöllurinn í Beijing er nú þegar sá næstfjölfarnasti í heimi (á eftir Atlanta í Bandaríkjunum) auk þess að eiga met sem lengsta bygging í heimi en flugstöðvarbygging breska arkitektsins Norman Foster er 3,25 km löng.

beijing_airport

Áróður á safni

Áróður af ýmsu tagi er órjúfanlegur hluti af sögu Kína undir stjórn kínverska kommúnistaflokksins. Veggspjöld sem gáfu rétta tóninn í samfélaginu hverju sinni voru hluti af umhverfi borga og bæja allt fram undir 1990.

mao_poster

Um svipað leyti hóf framsýnn heimamaður í Shanghai upp á sitt einsdæmi að safna slíkum veggspjöldum. Þar með kom hann í veg fyrir að mörg þeirra glötuðust þegar stjórnvöld, af pólitískum ástæðum, leituðust við að eyðileggja öll slík plaköt í kringum 1995. Safnið Shanghai Propaganda Poster Art Center hefur verið opið almenningi frá árinu 2002, frá 2012 með opinberu samþykki yfirvalda í borginni.

spropagandamuseum

Staðsetning safnsins er óvenjuleg, í illa lyktandi kjallara íbúðablokkar. Inngangurinn er baka til og ekki auðfundinn. En safnið er skemmtilegt og veggspjöldin góð heimild, til dæmis um áróður menningarbyltingarinnar. Á hverju veggspjaldinu á fætur öðru er Mao formaður, eins og guð almáttugur, altumlykjandi og verndandi, leiðtoginn og fyrirmyndin. Honum er jafnvel líkt við sjálfa sólina.

mao

Árið 2013 skín ásjóna Maos enn skært yfir Torgi hins himneska friðar í Beijing.

tianmen