Qipao kjólar og kvenfrelsi

Klæddar bróderuðum qipao kjólum úr silki, perlum skreyttar og kæruleysislegar í fasi eru þær kvenleikinn uppmálaður kínversku fegurðardísirnar sem birtast okkur á teikningum og ljósmyndum frá upphafi síðustu aldar. En þótt töfraljómi hvíli yfir dömunum er kjóllinn sem þær klæðast líka táknrænn fyrir aukið frjálsræði kínverskra kvenna á mikilvægum tímamótum í sögu Kína. Þegar keisaravaldið sem ríkt hafði yfir landinu um árþúsundir var að líða undir lok og tekist var á um stjórnarfar framtíðarinnar klæddust konurnar í Kína qipao kjólum.

shanghaiposters

Slík er frægð qipao kjólsins að honum hafa verið tileinkaðar sýningar í stórborgum á borð við Hong Kong, Singapore og New York og um hann hafa verið skrifaðar bækur. Saga kjólsins er nokkuð merkileg heimild, hvort sem ætlunin er að fræðast um tísku og fagurfræði, eða kvennasögu með tilheyrandi breytingum á lífi kínverskra kvenna á umbrotatímum í Kína. Qipao kjóllinn hefur notið vinsælda í heila öld og fylgt kínverskum konum víða um heim.

Qipao eða cheongsam?

Á mandarín-kínversku er kjóllinn kallaður qipao. Orðið átti upphaflega við um hefðbundinn búning kvenna þegar Mansjúríumenn réðu ríkjum í Kína á tímum Qing ættarveldisins. Qipao kjólar kvennanna við keisarahirðina voru íburðarmiklir, úr silki, heilbróderaðir og skreyttir með blúndum.

qingdynasty

Kínverjar sem tala kantónsku kalla kjólinn cheongsam. Orðið er komið af changshan í mandarín-kínversku sem merkir síður kjóll og átti upphaflega við um klæðnað kínverskra karla. Bæði qipao og cheongsam eru semsagt fullkomlega rétt kínversk heiti sem hafa fengið nýja merkingu. Á meginlandi Kína er talað um qipao en í Hong Kong, þar sem töluð er kantónska, aldrei um annað en cheongsam. Utan Kína er cheongsam sennilega þekktara nafn þar sem kínversk áhrif bárust frekar frá Hong Kong til Vesturlanda á meðan Kína var lokað land undir stjórn Mao formanns.

qingdynastymen

Og svo segir sagan 

Eins og svo oft í Kína er til þjóðsaga um tilurð qipao kjólsins. Sagan segir frá ungri konu sem bjó við Jingbo stöðuvatnið og hafði afkomu sína af fiskveiðum. Hún var ekki aðeins undurfögur, heldur líka gáfuð og hæfileikarík. Við veiðarnar voru víðir og síðir kjólarnir sem tíðkuðust á þessum tíma oft til óþæginda og henni hugkvæmdist að búa til praktískari vinnuklæðnað. Útkoman var kjóll með háum hliðarklaufum og hneppingum sem auðvelt var að losa um svo auðveldara væri að hreyfa sig við vinnuna.

Stúlkan var fátæk og grunaði ekki að örlög hennar myndu ráðast í draumum keisarans í Kína. En nótt eina vitjaði látinn faðir keisarans hans í svefni og sagði honum að unga konan í qipao kjólnum við Jingbo vatnið myndi verða eiginkona hans. Þegar keisarinn vaknaði lét hann menn sína leita stúlkuna uppi og flytja hana (og qipao kjólinn hennar) til hallarinnar. Upp frá því tóku allar konurnar við hirðina kjól keisaraynjunnar sér til fyrirmyndar og brátt klæddust allar konur í Kínaveldi qipao kjólum.

Qing-Dynasty-clothes-2

Keisaraveldið kvatt

Keisaraveldið leið undir lok og Lýðveldið Kína var stofnað árið 1912. Samfélagslegar umbætur sköpuðu ný tækifæri fyrir kínverskar konur og margar sýndu framfarahug sinn í verki með breyttum klæðaburði. Síðu kjólarnir sem áður voru aðeins fyrir karlmenn og kóngafólk náðu nú almennum vinsældum meðal kvenna en tóku breytingum sem féllu betur að nýjum lífsstíl. Sniðin urðu þrengri og líkari þeim sem konur á Vesturlöndum klæddust. Qipao kjólarnir gátu verið síðir og stuttir, með háum eða lágum kínakraga, ermalausir eða með ermum og misjafnt var hversu hátt hliðarklaufarnar voru skornar. Þannig gat útlit kjólsins verið íhaldssamt eða djarft og allt þar á milli, allt eftir því hvernig kjóllinn var sniðinn. Skáskorið opið sem nær frá hálsi niður að handarbótinni setur sterkan svip á qipao kjólinn en því er hneppt saman með hnöppum eða lykkjum. Efnið gat verið allt frá handbróderuðu silki til áprentaðra ullar- og bómullarefna. Kjólarnir voru ætíð sérsaumaðir en þrátt fyrir það hugsaðir til daglegra nota og jafnvel verksmiðjustúlkur klæddust slíkum kjólum við vinnuna. Þannig gat hver kona látið sníða kjólinn að sínum eigin persónuleika og var hann um leið tákn fyrir nýjan og frjálsari lífsstíl kínverskra kvenna.

Gullaldarárin í Shanghai

Um aldamótin 1800 leiddi ótraust stjórn keisaraveldisins til innrásar erlendra ríkja og þegar Kínverjar lutu í lægra haldi fyrir Bretum í hinu svokallaða ópíumstríði féllu ýmsar hafnir og borgir í Kína í hendur erlendra valdhafa. Þannig kom það til að árið 1843 var gerður sáttmáli um Shanghai sem fól í sér yfirráð útlendinga. Borgin varð fljótt mesta viðskiptahöfn í Kína og dró til sín fólk frá öllum heimshornum.

Á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar þótti Shanghai glæsilegri og nýtískulegri en aðrar kínverskar borgir og stóð stöðum eins og París fyllilega á sporði þegar kom að skemmtanalífinu. Einstök blanda vestrænna og austurlenskra áhrifa einkenndi andrúmsloftið á umbrotatímum millistríðsáranna. Fagrar art deco byggingar risu, jazzinn dunaði á næturklúbbunum og orðspor kabarettsýninganna og dansleikjanna í Shanghai barst um allan heim. Þessari sögu eru gerð ágæt skil í bók sem heitir Shanghai´s Dancing World eftir Andrew Field.

dancinginshanghai

Eftir stofnun lýðveldis í Kína stýrðu kínverskir þjóðernissinnar (kuomintang) landinu en útlendingar höfðu eftir sem áður völd og áhrif. Helstu tískustraumar bárust úr vestri og endurspegluðust glöggt í umhverfi og athöfnum borgarbúa. Það var flott að vera frá París eða London á þessum árum en almennilegur heimsborgari varð enginn nema hafa komið til Shanghai.

qipao1

Konur í qipao kjólum eru ein frægasta birtingarmynd gullaldaráranna í Shanghai. Myndirnar sýna þær sitjandi við snyrtiborð, spilandi golf eða með veiðistöng í hönd, reykjandi sígarettur, í sveiflu á dansgólfinu og stundum drekkandi amerískt kók. Sumar stilla sér upp í loðfeldum, með perlur og demanta en allar eru þær í qipao kjólum. Þrátt fyrir kynþokkafulla ímyndina er kjóllinn í margra augum mikilvægt tákn um aukið frelsi og sjálfstæði kínverskra kvenna á lýðræðistímum. Stúdínur, kvikmyndastjörnur, dansmeyjar, húsmæður, listakonur; allar gengu þær um stræti Shanghai borgar í qipao kjólunum sínum og gerðu sig gildandi í frjálsara samfélagi.

Áhrifamiklar konur í qipao

wuyifang

Konan sem skrifaði undir Sáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd Kína árið 1945 var klædd í qipao. Wu Yifang (1893-1985) hét hún og var meðal fyrstu kvenna til að ljúka prófi frá kínverskum háskóla. Hún varð síðar æðsti stjórnandi Ginling kvennaháskólans í Nanjing og barðist alla tíð fyrir jafnrétti kynjanna og félagslegu réttlæti.

En frægastar og áhrifamestar kínverskra kvenna á þessum tíma voru án vafa Soong systurnar þrjár frá Shanghai og varpar ævi þeirra ágætu ljósi á tíðarandann.

1280px-Soong_Sisters_visiting_Nationalist_soldiersAi-ling, Mei-ling og Ching-ling Soong heilsa upp á konur í her þjóðernissinna.

Frægust hér í Kína er Soong Ching-ling (1893-1981) sem ung að árum varð áberandi í baráttunni fyrir auknu frelsi kínverskra kvenna. Það vakti mikla athygli þegar hún giftist byltingarforingjanum Sun Yat-sen sem var mun eldri en hún. Sun Yat-sen er goðsögn í Kína fyrir framlag sitt til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hann var formaður í flokki þjóðernissinna (kuomintang) og fyrsti forseti hins nýja lýðveldis. Þegar Sun Yat-sen féll frá árið 1925 var Soong Ching-ling eiginkona hans kosin til áhrifa meðal þjóðernissinna. Skömmu síðar flúði hún til Moskvu og fylgdi upp frá því kommúnistum að málum. Þegar Mao lýsti yfir stofnun alþýðulýðveldisins á Torgi hins himneska friðar árið 1949 var hún meðal áhrifafólks sem stóð við hlið hans og skömmu fyrir andlátið árið 1981 var hún gerð að heiðursforseta alþýðulýðveldisins. Ekki eru nema nokkur ár síðan reynt var að reisa Soong Ching-ling minnisvarða í borginni Zhengzhou í Henan héraði. Um var að ræða 24 metra háa brjóstmynd. Listaháskólinn á staðnum kom að verkefninu og þó að andlitsdrættir Soong virtust furðu karlmannlegir (sumir sögðu að þetta væri alls ekki hún) var styttan kvenlega klædd í qipao kjól. En eitthvað voru yfirvöld óviss um réttmæti styttunnar því árið 2011, skömmu áður en hún var fullgerð, bárust fréttir af eyðileggingu hennar.

styttan

Minningunni um yngstu systurina, Soong Mei-ling (1898-2003), er aftur á móti lítt haldið á lofti hér í alþýðulýðveldinu enda var hún eiginkona Chiang Kai-shek, hershöfðingjans fræga sem jafnframt var pólitískur leiðtogi landsins eftir fráfall Sun Yat-sen, allt fram að valdatöku kommúnista. Forsetahjónin voru mjög þekkt á Vesturlöndum enda ferðuðust þau víða um heim og vakti Madame Chiang Kai-shek, eins og hún var gjarnan kölluð, jafnan athygli fyrir fallegan klæðaburð. Hún klæddist aldrei öðru en qipao og er sögð hafa átt yfir 1000 slíka kjóla. Eftir valdatöku kommúnista í Kína flúðu hjónin til Taiwan þar sem lýðveldið Kína lifði áfram undir stjórn þjóðernissinna. Eftir dauða Chiang Kai-shek árið 1975 fjaraði undan áhrifum flokksins og Soong Mei-ling flutti til Bandaríkjanna. Eftir það fór hún sjaldan til Taiwan en reyndi þó nokkrum sinnum, án árangurs, að beita áhrifum sínum í þágu flokks þjóðernissinna, síðast þegar kosið var í Taiwan árið 2000, en þá var hún rúmlega aldargömul! Sögu Soong Mei-ling hefur verið gerð skil í bókum, til dæmis hér, en hún lést í hárri elli í New York árið 2003.

soongchurchillfdrchiangChiang Kai-shek, Roosevelt, Churchill og Soong Mei-ling í Kaíró í Egyptalandi árið 1943.

soongmeilingrooseveltEleanor Roosevelt og Soong Mei-ling þegar sú síðarnefnda heimsótti Hvíta húsið í Washington árið 1943. Á bandaríska forsetafrúin að hafi sagt um kínversku stallsystur sína að hún talaði fallega um lýðræðið en vissi hinsvegar ekki hvernig ætti að lifa samkvæmt því.

Þriðja og elsta Soong systirin hét Soong Ai-ling (1890-1973). Hún var gift ríkasta manni Kína á þessum tíma, bankamanninum Kung Hsiang-hsi (H.H. Kung) en hann var einnig ráðherra í ríkisstjórn Chiang Kai-shek. Þegar hylla fór undir endalok lýðveldistímans í Kína flúðu þau hjón til Taiwan og síðar til Bandaríkjanna þar Soong Ai-ling lést á heimili sínu í New York.

soongsysturEin elskar peninga, önnur elskar völd og sú þriðja elskar landið sitt. Einhvernveginn svona hljómar orðatiltæki frá Mao tímanum og vísar það til Soong systra. Hér sitja þær systur saman, Mei-ling til vinstri, Ching-ling fyrir miðju og Ai-ling lengst til hægri.

Soong systurnar áttu efnaða foreldra, hlutu góða menntun erlendis og nutu alls þess besta (og allra þeirra forréttinda) sem Kína hafði upp á að bjóða á þessum árum. Líf þeirra er áhugaverð heimild um þjóðfélagslegar breytingar í Kína í byrjun síðustu aldar og því skiljanlegt að reynt hafi verið að gera þeim skil í kvikmynd. The Soong Sisters er kvikmynd frá 1997 sem hlaut nokkra athygli, ekki síst fyrir ágætan leik, en sú gríðarlega ritskoðun sem myndin mátti una við þótti þó sýna vel hversu erfitt er að fjalla um nútímasögu Kína undir smásjá yfirvalda í Beijing.

Kapitalískur klæðnaður

Þrátt fyrir gleði og glaum á fyrstu áratugunum voru lýðveldisárin miklir átakatímar í sögu Kína. Innrás Japana í árslok 1937 í Nanjing, sem þá var höfuðborg landsins, markaði upphaf að átökum sem lauk ekki fyrr en við endalok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945. Þá tók við blóðug borgarastyrjöld milli þjóðernissinna undir forystu Chiang Kai-shek og kommúnista með Mao Zedong fremstan í flokki. Kommúnistar náðu völdum árið 1949 og í hinu nýja alþýðulýðveldi hvarf qipao kjóllinn smám saman af götunum uns hann var loks bannaður með öllu. Kommúnistar töldu kjólinn dæmi um kapitalískan klæðnað og til vitnis um spilltan lífstílinn sem viðhafst hafði í landinu undir áhrifum útlendinga.

suzielife

Þegar ljóst var að kommúnistar myndu ná völdum á meginlandi Kína flúðu flestir íbúar alþjóðlega samfélagsins í Shanghai og settust margir að í bresku nýlendunni í Hong Kong. Meðal þeirra voru fjölmargir skraddarar sem lögðu grunn að nýju blómaskeiði qipao kjólsins í Hong Kong sem náði hámarki á fimmta og sjötta áratugnum. Þetta má glöggt sjá í kvikmyndum frá þessum tíma, til dæmis í myndinni The World of Suzie Wong frá árinu 1960. Nýrri kvikmynd sem einnig varpar ljósi á þetta tímabil í Hong Kong er In the Mood for Love frá árinu 2000 sem vann til fjölmargra alþjóðlegra verðlauna.

inthemoodforlove

Þegar vestræn menningaráhrif og tíska urðu áhrifameiri meðal kínverskra íbúa Hong Kong á sjöunda áratugnum datt qipao kjóllinn smám saman úr tísku. Hann hvarf þó aldrei með öllu og er enn vinsæll við formlegar viðhafnir eins og brúðkaup. Kjólar með qipao sniði eru einnig algengir einkennisbúningar á veitingastöðum, hótelum og sem flugbúningar hjá asískum flugfélögum.

Framboð af qipao sniðnum kjólum er mikið hér í Kína en ekki þykja þeir þó allir merkilegir. Sumir eru verksmiðjuframleiddir og aðrir saumaðir meira af vilja en getu. Til að sníða og sauma sanna qipao kjóla þarf handverkskunnáttu sem margir óttast að sé við það að deyja út enda hefur ungt fólk lítinn áhuga á að tileinka sér hana. En þótt skröddurunum fækki má enn eignast vandaða sérsaumaða qipao kjóla í Shanghai og Hong Kong. Verðbilið er gríðarstórt, allt eftir gæðum og orðspori klæðskeranna.

Greina hefur mátt áhrif frá qipao kjólnum í hátísku á síðustu árum. Til dæmis hafa tískuhúsið Gucci og bandaríski hönnuðurinn Ralph Lauren sótt innblástur í kjólinn. Einnig má nefna Shanghai Tang vörumerkið frá Hong Kong sem er brautryðjandi í nútímahönnun undir áhrifum frá hefðbundnum kínverskum sniðum. Í nýrri Shanghai Tang verslun hér í Shanghai er nú hægt að velja silki og láta sérsníða á sig qipao kjól líkt og tíðkaðist fyrir hundrað árum. Kannski má segja má að kjóllinn sé ekki aðeins aftur kominn í tísku, heldur hafi hann líka snúið aftur heim.

runway

Fölleit og fögur

Hugmyndir um kvenlega fegurð virðast nokkuð fastmótaðar hér í Kína; konur eiga að vera ofurgrannar, ljósar á hörund, og með stór augu. Egglaga andlit og smávaxið nef þykja mesta prýði og ekki er verra að vera hávaxin, helst hærri en 165 cm. Ýmsar aðferðir eru notaðar til að mæta þessum kröfum, allt frá einföldum ráðum á borð við háa hæla og sólhlífar til afdrifaríkra skurðaðgerða. 

Þótt fegurðarímyndin í Kína sé nokkuð dæmigerð á asískan mælikvarða má velta því fyrir sér hvort útlit þeirra kínversku kvenna sem öðlast hafa alþjóðlega frægð á undanförnum árum hafi áhrif á almenn viðhorf, en útlit þeirra er ekki alltaf í fullu samræmi við tíðarandann í heimalandinu. Súpermódelið Liu Wen og leikkonan Zhang Ziyi þykja til dæmis báðar afar glæsilegar á vestrænan mælikvarða – nafn hinnar síðarnefndu hefur jafnvel komið fyrir á lista yfir fegurstu konur heims – en heima í Kína þykir útlit þeirra frekar hversdagslegt.

kinabeauty

Mismunandi menningarheimar hafa ólík viðmið þegar kemur að fegurð og hugmyndir um hið fullkomna útlit eru líka breytilegar á hverjum tíma í sögunni. Af andlitsmyndum af hásettum konum á tímum Qing ættarveldisins að dæma, var ímyndin af kvenlegri fegurð þá að mörgu leyti lík þeirri sem enn gildir í Kína. Keisaraynjan Xiao Xianchun (1712-1748) með sína reglulegu andlitsdrætti er enn  talin falleg kona. Á málverkinu sjást hins vegar ekki fætur hefðarkonunnar sem hafa vafalaust verið agnarsmáir í samræmi við kröfur sem gerðar voru til kínverskra kvenna um aldir. Við fimm ára aldur voru beinin í fótum ungra telpna brotin og fótunum upp frá því haldið í skorðum með föstum línvafninum. Með þessu móti urðu fæturnir örsmáir og þóttu þá afar kvenlegir og fagrir. Varla er hægt að ímynda sér hversu sársaukafullt þetta hefur verið og sem betur fer lagðist hefðin um að reyra fætur kvenna smám saman af eftir fall síðasta keisaraveldisins í byrjun 20. aldar.

528

Stóreygð, föl og létt eins og lauf í vindi

Séu fegurðarviðmið í nútíma Kína skoðuð kemur einkum þrennt upp í hugann:

1. Stór augu

Nú vitum við öll að augu Kínverja og margra annarra Asíubúa eru öðruvísi að lögun en algengast er í Vesturheimi. Ekki er talið að konur hér í Asíu hafi veitt augnumgjörð sinni mikla athygli fyrr en í seinni tíð. Líklegt þykir að viðkynningin við Vesturlandabúa hafi leitt til þess að á tuttugustu öld fór að bera á því að litið væri á konur sem ekki höfðu sýnileg augnlok, og augun þá minna áberandi, sem ólaglegar. Þessar hugmyndir lifa enn góðu lífi og algengasta fegrunaraðgerð meðal asískra kvenna í dag er aðgerð á augnlokum sem leiðir til þess að augun virðast stærri.

augu

2. Fölleit húð

Sólin skín sjaldan á kínverskar konur því hvít og jafnlit húð er mikilvægt tákn um fegurð. Kínverjar segja hlutina gjarnan hreint út og leyna ekki andúð sinni ef þeim finnst húð einhvers illa farin og blettótt eftir sólarljós. Á sama hátt höfum við báðar, sem hér skrifum, í fyrsta sinn á ævinni uppskorið mikið hrós fyrir litarhaftið sem á norðurslóðum er í neikvæðum tón kallað glært! Verra er að óbeit margra Kínverja á dökkri húð beinist einnig að fólki með náttúrulega dökkan húðlit, til dæmis blökkumönnum. Og þótt andúð á dekkri húðlit sé sprottin úr menningu sem sér ljósa húð sem tákn um fegurð er erfitt að horfa framhjá því að hér ráði líka ferð fordómar og hrein fáfræði.

Skýringin á því hvers vegna Kínverjar (og margar aðrar Asíuþjóðir) eru svona uppteknir af hvítri húð snýst þó fyrst og fremst um stétt og stöðu. Dökk húð er tengd við þrældóm og útivinnu á meðan ljós húð þykir merki um velmegun og ríkidæmi. Svipaðar hugmyndir eru þekktar úr sögu annarra menningarheima, til dæmis í Evrópu þar sem fölleit yfirstéttin gerði það sýnilegt með litarhaftinu að hún hefði efni á að láta aðra þræla fyrir sig. Hugmyndin um fegurð ljósrar húðar á sér líka langa sögu í Kína og tengist ætíð upphefð. Oft eru konurnar við Han keisarahirðina nefndar sem dæmi en hvítmáluð andlit þeirra, umkringd síðu svörtu hárinu, þóttu nánast yfirnáttúrulega fögur. En þótt hefðin eigi sér djúpar rætur í sögunni má líka leiða rök að því að húðlitur hvíta mannsins, mestu forrréttindastéttar veraldar síðustu aldir, eigi einnig þátt í því að margir Kínverjar setja fölan húðlit í samhengi við efnahagslega hagsæld og yfirburði.

ad

Í nútímanum keppast margar kínverskar konur ekki aðeins við að halda húðinni frá sólarljósinu heldur eyða líka drjúgum peningum í allskyns hvíttunaraðferðir. Þær taka pillur, fara í leysigeislaaðgerðir og bera á sig allskyns krem í von um að verða fallegri og þá væntanlega hamingjusamari. Í sjónvarpi, kvikmyndum og tískublöðum hér í Kína er fræga og fallega fólkið hvítt, oftar en ekki með hjálp Photoshop og Airbrush (sama tækni og notuð er á Vesturlöndum til að gera fólk útitekið!). Nær öll andlits- og líkamskrem sem seld eru í Kína eru hvíttunarkrem og þeir erlendu framleiðendur sem ætla sér stóra hluti hafa allir sett á markað ,,hvítar” vörulínur. Fleiri hafa séð markaðstækifæri í þessu hvíttunarfári og jafn furðulegar vörur og hið svokallaða Facekini hafa náð vinsældum á kínverskum sólarströndum, en það er einskonar lambhúshetta sem hylur hár og andlit svo sólin nái ekki að skína á hörundið. Þegar bjart er í veðri ganga kínverskar konur gjarnan um með regnhlífar til að skýla sér frá geislum sólarinnar og allskyns derhúfur, hattar og armhlífar eru algeng sjón á sólríkum dögum.

facekini

3. Tágrannur líkami

Það er ekki aðeins á Vesturlöndum sem grannar konur þykja fallegastar. Kínverskar konur eru alltaf í megrun því þótt okkur finnist þær flestar frekar fíngerðar og grannvaxnar finnst þeim sjálfum þær aldrei nægilega mjóar og nettar. Ef kínversk kona er feitlagin þykir heldur ekkert feimnismál að segja það við hana. Þótt slík hreinskilni sé talin nokkuð eðlileg í Kína eru þessar kínverskar konur þó ekkert betur undirbúnar til að taka slíkri gagnrýni en aðrar konur í heiminum. Konur frá Kína sem búa á Vesturlöndum tala gjarnan um hvað þeim finnst gott að losna undan ofurkröfunum um að vera tágrannar því í augum Vesturlandabúa eru þær flestar fínlegar og mjóar. Þess má geta að þessu er alveg öfugt farið hjá erlendum konum sem búa í Kína, flestar höfum við einhverntíma heyrt að við séum stórar, ef ekki hreinlega feitar.

Engin feimni við lýtaaðgerðir

Augljóslega eru það ekki bara kínverskar konur sem láta staðalímyndir um útlit hafa áhrif á sig. Konur út um allan heim eru sífellt að reyna að grenna sig og sumar fara í lýtaaðgerðir til að fullkomna útlitið. Það sem kann að vera ólíkt er að í Kína virðist það ekki sérlega mikið feimnismál að láta breyta útliti sínu. Hér í Shanghai eru ótrúlega margar lýtaaðgerðastofur. Utan á byggingunum hanga auglýsingaspjöld svo það fer ekkert á milli mála hvað fer þar fram og oft sér maður sjúklinga koma út með allkyns umbúðir án þess að nokkuð sé verið að reyna að fela það. Frægar eru líka sögur af kínverskum konum sem fljúga til S-Kóreu í lýtaaðgerðir, en það er vinsælt meðal þeirra efnameiri, og lenda svo í vandræðum í vegabréfseftirlitinu á heimleið því þar þekkjast þær ekki aftur á myndinni í passanum. Hátt fór líka saga af hjónaskilnaði kínverskra hjóna í kjölfar þess að upp komst að konan hafði farið í svo margar lýtaaðgerðir að hún var sem ný. Eiginmaðurinn uppgötvaði það sem hann kallaði svik þegar þessum laglegu hjónum fæddist óvenju ófríð dóttir. Manninn grunaði konuna um framhjáhald en á daginn kom að hún hafði eytt háum fjárhæðum í lýtaaðgerðir áður en þau kynntust. Enn ótrúlegra er kannski sú hlið sögunnar að manninum voru dæmdar bætur. En hvað sem öllum slíkum kjaftagangi líður, aðgerðirnar virðast sífellt umsvifameiri og nýjustu fréttir herma að lýtaaðgerð sem felst í því að láta hækka kinnbeinin og skafa af kjálkabeinunum svo lögun andlitsins verði egglaga sé nú að verða ein sú vinsælasta hér í Asíu.

beforeafter

August-Cover-2013_1280

Alþjóðleg fegurð

Á tímum alþjóðavæðingar og alheimsnets berast hugmyndir um fegurð hratt á milli menningarheima. Þegar erlend tískublöð á borð við Vogue og Elle hófu að gefa út kínverskar útgáfur fyrir nokkrum árum prýddu vestræn andlit oftar en ekki forsíður þeirra. Nú hafa hlutföllinn breyst og augljóslega selur kínversk fegurð á forsíðu líka vel. Á sama tíma hafa ungar kínverskar konur á borð við áðurnefnda Liu Wen og leikkonuna Fan Bingbing náð frama á Vesturlöndum og andlit þeirra birtast oft í auglýsingum vestrænna vörumerkja, nú síðast hjá Louis Vuitton. Fan Bingbing er ein vinsælasta leikkona Kína og í augum samlanda sinna þykir hún fullkomlega fögur.

fanbingbing

Um fegurð mannslíkamans gildir ekkert náttúrulögmál og ekki er gott að segja hvernig fegurð verður skilgreind í framtíðinni. Augljóslega munu kínverskar konur verða sýnilegri og hafa mótandi áhrif á útlitshugmyndir um allan heim. Þó er erfitt að sjá fyrir sér að ímyndin um fölleitu og stóreygu kvenveruna sem sveiflast eins og viðkvæmt blóm í vindi muni ná alþjóðlegri fótfestu enda í fullkominni andstöðu við nútíma kröfur um jafnrétti. Kínversk vinkona okkar telur að 90% ungra kvenna hér í alþýðulýðveldinu eltist þó enn við þessi óraunhæfu viðmið. Sjálfri finnst henni mikilvægara að kínverskar konur beini sjónum sínum að heilbrigðari lífsstíl, hreyfi sig meira og borði heilsusamlegra fæði. Og vonandi mun aukin menntun kvenna í Kína opna augu þeirra fyrir öðrum mannkostum og tækifærum en þeim sem felast í útlitinu. Þrátt fyrir að náttúruleg fegurð kínverskra kvenna sé augljós öllum sem koma hingað til Kína er staðan því miður sú að sífellt fleiri kínverskar konur fara í róttækar lýtaaðgerðir til að breyta útliti sínu.

MissUniverseChina872

 

Afgangskonurnar í Kína

Í fyrstu greininni hér á blogginu fjölluðum við um áróður kínverskra stjórnvalda á tímum Mao. Áróður sem stjórnunaraðferð lifir enn góðu lífi hér í Kina þar sem stjórnvöld beita ríkisfjölmiðlum fyrir sig og jafnvel ríkisstofnunum og samtökum.

Ógiftar, vel menntaðar konur um þrítugt hafa undanfarin ár verið fórnarlömb slíkrar herferðar þar sem þeim og öðrum í samfélaginu er talin trú um að þær séu að kasta lífi sínu á glæ með því að sinna starfsframanum í stað þess að giftast og eignast börn.

Afgangsstærð

Einhleypum vel menntuðum konum hefur fjölgað undanfarna áratugi hér í Kína. Stúlkur, líkt og drengir, eru hvattar til náms og gríðarleg áhersla er lögð á mikilvægi menntunar fyrir framtíðina. Allt kapp er lagt á að komast inn í góðan háskóla. Þegar svo þessar ungu konur ljúka námi og hefja störf er of stór hluti þeirra einhleypur að mati stjórnvalda.

Ógiftar vel menntaðar konur á framabraut, 27 ára og eldri, eru kallaðar sheng nu eða afgangskonur, í ríkisfjölmiðlum hér í Kína. Sheng í kínversku vísar til afganga eða þess sem er eftir. Enginn vill vera afgangs og þetta hefur því sett gífurlega pressu á þennan hóp kvenna að giftast. Foreldrar þessara ógiftu ungu kvenna vilja heldur ekki eiga afgangsdætur og ýta því á þær að ná sér í eiginmenn og ganga jafnvel enn lengra með því að sækja hjónabandsmarkaði fyrir þeirra hönd. Stefnumótaiðnaðurinn blómstrar sem aldrei fyrr.

Shengnu2

Saga herferðarinnar og líklegar ástæður hennar

Umfjöllun um afgangskonurnar hefur verið áberandi í fjölmiðlum í meira en fimm ár, eða síðan 2007. Eins ótrúlega og það hljómar birtist nafngiftin, sheng nu, þá í grein á vefsíðu All China Women’s Federation (ACWF) en hlutverk stofnunarinnar er að berjast fyrir réttindum og hagsmunum kvenna og stuðla að jafnrétti í landinu. Um svipað leyti var orðasambandið sett inn á orðalista kínverska menntamálaráðuneytisins á netinu. Í kjölfarið tóku fleiri greinar að birtast á vefsíðunni, meðal annars með alls konar leiðbeiningum til þessara kvenna um hvernig þær gætu náð sér í mann. Ríkisfjölmiðlar tóku svo við kyndlinum og hafa haldið honum uppi meira eða minna síðan.

Samkvæmt Leta Hong Fincher, doktorsnema sem er að skrifa bók um þessi mál, birtist fyrsta greinin um afgangskonurnar á vefsíðu ACWF stuttu eftir að ríkisráð Kína setti fram tilskipun um að styrkja skyldi stefnu í íbúa- og fjölskyldumálum í þeim tilgangi að koma til móts við áður óþekkt vandamál á borð við ójafnvægi í kynjahlutfalli og „lítil gæði almennings.“ 

Eins og margir vita þá hafa Kínverjar síðustu áratugi, með örfáum undantekningum, einungis mátt eiga eitt barn. Flestir vilja eignast drengi og því hefur mörgum kvenkyns fóstrum verið eytt. Þetta hefur orðið til þess að karlmenn í landinu eru mun fleiri en konur.

Kínverjar eru duglegir við að skilgreina hlutina og í umræðu um þessi mál er þjóðinni gjarnan skipt í ákveðna gæðaflokka, A, B, C og D þar sem í A flokki er besta fólkið og svo koll af kolli.  Afgangskonurnar tilheyra hæsta gæðaflokki kvenna, þetta eru gáfaðar og vel menntaðar konur í góðum störfum. Í karlaveldinu Kína hefur það tíðkast að karlmenn kvænist niður fyrir sig, þannig að A karlar kvænast til dæmis B konum og B karlar kvænast C konum og svo framvegis. Eftir standa því A konurnar og D karlarnir og þeir hópar passa, samkvæmt umræðunni, ákaflega illa saman.

Tilgangur herferðarinnar var því trúlega, fyrir utan að kynbæta kínverska þjóð, að koma sem flestum í hjónaband bæði til þess að viðhalda ríkjandi karlaveldi og koma festu á sem flesta einhleypa karlmenn, sem væru þá síður líklegri til að taka þátt í uppþotum eða óeirðum. Stjórnvöldum hefur trúlega fundist D karlarnir líklegastir til vandræða og viljað beisla þá.

Ráðleggingar til kvenna

Til að gefa innsýn í umræðuna og þær leiðbeiningar sem konum hafa staðið til boða fylgja hér nokkur dæmi úr greinum sem birtst hafa á vefsíðu ACWF síðan 2007.

Fallegar stúlkur geta gifst inn í ríka og valdamikla fjölskyldu án þess að vera mikið menntaðar en það sama gildir ekki um konur sem eru venjulegar í útliti eða ljótar. Slíkar stúlkur binda vonir við að menntunin auki tækifæri þeirra. Það sorglega er að þær gera sér ekki grein fyrir því að með aldrinum verða konur minna og minna virði svo að þegar þær loks klára meistara- eða doktorspróf þá hafa þær elst og eru orðnar eins og gulnaðar perlur.

Aðalástæða þess að stúlkur verða afgangskonur er sú að þær gera of miklar kröfur í makavali. Ef stúlkur eru ekki of vandlátar ætti það að ná sér í mann að vera jafn auðvelt og að blása í burtu ryki.

Það er bara óskhyggja að leita að manni sem er ríkur, klár, rómantískur og vinnusamur. Er slíkur maður til? Kannski er hann til en hvers vegna í ósköpunum myndi hann þá vilja giftast þér?

Í sumum greinanna má einnig finna ráð til kvenna sem hafa náð sér í mann. Þá er til dæmis kennt hvernig bregðast eigi við framhjáhaldi:

Þegar þú kemst að því að eignmaðurinn heldur framhjá þér er líklegt að þú fyllist mikilli reiði. Þú verður þó að muna að ef þú gerir mál úr þessu þá ertu að gera lítið úr honum … Enginn maður er fær um að vera trúr einni konu, sem aldrei breytist, allt lífið … Reyndu til dæmis að breyta um hárgreiðslu. Konur þurfa sífellt að breytast til hins betra.

Það sem að baki liggur og staðan í dag

Eins og sjá má af þessum dæmum er ungu konunum álasað fyrir að vera of vandlátar í makavali. Málið er þó ekki alveg svona einfalt því niðurstöður nýlegrar doktorsritgerðar Sandy To við Cambridge háskóla benda til að þeim sé hreinlega hafnað vegna þess að körlum standi ógn af þeim. To tók viðtöl við fimmtíu konur í Shanghai og í ljós kom að konurnar ungu vildu langflestar giftast, enda sterk félagsleg krafa um slíkt í Kína. Flestar fundu þær fyrir áðurnefndri höfnun eða þá kröfum frá verðandi maka um að þær þyrftu að breyta sínum lífsháttum, eins og að hætta að vinna þegar þær gengju í hjónaband.

A vendor stands next to wedding dresses during the China International Wedding Expo in Shanghai

Það er því ekki einfalt mál að vera ung og vel menntuð kona í Kína í dag. Skilaboð samfélagsins eru að konur eiga að mennta sig og leggja allt í sölurnar til þess að komast inn í góðan háskóla og svo er starfsframinn næstur á dagskrá. Þær eiga samt sem áður að giftast sem allra fyrst og þá þarf að ná í eiginmann sem er helst með meiri menntun og betri tekjur en þær sjálfar og með svipaðan eða betri félagslegan bakgrunn. Slíkir menn virðast þó alls ekki vera að leita að vel menntuðum konum á framabraut. Ef þeir hafa áhuga gera þeir oft kröfur um að konan fórni starfi sínu. Á sama tíma hljómar í eyrum þessara ungu kvenna sífelldur áróður um að þær séu afgangsafurðir og geri allt of miklar kröfur.

Eins og gefur að skilja hafa margar konur mótmælt þessu óréttlæti. Það er hinsvegar ekki auðvelt að mótmæla opinberlega hér í Kína og því hefur það verið styrkur að vestrænir fjölmiðlar hafa tekið málið upp. Þeir hafa allra síðustu ár fjallað um þessi mál og nýlega voru greinarnar á vefsíðu ACWF fjarlægðar. Vonandi er það skref í rétta átt.

Jafnrétti í umferðinni

Umferðarmenningin hér í Kína er sérkennileg. Í Shanghai treðst hver sem betur getur og hver ökumaður hugsar um sig. Oft má sjá fleiri bíla hlið við hlið á götunum en akreinarnar segja til um. Biðskylda virðist alls ekki þýða að maður eigi að bíða eftir því að gatan sem ekið er inn á sé auð, heldur búa kínverskir bílstjórar sér til sitt pláss sjálfir og keyra bara beint inn á, í veg fyrir þá bíla sem fyrir eru á götunni. Þá eru einhverjar óskrifaðar reglur í gangi, því bílar hægja á sér og leyfa þennan átroðning. Svo eru það öll hin farartækin, hjól og mótorhjól af öllum stærðum og gerðum. Ekkert tillit er tekið til gangandi vegfarenda. Slys í umferðinni eru mjög algeng og ekki er gert ráð fyrir sjúkrabílum, þeir bíða í kösinni eins og aðrir. Það er mjög erfitt fyrir Vesturlandabúa að keyra í Kína og flestir kjósa að gera það ekki.

Nýjustu tíðindin í umferðarmenningu Kínverja eru þó af öðrum toga. Lögreglan í Peking sá sig knúna í vikunni til að gefa út sérstakar leiðbeiningar á vefsíðu sinni til kvenkyns ökumanna þar í borg undir heitinu „Kvenkyns ökumenn vinsamlega reynið að forðast eftirfarandi mistök.” Rétt er að taka fram að við þýðum hér beinar tilvitnanir úr ensku frá Sinophere, bloggi The New York Times um Kína.

Eitt vandamálið sem lögreglan virðist standa frammi fyrir er hvað konur eru áttavilltar í umferðinni. Á vefsíðunni i stendur: “Sumar konur eru áttavilltar. Þær geta oft ekki ákveðið í hvaða átt þær eiga að keyra. Þegar þær svo átta sig svo á mistökum sínum er það of seint og þær snúa þá stýrinu í örvæntingu og valda þannig slysum.” Og önnur óborganleg setning: “Þegar konur eru einar á ferð finna þær jafnvel ekki staði sem þær hafa farið margoft á.” Hin vandamálin sem kvenkyns ökumenn í Peking standa frammi fyrir að mati lögreglunnar eru; að vera í háum hælum við akstur, að fyllast skelfingu þegar slys gerast, að keyra um með handbremsuna á, að ráða ekki við alla pedalana og að gleyma að skipta um gír. 

Konur eru varaðar við að fyllast skelfingu þegar slys ber að höndum: “Það kemur gjarnan mikið fát á kvenkyns ökumenn þegar slys verða. Þær verða oft alveg tómar og þá sjá glæpamenn sér leik á borði.” Hér að neðan er skýringarmynd lögreglunnar með þessum lið.

4cd3493fjw1ea21f43lijj20ci0950u9

Sinophere tilgreinir tvö nýleg atvik sem gætu hugsanlega skýrt hvers vegna lögreglan sá sig knúna til þess að gefa út þessar leiðbeiningar til kvenna. Í öðru þeirra fór kona út úr bílnum sínum til að huga að gangandi vegfaranda sem hún hafði keyrt á og á meðan var veskinu hennar stolið úr framsæti bílsins. Hún hafði gleymt að læsa bílnum og lái henni hver sem vill. Í hinu atvikinu keyrði kona aftan á annan bíl vegna þess að hún festi hælinn á skónum sínum á milli pedalanna.

Þessum leiðbeiningum lögreglunnar hefur, eins og gefur að skilja, ekki verið sérlega vel tekið á netinu. Kannski ætti kínverska lögreglan líka frekar að leggja áherslu á mikilvægi þess að virða einfaldar umferðareglur og að sýna tillitsemi í umferðinni í sinni umferðarfræðslu.

Markaðstorg hjónabandsins

Hjónabandið er afar mikilvægt í Kína og foreldrar leggja mikla áherslu á að uppkomin börn festi ráð sitt, helst vel fyrir þrítugt. Enn meiri pressa er á ungum konum en karlmönnum hvað þetta varðar.

DSC_0918

Hjónabandið sameinar fjölskyldur og foreldrar ungu hjónanna hafa meira um sambandið að segja en við Íslendingar erum vön. Það að eignast barn og síðar barnabarn/börn er sérstaklega þýðingarmikið fyrir Kínverja. Unga fólkið á helst að að mennta sig, síðan að ganga í hjónaband og svo að eignast barn. Sambúð fyrir hjónaband er ekki algeng og að eignast barn utan hjónabands er afar óæskilegt svo ekki sé meira sagt.

Það er ákveðin krafa um að karlmaðurinn eigi íbúð áður en hann kvænist og foreldrar hans reyna eftir bestu getu að hjálpa til með það. Ungar konur leita gjarnan að vel menntuðum manni sem á íbúð, er með góðar tekjur og ekki spillir fyrir ef hann er hávaxinn.

Foreldrar fara að ókyrrast þegar barnið þeirra er komið vel á þrítugsaldurinn og ekkert hefur gerst í hjónabandsmálunum. Þá þarf oft að grípa í taumana. Ein leiðin til að koma barninu út er að mæta á hjónabandsmarkaðinn í Shanghai á sunnudegi. Þar safnast áhyggjufullir foreldrar uppkominna einhleypra barna saman og reyna að finna hentuga maka fyrir syni sína og dætur. Foreldrarnir skrifa þá upplýsingar um börn sín á blöð sem eru svo til sýnis fyrir þá sem markaðinn sækja. Þar má meðal annars lesa um aldur, menntun og starf, hæð og persónueinkenni og stundum fylgir mynd. Svo gengur fólk um og skoðar og ræðir málin og skiptist á upplýsingum. Ef foreldri sér einhvern sem er álitlegur eru málin rædd og svo er skipst á símanúmerum ef líkur eru taldar á árangri. Oft eru foreldrarnir þarna í óþökk barna sinna, sem jafnvel hálfskammast sín fyrir tiltækið.

DSC_0914

DSC_0907

Við höfum rætt við nokkrar ungar konur hér í Kína um hjónabandið og þeim ber öllum saman um að pressan frá foreldrum um að þær festi ráð sitt sé mjög mikil. Ein af þeim sem við spjölluðum við sagði pressuna nærri óbærilega. Hún er ógift, komin fast að þrítugu, vel menntuð og í góðu starfi. Pressan er oft mest í kringum hátíðir þegar fjölskyldur eyða miklum tíma saman. Enda bárust af því fréttir í febrúar síðastliðnum, fyrir kínverska nýárið, að hægt væri að leigja sér kærasta á Tabao (eins konar eBay þeirra Kínverja) til að fara með heim til fjölskyldunnar!

Við spjölluðum einnig við miðaldra karlmann frá Shanghai um þessi mál. Hann á eina dóttur fædda árið 1989. Hann sagðist ákaflega glaður þessa dagana þar sem dóttir hans væri að fara að gifta sig í nóvember. Honum líst vel á verðandi tengdason þó hann hefði kosið að hann hefði meiri menntun og betri vinnu. Hann hefði einnig vonað að einkadóttirin gengi menntaveginn en sú ósk hefði ekki ræst. Hann var ánægður með fjölskyldu kærastans og framundan væri einmitt að bjóða þeim í mat. Helgina þar á undan hefðu þau hjónin verið í mat hjá foreldrum unga mannsins. Nú væri verið að efla tengslin. Hann sagðist hlakka til að eignast barnabörn og nú væri þungu fargi af honum létt.

Hér má sjá nokkur dæmi um auglýsingar á myndum sem við tókum á „markaðstorgi hjónabandsins“ í Shanghai sunnudaginn 22. september 2013:

dsc_0904

Karlmaður, fæddur 1980, háskólapróf, 1,65 á hæð, mánaðarlaun 3,500 RMB, er í fríi um helgar, er nærgætinn og traustur, leitar að heiðarlegri stúlku í fastri vinnu sem þarf að vera mannblendin. Engar kröfur um Hukou, upplýsingar í síma…

Karlmaður, ógiftur, einbirni, fæddur 1976, hæð 1,80, meistaragráða, Shanghai Hukou, á hús og vinnur hjá stóru opinberu fyrirtæki. Lítur vel út og hefur persónutöfra, er heiðarlegur og áreiðanlegur, leitar að ógiftri stúlku fæddri eftir 1980, 1,65 á hæð eða stærri, með háskólagráðu eða meira, með Shanghai Hukou, upplýsingar í síma… (betra ef hún vinnur í Hongkou-hverfi).

dsc_0901

Kona, ógift, aðstoðarmaður og þýðandi á skrifstofu fransks fyrirtækis í Shanghai, meistaragráða frá Frakklandi, fædd 1985, hæð 1,63, leitar að karlmanni á aldrinum 27-35 ára, með bachelor gráðu eða meira, 1,72 á hæð eða hærri, sem hefur ekki verið giftur áður, vinnur í Shanghai eða Nanjing, eða er Kínverji sem vinnur í Bandaríkjunum eða Kanada.

Kona, einbirni, fædd 1979, hæð 1,55, bachelor gráða í grafískri hönnun, starfar sem hönnuður hjá alþjóðlegu fyrirtæki, laun 5.000 RMB, er viðmótsþýð og blíðlynd, Shanghai Hukou, á hús í Putuo hverfi, leitar að ungum og heilbrigðum manni sem er vinalegur við foreldra.

DSC_0881