Ævintýralandið IKEA

Verslunarferð í IKEA er öðruvísi upplifun í Kína en víðast annars staðar og hegðun kínverskra viðskiptavina kemur flestum á óvart. Erna Lúðvíksdóttir þekkir þetta vel en hún hefur starfað sem verkefnisstjóri fyrir IKEA í Shanghai í fimm ár. Við fengum hana til að miðla aðeins af reynslu sinni. 

DSC_1155

Erna hefur góðan samanburð því hún hefur lengi unnið fyrir IKEA og í mörgum löndum; Sviss, Íslandi, Svíþjóð og nú Kína. Svissneskur eiginmaður Ernu starfar einnig fyrir fyrirtækið og hafa þau bæði verið þátttakendur í hraðri uppbyggingu þess í Kína. Fyrsta kínverska IKEA verslunin var opnuð í Shanghai fyrir fimmtán árum og á allra síðustu árum hefur fjöldi nýrra verslana farið ört vaxandi. Þær eru nú orðnar þrjár í Shanghai, önnur var opnuð árið 2010 og sú þriðja fyrir nokkrum vikum síðan. Heildarfjöldi IKEA verslana í Kína verður fjórtán frá og með morgundeginum en þá opnar ný verslun í borginni Daxing. Allar eru verslanirnar risavaxnar og með þeim allra stærstu í heimi eins og oft vill verða í Kína.

Heimilisleg hegðun

IMG_1242

En gefum Ernu orðið: ,,Fyrirtæki þurfa ætíð að mæta þörfum viðskiptavina sinna en hér í Kína eru þær mjög ólíkar því sem IKEA hefur tekist á við hingað til.” Hún segir að af hagkvæmnis-ástæðum séu vörur og verslanir fyrirtækisins yfirleitt eins allsstaðar í heiminum en í Kína krefst mannfjöldinn sveigjanleika. Breikkun gangvega úr tveimur og hálfum metra í þrjá og hönnun fleiri hjáleiða um búðirnar, til að koma í veg fyrir umferðarteppu á annatímum, eru að sögn Ernu dæmigerðar breytingar af þessum toga.

Almenn hegðun viðskiptavina hefur þó kallað eftir mestum sveigjanleika segir Erna: ,,Kínverjar gera sig mjög heimankomna í verslununum. Það þykir til dæmis ekkert óvenjulegt við það að leggja sig undir sæng í sýningardeildum eða láta börn pissa í ruslafötur og leika sér tímunum saman í barnadeildinni.“ Hún rifjar upp sögu af ungri konu sem kom sér notalega fyrir í einu rúminu í svefnherbergisdeildinni án þess að láta nærveru annarra trufla sig: ,,Stúlkan virtist ekkert setja það fyrir sig að við stæðum þarna í aðeins nokkurra metra fjarlægð, stór hópur starfsfólks, mörg okkar í fötum merktum fyrirtækinu, og sofnaði vært“ segir Erna.

Hin hefðbundna IKEA barnapössun er lítið notuð að sögn Ernu. Hún segir að yfirleitt séu margir fullorðnir á ferð með einu barni í Kína og engin þörf né skilningur sé fyrir því að skilja börnin eftir hjá ókunnugum. Afar og ömmur gæta gjarnan ungra barnabarna í Kína og Erna segir að þau komi oft með börnin og láti þau leika sér í barnavörudeildinni. Þegar börnin verða þreytt eru þau sett upp í næsta sýningarrúm og látin hvíla sig.

IMG_1288

IMG_1289

DSC_1177

Hjónabandsmiðlun í matsalnum

Kínverskir eldri borgarar kunna vel við sig í Ikea því Erna segir að um árabil hafi þeir mælt sér mót í veitingasal elstu verslunarinnar í Shanghai. Í hádeginu á þriðjudögum í viku hverri fjölmenna þeir uppáklæddir í kaffiteríuna til að fara á blint stefnumót. Samkvæmt Ernu var þetta byrjað að valda nokkrum óþægindum í rýminu en í stað þess að fæla fólkið frá brugðu stjórnendur verslunarinnar á það ráð að merkja sérstakt svæði innan veitingasalarins fyrir stefnumótin.

Erna segir að þrátt fyrir að margt undarlegt gerist í verslunum IKEA í Kína liggi leiðin upp á við. Fyrstu árin hafi oftar komið upp vandamál á borð við það að fólk kæmi í lautarferð í verslanirnar: ,,Vandamálið var líka að kínversku starfsmennirnir sáu ekkert athugavert við það þótt fólk kæmi með nesti inn í búðina og kæmi sér einhversstaðar vel fyrir til að borða. Það þurfti því að upplýsa bæði viðskiptavini og starfsfólkið um að þetta væri ekki ásættanlegt” segir Erna.

ikea_sigga

IMG_3651

IMG_3637

Notkun skýrð með myndum

Þrátt fyrir að IKEA hafi lagað sig að þörfum kínverskra viðskiptavina fer sögum af því að salan í Kína sé ekki endilega í samræmi við gífurlegan mannfjöldann sem sækir verslanirnar heim. Sem dæmi tekur verslun IKEA í höfuðborginni Peking á móti 15 þúsund manns á hverjum virkum degi og um helgar eru gestirnir 25-30 þúsund á dag. Heildartala viðskiptavina í þessari einu verslun er því yfir 45 milljónir á ári.

Beinast liggur við að spyrja Ernu næst hvort allt þetta fólk sé komið til að versla í búðunum og hvað það kaupi þá helst? Erna segir að Kínverjar kaupi mest af smávöru: ,,Búsáhöld, sængurföt, litlar hirslur og allskyns box eru vinsæl enda mikil þörf fyrir slíkt á heimilum þar sem jafnvel þrjár kynslóðir búa saman í mjög litlu rými.”  Hvað söluna snertir segir Erna okkur að þær verslanir sem lengst hafa starfað hér í Kína séu að ná upp mjög góðri veltu. Hún segir að það sýni vel uppganginn að í ár hafi IKEA verslanir í Kína í fyrsta sinn skipað efsta sæti á lista fyrirtækisins yfir aukinn hagnað á milli ára.

Að sögn Ernu er enn frekari aðlögunar þörf. Eldhúskerfið hafi til dæmis nú þegar verið einfaldað til að koma til móts við Kínamarkað. Þá hefur sala á smávöru í búsáhaldadeildunum aukist gríðarlega eftir að settar voru upp skýringarmyndir sem sýna hvernig á að nota vörurnar. Erna bendir á að vandamálin sem IKEA glímir við í Kína séu mörg af nýjum toga. Fyrirtækið sé heimsþekkt fyrir lágt vöruverð en hér í Kína á það í samkeppni við fjölmörg önnur fyrirtæki sem geta boðið lág verð. Erna segir að fyrirtækið berjist einnig við kínverskar eftirlíkingar og til séu dæmi um verslanir sem selja eingöngu eftirlíkingar af IKEA vörum.

DSC_1182

Hús og híbýli

Meðal verkefna sem Erna stýrir er að kynna nýjar áherslur og breytingar fyrir starfsfólki. Hún segir að það sé dálítið erfitt að selja Kínverjum hugmyndina um skandinavísk huggulegheit, það taki tíma og kalli á ný tilbrigði: ,,Kínverjar kaupa gjarnan klæðskerasniðnar lausnir, þeir sjá sýningarherbergi og vilja kaupa þá lausn” segir Erna. Við ræðum í framhaldinu aðeins um híbýlamenninguna í Kína. Þótt kínverska þjóðin virðist kunna vel við sig í IKEA hafa fæstir mikinn áhuga á að gera fínt í kringum sig heima við. Erna segir að kínverskir viðskiptavinir sýni textílvörum og gluggatjöldum til dæmis nær engan áhuga. Hún bætir því við að Kínverjar eyði yfirleitt ekki eins miklum tíma heima hjá sér og við erum vön að gera og því sé útlit heimilisins ekki eins mikilvægt fyrir þá: ,,Þeir bjóða ekki heim, heldur hittast úti í bæ” segir Erna og telur að þetta gæti að einhverju leyti skýrt áhugaleysi Kínverja á umgjörð heimilisins þrátt fyrir að margir hafi nú meira fé á milli handanna.

IKEA er ævintýradvalarstaður fyrir kínverskar fjölskyldur, ekki ósvipað og heimsókn í skemmtigarð. Þótt Kínverjar hafi hingað til verið áhugasamari um erlend vörumerki á borð við Starbucks, Mercedes Benz og Rolex bendir vaxandi áhugi á vörum IKEA til þess að áherslur gætu breyst í framtíðinni. Að minnsta kosti er ljóst að verkefnin eru næg fyrir Ernu.

IMG_1245

Myndirnar sem við birtum hér eru allar úr einkasafni bloggsins. Það þarf þó ekki að leita lengi á netinu til að finna fleiri skemmtilegar myndir sem hafa verið teknar í IKEA hér í Kína.

Kínversk stjörnuspeki

Stjörnuspeki er samofin kínverskri menningu og það virðist enn skipta Kínverja máli að eignast barn í réttu stjörnumerki. Það var til dæmis mjög vinsælt að eiga börn í fyrra, á ári drekans, enda hafa drekar haft mikla þýðingu í kínverskri menningu og þykja sterkt merki.

Kínversku stjörnumerkin eru tólf; rottan, uxinn, tígrisdýrið, kanínan, drekinn, snákurinn, hesturinn, kindin, apinn, haninn, hundurinn og svínið. Hvert stjörnumerki nær yfir tólf mánuði og er þá miðað við gamla kínverska dagatalið þar sem nýtt ár byrjar á tímabilinu frá janúarlokum og fram í miðjan febrúar.

dyrahringur

Sagan segir að endur fyrir löngu hafi Jaðakeisarinn ákveðið að dýrin yrði tákn á dagatalinu og jafnframt fyrirskipað að þau fyrstu sem myndu mæta á ákveðnum stað og tíma yrðu valin. Kötturinn og rottan voru á þessum tíma góðir vinir og þau ákváðu að verða samferða morguninn eftir. Kötturinn var morgunsvæfur og bað vin sinn rottuna um að vekja sig í bítið en því gleymdi rottan og hélt ein af stað. Á leiðinni hitti hún uxann, hestinn og fleiri dýr sem komust hraðar yfir en hún. Þá datt henni gott ráð í hug, hún fékk uxann til að bera sig á bakinu og í staðinn söng hún fyrir hann. Þau voru fljót í förum og þegar þau voru alveg að komast í mark hoppaði rottan af höfði uxans og varð því fyrsta merkið í dýrahringnum. Kötturinn svaf yfir sig og missti af öllu saman. Síðan hafa kettir hatað mýs og rottur. Margar útgáfur eru til af þessari sögu hér í Kína.

Núna er ár snáksins og þau börn sem fæðast frá 10. febrúar 2013 til 30. janúar 2014 eru snákar, nánar tiltekið vatnasnákar því grunnefnin fimm (elementin); eldur, jörð, málmur, vatn og viður tengjast þessu líka. Samkvæmt stjörnuspekinni eiga dýrin að hafa áhrif á persónuleika manna og efnin fimm hafa þar einnig sín áhrif. Snákar hafa ákveðin persónueinkenni, en vatnasnákur er öðruvísi en jarðsnákur og svo framvegis.

Stjornuspa_Elements3

Við spurðum unga menntaða konu hér í Shanghai út í stjörnuspekina og þýðingu hennar í daglegu lífi. Hún sagði stjörnuspekina snúast um svo miklu meira en dýrahringinn. Hún sagði að hjá mörgum væri hún mikilvægur hluti af lífinu og þannig væri það til dæmis hjá mömmu hennar. Hún sagði mömmu sína leita reglulega til taomunks til að fá ráðleggingar, sérstaklega fyrir stóra viðburði í fjölskyldunni eins og giftingu, fæðingu og fleira. Munkurinn notar þá stjörnuspekina til að reikna út ýmsa hluti og gefa ráðleggingar. Þegar unga konan varð ófrísk sagði mamma hennar að munkurinn hefði reiknað út að þetta yrði stelpa, sem svo gekk eftir. Margir foreldrar biðja slíka munka um ráðleggingar áður en börn þeirra ganga í hjónaband. Þá reiknar munkurinn út frá stjörnuspekinni og fleiru hvernig tilvonandi par á saman, tilgreinir veikleika og styrkleika. Foreldrarnir miðla svo þessum fróðleik áfram til verðandi hjóna. Ef parið er talið eiga vel saman eru allir ánægðir en ef ekki þá þarf að fara eftir ýmsum ráðleggingum, en það þýðir ekki að sambandið muni ekki ganga. Unga konan sagðist ekki trúa á þetta sjálf en tæki samt mark á því sem mamma hennar segði í þessu sambandi og að stundum væri bara heilmikið til í því.

Tökum nú nokkur dæmi af því hvernig merkin og grunnefnin eru túlkuð. Við ákváðum að fjalla hér um Íslendinga og Kínverja, svona að gamni, þó svo að stjörnuspekin eigi auðvitað að segja til um eiginleika einstaklinga fremur en eiginleika heillar þjóðar. Okkur er vonandi fyrirgefið þó við togum þetta aðeins og teygjum.

Lýðveldið Ísland er viðarapi. Viðarapar eru heillandi og góðir í samskiptum og eru framsýnir frumkvöðlar. Þeir hafa gott auga fyrir því nýjasta í tísku og eru oft í fararbroddi á því sviði. En allir hafa sína galla og samkvæmt stjörnuspekinni eigum við Íslendingar, viðaraparnir, það til að vera óákveðnir og nýjungagjarnir sem getur orðið þess valdandi að við hlaupum úr einu verkefninu í annað. Við höfum auk þess tilhneigingu til þess að festast í smáatriðum og eigum stundum erfitt með að sjá heildarmyndina!

Kínverjar eru jarðuxar, þar sem Alþýðulýðveldið Kína var stofnað 1. október 1949. Jarðuxar eru jarðbundnir, gera sér grein fyrir takmörkunum sínum og eru yfirleitt sáttir í þeim aðstæðum sem þeir eru í hverju sinni. Þá skortir þó ekki metnað og þeir komast þangað sem þeir vilja, þó að það taki langan tíma. Jarðuxarnir eru hvorki viðkvæmir né tilfinninganæmir en sýna þó nánustu fjölskyldu og vinum ást og umhyggju. Helsti galli jarðuxanna er skortur á sköpunargáfu. Þeir geta því misst af tækifærum og verið svo íhaldssamir og hagsýnir að þeir festast í sama farinu.

Þú getur lesið um þitt merki með því að smella hér.

Til gamans fylgir hér einnig tafla um hvernig störnumerkin passa saman í ástum.

Úr töflunni má lesa hvernig merkin eiga saman, þar sem talan einn 1 þýðir að merkin passi illa saman og 2 táknar að merkin eigi frekar illa saman. Talan 5 þýðir að þýðir að merkin eiga vel saman og talan 4 að merkin passi frekar vel saman. Talan 3 þýðir að leggja þurfi vinnu í sambandið.

Matches_Zodiac

Hvíta kanínukaramellan frá Shanghai

Saga Kína spannar þúsundir ára sem engin leið er að gera skil í stuttum texta. Það má þó reyna að varpa ljósi á atburðarásina og tíðarandann með því að segja sögu hlutanna. Kínverska kanínukaramellan White Rabbit endurspeglar til dæmis ágætlega þær miklu breytingar sem orðið hafa á kínversku samfélagi á síðustu áratugum. Lengst af var hún talin hið besta hátíðargóðgæti en nú þykir flestum hún frekar gamaldags. Endurkoma karamellunnar virðist þó ekki útilokuð eins og við komumst að.

white_rabbit_candies

Mjólk er uppistaðan í hvítu karamellunni en framleiðsla hennar hófst árið 1943 í Shanghai. Mynd af hinum ameríska Mikka mús prýddi í upphafi umbúðirnar enda var borgin þá eitt af mörgum svæðum í Kína sem laut stjórn útlendinga. Þó var stutt í að alþjóðlegu blómaskeiði borgarinnar lyki, heimsstyrjöldin síðari og uppgangur kommúnista voru um það bil að breyta lífi borgarbúa til framtíðar.

Árið 1949 lýsti Mao formaður yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Ameríkaniseraðar umbúðir kanínukaramellunar þóttu ekki lengur við hæfi og leitað var að þjóðlegri táknmynd. Hvít kanína varð fyrir valinu og hefur vörumerkið haldist nær óbreytt síðan.

Margt er á huldu um afdrif karamellunnar næstu árin eins og svo margt annað í sögu landsins undir stjórn formannsins. Karamelluframleiðslan virðist þó hafa lifað af erfiða tíma og heimildir benda til þess að varan hafi einnig verið flutt út til annarra landa. Ljóst er að kanínukaramellan var um langt skeið meðal vinsælustu sælgætistegunda í Kína. Hún þótti ómissandi á kínverskum veisluborðum, ekki síst þegar mikið lá við eins og á vorhátíðinni (kínverska nýárinu) og við brúðkaup. Þótti hún bera vitni um góðan smekk gestgjafans og ríkidæmi.

Skömmu eftir dauða Mao formanns tók við valdatímabil Deng Xiaoping þar sem hlið Kína gagnvart umheiminum tóku að opnast á ný. Kanínukaramellan kynntist nú harðri samkeppni við nýjar tegundir og erlend vörumerki. Síðan hafa vinsældir kanínukaramellunnar dalað og nú tengja flestir Kínverjar hana fyrst og fremst við gamla tíma.

goldenrabbit2Framleiðslan hélt samt velli og árið 2007 var aukinni samkeppni mætt með því að fríska upp á útlit og vörumerki karamellunnar. Í samræmi við óbilandi trú Kínverja á velgengi alls þess sem er gyllt og glóir var nafninu breytt í Golden Rabbit og karamellunni vafið inn í gylltar umbúðir. Framleiðslu White Rabbit var þó einnig haldið áfram.

Ári síðar féll stór skuggi á ímynd karamellunnar þegar gerð var rannsókn á framleiðslunni í tengslum við mjólkurduftshneykslið mikla sem olli veikindum tugþúsunda kínverskra ungbarna og dró nokkur til dauða. Líkt og í ungbarnamjólkurduftinu fannst melamín í mjólkinni sem hafði verið notuð við karamellugerðina. Kanínukaramellur voru í kjölfarið fjarlægðar úr hillum verslana um allan heim og á heimamarkaði dró fyrirtækið sig í hlé um tíma. Karamellan kom aftur á markað árið 2009, þá framleidd úr mjólk frá Nýja-Sjálandi.

Til að freista þess að meta stöðu kanínukaramellunnar í kínversku nútímasamfélagi ákváðum við að spyrjast aðeins fyrir meðal unga fólksins hér í Shanghai. Fyrir valinu varð að heimsækja stóran vörumarkað því þar vinnur ungt fólk sem flest kemur úr öðrum héruðum og hefur sýn á tvo heima ef svo má segja. Undantekningarlaust þekktu allir karamelluna og sögðu hana minna á barnæskuna (hjá flestum árin á milli 1970-90). Þeim fannst hún mjög gamaldags og sögðust ekki sjá hana oft í búðum. Þegar við spurðum hvort þau myndu velja að kaupa hana ef hún biðist neituðu því flestir.

IMG_3548

Svo skemmtilega vildi til að daginn áður hafði ung kona sem þarna vinnur og er nýbúin að eignast barn deilt út pokum með sælgæti. Í þessum litla poka sem jafnframt flutti á tveimur tungumálum boðskap um að barnið væri drengur var meðal annars að finna kanínukaramellur! Hvort þar var hefðinni fyrir að þakka eða hrein nostalgía er ekki gott að segja. Eða gæti verið að kanínukaramellan í sínum upprunalega búningi sé einfaldlega orðin “retro” og þar af leiðandi smart á ný?

IMG_3528

Kanínukaramellan í fjölbreyttum félagssskap nýrra tegunda í nammilandi stórmarkaðar í Shanghai í október 2013.

IMG_3533

Gyllt vika veldur vandræðum

Í dag hóf kínverska þjóðin störf á ný eftir afar viðburðarríka gyllta viku, en svo er hún kölluð frívikan sem yfirvöld hafa fyrirskipað í kringum þjóðhátíðardaginn. Með því að safna saman opinberum frídögum, hreyfa til virka vinnudaga og vinna um helgar í staðinn fær meginþorri kínverskra launþega vikufrí sem þeir nýta gjarnan til ferðalaga. Þetta óvenjulega fyrirkomulag frídaga hefur nú leitt til hálfgerðs óreiðuástands í landinu.

crowd2

Helgidagahagfræði

Í kjölfar efnahagskreppu í Asíu fyrir rúmum áratug ákváðu kínversk stjórnvöld að kynda undir efnahag landsins með því að fjölga almennum frídögum. Meðal annars var ákveðið að búa til frí í tengslum við þjóðhátíðardaginn og var það nefnt gyllta vikan. Upphaflega snerist hugmyndin um að fólk tæki sér frí, slappaði af og hefði þar með tíma til að eyða peningum sem kæmi efnahagslífinu til góða.

Fyrstu árin leiddu aukin frí til þess að persónuleg neysla jókst og fyrirtæki í verslun og ferðaþjónustu möluðu gull á ótrúlega skömmum tíma. Í þessu samhengi hefur hugtakið “holiday economy“ verið notað eða það sem kalla mætti helgidagahagfræði, til að lýsa ástandinu sem skapast þegar milljónir Kínverja halda af stað í ferðalag, allir á sama tíma, til að skoða sig um í veröldinni og versla.

Fljótlega fór þó að bera á neikvæðum áhrifum þessarar nýju hagfræði. Í samræmi við aukna kaupgetu kínversku þjóðarinnar hefur ferðagleðin aukist meira en samfélagið ræður við. Fréttir af umferðaröngþveiti, yfirfullum almenningssamgöngutækjum og óskiljanlegri mannmergð á helstu ferðamannastöðum ber nú hæst í umræðunni um gylltu vikuna. Auk þess er kvartað yfir stjórnlausu verðlagi þar sem til dæmis verð aðgöngumiða í söfn og þjóðgarða er hækkað á þessum dögum. Þá lýsa æ fleiri fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum yfir óánægju með fyrirkomulagið.

forbiddencitycrowd

Himinháar ferðamannatölur

Fjöldi fólks á faraldsfæti í gylltu vikunni er gríðarlegur og eykst frá ári til árs. Sem dæmi um himinháar tölur kínverskra ferðamanna innanlands má nefna að 2. október síðastliðinn heimsóttu 175 þúsund manns keisarahöllina í Beijing en hingað til hafa heimsóknartölur verið takmarkaðar við 80 þúsund manns á dag. Forráðamenn hallarsafnsins sáu sig hins vegar knúna til að halda áfram að selja miða til að forðast uppnám meðal fjöldans.

Sama dag heimsóttu 80 þúsund ferðalangar vinsælu ferðamannaeyjuna Gulangyu í suðausturhluta Kína. Ef allt væri eins og á verður kosið hefði fjöldinn verið 30 þúsund enda eyjan ekki nema 1,87 ferkílómetrar að flatarmáli, eða svipuð að stærð og Viðey.

Undir lok vikunnar ákváðu yfirmenn þjóðgarðs í Sichuan-fylki að fara að tilmælum yfirvalda og hætta miðasölu þegar viðmiðunarmörkum um 41 þúsund gesti á dag var náð. Það gerðist þó ekki fyrr en yfir 4000 manns höfðu lokast inni í þjóðgarðinum í 10 klukkustundir á miðvikudag þegar allar samgöngur um garðinn hrundu undan álaginu.

Í borginni Nanjing heimsóttu 230 þúsund manns grafhýsi þjóðhetjunnar Sun Yat-sen á miðvikudaginn. Í fréttum var talað við hóp ungra manna sem höfðu með sér níu sett af labbrabb-tækjum af ótta við að týnast í mannfjöldanum.

Hér í Shanghai voru borgarbúar beðnir að halda sig heima við til að gefa rými þeim 8 milljónum ferðamanna sem talið er að heimsæki borgina í gylltu vikunni.

Ofan á allt annað hafa óveður og mengun sett strik í reikninginn. Samgöngur hafa farið úr skorðum í austurhluta landsins vegna fellibylsins Fitow og í höfuðborginni þurfti að vara fólk við að dvelja utandyra sökum mengunar sem náði um helgina hæstu hæðum.

mengun

Þeir kínversku ferðamenn sem héldu út fyrir landsteinana voru heldur ekki einir á ferð. Allar ferðir frá Kína til Bandaríkjanna og Kanada á tímabilinu 18. september til 10. október seldust upp. Kínverskir ferðamenn heimsóttu einnig fjölda vinsælla áfangastaða í Evrópu og Asíu en við munum fljótlega fjalla um utanferðir Kínverja í annarri grein.

Tungldagatalið truflar

Flestir kínverskir frídagar taka mið af tungldagatalinu og eru því hreyfanlegir. Ekki ósvipað og við Íslendingar eigum að venjast með páska. Því getur það gerst að stuttur tími líði á milli fría. Í ár bar miðhausthátíðina til dæmis upp skömmu fyrir þjóðhátíðardaginn 1. október. Þetta hefur haft í för með sér dálítið ruglingslegt frídagafyrirkomulag. Þótt miðhausthátíðin feli í raun bara í sér einn frídag og þjóðhátíðin þrjá, er venjan í Kína að færa til vinnudaga svo úr verði annars vegar þriggja daga hausthátíð og hinsvegar vikulöng þjóðhátíð. Til að gera þetta mögulegt er vinnudögum víxlað og fólk þarf að vinna um helgar til að bæta upp vinnutap á virkum dögum.

Þetta er dálítið flókið! Til þess að gefa fólki hugmynd um fyrirkomulagið listum við hér upp opinbert skipulag í kringum þessa frídaga haustið 2013. Ferlið hefst fimmtudaginn 19. september:

  • Þriggja daga frí (fim, fös, lau)
  • Á sunnudegi hefst ný 6 daga vinnuvika (sun, mán, þri, mið, fim, fös)
  • Þá kemur einn frídagur (lau)
  • Við taka tveir vinnudagar (sun, mán)
  • Þá hefst 7 daga frívika (þri, mið, fim, fös, lau, sun, mán)
  • Þriðjudaginn 8. október hefst vinna á ný í 5 daga (þri, mið, fim, fös, lau).
  • Eftir hana kemur einn frídagur (sun)

Úr sambandi við umheiminn

Ekki líkar öllum peningamönnum fyrirkomulagið. Margir fjárfestar og viðskiptamenn hafa bent á glötuð tækifæri til að græða peninga þegar hlutabréfamörkuðum á meginlandi Kína er lokað í heila viku. Fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum kvarta einnig hástöfum undan truflun á starfsemi þeirra. Bent er á að afar lítið sé um að vera um helgar og því lítið gagn í að hafa fyrirtækin opin á laugardögum eða sunnudögum í stað virkra daga. Því kemur ekki á óvart að fulltrúar margra alþjóðlegra fyrirtækja og alþjóðlegra skóla í Kína hafa einfaldlega hundsað opinberar vinnuáætlanir og haldið sínu striki. Starfsmennirnir fá þá í staðinn orlofsdaga sem þeir geta kosið að nýta annaðhvort í tengslum við kínverska frídaga eða á öðrum tímum. Opinberir starfsmenn og flestir kínverskir launþegar hafa ekki um slíkt að velja og geta aðeins tekið frí á þeim tímum og með þeim skilyrðum sem yfirvöld fyrirskipa. Því má einnig bæta við að ekki eiga allir frí þessa daga því verslanir, veitingastaðir og fjölmörg önnur þjónustufyrirtæki eru opin samkvæmt venju, þ.e. í það minnsta 12 tíma á dag.

Hvort öll þessi neikvæða umræða, jafnt í kínverskum fjölmiðlum sem manna á meðal, og hin ýmsu óþægindi sem gyllta vikan hefur skapað í ár hafi áhrif til breytinga í framtíðinni er ómögulegt að segja. Mörgum þykir óreiðan þó sýna að nóg sé komið af miðstýringu yfirvalda á frítíma fólksins, jafnvel þótt ásetningurinn hafi upphaflega verið góður.

Dálítið kínverskt

Það má segja margt um Kína, en hér er aldrei leiðinlegt.

Þessi orð eru höfð eftir Tess Johnston, sem er þekkt fræðikona og fyrirlesari í Shanghai. Þau lifa í minninu því fátt lýsir lífinu í Kína betur en þessi einfalda setning. Ef dagarnir gerast dauflegir er óbrigðult ráð að drífa sig út í mannlífið, helst með myndavél, og undantekningarlaust mun eitthvað óvenjulegt eða skemmtilegt verða á vegi þínum.

Þú gætir til dæmis rekist á einhvern sem er að þvo sér um hárið úti á götu í náttfötunum:

DSC_0273

Eða gengið fram á einhvern sem sefur í vinnutímanum:

DSC_0363

DSC_0473

Kannski sæir þú herramann ganga um götur haldandi á handtösku dömunnar:

DSC_0949

DSC_0946

Og það er ekki ólíklegt að þú sæir barn pissa á götuna með dyggri aðstoð fullorðinna:

DSCN2433-1

DSC_0923

Myndirnar eru allar úr einkasafni bloggsins.

Markaðstorg hjónabandsins

Hjónabandið er afar mikilvægt í Kína og foreldrar leggja mikla áherslu á að uppkomin börn festi ráð sitt, helst vel fyrir þrítugt. Enn meiri pressa er á ungum konum en karlmönnum hvað þetta varðar.

DSC_0918

Hjónabandið sameinar fjölskyldur og foreldrar ungu hjónanna hafa meira um sambandið að segja en við Íslendingar erum vön. Það að eignast barn og síðar barnabarn/börn er sérstaklega þýðingarmikið fyrir Kínverja. Unga fólkið á helst að að mennta sig, síðan að ganga í hjónaband og svo að eignast barn. Sambúð fyrir hjónaband er ekki algeng og að eignast barn utan hjónabands er afar óæskilegt svo ekki sé meira sagt.

Það er ákveðin krafa um að karlmaðurinn eigi íbúð áður en hann kvænist og foreldrar hans reyna eftir bestu getu að hjálpa til með það. Ungar konur leita gjarnan að vel menntuðum manni sem á íbúð, er með góðar tekjur og ekki spillir fyrir ef hann er hávaxinn.

Foreldrar fara að ókyrrast þegar barnið þeirra er komið vel á þrítugsaldurinn og ekkert hefur gerst í hjónabandsmálunum. Þá þarf oft að grípa í taumana. Ein leiðin til að koma barninu út er að mæta á hjónabandsmarkaðinn í Shanghai á sunnudegi. Þar safnast áhyggjufullir foreldrar uppkominna einhleypra barna saman og reyna að finna hentuga maka fyrir syni sína og dætur. Foreldrarnir skrifa þá upplýsingar um börn sín á blöð sem eru svo til sýnis fyrir þá sem markaðinn sækja. Þar má meðal annars lesa um aldur, menntun og starf, hæð og persónueinkenni og stundum fylgir mynd. Svo gengur fólk um og skoðar og ræðir málin og skiptist á upplýsingum. Ef foreldri sér einhvern sem er álitlegur eru málin rædd og svo er skipst á símanúmerum ef líkur eru taldar á árangri. Oft eru foreldrarnir þarna í óþökk barna sinna, sem jafnvel hálfskammast sín fyrir tiltækið.

DSC_0914

DSC_0907

Við höfum rætt við nokkrar ungar konur hér í Kína um hjónabandið og þeim ber öllum saman um að pressan frá foreldrum um að þær festi ráð sitt sé mjög mikil. Ein af þeim sem við spjölluðum við sagði pressuna nærri óbærilega. Hún er ógift, komin fast að þrítugu, vel menntuð og í góðu starfi. Pressan er oft mest í kringum hátíðir þegar fjölskyldur eyða miklum tíma saman. Enda bárust af því fréttir í febrúar síðastliðnum, fyrir kínverska nýárið, að hægt væri að leigja sér kærasta á Tabao (eins konar eBay þeirra Kínverja) til að fara með heim til fjölskyldunnar!

Við spjölluðum einnig við miðaldra karlmann frá Shanghai um þessi mál. Hann á eina dóttur fædda árið 1989. Hann sagðist ákaflega glaður þessa dagana þar sem dóttir hans væri að fara að gifta sig í nóvember. Honum líst vel á verðandi tengdason þó hann hefði kosið að hann hefði meiri menntun og betri vinnu. Hann hefði einnig vonað að einkadóttirin gengi menntaveginn en sú ósk hefði ekki ræst. Hann var ánægður með fjölskyldu kærastans og framundan væri einmitt að bjóða þeim í mat. Helgina þar á undan hefðu þau hjónin verið í mat hjá foreldrum unga mannsins. Nú væri verið að efla tengslin. Hann sagðist hlakka til að eignast barnabörn og nú væri þungu fargi af honum létt.

Hér má sjá nokkur dæmi um auglýsingar á myndum sem við tókum á „markaðstorgi hjónabandsins“ í Shanghai sunnudaginn 22. september 2013:

dsc_0904

Karlmaður, fæddur 1980, háskólapróf, 1,65 á hæð, mánaðarlaun 3,500 RMB, er í fríi um helgar, er nærgætinn og traustur, leitar að heiðarlegri stúlku í fastri vinnu sem þarf að vera mannblendin. Engar kröfur um Hukou, upplýsingar í síma…

Karlmaður, ógiftur, einbirni, fæddur 1976, hæð 1,80, meistaragráða, Shanghai Hukou, á hús og vinnur hjá stóru opinberu fyrirtæki. Lítur vel út og hefur persónutöfra, er heiðarlegur og áreiðanlegur, leitar að ógiftri stúlku fæddri eftir 1980, 1,65 á hæð eða stærri, með háskólagráðu eða meira, með Shanghai Hukou, upplýsingar í síma… (betra ef hún vinnur í Hongkou-hverfi).

dsc_0901

Kona, ógift, aðstoðarmaður og þýðandi á skrifstofu fransks fyrirtækis í Shanghai, meistaragráða frá Frakklandi, fædd 1985, hæð 1,63, leitar að karlmanni á aldrinum 27-35 ára, með bachelor gráðu eða meira, 1,72 á hæð eða hærri, sem hefur ekki verið giftur áður, vinnur í Shanghai eða Nanjing, eða er Kínverji sem vinnur í Bandaríkjunum eða Kanada.

Kona, einbirni, fædd 1979, hæð 1,55, bachelor gráða í grafískri hönnun, starfar sem hönnuður hjá alþjóðlegu fyrirtæki, laun 5.000 RMB, er viðmótsþýð og blíðlynd, Shanghai Hukou, á hús í Putuo hverfi, leitar að ungum og heilbrigðum manni sem er vinalegur við foreldra.

DSC_0881