Tedrykkja er hluti af menningu Kínverja og hefur verið um langan aldur, en í gegnum tíðina hefur te verið drukkið af mismunandi hópum í ólíkum tilgangi og svo er enn í dag. Te er drukkið ánægjunnar vegna, til að efla fjölskyldu- og vinatengsl, til að sýna ríkidæmi og völd, í virðingarskyni, til heilsubótar og jafnvel til innhverfrar íhugunar. Flestir drekka þó te einfaldlega af því að það er hluti af þeirra menningarheimi.

Tedrykkja hófst í Kína endur fyrir löngu en enginn veit hvernig það gerðist. Eins og gjarnan í Kína eru þó ýmsar þjóðsögur til um upphaf tedrykkju. Margar tengjast þessar sögur keisaranum Shennong, sem á að hafa verið uppi fyrir um 5.000 árum. Samkvæmt þjóðtrúnni er Shennong bæði faðir landbúnaðarins og hefðbundinna kínverskra læknavísinda. Eitt sinn eftir langa göngu á hann að hafa lagst undir tré til að hvíla sig. Þar sem hann var þyrstur kveikti hann undir potti til að sjóða sér vatn. Fyrir tilviljun féllu lauf af nærliggjandi runna ofan í pottinn. Shennong drakk vatnið og þótti það bæði sætt og gott og ákaflega frískandi. Sagan segir að síðan hafi telaufin verið nýtt í Kína, ýmist við trúarathafnir, til lækninga eða þau hreinlega borðuð eins og grænmeti. Te varð vinsæll drykkur á tímum Tang ættarveldisins á árunum 618 til 907 og má segja að vinsældir þess hafi haldist síðan.
Flokkun og vinnsla
Allt te er unnið úr laufum camellia sinensis runnans. Af honum eru til nokkrar undirtegundir og ótal afbrigði, sem ásamt ræktunarstað og umhverfi, týnslu og vinnslu segja til um gæði endanlegrar afurðar.Fyrsta skrefið í vinnslu tes er að týna blöðin og það er ýmist gert með höndunum eða með vélum. Mismunandi blöð eru notuð við gerð ólíkra tetegunda. Bestu blöðin eru efst á runnanum og því fíngerðari og yngri sem þau eru því betri teljast þau. Úr neðri blöðunum er unnið grófara te og þau þá oft möluð í grisjute.

Te er hægt að flokka á mismunandi hátt en algengast er að flokkað sé eftir vinnsluaðferðum. Rétt er að geta þess að þó að orðið gerjun (ferment) komi fyrir í þessari flokkun þá eru það einungis tein í post-fermented flokknum sem raunverulega gerjast, ferlið í hinum flokkunum er réttara að kalla oxun.
Te sem ekki er látið oxast (non fermented)
Undir þennan flokk fellur grænt te, hvítt te og gult te (sjaldgæft). Laufin eru týnd, þurrkuð og þeim pakkað. Þurrkunin getur verið mismunandi, til dæmis bökun eða hitun á wok pönnu, og mismunandi aðferðir gefa ólíkt bragð. Grænt te er vinsælasta teið í Kína og er til dæmis ræktað í Hangzhou þaðan sem hið fræga Longjing te er ættað.
Svart te – oxað te (fermented)
Í þessum flokki er svart te sem raunar kallast rautt te í Kína, enda er drykkurinn rauður á litinn. Laufin eru geymd í hita og raka í nokkrar klukkustundir og við það verða þau svört. Þau eru svo þurrkuð á mismunandi hátt sem hefur áhrif á bragðið. Langmest af því tei sem drukkið er í hinum vestræna heimi er svart te.
Oolong te – hálfoxað te (semi fermented)
Oolong te á rætur að rekja til Fujian héraðs en eru nú ræktuð víðar í suðurhluta Kína og í Taiwan. Vinnsluaðferðin er sú sama og þegar svart te er unnið en oxunartíminn er styttri og honum er stjórnað nákvæmlega til að fá rétta oxun og þar með rétt útlit og bragð.
Pu’er te – gerjað te (post fermented)
Pu’er te eru ræktað í Yunnan héraði og eftir vinnslu er það pressuð í ákveðan lögun, oft hringlaga kökur, og látið geymast í köldum kjöllurum, stundum í mörg ár. Bragðið verður mildara og flóknara með árunum en pu’er te geymist mjög lengi. Líkt og vín verður það verðmætara með aldrinum.
Bragðbætt og breytt te
Sumum gerðum af tei er breytt í vinnsluferlinu eða í lok vinnsluferilsins til þess að ná fram ákveðnu útliti eða bragði. Bragði er ýmist breytt með náttúrulegum efnum eða gerviefnum. Jasmínute er gott dæmi um þetta því stundum eru jasmínublómin lögð ofan á telaufin í vinnslunni til þess að fá rétta bragðið en stundum er notast við gervibragðefni. Líklega falla flest te í þennan flokk og gæðin eru afar mismunandi.
Hér má sjá skemmtilega framsetningu á því hvernig kínverskt te er framleitt.
Stundum eru drykkir kallaðir te þó alls ekki sé um te að ræða og það getur til dæmis átt við um sum svokölluð ávaxtate. Ef telauf eru ekki notuð við framleiðsluna þá flokkast drykkurinn ekki sem te.
Hellt upp á te af mikilli leikni
Te er mjög misjafn að gæðum. Best er að búa til te með því að nota telaufin beint út í vatn en laufin eru einnig ólík að gæðum og verðlögð eftir því. Hér í Kína er hægt að kaupa þau í mismunandi gæðaflokkum. Gæði vatnsins skiptir líka miklu máli en þar eru Íslendingar vel settir.
Gongfu cha á kínversku þýðir hellt upp á te af mikilli leikni. Með þessari aðferð fæst besta bragðið og bestu mögulegu áhrif. Hér þarf að hafa ákveðin tæki og tól við hendina. Fyrst þarf teketil (gott ef hægt er að stjórna hitanum), tekönnu með loki (teapot), aðra tekönnu án loks til að hella í glösin (kallast chahai á kínversku), tesigti, kínverska bambusskeið eða venjulega teskeið, tangir til að meðhöndla bollana, tebolla (litla) og undirlag sem má sulla á eins og tebakka eða teborð.
Áður en byrjað er að hella upp á þarf að vita hversu mikið magn af tei og vatni á að nota. Einnig þarf að vita hversu heitt vatnið á að vera og hversu langan tíma hver uppáhelling á að standa. Þetta er allt mismunandi eftir tegundum af tei. Ef vatnið er ekki nógu heitt næst ekki fram góða sæta bragðið sem á vera af svörtu tei en of heitt vatn getur eyðilagt viðkvæmt grænt te og svo framvegis. Songfang tehúsið hér í Shanghai er með góðar upplýsingar um allt þetta í töflu á sinni heimasíðu. Athugið að sama þyngd af mismunandi tei getur verið mismargar matskeiðar þar sem telaufin eru misjafnlega stór.
Svona á að hella upp á te samkvæmt gongfu aðferðinni:
1. Forhitun og hreinsun
Sjóddu vatn í tekatlinum. Helltu sjóðandi vatni í tekönnuna (gott að hella aðeins útfyrir á könnuna), lokaðu henni og helltu á lokið líka og hinkraðu í smá stund. Helltu svo úr tekönnunni í gegnum sigtið í hina könnuna og úr henni í bollana. Leyfðu vatninu að vera í bollunum. Þetta er gert til þess að hreinsa og hita. Mikil hitabreyting eftir að telaufin eru komin í könnuna geta haft áhrif á bragð og þessi forhitun kemur í veg fyrir það.
2. Telauf hreinsuð og vakin
Settu rétt magn (sjá töflu) af telaufum með skeið í tekönnuna, settu þau í hrúgu. Helltu nú vatni í réttu hitastigi (sjá töflu) yfir laufin og láttu flæða yfir þangað til að loftbólurnar hverfa (líka hægt að skafa þær af með lokinu). Ekki hella beint í miðjuna heldur nær brúnunum. Nú þarf að hafa snögg handtök, setja lokið á tekönnuna og hella vatninu í gegnum sigtið í hina könnuna til að hita hana aftur. Þegar hellt er upp á pu’er te þá má vatnið bíða örlítið lengur áður en því er hellt af því það te þarf að hreinsa betur og jafnvel tvisvar. Þegar búið er að hella vatninu í hina könnuna er lokinu tyllt á svo að gufan komist út og sjóði ekki telaufin.
3. Fyrsta uppáhelling
Helltu nú aftur vatni í réttu hitastigi í tekönnuna. Alltaf skal hella í hringi nálægt börmunum. Fylltu könnuna, settu lokið á og leyfðu teinu að standa í þann tíma sem tilgreindur er miðað við það te sem þú ert að nota (sjá töflu, gott að telja eða nota klukku). Á meðan beðið er tilvalið að nota töngina til að tæma vatnið úr tebollunum og hella úr hinni könnunni. Helltu svo teinu úr tekönnunni í hina könnuna og úr henni í bollana. Þessi aukakanna er ekki nauðsynleg en auðveldar hlutina fyrir byrjendur auk þess sem teið verður jafnara. Ef hún er ekki notuð má hella teinu í smá skömmtum í tebollana til skiptis svo það jafnist út. Sterkasta teið er neðst. Drekka skal te meðan það er heitt og í Kína er það drukkið án mjólkur og sykurs.
4. Fleiri uppáhellingar
Helltu aftur upp á teið líkt og í fyrstu uppáhellingu, bætið lítillega við tímann í hvert skipti (sjá töflu). Það fer eftir því hvaða te er verið að nota hversu margar uppáhellingar það þolir (sjá töflu).
5. Frágangur
Fjarlægðu laufin, hreinsaðu og þurrkaðu tekönnuna og önnur áhöld. Ef ekki er búið að nýta telaufin að fullu má geyma þau í tekönnunni (án vatns) í allt að tólf tíma. Athugaðu að fyrsta uppáhelling eftir slíka geymslu gæti tekið skemmri tíma en vanalega.
Hér að neðan er upptaka af því hvernig ung kona í einum af aðal temörkuðum Shanghai hellir upp á te. Þegar myndskeiðið hefst er búið að forhita og hreinsa. Háu tebollarnir eru til notaðir til að lykta af teinu.
Eins og við sögðum frá í upphafi drekkur fólk te hér í Kína af mismunandi ástæðum og tilefni, og tedrykkja er mjög sýnileg. Temenning hefur ekki verið sterk á Íslandi en tedrykkja til heilsubótar virðist vera að aukast. Á næstunni munum við fjalla sérstaklega um tengsl tedrykkju og heilsu hér á blogginu.







Framleiðslan hélt samt velli og árið 2007 var aukinni samkeppni mætt með því að fríska upp á útlit og vörumerki karamellunnar. Í samræmi við óbilandi trú Kínverja á velgengi alls þess sem er gyllt og glóir var nafninu breytt í Golden Rabbit og karamellunni vafið inn í gylltar umbúðir. Framleiðslu White Rabbit var þó einnig haldið áfram.




