Að hella upp á kínverskt te

Tedrykkja er hluti af menningu Kínverja og hefur verið um langan aldur, en í gegnum tíðina hefur te verið drukkið af mismunandi hópum í ólíkum tilgangi og svo er enn í dag. Te er drukkið ánægjunnar vegna, til að efla fjölskyldu- og vinatengsl, til að sýna ríkidæmi og völd, í virðingarskyni, til heilsubótar og jafnvel til innhverfrar íhugunar. Flestir drekka þó te einfaldlega af því að það er hluti af þeirra menningarheimi.

teakrar3

Tedrykkja hófst í Kína endur fyrir löngu en enginn veit hvernig það gerðist. Eins og gjarnan í Kína eru þó ýmsar þjóðsögur til um upphaf tedrykkju. Margar tengjast þessar sögur keisaranum Shennong, sem á að hafa verið uppi fyrir um 5.000 árum. Samkvæmt þjóðtrúnni er Shennong bæði faðir landbúnaðarins og hefðbundinna kínverskra læknavísinda. Eitt sinn eftir langa göngu á hann að hafa lagst undir tré til að hvíla sig. Þar sem hann var þyrstur kveikti hann undir potti til að sjóða sér vatn. Fyrir tilviljun féllu lauf af nærliggjandi runna ofan í pottinn. Shennong drakk vatnið og þótti það bæði sætt og gott og ákaflega frískandi. Sagan segir að síðan hafi telaufin verið nýtt í Kína, ýmist við trúarathafnir, til lækninga eða þau hreinlega borðuð eins og grænmeti. Te varð vinsæll drykkur á tímum Tang ættarveldisins á árunum 618  til 907 og má segja að vinsældir þess hafi haldist síðan.

Flokkun og vinnsla
Allt te er unnið úr laufum camellia sinensis runnans. Af honum eru til nokkrar undirtegundir og ótal afbrigði, sem ásamt ræktunarstað og umhverfi, týnslu og vinnslu segja til um gæði endanlegrar afurðar.Fyrsta skrefið í vinnslu tes er að týna blöðin og það er ýmist gert með höndunum eða með vélum. Mismunandi blöð eru notuð við gerð ólíkra tetegunda. Bestu blöðin eru efst á runnanum og því fíngerðari og yngri sem þau eru því betri teljast þau. Úr neðri blöðunum er unnið grófara te og þau þá oft möluð í grisjute.

IMG_0099

Te er hægt að flokka á mismunandi hátt en algengast er að flokkað sé eftir vinnsluaðferðum. Rétt er að geta þess að þó að orðið gerjun (ferment) komi fyrir í þessari flokkun þá eru það einungis tein í post-fermented flokknum sem raunverulega gerjast, ferlið í hinum flokkunum er réttara að kalla oxun.

Te sem ekki er látið oxast (non fermented)
Undir þennan flokk fellur grænt te, hvítt te og gult te (sjaldgæft). Laufin eru týnd, þurrkuð og þeim pakkað. Þurrkunin getur verið mismunandi, til dæmis bökun eða hitun á wok pönnu, og mismunandi aðferðir gefa ólíkt bragð. Grænt te er vinsælasta teið í Kína og er til dæmis ræktað í Hangzhou þaðan sem hið fræga Longjing te er ættað.

Svart te – oxað te (fermented)
Í þessum flokki er svart te sem raunar kallast rautt te í Kína, enda er drykkurinn rauður á litinn. Laufin eru geymd í hita og raka í nokkrar klukkustundir og við það verða þau svört. Þau eru svo þurrkuð á mismunandi hátt sem hefur áhrif á bragðið. Langmest af því tei sem drukkið er í hinum vestræna heimi er svart te.

Oolong te – hálfoxað te (semi fermented)
Oolong te á rætur að rekja til Fujian héraðs en eru nú ræktuð víðar í suðurhluta Kína og í Taiwan. Vinnsluaðferðin er sú sama og þegar svart te er unnið en oxunartíminn er styttri og honum er stjórnað nákvæmlega til að fá rétta oxun og þar með rétt útlit og bragð.

Pu’er te – gerjað te (post fermented)
Pu’er te eru ræktað í Yunnan héraði og eftir vinnslu er það pressuð í ákveðan lögun, oft hringlaga kökur, og látið geymast í köldum kjöllurum, stundum í mörg ár. Bragðið verður mildara og flóknara með árunum en pu’er te geymist mjög lengi. Líkt og vín verður það verðmætara með aldrinum.

Bragðbætt og breytt te
Sumum gerðum af tei er breytt í vinnsluferlinu eða í lok vinnsluferilsins til þess að ná fram ákveðnu útliti eða bragði. Bragði er ýmist breytt með náttúrulegum efnum eða gerviefnum. Jasmínute er gott dæmi um þetta því stundum eru jasmínublómin lögð ofan á telaufin í vinnslunni til þess að fá rétta bragðið en stundum er notast við gervibragðefni. Líklega falla flest te í þennan flokk og gæðin eru afar mismunandi.

Hér má sjá skemmtilega framsetningu á því hvernig kínverskt te er framleitt.

Stundum eru drykkir kallaðir te þó alls ekki sé um te að ræða og það getur til dæmis átt við um sum svokölluð ávaxtate. Ef telauf eru ekki notuð við framleiðsluna þá flokkast drykkurinn ekki sem te.

Hellt upp á te af mikilli leikni
Te er mjög misjafn að gæðum. Best er að búa til te með því að nota telaufin beint út í vatn en laufin eru einnig ólík að gæðum og verðlögð eftir því. Hér í Kína er hægt að kaupa þau í mismunandi gæðaflokkum. Gæði vatnsins skiptir líka miklu máli en þar eru Íslendingar vel settir.

Gongfu cha á kínversku þýðir hellt upp á te af mikilli leikni. Með þessari aðferð fæst besta bragðið og bestu mögulegu áhrif. Hér þarf að hafa ákveðin tæki og tól við hendina. Fyrst þarf teketil (gott ef hægt er að stjórna hitanum), tekönnu með loki (teapot), aðra tekönnu án loks til að hella í glösin (kallast chahai á kínversku), tesigti, kínverska bambusskeið eða venjulega teskeið, tangir til að meðhöndla bollana, tebolla (litla) og undirlag sem má sulla á eins og tebakka eða teborð.

IMG_0073

Áður en byrjað er að hella upp á þarf að vita hversu mikið magn af tei og vatni á að nota. Einnig þarf að vita hversu heitt vatnið á að vera og hversu langan tíma hver uppáhelling á að standa. Þetta er allt mismunandi eftir tegundum af tei. Ef vatnið er ekki nógu heitt næst ekki fram góða sæta bragðið sem á vera af svörtu tei en of heitt vatn getur eyðilagt viðkvæmt grænt te og svo framvegis. Songfang tehúsið hér í Shanghai er með góðar upplýsingar um allt þetta í töflu á sinni heimasíðu. Athugið að sama þyngd af mismunandi tei getur verið mismargar matskeiðar þar sem telaufin eru misjafnlega stór.

Svona á að hella upp á te samkvæmt gongfu aðferðinni:

1. Forhitun og hreinsun
Sjóddu vatn í tekatlinum. Helltu sjóðandi vatni í tekönnuna (gott að hella aðeins útfyrir á könnuna), lokaðu henni og helltu á lokið líka og hinkraðu í smá stund. Helltu svo úr tekönnunni í gegnum sigtið í hina könnuna og úr henni í bollana. Leyfðu vatninu að vera í bollunum. Þetta er gert til þess að hreinsa og hita. Mikil hitabreyting eftir að telaufin eru komin í könnuna geta haft áhrif á bragð og þessi forhitun kemur í veg fyrir það.

2. Telauf hreinsuð og vakin
Settu rétt magn (sjá töflu) af telaufum með skeið í tekönnuna, settu þau í hrúgu. Helltu nú vatni í réttu hitastigi (sjá töflu) yfir laufin og láttu flæða yfir þangað til að loftbólurnar hverfa (líka hægt að skafa þær af með lokinu). Ekki hella beint í miðjuna heldur nær brúnunum. Nú þarf að hafa snögg handtök, setja lokið á tekönnuna og hella vatninu í gegnum sigtið í hina könnuna til að hita hana aftur. Þegar hellt er upp á pu’er te þá má vatnið bíða örlítið lengur áður en því er hellt af því það te þarf að hreinsa betur og jafnvel tvisvar. Þegar búið er að hella vatninu í hina könnuna er lokinu tyllt á svo að gufan komist út og sjóði ekki telaufin.

3. Fyrsta uppáhelling
Helltu nú aftur vatni í réttu hitastigi í tekönnuna. Alltaf skal hella í hringi nálægt börmunum. Fylltu könnuna, settu lokið á og leyfðu teinu að standa í þann tíma sem tilgreindur er miðað við það te sem þú ert að nota (sjá töflu, gott að telja eða nota klukku). Á meðan beðið er tilvalið að nota töngina til að tæma vatnið úr tebollunum og hella úr hinni könnunni. Helltu svo teinu úr tekönnunni í hina könnuna og úr henni í bollana. Þessi aukakanna er ekki nauðsynleg en auðveldar hlutina fyrir byrjendur auk þess sem teið verður jafnara. Ef hún er ekki notuð má hella teinu í smá skömmtum í tebollana til skiptis svo það jafnist út. Sterkasta teið er neðst. Drekka skal te meðan það er heitt og í Kína er það drukkið án mjólkur og sykurs.

4. Fleiri uppáhellingar
Helltu aftur upp á teið líkt og í fyrstu uppáhellingu, bætið lítillega við tímann í hvert skipti (sjá töflu). Það fer eftir því hvaða te er verið að nota hversu margar uppáhellingar það þolir (sjá töflu).

5. Frágangur
Fjarlægðu laufin, hreinsaðu og þurrkaðu tekönnuna og önnur áhöld. Ef ekki er búið að nýta telaufin að fullu má geyma þau í tekönnunni (án vatns) í allt að tólf tíma. Athugaðu að fyrsta uppáhelling eftir slíka geymslu gæti tekið skemmri tíma en vanalega.

Hér að neðan er upptaka af því hvernig ung kona í einum af aðal temörkuðum Shanghai hellir upp á te. Þegar myndskeiðið hefst er búið að forhita og hreinsa. Háu tebollarnir eru til notaðir til að lykta af teinu.

Eins og við sögðum frá í upphafi drekkur fólk te hér í Kína af mismunandi ástæðum og tilefni, og tedrykkja er mjög sýnileg. Temenning hefur ekki verið sterk á Íslandi en tedrykkja til heilsubótar virðist vera að aukast. Á næstunni munum við fjalla sérstaklega um tengsl tedrykkju og heilsu hér á blogginu.

Matvælaframleiðsla í vanda

Á undanförnum árum hefur komist upp um hvert hneykslið á fætur öðru varðandi mataröryggi hér í Kína. Vesturlandabúar þekkja margir mjólkurduftsmálið þar sem að minnsta kosti 6 börn dóu og um 300.000 veiktust eftir að melamíni var blandað í mjólkurduft. Síðan hafa fjölmörg önnur mál komið upp:

Svínakjöt litað og selt sem nautakjöt; rottukjöt, refa- og minkakjöt selt sem lambakjöt; olía hirt upp úr ræsum veitingahúsa og seld; eftirlíkingar af eggjum, mjólk, gosdrykkjum, tofu og hunangi; svínshræ sem átti að farga seld til veitingastaða og svona mætti lengi telja.

Eftirlíkingar

Það virðast vera lítil takmörk fyrir því hvað er hægt að framleiða af eftirlíkingum hér í Kína og þar er matvælaiðnaðurinn ekki undanskilinn. Reglulega birtast fréttir af eftirlíkingum af þekktum vörumerkjum í matvælaframleiðslu. Þeim má skipta í tvo flokka; annars vegar eru framleiddar nákvæmar eftirlíkingar án allra leyfa og hins vegar eru vörur sem eru framleiddar með tilskildum leyfum þar sem framleiðandinn hefur nýtt sér göt í kerfinu og fengið leyfi fyrir nýju vörumerki sem er þá mjög líkt fyrirmyndinni.

Eftirlíkingarnar eru algengastar í minni borgum og bæjum þar sem þær eru seldar á lágu verði. Í sumar komst sagan af Wang í fréttir þegar hann skrapp að heimsækja ættingja sína í Shandong héraði. Á lestarstöðinni kom hann við í lítilli búð og keypti mjólk og þar sem hann var á hraðferð skoðaði hann umbúðirnar ekki nógu vel. Þegar hann kom á áfangastað tók hann eftir því að mjólkin frá Yili sem venjulega er skrifuð með tákninu  ‘伊’ var skrifuð með tákninu ‘尹’. Wang hafði því keypt eftirlíkingu af mjólk.

Annað nýlegt dæmi er af orkudrykknum Red Bull. Upp komst um um tólf verksmiðjur á víð og dreif um Kína sem framleiddu eftirlíkingar af drykknum og er áætlað að hver þeirra hafi framleitt um 2400 dósir á dag. Talið er að gróðinn af hverri seldri dós hafi numið um 75 krónum. Lögreglan handtók þrettán manns í tengslum við málið og gerði verksmiðjurnar og allt sem þeim tilheyrði upptækt, samtals eignir að virði um 500 milljóna íslenskra króna.

Redbull3

Mengaðar vörur og annað svindl

Eftirlíkingar eru ekki það eina sem þarf að hafa áhyggjur af þegar hugað er að mataröryggi í Kína því einnig berast reglulega fréttir af mat sem mengaður er af skordýraeitri, ólöglegum rotvarnar- og aukefnum og þungmálmum vegna mengunar.

Eins og allir vita þá borða Kínverjar mikið af hrísgrjónum og það voru því afar slæmar fréttir sem bárust á vormánuðum þegar fram kom að 8 af 18 sýnum úr hrísgrjónum, sem tekin voru á veitingastöðum í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína, innihéldu of mikið af kadmíum. Í tilkynningu frá yfirvöldum kom fram að menguðu hrísgrjónin kæmu úr Hunan héraði  þar sem verksmiðjur, álver og námur hafa sprottið upp. Kadmíum er notað við framleiðslu á batteríum fyrir farsíma, myndavélar og tölvur sem mikið er framleitt af í Kína.

Rice_fields_mazandaran

Á svipuðum tíma og hrísgrjónamálið var í hámæli sýndi sjónvarpsstöðin CCTV frétt um ofnotkun á skordýraeitrinu Aldicarb hjá engiferræktendum í Shandong héraði, efni sem er bannað að nota við ræktun á engiferi. Bændurnir höfðu í áraraðir notað þrefalt til sexfalt magn af efninu ef miðað er við það magn sem leyfilegt er að nota við ræktun á bómull, tóbaki, hnetum og fleiri afurðum. Í viðtali við sjónvarpsstöðina sagðist einn bændanna vita af hættunni sem þessu fylgdi og að hann notaði ekki efnið þegar hann væri að rækta til eigin nota. Annar sagðist hafa notað Aldicarb við framleiðsluna í meira en 20 ár. Sá sagði að efnið væri nauðsynlegt til þess að útrýma skordýrum og að án þess myndi framleiðslan minnka um helming.

Tvö dæmi sem tengjast svindli í matvælaiðnaðinum á þessu ári standa okkur nærri. Nokkrir starfsmenn í íslensku fyrirtæki sem hér starfar taka sig gjarnan saman í hádeginu á föstudögum og kaupa grillað lambakjöt á markaði nærri skrifstofunni sem þeir svo borða saman í mötuneytinu. Á vormánuðum bárust af því fréttir að verið væri að selja rottu-, refa- eða minkakjöt sem lambakjöt á mörkuðum í Kína. Daginn eftir þennan fréttaflutning var búið að loka markaðinum sem starfsmennir versluðu við. Hann var sem betur fer opnaður fljótlega aftur sem bendir til þess að kjötið þar hafi verið í lagi, en óvissan er til staðar.

Hitt dæmið er af kínverskum ávaxtasafa, en nýlega var einn stærsti safaframleiðandinn í Kína ásakaður um að notaða skemmda ávexti við framleiðsluna. Deginum áður hafði önnur okkar einmitt verið að fylla ísskápinn af þessum djús. Hún kaupir venjulega innfluttan safa en þennan dag hafði hún hugsað með sér að það væri auðvitað bölvuð vitleysa og að sjálfsagt væri að gefa kínverskri framleiðslu séns.

djus

Skortur á mataröryggi í Kína snertir fleiri en okkur sem hér búum og nú er til dæmis verið að rannsaka einkennilegt mál í Bandaríkjunum þar sem gæludýrasnakk sem framleitt er í Kína fyrir hin ýmsu vörumerki er talið hafa valdið veikindum meira en 3600 hunda og dauða að minnsta kosti 580 hunda frá því árið 2007.

Ástæður og viðbrögð

Það eru margar skýringar á því hvers vegna mataröryggi í Kína er ekki betra en raunin er. Framleiðslukerfið er ákaflega flókið með milljónum bænda og þúsundum söluaðila sem selja til heildsölumarkaða sem síðan selja til framleiðenda, verslana og markaða út um allt Kína. Þetta kerfi gerir allan rekjanleika mjög erfiðan og stjórnun birgðakeðjunnar verður ekki létt verk. Eftirlitskerfið er einnig flókið og fæðustaðlar misvísandi. Sé litið til einstaklinga innan kerfisins þá er líklegt að skortur á samkennd í samfélaginu, spilling í eftirlitskerfinu og mikil misskipting, sem ýtir undir löngun einstaklinga í skjótfengin gróða, eigi sinn þátt í því hvernig komið er.

Síðasta áratuginn hafa stjórnvöld fjórum sinnum gert breytingar á eftirlitskerfinu til þess að auka fæðuöryggi í landinu, síðast með setningu nýrra laga um fæðuöryggi árið 2009. Í haust var svo fimmta aðgerðin kynnt til sögunnar með stofnun China Food and Drug Administration, stofnunar sem á að stýra þessum málum. Sérfræðingar telja þetta vera skref í rétta átt en muni þó engan veginn leysa allan vandann. Of mikil miðstýring hafi önnur vandamál í för með sér og geti dregið úr sveigjanleika til þess að bregðast við vandamálum sem upp koma.

Það er því ekki að ástæðulausu sem fólk hér í Kína er farið að grípa til sinna ráða þegar fæða þarf fjölskylduna. Þeir Kínverjar sem hafa efni á því að kaupa innflutt matvæli gera það í auknum mæli og þá sérstaklega vörur eins og ungbarnamjólkurduft. Margir reyna að kaupa erlenda vöru í gegnum netið eða fá ættingja eða vini sem búa erlendis eða eru þar á ferðalagi til þess að kaupa fyrir sig. Allur almenningur verður þó að stóla á innlenda framleiðslu.

Margir útlendingar sem hér búa kjósa að kaupa innflutt matvæli þegar því verður við komið. Þau eru fáanleg í ákveðnum búðum hér í Shanghai en eru mjög dýr og úrvalið takmarkað. Sem dæmi þá kostar einn lítri af innfluttri G-mjólk um 500 krónur og lítill pakki af Cheerios um 1.800 krónur. Matarkarfan getur því orðið ansi dýr hér rétt eins og á Íslandi.

cityshop2

Hvíta kanínukaramellan frá Shanghai

Saga Kína spannar þúsundir ára sem engin leið er að gera skil í stuttum texta. Það má þó reyna að varpa ljósi á atburðarásina og tíðarandann með því að segja sögu hlutanna. Kínverska kanínukaramellan White Rabbit endurspeglar til dæmis ágætlega þær miklu breytingar sem orðið hafa á kínversku samfélagi á síðustu áratugum. Lengst af var hún talin hið besta hátíðargóðgæti en nú þykir flestum hún frekar gamaldags. Endurkoma karamellunnar virðist þó ekki útilokuð eins og við komumst að.

white_rabbit_candies

Mjólk er uppistaðan í hvítu karamellunni en framleiðsla hennar hófst árið 1943 í Shanghai. Mynd af hinum ameríska Mikka mús prýddi í upphafi umbúðirnar enda var borgin þá eitt af mörgum svæðum í Kína sem laut stjórn útlendinga. Þó var stutt í að alþjóðlegu blómaskeiði borgarinnar lyki, heimsstyrjöldin síðari og uppgangur kommúnista voru um það bil að breyta lífi borgarbúa til framtíðar.

Árið 1949 lýsti Mao formaður yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Ameríkaniseraðar umbúðir kanínukaramellunar þóttu ekki lengur við hæfi og leitað var að þjóðlegri táknmynd. Hvít kanína varð fyrir valinu og hefur vörumerkið haldist nær óbreytt síðan.

Margt er á huldu um afdrif karamellunnar næstu árin eins og svo margt annað í sögu landsins undir stjórn formannsins. Karamelluframleiðslan virðist þó hafa lifað af erfiða tíma og heimildir benda til þess að varan hafi einnig verið flutt út til annarra landa. Ljóst er að kanínukaramellan var um langt skeið meðal vinsælustu sælgætistegunda í Kína. Hún þótti ómissandi á kínverskum veisluborðum, ekki síst þegar mikið lá við eins og á vorhátíðinni (kínverska nýárinu) og við brúðkaup. Þótti hún bera vitni um góðan smekk gestgjafans og ríkidæmi.

Skömmu eftir dauða Mao formanns tók við valdatímabil Deng Xiaoping þar sem hlið Kína gagnvart umheiminum tóku að opnast á ný. Kanínukaramellan kynntist nú harðri samkeppni við nýjar tegundir og erlend vörumerki. Síðan hafa vinsældir kanínukaramellunnar dalað og nú tengja flestir Kínverjar hana fyrst og fremst við gamla tíma.

goldenrabbit2Framleiðslan hélt samt velli og árið 2007 var aukinni samkeppni mætt með því að fríska upp á útlit og vörumerki karamellunnar. Í samræmi við óbilandi trú Kínverja á velgengi alls þess sem er gyllt og glóir var nafninu breytt í Golden Rabbit og karamellunni vafið inn í gylltar umbúðir. Framleiðslu White Rabbit var þó einnig haldið áfram.

Ári síðar féll stór skuggi á ímynd karamellunnar þegar gerð var rannsókn á framleiðslunni í tengslum við mjólkurduftshneykslið mikla sem olli veikindum tugþúsunda kínverskra ungbarna og dró nokkur til dauða. Líkt og í ungbarnamjólkurduftinu fannst melamín í mjólkinni sem hafði verið notuð við karamellugerðina. Kanínukaramellur voru í kjölfarið fjarlægðar úr hillum verslana um allan heim og á heimamarkaði dró fyrirtækið sig í hlé um tíma. Karamellan kom aftur á markað árið 2009, þá framleidd úr mjólk frá Nýja-Sjálandi.

Til að freista þess að meta stöðu kanínukaramellunnar í kínversku nútímasamfélagi ákváðum við að spyrjast aðeins fyrir meðal unga fólksins hér í Shanghai. Fyrir valinu varð að heimsækja stóran vörumarkað því þar vinnur ungt fólk sem flest kemur úr öðrum héruðum og hefur sýn á tvo heima ef svo má segja. Undantekningarlaust þekktu allir karamelluna og sögðu hana minna á barnæskuna (hjá flestum árin á milli 1970-90). Þeim fannst hún mjög gamaldags og sögðust ekki sjá hana oft í búðum. Þegar við spurðum hvort þau myndu velja að kaupa hana ef hún biðist neituðu því flestir.

IMG_3548

Svo skemmtilega vildi til að daginn áður hafði ung kona sem þarna vinnur og er nýbúin að eignast barn deilt út pokum með sælgæti. Í þessum litla poka sem jafnframt flutti á tveimur tungumálum boðskap um að barnið væri drengur var meðal annars að finna kanínukaramellur! Hvort þar var hefðinni fyrir að þakka eða hrein nostalgía er ekki gott að segja. Eða gæti verið að kanínukaramellan í sínum upprunalega búningi sé einfaldlega orðin “retro” og þar af leiðandi smart á ný?

IMG_3528

Kanínukaramellan í fjölbreyttum félagssskap nýrra tegunda í nammilandi stórmarkaðar í Shanghai í október 2013.

IMG_3533

Tunglkökur

tunglkaka_efst

Tunglkökur eru framleiddar í tonnatali í Kína ár hvert í tengslum við miðhausthátíðina. Umbúðir og vörumerki þykja oft mikilvægari en bragð og gæði vörunnar og rándýrar tunglkökur í skrautlegum umbúðum eru orðnar að stöðutákni. Flestir kaupa tunglkökur til gjafa því margir Kínverjar eru lítt hrifnir af bragðinu, ekki síst yngri kynslóðin. Söluhæstu tunglkökurnar í Kína undanfarin ár hafa verið uppfærðar útgáfur bandaríska ísframleiðandans Häagen-Dazs.

mooncake packaging

Dæmigerðar tunglkökur eru hringlaga eins og fullt tungl. Eins og svo oft í Kína er gerð þeirra tengd alls kyns táknmyndum. Sem dæmi má nefna að í hefðbundna uppskrift eru yfirleitt notaðar fjórar eggjarauður sem standa fyrir fjóra fasa tunglsins. Kökurnar eru stundum sætar og eru þá til dæmis fylltar með sætum baunum eða lótusfræjum en geta einnig verið matmeiri og bragðsterkar, fylltar með kryddjurtum og kjöti, jafnvel Peking önd!

Framleiðsla hefðbundinnar tunglköku mun vera frekar ódýr þótt varan sé seld háu verði. Það eru því miklir peningar í húfi og margir reyna að eigna sér hlut í kínverska tunglkökuævintýrinu. Hótelkeðjur og veitingastaðir framleiða kökurnar undir eigin vörumerkjum og fyrirtæki frá Vesturlöndum sem hafa náð vinsældum í Kína markaðssetja nú sínar eigin gerðir. Þá eru tunglkökurnar gjarnan færðar til nútímalegra horfs, jafnvel er talað um tunglköku “make over” og þar sem fræg vörumerki seljast jafnan best í Kína, berast æ oftar fréttir af tunglkökueftirlíkingum.

zondag1

Hefðbundar tunglkökur eru ekki aðeins svolítið furðulegar á bragðið heldur innihalda þær gríðarlegt magn hitaeininga, allt upp í 800 kaloríur stykkið! Þetta kann að einhverju leyti að skýra vinsældir tunglkakanna frá Häagen-Dazs. Fólk kaupir slíkar kökur fremur til að borða sjálft, hinar hefðbundnu eru hafðar til gjafa. Hvað sem öðru líður hafa tilraunir til að færa tunglkökuna nær þörfum nútímans tekist ágætlega og næsta víst að tunglkökur verða áfram hluti af hátíðahöldum haustsins hér í Kína.