Gleðilegt ár kinda og geita!

Samkvæmt kínverska dagatalinu byrjar nýtt ár 19. febrúar 2015. Þá lýkur ári hestsins og við tekur ár kindarinnar eða geitarinnar. Það má velta því fyrir sér hvers vegna ekki er gerður greinarmunur á geitum og kindum í þessu samhengi en skýringuna má finna í kínverska tungumálinu.

geit 2

Kindin, eða geitin, er eitt af tólf merkjum í kínverska dýrahringnum. Hvert stjörnumerki nær yfir tólf mánuði og er þá miðað við gamla kínverska dagatalið þar sem nýtt ár byrjar á tímabilinu frá janúarlokum og fram yfir miðjan febrúar (kínverska dagatalið og stjörnumerkin hafa verið til umfjöllunar hér á blogginu, sjá Kínversk stjörnuspeki).

Á kínversku er árið kennt við ,,yang”. Sé flett upp í kínversk-enskri orðabók er orðið oftast þýtt sem ,,sheep”, það er kind á íslensku. Þetta er þó ekki allskostar rétt og í kínverskri orðabók er skilgreining orðsins mun óljósari, eða eitthvað á þessa leið: jórtrandi spendýr, yfirleitt með horn á höfðinu sem greinist í ólíkar tegundir á borð við shanyang (fjalla yang = geit), mianyang (ullar yang = kind), lingyang (gasella) o.s.frv. Með öðrum orðum, geitur, kindur og jafnvel antilópur eru allt ólíkar tegundir af ,,yang”.

Þar sem ,,yang” eitt og sér segir ekki til um hvort um geit eða kind er að ræða er ómögulegt að þýða orðið sem annaðhvort. Í Kína er borðað ,,yangrou” eða yang kjöt. Flestir útlendingar myndu halda að um væri að ræða kjöt af kind og þannig er það skilgreint í kínversk-enskum orðabókum. Það gæti þó allt eins verið um geitakjöt ræða enda er það mikið borðað í Kína.

IMG_1554

Að ofansögðu er ljóst að jafnrétt er að tala um ár kindarinnar og ár geitarinnar þar sem ,,yang” nær yfir báðar tegundir. Í Japan og Víetnam, sem í gegnum söguna hafa tileinkað sér kínverska dagatalið, eru til ólík orð yfir geitur og kindur og því hefur þurft að velja á milli. Þannig kemur það til að í Japan fagnar fólk ári kindarinnar á meðan Víetnamar halda upp á ár geitarinnar. Í nýársskreytingum í Kína og í Kínahverfum um allan heim er geitin yfirleitt fyrirferðarmeiri en það má líka sjá bregða fyrir kindum hér og þar.

Við kjósum að óska ykkur gleðilegs árs kindarinnar, enda sauðkindin Íslendingum hjartfólgnari en geitin.

Xin nian kuai le! Gong xi fa cai!

IMG_1708

Konfúsíus og hin ráðandi öfl

„Að læra án þess að hugsa er tilgangslaust. Að hugsa án þess að læra er hættulegt“.

Þessi tilvitnum er skráð á stólpa í Konfúsíusarhofi í Shanghai. Önnur okkar kom í hofið vorið 2008 og skrifaði þetta hjá sér. Annars var heimsóknin eftirminnilegust fyrir friðsældina. Fyrir utan örfá ungmenni sem sögðust vera nemendur í konfúsískum fræðum var enginn á staðnum. Það er ekki oft sem slíkt gerist í margmenninu í Kína.

Nú, aðeins nokkrum árum seinna, er Konfúsíus heldur fyrirferðarmeiri í alþýðulýðveldinu. Lifnað hefur yfir Konfúsíusarhofum landsins með tilheyrandi helgiathöfunum og hundruð þúsunda ferðamanna flykkjast til fæðingarborgar heimspekingsins sem í auglýsingum hefur verið líkt við Mekka. Klassísk kínversk verk hafa náð vinsældum á ný og konfúsísk rit raunar selst svo vel að útgáfufyrirtækið sem gefur þau út á stafrænu formi hefur verið skráð á kínverskan hlutabréfamarkað. Þá mun Peking háskóli bjóða viðskiptamönnum upp á hraðnámskeið í almennri þekkingu á sígildum ritum. Þetta rímar allt vel við hraðann sem einkennir efnahagslegan uppgang Kína.

Erlendis tengja margir nafn Konfúsíusar við stofnanir sem fjármagnaðar eru af kínverska ríkinu og starfræktar innan háskóla víða um heim, meðal annars Háskóla Íslands. Tilgangur þeirra er að stuðla að aukinni fræðslu um kínverska tungu, menningu og samfélag.

En það er ekki tilviljun að nafn Konfúsíusar er notað til að beina athygli umheimsins að Kína.

Hver var Konfúsíus?

Konfúsíus (Kongzi 孔子) var uppi fyrir meira en 2500 árum, fæddur árið 551 f.Kr. Þegar hann var þriggja ára dó faðir hans og móðirin fór á vergang í leit að vinnu og húsaskjóli. Drengurinn þótti dreyminn og gleymdi sér gjarnan í ímynduðum heimi og skáldskap. Hann langaði að verða embættismaður en hafði ekki réttu samböndin. Þess í stað hóf Konfúsíus ungur að kenna og voru nemendur hans af öllum stéttum. Þetta var á tímum ófriðar og spillingar og hann var sannfærður um að kenna þyrfti fólki að samrýma þrár sínar þörfum fjölskyldunnar og samfélagsins. Honum lánaðist fyrir rest að komast í starf hjá yfirvöldum en aðrir valdamenn voru hræddir við þær umbætur sem hann boðaði. Konfúsíus var hrakinn úr starfinu og niðurlægður lagði hann af stað í ferð um landið og benti á ýmislegt sem miður fór. Sagan segir að hann hafi hitt konu eina sem missti mann sinn og son í gin tígrísdýrs. Þá sagði Konfúsíus við lærisveina sína að harðneskjuleg yfirvöld væru hræðilegri en tígrisdýr.

Konfúsíus var frumkvöðull í kennslu og lærisveinar hans skiptu þúsundum. Um sjötíu þeirra voru honum mjög nánir og eftir dauða spekingsins skráðu þeir hugmyndir hans í rit sem á kínversku kallast Lunyu, á ensku The Analects. Íslenska þýðingin heitir Speki Konfúsíusar.

Þótt Konfúsíus færi víða og reyndi að hafa áhrif á valdamenn tókst honum ekki sérlega vel upp. En margir eftirmenn hans tileinkuðu sér hugmyndirnar og með tímanum varð til sá konfúsismi sem var opinber hugmyndafræði í Kína á keisaratímum, frá 221 f.Kr. og þar til síðasta keisaraveldið féll árið 1911.

Við endalok keisaraveldisins voru margir gagnrýnir á hvort stjórnarhættir í anda konfúsisma hefðu verið landinu til góðs. Sumir vildu meina að þeir hefðu komið í veg fyrir framfarir og stuðlað að því að Kína var nú vanþróað ríki í samanburði við Vesturlönd. Aðrir töldu að ekki væri hægt að afneita konfúsískri hugsun nema hafna um leið kínverskri menningu. Þeir vildu aðlaga stefnuna nýjum tímum og slíkar hugmyndir þróuðust áfram í Taiwan, Hong Kong og Singapúr. Konfúsisma var hinsvegar úthýst á meginlandi Kína þegar kommúnistar tóku þar völd árið 1949. Mao taldi stefnuna af hinu illa og í menningarbyltingunni voru hundruð Konfúsíusarhofa eyðilögð og skemmdarverk unnin á grafreit hugsuðarins og afkomenda hans.

Konfúsismi

Á vísindavef háskólans má finna eftirfarandi lýsingu á konfúsisma: ,,Í örstuttu og ofureinfölduðu máli snýst konfúsísk heimspeki um að tileinka sér siði og hefðir sem ríkt hafa í Kína frá og með Zhou-veldinu en laga þau að breyttum aðstæðum. Konfúsíus sagði sjálfur að viska fælist í því að færa fram hið nýja á grundvelli hins gamla. Í þessu felst mikil og sterk fjölskylduhefð og krafa um virðingu hinna yngri og óreyndu gagnvart hinum eldri og lífsreyndari. Hinum yngri er ætlað að taka sér eldra fólk til fyrirmyndar en um leið tjá reynslu þess í framkvæmd með persónulegum hætti í ljósi ríkjandi aðstæðna. Þannig er gífurleg áhersla lögð á lærdóm og námsfýsi.”

Konfúsíus boðaði samhug, skyldurækni og venjur sem minna á helgiathafnir. Þótt margt í iðkun konfúsisma minni á átrúnað er hann ekki prestaregla og almennt ekki talinn til trúarbragða.

Konfúsíus og hinn ráðandi flokkur

Augljóslega spretta kenningar Konfúsíusar ekki upp á yfirborðið í alþýðulýðveldinu nema með samþykki kommúnistaflokksins. Eftir dauða Mao árið 1976 urðu miklar breytingar á stefnu flokksins og með Deng Xiaoping í broddi fylkingar var kúrsinn tekinn á efnahagslega hagsæld. Valdabreytingar voru þó ekki liður í nýrri stefnu eins og glöggt kom í ljós á Torgi hins himneska friðar árið 1989 þegar uppreisn lýðræðisþenkjandi stúdenta var kæfð niður með herafli. Í kjölfar hörmulegs blóðbaðsins á torginu var aðkallandi að skapa nýja og betri ímynd fyrir flokkinn og endurvekja trú almennings á yfirvöldum. Leitað var í gamlar hefðir og það var á þessum tíma sem forystumenn í kommúnistaflokknum hófu að nefna Konfúsíus á nafn í ræðum sínum. Þættir um forna menningu hófu göngu sína í ríkissjónvarpinu og mun tilgangur þeirra hafa verið að efla sjálfsvirðingu og sjálfstraust þjóðarinnar og hvetja til þjóðernislegrar samkenndar. Árið 2002 hætti flokkurinn opinberlega að kalla sig byltingarflokk og byrjað var að tala um ,,hinn ráðandi flokk” (Party in Power). Helstu ráðamenn hófu að boða samhug og stöðugleika í samfélaginu og í febrúar 2005 vitnaði Hu Jintao, þá æðsti maður í flokknum, í Konfúsíus og sagði að harmónía væri eitthvað sem vert væri að hlúa að (harmony is something to be cherished).

Smám saman varð samhugur að kjörorði kommúnistaflokksins og orðinu harmóníu fór að bregða æ oftar fyrir á veggspjöldum, í sjónvarpsauglýsingum og í orðræðu embættismanna. Á 2.557 afmælisdegi Konfúsíusar, árið 2006, var gefin út það sem kallað var stöðluð mynd af Konfúsíusi, stytta sem sýnir vingjarnlegan öldung með mikið skegg og krosslagða handleggi. Með opinberum stuðningi voru kynntar til sögunnar ýmsar hefðir sem ekki höfðu tíðkast fram að þessu, til dæmis sú að pör gætu endurnýjað hjúskaparheitið fyrir framan líkneski af Konfúsíusi.

Það var svo í janúar árið 2011 að risavaxin 17 tonna stytta af Konfúsíusi var reist á Torgi hins himneska friðar. Þarna horfðust þeir nú í augu sitt hvoru megin á torginu, Mao og Konfúsíus. Í ljósi sögunnar, en Mao hafði barist á móti öllu sem Konfúsíus stóð fyrir, þótti þetta náttúrlega heldur kaldhæðnislegt. Enda stoppaði Konfúsíus stutt, í skugga nætur þann 20. apríl sama ár hvarf styttan jafn skyndilega af torginu og hún hafði birst. Gárungarnir töldu að Konfúsíus, sveitamaður frá Shandong héraði, hefði ekki verið með hukou í höfuðborginni. Ekki var mikið fjallað um hvarf styttunnar í kínverskum fjölmiðlum en greinilega var ekki samhugur um málið innan flokksins.

konfusius_tiananmen

Konfúsíusarstofnanir

Þótt ásjóna Mao ríki enn yfir torginu stóra í höfuðborg Kína þá gefur hinn vinalegi öldungur, Konfúsíus, tvímælalaust mildari mynd af Kínaveldi út á við. Svip Mao brá hvergi fyrir á opnunarhátíð Ólympíuleikanna árið 2008 en mikið var um tilvitnanir í harmóníu og klassísk rit. Konfúsíusarstofnanirnar sem stofnað hefur verið til innan háskóla bera hróður heimsspekingsins víða um lönd. Flestir háskólar hafa tekið því opnum örmum að fá fjármagn og kennsluefni frá yfirvöldum í Kína til að efla kínverskukennslu og kynna kínverska menningu innan sinna raða. Í seinni tíð heyrast þó sífellt fleiri raddir sem kvarta undan því að stofnanirnar takmarki tjáningarfrelsið og fyrsti háskólinn til að loka Konfúsíusarstofnun af þeim sökum var McMaster háskóli í Kanada. Fleiri skólar hafa bæst í hópinn, nú síðast Stokkhólmsháskóli. (sjá frétt RÚV um málið hér).

Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins, Hua Chunying, hefur svarað þessum ásökunum og sagt að Konfúsíusstofnanir séu ,,brú sem tengir Kína við aðra heimshluta.” Hún leggur áherslu á að starfið sé opið og lúti gagnsæi. Í merkilegu viðtali sem fréttamaður BBC tók við áhrifakonuna Xu Lin kemur aftur á móti í ljós að ekki eiga allar spurningar við þegar fjallað er um Konfúsíusarstofnanir. Xu er forstöðukona Hanban, opinbers embættis sem hefur það að markmiði að efla og kynna kínverska tungu erlendis og hefur jafnframt umsjón með starfi Konfúsíusarstofnana um allan heim. Viðtalið má sjá hér:

Friðarverðlaun Konfúsíusar

Nafn Konfúsíus varð fyrir valinu þegar kínversk stjórnvöld komu á fót alþjóðlegum friðarverðlaunum, Confusius Peace Prize, árið 2010. Þetta var sama ár og kínverski uppreisnarmaðurinn Liu Xiaobo vann til Friðarverðlauna Nóbels, vægast sagt í mikilli óþökk kínverskra yfirvalda. Liu var hnepptur í hald til að koma í veg fyrir að hann gæti flogið til Osló og tekið á móti verðlaununum og í framhaldinu var hann dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir skoðanir sínar. Skömmu áður en heiðra átti Liu Xiaobo í Noregi voru Friðarverðlaun Konfúsíusar afhent í fyrsta sinn í Kína. Heiðurinn hlaut Vladimir Putin Rússlandsforseti fyrir að koma á ,,öryggi og stöðugleika” í Rússlandi. Þess má geta að verðlaunahafi árins 2014 var Fidel Castro.

Áhugi almennings og Hin heilaga borg Austurlanda fjær

Fyrir nokkrum árum keypti önnur okkar eintak af enskri útgáfu bókarinnar Confusius from the Heart í bókabúð í Shanghai en hafði þá ekki grun um gríðarlegar vinsældir hennar meðal heimamanna. Höfundurinn heitir Yu Dan og er prófessor við fjölmiðladeild Beijing Normal háskóla. Bókin, sem selst hefur í tugmilljónum eintaka, og vinsælir sjónvarpsþættir sem hún gerði um sama efni, hafa gert Yu að dægurstjörnu í Kína. Túlkun Yu Dan á konfúsisma er þó ekki óumdeild og einn efasemdarmaðurinn mun eitt sinn hafa mætt á bókakynningu hjá Yu Dan í bol með áletruninni ,,Konfúsíus er mjög áhyggjurfullur”. Staðreyndin er hinsvegar sú að Yu er einn tekjuhæsti rithöfundur Kína og tíður gestur á ráðstefnum. Bókin hefur verið þýdd á íslensku undir nafninu Heilræði hjartans.

Í seinni tíð er oft talað um að í Kína nútímans hafi skapast einskonar menningarlegt tómarúm sem efnahagsleg uppsveifla og aukin velsæld hafa ekki náð að fylla. Það gæti skýrt mikinn áhuga hinnar nýju kínversku millistéttar á eldri hefðum og þjóðmenningu, þar með talin heimspeki Konfúsíusar. Foreldrar innrita börnin sín í Konfúsíusarskóla þar sem börn niður í þriggja ára aldur læra kennisetningar utanbókar með því að þylja þær upp í hundruði skipta. Ferðamenn innanlands flykkjast í þau Konfúsíusarhof sem eftir standa í landinu og fylla þar út bænaspjöld. Munu mörg þeirra snúa að óskum um gott gengi í prófum, ekki síst hið margumtalaða inngöngupróf í kínverska háskóla.

Alþjóðlega Konfúsíusarhátíðin sem haldin er árlega í borginni Qufu í Shandong héraði nýtur sívaxandi vinsælda. Qufu er fæðingarborg heimsspekingsins og var fyrsta hátíðin haldin árið 2007. Þá fylltu þúsundir manna helsta vettvang hátíðarinnar sem skreyttur var með blöðrum með nafni Konfúsíusar og hlýddu á vinsæla popptónlist frá Kóreu. Í borginni er nú verið að byggja risavaxið Konfúsíusarsafn og samkvæmt upplýsingamiðstöð ferðamála í Jining héraði er framkvæmdin metin á 500 milljón yuan (um 80 milljónir bandaríkjadollara). Mun safnið, sem er rúmir 56 þúsund fermetrar að stærð, opna á þessu ári. Í markaðssetningu á Qufu er borginni líkt við Mekka og Jerúsalem og kölluð Heilög borg Austurlanda fjær (The Oriental Holy City). Gestir borgarinnar eru nú taldir í milljónum og þar með þegar mun fleiri en þeir sem heimsækja Ísrael á ári hverju. Ekkert lát er á sköpunargleðinni í ferðamálaráði Qufu borgar og í haust mátti lesa um nýjustu áformin í frétt á Xinhua. Þar kemur fram að unnið sé að því að mennta leiðbeinendur sem síðan munu fara um nágrannahéruðin og kenna konfúsisma. Boðið verður upp á kennslustundir á þorpstorgum, byggð bókasöfn og settar upp leiksýningar. Í fréttinni kemur fram að tilgangurinn sé að gera þekkingu á konfúsisma vinsæla, bæta lífsgæði þorpsbúa og skapa harmóníu í samfélaginu.

Í framtíðinni geta ferðamenn sem eru áhugasamir um Konfúsíus einnig lagt leið sína til Beidaihe. Þar hefur flokksmaður í kommúnistaflokknum og fyrrum foringi í kínverska hernum, Wang Dianming, komið upp 50 milljón yuan (um 8 milljónir bandaríkjadollara) skemmtigarði þar sem risavaxið líkneski af Konfúsíusi með útrétta arma hefur vakið athygli. Styttan er ekki í samræmi við stöðluðu útgáfuna, heilir 19 metrar á hæð og minnir helst á heimsþekkt líkneski af Kristi í Ríó de Janeiro í Brasílíu. Í viðtali við fjölmiðla sem birtist m.a. í The Japan Times, segir Wang: „Kínverski draumurinn nærist á einstakri menningu Kína og konfúsisma.” Í umfjölluninni segir einnig að á stalli styttunnar séu kínversk tákn, fyrir kínverska drauminn á framhliðinni, en á bakhliðinni er vitnað í sósíalíska hugmyndafræði. Þá tryggir lítil stytta af Mao í einu horni garðsins að öll hugmyndafræði kínverska ríkisins eigi sinn fulltrúa á staðnum.

Kínverskri draumurinn og konfúsismi

Síðan Xi Jinping tók við æðsta embætti í landinu snemma árs 2013 hefur hugmyndinni um kínverska drauminn vaxið fiskur um hrygg. Framtíðarsýn forsetans felur í sér einhverskonar endurfæðingu Kína á grunni framúrskarandi fortíðar. ,,Fyrir nokkrum árþúsundum síðan fetaði kínverska þjóðin slóðir sem voru frábrugðnar menningu og þróun annarra þjóða“ var haft eftir forsetanum í People´s Daily, opinberu málgagni kínverska kommúnistaflokksins, í október 2014. ,,Við ættum að virða og minnast óslitinnar 5000 ára menningarsögu Kína“ sagði hann ennfremur. Skömmu áður talaði Xi á ráðstefnu sem haldin var á vegum Alþjóðlegu Konfúsíusarsamtakanna í tilefni af 2565. afmælisdegi Konfúsíusar og sagði þá: ,,Framúrskarandi hefðbundin kínversk menning, þar með talinn konfúsismi, hefur að geyma mikilvægar vísbendingar til að leysa þau vandamál sem herja á mannkynið nú um stundir.“

En ekki hafa allir í Kína sama skilning á konfúsisma og kommúnistaflokkurinn, þar með talinn Li Ling, prófessor við Peking háskóla. Í bókinni Stray Dog: My Reading of the Analects gagnrýnir hann það sem hann kallar verksmiðjuframleiddan Konfúsíus og skrifar meðal annars: ,,Hinn sanni Konfúsíus, sá sem lifði, var hvorki kóngur né vitringur. Hann hafði hvorki vald né stöðu – aðeins siðgæði og fróðleik – og þorði að gagnrýna valdaelítu síns tíma.“ Li skrifar einnig að Konfúsíus hafi lifað eins og flækingur, fylgt eftir skoðunum sínum og stöðugt reynt að sannfæra valdamenn um réttlætið. Þegar bók Li kom út í maí árið 2007 var hún strax fordæmd af öðrum fræðimönnum, til dæmis af Jiang Qing, sem er áberandi maður í pólitískri túlkun á konfúsisma. Jiang kallaði Li Ling háðskan heimsendaspámann og sagði að hugmyndir hans væru ekki svaraverðar. Nóbelsverðlaunahafinn Liu Xiaobo var einn þeirra sem komu Li til varnar og varaði við því að átrúnaður á konfúsisma myndi leiða til þess að aðrar stefnur yrðu bannaðar.

harmony

Harmónía

Í þessu andrúmslofti getur verið snúið fyrir kínverskan almenning að finna réttu svörin og harmónískt faðmlag flokksins við konfúsisma er ekki óumdeilt í Kína. Manna á milli, í nokkru háði, hefur til dæmis orðið til nýtt orð. Þegar kínverska ritskoðunarvélin eyðir kommentum út af internetinu jafnharðan og þau birtast er talað um að ummælin hafi verið ,,harmóniseruð.”

Hvort harmónían sem kínverski kommúnistaflokkurinn boðar geti bjargað heiminum á eftir að koma í ljós. Fagnaðarerindið breiðist að minnsta kosti hratt út. Þegar hafa hátt á fimmta hundruð Konfúsíusarstofnana verið opnaðar í yfir hundrað löndum og stefnt er að því að þær verði orðnar 1000 árið 2020.

 

Chollywood

Vera má að bandaríski leikstjórinn Oliver Stone hafi bent á hið augljósa á kvikmyndahátíðinni í Beijing þegar hann sagði að kínversk kvikmyndalist myndi aldrei ná sér almennilega á strik nema menn horfust í augu við sögu kínversku þjóðarinnar og fjölluðu um valdatíma Mao Zedong á gagnrýninn hátt. Stone reyndi á tíunda áratugnum að gera kvikmynd um menningarbyltinguna en gekk á vegg eins og hann segir sjálfur. Hann hlaut einnig lítinn hljómgrunn þegar hann vildi gera ólympíuleikunum í Beijing árið 2008 skil.

6-20-13-chinese-movie-censored

Þetta kom fram í máli Olivers Stone á ráðstefnu sem haldin var í tengslum við kvikmyndahátíðina í Beijing nú í apríl og fjallaði um samstarfsverkefni á sviði kvikmyndagerðarlistar á milli Kína og annarra þjóða. Í slíkum verkefnum er til dæmis samið um þátttöku ákveðins fjölda kínverskra leikara og starfsmanna og að viss fjöldi af atriðum sé tekinn upp í Kína. Á móti er viðkomandi mynd tryggður betri sýningartími (til dæmis frumsýning á frídegi í Kína) og framleiðendur fá hærra hlutfall af tekjum af myndinni en aðrar erlendar myndir eiga kost á. Iron Man 3 mun vera gott dæmi um hvernig slíkt samstarf birtist á hvíta tjaldinu. Kínversk útgáfa myndarinnar er fjórum mínútum lengri en sú sem sýnd var annarsstaðar og þar má sjá nokkra kínverska leikara og tökustaði. Þar bregður einnig fyrir kínverskri mjólk sem ekki er að sjá í hefðbundu útgáfunni og heyrst hefur að hér hafi verið reynt að hressa upp á ímynd mjólkurframleiðandans Yili sem varð fyrir miklum skakkaföllum í kjölfar mjólkurduftshneykslisins mikla. Aðrar myndir sem eru þekktar fyrir að hafa verið gerðar ,,kínavænar” fyrir sýningar á kínverskum markaði eru James Bond myndin Skyfall, Man in Black 3 og Mission Impossible 3.

Að mati Olivers Stone eru slíkir samningar lítils virði á meðan Kínverjar eru ekki reiðubúnir til að fjalla um sögu Kína nema samkvæmt tilskipunum frá yfirvöldum. Í umfjöllun New York Times um framsögu bandaríska leikstjórans er eftirfarandi haft eftir honum: ,,Við erum að tala um grundvallaratriði í sögu þessa lands, hvernig það var byggt upp árið 1949 og einnig áður en að því kom, alla þessa öld. Það er spennandi. Þið hafið ekki tekist á við það.” Stone gefur lítið fyrir mótmælaraddir sem segja að hann skilji ekki Kína, hann hafi aldrei hikað við að fjalla á gagnrýninn hátt um sitt eigið land og telji gagnrýni sína einnig eiga erindi í öðrum löndum.

Chollywood / Chinawood

Samstarfsverkefni við Kínverja eru þrátt fyrir allt vinsæl í Hollywood enda tryggja þau sýningarrétt á kínverskum markaði sem er nú sá næststærsti í heimi eftir að hafa vaxið um 30% á ári síðustu tíu ár. Fyrir ekki svo löngu síðan höfðu 80-90% Kínverja aldrei komið í bíó og kvikmyndahús var aðeins að finna í allra stærstu borgunum. Nú er verið að byggja bíóhús í öllum borgum landsins og möguleikarnir gríðarlegir. Ríkasti maður Kína, Wang Jianlin, er einn þeirra sem sér tækifæri í kvikmyndaheiminum og í fyrra kynnti hann til sögunnar áætlanir sínar um opnun hins kínverska Hollywood, sem margir vilja kalla Chollywood, en aðrir Chinawood. Kvikmyndaborg Wangs, Oriental Movie Metropolis, mun rísa á næstu fjórum árum við sjávarsíðuna í útjarðri Qingdao borgar. Þar verða 20 kvikmyndaver og hægt að vinna árlega að allt að 100 kvikmyndum, innlendum og erlendum, sem ætlað er að höfða til fólks um allan heim. Engu var til sparað þegar framkvæmdir hófust við hátíðalega athöfn og sagt er að Wang hafi eytt milljónum bandaríkjadollara til að fá heimsfrægu kvikmyndastjörnurnar Leonardo DiCaprio, Catherine Zeta-Jones, Nicole Kidman and John Travolta til að vera viðstaddar. Við þetta tækifæri sagði Wang að hann vonaðist til að kvikmyndaborgin yrði stórt skref í rétta átt í þeim áætlunum að gera Kína að meiriháttar drifkrafti á sviði menningar á alþjóðavísu.

Actress Nicole Kidman shakes hands with fans at a red carpet event promoting Wanda Group's Oriental Movie Metropolis project in Qingdao

Ekki er þetta þó í fyrsta sinn sem byggð er kvikmyndaborg í Kína. Hér í nágrenni Shanghai er risavaxinn kvikmyndavettvangur, Hengdian World Studios, og er hann sá stærsti í heimi. Þar má finna þemagarða fyrir mismunandi tímabil í sögu Kína, allt frá keisarhöllum, þar á meðal eftirlíkingu af forboðnu borginni, til bygginga lýðveldistímans í byrjun síðustu aldar. Ferðamenn eru velkomnir að heimsækja garðinn og geta ferðast um í tíma í viðeigandi búningum.

Árið 2013 gerðist það í fyrsta sinn að fleiri aðgöngumiðar voru seldir inn á innlendar kvikmyndir í Kína en erlendar. Yfirvöld hér leyfa reyndar aðeins sýningar á 34 erlendum kvikmyndum á ári til að vernda innlenda kvikmyndaiðnaðinn. Auk þess fá innlendir framleiðendur hærra hlutfall af tekjum myndanna í sinn hlut en erlendir. Þetta gerir það óneitanlega freistandi fyrir útlenda aðila að vinna með heimamönnum.

avatar

Söluhæstu kvikmyndir í Kína

Uppbygging kvikmyndahúsa hér í Kína hefur verið geysihröð og mikill áhugi er á tækni. Kvikmyndahátíðin í Beijing í ár var til dæmis að mestu leyti helguð 3D og 4D tækninni. Það kemur því ekki á óvart að bandaríska þrívíddarmyndin Avatar er sú mynd sem notið hefur mestrar hylli meðal kínverska kvikmyndahúsagesta. Avatar þótti raunar ,,of vinsæl” og eftir að myndin hafði verið sýnd í tvær vikur víða um land árið 2010 gáfu yfirvöld út tilskipun um að hætta 2D sýningum í hátt í tvö þúsund sýningarsölum. Í staðinn var ákveðið að bjóða upp á kínversku stórmyndina Konfúsíus. Sýningar á Avatar héldu þó áfram í bíóhúsum sem buðu upp á 3D tæknina og þrátt fyrir inngrip yfirvalda trónir Avatar enn efst á lista yfir söluhæstu kvikmyndir í Kína. Það kann að hafa hjálpað að landslagið í Avatar myndinni er kínverskt, en myndin var að hluta tekin upp Zhangjiajie þjóðgarðinum í Hunan héraði og þar hafa nú heilu fjöllin verið nefnd upp á nýtt í samræmi við veruleikann í Avatar.

Aðrar bandarískar myndir sem komast á lista yfir tíu vinsælustu kvikmyndir í Kína eru Transformers: Dark of the Moon, Titanic, Iron Man 3 og Captain America. Mission Impossible – Ghost Protocol, Kung Fu Panda og Life of Pi (eftir kínverska Hollywood leikstjórann Ang Lee) hafa líka verið vinsælar.

Heropage-980x560_70

Söluhæsta kínverska bíómyndin til þessa heitir Lost in Thailand og er hún í öðru sæti yfir söluhæstu myndir í Kína á eftir Avatar. Þetta er gamanmynd sem gerist í Taílandi. Kínverskur vísinda- og viðskiptamaður sem hefur fundið upp íblöndunarefni fyrir bensín flýgur til Taílands til að stöðva yfirmann sinn í að selja uppfinninguna. Hann lendir í ýmsum ævintýrum sem gera honum ljóst að hann er ekki bara týndur í Taílandi heldur hefur tapað sjónum á mikilvægustu gildum lífsins þar sem peningar eru ekki allt.

Vinsældir myndarinnar hafa haft óútreiknanlegar afleiðingar. Áfangastaðir sem koma fyrir í myndinni eru nú ofurvinsælir hjá kínverskum ferðamönnum sem í seinni tíð flykkjast í hundruðum þúsundum talið í frí til Taílands. Háskólinn i Chiang Mai í norðurhluta landins hefur ekki farið varhluta af athyglinni og á háskólasvæði borgarinnar, þar sem áður ríktu mestu rólegheit, hefur þurft að koma á fót sérstökum öryggisráðstöfunum. Ástæðan er sá gríðarlegi fjöldi kínverskra túrista sem sækir á svæðið til að leika eftir atriði í myndinni vinsælu. Til að bregðast við vandanum hefur taílenski háskólinn nú bannað heimsóknir einstaklinga inn á svæðið en býður þess í stað upp á hópferðir undir handleiðslu kínverskumælandi leiðsögumanna.

02-Aftershock_(2010)_CHINESE_R6_CUSTOM-[front].jpg

Enn koma flestar vinsælar myndir á kínversku frá Hong Kong þar sem nútíma kvikmyndagerð blómstraði á meðan meginlandið tókst á við erfiða áratugi undir stjórn Mao og kínverska kommúnistaflokksins. Á síðustu árum hafa margar myndir verið gerðar í samstarfi milli Hong Kong og Kína og eru vinsælar myndir á borð við Journey to the West: Conquering the Demons, The Monkey King, Aftershock og CZ12 gott dæmi um slíkar. Þeim fjölgar þó hratt myndunum sem eiga uppruna sinn eingöngu á meginlandinu. So Young frá árinu 2013 og The Flowers of War frá 2011 hafa til dæmis báðar laðað til sín mikinn fjölda áhorfenda. Sú síðarnefnda fjallar um hræðilega atburði sem áttu sér stað í Nanjing þegar borgin var hertekin af Japönum í seinni heimsstyrjöldinni og skartar hinum enska Christian Bale í aðalhlutverki. Bale varð einmitt frægur fyrir hlutverk sitt í Spielberg myndinni Empire of the Sun frá árinu 1987 en hún segir sögu útlendinga í Shanghai á stríðsárunum.

The-Flowers-of-war-wallpaper-overallsite

Í landi þar sem þrívíddarmyndir og tæknibrellur hafa notið hvað mestar hylli þykir árangur kínversku myndarinnar Where are we going, Dad? sem frumsýnd var í byrjun þess árs merkilegur, en hún siglir nú harðbyri upp listann yfir söluhæstu myndir allra tíma í Kína. Myndin á rætur í afar vinsælum raunveruleikaþætti í sjónvarpi, sem byggður er á hugmynd frá Kóreu, og fjallar um fræga feður sem ferðast til ýmissa staða í Kína ásamt börnum sínum og takast þar á við óvæntar og óvenjulegar aðstæður.

kynning

En þótt þeim fjölgi hratt kínversku myndunum sem fylla alla nýju bíósalina í Kína er það bandaríska myndin Captain America sem hefur slegið aðsóknarmet á þessu ári. Peningarnir flæða í kínverska kvikmyndaheiminum og í von um gróða hefur Hollywood mjög lagt sig fram við að höfða til kínverskra áhorfenda og sefa kínversk ritskoðunaryfirvöld í leiðinni. Þeir sem vilja taka þátt í kínverska kvikmyndaævintýrinu eru þó margir farnir að átta sig á að þeir þurfi að fylgjast betur með því sem er að gerast á kínverskum markaði. Augljóslega eru Kínverjar að horfa á fleira en það sem Hollywood heldur að þeir vilji horfa á. Kínverska áhorfendur þyrstir í eigin sögur og virðast hrifnir af myndum á léttu nótunum sem gerast í nútímanum. Yfir öllu ævintýrinu vofir ritskoðun kínverskra yfirvalda og því óttast sumir að aukin áhrif Kínverja í kvikmyndagerð heimsins muni leiða til lítils innihalds.

captainamerica

100 bestu kínversku myndirnar

Nú er ekki víst að vinsælustu kvikmyndinar séu endilega þær bestu og því viljum við að lokum benda á nýlega úttekt tímaritsins Time Out Shanghai á 100 bestu kvikmyndum allra tíma frá meginlandi Kína. Við gerð listans var leitað álits 88 sérfræðinga á sviði kvikmyndagerðar, meðal þeirra voru leikarar, leikstjórar, framleiðendur, gagnrýnendur, fræðimenn og áhugafólk um kvikmyndagerð. Það er áhugavert að fletta í gengum valið sem endurspeglar ágætlega þróun kínverskar kvikmyndagerðar allt frá því að hún festi rætur í landinu við lok 19. aldar. Ofarlega á listanum má til dæmis finna myndir sem gerðar voru á gullaldarárunum í gömlu Shanghai á þriðja áratug síðustu aldar.

lkjh

Efst a listanum trónir kvikmyndin Far Well My Concubine frá árinu 1993. Eins og oft á við um áhugaverðar kínverskar kvikmyndir spannar saga myndarinnar nokkra áratugi og veitir þar með innsýn inn í þær gífurlegu þjóðfélagsbreytingar sem urðu í Kína á síðustu öld. Fleiri myndir þar sem áhrif pólitískra átaka birtast í daglegu lífi venjulegs fólks voru gerðar á svipuðum tíma og eru kenndar við svokallaða fimmtu kynslóð leikstjóra, Fifth Generation Movement, sem á stærstan þátt í að vekja athygli heimsins á kínverskri kvikmyndagerð á ný en átti síðan undir högg að sækja eftir uppreisnina á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Kvikmyndirnar To Live frá 1994, í 8. sæti listans, og The Blue Kite frá 1994, í 14. sæti listans, eru gott dæmi um slíkar kvikmyndir.

ToLive

Þótt mikill vöxtur sé nú í kínverskri kvikmyndagerð er Chen Kaige, leikstjóri Far Well My Concubine, ekki sérlega bjarsýnn og í viðtali sem birtist í tengslum við umfjöllunina segir hann: ,,Allar kvikmyndir, hvort sem þær eru sögulegar eða ekki, endurspegla það sem gerist í samfélaginu. Ég vil ekki segja fólki hvað er satt né hvar sannleikann sé að finna. En þótt kínverskur kvikmyndamarkaður vaxi hratt sjáum við ekki margar af þeim myndum sem hreyfa við okkur ná miklum vinsældum. Hvers vegna? Peningar eru loka takmarkið, það er meira en augljóst. Þessi markaður, það get ég sagt ykkur, er blindur.”

cinema_2144703b

Áður en langt um líður verður kvikmyndamarkaðurinn í Kína sá stærsti í heimi. Erlendar myndir hafa átt stóran þátt í að drífa markaðinn áfram á undanförnum áratug og kínverskir áhorfendur hafa verið hrifnir af stórmyndum og áhrifamiklum tæknibrellum. Á síðustu tveimur árum hafa hinsvegar komið fram á sjónarsviðið innlendar gamanmyndir sem slegið hafa aðsóknarmet í Kína og kínverskar myndir á borð við Lost in Beijing frá 2007 og  A Touch of Sin frá 2013 hafa hlotið lof utan Kína. Hvort kínverskar kvikmyndir muni leggja undir sig heiminn er ekki gott að segja en hver veit nema kínversk gamanmyndaleikkona verði næsta Jennifer Aniston. En hvort við sjáum eitthvað innhaldsríkara um raunverulega sögu Kína í bíó eins og Oliver Stone hefur kallað eftir er annað mál.

OR_A-Touch-of-Sin-2013-movie-Wallpaper-1280x800

 

 

Qipao kjólar og kvenfrelsi

Klæddar bróderuðum qipao kjólum úr silki, perlum skreyttar og kæruleysislegar í fasi eru þær kvenleikinn uppmálaður kínversku fegurðardísirnar sem birtast okkur á teikningum og ljósmyndum frá upphafi síðustu aldar. En þótt töfraljómi hvíli yfir dömunum er kjóllinn sem þær klæðast líka táknrænn fyrir aukið frjálsræði kínverskra kvenna á mikilvægum tímamótum í sögu Kína. Þegar keisaravaldið sem ríkt hafði yfir landinu um árþúsundir var að líða undir lok og tekist var á um stjórnarfar framtíðarinnar klæddust konurnar í Kína qipao kjólum.

shanghaiposters

Slík er frægð qipao kjólsins að honum hafa verið tileinkaðar sýningar í stórborgum á borð við Hong Kong, Singapore og New York og um hann hafa verið skrifaðar bækur. Saga kjólsins er nokkuð merkileg heimild, hvort sem ætlunin er að fræðast um tísku og fagurfræði, eða kvennasögu með tilheyrandi breytingum á lífi kínverskra kvenna á umbrotatímum í Kína. Qipao kjóllinn hefur notið vinsælda í heila öld og fylgt kínverskum konum víða um heim.

Qipao eða cheongsam?

Á mandarín-kínversku er kjóllinn kallaður qipao. Orðið átti upphaflega við um hefðbundinn búning kvenna þegar Mansjúríumenn réðu ríkjum í Kína á tímum Qing ættarveldisins. Qipao kjólar kvennanna við keisarahirðina voru íburðarmiklir, úr silki, heilbróderaðir og skreyttir með blúndum.

qingdynasty

Kínverjar sem tala kantónsku kalla kjólinn cheongsam. Orðið er komið af changshan í mandarín-kínversku sem merkir síður kjóll og átti upphaflega við um klæðnað kínverskra karla. Bæði qipao og cheongsam eru semsagt fullkomlega rétt kínversk heiti sem hafa fengið nýja merkingu. Á meginlandi Kína er talað um qipao en í Hong Kong, þar sem töluð er kantónska, aldrei um annað en cheongsam. Utan Kína er cheongsam sennilega þekktara nafn þar sem kínversk áhrif bárust frekar frá Hong Kong til Vesturlanda á meðan Kína var lokað land undir stjórn Mao formanns.

qingdynastymen

Og svo segir sagan 

Eins og svo oft í Kína er til þjóðsaga um tilurð qipao kjólsins. Sagan segir frá ungri konu sem bjó við Jingbo stöðuvatnið og hafði afkomu sína af fiskveiðum. Hún var ekki aðeins undurfögur, heldur líka gáfuð og hæfileikarík. Við veiðarnar voru víðir og síðir kjólarnir sem tíðkuðust á þessum tíma oft til óþæginda og henni hugkvæmdist að búa til praktískari vinnuklæðnað. Útkoman var kjóll með háum hliðarklaufum og hneppingum sem auðvelt var að losa um svo auðveldara væri að hreyfa sig við vinnuna.

Stúlkan var fátæk og grunaði ekki að örlög hennar myndu ráðast í draumum keisarans í Kína. En nótt eina vitjaði látinn faðir keisarans hans í svefni og sagði honum að unga konan í qipao kjólnum við Jingbo vatnið myndi verða eiginkona hans. Þegar keisarinn vaknaði lét hann menn sína leita stúlkuna uppi og flytja hana (og qipao kjólinn hennar) til hallarinnar. Upp frá því tóku allar konurnar við hirðina kjól keisaraynjunnar sér til fyrirmyndar og brátt klæddust allar konur í Kínaveldi qipao kjólum.

Qing-Dynasty-clothes-2

Keisaraveldið kvatt

Keisaraveldið leið undir lok og Lýðveldið Kína var stofnað árið 1912. Samfélagslegar umbætur sköpuðu ný tækifæri fyrir kínverskar konur og margar sýndu framfarahug sinn í verki með breyttum klæðaburði. Síðu kjólarnir sem áður voru aðeins fyrir karlmenn og kóngafólk náðu nú almennum vinsældum meðal kvenna en tóku breytingum sem féllu betur að nýjum lífsstíl. Sniðin urðu þrengri og líkari þeim sem konur á Vesturlöndum klæddust. Qipao kjólarnir gátu verið síðir og stuttir, með háum eða lágum kínakraga, ermalausir eða með ermum og misjafnt var hversu hátt hliðarklaufarnar voru skornar. Þannig gat útlit kjólsins verið íhaldssamt eða djarft og allt þar á milli, allt eftir því hvernig kjóllinn var sniðinn. Skáskorið opið sem nær frá hálsi niður að handarbótinni setur sterkan svip á qipao kjólinn en því er hneppt saman með hnöppum eða lykkjum. Efnið gat verið allt frá handbróderuðu silki til áprentaðra ullar- og bómullarefna. Kjólarnir voru ætíð sérsaumaðir en þrátt fyrir það hugsaðir til daglegra nota og jafnvel verksmiðjustúlkur klæddust slíkum kjólum við vinnuna. Þannig gat hver kona látið sníða kjólinn að sínum eigin persónuleika og var hann um leið tákn fyrir nýjan og frjálsari lífsstíl kínverskra kvenna.

Gullaldarárin í Shanghai

Um aldamótin 1800 leiddi ótraust stjórn keisaraveldisins til innrásar erlendra ríkja og þegar Kínverjar lutu í lægra haldi fyrir Bretum í hinu svokallaða ópíumstríði féllu ýmsar hafnir og borgir í Kína í hendur erlendra valdhafa. Þannig kom það til að árið 1843 var gerður sáttmáli um Shanghai sem fól í sér yfirráð útlendinga. Borgin varð fljótt mesta viðskiptahöfn í Kína og dró til sín fólk frá öllum heimshornum.

Á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar þótti Shanghai glæsilegri og nýtískulegri en aðrar kínverskar borgir og stóð stöðum eins og París fyllilega á sporði þegar kom að skemmtanalífinu. Einstök blanda vestrænna og austurlenskra áhrifa einkenndi andrúmsloftið á umbrotatímum millistríðsáranna. Fagrar art deco byggingar risu, jazzinn dunaði á næturklúbbunum og orðspor kabarettsýninganna og dansleikjanna í Shanghai barst um allan heim. Þessari sögu eru gerð ágæt skil í bók sem heitir Shanghai´s Dancing World eftir Andrew Field.

dancinginshanghai

Eftir stofnun lýðveldis í Kína stýrðu kínverskir þjóðernissinnar (kuomintang) landinu en útlendingar höfðu eftir sem áður völd og áhrif. Helstu tískustraumar bárust úr vestri og endurspegluðust glöggt í umhverfi og athöfnum borgarbúa. Það var flott að vera frá París eða London á þessum árum en almennilegur heimsborgari varð enginn nema hafa komið til Shanghai.

qipao1

Konur í qipao kjólum eru ein frægasta birtingarmynd gullaldaráranna í Shanghai. Myndirnar sýna þær sitjandi við snyrtiborð, spilandi golf eða með veiðistöng í hönd, reykjandi sígarettur, í sveiflu á dansgólfinu og stundum drekkandi amerískt kók. Sumar stilla sér upp í loðfeldum, með perlur og demanta en allar eru þær í qipao kjólum. Þrátt fyrir kynþokkafulla ímyndina er kjóllinn í margra augum mikilvægt tákn um aukið frelsi og sjálfstæði kínverskra kvenna á lýðræðistímum. Stúdínur, kvikmyndastjörnur, dansmeyjar, húsmæður, listakonur; allar gengu þær um stræti Shanghai borgar í qipao kjólunum sínum og gerðu sig gildandi í frjálsara samfélagi.

Áhrifamiklar konur í qipao

wuyifang

Konan sem skrifaði undir Sáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd Kína árið 1945 var klædd í qipao. Wu Yifang (1893-1985) hét hún og var meðal fyrstu kvenna til að ljúka prófi frá kínverskum háskóla. Hún varð síðar æðsti stjórnandi Ginling kvennaháskólans í Nanjing og barðist alla tíð fyrir jafnrétti kynjanna og félagslegu réttlæti.

En frægastar og áhrifamestar kínverskra kvenna á þessum tíma voru án vafa Soong systurnar þrjár frá Shanghai og varpar ævi þeirra ágætu ljósi á tíðarandann.

1280px-Soong_Sisters_visiting_Nationalist_soldiersAi-ling, Mei-ling og Ching-ling Soong heilsa upp á konur í her þjóðernissinna.

Frægust hér í Kína er Soong Ching-ling (1893-1981) sem ung að árum varð áberandi í baráttunni fyrir auknu frelsi kínverskra kvenna. Það vakti mikla athygli þegar hún giftist byltingarforingjanum Sun Yat-sen sem var mun eldri en hún. Sun Yat-sen er goðsögn í Kína fyrir framlag sitt til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hann var formaður í flokki þjóðernissinna (kuomintang) og fyrsti forseti hins nýja lýðveldis. Þegar Sun Yat-sen féll frá árið 1925 var Soong Ching-ling eiginkona hans kosin til áhrifa meðal þjóðernissinna. Skömmu síðar flúði hún til Moskvu og fylgdi upp frá því kommúnistum að málum. Þegar Mao lýsti yfir stofnun alþýðulýðveldisins á Torgi hins himneska friðar árið 1949 var hún meðal áhrifafólks sem stóð við hlið hans og skömmu fyrir andlátið árið 1981 var hún gerð að heiðursforseta alþýðulýðveldisins. Ekki eru nema nokkur ár síðan reynt var að reisa Soong Ching-ling minnisvarða í borginni Zhengzhou í Henan héraði. Um var að ræða 24 metra háa brjóstmynd. Listaháskólinn á staðnum kom að verkefninu og þó að andlitsdrættir Soong virtust furðu karlmannlegir (sumir sögðu að þetta væri alls ekki hún) var styttan kvenlega klædd í qipao kjól. En eitthvað voru yfirvöld óviss um réttmæti styttunnar því árið 2011, skömmu áður en hún var fullgerð, bárust fréttir af eyðileggingu hennar.

styttan

Minningunni um yngstu systurina, Soong Mei-ling (1898-2003), er aftur á móti lítt haldið á lofti hér í alþýðulýðveldinu enda var hún eiginkona Chiang Kai-shek, hershöfðingjans fræga sem jafnframt var pólitískur leiðtogi landsins eftir fráfall Sun Yat-sen, allt fram að valdatöku kommúnista. Forsetahjónin voru mjög þekkt á Vesturlöndum enda ferðuðust þau víða um heim og vakti Madame Chiang Kai-shek, eins og hún var gjarnan kölluð, jafnan athygli fyrir fallegan klæðaburð. Hún klæddist aldrei öðru en qipao og er sögð hafa átt yfir 1000 slíka kjóla. Eftir valdatöku kommúnista í Kína flúðu hjónin til Taiwan þar sem lýðveldið Kína lifði áfram undir stjórn þjóðernissinna. Eftir dauða Chiang Kai-shek árið 1975 fjaraði undan áhrifum flokksins og Soong Mei-ling flutti til Bandaríkjanna. Eftir það fór hún sjaldan til Taiwan en reyndi þó nokkrum sinnum, án árangurs, að beita áhrifum sínum í þágu flokks þjóðernissinna, síðast þegar kosið var í Taiwan árið 2000, en þá var hún rúmlega aldargömul! Sögu Soong Mei-ling hefur verið gerð skil í bókum, til dæmis hér, en hún lést í hárri elli í New York árið 2003.

soongchurchillfdrchiangChiang Kai-shek, Roosevelt, Churchill og Soong Mei-ling í Kaíró í Egyptalandi árið 1943.

soongmeilingrooseveltEleanor Roosevelt og Soong Mei-ling þegar sú síðarnefnda heimsótti Hvíta húsið í Washington árið 1943. Á bandaríska forsetafrúin að hafi sagt um kínversku stallsystur sína að hún talaði fallega um lýðræðið en vissi hinsvegar ekki hvernig ætti að lifa samkvæmt því.

Þriðja og elsta Soong systirin hét Soong Ai-ling (1890-1973). Hún var gift ríkasta manni Kína á þessum tíma, bankamanninum Kung Hsiang-hsi (H.H. Kung) en hann var einnig ráðherra í ríkisstjórn Chiang Kai-shek. Þegar hylla fór undir endalok lýðveldistímans í Kína flúðu þau hjón til Taiwan og síðar til Bandaríkjanna þar Soong Ai-ling lést á heimili sínu í New York.

soongsysturEin elskar peninga, önnur elskar völd og sú þriðja elskar landið sitt. Einhvernveginn svona hljómar orðatiltæki frá Mao tímanum og vísar það til Soong systra. Hér sitja þær systur saman, Mei-ling til vinstri, Ching-ling fyrir miðju og Ai-ling lengst til hægri.

Soong systurnar áttu efnaða foreldra, hlutu góða menntun erlendis og nutu alls þess besta (og allra þeirra forréttinda) sem Kína hafði upp á að bjóða á þessum árum. Líf þeirra er áhugaverð heimild um þjóðfélagslegar breytingar í Kína í byrjun síðustu aldar og því skiljanlegt að reynt hafi verið að gera þeim skil í kvikmynd. The Soong Sisters er kvikmynd frá 1997 sem hlaut nokkra athygli, ekki síst fyrir ágætan leik, en sú gríðarlega ritskoðun sem myndin mátti una við þótti þó sýna vel hversu erfitt er að fjalla um nútímasögu Kína undir smásjá yfirvalda í Beijing.

Kapitalískur klæðnaður

Þrátt fyrir gleði og glaum á fyrstu áratugunum voru lýðveldisárin miklir átakatímar í sögu Kína. Innrás Japana í árslok 1937 í Nanjing, sem þá var höfuðborg landsins, markaði upphaf að átökum sem lauk ekki fyrr en við endalok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945. Þá tók við blóðug borgarastyrjöld milli þjóðernissinna undir forystu Chiang Kai-shek og kommúnista með Mao Zedong fremstan í flokki. Kommúnistar náðu völdum árið 1949 og í hinu nýja alþýðulýðveldi hvarf qipao kjóllinn smám saman af götunum uns hann var loks bannaður með öllu. Kommúnistar töldu kjólinn dæmi um kapitalískan klæðnað og til vitnis um spilltan lífstílinn sem viðhafst hafði í landinu undir áhrifum útlendinga.

suzielife

Þegar ljóst var að kommúnistar myndu ná völdum á meginlandi Kína flúðu flestir íbúar alþjóðlega samfélagsins í Shanghai og settust margir að í bresku nýlendunni í Hong Kong. Meðal þeirra voru fjölmargir skraddarar sem lögðu grunn að nýju blómaskeiði qipao kjólsins í Hong Kong sem náði hámarki á fimmta og sjötta áratugnum. Þetta má glöggt sjá í kvikmyndum frá þessum tíma, til dæmis í myndinni The World of Suzie Wong frá árinu 1960. Nýrri kvikmynd sem einnig varpar ljósi á þetta tímabil í Hong Kong er In the Mood for Love frá árinu 2000 sem vann til fjölmargra alþjóðlegra verðlauna.

inthemoodforlove

Þegar vestræn menningaráhrif og tíska urðu áhrifameiri meðal kínverskra íbúa Hong Kong á sjöunda áratugnum datt qipao kjóllinn smám saman úr tísku. Hann hvarf þó aldrei með öllu og er enn vinsæll við formlegar viðhafnir eins og brúðkaup. Kjólar með qipao sniði eru einnig algengir einkennisbúningar á veitingastöðum, hótelum og sem flugbúningar hjá asískum flugfélögum.

Framboð af qipao sniðnum kjólum er mikið hér í Kína en ekki þykja þeir þó allir merkilegir. Sumir eru verksmiðjuframleiddir og aðrir saumaðir meira af vilja en getu. Til að sníða og sauma sanna qipao kjóla þarf handverkskunnáttu sem margir óttast að sé við það að deyja út enda hefur ungt fólk lítinn áhuga á að tileinka sér hana. En þótt skröddurunum fækki má enn eignast vandaða sérsaumaða qipao kjóla í Shanghai og Hong Kong. Verðbilið er gríðarstórt, allt eftir gæðum og orðspori klæðskeranna.

Greina hefur mátt áhrif frá qipao kjólnum í hátísku á síðustu árum. Til dæmis hafa tískuhúsið Gucci og bandaríski hönnuðurinn Ralph Lauren sótt innblástur í kjólinn. Einnig má nefna Shanghai Tang vörumerkið frá Hong Kong sem er brautryðjandi í nútímahönnun undir áhrifum frá hefðbundnum kínverskum sniðum. Í nýrri Shanghai Tang verslun hér í Shanghai er nú hægt að velja silki og láta sérsníða á sig qipao kjól líkt og tíðkaðist fyrir hundrað árum. Kannski má segja má að kjóllinn sé ekki aðeins aftur kominn í tísku, heldur hafi hann líka snúið aftur heim.

runway

Flatskjár handa framliðnum

Í dag heiðra kínverskar fjölskyldur minningu forfeðra sinna á qingming hátíðinni. Kínversku orðin standa fyrir birtu og tærleika en í ensku er hefð fyrir því að kalla daginn Tomb Sweeping Day. Það á vel við því þennan dag heimsækja Kínverjar grafstaði forfeðranna, hreinsa þar til og færa fórnir. Fórnirnar endurspegla tíðarandann hverju sinni og hafa peningaseðlar, iPad, iPhone og flatskjáir verið vinsælar gjafir á síðustu árum, en reyndar er um að ræða eftirlíkingar úr pappír. Og ekki er aðeins líkt eftir nútímatækni því nú hafa komið fram á sjónarsviðið þjónustufyrirtæki sem bjóða upp á staðgengla til að sjá um verkið gegn gjaldi.

kw_14_22

Veglegar fórnarathafnir forfeðrunum til heiðurs eiga sér langa hefð í Kína og segir sagan að gjafir til hinna látnu hafi verið orðnar svo íburðarmiklar og framferðið svo tímafrekt að keisaranum þótti nóg um. Fyrir 2500 árum síðan skipaði hann því svo fyrir að athafnirnar skyldu héðan í frá takmarkast við einn dag á ári. Æ síðan hefur qingming hátíðin verið haldin í heiðri. Miðað við það sem við höfum lesið og heyrt í spjalli við heimamenn fer fjölskyldan venjulega öll saman að grafreitnum. Þegar búið er að snyrta leiðið og leggja á það blóm, gjarnan tryggðarblóm (krýsantema), er komið að því að reiða fram uppáhaldsrétti hins látna. Víni er hellt í bolla og skammtinum í bolla grafarbúans er hellt yfir jarðveginn. Síðan borða gestirnir matinn við leiðið rétt eins og um lautarferð sé að ræða.

Þegar búið er að færa þeim framliðna mat og drykk er komið að því að tryggja góða fjárhagslega afkomu. Margir Kínverjar trúa að lífið eftir dauðann sé svipað lífinu í veruleikanum hverju sinni. Peningafórnir sem brenndar eru við grafreitina endurspegla þessa trú. Þær varpa reyndar líka ágætu ljósi á þann gríðarlega mikla áhuga á peningum sem öðru fremur einkennir Kína nútímans. Pappírsseðlarnir eru ýmist eftirlíkingar af kínversku yuan eða amerískum dollar og munu yfir 1000 tonn af pappír vera brennd í Kína á þessum tímamótum ár hvert. Fram hefur komið að andvirðið megi reikna í þúsundum milljóna þótt peningarnir séu ekki ekta.

En það eru ekki bara eftirlíkingar af peningaseðlum sem fuðra upp yfir kínverskum grafreitum. Eftirlifendur eru einnig mjög kappsamir í að deila nútímatækni með framliðnum ættingjum og pappírseftirlíkingar af tölvum, snjallsímum og spjaldtölvum seljast eins og heitar lummur. Langvinsælastar eru pappírsútgáfur af Apple vörum en flatskjáir og ýmis önnur rafmagnstæki seljast líka vel. Góðærið takmarkast ekki við heimilistæki því pappírsútgáfur af bílum, merkjatöskum, snyrtivörum af ýmsu tagi og jafnvel heilu húsunum mælast vel fyrir. Þá hafa heyrst sögur af hjúskaparvottorðum sem brenna upp í himinhvolfinu og staðfesta samband framliðinna ættingja og landsfrægra súperstjarna.

Grafreitirnir eru í úthverfum borga og bæja og í stórborgum eins og Shanghai skapast mikið umferðaröngþveiti á helstu leiðum. Í fyrra heimsóttu til dæmis 2,42 milljónir manna tvo stærstu grafreitina í borginni þessa hátíðarhelgi. Í slíku óreiðuástandi má gera ráð fyrir að fjölskylduferðin geti tekið á sig misánægjulegar myndir. Margir stórborgarbúar komast heldur ekki frá vinnu og aðrir eiga um langan veg að fara til heimahéraðanna og hafa kannski hvorki fjárráð né tíma til að vitja látinna ættingja. Það er því ekki að ástæðulausu að nú hafa menn séð viðskiptatækifæri í þessari gömlu hefð og bjóða upp á þjónustu þar sem hægt er láta aðra vinna verkin.

Á Taobao, stærstu netverslunarmiðstöð Kína, má finna ýmsa þjónustuaðila sem spara fjölskyldunni ferðalög og fyrirhöfn á qingming hátíðinni. Í nýlegri grein New York Times kemur fram að sé gerð leit á borð við ,,hreinsum fyrir þig leiðið” á Taobao poppi upp tugir fyrirtækja sem bjóða upp á slíka þjónustu í meira en tuttugu borgum í Kína.

Samkvæmt greininni í NYT er boðið upp á staðlaða pakka sem innhalda mat, blóm, hreinsun og fegrun grafreitsins, auk þess sem brenndar eru peningagjafir og reykelsi. Kyrrðarstundin mun taka um hálftíma og kostar á bilinu 100-800 yuan, eða um 1.800-15.000 íslenskar krónur. Viðskiptavinurinn fær sendar ljósmyndir af athöfninni áður en greitt er til að tryggja að ekki séu svik í tafli. Aðrir þjónustuaðilar ganga enn lengra og lofa beinni útsendingu á netinu frá grafstaðnum. Enn aðrir bjóða upp á bænastund gegn aukagreiðslu upp á 1.000-2.000 íslenskar krónur en þá beygir viðkomandi sig fram í bæn og snertir leiðið með enninu. Í annarri auglýsingu þykir rétt að taka fram að sá sem tekur að sé verkið sé ætíð látinn þvo sér vel daginn áður en verkið er unnið. Þá auglýsir þjónustufyrirtæki í höfuðborginni Beijing þjónustu gegn aukagjaldi sem felst í því að senda starfsmenn sem gráta yfir gröfinni á svæðið og telur hana henta vel fyrir Kínverja sem búa erlendis og eiga látna ættingja í Kína. Í grein NYT er talað við frú Zhang sem rekur slíka þjónustu í borginni Tianjin og segir hún að viðskiptin gangi mjög vel. Hún segir að hreinsun grafreita snúist fyrst og fremst um hugsanir og séu látnir ættingjar í huga þínum muni þeir skilja hvers vegna þú kemst ekki á svæðið í eigin persónu. Með því að kaupa þjónustu eins og hennar sértu að segja að þér standi ekki á sama.

Það er hefðbundin trú meðal Kínverja að andar forfeðranna vaki yfir eftirlifandi ættingjum og því er vel skiljanlegt að þeir vilji gera vel við þá látnu. Kannski má segja að hér ríki því ekki bara góðæri í raunheimum heldur líka meðal framliðinna Kínverja.

Qingming hátíðin er haldin ár hvert 15 dögum eftir vorjafndægur, sem að þessu sinni er 5. apríl.

Að hella upp á kínverskt te

Tedrykkja er hluti af menningu Kínverja og hefur verið um langan aldur, en í gegnum tíðina hefur te verið drukkið af mismunandi hópum í ólíkum tilgangi og svo er enn í dag. Te er drukkið ánægjunnar vegna, til að efla fjölskyldu- og vinatengsl, til að sýna ríkidæmi og völd, í virðingarskyni, til heilsubótar og jafnvel til innhverfrar íhugunar. Flestir drekka þó te einfaldlega af því að það er hluti af þeirra menningarheimi.

teakrar3

Tedrykkja hófst í Kína endur fyrir löngu en enginn veit hvernig það gerðist. Eins og gjarnan í Kína eru þó ýmsar þjóðsögur til um upphaf tedrykkju. Margar tengjast þessar sögur keisaranum Shennong, sem á að hafa verið uppi fyrir um 5.000 árum. Samkvæmt þjóðtrúnni er Shennong bæði faðir landbúnaðarins og hefðbundinna kínverskra læknavísinda. Eitt sinn eftir langa göngu á hann að hafa lagst undir tré til að hvíla sig. Þar sem hann var þyrstur kveikti hann undir potti til að sjóða sér vatn. Fyrir tilviljun féllu lauf af nærliggjandi runna ofan í pottinn. Shennong drakk vatnið og þótti það bæði sætt og gott og ákaflega frískandi. Sagan segir að síðan hafi telaufin verið nýtt í Kína, ýmist við trúarathafnir, til lækninga eða þau hreinlega borðuð eins og grænmeti. Te varð vinsæll drykkur á tímum Tang ættarveldisins á árunum 618  til 907 og má segja að vinsældir þess hafi haldist síðan.

Flokkun og vinnsla
Allt te er unnið úr laufum camellia sinensis runnans. Af honum eru til nokkrar undirtegundir og ótal afbrigði, sem ásamt ræktunarstað og umhverfi, týnslu og vinnslu segja til um gæði endanlegrar afurðar.Fyrsta skrefið í vinnslu tes er að týna blöðin og það er ýmist gert með höndunum eða með vélum. Mismunandi blöð eru notuð við gerð ólíkra tetegunda. Bestu blöðin eru efst á runnanum og því fíngerðari og yngri sem þau eru því betri teljast þau. Úr neðri blöðunum er unnið grófara te og þau þá oft möluð í grisjute.

IMG_0099

Te er hægt að flokka á mismunandi hátt en algengast er að flokkað sé eftir vinnsluaðferðum. Rétt er að geta þess að þó að orðið gerjun (ferment) komi fyrir í þessari flokkun þá eru það einungis tein í post-fermented flokknum sem raunverulega gerjast, ferlið í hinum flokkunum er réttara að kalla oxun.

Te sem ekki er látið oxast (non fermented)
Undir þennan flokk fellur grænt te, hvítt te og gult te (sjaldgæft). Laufin eru týnd, þurrkuð og þeim pakkað. Þurrkunin getur verið mismunandi, til dæmis bökun eða hitun á wok pönnu, og mismunandi aðferðir gefa ólíkt bragð. Grænt te er vinsælasta teið í Kína og er til dæmis ræktað í Hangzhou þaðan sem hið fræga Longjing te er ættað.

Svart te – oxað te (fermented)
Í þessum flokki er svart te sem raunar kallast rautt te í Kína, enda er drykkurinn rauður á litinn. Laufin eru geymd í hita og raka í nokkrar klukkustundir og við það verða þau svört. Þau eru svo þurrkuð á mismunandi hátt sem hefur áhrif á bragðið. Langmest af því tei sem drukkið er í hinum vestræna heimi er svart te.

Oolong te – hálfoxað te (semi fermented)
Oolong te á rætur að rekja til Fujian héraðs en eru nú ræktuð víðar í suðurhluta Kína og í Taiwan. Vinnsluaðferðin er sú sama og þegar svart te er unnið en oxunartíminn er styttri og honum er stjórnað nákvæmlega til að fá rétta oxun og þar með rétt útlit og bragð.

Pu’er te – gerjað te (post fermented)
Pu’er te eru ræktað í Yunnan héraði og eftir vinnslu er það pressuð í ákveðan lögun, oft hringlaga kökur, og látið geymast í köldum kjöllurum, stundum í mörg ár. Bragðið verður mildara og flóknara með árunum en pu’er te geymist mjög lengi. Líkt og vín verður það verðmætara með aldrinum.

Bragðbætt og breytt te
Sumum gerðum af tei er breytt í vinnsluferlinu eða í lok vinnsluferilsins til þess að ná fram ákveðnu útliti eða bragði. Bragði er ýmist breytt með náttúrulegum efnum eða gerviefnum. Jasmínute er gott dæmi um þetta því stundum eru jasmínublómin lögð ofan á telaufin í vinnslunni til þess að fá rétta bragðið en stundum er notast við gervibragðefni. Líklega falla flest te í þennan flokk og gæðin eru afar mismunandi.

Hér má sjá skemmtilega framsetningu á því hvernig kínverskt te er framleitt.

Stundum eru drykkir kallaðir te þó alls ekki sé um te að ræða og það getur til dæmis átt við um sum svokölluð ávaxtate. Ef telauf eru ekki notuð við framleiðsluna þá flokkast drykkurinn ekki sem te.

Hellt upp á te af mikilli leikni
Te er mjög misjafn að gæðum. Best er að búa til te með því að nota telaufin beint út í vatn en laufin eru einnig ólík að gæðum og verðlögð eftir því. Hér í Kína er hægt að kaupa þau í mismunandi gæðaflokkum. Gæði vatnsins skiptir líka miklu máli en þar eru Íslendingar vel settir.

Gongfu cha á kínversku þýðir hellt upp á te af mikilli leikni. Með þessari aðferð fæst besta bragðið og bestu mögulegu áhrif. Hér þarf að hafa ákveðin tæki og tól við hendina. Fyrst þarf teketil (gott ef hægt er að stjórna hitanum), tekönnu með loki (teapot), aðra tekönnu án loks til að hella í glösin (kallast chahai á kínversku), tesigti, kínverska bambusskeið eða venjulega teskeið, tangir til að meðhöndla bollana, tebolla (litla) og undirlag sem má sulla á eins og tebakka eða teborð.

IMG_0073

Áður en byrjað er að hella upp á þarf að vita hversu mikið magn af tei og vatni á að nota. Einnig þarf að vita hversu heitt vatnið á að vera og hversu langan tíma hver uppáhelling á að standa. Þetta er allt mismunandi eftir tegundum af tei. Ef vatnið er ekki nógu heitt næst ekki fram góða sæta bragðið sem á vera af svörtu tei en of heitt vatn getur eyðilagt viðkvæmt grænt te og svo framvegis. Songfang tehúsið hér í Shanghai er með góðar upplýsingar um allt þetta í töflu á sinni heimasíðu. Athugið að sama þyngd af mismunandi tei getur verið mismargar matskeiðar þar sem telaufin eru misjafnlega stór.

Svona á að hella upp á te samkvæmt gongfu aðferðinni:

1. Forhitun og hreinsun
Sjóddu vatn í tekatlinum. Helltu sjóðandi vatni í tekönnuna (gott að hella aðeins útfyrir á könnuna), lokaðu henni og helltu á lokið líka og hinkraðu í smá stund. Helltu svo úr tekönnunni í gegnum sigtið í hina könnuna og úr henni í bollana. Leyfðu vatninu að vera í bollunum. Þetta er gert til þess að hreinsa og hita. Mikil hitabreyting eftir að telaufin eru komin í könnuna geta haft áhrif á bragð og þessi forhitun kemur í veg fyrir það.

2. Telauf hreinsuð og vakin
Settu rétt magn (sjá töflu) af telaufum með skeið í tekönnuna, settu þau í hrúgu. Helltu nú vatni í réttu hitastigi (sjá töflu) yfir laufin og láttu flæða yfir þangað til að loftbólurnar hverfa (líka hægt að skafa þær af með lokinu). Ekki hella beint í miðjuna heldur nær brúnunum. Nú þarf að hafa snögg handtök, setja lokið á tekönnuna og hella vatninu í gegnum sigtið í hina könnuna til að hita hana aftur. Þegar hellt er upp á pu’er te þá má vatnið bíða örlítið lengur áður en því er hellt af því það te þarf að hreinsa betur og jafnvel tvisvar. Þegar búið er að hella vatninu í hina könnuna er lokinu tyllt á svo að gufan komist út og sjóði ekki telaufin.

3. Fyrsta uppáhelling
Helltu nú aftur vatni í réttu hitastigi í tekönnuna. Alltaf skal hella í hringi nálægt börmunum. Fylltu könnuna, settu lokið á og leyfðu teinu að standa í þann tíma sem tilgreindur er miðað við það te sem þú ert að nota (sjá töflu, gott að telja eða nota klukku). Á meðan beðið er tilvalið að nota töngina til að tæma vatnið úr tebollunum og hella úr hinni könnunni. Helltu svo teinu úr tekönnunni í hina könnuna og úr henni í bollana. Þessi aukakanna er ekki nauðsynleg en auðveldar hlutina fyrir byrjendur auk þess sem teið verður jafnara. Ef hún er ekki notuð má hella teinu í smá skömmtum í tebollana til skiptis svo það jafnist út. Sterkasta teið er neðst. Drekka skal te meðan það er heitt og í Kína er það drukkið án mjólkur og sykurs.

4. Fleiri uppáhellingar
Helltu aftur upp á teið líkt og í fyrstu uppáhellingu, bætið lítillega við tímann í hvert skipti (sjá töflu). Það fer eftir því hvaða te er verið að nota hversu margar uppáhellingar það þolir (sjá töflu).

5. Frágangur
Fjarlægðu laufin, hreinsaðu og þurrkaðu tekönnuna og önnur áhöld. Ef ekki er búið að nýta telaufin að fullu má geyma þau í tekönnunni (án vatns) í allt að tólf tíma. Athugaðu að fyrsta uppáhelling eftir slíka geymslu gæti tekið skemmri tíma en vanalega.

Hér að neðan er upptaka af því hvernig ung kona í einum af aðal temörkuðum Shanghai hellir upp á te. Þegar myndskeiðið hefst er búið að forhita og hreinsa. Háu tebollarnir eru til notaðir til að lykta af teinu.

Eins og við sögðum frá í upphafi drekkur fólk te hér í Kína af mismunandi ástæðum og tilefni, og tedrykkja er mjög sýnileg. Temenning hefur ekki verið sterk á Íslandi en tedrykkja til heilsubótar virðist vera að aukast. Á næstunni munum við fjalla sérstaklega um tengsl tedrykkju og heilsu hér á blogginu.

Lykill að kínversku: Pinyin

Hvort heitir höfuðborgin í Kína Peking eða Beijing? Og hvers vegna er stundum skrifað Mao Tse-tung en annars staðar Mao Zedong? Er rétt að skrifa Sjanghæ eða heitir borgin einfaldlega Shanghai? Ekki er ólíklegt að þeir sem fylgjast með málum í Kína velti slíkum spurningum einhverntíma fyrir sér.

Kínverskum nöfnum er stundum fundinn íslenskur ritháttur í þeirri trú að annars sé verið að apa upp eftir ensku. Algengt er að sjá skrifað Sjanghæ eða Sjanghaí og í íslensku er nokkur hefð er fyrir því að skrifa nafn Mao með ó. Nöfn nokkurra kínverskra borga, eins og til dæmis Peking og Kanton, hafa fest sig í sessi í íslensku. Rithátturinn er þó ekki í samræmi við þann sem nú er notaður í Kína, sem myndi vera Beijing og Guangzhou.

Það er nefnilega engin tilviljun hvernig kínverska er skrifuð með latnesku letri og byggir það á kerfi sem kallast Hànyǔ pīnyīn, eða einfaldlega pinyin. Kerfið er notað við lestrarkennslu í kínverskum barnaskólum og flestir Kínverjar nota pinyin til að skrifa á tölvur og senda textaskilaboð í síma. Pinyin er einnig notað til að stafa kínversk nöfn í erlendum útgáfum og kærkomið hjálpartæki fyrir útlendinga sem eru að læra kínversku.

Að lesa tákn

Í kínversku hefur hvert orð sitt eigið tákn sem segir þó ekki til um hvernig á að segja orðið. Kínversk tákn fela sem sé ekki í sér hljóðmyndir sem þýðir að ekki er hægt að vita hvernig orð hljómar með því að horfa á hvernig það er skrifað. Þetta skapar erfiðleika því þegar fólk þekkir ekki erfið tákn hefur það einfaldlega ekki hugmynd um merkinguna. Pinyin breytir þessu og gerir fólki kleift að stafa sig fram úr kínversku með því að nota latneska bókstafi. Á þann hátt er hægt að lesa hvernig á að segja orðið líkt og við erum vön að gera í íslensku og skyldum tungumálum.

Áður en pinyin kerfið kom til sögunnar höfðu verið gerðar ýmsar tilraunir til að gera kínversk tákn læsileg, margar þeirra af vestrænum mönnum. Útgáfa portúgalsk-kínverskrar orðabókar frá 16. öld er oft nefnd í þessu samhengi sem og þýðingar sem eiga rætur að rekja til erlendra kristniboða í Kína. Það var þó ekki fyrr með aðferðum pinyin sem tókst að breiða út almenna lestrarþekkingu í Kína og raunar voru það kommúnistar sem lyftu þessu grettistaki í byrjun valdatímans.

Höfundur pinyin kerfisins heitir Zhou Youguang. Uppfinning hans olli byltingu í lestrarkunnáttu kínversku þjóðarinnar, gerði mandarín kínversku að þjóðtungu í Kína og hefur á síðustu árum sannað gildi sitt enn frekar sem mikilvægt hjálpartæki á tölvuöld. Þótt ótrúlegt sé er Zhou, sem er fæddur árið 1906, enn til frásagnar um hvernig pinyin kerfið kom til sögunnar og hefur á undanförnum árum verið óhræddur við að tjá sig frjálslega um menn og málefni, oft í óþökk kommúnistastjórnarinnar.

Faðir Pinyin

Zhou_Youguang_1920sZhou Youguang er oft nefndur faðir pinyin hér í Kína. Sjálfur hefur hann sagt að hann líti miklu fremur á sig sem son pinyin. Hann hafi einfaldlega byggt ofan á þekkingu sem þegar var til staðar en strax sem ungur maður varð hann mjög áhugasamur um tilraunir annarra til að gera kínversk tákn læsileg. Áhugamálið mótaði þó ekki feril hans í fyrstu því hann lagði stund á nám í hagfræði og fluttist síðan til Bandaríkjanna þar sem hann starfaði við kínverskan banka í New York. Eins og svo margir ungir Kínverjar sem höfðu hlotið góða menntun og reynslu erlendis sneri hann vongóður til heimalandsins eftir valdatöku kommúnista. Unga fólkið vildi leggja sitt af mörkum við uppbyggingu hins nýja Kína og grunaði á þeim tíma ekki hvað biði þess undir ógnarstjórn Mao formanns.

Fljótlega eftir heimkomuna frá Ameríku upp úr 1950 komst Zhou að því að lítil eftirspurn var eftir hagfræðiþekkingu hjá hinum nýju stjórnvöldum í Kína. Hann hefur sagt að líklega hafi það orðið honum til lífs því margir félagar hans sem reyndu að hafa áhrif með fræðiþekkingu sinni týndu fljótt lífi eða voru færðir í fangabúðir. Yfirvöld höfðu aftur á móti mikinn áhuga á að stuðla að sameiginlegri þjóðtungu allra Kínverja. Fjölmörg ólík tungumál og mállýskur eru til í Kína og á þessum tíma var engin ein tunga sem öll þjóðin skildi. Eitt af því sem ákveðið var að gera til að styrkja mandarín kínversku í sessi var að einfalda táknmálið og finna upp einhverskonar hljóðstafróf. Vegna gamalla kynna Zhou Youguangs við Zhou Enlai, helsta samstarfsmanns Mao formanns, vissu ráðamenn af áhuga og þekkingu Zhou Youguangs á tungumálafræðum. Hann var því beðinn um að taka að sér formennsku í nefnd sem var ætlað að efla tungumálakunnáttuna í landinu með því að finna upp heppilega hljóðskrift.

Pinyin kerfið var fullskapað árið 1958 og stuðlaði strax að miklum breytingum á lestrarkunnáttu kínversku þjóðarinnar. Áður en pinyin kom til sögunnar er talið að um 80% almennings í Kína hafi verið ólæs. Átak kommúnistastjórnarinnar í menntamálum, einföldun táknskriftarinnar og innleiðing pinyin eru talin hafa leitt til þess að ólæsi fór á nokkrum áratugum niður í 10%. Ekki eru þó allir sammála um áreiðanleika tölfræðinnar.

Maður með skoðanir

Afrek Zhou Youguang og félaga sem sköpuðu pinyin er óumdeilt sem þýðir þó ekki að Zhou hafi verið hampað sem hetju í gengum tíðina. Þótt hann slyppi við fyrstu hreinsanir kommúnistastjórnarinnar var hann eins og flestir menntamenn sendur í sveitina í menningarbyltingunni. Á síðustu árum hefur kínverskum yfirvöldum þótt Zhou Youguang til nokkurra vandræða því hann hefur verið duglegur að koma hugleiðingum sínum á prent. Eftir aldarafmælið árið 2006 hefur hann gefið út tíu bækur þar sem hann hefur meðal annars talað fyrir auknu lýðræði í Kína og hafa sum rit hans verið bönnuð. Hvað sem því líður hélt kínverska ríkissjónvarpið upp á fimmtíu ára afmæli pinyin árið 2008 með því að gera þátt um Zhou, þá 102 ára að aldri.

Nokkur viðtöl við Zhou Youguang hafa einnig birst í vestrænum fjölmiðlum á síðustu árum, m.a. í Guardian og New York Times. Þar liggur Zhou ekki á skoðunum sínum og hefur meðal annars sagt að kínverska þjóðin trúi ekki lengur á kommúnistaflokkinn og að hann telji að flestir menntamenn í Kína séu talsmenn lýðræðis. Gamli hagfræðingurinn er heldur ekki sannfærður um kínverska efnahagsundrið, segir að þar sé ekkert kraftaverk á ferðinni og hefur því til stuðnings bent á að þjóðarframleiðsla á íbúa sé til að mynda aðeins einn tíundi af því sem er í Tawain. Zhou hefur líka sagt að uppgangurinn hafi kostað of miklar fórnir, laun séu lág og náttúran stórskemmd. Og eftir að hafa fylgst með þróun mála í Kína í meira en öld er það hans skoðun að Kína sé nú menningarleg eyðimörk. Hann gagnrýnir kommúnistaflokkinn fyrir hversu hart var ráðist gegn kínverskri menningu eftir valdatökuna 1949 og að ekkert hafi fyllt skarðið nema tómarúm. Zhou gefur líka lítið fyrir stuðning almennings við flokkinn enda sé ekkert hægt að segja til um hann í dag því fólk hafi ekki frelsi til að tjá sig. Það þarf því ekki að vekja furðu þegar hann segir frá því að hann hafi eitt sinn á síðustu stundu verið afboðaður í opinbera móttöku allra æðstu yfirvalda í Peking. Ástæðan var sögð slæmt veður.

Zhou Youguang varð 108 ára gamall í janúar á þessu ári og er samkvæmt nýjustu heimildum enn í fullu fjöri. Hann skrifar mikið og heldur meðal annars úti bloggsíðu: http://blog.sina.com.cn/zhouyouguang. Hans helsti aðstoðarmaður er 79 ára gamall sonur hans sem hefur sagt frá því að bloggsíðan sé ritskoðuð og öll ummæli sem styðja bloggið hverfi þaðan jafnharðan. Neikvæðar athugasemdir fái aftur á móti alltaf að standa.

hanyu-pinyin-master

Pinyin og kínverskunám

Pinyin kerfið hjálpar ekki aðeins útlendingum að læra kínversku heldur líka kínverskum börnum að læra að lesa og skrifa í fyrstu bekkjum grunnskólans. Þeir sem alast upp við að tala mállýskur nota pinyin til að læra hvernig á að bera fram orð á staðlaðri kínversku, þ.e. mandarín kínversku eða putonghua eins og hún er kölluð hér í alþýðulýðveldinu og mætti þýða sem tungumál alþýðunnar.

Tilgangurinn með pinyin hefur aldrei verið að koma í staðinn fyrir kínversku táknskriftina heldur var markmiðið að auðvelda fólki að læra að lesa. Eins og Zhou Youguang hefur bent á eiga táknin sér djúpar rætur í árþúsunda sögu Kína og hann hefur spáð því að Kínverjar muni nota táknin í það minnsta 500 ár enn. Zhou hefur jafnframt sagt að hann telji ekki að mandarín kínverska muni senn taka við af ensku sem heimstungumál, til þess hafi enska að hans mati of mikið forskot.

Þeir eru þó ófáir útlendingarnir sem vilja læra kínversku í dag og hugsa þá gjarnan til framtíðar. Rithöfundurinn Adeline Yen Mah er ein þeirra sem vakið hafa máls á mikilvægi pinyin við kínverskukennslu. Hún hefur staðið að þróun tölvuleiks þar sem hægt er að æfa sig í kínversku með hjálp pinyin. Appið, PinYinPal, fæst frítt á iTunes fyrir iPad og tölvur.

Adeline Yen Mah er fædd á meginlandi Kína en flutti þaðan ellefu ára gömul, nam læknisfræði í Englandi en hefur lengst af starfað við ritstörf þar og í Bandaríkjunum. Kínversk saga og menning, kínverska tungumálið og bætt samskipti milli austurs og vesturs eiga hug hennar allan. Hún hefur skrifað fjölmargar bækur um málefnið, bæði fyrir börn og fullorðna, og staðið að ýmsum verkefnum sem hafa það að markmiði að efla tengsl og skiling milli þessara ólíku heimshluta. Áhugi Adeline á pinyin kerfinu varð til þess að hún heimsótti hinn 108 ára gamla Zhou Youguang til Peking fyrr á þessu ári. Hún birti í kjölfarið stutt myndskeið um heimsóknina á Youtube. Hún heimsótti einnig bókabúðir í borginni og vekur máls á því að pinyin sé of lítið notað í kínverskum kennslubókum. Adeline er þeirra skoðunar að nauðsynlegt sé að efla kínverskukennslu með því að nota til jafns tákn, pinyin og ensku. Aukinn tungumálaskilningur muni á endanum efla samkennd milli ólíkra heimshluta og sameina heimsbyggðina eins og hún kemst sjálf að orði.

Þótt Zhou Youguang sé sannfærður um að kínversku táknin verði við lýði lengi enn er ljóst að pinyin er mikilvæg viðbót við kínverskunám, bæði hér í Kína og erlendis. Sú staðreynd að nær óhugsandi er að nota nútímatækni eins og tölvur og snjallsíma án pinyin gæti bent til þess að gamla kínverska ritmálið muni eiga undir högg að sækja er fram líða stundir. Þó má allt eins vera að eitthvað algjörlega nýtt komi til sögunnar með framtíðartækni. En ennþá er pinyin besta tækið sem við útlendingarnir höfum til að skilja kínversk orð. Í því samhengi er mikilvægt að samræma rithátt kínverskra orða í íslensku samkvæmt því sem er opinberlega viðurkennt hér í Kína og aðrar þjóðir styðjast við. Annars gæti orðið óþarflega snúið fyrir Íslendinga að finna réttu leitarorðin í upplýsingaleit um Kína á netinu og víðar.

Vindur, vatn og Feng Shui

Feng er vindurinn og shui er vatnið. Saman ná þessi tvö kínversku orð yfir sambland af fornum vísindum og þjóðtrú þar sem tengsl mannsins við náttúruna og alheimsöflin eru í forgrunni. Feng shui snýst um orkuna sem umlykur okkur og hvernig má beina henni í réttan farveg svo henni fylgi hagsæld. Leiðbeiningarnar geta verið almenns eðlis eða sniðnar að þörfum hvers og eins í samráði við feng shui meistara.

Í þessum pistli ætlum við hvorki að gefa feng shui ráð né skýra að fullu kenningar feng shui heldur reyna að varpa ljósi á uppruna þessara fornu kínversku fræða. Við munum fjalla lítillega um þátt þeirra í kínverskri sögu, fara yfir nokkur grundvallarhugtök og hugmyndir og beina sjónum að stöðu feng shui í Kína nútímans.

Feng shui fjallar um heillavænlega dvalarstaði og hagkvæmt fyrirkomulag í umhverfi manna. Þetta getur átt við um staðsetningar bygginga í landslagi, hönnun rýma eða einfaldlega hvernig best er að koma hlutunum fyrir í sínu nánasta umhverfi. Á heimilum eru aðferðir feng shui notaðar til að stuðla að hamingjusamara fjölskyldulífi og það er bjargföst trú margra að gott feng shui geti hafi áhrif í viðskiptum.

Aðferðafræði og rök feng shui fræðanna gætu á köflum virðst nokkuð dularfull en flestir geta líklega fallist á að niðurstöðurnar eru oft nokkuð rökréttar. Þannig ráðlögðu feng shui meistarar fortíðarinnar smíði hárra dyraþröskulda í híbýlum til að hindra að slóttugir drekar næðu að slæðast þar inn og flytja með sér vonda orku. Í raun eru slíkir þröskuldar skynsamleg vörn gegn regnvatni. Einföld ráð eins og að forðast að hafa sorptunnur mjög nálægt aðalinngangi húsa heyrast oft í tengslum við feng shui nútímans. Sorpið kemur í veg fyrir gott orkuflæði inn á heimilið enda er það dæmi um hnignandi orku.

cheungkongtowerÞeir sem heimsækja gamlar kínverskar byggingar og söfn heyra oft talað um að hitt og þetta sé dæmi um feng shui. Dæmin tala sínu máli um fortíðina en skilningur á feng shui er þó ekki almennur hér í Alþýðulýðveldinu Kína. Þessi forna kínverska hugmyndafræði lifir aftur aftur á móti góðu lífi víða annarsstaðar í heiminum, ekki síst meðal efnaðra Kínverja sem telja ekki eftir sér að eyða miklum fjármunum í feng shui lausnir. Til eru dæmi frá Hong Kong þar sem heilu háhýsin hafa verið endurgerð með miklum tilkostnaði til þess eins að uppfylla kröfur um betra feng shui. Það vakti til að mynda athygli þegar gerður var nýr inngangur á Cheung Kong skrifstofuturninn fyrir nokkrum árum en þá höfðu forsendur fyrir hagstæðu viðskipta feng shui breyst í samræmi við hringrás kínverska dagatalsins. Þetta kann að hljóma sem fullmikið af því góða en í raun er skrifstofubyggingin ein sú eftirsóttasta í Hong Kong og þykir mikið lán að fá að stunda þar viðskipti. Ekki skemmir fyrir að eigandinn, Li Ka-Shing, hefur sjálfur notið mikillar velgengni í viðskiptalífinu og er samkvæmt nýjustu heimildum ríkasti maður Asíu.

Á Vesturlöndum vaknaði forvitni margra um feng shui í tengslum við svokallaða nýöld. Almennur áhugi er nú meiri en áður enda fellur hugmyndafræðin ágætlega að leit margra vestrænna manna að jafnvægi í lífi og starfi.

Fornar rætur Feng Shui

Segja má að rætur feng shui nái þúsundir ára aftur í tímann. Ljóst er að menn hafa alltaf gefið því góðan gaum hvar best er að búa sér dvalarstað; í skjóli frá vondum veðrum, fjarri hættulegum dýrategundum og þar sem auðvelt er að finna fæðu. Talið er að þessi vitund mannanna hafi smá saman mótað grunn að þekkingu um eðli náttúruaflanna og skilað sér í því að menn fóru að velja sér hagkvæmustu staðina til búsetu. Með tímanum mótuðu menn sér einnig skoðanir á áhrifum himintunglanna, uppgötvuðu höfuðáttirnar og smíðuðu kenningar um hin ósýnilegu öfl sem hafa áhrif á velferð manna. Margar slíkar athuganir og uppfinningar má rekja til Kína til forna enda er saga landsins lengsta samfellda saga einnar þjóðar í heiminum og nær þúsundir ára aftur í tímann.

Í kínverskri heimild frá því 250 árum fyrir Kristsburð hafa fundist ráðleggingar um val á hagkvæmum dvalarstað þar sem vindur og vatn koma mikið við sögu. Þar segir að stöðva megi slæma orku, annarsvegar með vindinum sem tvístri henni, hinsvegar með vatninu sem stöðvi hana. Lögð er áhersla á að menn skýli dvalarstað sínum fyrir vindi og að vatn sé mikilvægt til að geyma orku. Það er semsagt í þessari gömlu heimild sem í fyrsta sinn kemur fram að vindurinn og vatnið séu grundvallarþættir við að stýra orku og þaðan dregur hugmyndafræðin um feng shui nafn sitt.

palace

Í þjónustu keisarans í Kína

Feng shui varð vinsælt í Kína á tímum Han ættarveldisins á árunum 206 f. Kr – 220 e.Kr. og var uppfrá því ávallt notað þegar kom að því að ákvarða byggingar- og greftrarstaði fyrir keisarann. Ákvörðun um grafarstað var ekki síst mikilvæg enda er það stór þáttur í kínverskri hugsun að örlög þeirra sem eftir lifa mótist af því hvernig málum er háttað hjá framliðnum ættingjum.

Upp frá þessu höfðu keisaraættirnar ætíð feng shui meistara í sinni þjónustu. Með tíð og tíma komu fram nýjar hugmyndir og þekking innan hirðarinnar sem saman mynda þá hugmyndafræði sem við þekkjum í dag sem feng shui.

Hugtök og stefnur í Feng Shui

Í mjög stuttu máli snýst feng shui um að beina orku á rétta staði og finna lausnir til að koma hlutunum í jafnvægi. Til þess er notast við ýmis hugtök og hugmyndir og munum við fara yfir nokkur af þeim helstu hér á eftir. Einnig verður fjallað um þrjá helstu skóla eða stefnur feng shui; formskólann, hin átta höfuðsetur og hinar níu fljúgandi stjörnur.

En byrjum á nokkrum grundvallarhugtökum:

Qi (chi)

symbol-for-qiLykilatriði í feng shui er heildarhugmyndin um qi en orðið lýsir orkunni sem gerir tilvist okkar mögulega. Qi er allt um kring, í okkur sjálfum og náttúrunni. Samkvæmt því búa allar mannverur yfir sínu eigin innra qi, en það er sú orka sem unnið er með í hefðbundinni kínverskri læknisfræði. Feng shui fjallar um hið ytra qi, utanaðkomandi orkuna sem hefur áhrif á okkur mennina.

Orkan sem knýr alheiminn er kölluð sheng chi á kínversku en orðin lýsa því hvernig andardráttur tilverunnar kemur úr gini drekans. Andstæðan er shar chi en þar notar tungumálið eitraðar örvar til að lýsa hinni deyðandi orku. Aðferðir feng shui miða að því að stöðva neikvæðu orkuna og laða til sín þá góðu.

Frumefnin fimm

elementsEldur, jörð, málmur, vatn og viður eru þau fimm efni sem kenningin um frumefnin byggir á. Talið er að hugmyndirnar hafi komið fram 500 f. Kr. og vega þær þungt í feng shui eins og öðrum fornum kínverskum fræðum, svo sem nálastungum og stjörnuspeki. Óhætt er að segja að í kínverskri hugmyndafræði tilheyri allir hlutir tilverunnar einhverju af þessum fimm grunnelementum.

Innbyrðis samband frumefnanna og áhrif þeirra á hvert annað eru mikilvæg í feng shui. Efnin geta haft eyðileggjandi áhrif á hvert annað, byggt hvert annað upp eða dregið úr áhrifum hvers annars. Þegar gerðar eru feng shui greiningar snúast lausnirnar meðal annars um að virkja krafta frumefnanna með ýmsu móti, til dæmis með formum og litum.

Yin og yang

YinYang

Hugtökin yin og yang eru grundvallaratriði í feng shui og notuð til að skilgreina orku á ákveðnum svæðum. Sé svæði of yin þykir það óhagstætt vegna þess að ekki er til staðar nægileg orka sem skapar hagsæld. Of yang felur í sér eyðileggjandi áhrif vegna þess að þar er of mikið af orku sem getur valdið slysum og tjóni.

Taiji merkið, sem flestir þekkja betur sem yin og yang, byggir á hugmyndum sem hinn kínverski Fu Xi (Fu Hsi) setti fram fjögur þúsund árum fyrir fæðingu Krists og fjalla um hið fullkomna jafnvægi alheimsins og þar með allra hluta. Þótt yin og yang séu andstæð öfl sýnir flæðandi bogadregin línan sem skilur á milli að öflin tvö eru háð hvort öðru. Stundum er því talað um yin og yang sem einingu andstæðna.

Dæmi um yin eru kvenleikinn, tunglið, næturmyrkrið og kuldinn. Karlkynið, sólin, dagsbirtan og hitinn eru dæmi um yang.

Luo Pan áttavitinn 

Áttavitinn var fundinn upp í Kína 2700 f.Kr. og skipar hann stóran sess í feng shui mælingum. Í flóknara kenningum feng shui er notaður áttaviti sem er umkringdur myndmáli og heitir hann þá luo pan. Táknar luo netið sem umkringir allt en pan þýðir diskur. Nafnið vísar til sambands himins og jarðar og segulorkunnar sem heldur alheiminum saman.

Fyrir miðju luo pan áttavitans er hefðbundinn áttaviti nákvæmlega eins og við þekkjum hann. Táknmálið á skífunni í kring hefur þróast á löngum tíma og felur í sér margvíslegar upplýsingar. Það krefst mikillar þjálfunar að lesa af slíkum áttavita en tölurnar og táknin gera sérfræðingum í feng shui kleift að gera sínar athuganir og finna lausnir í samræmi við feng shui skóla hinna fljúgandi stjarna.

DSC_1166

Eins og áður sagði eru til mismunandi skólar eða stefnur innan feng shui. Hér verður farið yfir þær þrjár helstu:

Formskólinn – San He

Fyrst er að nefna San He skólann, eða formskólann, sem nær yfir klassískar kenningar feng shui. Stundum er  líka talað um landslagsskólann því landslagið er undirstaðan í hugmyndunum.

Fornar reglur formskólans gera ráð fyrir að hús hvíli þannig í landslaginu að fyrir aftan fái húsið stuðning af fjöllum, fyrir framan sé víðátta í suðurátt og til beggja hliða skýli lægri hæðir eða hólar húsinu fyrir veðrum og vindum. Það má líka sjá þessi áhrif fyrir sér með því að ímynda sér mannveru sem situr í stól með baki og örmum og tyllir fótunum á koll fyrir framan sig. Í feng shui eru slíkar kjöraðstæður dregnar upp á táknrænan hátt þar sem fjórar goðsagnarkenndar dýrategundir túlka áttirnar fjórar; svört skjaldbaka, grænn dreki, hvítur tígur og rauður fönix.

Skoðum þetta betur og setjum í samhengi við nútímahíbýli:

screen-shot-2013-11-23-at-10-43-21-am1-e1385189455117

Fönix: Framhliðin á heimili þínu, skrifstofunni eða jafnvel herberginu sem þú dvelur í er tengd fönix. Fönix táknar suðrið og ef allt væri fullkomið myndi renna lækur fyrir framan húsið hjá þér. En ekki snúa öll hús mót suðri, hvað þá að lækur fljóti framhjá. Það kemur þó ekki í veg fyrir að laða megi góða orku að híbýlunum og halda frá þeirri slæmu. Umferðarstraumur getur komið í staðinn fyrir flæðandi vatn og hringlaga blómabeð og lágir runnar eru dæmi um fönix feng shui lausnir.

Dreki: Tengist vinstri og austrinu (miðað við sýn frá inngangi). Drekinn þinn getur verið nærliggjandi bygging, hús nágrannans eða tré. Ef ekkert í umhverfinu skapar skjól er feng shui ráð að planta tré eða smíða meðalhátt grindverk.

Skaldbaka: Tengist bakhlið húsa og norðrinu. Fjall eða hæð aftan við húsið myndi skapa gott feng shui en í þéttbýli skapa nálægar byggingar líka gott bakland. Ef þær eru ekki til staðar er ráðlegt að koma einhverju fyrir í staðinn svo sem hárri girðingu eða  röð af trjám.

Tígrisdýr: Tengist hægri og vestrinu (miðað við sýn frá inngangi). Hér gildir það sama og um drekann, tígrísdýrið getur verið bygging, tré eða runnar. Ef tígurhliðin er hærri en drekahliðin skapar það góðan stuðning við konuna á heimilinu (yin), ef drekahliðin er hærri er það húsbóndanum í hag (yang).

Þetta eru aðeins lítið dæmi um hvernig unnið er með kenningar formskólans en meginhugmyndin er alltaf sú að umhverfið hefur áhrif á hvernig okkur mönnunum farnast í lífinu og feng shui leitast við að bæta það. Einhverjir kunna að furða sig á þessu tali um dreka og tígrísdýr en hafa ber í huga að rætur formskólans eru taldar liggja 6000 ár aftur í tímann.

Hin átta höfuðsetur – Ba Zhai (Bagua)

Hugmyndir Bai Zhai (Bagua) skólans byggja á áttavitanum og megináttum hans sem eru átta. Með því að reikna út svokallaða kua tölu er fólki skipt upp í átta hópa. Hóparnir skiptast síðan í tvo flokka, austur og vestur. Með kua tölunni má finna út hvaða áttir eru hagstæðar hverjum og einum. Byggingar tilheyra líka annaðhvort austur- eða vesturhópi en það ákvarðast af staðsetningu þeirra í landslaginu.

Þótt formskólinn gefi ágætis hugmynd um jafnvægi milli manns og umhverfis verða feng shui ráðleggingarnar persónulegri með kua tölunni. Hún er fundin út með því að gera svokallaðan ming gua útreikning og byggir hann á fæðingarári viðkomandi. Eins og svo oft gefa kínversku orðin vísbendingu um hvað er að ræða; ming þýðir líf og gua þýðir mynstur. Það má því segja að útkoman, svokölluð kua tala, tákni lífsleið einstaklingsins.

Mikilvægt er að hafa í huga þegar kua talan er reiknuð út að fæðingarár miðast við kínverska tungldagatalið. Þá eru áramót ekki fyrr en í janúar/febrúar, sjá upplýsingar hér. Þá er fæðingarár þess sem er fæddur 9. janúar 1969 til dæmis 1968.

Fyrir karla:

  • þú tekur tölurnar fjórar í fæðingarárinu þínu og leggur þær saman (t.d. 1970)
  • 1 + 9 + 7 + 0 = 17
  • og heldur áfram þar til þú færð út eins stafs tölu: 1 + 7 = 8
  • dragðu útkomuna frá tölunni 11: 11 – 8 = 3
  • útkoman er Kua talan þín (í dæminu er hún 3)
  • ef þú hefur fengið útkomuna 5, þá er 2 Kua talan þín

Fyrir konur:

  • þú tekur tölurnar fjórar í fæðingarártalinu þínu og leggur þær saman:
  • 2 + 0 + 0 + 3 = 5
  • legðu þessa tölu við töluna 4 (5 + 4 = 9)
  • útkoman er Kua talan þín (í dæminu er hún 9)
  • ef þú hefur fengið töluna 5, þá er 8 Kua talan þín

Talan sem þú hefur nú reiknað út hjálpar þér við að finna þær áttir og svæði sem henta þér best.

Kua tölurnar 1, 3, 4 og 9 mynda Austurhóp. Farsælar áttir eru: A, SA, N, S.

Kua tölurnar  2, 6, 7 og 8 mynda Vesturhóp. Farsælar áttir eru:  V, SV, NV, NA.

Taflan sýnir síðan nánar hvaða áttir henta þinni kua tölu og fyrir hvað áttirnar standa:

tafla

Þessa vitneskju má nýta sér á ýmsan hátt. Til dæmis er gott að dyrnar að heimili þínu snúi í átt sem er þér hagstæð. Gott er að vinna við borð sem snýr í eina af áttunum þínum og að sofa í herbergi sem snýr í rétta átt í húsinu. Ekki er verra að snúa höfðinu líka í rétta átt á meðan þú sefur. Í raun á þetta við um allar athafnir, hvort sem verið er að borða, læra, semja við aðra í viðskiptum eða halda fyrirlestur eða kynningar. Að sama skapi er gott að forðast að gera nokkuð af ofannefndu ef þú snýrð í óhagstæða átt.

Fljúgandi stjörnur – San Yuan

Fullkomnasti og jafnframt flóknasti feng shui skólinn heitir San Yuan eða skóli hinna fljúgandi stjarna. Byggir hann á fornum hugmyndum sem eru þekktar sem hin átta I Ching “trigram” (enska) og lo shu töfraferningurinn. Húsum og rýmum er skipt upp í níu svæði og tengist hvert svæði áttunum, frumefnunum fimm, árstíðunum, litum og formum. Meðlimir fjölskyldunnar tengjast líka vissum svæðum og sama gildir um margt fleira, jafnvel líffæri. Þessi skóli krefst dýpri skilnings á yin og yang, eðli frumefnanna fimm og kínverskri stjörnuspeki.

bagua

Luo pan áttavitinn er grundvallarmælitæki í skóla hinna fljúgandi stjarna og er notaður til að ákvarða áttir og teikna upp svæði innan heimila eða bygginga. Fæðingardagar íbúa og byggingarár húsa skipta einnig máli í tengslum við stærðfræðilega útreikningana. Til að reyna að gera þetta skiljanlegra má ímynda sér að í umhverfi (híbýlum) sérhvers manns séu til staðar níu mismunandi gerðir af orku. Orkutegundirnar eru skilgreindar með númerum frá 1-9. Þær breytast og hreyfast með síendurtæknum hætti (fljúga um) og hafa þar af leiðandi mismunandi áhrif á hamingju og velferð húsráðenda á hverjum tíma.

Við greiningar í feng shui hinna níu fljúgandi stjarna koma semsagt bæði formskólinn og hugmyndir ba zhai skólans við sögu en auk þess bætast við flóknari útreikningar þar frumefnin fimm, yin og yan, kínversk stjörnuspeki, kínverska tungdagatalið og margt fleira er skoðað. Niðurstöðurnar leiða því af sér mun nákvæmari og persónulegri feng shui lausnir sem eru sniðnar að hverjum og einum.

Það er útilokað að læra um þessar flóknu hliðar feng shui á skömmum tíma með því einu að lesa bækur eða tímaritagreinar. Þeir sem hafa tileinkað sér aðferðirnar eiga að baki langt nám undir leiðsögn svokallaðra feng shui meistara.

Feng shui meistarar

Að gefa öðrum góð feng shui ráð krefst bæði þekkingar og reynslu, ekki síst ef notast er við kenningarnar um hinar fljúgandi stjörnur. Feng shui meistarar verja ævinni í að tileinka sér fræðin og sumt af þeirri þekkingu sem er kennd í dag var lengst af vel geymt leyndarmál í fórum kínversku keisarahirðarinnar.

Eins og áður segir geta greiningar feng shui meistara verið klæðskerasniðnar að hverjum og einum og ótal þættir koma til álita. Hringrás kínverska tungldagatalsins krefst þess líka að gerðir séu nýir útreikningar ár hvert, svo ekki sé talað um á 20 ára fresti þegar þáttaskil verða í dagatalinu. Eftirsóttir feng shui meistarar hafa því nóg að gera og á stöðum eins og Hong Kong, Singapore og Dubai eru slíkir meistarar til ráðgjafar við allar meginframkvæmdir og viðburði. Dæmi um frægan kínverskan feng shui meistara er Edward Li frá Hong Kong. Hann á að hafa veitt fyrirtækjum á borð við hið ameríska Coca Cola feng shui ráð og sagt er að flestir milljónamæringar í Hong Kong hafi hann í sinni þjónustu.

Feng shui tákn

dragon_and_phoenix1

Almenningur hér í Kína notar mikið heillatákn í daglegu lífi og eiga mörg þeirra rætur í hugmyndafræði feng shui. Þannig er drekinn ótvírætt gæfutákn, jafnt í feng shui sem kínverskri þjóðtrú. Merki sem sýna tvöfalda hamingju eru vinsæl og ómissandi hluti af heillaóskum fyrir brúðhjón. Góð fyrir ástina og hjónabandið eru einnig heillatákn þar sem drekinn og fönixfuglinn birtast saman því það er til marks um að yin og yang séu í fullkomnu jafnvægi. Tvö “ljón” eða svokölluð chilin (sambland dreka, hests og fisks) við inngang húsa eru dæmigerð feng shui tákn og er ætlað að gleypa vonda orku. Fiskabúr og vatnskúlptúrar eru vinsælir en máli skiptir að koma þeim fyrir á réttum stöðum svo áhrifin verði rétt. Eitt er það merki sem oft sést í Asíu og okkur Evrópumönnum bregður við að sjá, en það er swastika (hakakrossinn). Hér er um að ræða 2000 ára gamalt tákn sem á rætur í búddisma og er kallað fa lun á kínversku. Til gamans má geta að þetta sama orð kemur fyrir í nafni Falun Gong hreyfingarinnar og þýðir lífsins hjól og getur táknað bæði framtíðina og fortíðina, allt eftir því hvernig það snýr. Snúi armar merkisins í átt til fortíðar eins og nasistar gerðu er ekki von á mikilli gæfu.

Feng shui í alþýðulýðveldinu

Gamlar kínverskar hefðir og siðir voru lagðar til hliðar þegar Kína varð kommúnistaríki árið 1949. Menningararfleifðinni hefur verið gert hærra undir höfði á síðustu árum og ekki er ólíklegt að áhugi á feng shui glæðist, líka hjá ráðamönnum í Kína. Á feng shui námsskeiði sem önnur okkar sótti var til dæmis sýnd ljósmynd af skrifstofu mjög háttsetts embættismanns í Peking sem hafði verið greind út frá kenningum feng shui. Kennari á námsskeiðinu var kínversk kona sem hefur sett sig vel inn í kenningarnar. Hún var sannfærð um að þótt hugmyndirnar hafi fylgt kínversku þjóðinni í gegnum árþúsundin viti Kínverjar á meginlandinu almennt mjög lítið um feng shui. Yngri kynslóðin virðist áhugasömust um að kynnast gömlum siðum og gildum, ekki síst þeir sem starfa við að kynna landið fyrir útlendingum.

fengshui_characters

Ljóst er að ekki er hægt að fjalla öllu ítarlegar um feng shui í stuttum pistli frá Kína. Viðfangsefnið er gríðarlega umfangsmikið og góð þekking í feng shui hefur að öllum líkindum aldrei verið á færi almúgans. Nákvæmar greiningar voru og eru í höndum sprenglærðra feng shui meistara og lærisveina þeirra. Hitt er annað mál að flestir geta haft gaman af hinum ýmsu þáttum feng shui, hvort sem fjallað er um uppröðun í rými, örlagaspá eftir höfuðáttunum eða einfaldlega hinum stórmerkilega sögulega grunni og í leiðinni má læra ótal margt um kínverska menningu og siði. Og ekki væri verra ef áhugi kínverskra ráðamanna á feng shui myndi glæðast enn frekar, því ef einhvers er óskandi í þeirri hröðu uppbyggingu sem á sér nú stað í Kína, er að betur takist að skapa gott jafnvægi milli manns og náttúru.

Kínversk stjörnuspeki

Stjörnuspeki er samofin kínverskri menningu og það virðist enn skipta Kínverja máli að eignast barn í réttu stjörnumerki. Það var til dæmis mjög vinsælt að eiga börn í fyrra, á ári drekans, enda hafa drekar haft mikla þýðingu í kínverskri menningu og þykja sterkt merki.

Kínversku stjörnumerkin eru tólf; rottan, uxinn, tígrisdýrið, kanínan, drekinn, snákurinn, hesturinn, kindin, apinn, haninn, hundurinn og svínið. Hvert stjörnumerki nær yfir tólf mánuði og er þá miðað við gamla kínverska dagatalið þar sem nýtt ár byrjar á tímabilinu frá janúarlokum og fram í miðjan febrúar.

dyrahringur

Sagan segir að endur fyrir löngu hafi Jaðakeisarinn ákveðið að dýrin yrði tákn á dagatalinu og jafnframt fyrirskipað að þau fyrstu sem myndu mæta á ákveðnum stað og tíma yrðu valin. Kötturinn og rottan voru á þessum tíma góðir vinir og þau ákváðu að verða samferða morguninn eftir. Kötturinn var morgunsvæfur og bað vin sinn rottuna um að vekja sig í bítið en því gleymdi rottan og hélt ein af stað. Á leiðinni hitti hún uxann, hestinn og fleiri dýr sem komust hraðar yfir en hún. Þá datt henni gott ráð í hug, hún fékk uxann til að bera sig á bakinu og í staðinn söng hún fyrir hann. Þau voru fljót í förum og þegar þau voru alveg að komast í mark hoppaði rottan af höfði uxans og varð því fyrsta merkið í dýrahringnum. Kötturinn svaf yfir sig og missti af öllu saman. Síðan hafa kettir hatað mýs og rottur. Margar útgáfur eru til af þessari sögu hér í Kína.

Núna er ár snáksins og þau börn sem fæðast frá 10. febrúar 2013 til 30. janúar 2014 eru snákar, nánar tiltekið vatnasnákar því grunnefnin fimm (elementin); eldur, jörð, málmur, vatn og viður tengjast þessu líka. Samkvæmt stjörnuspekinni eiga dýrin að hafa áhrif á persónuleika manna og efnin fimm hafa þar einnig sín áhrif. Snákar hafa ákveðin persónueinkenni, en vatnasnákur er öðruvísi en jarðsnákur og svo framvegis.

Stjornuspa_Elements3

Við spurðum unga menntaða konu hér í Shanghai út í stjörnuspekina og þýðingu hennar í daglegu lífi. Hún sagði stjörnuspekina snúast um svo miklu meira en dýrahringinn. Hún sagði að hjá mörgum væri hún mikilvægur hluti af lífinu og þannig væri það til dæmis hjá mömmu hennar. Hún sagði mömmu sína leita reglulega til taomunks til að fá ráðleggingar, sérstaklega fyrir stóra viðburði í fjölskyldunni eins og giftingu, fæðingu og fleira. Munkurinn notar þá stjörnuspekina til að reikna út ýmsa hluti og gefa ráðleggingar. Þegar unga konan varð ófrísk sagði mamma hennar að munkurinn hefði reiknað út að þetta yrði stelpa, sem svo gekk eftir. Margir foreldrar biðja slíka munka um ráðleggingar áður en börn þeirra ganga í hjónaband. Þá reiknar munkurinn út frá stjörnuspekinni og fleiru hvernig tilvonandi par á saman, tilgreinir veikleika og styrkleika. Foreldrarnir miðla svo þessum fróðleik áfram til verðandi hjóna. Ef parið er talið eiga vel saman eru allir ánægðir en ef ekki þá þarf að fara eftir ýmsum ráðleggingum, en það þýðir ekki að sambandið muni ekki ganga. Unga konan sagðist ekki trúa á þetta sjálf en tæki samt mark á því sem mamma hennar segði í þessu sambandi og að stundum væri bara heilmikið til í því.

Tökum nú nokkur dæmi af því hvernig merkin og grunnefnin eru túlkuð. Við ákváðum að fjalla hér um Íslendinga og Kínverja, svona að gamni, þó svo að stjörnuspekin eigi auðvitað að segja til um eiginleika einstaklinga fremur en eiginleika heillar þjóðar. Okkur er vonandi fyrirgefið þó við togum þetta aðeins og teygjum.

Lýðveldið Ísland er viðarapi. Viðarapar eru heillandi og góðir í samskiptum og eru framsýnir frumkvöðlar. Þeir hafa gott auga fyrir því nýjasta í tísku og eru oft í fararbroddi á því sviði. En allir hafa sína galla og samkvæmt stjörnuspekinni eigum við Íslendingar, viðaraparnir, það til að vera óákveðnir og nýjungagjarnir sem getur orðið þess valdandi að við hlaupum úr einu verkefninu í annað. Við höfum auk þess tilhneigingu til þess að festast í smáatriðum og eigum stundum erfitt með að sjá heildarmyndina!

Kínverjar eru jarðuxar, þar sem Alþýðulýðveldið Kína var stofnað 1. október 1949. Jarðuxar eru jarðbundnir, gera sér grein fyrir takmörkunum sínum og eru yfirleitt sáttir í þeim aðstæðum sem þeir eru í hverju sinni. Þá skortir þó ekki metnað og þeir komast þangað sem þeir vilja, þó að það taki langan tíma. Jarðuxarnir eru hvorki viðkvæmir né tilfinninganæmir en sýna þó nánustu fjölskyldu og vinum ást og umhyggju. Helsti galli jarðuxanna er skortur á sköpunargáfu. Þeir geta því misst af tækifærum og verið svo íhaldssamir og hagsýnir að þeir festast í sama farinu.

Þú getur lesið um þitt merki með því að smella hér.

Til gamans fylgir hér einnig tafla um hvernig störnumerkin passa saman í ástum.

Úr töflunni má lesa hvernig merkin eiga saman, þar sem talan einn 1 þýðir að merkin passi illa saman og 2 táknar að merkin eigi frekar illa saman. Talan 5 þýðir að þýðir að merkin eiga vel saman og talan 4 að merkin passi frekar vel saman. Talan 3 þýðir að leggja þurfi vinnu í sambandið.

Matches_Zodiac

Jaðinn

Flestir sem heimsækja Kína taka fljótlega eftir því hversu oft jaðasteininum bregður fyrir. Stórbrotin listaverk í hofum, höllum og söfnum eru skorin út í jaða og víða má sjá sölubása með jaðaskarti í verslunarmiðstöðvum og á mörkuðum. Athugulir gætu einnig tekið eftir því að Kínverjar, jafnt karlar sem konur, bera mjög oft jaðaarmbönd og hálsmen. Hægt er að verða margs vísari um Kína með því að fræðast um þennan þýðingarmikla stein sem enn í dag er vinsælt tákn fyrir mátt og fegurð.

Collages

Á kínversku heitir steinninn yù. Orðið hefur í gegnum tíðina verið notað um fleiri en eina steintegund og enn í dag tala Kínverjar um yù í almennu tali um verðmæta steina og skrautsteina. Það getur því verið erfitt að átta sig almennilega á hvað jaði er og ekki kom í ljós fyrr en eftir miðja 19. öld að orðið jaði (á ensku jade) hafði verið notað um fleiri en eina steintegund, annarsvegar jaðeít, hinsvegar nefrít. Í kínversku er gerður greinarmunur á steinunum með því að tala um þann fyrrnefnda sem harðan jaða (ying yù), hinn síðarnefnda sem mjúkan jaða (ruan yù). Báðar steintegundirnar teljast vera ósvikinn jaði og þótt þær séu í eðli sínu ólíkar er útlitið ekki ósvipað. Litbrigði jaðans eru fjölmörg en algengt er að sjá hann í grænu, allt frá fölgrænu yfir í dökkgræna tóna. Því hreinni og tærari sem steinninn er því verðmætari telst hann.

jade

Kraftmikil hjátrú 

Þótt jaðinn sé þekktur í menningarsögu fleiri þjóða er fátt sem getur keppt við langa sögu steinsins í Kína. Segir það nokkuð um mikilvægi hans að kínverska táknið fyrir jaða er aðeins einni stroku frá því að vera eins og upphaflega táknið fyrir orðið keisari. Jaði kemur fyrir í kínverskum goðsögum og einstæðir jaðasteinar tryggðu konungleg völd til forna. Innsigli skorin út í jaða eru mikilvægt tákn um vald í kínverskri sögu og keisarinn í Kína var sagður ná sambandi við æðri máttarvöld í gegnum einskæran jaðadisk. Trúin á mátt jaðasteinsins lifir enn á meðal þjóðarinnar og tengist oft allskyns hjátrú. Þannig á það til dæmis að hafa góð áhrif á alla ákvarðanatöku, ekki síst í viðskiptum, að nudda jaðastein í höndunum.

Heimspekin um hin andstæðu öfl sköpunar og náttúru, yin og yang, sem ætíð þurfa að finna jafnvægi, eru stór þáttur í öllu sem tengist menningu Kínverja. Það á einnig við um jaðann sem hefur einkenni yang. Sem slíkur er hann þekktur í kínverskri læknisfræði og þá notaður í duftformi gegn ýmsum kvillum. Því hefur einnig verið trúað að jaðinn endurspegli heilsu og örlög, ef steinninn fölnar og missir ljóma sinn bendi það til þess að eigandinn sé veikur eða eigi á hættu að verða fyrir áföllum.

IMG_1522

Jaðinn tengist mörgum eftirsóknarverðum eiginleikum og er því vinsæll sem verndargripur. Algengt er að ung börn fái að gjöf jaðaskart og margir Kínverjar bera daglega á sér jaða í einhverri mynd í þeirri trú að hann færi þeim betra líf. Á ferðalögum um heiminn má ganga að því sem vísu að þar sem verslað er með jaða hittir maður Kínverja, en jaðanámur finnast á nokkrum svæðum í heiminum, til dæmis í Bandaríkjunum og Búrma.