Hátíð á miðju hausti

Mid-Autumn-Festival-Chinese-Festival-004-485x728

Miðhausthátíðin er ein af mikilvægustu hátíðum Kínverja. Í samræmi við kínverska dagatalið ber mitt haust upp á 15. dag 8. mánaðar og af því dregur hátíðin nafn sitt. Í ár ber daginn upp á fimmtudaginn 19. september samkvæmt okkar tímatali. Því var trúað að þennan dag næði kringlótt form tunglsins og ljómi þess hámarki. Samkvæmt kínverskri þjóðtrú táknar fullt tungl endurfundi og því fagna Kínverjar deginum gjarnan í faðmi fjölskyldunnar. Tunglkökur eru einnig órjúfanlegur partur af hátíðahöldunum.

Tilbeiðsla tunglsins er aldagömul hefð í Kína. Finna má útsýnisskála til tunglskoðunar í flestum sögufrægum byggingum og í gegnum árþúsundin hafa orðið til ýmsir siðir og venjur sem tilheyra þessari árlegu hátíð. Allt frá Tang keisaratímanum hefur miðhausthátíðin verið ein af opinberum hátíðum í Kína. Á Song tímabilinu urðu almenn hátíðarhöld algengari og flykktist þá almenningur gjarnan í útsýnisskála til að njóta tunglsins, þeir efnameiri heimsóttu sína eigin skála. Fjölskyldur söfnuðust þá saman til kvöldverðar, jafnframt því að njóta þess að horfa á tunglið. Frá tímum Ming og Qing keisaraættanna hafa skapast ýmsar matarhefðir á þessum tímamótum, svo sem að borða rótarávöxtinn taro og tunglkökur.

Líkt og fyrr á tímum safnast kínverskar nútímafjölskyldur saman og borða kvöldverð á þessum frídegi. Gufusoðnar jarðhnetur, sneiðar af taro, hrísgrjónaseyði, fiskur og núðlur eru hefðbundir réttir við þessi tímamót. Enginn þeirra kemst þó í hálfkvisti við vinsældir tunglkökunnar. Vikum fyrir sjálfa hátíðina má sjá tunglkökur til sölu í öllum helstu verslunum, hótelum og kaffihúsum enda eftirsótt gjöf til vina og ættingja. Fyrirtæki nota gjarnan tækifærið til að senda tunglkökur til viðskiptavina sem þakklætisvott.

Áróður á safni

Áróður af ýmsu tagi er órjúfanlegur hluti af sögu Kína undir stjórn kínverska kommúnistaflokksins. Veggspjöld sem gáfu rétta tóninn í samfélaginu hverju sinni voru hluti af umhverfi borga og bæja allt fram undir 1990.

mao_poster

Um svipað leyti hóf framsýnn heimamaður í Shanghai upp á sitt einsdæmi að safna slíkum veggspjöldum. Þar með kom hann í veg fyrir að mörg þeirra glötuðust þegar stjórnvöld, af pólitískum ástæðum, leituðust við að eyðileggja öll slík plaköt í kringum 1995. Safnið Shanghai Propaganda Poster Art Center hefur verið opið almenningi frá árinu 2002, frá 2012 með opinberu samþykki yfirvalda í borginni.

spropagandamuseum

Staðsetning safnsins er óvenjuleg, í illa lyktandi kjallara íbúðablokkar. Inngangurinn er baka til og ekki auðfundinn. En safnið er skemmtilegt og veggspjöldin góð heimild, til dæmis um áróður menningarbyltingarinnar. Á hverju veggspjaldinu á fætur öðru er Mao formaður, eins og guð almáttugur, altumlykjandi og verndandi, leiðtoginn og fyrirmyndin. Honum er jafnvel líkt við sjálfa sólina.

mao

Árið 2013 skín ásjóna Maos enn skært yfir Torgi hins himneska friðar í Beijing.

tianmen