„Að læra án þess að hugsa er tilgangslaust. Að hugsa án þess að læra er hættulegt“.
Þessi tilvitnum er skráð á stólpa í Konfúsíusarhofi í Shanghai. Önnur okkar kom í hofið vorið 2008 og skrifaði þetta hjá sér. Annars var heimsóknin eftirminnilegust fyrir friðsældina. Fyrir utan örfá ungmenni sem sögðust vera nemendur í konfúsískum fræðum var enginn á staðnum. Það er ekki oft sem slíkt gerist í margmenninu í Kína.
Nú, aðeins nokkrum árum seinna, er Konfúsíus heldur fyrirferðarmeiri í alþýðulýðveldinu. Lifnað hefur yfir Konfúsíusarhofum landsins með tilheyrandi helgiathöfunum og hundruð þúsunda ferðamanna flykkjast til fæðingarborgar heimspekingsins sem í auglýsingum hefur verið líkt við Mekka. Klassísk kínversk verk hafa náð vinsældum á ný og konfúsísk rit raunar selst svo vel að útgáfufyrirtækið sem gefur þau út á stafrænu formi hefur verið skráð á kínverskan hlutabréfamarkað. Þá mun Peking háskóli bjóða viðskiptamönnum upp á hraðnámskeið í almennri þekkingu á sígildum ritum. Þetta rímar allt vel við hraðann sem einkennir efnahagslegan uppgang Kína.
Erlendis tengja margir nafn Konfúsíusar við stofnanir sem fjármagnaðar eru af kínverska ríkinu og starfræktar innan háskóla víða um heim, meðal annars Háskóla Íslands. Tilgangur þeirra er að stuðla að aukinni fræðslu um kínverska tungu, menningu og samfélag.
En það er ekki tilviljun að nafn Konfúsíusar er notað til að beina athygli umheimsins að Kína.

Hver var Konfúsíus?
Konfúsíus (Kongzi 孔子) var uppi fyrir meira en 2500 árum, fæddur árið 551 f.Kr. Þegar hann var þriggja ára dó faðir hans og móðirin fór á vergang í leit að vinnu og húsaskjóli. Drengurinn þótti dreyminn og gleymdi sér gjarnan í ímynduðum heimi og skáldskap. Hann langaði að verða embættismaður en hafði ekki réttu samböndin. Þess í stað hóf Konfúsíus ungur að kenna og voru nemendur hans af öllum stéttum. Þetta var á tímum ófriðar og spillingar og hann var sannfærður um að kenna þyrfti fólki að samrýma þrár sínar þörfum fjölskyldunnar og samfélagsins. Honum lánaðist fyrir rest að komast í starf hjá yfirvöldum en aðrir valdamenn voru hræddir við þær umbætur sem hann boðaði. Konfúsíus var hrakinn úr starfinu og niðurlægður lagði hann af stað í ferð um landið og benti á ýmislegt sem miður fór. Sagan segir að hann hafi hitt konu eina sem missti mann sinn og son í gin tígrísdýrs. Þá sagði Konfúsíus við lærisveina sína að harðneskjuleg yfirvöld væru hræðilegri en tígrisdýr.
Konfúsíus var frumkvöðull í kennslu og lærisveinar hans skiptu þúsundum. Um sjötíu þeirra voru honum mjög nánir og eftir dauða spekingsins skráðu þeir hugmyndir hans í rit sem á kínversku kallast Lunyu, á ensku The Analects. Íslenska þýðingin heitir Speki Konfúsíusar.
Þótt Konfúsíus færi víða og reyndi að hafa áhrif á valdamenn tókst honum ekki sérlega vel upp. En margir eftirmenn hans tileinkuðu sér hugmyndirnar og með tímanum varð til sá konfúsismi sem var opinber hugmyndafræði í Kína á keisaratímum, frá 221 f.Kr. og þar til síðasta keisaraveldið féll árið 1911.
Við endalok keisaraveldisins voru margir gagnrýnir á hvort stjórnarhættir í anda konfúsisma hefðu verið landinu til góðs. Sumir vildu meina að þeir hefðu komið í veg fyrir framfarir og stuðlað að því að Kína var nú vanþróað ríki í samanburði við Vesturlönd. Aðrir töldu að ekki væri hægt að afneita konfúsískri hugsun nema hafna um leið kínverskri menningu. Þeir vildu aðlaga stefnuna nýjum tímum og slíkar hugmyndir þróuðust áfram í Taiwan, Hong Kong og Singapúr. Konfúsisma var hinsvegar úthýst á meginlandi Kína þegar kommúnistar tóku þar völd árið 1949. Mao taldi stefnuna af hinu illa og í menningarbyltingunni voru hundruð Konfúsíusarhofa eyðilögð og skemmdarverk unnin á grafreit hugsuðarins og afkomenda hans.
Konfúsismi
Á vísindavef háskólans má finna eftirfarandi lýsingu á konfúsisma: ,,Í örstuttu og ofureinfölduðu máli snýst konfúsísk heimspeki um að tileinka sér siði og hefðir sem ríkt hafa í Kína frá og með Zhou-veldinu en laga þau að breyttum aðstæðum. Konfúsíus sagði sjálfur að viska fælist í því að færa fram hið nýja á grundvelli hins gamla. Í þessu felst mikil og sterk fjölskylduhefð og krafa um virðingu hinna yngri og óreyndu gagnvart hinum eldri og lífsreyndari. Hinum yngri er ætlað að taka sér eldra fólk til fyrirmyndar en um leið tjá reynslu þess í framkvæmd með persónulegum hætti í ljósi ríkjandi aðstæðna. Þannig er gífurleg áhersla lögð á lærdóm og námsfýsi.”
Konfúsíus boðaði samhug, skyldurækni og venjur sem minna á helgiathafnir. Þótt margt í iðkun konfúsisma minni á átrúnað er hann ekki prestaregla og almennt ekki talinn til trúarbragða.
Konfúsíus og hinn ráðandi flokkur
Augljóslega spretta kenningar Konfúsíusar ekki upp á yfirborðið í alþýðulýðveldinu nema með samþykki kommúnistaflokksins. Eftir dauða Mao árið 1976 urðu miklar breytingar á stefnu flokksins og með Deng Xiaoping í broddi fylkingar var kúrsinn tekinn á efnahagslega hagsæld. Valdabreytingar voru þó ekki liður í nýrri stefnu eins og glöggt kom í ljós á Torgi hins himneska friðar árið 1989 þegar uppreisn lýðræðisþenkjandi stúdenta var kæfð niður með herafli. Í kjölfar hörmulegs blóðbaðsins á torginu var aðkallandi að skapa nýja og betri ímynd fyrir flokkinn og endurvekja trú almennings á yfirvöldum. Leitað var í gamlar hefðir og það var á þessum tíma sem forystumenn í kommúnistaflokknum hófu að nefna Konfúsíus á nafn í ræðum sínum. Þættir um forna menningu hófu göngu sína í ríkissjónvarpinu og mun tilgangur þeirra hafa verið að efla sjálfsvirðingu og sjálfstraust þjóðarinnar og hvetja til þjóðernislegrar samkenndar. Árið 2002 hætti flokkurinn opinberlega að kalla sig byltingarflokk og byrjað var að tala um ,,hinn ráðandi flokk” (Party in Power). Helstu ráðamenn hófu að boða samhug og stöðugleika í samfélaginu og í febrúar 2005 vitnaði Hu Jintao, þá æðsti maður í flokknum, í Konfúsíus og sagði að harmónía væri eitthvað sem vert væri að hlúa að (harmony is something to be cherished).

Smám saman varð samhugur að kjörorði kommúnistaflokksins og orðinu harmóníu fór að bregða æ oftar fyrir á veggspjöldum, í sjónvarpsauglýsingum og í orðræðu embættismanna. Á 2.557 afmælisdegi Konfúsíusar, árið 2006, var gefin út það sem kallað var stöðluð mynd af Konfúsíusi, stytta sem sýnir vingjarnlegan öldung með mikið skegg og krosslagða handleggi. Með opinberum stuðningi voru kynntar til sögunnar ýmsar hefðir sem ekki höfðu tíðkast fram að þessu, til dæmis sú að pör gætu endurnýjað hjúskaparheitið fyrir framan líkneski af Konfúsíusi.
Það var svo í janúar árið 2011 að risavaxin 17 tonna stytta af Konfúsíusi var reist á Torgi hins himneska friðar. Þarna horfðust þeir nú í augu sitt hvoru megin á torginu, Mao og Konfúsíus. Í ljósi sögunnar, en Mao hafði barist á móti öllu sem Konfúsíus stóð fyrir, þótti þetta náttúrlega heldur kaldhæðnislegt. Enda stoppaði Konfúsíus stutt, í skugga nætur þann 20. apríl sama ár hvarf styttan jafn skyndilega af torginu og hún hafði birst. Gárungarnir töldu að Konfúsíus, sveitamaður frá Shandong héraði, hefði ekki verið með hukou í höfuðborginni. Ekki var mikið fjallað um hvarf styttunnar í kínverskum fjölmiðlum en greinilega var ekki samhugur um málið innan flokksins.

Konfúsíusarstofnanir
Þótt ásjóna Mao ríki enn yfir torginu stóra í höfuðborg Kína þá gefur hinn vinalegi öldungur, Konfúsíus, tvímælalaust mildari mynd af Kínaveldi út á við. Svip Mao brá hvergi fyrir á opnunarhátíð Ólympíuleikanna árið 2008 en mikið var um tilvitnanir í harmóníu og klassísk rit. Konfúsíusarstofnanirnar sem stofnað hefur verið til innan háskóla bera hróður heimsspekingsins víða um lönd. Flestir háskólar hafa tekið því opnum örmum að fá fjármagn og kennsluefni frá yfirvöldum í Kína til að efla kínverskukennslu og kynna kínverska menningu innan sinna raða. Í seinni tíð heyrast þó sífellt fleiri raddir sem kvarta undan því að stofnanirnar takmarki tjáningarfrelsið og fyrsti háskólinn til að loka Konfúsíusarstofnun af þeim sökum var McMaster háskóli í Kanada. Fleiri skólar hafa bæst í hópinn, nú síðast Stokkhólmsháskóli. (sjá frétt RÚV um málið hér).
Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins, Hua Chunying, hefur svarað þessum ásökunum og sagt að Konfúsíusstofnanir séu ,,brú sem tengir Kína við aðra heimshluta.” Hún leggur áherslu á að starfið sé opið og lúti gagnsæi. Í merkilegu viðtali sem fréttamaður BBC tók við áhrifakonuna Xu Lin kemur aftur á móti í ljós að ekki eiga allar spurningar við þegar fjallað er um Konfúsíusarstofnanir. Xu er forstöðukona Hanban, opinbers embættis sem hefur það að markmiði að efla og kynna kínverska tungu erlendis og hefur jafnframt umsjón með starfi Konfúsíusarstofnana um allan heim. Viðtalið má sjá hér:
Friðarverðlaun Konfúsíusar
Nafn Konfúsíus varð fyrir valinu þegar kínversk stjórnvöld komu á fót alþjóðlegum friðarverðlaunum, Confusius Peace Prize, árið 2010. Þetta var sama ár og kínverski uppreisnarmaðurinn Liu Xiaobo vann til Friðarverðlauna Nóbels, vægast sagt í mikilli óþökk kínverskra yfirvalda. Liu var hnepptur í hald til að koma í veg fyrir að hann gæti flogið til Osló og tekið á móti verðlaununum og í framhaldinu var hann dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir skoðanir sínar. Skömmu áður en heiðra átti Liu Xiaobo í Noregi voru Friðarverðlaun Konfúsíusar afhent í fyrsta sinn í Kína. Heiðurinn hlaut Vladimir Putin Rússlandsforseti fyrir að koma á ,,öryggi og stöðugleika” í Rússlandi. Þess má geta að verðlaunahafi árins 2014 var Fidel Castro.
Áhugi almennings og Hin heilaga borg Austurlanda fjær
Fyrir nokkrum árum keypti önnur okkar eintak af enskri útgáfu bókarinnar Confusius from the Heart í bókabúð í Shanghai en hafði þá ekki grun um gríðarlegar vinsældir hennar meðal heimamanna. Höfundurinn heitir Yu Dan og er prófessor við fjölmiðladeild Beijing Normal háskóla. Bókin, sem selst hefur í tugmilljónum eintaka, og vinsælir sjónvarpsþættir sem hún gerði um sama efni, hafa gert Yu að dægurstjörnu í Kína. Túlkun Yu Dan á konfúsisma er þó ekki óumdeild og einn efasemdarmaðurinn mun eitt sinn hafa mætt á bókakynningu hjá Yu Dan í bol með áletruninni ,,Konfúsíus er mjög áhyggjurfullur”. Staðreyndin er hinsvegar sú að Yu er einn tekjuhæsti rithöfundur Kína og tíður gestur á ráðstefnum. Bókin hefur verið þýdd á íslensku undir nafninu Heilræði hjartans.
Í seinni tíð er oft talað um að í Kína nútímans hafi skapast einskonar menningarlegt tómarúm sem efnahagsleg uppsveifla og aukin velsæld hafa ekki náð að fylla. Það gæti skýrt mikinn áhuga hinnar nýju kínversku millistéttar á eldri hefðum og þjóðmenningu, þar með talin heimspeki Konfúsíusar. Foreldrar innrita börnin sín í Konfúsíusarskóla þar sem börn niður í þriggja ára aldur læra kennisetningar utanbókar með því að þylja þær upp í hundruði skipta. Ferðamenn innanlands flykkjast í þau Konfúsíusarhof sem eftir standa í landinu og fylla þar út bænaspjöld. Munu mörg þeirra snúa að óskum um gott gengi í prófum, ekki síst hið margumtalaða inngöngupróf í kínverska háskóla.

Alþjóðlega Konfúsíusarhátíðin sem haldin er árlega í borginni Qufu í Shandong héraði nýtur sívaxandi vinsælda. Qufu er fæðingarborg heimsspekingsins og var fyrsta hátíðin haldin árið 2007. Þá fylltu þúsundir manna helsta vettvang hátíðarinnar sem skreyttur var með blöðrum með nafni Konfúsíusar og hlýddu á vinsæla popptónlist frá Kóreu. Í borginni er nú verið að byggja risavaxið Konfúsíusarsafn og samkvæmt upplýsingamiðstöð ferðamála í Jining héraði er framkvæmdin metin á 500 milljón yuan (um 80 milljónir bandaríkjadollara). Mun safnið, sem er rúmir 56 þúsund fermetrar að stærð, opna á þessu ári. Í markaðssetningu á Qufu er borginni líkt við Mekka og Jerúsalem og kölluð Heilög borg Austurlanda fjær (The Oriental Holy City). Gestir borgarinnar eru nú taldir í milljónum og þar með þegar mun fleiri en þeir sem heimsækja Ísrael á ári hverju. Ekkert lát er á sköpunargleðinni í ferðamálaráði Qufu borgar og í haust mátti lesa um nýjustu áformin í frétt á Xinhua. Þar kemur fram að unnið sé að því að mennta leiðbeinendur sem síðan munu fara um nágrannahéruðin og kenna konfúsisma. Boðið verður upp á kennslustundir á þorpstorgum, byggð bókasöfn og settar upp leiksýningar. Í fréttinni kemur fram að tilgangurinn sé að gera þekkingu á konfúsisma vinsæla, bæta lífsgæði þorpsbúa og skapa harmóníu í samfélaginu.


Í framtíðinni geta ferðamenn sem eru áhugasamir um Konfúsíus einnig lagt leið sína til Beidaihe. Þar hefur flokksmaður í kommúnistaflokknum og fyrrum foringi í kínverska hernum, Wang Dianming, komið upp 50 milljón yuan (um 8 milljónir bandaríkjadollara) skemmtigarði þar sem risavaxið líkneski af Konfúsíusi með útrétta arma hefur vakið athygli. Styttan er ekki í samræmi við stöðluðu útgáfuna, heilir 19 metrar á hæð og minnir helst á heimsþekkt líkneski af Kristi í Ríó de Janeiro í Brasílíu. Í viðtali við fjölmiðla sem birtist m.a. í The Japan Times, segir Wang: „Kínverski draumurinn nærist á einstakri menningu Kína og konfúsisma.” Í umfjölluninni segir einnig að á stalli styttunnar séu kínversk tákn, fyrir kínverska drauminn á framhliðinni, en á bakhliðinni er vitnað í sósíalíska hugmyndafræði. Þá tryggir lítil stytta af Mao í einu horni garðsins að öll hugmyndafræði kínverska ríkisins eigi sinn fulltrúa á staðnum.
Kínverskri draumurinn og konfúsismi
Síðan Xi Jinping tók við æðsta embætti í landinu snemma árs 2013 hefur hugmyndinni um kínverska drauminn vaxið fiskur um hrygg. Framtíðarsýn forsetans felur í sér einhverskonar endurfæðingu Kína á grunni framúrskarandi fortíðar. ,,Fyrir nokkrum árþúsundum síðan fetaði kínverska þjóðin slóðir sem voru frábrugðnar menningu og þróun annarra þjóða“ var haft eftir forsetanum í People´s Daily, opinberu málgagni kínverska kommúnistaflokksins, í október 2014. ,,Við ættum að virða og minnast óslitinnar 5000 ára menningarsögu Kína“ sagði hann ennfremur. Skömmu áður talaði Xi á ráðstefnu sem haldin var á vegum Alþjóðlegu Konfúsíusarsamtakanna í tilefni af 2565. afmælisdegi Konfúsíusar og sagði þá: ,,Framúrskarandi hefðbundin kínversk menning, þar með talinn konfúsismi, hefur að geyma mikilvægar vísbendingar til að leysa þau vandamál sem herja á mannkynið nú um stundir.“
En ekki hafa allir í Kína sama skilning á konfúsisma og kommúnistaflokkurinn, þar með talinn Li Ling, prófessor við Peking háskóla. Í bókinni Stray Dog: My Reading of the Analects gagnrýnir hann það sem hann kallar verksmiðjuframleiddan Konfúsíus og skrifar meðal annars: ,,Hinn sanni Konfúsíus, sá sem lifði, var hvorki kóngur né vitringur. Hann hafði hvorki vald né stöðu – aðeins siðgæði og fróðleik – og þorði að gagnrýna valdaelítu síns tíma.“ Li skrifar einnig að Konfúsíus hafi lifað eins og flækingur, fylgt eftir skoðunum sínum og stöðugt reynt að sannfæra valdamenn um réttlætið. Þegar bók Li kom út í maí árið 2007 var hún strax fordæmd af öðrum fræðimönnum, til dæmis af Jiang Qing, sem er áberandi maður í pólitískri túlkun á konfúsisma. Jiang kallaði Li Ling háðskan heimsendaspámann og sagði að hugmyndir hans væru ekki svaraverðar. Nóbelsverðlaunahafinn Liu Xiaobo var einn þeirra sem komu Li til varnar og varaði við því að átrúnaður á konfúsisma myndi leiða til þess að aðrar stefnur yrðu bannaðar.

Harmónía
Í þessu andrúmslofti getur verið snúið fyrir kínverskan almenning að finna réttu svörin og harmónískt faðmlag flokksins við konfúsisma er ekki óumdeilt í Kína. Manna á milli, í nokkru háði, hefur til dæmis orðið til nýtt orð. Þegar kínverska ritskoðunarvélin eyðir kommentum út af internetinu jafnharðan og þau birtast er talað um að ummælin hafi verið ,,harmóniseruð.”
Hvort harmónían sem kínverski kommúnistaflokkurinn boðar geti bjargað heiminum á eftir að koma í ljós. Fagnaðarerindið breiðist að minnsta kosti hratt út. Þegar hafa hátt á fimmta hundruð Konfúsíusarstofnana verið opnaðar í yfir hundrað löndum og stefnt er að því að þær verði orðnar 1000 árið 2020.
















Vefmiðillinn Weibo hefur verið einn helsti vettvangur þjóðfélagslegrar umræðu og gagnrýni hér í Kína um nokkurt skeið. Honum má kannski helst líkja við Twitter, fólk setur þar fram sínar skoðanir og getur póstað myndum. Snjallsímaeign er orðin algeng og aðgangur almennings að netinu hefur því gjörbreyst á stuttum tíma. Weibo er opinn fyrir óskráða notendur að hluta til og fréttamenn hafa oft komist á snoðir um fréttir í gegnum miðilinn.













