Konfúsíus og hin ráðandi öfl

„Að læra án þess að hugsa er tilgangslaust. Að hugsa án þess að læra er hættulegt“.

Þessi tilvitnum er skráð á stólpa í Konfúsíusarhofi í Shanghai. Önnur okkar kom í hofið vorið 2008 og skrifaði þetta hjá sér. Annars var heimsóknin eftirminnilegust fyrir friðsældina. Fyrir utan örfá ungmenni sem sögðust vera nemendur í konfúsískum fræðum var enginn á staðnum. Það er ekki oft sem slíkt gerist í margmenninu í Kína.

Nú, aðeins nokkrum árum seinna, er Konfúsíus heldur fyrirferðarmeiri í alþýðulýðveldinu. Lifnað hefur yfir Konfúsíusarhofum landsins með tilheyrandi helgiathöfunum og hundruð þúsunda ferðamanna flykkjast til fæðingarborgar heimspekingsins sem í auglýsingum hefur verið líkt við Mekka. Klassísk kínversk verk hafa náð vinsældum á ný og konfúsísk rit raunar selst svo vel að útgáfufyrirtækið sem gefur þau út á stafrænu formi hefur verið skráð á kínverskan hlutabréfamarkað. Þá mun Peking háskóli bjóða viðskiptamönnum upp á hraðnámskeið í almennri þekkingu á sígildum ritum. Þetta rímar allt vel við hraðann sem einkennir efnahagslegan uppgang Kína.

Erlendis tengja margir nafn Konfúsíusar við stofnanir sem fjármagnaðar eru af kínverska ríkinu og starfræktar innan háskóla víða um heim, meðal annars Háskóla Íslands. Tilgangur þeirra er að stuðla að aukinni fræðslu um kínverska tungu, menningu og samfélag.

En það er ekki tilviljun að nafn Konfúsíusar er notað til að beina athygli umheimsins að Kína.

Hver var Konfúsíus?

Konfúsíus (Kongzi 孔子) var uppi fyrir meira en 2500 árum, fæddur árið 551 f.Kr. Þegar hann var þriggja ára dó faðir hans og móðirin fór á vergang í leit að vinnu og húsaskjóli. Drengurinn þótti dreyminn og gleymdi sér gjarnan í ímynduðum heimi og skáldskap. Hann langaði að verða embættismaður en hafði ekki réttu samböndin. Þess í stað hóf Konfúsíus ungur að kenna og voru nemendur hans af öllum stéttum. Þetta var á tímum ófriðar og spillingar og hann var sannfærður um að kenna þyrfti fólki að samrýma þrár sínar þörfum fjölskyldunnar og samfélagsins. Honum lánaðist fyrir rest að komast í starf hjá yfirvöldum en aðrir valdamenn voru hræddir við þær umbætur sem hann boðaði. Konfúsíus var hrakinn úr starfinu og niðurlægður lagði hann af stað í ferð um landið og benti á ýmislegt sem miður fór. Sagan segir að hann hafi hitt konu eina sem missti mann sinn og son í gin tígrísdýrs. Þá sagði Konfúsíus við lærisveina sína að harðneskjuleg yfirvöld væru hræðilegri en tígrisdýr.

Konfúsíus var frumkvöðull í kennslu og lærisveinar hans skiptu þúsundum. Um sjötíu þeirra voru honum mjög nánir og eftir dauða spekingsins skráðu þeir hugmyndir hans í rit sem á kínversku kallast Lunyu, á ensku The Analects. Íslenska þýðingin heitir Speki Konfúsíusar.

Þótt Konfúsíus færi víða og reyndi að hafa áhrif á valdamenn tókst honum ekki sérlega vel upp. En margir eftirmenn hans tileinkuðu sér hugmyndirnar og með tímanum varð til sá konfúsismi sem var opinber hugmyndafræði í Kína á keisaratímum, frá 221 f.Kr. og þar til síðasta keisaraveldið féll árið 1911.

Við endalok keisaraveldisins voru margir gagnrýnir á hvort stjórnarhættir í anda konfúsisma hefðu verið landinu til góðs. Sumir vildu meina að þeir hefðu komið í veg fyrir framfarir og stuðlað að því að Kína var nú vanþróað ríki í samanburði við Vesturlönd. Aðrir töldu að ekki væri hægt að afneita konfúsískri hugsun nema hafna um leið kínverskri menningu. Þeir vildu aðlaga stefnuna nýjum tímum og slíkar hugmyndir þróuðust áfram í Taiwan, Hong Kong og Singapúr. Konfúsisma var hinsvegar úthýst á meginlandi Kína þegar kommúnistar tóku þar völd árið 1949. Mao taldi stefnuna af hinu illa og í menningarbyltingunni voru hundruð Konfúsíusarhofa eyðilögð og skemmdarverk unnin á grafreit hugsuðarins og afkomenda hans.

Konfúsismi

Á vísindavef háskólans má finna eftirfarandi lýsingu á konfúsisma: ,,Í örstuttu og ofureinfölduðu máli snýst konfúsísk heimspeki um að tileinka sér siði og hefðir sem ríkt hafa í Kína frá og með Zhou-veldinu en laga þau að breyttum aðstæðum. Konfúsíus sagði sjálfur að viska fælist í því að færa fram hið nýja á grundvelli hins gamla. Í þessu felst mikil og sterk fjölskylduhefð og krafa um virðingu hinna yngri og óreyndu gagnvart hinum eldri og lífsreyndari. Hinum yngri er ætlað að taka sér eldra fólk til fyrirmyndar en um leið tjá reynslu þess í framkvæmd með persónulegum hætti í ljósi ríkjandi aðstæðna. Þannig er gífurleg áhersla lögð á lærdóm og námsfýsi.”

Konfúsíus boðaði samhug, skyldurækni og venjur sem minna á helgiathafnir. Þótt margt í iðkun konfúsisma minni á átrúnað er hann ekki prestaregla og almennt ekki talinn til trúarbragða.

Konfúsíus og hinn ráðandi flokkur

Augljóslega spretta kenningar Konfúsíusar ekki upp á yfirborðið í alþýðulýðveldinu nema með samþykki kommúnistaflokksins. Eftir dauða Mao árið 1976 urðu miklar breytingar á stefnu flokksins og með Deng Xiaoping í broddi fylkingar var kúrsinn tekinn á efnahagslega hagsæld. Valdabreytingar voru þó ekki liður í nýrri stefnu eins og glöggt kom í ljós á Torgi hins himneska friðar árið 1989 þegar uppreisn lýðræðisþenkjandi stúdenta var kæfð niður með herafli. Í kjölfar hörmulegs blóðbaðsins á torginu var aðkallandi að skapa nýja og betri ímynd fyrir flokkinn og endurvekja trú almennings á yfirvöldum. Leitað var í gamlar hefðir og það var á þessum tíma sem forystumenn í kommúnistaflokknum hófu að nefna Konfúsíus á nafn í ræðum sínum. Þættir um forna menningu hófu göngu sína í ríkissjónvarpinu og mun tilgangur þeirra hafa verið að efla sjálfsvirðingu og sjálfstraust þjóðarinnar og hvetja til þjóðernislegrar samkenndar. Árið 2002 hætti flokkurinn opinberlega að kalla sig byltingarflokk og byrjað var að tala um ,,hinn ráðandi flokk” (Party in Power). Helstu ráðamenn hófu að boða samhug og stöðugleika í samfélaginu og í febrúar 2005 vitnaði Hu Jintao, þá æðsti maður í flokknum, í Konfúsíus og sagði að harmónía væri eitthvað sem vert væri að hlúa að (harmony is something to be cherished).

Smám saman varð samhugur að kjörorði kommúnistaflokksins og orðinu harmóníu fór að bregða æ oftar fyrir á veggspjöldum, í sjónvarpsauglýsingum og í orðræðu embættismanna. Á 2.557 afmælisdegi Konfúsíusar, árið 2006, var gefin út það sem kallað var stöðluð mynd af Konfúsíusi, stytta sem sýnir vingjarnlegan öldung með mikið skegg og krosslagða handleggi. Með opinberum stuðningi voru kynntar til sögunnar ýmsar hefðir sem ekki höfðu tíðkast fram að þessu, til dæmis sú að pör gætu endurnýjað hjúskaparheitið fyrir framan líkneski af Konfúsíusi.

Það var svo í janúar árið 2011 að risavaxin 17 tonna stytta af Konfúsíusi var reist á Torgi hins himneska friðar. Þarna horfðust þeir nú í augu sitt hvoru megin á torginu, Mao og Konfúsíus. Í ljósi sögunnar, en Mao hafði barist á móti öllu sem Konfúsíus stóð fyrir, þótti þetta náttúrlega heldur kaldhæðnislegt. Enda stoppaði Konfúsíus stutt, í skugga nætur þann 20. apríl sama ár hvarf styttan jafn skyndilega af torginu og hún hafði birst. Gárungarnir töldu að Konfúsíus, sveitamaður frá Shandong héraði, hefði ekki verið með hukou í höfuðborginni. Ekki var mikið fjallað um hvarf styttunnar í kínverskum fjölmiðlum en greinilega var ekki samhugur um málið innan flokksins.

konfusius_tiananmen

Konfúsíusarstofnanir

Þótt ásjóna Mao ríki enn yfir torginu stóra í höfuðborg Kína þá gefur hinn vinalegi öldungur, Konfúsíus, tvímælalaust mildari mynd af Kínaveldi út á við. Svip Mao brá hvergi fyrir á opnunarhátíð Ólympíuleikanna árið 2008 en mikið var um tilvitnanir í harmóníu og klassísk rit. Konfúsíusarstofnanirnar sem stofnað hefur verið til innan háskóla bera hróður heimsspekingsins víða um lönd. Flestir háskólar hafa tekið því opnum örmum að fá fjármagn og kennsluefni frá yfirvöldum í Kína til að efla kínverskukennslu og kynna kínverska menningu innan sinna raða. Í seinni tíð heyrast þó sífellt fleiri raddir sem kvarta undan því að stofnanirnar takmarki tjáningarfrelsið og fyrsti háskólinn til að loka Konfúsíusarstofnun af þeim sökum var McMaster háskóli í Kanada. Fleiri skólar hafa bæst í hópinn, nú síðast Stokkhólmsháskóli. (sjá frétt RÚV um málið hér).

Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins, Hua Chunying, hefur svarað þessum ásökunum og sagt að Konfúsíusstofnanir séu ,,brú sem tengir Kína við aðra heimshluta.” Hún leggur áherslu á að starfið sé opið og lúti gagnsæi. Í merkilegu viðtali sem fréttamaður BBC tók við áhrifakonuna Xu Lin kemur aftur á móti í ljós að ekki eiga allar spurningar við þegar fjallað er um Konfúsíusarstofnanir. Xu er forstöðukona Hanban, opinbers embættis sem hefur það að markmiði að efla og kynna kínverska tungu erlendis og hefur jafnframt umsjón með starfi Konfúsíusarstofnana um allan heim. Viðtalið má sjá hér:

Friðarverðlaun Konfúsíusar

Nafn Konfúsíus varð fyrir valinu þegar kínversk stjórnvöld komu á fót alþjóðlegum friðarverðlaunum, Confusius Peace Prize, árið 2010. Þetta var sama ár og kínverski uppreisnarmaðurinn Liu Xiaobo vann til Friðarverðlauna Nóbels, vægast sagt í mikilli óþökk kínverskra yfirvalda. Liu var hnepptur í hald til að koma í veg fyrir að hann gæti flogið til Osló og tekið á móti verðlaununum og í framhaldinu var hann dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir skoðanir sínar. Skömmu áður en heiðra átti Liu Xiaobo í Noregi voru Friðarverðlaun Konfúsíusar afhent í fyrsta sinn í Kína. Heiðurinn hlaut Vladimir Putin Rússlandsforseti fyrir að koma á ,,öryggi og stöðugleika” í Rússlandi. Þess má geta að verðlaunahafi árins 2014 var Fidel Castro.

Áhugi almennings og Hin heilaga borg Austurlanda fjær

Fyrir nokkrum árum keypti önnur okkar eintak af enskri útgáfu bókarinnar Confusius from the Heart í bókabúð í Shanghai en hafði þá ekki grun um gríðarlegar vinsældir hennar meðal heimamanna. Höfundurinn heitir Yu Dan og er prófessor við fjölmiðladeild Beijing Normal háskóla. Bókin, sem selst hefur í tugmilljónum eintaka, og vinsælir sjónvarpsþættir sem hún gerði um sama efni, hafa gert Yu að dægurstjörnu í Kína. Túlkun Yu Dan á konfúsisma er þó ekki óumdeild og einn efasemdarmaðurinn mun eitt sinn hafa mætt á bókakynningu hjá Yu Dan í bol með áletruninni ,,Konfúsíus er mjög áhyggjurfullur”. Staðreyndin er hinsvegar sú að Yu er einn tekjuhæsti rithöfundur Kína og tíður gestur á ráðstefnum. Bókin hefur verið þýdd á íslensku undir nafninu Heilræði hjartans.

Í seinni tíð er oft talað um að í Kína nútímans hafi skapast einskonar menningarlegt tómarúm sem efnahagsleg uppsveifla og aukin velsæld hafa ekki náð að fylla. Það gæti skýrt mikinn áhuga hinnar nýju kínversku millistéttar á eldri hefðum og þjóðmenningu, þar með talin heimspeki Konfúsíusar. Foreldrar innrita börnin sín í Konfúsíusarskóla þar sem börn niður í þriggja ára aldur læra kennisetningar utanbókar með því að þylja þær upp í hundruði skipta. Ferðamenn innanlands flykkjast í þau Konfúsíusarhof sem eftir standa í landinu og fylla þar út bænaspjöld. Munu mörg þeirra snúa að óskum um gott gengi í prófum, ekki síst hið margumtalaða inngöngupróf í kínverska háskóla.

Alþjóðlega Konfúsíusarhátíðin sem haldin er árlega í borginni Qufu í Shandong héraði nýtur sívaxandi vinsælda. Qufu er fæðingarborg heimsspekingsins og var fyrsta hátíðin haldin árið 2007. Þá fylltu þúsundir manna helsta vettvang hátíðarinnar sem skreyttur var með blöðrum með nafni Konfúsíusar og hlýddu á vinsæla popptónlist frá Kóreu. Í borginni er nú verið að byggja risavaxið Konfúsíusarsafn og samkvæmt upplýsingamiðstöð ferðamála í Jining héraði er framkvæmdin metin á 500 milljón yuan (um 80 milljónir bandaríkjadollara). Mun safnið, sem er rúmir 56 þúsund fermetrar að stærð, opna á þessu ári. Í markaðssetningu á Qufu er borginni líkt við Mekka og Jerúsalem og kölluð Heilög borg Austurlanda fjær (The Oriental Holy City). Gestir borgarinnar eru nú taldir í milljónum og þar með þegar mun fleiri en þeir sem heimsækja Ísrael á ári hverju. Ekkert lát er á sköpunargleðinni í ferðamálaráði Qufu borgar og í haust mátti lesa um nýjustu áformin í frétt á Xinhua. Þar kemur fram að unnið sé að því að mennta leiðbeinendur sem síðan munu fara um nágrannahéruðin og kenna konfúsisma. Boðið verður upp á kennslustundir á þorpstorgum, byggð bókasöfn og settar upp leiksýningar. Í fréttinni kemur fram að tilgangurinn sé að gera þekkingu á konfúsisma vinsæla, bæta lífsgæði þorpsbúa og skapa harmóníu í samfélaginu.

Í framtíðinni geta ferðamenn sem eru áhugasamir um Konfúsíus einnig lagt leið sína til Beidaihe. Þar hefur flokksmaður í kommúnistaflokknum og fyrrum foringi í kínverska hernum, Wang Dianming, komið upp 50 milljón yuan (um 8 milljónir bandaríkjadollara) skemmtigarði þar sem risavaxið líkneski af Konfúsíusi með útrétta arma hefur vakið athygli. Styttan er ekki í samræmi við stöðluðu útgáfuna, heilir 19 metrar á hæð og minnir helst á heimsþekkt líkneski af Kristi í Ríó de Janeiro í Brasílíu. Í viðtali við fjölmiðla sem birtist m.a. í The Japan Times, segir Wang: „Kínverski draumurinn nærist á einstakri menningu Kína og konfúsisma.” Í umfjölluninni segir einnig að á stalli styttunnar séu kínversk tákn, fyrir kínverska drauminn á framhliðinni, en á bakhliðinni er vitnað í sósíalíska hugmyndafræði. Þá tryggir lítil stytta af Mao í einu horni garðsins að öll hugmyndafræði kínverska ríkisins eigi sinn fulltrúa á staðnum.

Kínverskri draumurinn og konfúsismi

Síðan Xi Jinping tók við æðsta embætti í landinu snemma árs 2013 hefur hugmyndinni um kínverska drauminn vaxið fiskur um hrygg. Framtíðarsýn forsetans felur í sér einhverskonar endurfæðingu Kína á grunni framúrskarandi fortíðar. ,,Fyrir nokkrum árþúsundum síðan fetaði kínverska þjóðin slóðir sem voru frábrugðnar menningu og þróun annarra þjóða“ var haft eftir forsetanum í People´s Daily, opinberu málgagni kínverska kommúnistaflokksins, í október 2014. ,,Við ættum að virða og minnast óslitinnar 5000 ára menningarsögu Kína“ sagði hann ennfremur. Skömmu áður talaði Xi á ráðstefnu sem haldin var á vegum Alþjóðlegu Konfúsíusarsamtakanna í tilefni af 2565. afmælisdegi Konfúsíusar og sagði þá: ,,Framúrskarandi hefðbundin kínversk menning, þar með talinn konfúsismi, hefur að geyma mikilvægar vísbendingar til að leysa þau vandamál sem herja á mannkynið nú um stundir.“

En ekki hafa allir í Kína sama skilning á konfúsisma og kommúnistaflokkurinn, þar með talinn Li Ling, prófessor við Peking háskóla. Í bókinni Stray Dog: My Reading of the Analects gagnrýnir hann það sem hann kallar verksmiðjuframleiddan Konfúsíus og skrifar meðal annars: ,,Hinn sanni Konfúsíus, sá sem lifði, var hvorki kóngur né vitringur. Hann hafði hvorki vald né stöðu – aðeins siðgæði og fróðleik – og þorði að gagnrýna valdaelítu síns tíma.“ Li skrifar einnig að Konfúsíus hafi lifað eins og flækingur, fylgt eftir skoðunum sínum og stöðugt reynt að sannfæra valdamenn um réttlætið. Þegar bók Li kom út í maí árið 2007 var hún strax fordæmd af öðrum fræðimönnum, til dæmis af Jiang Qing, sem er áberandi maður í pólitískri túlkun á konfúsisma. Jiang kallaði Li Ling háðskan heimsendaspámann og sagði að hugmyndir hans væru ekki svaraverðar. Nóbelsverðlaunahafinn Liu Xiaobo var einn þeirra sem komu Li til varnar og varaði við því að átrúnaður á konfúsisma myndi leiða til þess að aðrar stefnur yrðu bannaðar.

harmony

Harmónía

Í þessu andrúmslofti getur verið snúið fyrir kínverskan almenning að finna réttu svörin og harmónískt faðmlag flokksins við konfúsisma er ekki óumdeilt í Kína. Manna á milli, í nokkru háði, hefur til dæmis orðið til nýtt orð. Þegar kínverska ritskoðunarvélin eyðir kommentum út af internetinu jafnharðan og þau birtast er talað um að ummælin hafi verið ,,harmóniseruð.”

Hvort harmónían sem kínverski kommúnistaflokkurinn boðar geti bjargað heiminum á eftir að koma í ljós. Fagnaðarerindið breiðist að minnsta kosti hratt út. Þegar hafa hátt á fimmta hundruð Konfúsíusarstofnana verið opnaðar í yfir hundrað löndum og stefnt er að því að þær verði orðnar 1000 árið 2020.

 

Lokað vegna fyrirmenna

Ráðstefna um gagnkvæm samskipti og ráðstafanir til að byggja upp traust í Asíu gæti hún kallast á íslensku ráðstefnan sem er haldin hér í Shanghai í dag, 21. maí. Til þess að háttsettir herramenn frá fjörutíu löndum innan Asíu (kvenkyns fulltrúar setja ekki mikinn svip á ráðstefnuna) geti farið óheftir um borgina hefur athafnafrelsi þeirra 24 milljón manna sem hér búa verið skert. Skólastarf liggur niðri, stórir vinnustaðir eru lokaðir og varað er við miklum umferðartöfum vegna lokana á helstu samgönguæðum á vissum tímum dags. Heyrst hefur að öll vændishús borgarinnar séu lokuð í viku og í dag voru margar vinsælar búðir sem selja ólöglega mynddiska lokaðar. Íbúar sumra svæða mega sætta sig við að komast ekki til og frá heimili sínu þegar þessir mikilvægu menn fara um og þeim sem búa í húsum sem snúa í átt að áfangastöðum stórmennanna hefur verið bannað að opna glugga. Til að tryggja að allir fari eftir reglunum eru lögreglumenn á nánast hverju götuhorni. Brynvarðir sérsveitarbílar gefa til kynna mikilvægustu staðina og einkennisklædd lögregla stendur vörð um neðanjarðarlestarkerfið. Þúsundir sjálfboðaliða í appelsínugulum vestum standa auk þess vaktina víðsvegar um borgina.

133349557_14006436679581n

Íburðarmiklar blómaskreytingar, auglýsingaborðar á ljósastaurum við helstu umferðargötur, stóraukin löggæsla og sýnilegar sérsveitir hafa á undanförnum vikum gefið til kynna að mikið stæði til í Shanghai. Fram til þessa hefur þessi ráðstefna, sem nú er haldin í fjórða sinn, látið lítið yfir sér. Samkvæmt frétt í South China Morning Post eru margir ráðstefnugestir hálf hissa á hversu mikið hefur verið gert úr fundinum hér í Kína. Á móti kemur að Kínverjar eru iðulega stórtækir í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur og er þá skemmst að minnast Expo heimssýningarinnar sem haldin var í Shanghai árið 2010.

Asískir ráðamenn hafa streymt til Kína á síðustu dögum og sé mark takandi á sjöfréttum rásar eitt í kínverska sjónvarpinu tekur Xi Jinping Kínaforseti á móti hverjum og einum með viðhöfn. Opinberar móttökuathafnir fara venjulega fram í höfuðborginni Beijing en hér í Shanghai er vettvangurinn innan Xijiao garðsins. Hefð er fyrir því að æðstu menn í kínverska kommúnistaflokknum gisti þar (þar með talinn Mao formaður) þegar þeir dvelja í borginni. Innan garðsins má finna margskonar móttökurými, veitingastaði, veislu- og fundarsali, hótel og gistibústaði auk forsetabústaðarins.

Garðurinn er í fimm mínútna göngufjarlægð frá heimili annarrar okkar. Það fer ekkert á milli mála í hverfinu þegar einhver mikilvægur heimsækir Xijiao garðinn og engar ferðir utanaðkomandi eru leyfðar um þetta umfangsmikla svæði. Útlendingar hafa þó komist upp með að fara þar í gegn ef vel stendur á, ekki síst ef þeir eru á skokki, og það er óhætt að segja að hvorki sé til friðsælli né fegurri garður í borginni.

xijiao2

Síðustu tveir dagar hafa verið annasamir í Xijiao garðinum, rauðum dreglum hefur verið rúllað út og skotið úr fallbyssum fyrir bæði forseta Kazakstan og Rússlands, hugsanlega fleiri. Mesta athygli fær Vladimir Pútin, sjónvarpsfréttirnar sýndu myndir frá komu hans í gær og hann er á forsíðu allra helstu netmiðla og dagblaða í dag. En þegar Xi Jingping, Pútin, Ban Ki-moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna, og 38 aðrir höfðingjar bruna um göturnar í Shanghai raskast líf almennra borgara. Þannig hafa til dæmis margir í nágrenni Xijiao garðsins verið lokaðir inni í hverfum sínum þegar bílalestirnar fara hjá. Vinkona okkar sem býr í næsta nágrenni garðsins komst ekki á réttum tíma til að sækja dóttur sína í skólann í gær þar sem hliðið að hennar eigin hverfi var lokað á meðan bílalest Pútíns keyrði framhjá. Engum var leyft að fara út á götuna, hvorki á bíl, fótgangandi né á hjóli.

kaz

xijiao

Fyrirmennin voru greinilega einnig á ferðinni í miðborginni í gær því þangað streymdu brynvarðir bílar og hertrukkar. Önnur okkar átti, ásamt syni sínum, erindi í verslunina Zöru við Torg fólksins, Peoples Square, í hjarta Shanghai síðdegis í gær. Torgið sjálft var afgirt og alveg lokað og mikil öryggisgæsla allt í kring. Búið var að loka nálægum veitingastöðum en flestar verslanir virtust opnar. Zara var opin en óvenju fáir viðskiptavinir voru inni í búðinni. Nóg var af sjálfboðaliðum og óeinkennisklæddum lögreglumönnum og það var hálf ónotalegt að vera einu viðskiptavinirnir á efri hæðinni þar sem einn slíkur fylgdist vel með hverri hreyfingu. Þegar haldið var fótgangandi heim á leið, tók það helmingi lengri tíma en venjulega því að búið var að loka göngubrú sem gerir gangandi umferð kleift að fara yfir hraðbrautina, Yanan Road, sem sker borgina endilanga frá austri til vesturs. Það er ekki auðvelt að komast yfir þessa götu, sem er á tveimur hæðum, og vegfarendur þurftu að taka á sig mikinn krók. Það var greinilegt að Shanghaibúum var ekki skemmt, sumir reyndu að malda í móinn en lögreglan svaraði fullum hálsi og bandaði almúganum frá.

collageshanghai

Nokkuð er síðan tilkynnt var að skólum í Shanghai yrði lokað 21. maí vegna ráðstefnunnar. Lengi vel leit þó út fyrir að alþjóðlegu skólarnir myndu komast upp með að bindast böndum um að halda skólastarfi og ferðum skólabílanna til og frá skóla gangandi. Á síðustu stundu neyddust stjórnendur skólanna þó til að láta í minni pokann fyrir yfirvöldum. Öll skólabörn í Shanghai eru því heima í dag nema þeir nemendur sem eru að taka alþjóðleg stúdenstspróf þessa dagana. Þeim þurfti að ,,smygla” inn í skólana svo hægt væri að halda alþjóðlegri áætlun.

020140515014952

Fæstir sem hér búa skilja almennilega um hvað þessi fyrirferðarmikla ráðstefna snýst og enn síður hvers vegna borgin hefur verið vopnavædd í nafni öryggis. Í gær heyrði önnur okkar á tal tveggja kvenna í matvöruverslun sem fjórir lögreglumenn vöktuðu. Önnur kvennanna, sem greinilega var frá Belgíu, sagði að það væri nú ekki gott ef slíkar ráðstafanir yrðu gerðar í hvert sinn sem þjóðhöfðingi kæmi til Brussel. Kínverskur vinur okkar sagði að vinur hans sem býr í fjármálahverfinu í Pudong væri á síðustu dögum búinn að þurfa að sanna tilvist sína og búsetu svo oft fyrir lögreglumönnum í hverfinu að honum væri farið að líða eins og hann væri í stofufangelsi. Þegar farið er í neðarjarðarlestina er eins og allir séu þar í lögguleik, allar töskur eru skannaðar og umferðarlögreglan í sparibúningum gengur um og spyr fólk um skilríki. Áætlanir yfirvalda virðast hafa gengið eftir því yfirbragð borgarinnar er mjög rólegt í dag og flestir virðast hafa ákveðið að halda sig heima við. Og ekki er ósennilegt að boðið verði upp á skemmtidagsskrá í sjónvarpinu í kvöld, að minnsta kosti var heilmikil dans- og söngvasýning á dagskrá í gær með þá félaga Xi Jingping og Pútín á fremsta bekk áhorfenda. Meðal annars komu fram söngvarar í þjóðbúningi frá Tíbet sem sungu hugljúfa söngva með hina frægu Potala höll í Lhasa í bakgrunni.

IMG_5014

Erlendir fjölmiðlar reyna, að því er virðist, í nokkurri örvæntingu að skilja um hvað Fourth Summit of Conference on Interaction and Confidence Building Measures in Asia, CICA ráðstefnan í Shanghai snýst, til dæmis virðist óljóst hvers vegna hér eru nú samankomnar fjörutíu Asíuþjóðir en ekki allar hinar. Flestir virðast vera að komast að þeirri niðurstöðu að hér hafi verið sköpuð heppileg umgjörð utan um sögulega samstarfssamninga milli Rússlands og Kína, en saga þjóðanna hefur oft áður fléttast saman í Shanghai. Xi Jinping og Pútín, sem báðir hafa verið fyrirferðarmiklir í alþjóðlegum fréttum undanfarið vegna deilna við nágrannaþjóðir, Rússar í Úkraníu og Kínverjar í landshelgisdeilu við Japani, Filippseyjar og Víetnam, standa nú í kastljósi kínverskra fjölmiðla eins og hetjur á asísku herrakvöldi.

Fyrir okkur sem hér búum er það tilhlökkunarefni að þessum pólitískum hátíðahöldum lýkur í kvöld og valdamenn með tilheyrandi öryggisgæslu halda aftur til síns heima í Beijing, Astana, Ashgabat, Teheran, Moskvu eða öðrum borgum. Þá fyrst mun okkur finnast Shanghai örugg á ný.

photo-38

 

 

 

Ísland í augum almennings í Kína

Þegar það berst í tal hér í Kína að maður sé frá Íslandi heyrir það til undantekninga ef viðmælandinn þekkir ekki landið. Kínverska þjóðin virðist vel með á nótunum þegar Ísland er til umræðu og margir minnast þá á bankahrunið. Þótt hlutfallslega fáir Kínverjar hafi heimsótt Ísland þá tengja það margir við náttúrufegurð og muna eftir að hafa séð landslagsmyndir í fjölmiðlum. Aðrir muna eftir Íslandi úr landafræðitímum þar sem utanbókarlærdómur vegur þungt í kunnáttu nemenda.

world-map-chinese

Landafræði

Kínverjar eru góðir í landafræði og hún er líka það fyrsta sem kínverskum viðmælendum okkar dettur í hug þegar við ákváðum að grennslast fyrir um þekkingu þeirra á Íslandi. Við höfðum oft heyrt þá skýringu að landið væri fólki ofarlega í huga vegna nafnsins, en á kínversku heitir það bīng dǎo, en bein þýðing þess er ís-eyja. Það er ekki algengt í kínverskri tungu að lönd beri svo lýsandi nöfn. Algengari eru heiti þar sem fyrsti stafurinn í nafni landins er notaður og orðinu guó, sem þýðir land, síðan skeytt við. Þannig heitir Frakkland á kínversku fà guó og Þýskaland dé guó (Deutschland). Algengt er líka að erlend nöfn landa séu einfaldlega borin fram með kínverskum framburði eins og dān mài (Danmörk) og bō lán (Pólland). Ein kona sem við töluðum við sagði að líklega myndu svona margir vel eftir Íslandi úr landafræðibókunum vegna þess hve auðvelt er að læra nafn Íslands utanbókar: ,,maður getur séð fyrir sér ísinn og snjóinn.” Annar viðmælandi benti á að margir Kínverjar væru með landakort uppi á vegg heima hjá sér og þekktu því vel staðsetningar hinna ýmsu þjóðlanda á heimskortinu.

China in Arctic :  Iceland flag on Tiananmen square during visit of  Johanna Sigurdardottir

Fjármálakreppa

Algeng skýring sem viðmælendur okkar gáfu á frægð Íslands í Kína er hversu áberandi umfjöllun um fjármálakreppuna hefur verið í kínverskum fjölmiðlum. Fréttum af bankahruninu á Íslandi árið 2007 var slegið upp af kínverskum fréttastofum eins og í fjölmiðlum víða um heim. Þótt almennt fari lítið fyrir erlendu efni í klukkutímalöngum aðalfréttatíma kínverska ríkissjónvarpsins, eða um 5-10 mínútur daglega að sögn eins viðmælanda okkar, þá fékk hrun íslenska hagkerfisins mikla athygli. Einn viðmælandi okkar mundi vel eftir því að fréttir af fjármálahruninu á Íslandi hefðu birst í fréttum dag eftir dag á sínum tíma.

Fjölmiðlaumfjöllun hér í alþýðulýðveldinu endurspeglar ætíð viðhorf stjórnvalda og mikill áhugi á bankahruninu á Íslandi er varla tilviljun. Augljóslega fylgdust kínversk fjármálayfirvöld vel með framvindunni og í heimsókn íslenska seðlabankastjórans til kollega hans í Beijing árið 2009 var lagður grunnur að gjaldeyrisskiptasamningi við Kína. Skrifað var formlega undir samninginn á Íslandi sumarið 2010. Gagnrýnisraddir heyrðust og þótti sumum óljóst með hvað hætti væri verið að liðka fyrir viðskiptum við kínverska ríkið þar sem enginn veit hvernig Kínverjar munu nýta sér sinn hluta af samingnum. Aðrir töldu að mestu skipti að samningurinn væri traustyfirlýsing frá stórveldinu Kína og myndi efla tiltrú á íslenska hagkerfinu. Í fyrra flutti forseti Íslands ræðu á Bessastöðum þar sem hann þakkaði gestum sínum, sem voru stjórnmálaleiðtogar frá Kína, fyrir að hjálpa Íslendingum að sigrast á fjármálakreppunni en aðrir hafa viðrað áhyggjur þar sem stefnt virðist að frekari gjaldeyrisskiptasamningum milli Ísland og alþýðulýðveldisins.

Heimsóknir þjóðhöfðingja

Heimsóknir forseta Íslands hingað til Kína árin 2005, 2007, 2008 og 2010 voru talsvert til umfjöllunar hér. Kínverskir viðmælendur okkar mundu eftir forseta Íslands úr kínversku sjónvarpi, dagblöðum og netmiðlum og sjálfar munum við eftir að hafa séð fréttir af einni heimsókninni á forsíðu dagblaðins Shanghai Daily.

Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var forsætisráðherra Íslands, komst einnig á forsíðu Shanghai Daily þegar hún heimsótti Kína á síðasta ári. Þeir viðmælendur okkar sem muna eftir Jóhönnu verða dálítið vandræðalegir þegar þeir segja að heimsókn hennar hafi fengið mjög mikla athygli vegna þess að hún sé samkynhneigð. Ein kona bætir feimnislega við; ,,Ísland er mjög opið land” og á þá sennilega við að íslenska þjóðin sé frjálslynd í málefnum samkynhneigðra.

johannabeijing

Það verður að segjast eins og er að það er dálítið skrýtin tilfinning að vera Íslendingur hér í þessu risastóra landi og sjá forsíðumynd af íslenskum þjóðhöfðingjum í blaðastandi við kassann í matvörubúðinni, rétt eins og um stórveldaheimsókn væri að ræða. Á móti kemur að hinir ýmsu þjóðarleiðtogar Afríkuríkja, sem líkt og Íslendingar geta varla talist til mestu áhrifavalda í heiminum, birtast líka reglulega á forsíðum kínverskra dagblaða. Hér í Kína myndi maður heyra þá útskýringu að hér sé siður að koma eins fram við allar þjóðir, hvort sem þær eru stjórar eða smáar.

Grímsstaðir

Ekki er hægt að tala um samband Íslands og Kína án þess að minnast á Huang Nubo. Sé tekið mið af viðmælendum okkar hafa fréttir af Grímsstaðamálinu vakið gríðarlega athygli meðal almennings í Kína. Ein kona sagði að hún myndi eftir fjölmörgum fréttum ,,um manninn sem vildi kaupa jörð á Íslandi en var hafnað af íslenskum stjórnvöldum. Hann vildi kaupa landið og gera að ferðamannastað til að draga kínverska ferðamenn til Íslands vegna hreina loftsins og vatnsins og til að sýna þeim náttúru landsins. Hann hafi séð þetta sem góðan framtíðar business því fleiri og fleiri Kínverjar vilji ferðast um heiminn.” Og konan bætir því við að þetta síðasta sé alveg satt. Flestir viðmælendur sem minntust á landakaupin vissu af andstöðu íslenskra stjórnvalda. Enginn var þó viss um endanlega niðurstöðu málsins og flestir töldu að aðeins formsatriði stæðu í vegi fyrir að Huang Nubo eignaðist jörðina. Eða eins og einn viðmælandinn sagði; ,,það býr hvort sem er enginn þarna, er það nokkuð?”

Fríverslun og norðurslóðir

Aðrir atburðir tengdir Íslandi sem fólk mundi eftir úr kínverskum fjölmiðlum voru fríverslunarsamningurinn og norðurslóðir en þó töldu sumir almennan áhuga á því síðarnefnda ekki mikinn. Eins og fram kom í máli eins viðmælanda vekja sögur af landakaupum til að byggja golfvöll á Íslandi miklu meiri áhuga. Allir sögðu að fréttir um Ísland væru ætíð á jákvæðum nótum og nefndi einn sem dæmi að Ísland væri eitt af fyrstu löndum í heiminum til að gera fríverslunarsamning við Kína. Hann taldi að áhersla fjölmiðla væri á vinskap á milli landanna en sagði jafnframt að það sama gilti ekki um allar þjóðir og minnist í því sambandi á neikvæðar fréttir í kínverskum fjölmiðlum um lélega kennara í Bretlandi. Í eitt skipti spurðum við viðmælanda okkar hvort hann gæti rifjað upp fréttir um önnur lönd og tókum Svíþjóð sem dæmi. Eftir stutta umhugsun svaraði hann að í fljótu bragði gæti hann ekki munað eftir neinum fréttum um Svíþjóð.

Til að draga þetta saman virðist sem Kínverjar þekki vel til Íslands vegna þess hve vel þeir eru að sér í landafræði og hafa lært að þekkja lönd heimsins utanbókar. Auðvelt er að læra nafn Íslands og landið er því mörgum í fersku minni. Fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna ára hefur auk þess vakið athygli á landinu vegna fjármálakreppunnar, þjóðhöfðingja, fríverslunarsamningsins og Huang Nubo. Ferðir um norðurslóðir koma eitthvað við sögu og í kínverskum fjölmiðlum er lögð mikil áhersla á mikla vináttu á milli þjóðanna.

orgxi

Ólíkt spjalli annarra þjóða

Þegar búið er í alþjóðasamfélagi útlendinga í Kína er eðlilegur hluti af daglegu lífi að tala um hvaðan fólk kemur og oft er spjallað um lönd og þjóðir. Þegar Ísland á í hlut eru eldgos og  Eyjafjallajökull oft það fyrsta sem fólki dettur í hug. Auðvitað vita líka allir um fjármálakreppuna og ruglið í íslensku bönkunum en flestir kunna ekki við að tala mikið um svo pólitísk mál. Fólk beinir talinu frekar í jákvæðar áttir og Björk, Sigur Rós og Of Monsters And Men eru vinsælt og þægilegt umræðuefni.

Við gerð þessarar óformlegu könnunar á viðhorfum almennings í Kína til Íslands kom það okkur því dálítið á óvart að aðeins einn kínverskur viðmælandi okkar minntist á eldgos þótt gosið í Eyjafjallajökli hafi komst í fréttir hér sem annarsstaðar. Enginn viðmælanda minntist heldur á tónlist, en það þarf þó ekki að koma á óvart þar sem hér er annar menningarheimur. Ólíkt því sem gerist með öðrum þjóðum barst tal Kínverjanna heldur ekki oft að veðráttunni á Íslandi þótt þeir tengi nafn landsins óneitanlega við að þar hljóti að vera ískalt.

Samskiptin við Kína í íslenskum fjölmiðlum

Umfjöllun kínverskra fjölmiðla um samskipti Íslands og Kína mótar almenningsálitið og virðist keimlík þeirri sem margir íslenskir ráðamenn boða og er því miður oft étin upp gagnrýnislaust í íslenskum fjölmiðlum. Að einhverju leyti að má því kannski segja að íslenska þjóðinni sitji undir sama áróðri og sú kínverska. Ekki sér fyrir endann á daðri íslenskra yfirvalda við alræðisstjórnina í Beijing og fyrir nokkrum dögum hafði Xinhua ríkisfréttaveitan það eftir utanríkisráðherra Íslands að óskað sé eftir enn frekara samstarfi milli þjóðanna, meðal annars við vísindarannsóknir á norðurslóðum. Fréttin birtist hér á netsíðu Xinhua þann 5. mars og sagt var frá henni hér á RÚV fimm dögum síðar án þess að til frekari umfjöllunar kæmi.

Við Íslendingar njótum þeirrar gæfu að geta tjáð skoðanir okkar og höfum frjálsan aðgang að upplýsingum á Íslandi. Sama gildir ekki um almenning í alþýðulýðveldinu Kína sem leyfir sér ekki að viðra pólitískar skoðanir og býr við mikla ritskoðun eins og við fjölluðum nýlega um hér. Þrátt fyrir upplýsingafrelsi á Íslandi virðast staðhæfingar og áróður kínverskra yfirvalda renna gagnrýnislaust niður hjá íslenskum ráðamönnum. Skiljanlegt er að fyrirtæki og einstaklingar sjái Kína sem spennandi vettvang sé horft til framtíðar, það skiljum við vel sem hér búum. Það virðist hinsvegar afar óljóst hvert stefnt er í margvíslegri samvinnu milli íslenskra stjórnvalda og flokksherranna í Beijing. Erfitt er að sjá fyrir sér mikið jafnvægi á því sviði og enn síður að litla Ísland mun ráða þar ferðinni.

Stórveldi í ritskoðun

Sjónvarpsstöðin CNN í Asíu sýnir mánaðarlega áhugaverða þáttaröð, sem kallast On China, þar sem eitt ákveðið mál sem hefur verið ofarlega á baugi er skoðað ofan í kjölinn. Þátturinn í febrúar fjallaði um blaðamennsku í Kína. Þetta hentaði okkur vel þar sem við höfðum í hyggju að skrifa um ritskoðun hér á blogginu. Önnur okkar ákvað að horfa á þáttinn á sunnudagskvöldi og settist fyrir framan sjónvarpið rétt áður en hann átti að hefjast. Á skjánum voru auglýsingar en svo varð allt svart og útsendingin var rofin. Efnið var greinilega of viðkvæmt til þess að hægt væri að leyfa þeim sem hér búa að horfa á þáttinn. Óneitanlega kaldhæðið en svona er lífið í Kína, í draumalandi margra ráðamanna á Íslandi í dag. Þetta gerði umfjöllun á blogginu enn meira viðeigandi og þar sem CNN fjallaði einnig um efni þáttarins á sinni heimasíðu, gátum við leitað heimilda þar.

Stjórnvöld stýra fréttaflutningi

Fjölmiðlun er ekki frjáls hér í Kína og er landið eitt af verst stöddu ríkjum í heiminum hvað frelsi fjölmiðla varðar eða í 175. sæti af 180 þjóðum á lista sem samtökin Blaðamenn án landamæra gefa út.

carte2014_-press-freedom-index

Í okkar huga hefur ástandið farið versnandi á undanförnum árum og einn af gestum On China, Charles Hutzler yfirmaður skrifstofu The Wall Street Journal í Beijing sem er með yfir tuttugu ára reynslu af blaðamennsku hér, er greinilega sömu skoðunar og sagði ritskoðun hafa verið herta til muna á undanförnum árum. Hann benti á að ástandið væri sérlega slæmt á landsbyggðinni og í minni borgum þar sem myndavélar eru jafnvel teknar og eyðilagðar ef stjórnvöld á staðnum vilja koma í veg fyrir að fjallað sé um ákveðin mál. Aðrir gestir þáttarins, Peter Ford forseti félags erlendra blaðamann í Kína og Ying Chan prófessor í fjölmiðlafræði við Hong Kong háskóla, tóku undir þetta og fram kom að það er ákaflega erfitt að afla upplýsinga um það sem er að gerast í landinu hvort sem um er að ræða mál tengd stjórnvöldum eða aðra fréttanæma atburði.

Stjórnvöld nota ýmsar aðferðir við að beita fjölmiðla og fréttamenn þrýstingi. Í fyrra refsuðu stjórnvöld fréttastofum The New York Times og Bloomberg fyrir að fjalla um persónuleg fjármál æðstu manna í kommúnistaflokknum. Refsingin fólst í að loka vefsíðum þeirra í Kína og draga fram á síðustu stundu að endurnýja dvalarleyfi fréttamanna án nokkurra skýringa. Enn bíða þrír starfsmenn New York Times eftir dvalarleyfi.

Önnur aðferð sem stjórnvöld nota er að veita fréttamönnum eftirför og gera þannig þrýstinginn sýnilegan og stundum eru þeir jafnvel heimsóttir og þeim hótað beint. Hutzler sagðist kannast við hvoru tveggja en segir þó fyrst og fremst innlenda blaðamenn lenda í slíku og að þeir eigi á hættu að vera reknir úr starfi eða jafnvel fangelsaðir ef þeir fara út fyrir þann ramma sem stjórnvöld setja fréttamiðlum, sem oft er ansi þröngur. Í þættinum kom einnig fram að fréttamenn hafi oft miklar áhyggjur af öryggi innlendra heimildamanna sinna því hvorki þeir né kínverskir blaðamenn geta flúið land, líkt og erlendir fréttamenn geta, ef nauðsyn krefur.

Tvö nýleg dæmi um ritskoðun

Fréttamönnum frá BBC og CNN var beinlínis ýtt burt með valdi þegar þeir þóttu koma of nálægt inngangi dómhússins þar sem verið var að dæma í máli Xu Zhiyong, lögfræðings og aðgerðasinna sem barist hefur gegn spilingu í Kína. Fyrir þá sem áhuga hafa á að fræðast meira um hans mál þá fjallaði RÚV um það á dögunum. Hér má sjá myndband af því þegar fréttamaður BBC var að reyna að flytja fréttir af málinu en fékk engan frið fyrir óeinkennisklæddum lögreglumönnum.

Annað skýrt dæmi um ritskoðun yfirvalda birtist eftir hnífaárásina þann 1. mars á lestarstöðinni í Kunming í Yunnan héraði þar sem 29 manns létu lífið og yfir 130 særðust. Þá sendu stjórnvöld frá sér tilkynningu til fjölmiðla þar sem þeim var sagt að ef fjalla eigi um árásina eigi að styðjast við opinbera útgáfu Xinhua fréttastofunnar af atburðunum. Ekki megi nota stórar fyrirsagnir eða birta ljótar myndir. Fjölmiðlar voru svo beðnir að staðfesta mótttöku tilkynningarinnar. Samtökin Blaðamenn án landamæra hafa fordæmt þessa ritskoðun.

Netið, Weibo og WeChat

Tækniþróun undanfarinna áratuga gerir ritskoðun snúnari en áður, því erfitt er að ráða við internetið. Hér er það þó reynt eftir fremsta megni og fjölmargar síður eru bannaðar, til dæmis Facebook og Twitter svo ekki sé minnst á síður sem fjalla um viðkvæm málefni. Við höfum komið inn á þessi mál áður í færslunni Ósýnilegi Kínamúrinn.

Ritskodun1Vefmiðillinn Weibo hefur verið einn helsti vettvangur þjóðfélagslegrar umræðu og gagnrýni hér í Kína um nokkurt skeið. Honum má kannski helst líkja við Twitter, fólk setur þar fram sínar skoðanir og getur póstað myndum. Snjallsímaeign er orðin algeng og aðgangur almennings að netinu hefur því gjörbreyst á stuttum tíma. Weibo er opinn fyrir óskráða notendur að hluta til og fréttamenn hafa oft komist á snoðir um fréttir í gegnum miðilinn.

Rétt eins og með aðra ritskoðun þá hafa yfirvöld hert til muna eftirlit með Weibo á undanförnum árum og það hefur það fælt marga frá. Sumir segja að þar hafi vendipunkturinn verið sú mikla ritskoðun sem yfirvöld viðhöfðu þegar tvær nýjar háhraðalestir rákust á rétt við borgina Wenzhou (ekki langt frá Shanghai) árið 2011 með þeim afleiðingum að fjórir vagnar féllu af sporinu og 40 manns létust og að minnsta kosti 192 slösuðust. Viðbrögð stjórnvalda eftir slysið voru með ólíkindum, allt var gert til að fela sannleikann og þagga niður í gagnrýnisröddum og jafnvel gengið svo langt að reynt var að grafa vagnana í jörðu. Gagnrýnisfærslur um atburðinn á Weibo hurfu jafnhratt og þær birtust. Þessi mikla ritskoðun hefur síðan loðað við Weibo og orðið til þess að æ fleiri hafa snúið sér að WeChat sem er annars konar miðill, líkari Facebook að því leyti að færslur eru ekki opnar á netinu heldur aðgengilegar vinum. Í On China kom fram að sjálfstæðir fjölmiðlar í Kína hafa verið að koma sér fyrir á WeChat sem er þó einnig ritskoðað.

Það er mikil mótsögn fólgin í að á meðan að kínversk stjórnvöld og fyrirtæki hafa haslað sér völl á alþjóðavísu er upplýsingaflæði á heimavígstöðvunum í algjöru lágmarki. Þegar fyrirtæki eru skráð á markaði fylgir því ákveðin upplýsingaskylda og það hafa fréttamenn nýtt sér í óþökk kínverskra yfirvalda, sér í lagi þegar fjallað er um persónuleg fjármál háttsettra einstaklinga. Spurningin er hversu lengi stjórnvöld geta komist upp með ritskoðun af því tagi sem viðhöfð er hér í Kína, hvort sem er innávið eða gagnvart alþjóðasamfélaginu.

Í ritskoðuðu samfélagi verða þegnarnir færir í að lesa á milli línanna og einnig úr því sem ekki er sagt en þá er auðvitað hættan á oftúlkun og misskilningi til staðar. Traust á fjölmiðlum hverfur. Nien Cheng lýsir þessu ástandi ágætlega í bók sinni Life and death in Shanghai, bók sem er alveg þess virði að lesa. Ritskoðun er hluti af menningarheimi Kínverja og þó sumir kunni við henni ýmis ráð þá eru áhrifin á kínverska þjóð augljós hverjum þeim sem hér dvelur til lengri tíma.

Annað sem vert er að hafa í huga er hættan á sjálfsritskoðun, fólk spyr sig hverju það er tilbúið að fórna fyrir sannleikann. Þetta á við um alla sem hér búa eða eiga einhverra hagsmuna að gæta. Sem betur fer eru alltaf einhverjir hugsjónamenn sem þora að taka áhættuna og segja það sem þeim býr í brjósti.

Að læra um friðsamlega frelsun Tíbets

Það er afskaplega áhugavert, en oft og tíðum erfitt, að búa í menningarheimi sem er gerólíkur þeim sem maður hefur alist upp í. Útlendingar í Shanghai búa að vissu leyti í sinni eigin veröld, einhvers konar sér samfélagi við hlið þess kínverska. Og þá skiptir ekki máli hvaðan manneskjan kemur, hún er útlendingur eða wai guo ren. Útlendingasamfélagið er þó auðvitað ekki einangrað og reglulega dettur aðkomumaðurinn inn í kínverskan heim. Þá gerast oft skrýtnir hlutir. Allir eru mótaðir af sinni menningu og Íslendingar sjá hlutina með sínum íslensku augum. Hér verður því lýst þegar íslensk kona settist á skólabekk með öðrum útlendingum til að læra um kínverska sögu og menningu hjá kínverskum kennara, sem að sjálfsögðu er einnig barn síns samfélags. Úr varð furðuleg blanda.

Þegar konan frá Íslandi var nýflutt til Shanghai ákvað hún að fara á námskeið um menningu og sögu Kína. Það var haldið í skóla sem býður útlendingum upp á alls konar fræðslu, ekki ósvipað og námsflokkarnir gerðu á Íslandi. Námskeiðið kostaði um 70.000 íslenskar krónur, kennt var einu sinni í viku í tíu vikur, þrjá tíma í senn. Konan hafði lesið sér til um skólann og vissi að kennarinn var vel menntaður með mikla kennslureynslu úr kínverskum menntaskólum. Það var því með mikilli tilhlökkun sem konan frá Íslandi mætti fyrsta kvöldið, hún var spennt að fræðast um sín nýju heimkynni og hún vonaði að þetta yrði einnig góður vettvangur til að kynnast nýju fólki sem væri í sömu sporum og hún, vinafá í framandi landi.

Konan var fimm mínútum of sein í fyrsta tímann og kennslan var hafin þegar hún kom. Kennarinn, hnellin og brosmild kínversk kona á besta aldri, lét eins og hún sæi ekki þennan nýja nemanda þegar hann læddist skömmustulegur inn. Í kennslustofunni sátu fyrir sjö konur og einn karl, fólk á ýmsum aldri, öll vestræn í útliti. Kennarinn var að fara yfir dagskrá námskeiðsins, hún var greinilega óörugg og enskan hennar ekki góð. Hún þuldi dagskrána upp eins og hún væri að lesa upp úr símaskránni. Sú íslenska varð hissa á að ekki hefði verið byrjað á léttum nótum, þar sem nemendur hefðu til dæmis kynnt sig og sinn bakgrunn.

Að loknum lestri dagskrárinnar dembdi kennarinn því út úr sér, stundarhátt, að á námskeiðinu yrði boðið upp á umræður um t-in þrjú, og átti þá við Tíbet, Taiwan og Tiananmen eða Torg hins himneska friðar, þar sem það ætti við. Hún tilkynnti líka að það yrði ekki víst að nemendum myndi líka hennar skoðanir. Svo klikkti hún út með því að segja að útlendingar vildu alltaf ræða þessi mál. Hún reyndist heppin með þennan hóp því flestir voru nýkomnir til Kína, kurteisir gestir sem greinilega treystu sér ekki í miklar rökræður. Einungis tvær konur í hópnum höfðu ensku að móðurmáli, enska hinna var misgóð. Það var helst að eini Bandaríkjamaðurinn maldaði í móinn þegar kennarinn skellti fram skrýtnum staðhæfingum en andrúmslofið bauð aldrei upp á gefandi umræður. Flestir horfðu bara niður þegar við átti og stundum heyrðist stöku fliss.

Konan frá Íslandi varð miður sín þarna á þessum fyrstu mínútunum þegar hún áttaði sig á því að hún var búin að borga 70.000 krónur fyrir námskeið sem mundi á engan hátt standast væntingar. Þegar leið á fyrsta tímann rann þó upp fyrir henni að hún mundi sennilega læra heilmikið um menningu og sögu Kína, bara á allt annan hátt en hún hafði búist við. Hún ákvað að halda sig til hlés, skrifa niður allt sem fram fór og gera sína eigin litlu rannsókn.

Dagskrá námskeiðsins var metnaðarfull og í fyrsta tímanum var gefin eins konar yfirlitsmynd af Kína þar sem farið var í landafræði landsins, fjallað um íbúa þess og sögu. Vandlega var farið yfir helstu keisaradæmin, allir keisarar og ártöl þulin upp. Íslenska konan tók eftir því að kennarinn horfði aldrei á einstaka nemendur, heldur yfir hópinn og oftast einblíndi hún á skjávarpatjaldið. Hún leit oft á klukkuna. Þetta breytist ekkert þann tíma sem sú íslenska sat í tímum.

Þegar kom að Tíbet varpaði kennarinn þeirri spurningu yfir hópinn hvort að Tíbet væri hluti af Kína en greinilegt var að hún ætlaðist ekki til að nemendur svöruðu. Í þeim töluðum orðum dreifði hún hefti til nemenda, fjórum þéttskrifuðum A4 blöðum með litlu letri og línubili. Fyrirsögnin var “History of Tibet” og undir henni stóð “For 700 years part of China.” Svo settist hún í kennarastólinn án þess að segja nokkuð. Flestir byrjuðu að lesa, það var greinilega það sem ætlast var til þó að engin fyrirmæli hefðu verið gefin. Íslenska konan gat það ekki, henni misbauð svo þó ekki væri nema bara fyrir kennsluaðferðina. Hún sat á fremsta bekk, ýtti blaðinu til hliðar og reyndi að ná augnsambandi við kennarann. Það tókst ekki. Þá fór sú íslenska að lesa tölvupóst í símanum sínum. Sumir virtust lesa, öðrum leið greinilega ekki vel. Eftir um tíu mínútur stóð kennarinn upp og sýndi nemendum myndrænt hvernig Tíbet er eins og egg hænunnar Kína á korti. Hún var augsýnilega stolt af Tíbet og reigði sig eins og montinn hani þegar hún lýsti hæstu fjöllum í heimi, Himalajafjöllunum.

Tíbet1

Heftið sem nemendur áttu að lesa lýsir því hvernig Tíbet hefur verið hluti af Kína síðan 1279 í gegnum Yuan, Ming og Qing ættarveldin og raunar óslitið allt fram til dagsins í dag. Hvergi er minnst á sjálfstæði Tíbet og orðið sjálfstæði kemur ekki fyrir. Ekkert er heldur fjallað um útlegð Dalai Lama. Kennarinn fór yfir þessa sögu í fljótheitum. Hún sagðist aldrei hafa komið til Tíbet en að landið væri hernaðarlega mikilvægt því erfitt væri að komast að Kína þeim megin frá. Þar væru einnig upptök mikilvægra áa. Hún sagði jafnframt að frelsun Tíbet hefði verið friðsamlegt stríð þar sem einungis nokkur hundruð dóu. Einn nemandinn spurði hvort ekki væri rétt að gefa fólkinu í Tíbet kost á því að kjósa um það hvort landið ætti að tilheyra Kína eða ekki. Kennarinn taldi kosningar ekkert leysa. Þessari umfjöllun um Tíbet lauk með því að kennarinn lýsti því hvernig dvöl svona hátt uppi, eins og Tíbet liggur, er erfið fyrir hjartað og að þess vegna ráðleggi læknar konum sem þangað vilja fara að vera búnar að eiga sín börn.

Eftir fræðsluna um friðsamlega freslun Tíbets fengu nemendur fimm mínútna pásu. Svo var haldið áfram þar sem frá var horfið. Konan frá Íslandi hélt áfram að fylgjast með og skrifa niður það sem fram fór en eftir því sem leið á tímana þrjá og upptalningin endalausa á staðreyndum hélt áfram var þolinmæðin næstum þrotin. Hún var farin að iða í sætinu sínu og gat ekki beðið eftir að komast út í heitt og rakt haustkvöldið.

Hér má sjá minnismerki sem Kínverjar reistu um friðsamlega frelsun Tíbets í Lhasa:

Tíbet3

Heftið sem kennarinn dreifði er stytt útgáfa af þessum texta.

Skrautlegur sjónvarpsáróður

Kínversku nýárshátíðinni lýkur í dag. Hátíðin, sem Kínverjar kenna við vorið, stendur yfir í fimmtán daga ár hvert. Fimmtándi dagurinn er haldinn hátíðlegur, ekki ósvipað og þegar jólin eru kvödd á þrettándanum. Dagurinn er kenndur við ljósker enda er þá til siðs að kveikja á pappírsluktum og ganga með þær um götur. Ljóskerin eru send upp í himingeiminn og gömul trú segir að þau vísi villuráfandi öndum leiðina heim.

ljosker

Við ætlum aftur á móti að nota tilefnið til að senda út á netið nokkur eftirminnileg myndbrot úr kínversku sjónvarpi.

Fyrst er að nefna atriði sem hlotið hefur mikla athygli og er úr hátíðarskemmtiþætti kínverska sjónvarpins 30. janúar. Þátturinn er sendur út um allt Kína og er þar með sá sjónvarpsþáttur heimsins sem mest áhorf hefur. Yfir 700 milljónir manna fylgdust með þessari fjögurra klukkustunda löngu dagskrá á meðan beðið var eftir að ár hestsins gengi í garð á miðnætti. Og í jafnlangan tíma sneri ung kínversk dansmær sér á sjónvarpssviðinu sem tákn um líðandi stund og árstíðaskiptin. Stúlkan heitir Wei Caiqi og er frænka hinnar víðfrægu dansmeyjar Fang Liping sem er hálfgerð goðsögn hér í Kína og þekkt fyrir geysifagra og óvenjulega dansa. Snúningsdans hinnar fimmtán ára gömlu frænku hennar vakti mikla athygli og ekki voru allir jafn hrifnir. Var jafnvel talað um grimmd í kínverskum netheimum. Sjálf líkti Wei gjörningnum við hugleiðslu í athugasemd á eigin samskiptasíðu.

Sjónvarpsgalað er mikil áróðurs- og skrautsýning og skemmtiatriðin af ýmsum toga; dans, grínatriði, leikur og söngur. Þátturinn hefur verið sendur út á þessum tímamótum frá árinu 1983 en í ár var í fyrsta sinn í sögunni aðili utan ríkissjónvarpsins ráðinn til að stýra þættinum. Fyrir valinu varð þekktur gamanmyndaleikstjóri að nafni Feng Xiaogang. Reynt var að höfða meira til ungu kynslóðarinnar og aðkoma kóresku poppstjörnunnar Lee Min-ho var augljóslega liður í því. Flutningur frönsku leikkonunnar Sophie Marceau og kínverska listamannsins Liu Huan á franska slagaranum La vie en rose ljáði þættinum einnig alþjóðlegra yfirbragð. Það kom því nokkuð á óvart þegar dansflokkur frá kínverska þjóðarballettinum fyllti sviðið og dansaði byltingarkenndan kommúnistaballett í búningum rauðu varðliðanna. Í viðtali í kínverska sjónvarpinu sagði sýningarstjóri ballettflokksins að hún væri mjög ánægð að dansararnir hefðu fengið þetta tækifæri til að koma fram og að ákveðið hefði verið að helga atriðið fortíðinni og hylla um leið klassíkina.

Skömmu síðar var komið að baráttusöngvum með þjóðlegu hernaðarívafi.

Allt verður að pólitískum áróðri hér í Kína og yfirvöld í Peking hafa nú gengið svo langt að gera áramótaþáttinn að svokölluðu þjóðarverkefni en opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking árið 2008 var einmitt skilgreind á sama hátt. Þetta þykir sýna hversu mikilvægur þátturinn er í augum stjórnvalda.

Á vefsíðu NTD sjónvarpsstöðvarinnar í New York sver Feng, leikstjórinn vinsæli sem var valinn til að stýra þættinum í ár, þess eið að hann muni aldrei aftur taka að sér slíkt verkefni. Hann segir að eftir að hann tók við stjórn þáttarins hafi samstarfsmenn hans verið farnir að halda að hann væri ekki heill á geði. Á sama stað segir að Feng hafi viljað ögra yfirvöldum með því að bjóða rokkaranum Cui Jian, sem sumir kalla föður kínverska rokksins, að koma fram í þættinum. Cui Jian sem er á bannlista kínverska kommúnistaflokksins þáði boðið en fór fram á að syngja lagið ,,Nothing to my name” sem fjallar um vanda ungu kynslóðarinnar í Kína eftir dauða Mao formanns og stúdentana sem létu lífið í óeirðunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Sumir fjölmiðlar segja að fallist hafi verið á Cui Jian flytti lagið ef hann myndi breyta textanum. Rokkarinn hafði engan áhuga á slíku samkomulagi en kannski má segja að tilganginum hafi verið náð þar sem málið beindi sjónum að ritskoðun stjórnvalda á þættinum.

NTD sjónvarpstöðin var stofnuð af amerískum Kínverjum og veitir oft annað sjónarhorn á gang mála í Kína en ríkisfjölmiðlarnir hér í Alþýðulýðveldinu gera. Þar er haft eftir Yang Hengjun, sem er ritstjóri kínverskrar útgáfu ástralska dagblaðsins Sydney Times, að þátturinn sem eigi að vera fólki til skemmtunar, sé fullkomlega pólitískur og smitaður af þjóðernislegum áróðri og heilaþvotti. Í þessari sömu frétt NTD um áramótaþáttinn er skáldið Ye Kuangzheng inntur eftir áliti og kallar hann þáttinn árlega trúarathöfn stjórnmálanna og segir hann áróðurstæki til að dreifa pólitískum goðsögum um kommúnistaflokkinn. Hann segir að þegar hann heyrði að Feng Xiaogang hefði verið fenginn til að stýra þættinum í ár hefði hann haft að orði að jafnvel þótt sjálfur Chaplin væri fenginn til að leikstýra hefði honum ekki tekist að breyta neinu.

Dæmi nú hver fyrir sig því þótt Youtube sé bannað í Kína er þar að finna fjölmörg myndbönd með atriðum úr nýársþættinum. Fyrir þá þolinmóðustu er meira að segja hægt að horfa á rúmlega fjögurra klukkustunda útgáfu af þættinum öllum hér.

Fjárfesting í erlendu vegabréfi

Það voru nær eingöngu Kínverjar á flugvellinum í Vancouver þegar önnur okkar var stödd þar fyrir skemmstu. Sem er ekkert skrýtið, þetta er í byrjun febrúar og kínverska nýárshátíðin stendur sem hæst. Auk þess búa um 400 þúsund kínverskir innflytjendur í kanadísku borginni. Kínverjar hafa lengi verið áberandi i Vancouver, margir fluttu þangað frá Hong Kong eftir að yfirvöld í Beijing tóku við stjórn bresku nýlendunnar, og á allra síðustu árum hafa innflytjendur frá meginlandi Kína streymt til borgarinnar í tugþúsundatali.

Þennan sama dag má lesa í dagblaðinu South China Morning Post (SCMP), sem gefið er út í Hong Kong, að komið sé í ljós að vegabréfsáformum kanadíska yfirvalda hafi verið kollvarpað af kínverskum milljónamæringum. Svokallaðar fjárfestingaráritanir til Kanada hafa verið eftirsóttar meðal efnafólks í Kína en fjöldi umsókna var orðinn svo mikill að kanadísk yfirvöld ákváðu árið 2012 að frysta verkefnið.

Vancouverskyline

Frá Kína til Kanada

Árið 1984 gerðu Bretar og Kínverjar með sér samkomulag sem fól í sér að yfirráðin yfir Hong Kong myndu færast til Beijing árið 1997. Í kjölfarið ríkti mikil óvissa um framtíðina meðal Hong Kong Kínverja. Margir kusu að flytjast búferlum til annarra landa. Kanada var eitt þeirra ríkja sem stóð þeim opið og yfir 300 þúsund íbúar Hong Kong fluttu þangað á níunda og tíunda áratugnum. Flestir komu sér fyrir í Vancouver og kannski lögðu þeir þar með grunn að kínversku samfélagi í borginni, að minnsta kosti sækjast langflestir Kínverjar sem flytja til Kanada eftir búsetu þar.

Fólksflutningarnir frá Hong Kong náðu hámarki um 1994 en eftir 1998 fór að hægjast um og eftir aldamótin 2000 hefur fjöldi innflytjenda frá Hong Kong til Kanada að meðaltali verið um 500 á ári. En þótt færri Hong Kong búar sækist nú eftir búferlaflutningum til Kanada hafa umsóknir um dvalarleyfi sem berast kanadísku rædismannaskrifstofunni í Hong Kong aldrei verið fleiri. Talið er að 99% umsækjanda séu frá Alþýðulýðveldinu og tugþúsundir auðkýfinga frá meginlandi Kína hafa lagt inn umsóknir um svokallaða fjárfestingarleið (Investor Visa).

Fjárfest í vegabréfi

Kanada og fleiri lönd bjóða þeim sem eiga næga peninga að fjárfesta í landinu og fá í staðinn vegabréf. Um háar fjárhæðir er að ræða og í raun aðeins á færi milljónamæringa að komast yfir nýtt ríkisfang á þennan hátt. Til þess að geta sótt um í kanadíska prógramminu þurfa peningaeignir viðkomandi að vera metnar á að minnsta kosti 1,6 milljónir Kanadadollara (tæpar 170 milljónir íslenskra króna) og lána þarf Kanadastjórn helminginn af þeirri upphæð, eða 800 þúsund dollara, vaxtalaust í fimm ár. Í staðinn fær milljarðamæringurinn dvalarleyfi fyrir sig og fjölskyldu sína og að þremur árum liðnum geta þau síðan sótt um ríkisfang.

Árið 2012 voru 3.643 slíkar fjárfestingaráritanir samþykktar á heimsvísu samkvæmt frétt SCMP. Rannsókn blaðsins leiddi einnig í ljós að umsóknum til sendiskrifstofu Kanada í Hong Kong fjölgaði úr 520 árið 2002 í 34.427 árið 2012. Stjórnvöld í Kanada ákváðu að hækka peningaviðmiðin árið 2010 og í kjölfarið mun eitthvað hafa dregið úr fjölda umsókna. Eftir sem áður voru áhugasamir langtum fleiri en ráðið varð við og brugðust Kanadamenn við með því að gera hlé á afgreiðslu allra slíkra umsókna árið 2012.

CanadaPause1-400x270

Í frétt SCMP segir að 110.813 manns frá meginlandi Kína og 3.305 frá Hong Kong hafi fengið dvalarleyfi í Kanada frá árinu 2010. Flestir sækjast eftir skráningu í British Columbia fylki á austurströndinni og tugþúsundir efnaðra Kínverja hafa keypt sér húsnæði í Vancouver sem er stærsta borg fylkisins. Þetta hefur haft í för með sér mikla hækkun á fasteignaverði í borginni og fram hafa komið áhyggjur af félagslegum og efnahagslegum áhrifum þessara miklu, og fremur einsleitu, fólksflutninga á svæðið. Þá er það ekki síður áhyggjuefni að margir setjast þarna að einungis að nafninu til því margir Kínverjar sem sækjast eftir kanadísku vegabréfi halda áfram að búa og starfa í Kína.

Kanadíska leiðin hefur verið langvinsælasta aðferð kínverskra auðkýfinga til að öðlast erlent ríkisfang. Kínverskar umsóknir til Kanada eru fleiri en til Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu til samans, en þau lönd bjóða einnig upp á slíkar fjárfestingarleiðir.

Strangari reglur

Samkvæmt nýjustu fréttum hafa stjórnvöld í Kanada ekki aðeins gert hlé á afgreiðslu fjárfestingarvegabréfa, heldur hafa nú einnig verið samþykkt ný lög í kanadíska þinginu sem munu hafa mikil áhrif á málaflokkinn í framtíðinni. Nýju lögin gera ráð fyrir að innflytjendur verji meiri tíma í landinu, fylli strax út skattskýrslur og að þeir skrifi undir samning þess efnis að þeir hyggist búa í landinu í framtíðinni ef þeir vilja gerast ríkisborgarar. Einnig verða gerðar meiri kröfur um tungumálakunnáttu og gert er ráð fyrir strangari viðurlögum komist upp um svik við umsóknarferlið. Í SCMP er vitnað í Chris Alexander, ráðherra innflytjendamála, sem segir að stjórnvöld séu einfaldlega að fara fram á að þeir sem sæki um ríkisfang í landinu gefi loforð um að búa í Kanada og haft verði auga með þeim sem leggja inn villandi umsóknir. Lögheimili er skilgreint á nýjan hátt í lögunum og kröfur um að umsækjendur eyði meiri tíma í landinu eru hertar til muna. Tíminn sem dvalið er í Kanada áður en umsóknin er lögð fram telst ekki lengur með. Eða eins og kanadíski ráðherrann orðar það: Eina leiðin til að kynnast þessu landi er að dvelja hér og upplifa það.

harry´sview

Ávísun á betra líf

Líklegt er að auknar kröfur Kanadastjórnar muni fæla marga Kínverja frá því að sækjast eftir kanadískum ríkisborgararétti enda virðist markmið margra ekki endilega að búa í Kanada, heldur að komast yfir kanadískt vegabréf. Erlendur ríkisborgarararéttur opnar dyr að mörgum gáttum sem kínverskir ríkisborgarar hafa ekki aðgang að. Til dæmis veitir kanadískur passi viðkomandi rétt til að setjast að í Hong Kong og í frétt SCMP kemur fram að þar búi nú 295 þúsund Kanadamenn. Margir teljast vafalaust til þeirra sem á sínum tíma yfirgáfu landið vegna yfirtöku Kína en hafa snúið aftur eftir að ljóst varð að Hong Kong myndi áfram njóta sérstöðu. Þeir Kínverjar sem snúa til Alþýðulýðveldisins með kanadískt vegabréf geta hagað lífi sínu öðruvísi en áður, þeir verða reyndar útlendingar í eigin landi þar sem ekki er hægt að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt í Kína, en ef nægir eru peningarnir skiptir það ekki máli. Börnin þeirra eiga kost á að ganga í alþjóðlegan skóla, þeir fá jafnvel aðgang að betri íbúðahverfum og vegabréfinu fylgir aukið frelsi, til dæmis til ferðalaga. Í alþjóðlegum skólum hér í Shanghai eru fjölmörg kínversk börn með erlendan passa. Þau kenna sig þá gjarnan við vegabréfslandið, sem oftast er Kanada eða Bandaríkin, þótt þau hafi kannski aldrei komið þangað né eigi þar ættingja. Önnur ástæða fyrir því að efnafólk frá Kína sækist eftir erlendu ríkisfangi er að það opnar möguleika á fjárfestingum erlendis sem þykja tryggari en heimafyrir þar sem allt er háð alræði kommúnistastjórnarinnar.

OB-XC848_0418CR_G_20130418020456

Kínverjar eru stór hluti af íbúum jarðar og augljóst að þeir munu hafa áhrif víðar en í heimalandinu á næstu árum og áratugum. Það er að mörgu leyti skiljanlegt að fólk hér í Alþýðulýðveldinu vilji komast í burtu og njóta tækifæra sem ekki gefast undir alræðisstjórn. Og þá er gripið til ýmissa ráða. Þannig eru til að mynda fjölmörg dæmi þess að kínverskir foreldrar ferðist til Bandaríkjanna til að eignast barn. Þar er það stjórnarskrárbundinn réttur að allir sem fæðast á bandarísku yfirráðasvæði eigi rétt á bandarísku ríkisfangi. Þetta notfæra margir Kínverjar sér, konurnar fljúga yfir hafið til að fæða og snúa skömmu síðar aftur heim með útlending. Þótt barnið hafi þar með engin réttindi í Kína skiptir það ekki máli því ef peningar eru til staðar má skapa barninu framtíð sem venjulegt kínverskt alþýðubarn á enga möguleika á.

Í SCMP kemur fram að yfir 45 þúsund kínverskir auðkýfingar bíði þess að umsóknir þeirra um að flytja til British Columbia í Kanada verði afgreiddar. Auðæfi þeirra eru gríðarleg og spurning hvort yfirvöld í Kanada hafi efni að hafna þessum nýju ríkisborgurum. Á sama hátt má spyrja hvort Kína hafi efni á að missa slíka fjármuni úr landi en ekki er gott að segja hvort slíkar fréttir séu álitnar neikvæðar eða jákvæðar af kínverskum stjórnvöldum. Í öllu falli er ljóst að í augum meginlandsbúa liggur leiðin til Kanada í gegnum Hong Kong því fáar umsóknir um fjárfestingarleiðina berast til sendiráðs Kanada í Beijing.

Uppfært: Í gær á kanadískum tíma, sama dag og við birtum þessa færslu, lýsti fjármálaráðherra Kanada því yfir að fjárfestingarleiðin verði afnumin. Umsóknum 46 þúsund kínverskra milljónamæringa verður eytt og fá þeir umsóknargjaldið endurgreitt.

Hukou kerfið

Hún ljómar þessa dagana, kona sem við þekkjum hér í Shanghai, því nú hefur fjölskyldan sameinast. Hún og maðurinn hennar fluttu úr sveitinni til borgarinnar fyrir tíu árum og hafa búið hér síðan. Þau skildu sex ára son sinn eftir hjá ættingjum, yfirgáfu heimahéraðið og komu til Shanghai í von um betri lífsafkomu. Draumurinn var að vinna sér inn næga peninga svo að þau gætu snúið heim aftur, keypt sér betra húsnæði og séð fjölskyldunni farborða. Síðan eru liðin tíu ár og ýmislegt óvænt hefur komið upp, eins og gengur og gerist í lífinu. Þau fundu bæði vinnu, hann sem kokkur í mötuneyti hjá kínversku fyrirtæki og hún sem heimilishjálp, oftast hjá útlendingum sem búið hafa í borginni. Fyrir sex árum varð konan ófrísk og þá þurfti hún að fara heim til að eiga barnið. Dóttirin fæddist heilbrigð og fín og eftir stutta dvöl í sveitinni snéri konan aftur til borgarinnar og nú voru það tvö börn sem skilin voru eftir hjá ættingjum í heimahéraðinu.

Til að gera langa sögu stutta má segja að líf hjónanna hafi einkennst af mikilli vinnu fjarri ættingum og vinum, en þau hafa þó hvort annað. Börnin sín hafa þau hitt einu sinni á ári, stundum tvisvar. Þau hafa yfirleitt komið til Shanghai í sumarfríinu en það hefur samt verið erfiðleikum bundið því hjónin vinna bæði langan vinnudag og því hefur drengurinn þurft að passa litlu systur sína. Hjónin eiga hvorugt rétt á fríi, þau eru upp á góðvild vinnuveitanda komin hvað það varðar. Konan hefur verið heppin því útlendingarnir sem hún hefur unnið fyrir fara oft heim á sumrin og þá fær hún frí að mestu leyti og getur verið með börnunum. Hjónin hafa líka stundum farið heim yfir kínverska nýárið og þá hitt börnin og aðra ættingja og vini en það hefur verið kostnaðarsamt og þau hafa því sjaldan leyft sér þann munað. Fyrir stuttu flosnaði drengurinn þeirra upp úr skóla og flutti til foreldra sinna í borginni í leit að tækifærum rétt eins og þau fyrir tíu árum. Hann er nú farinn að vinna sem aðstoðarkokkur á veitingastað sextán ára gamall. Fyrir nokkrum dögum kom svo dóttirin ásamt föðurafa sínum til Shanghai og þau ætla að dvelja hjá fjölskyldunni yfir kínverska nýárið. Fjölskyldan er því sameinuð í nokkrar vikur og það er því ekki skrýtið að konan ljómi.

Saga þessarar fjölskyldu er ekkert einsdæmi. Á undanförnum áratugum hafa orðið gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar hér í Kína. Í kjölfar efnahagsbreytinganna sem hófust árið 1978 hefur ungt vinnufært fólk þyrpst í borgir í leit að vinnu og betri lífsafkomu sér og sínum til handa. Gamalt fólk og börn verða eftir í sveitunum, sjá um eignir fjölskyldunnar og bíða þess að endurheimta þá fjölskyldumeðlimi sem freistuðu gæfunnar. Sveitir Kína eru fullar af öldruðu fólki, börnum og ungmennum. Fyrir okkur, sem komum úr allt öðru umhverfi, er erfitt að skilja hvað fær foreldra til að yfirgefa börn sín og skilja þau eftir í umsjá annarra árum saman og sjá þau kannski ekki nema einu sinni á ári. En ástæðan er einföld, kerfið býður ekki upp á annað og þar á hukou búsetuskráningarkerfið stóran þátt.

Upphaf hukou kerfisins

Þó að Kínverjar hafi í gegnum aldirnar haldið skrár um íbúa landsins er hukou búsetuskráningarkerfið, sem þróaðist á fimmta áratug síðustu aldar, allt annars eðlis. Því var komið á laggirnar af kommúnistum, eftir að þeir komust til valda, í þeim tilgangi að stjórna flæði fólks um landið. Kerfið var hannað að sovéskri fyrirmynd og átti það að hjálpa til við að hraða iðn- og nútímavæðingu landsins. Bændur áttu að vera í sveitunum og framleiða mat fyrir þá sem unnu í verksmiðjunum í borginni. Borgarbúarnir fengu lág laun fyrir vinnu sína en það var bætt upp með ókeypis menntun, heilsugæslu, eftirlaunum og skömmtunarseðlum fyrir mat og öðrum nauðsynjum.

Heimili voru skráð á ákveðnum stað og á þeim stað átti fjölskyldan að vera allt sitt líf. Þjóðinni var skipt í tvennt og þeir sem bjuggu í sveitum fengu sveitahukou á meðan að þeir sem bjuggu í borgum fengu borgarhukou. Borgarbúar nutu áðurnefndra réttinda og höfðu því ákveðin forréttindi. Fólkið í sveitunum fékk afnot af landskika sem það ræktaði innan stærri samyrkjubúa og innan þeirra átti öll þjónusta að rúmast. Bændur, sem voru um 80% þjóðarinnar, réðu engu um sitt líf, hvorki hvað þeir ræktuðu né hversu mikið. Þeir voru dæmdir til að framleiða mat fyrir borgarbúana auk þess að vinna að ýmsum framkvæmdum á vegum ríkisins. Líf þeirra var algjörlega samofið samyrkjubúinu og þeir máttu ekkert eiga sjálfir.

Fólk gat ekki flutt, því öll réttindi voru bundin þeim stað þar sem viðkomandi var skráður, annarstaðar var engin réttindi að fá og heldur ekki mat því hann var skammtaður. Það var ekki hægt að fara út í búð og kaupa mat að vild fyrir peninga því sérstaka skömmtunarseðla (liangpiao) þurfti til að kaupa nauðsynjavörur. Hvert hérað/borg var með sérstaka gerð af slíkum seðlum og því var ekki auðvelt að fara á milli svæða. Í landinu ríkti því eins konar efnahagsleg aðskilnaðarstefna. Á meðan lifðu flokksforingjarnir í Peking með Mao í broddi fylkingar í vellystingum og gátu farið hvert á land sem var.

Hukou2

Hukou kerfið lifir enn góðu lífi

Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá er hukou kerfið enn við lýði hér í Kína og enn þann dag í dag hefur það áhrif á líf fólks. Nú er hægt að ferðast á milli staða án þess að svelta, enda ódýrt vinnuafl ein af forsendum efnahagsbatans á undanförnum áratugum, en öll félagsleg þjónusta og réttindi eru þó enn bundin við þann stað þar sem fólk er skráð. Allt þetta gerir flutninga á milli svæða erfiðari en áhrifin eru þó mismunandi eftir því hver á í hlut og peningar og tengsl skipta þar öllu máli.

Ríka fólkið þarf auðvitað minna á félagslegri þjónustu að halda, þar sem flest af því sem hér hefur verið talið upp er hægt að kaupa. Þeir sem eiga næga peninga geta jafnvel keypt sér hukou, en það er miserfitt eftir borgum og erfiðast í þeim stærstu. Ein leiðin er að fara í gegnum ríkisfyrirtækin. Sum þeirra fá árlega ákveðinn fjölda af hukou sem þau geta úthlutað til starfsmanna. Stundum eru “afgangskvótar” ríkisfyrirtækja seldir á uppsprengdu verði í gegnum umboðsskrifstofur og þá geta þeir sem eiga peninga keypt sér hukou.

Menntafólk sem flytur til borganna til að vinna fær tímabundið dvalarleyfi í gegnum vinnuveitendur en ekki er um eiginlegt hukou að ræða. Fyrirtækin borga ennfremur oft heilsutryggingar fyrir sína starfsmenn svo að þeir geti nýtt sér heilbrigðisþjónustu í borginni. Þetta fólk þarf þó að sækja ýmsa þjónustu í heimahéraðið, eins og að fá vegabréf, vegabréfsáritanir, öll vottorð og slíkt. Kína er stórt land og því getur þetta verið mjög tímafrekt og kostnaðarsamt. Réttindin verða heldur aldrei þau sömu og hjá þeim sem hafa hukou í borginni. Aðgengi að skólum fyrir börn er til dæmis ekki það sama, þeir skólar sem bestir eru taldir hér í Shanghai krefjast þess að báðir foreldrar hafi Shanghai hukou. Í höfuðborginni Peking þurfa þeir sem eru að kaupa íbúð, og ekki hafa hukou, að framvísa skattaskýrslum fimm ár aftur í tímann og auk þess þarf að sýna fram á góðar tryggingar. Aðeins þeir sem hafa hukou í Peking mega kaupa fleiri en eina íbúð. Þar eru einnig takmarkanir á því að kaupa bíla, fá ellilífeyri, rétti til félagslegra íbúða, aðgengi að skólum og fleiru.

Sá hópur sem finnur mest fyrir þessari skiptingu eru þeir sem minnst hafa, þeir sem þurfa mest á félagslegri þjónustu að halda, farandverkafólkið sem dvelur oft í borgunum án allra réttinda. Það eru börnin þeirra sem eru skilin eftir heima í héraði vegna þess að þau geta ekki gengið í skóla í borginni.

Hukou1

Sögur frá Shanghai

Á undanförnum árum hefur dregið úr miðstýringu hér í Kína og því marka borgirnar sjálfar nú sína stefnu í búsetumálum. Þeim er því misjafnlega háttað á milli staða. Við höfum spurt nokkra sem við þekkjum hér í Shanghai um þeirra hukou mál en í borginni búa um 23 milljónir og þar af hafa um 13 milljónir Shanghai hukou. Það eru því um 10 milljón manns sem búa hér án þess að hafa hukou. Kerfið hefur því áhrif á gríðarlega marga, en mismikil eftir stöðu og stétt eins og áður sagði.

Ung kona í góðri stöðu sem við töluðum við sagðist ekki hafa hukou hér þó að hún væri gift manni frá Shanghai. Þau hjónin eiga einn son og þar sem foreldrar geta í dag valið um hvort barn fær hukou föður eða móður völdu þau að drengurinn fengi hukou í Shanghai. Hukou erfist frá foreldrum og því er ekki sjálfgefið að þó að barn fæðist hér í Shanghai að það fái hér hukou. Sjálf sagðist unga konan geta sótt um hukou í borginni eftir að hafa verið gift manni sínum í ákveðinn árafjölda, en ekki væri hægt að ganga að neinu vísu í þeim efnum. Hún sagði að stundum væri hægt að fá Shanghai hukou í gegnum vinnuveitanda, ef unnið væri hjá ríkisfyrirtæki, og svo væru nýjar reglur sem leyfðu fólki að sækja um hukou eftir sjö ára samfellda dvöl í borginni. Umsækjendur eru þá metnir eftir ákveðnu punktakerfi og þeir sem þykja hæfastir geta dottið í lukkupottinn.

Ungur velmenntaður karlmaður sem hefur dvalið í Shanghai í nokkur ár sagði okkur að sér liði oft eins og útlendingi í eigin landi vegna þessara hukou mála. Hann er giftur og á unga dóttur og hann er þegar farinn að kvíða því hvað gerist þegar hún eldist og þarf að taka hið alræmda inntökupróf í háskóla. Það þarf hún nefnilega að gera í héraðinu þar sem þau eiga sitt hukou, þó dóttirin hafi aldrei búið þar. Inntökuprófið er mismunandi eftir héruðum/borgum og því er best að sækja menntaskóla í sama héraði og prófið er tekið.

Önnur leið sem alltaf virðist fær hér í Kína, er að kaupa sér leið út úr vandamálunum. Hjónin sem við sögðum frá hér í upphafi eiga tvö börn, en eins og allir vita mega langflest hjón einungis eiga eitt barn. Við spurðum konuna hvort að dóttirin hefði við fæðingu fengið hukou í þeirra heimahéraði þó að hún væri þeirra annað barn. Hún sagði að þau hjónin hefðu þurft að kaupa það hukou. Þau hefðu verið heppin og þekkt aðila sem vann við búsetuskráninguna og því fengið það ódýrt. Dóttirin gæti því gengið í skóla og fengið aðra samfélagsþjónustu í þeirra heimasveit. Hún sagði að með hverju barni umfram eitt þyrfti að borga fyrir hukou og að það yrði dýrara eftir því sem börnunum fjölgaði. Hún sagði okkur frá kunningjahjónum sínum sem eiga fimm börn, fyrst fæddust fjórar stúlkur og loks kom drengurinn sem beðið var eftir. Fjölskyldan hafði ekki efni á að borga hukou fyrir allan þennan skara og lét því skrá dæturnar á heimilum vina og ættingja sem einungis voru með eitt barn á sínu framfæri. Þetta var hægt í þeirra heimahéraði en gengi trúlega ekki í Shanghai.

Margir hafa kallað eftir breytingum á hukou búsetukerfinu, kerfinu sem neyðir margar milljónir til að búa við óöryggi og aðskilnað frá nánustu fjölskyldumeðlimum. Hingað til hafa breytingarnar verið ótrúlega hægar.

Spillingin í skipafélaginu

Nú þegar hið íslenska Eimskip hefur skrifað undir framtíðarsamkomulag við kínverska skipafélagið Cosco er freistandi að fara yfir það helsta sem sést hefur á prenti um þetta kínverska félag og móðurfélag þess, ríkisreknu samsteypuna China Ocean Shipping Group, eða Cosco Group.

cosco

Cosco er annað af tveimur stórum skipafélögum kínverska ríkisins og mun vera það fimmta stærsta í heimi. Nafn þess hefur komið nokkuð við sögu í alþjóðlegum fréttum á síðustu misserum vegna umfangsmikilla kaupa þess á hafnarmannvirkjum í Grikklandi. Fyrirtækið hefur einnig komist í sviðsljósið vegna tapreksturs og spillingar meðal yfirmanna. Fjölmiðlar í Kína og erlendis hafa fjallað um lélega afkomu Cosco tvö ár í röð, árið 2011 og 2012. Efnahagskreppan í heiminum á að hafa valdið afleitri afkomu fyrirtækisins. Málið vakti athygli ekki síst fyrir þá sök að fyrirtækinu var hótað afskráningu í kauphöllinni í Shanghai ef það bætti ekki afkomu sína. Til þess kom þó ekki og sýnt var fram á betri afkomu Cosco fyrir árið 2013, eftir því sem sumir segja með sölu eigna og tilfæringum innan samsteypunnar.

Spillingarmál hafa vakið enn meiri athygli á Cosco en lélegur reksturinn. Eins og oft vill verða í Kína eru upplýsingar um slík mál af skornum skammti en komið hefur fram að frá árinu 2011 hafi fjórir framkvæmdastjórar í þremur starfsstöðvum samsteypunnar verið látnir sæta rannsókn vegna spillingar. Margir eru sannfærðir um að rannsóknirnar séu hluti af herferð stjórnvalda gegn spillingu í landinu, þeirri sem Xi Jinping forseti boðaði þegar hann var settur í embætti á síðasta ári. Herferðin felst í því að berjast gegn víðtækri spillingu í kínversku samfélagi enda er hún talin geta ógnað framtíð kommúnistaflokksins.

Í yfirlýsingu frá móðurfyrirtækinu Cosco Group hefur komið fram að þar á bæ styðji menn af öllum mætti herferð kommúnistaflokksins gegn spillingu og sætti sig því við vera undir smásjá fjölmiðla og almennings. Þegar Xu Minjie, einn valdamesti maður fyrirtækisins, var sakaður um misferli í nóvember á síðasta ári birtist yfirlýsing á vefsíðu samsteypunnar. Þar kom fram að Xu sætti rannsókn viðeigandi yfirvalda en það myndi ekki hafa nein áhrif á rekstur fyrirtækisins. Sem gæti komið á óvart þar sem Xu gengdi þremur mikilvægum stöðum innan samsteypunnar; sem varaforstjóri China Ocean Shipping Group, varaframkvæmdastjóri Cosco Holding og framkvæmdastjóri Cosco Pacific. Frekari upplýsingar um málið var ekki að finna í tilkynningunni en í skilaboðum fyrirsækisins til kauphallarinnar í Hong Kong í janúar kom aftur á móti fram að Xu Minjie hefði sagt upp störfum af persónulegum ástæðum.

Fleiri yfirmenn hjá Cosco hafa verið sakaðir um spillingu. Nokkrum mánuðum áður en Xu komst í fréttirnar höfðu kínverskir ríkisfjölmiðlar birt fréttir af Meng Qinglin sem sætti rannsókn vegna spillingar í júlí. Meng Qinglin var framkvæmdastjóri Cosco Dalian sem sinnir rekstri tanksskipa og misferlið er talið tengjast kaupleigu á skipum. Nokkrum dögum síðar sagði Ma Zehua, núverandi forstjóri Cosco samsteypunnar, að það hefðu vissulega verið einhver vandræði með Cosco Dalian en skýrði það ekki frekar. Meng hætti síðan störfum hjá Cosco Dalian í janúar vegna aldurs, sextugur að aldri. Á fundi þar sem tilkynnt var um starfslokin mun framkvæmdastjórn fyrirtækisins hafa sagt að þeir kynnu vel að meta framlag Meng sem hafði unnið hjá fyrirtækinu í áratugi. Og það þótt sagan segi að starfsorka Meng hafi að mestu farið í að byggja upp sinn eigin rekstur á meðan hann var enn við störf hjá Cosco. Ekki þykir ólíklegt að svipað hafi legið að baki þegar varaframkvæmdastjóri Cosco í Qingdao, Song Jun, komst í fréttirnar árið 2011 þegar hann var handtekinn vegna gruns um spillingu. Ekki fer þó frekari sögum af því.

Frægastur þeirra Cosco kappa sem komist hafa í sviðsljósið vegna gruns um spillingu er fyrrverandi forstjóri samsteypunnar, Wei Jiafu, gjarnan kallaður Kapteinn Wei. Hann er einn áhrifamesti viðskiptamaður Kína og mun hafa notið mikillar virðingar innan skipabransans sem æðsti yfirmaður í stærsta skipafélagi landsins. Þegar sögur fóru á stjá síðasta sumar um að Wei hefði verið bannað að fara úr landi meðan á rannsókn á starfssemi Cosco samsteypunnar stæði yfir, þótti ljóst að spillingarrannsóknin hefði teygt anga sína alla leið á toppinn. Talsmenn fyrirtækisins sögðu reyndar að þetta væru bara kjaftasögur sem blöðin væru að birta en engu að síður lét kapteinninn af störfum í júlí. Sumar sögur segja að hann hafi verið látinn hætta þar sem hlutahafar hefðu gert uppreisn í kjölfar afleitrar afkomu Cosco. Annarsstaðar hefur því verið haldið fram að afsögnin skýrist af spillingu og vitnað hefur verið í heimildamenn innan fyrirtækisins sem segja að allskonar svindl og grunsamlegar aðferðir tíðkist við stjórn hinna ýmsu eininga innan samsteypunnar. Skortur á góðu regluverki hafi leitt til þess að margir yfirmenn hafi misnotað stöðu sína til að vinna að eigin hagsmunum. Aðrir skýra spillinguna með því að benda á flókna yfirbyggingu og afskipti ríkisins sem leiði til þess að starfsmönnum sé alveg sama um eignir og þjónustu fyrirtækisins.

Photo Arnaldur Halldórsson

Þetta er svona það helsta sem hægt er að grafa upp um þennan nýja bandamann Eimskipafélagsins í fljótu bragði. Cosco er stórveldi þar sem sumir hlutar fyrirtækisins eru skráðir á markað en samsteypan er þrátt fyrir það í eigu kínverska ríkisins. Eins og áður sagði eru fréttir af atburðum innan opinberra fyrirtækja og stofnana í Kína mjög óljósar og erfitt að átta sig á raunverulegri framvindu mála. Gott dæmi um slíkan rugling er að samkvæmt frásögnum, sem bæði má finna í kínverskum fjölmiðlum og á erlendum fréttaveitum á borð við Reuters, er Kapteinn Wei Jiafu ekki lengur við störf. Á heimasíðu Cosco birtist hinsvegar enn ávarp hans sem æðsti stjórnandi fyrirtækisins, dagsett 29. mars 2012.

Ekki er víst að allir myndu leggja blessun sína yfir samband við fyrirtæki þar sem svo mikið hefur gengið á síðustu mánuði. En hjá Eimskip er augljóslega litið á Cosco sem verðugan samferðamann á ferðalagi þessa fyrrverandi óskabarns íslensku þjóðarinnar inn í framtíðina.

Matvælaframleiðsla í vanda

Á undanförnum árum hefur komist upp um hvert hneykslið á fætur öðru varðandi mataröryggi hér í Kína. Vesturlandabúar þekkja margir mjólkurduftsmálið þar sem að minnsta kosti 6 börn dóu og um 300.000 veiktust eftir að melamíni var blandað í mjólkurduft. Síðan hafa fjölmörg önnur mál komið upp:

Svínakjöt litað og selt sem nautakjöt; rottukjöt, refa- og minkakjöt selt sem lambakjöt; olía hirt upp úr ræsum veitingahúsa og seld; eftirlíkingar af eggjum, mjólk, gosdrykkjum, tofu og hunangi; svínshræ sem átti að farga seld til veitingastaða og svona mætti lengi telja.

Eftirlíkingar

Það virðast vera lítil takmörk fyrir því hvað er hægt að framleiða af eftirlíkingum hér í Kína og þar er matvælaiðnaðurinn ekki undanskilinn. Reglulega birtast fréttir af eftirlíkingum af þekktum vörumerkjum í matvælaframleiðslu. Þeim má skipta í tvo flokka; annars vegar eru framleiddar nákvæmar eftirlíkingar án allra leyfa og hins vegar eru vörur sem eru framleiddar með tilskildum leyfum þar sem framleiðandinn hefur nýtt sér göt í kerfinu og fengið leyfi fyrir nýju vörumerki sem er þá mjög líkt fyrirmyndinni.

Eftirlíkingarnar eru algengastar í minni borgum og bæjum þar sem þær eru seldar á lágu verði. Í sumar komst sagan af Wang í fréttir þegar hann skrapp að heimsækja ættingja sína í Shandong héraði. Á lestarstöðinni kom hann við í lítilli búð og keypti mjólk og þar sem hann var á hraðferð skoðaði hann umbúðirnar ekki nógu vel. Þegar hann kom á áfangastað tók hann eftir því að mjólkin frá Yili sem venjulega er skrifuð með tákninu  ‘伊’ var skrifuð með tákninu ‘尹’. Wang hafði því keypt eftirlíkingu af mjólk.

Annað nýlegt dæmi er af orkudrykknum Red Bull. Upp komst um um tólf verksmiðjur á víð og dreif um Kína sem framleiddu eftirlíkingar af drykknum og er áætlað að hver þeirra hafi framleitt um 2400 dósir á dag. Talið er að gróðinn af hverri seldri dós hafi numið um 75 krónum. Lögreglan handtók þrettán manns í tengslum við málið og gerði verksmiðjurnar og allt sem þeim tilheyrði upptækt, samtals eignir að virði um 500 milljóna íslenskra króna.

Redbull3

Mengaðar vörur og annað svindl

Eftirlíkingar eru ekki það eina sem þarf að hafa áhyggjur af þegar hugað er að mataröryggi í Kína því einnig berast reglulega fréttir af mat sem mengaður er af skordýraeitri, ólöglegum rotvarnar- og aukefnum og þungmálmum vegna mengunar.

Eins og allir vita þá borða Kínverjar mikið af hrísgrjónum og það voru því afar slæmar fréttir sem bárust á vormánuðum þegar fram kom að 8 af 18 sýnum úr hrísgrjónum, sem tekin voru á veitingastöðum í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína, innihéldu of mikið af kadmíum. Í tilkynningu frá yfirvöldum kom fram að menguðu hrísgrjónin kæmu úr Hunan héraði  þar sem verksmiðjur, álver og námur hafa sprottið upp. Kadmíum er notað við framleiðslu á batteríum fyrir farsíma, myndavélar og tölvur sem mikið er framleitt af í Kína.

Rice_fields_mazandaran

Á svipuðum tíma og hrísgrjónamálið var í hámæli sýndi sjónvarpsstöðin CCTV frétt um ofnotkun á skordýraeitrinu Aldicarb hjá engiferræktendum í Shandong héraði, efni sem er bannað að nota við ræktun á engiferi. Bændurnir höfðu í áraraðir notað þrefalt til sexfalt magn af efninu ef miðað er við það magn sem leyfilegt er að nota við ræktun á bómull, tóbaki, hnetum og fleiri afurðum. Í viðtali við sjónvarpsstöðina sagðist einn bændanna vita af hættunni sem þessu fylgdi og að hann notaði ekki efnið þegar hann væri að rækta til eigin nota. Annar sagðist hafa notað Aldicarb við framleiðsluna í meira en 20 ár. Sá sagði að efnið væri nauðsynlegt til þess að útrýma skordýrum og að án þess myndi framleiðslan minnka um helming.

Tvö dæmi sem tengjast svindli í matvælaiðnaðinum á þessu ári standa okkur nærri. Nokkrir starfsmenn í íslensku fyrirtæki sem hér starfar taka sig gjarnan saman í hádeginu á föstudögum og kaupa grillað lambakjöt á markaði nærri skrifstofunni sem þeir svo borða saman í mötuneytinu. Á vormánuðum bárust af því fréttir að verið væri að selja rottu-, refa- eða minkakjöt sem lambakjöt á mörkuðum í Kína. Daginn eftir þennan fréttaflutning var búið að loka markaðinum sem starfsmennir versluðu við. Hann var sem betur fer opnaður fljótlega aftur sem bendir til þess að kjötið þar hafi verið í lagi, en óvissan er til staðar.

Hitt dæmið er af kínverskum ávaxtasafa, en nýlega var einn stærsti safaframleiðandinn í Kína ásakaður um að notaða skemmda ávexti við framleiðsluna. Deginum áður hafði önnur okkar einmitt verið að fylla ísskápinn af þessum djús. Hún kaupir venjulega innfluttan safa en þennan dag hafði hún hugsað með sér að það væri auðvitað bölvuð vitleysa og að sjálfsagt væri að gefa kínverskri framleiðslu séns.

djus

Skortur á mataröryggi í Kína snertir fleiri en okkur sem hér búum og nú er til dæmis verið að rannsaka einkennilegt mál í Bandaríkjunum þar sem gæludýrasnakk sem framleitt er í Kína fyrir hin ýmsu vörumerki er talið hafa valdið veikindum meira en 3600 hunda og dauða að minnsta kosti 580 hunda frá því árið 2007.

Ástæður og viðbrögð

Það eru margar skýringar á því hvers vegna mataröryggi í Kína er ekki betra en raunin er. Framleiðslukerfið er ákaflega flókið með milljónum bænda og þúsundum söluaðila sem selja til heildsölumarkaða sem síðan selja til framleiðenda, verslana og markaða út um allt Kína. Þetta kerfi gerir allan rekjanleika mjög erfiðan og stjórnun birgðakeðjunnar verður ekki létt verk. Eftirlitskerfið er einnig flókið og fæðustaðlar misvísandi. Sé litið til einstaklinga innan kerfisins þá er líklegt að skortur á samkennd í samfélaginu, spilling í eftirlitskerfinu og mikil misskipting, sem ýtir undir löngun einstaklinga í skjótfengin gróða, eigi sinn þátt í því hvernig komið er.

Síðasta áratuginn hafa stjórnvöld fjórum sinnum gert breytingar á eftirlitskerfinu til þess að auka fæðuöryggi í landinu, síðast með setningu nýrra laga um fæðuöryggi árið 2009. Í haust var svo fimmta aðgerðin kynnt til sögunnar með stofnun China Food and Drug Administration, stofnunar sem á að stýra þessum málum. Sérfræðingar telja þetta vera skref í rétta átt en muni þó engan veginn leysa allan vandann. Of mikil miðstýring hafi önnur vandamál í för með sér og geti dregið úr sveigjanleika til þess að bregðast við vandamálum sem upp koma.

Það er því ekki að ástæðulausu sem fólk hér í Kína er farið að grípa til sinna ráða þegar fæða þarf fjölskylduna. Þeir Kínverjar sem hafa efni á því að kaupa innflutt matvæli gera það í auknum mæli og þá sérstaklega vörur eins og ungbarnamjólkurduft. Margir reyna að kaupa erlenda vöru í gegnum netið eða fá ættingja eða vini sem búa erlendis eða eru þar á ferðalagi til þess að kaupa fyrir sig. Allur almenningur verður þó að stóla á innlenda framleiðslu.

Margir útlendingar sem hér búa kjósa að kaupa innflutt matvæli þegar því verður við komið. Þau eru fáanleg í ákveðnum búðum hér í Shanghai en eru mjög dýr og úrvalið takmarkað. Sem dæmi þá kostar einn lítri af innfluttri G-mjólk um 500 krónur og lítill pakki af Cheerios um 1.800 krónur. Matarkarfan getur því orðið ansi dýr hér rétt eins og á Íslandi.

cityshop2