Loftmengun er farin að hafa áhrif á skólahald hér í Kína á sama hátt og veður getur haft áhrif á skólahald á Íslandi. Á slæmum dögum eru viðvaranir sendar til foreldra og börnunum haldið inni við. Stundum þarf jafnvel að loka skólum vegna mengunar.
Ein slík viðvörun barst okkur í síðustu viku. Þá var loftið hér í Shanghai það sem kallað er mjög óheilnæmt, á mörkum þess að teljast hættulegt. Slíkar tilkynningar frá skólanum koma þó ekki á óvart, mengunin fer ekkert fram hjá manni og eftir nokkurra ára búsetu í Kína hafa skilningarvitin þjálfast í því að greina hana á öllum stigum.


Svifryk og mælingar á því
Ein leið til að mæla loftmengun er að mæla svifryk (particulate matter eða PM) í andrúmsloftinu. PM10 segir til um magn svifryks undir 10 míkrómetrum að stærð og PM2,5 um svifryk undir 2,5 míkrómetrum. Smærri agnirnar eru hættulegri heilsu manna því þær ná alla leið niður í öndunarfærin og út í blóðrásina.
Það er stutt síðan farið var að mæla PM2,5 hér í Kína. Bandaríska sendiráðið í Peking reið á vaðið, kom fyrir mæli á þaki sendiráðsins og hóf að birta tölurnar á Twitter. Ræðismannaskrifstofan í Shanghai fylgdi í kjölfarið stuttu seinna. Við þetta móðguðust Kínverjar, en þetta kom þó skriði á hlutina. Nú er hægt að fylgjast með mengunar-mælingum í símanum sínum, þar sem uppfært er á klukkutíma fresti og mælt er á mörgum stöðum.
Fyrst, eftir að tölurnar tóku að birtast, var mikið ósamræmi á milli skilgreininga á því hvað þær þýddu. Á meðan bandaríska sendiráðið varaði við mikilli mengun sagði kínverska umhverfisstofnunin ástandið nokkuð gott. Báðir aðilar voru að túlka sömu tölur. Nú hefur kínverski mælikvarðinn verið færður nær þeim bandaríska svo ósamræmið er ekki eins mikið.

Bandaríski mælikarðinn, sem við fylgjum hér, segir að ástandið sé gott þegar mengunin er undir 50. Ef hún er á milli 50 og 100 er ástandið þokkalegt. Þegar hún fer yfir 100 er vont fyrir þá sem viðkæmir eru, til dæmis fólk með hjarta- eða öndunarfærasjúkdóma, að vera úti. Þegar komið er yfir 150 er öllum óhollt að vera úti og mengun á milli 200 til 300 er mjög óheilnæm. Allt yfir 300 er skilgreint sem hættulegt.
PM2,5 er ekki mælt á Íslandi enn sem komið er en PM10 er mælt og þær tölur eru birtar á vef Umhverfisstofnunar og á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Að búa við loftmengun
Loftmengun er sýnileg, hún er eins og skítug þoka sem liggur yfir öllu. Litir hverfa og gráminn er allsráðandi. Fólk er misnæmt fyrir áhrifum mengunar en einkennin eru oft sviði í augum og ónot í hálsi. Ef maður kvefast gengur oft erfiðlega að ná því úr sér og þá sérstaklega hóstanum. Fólk með öndurfærasjúkdóma, eins og astma, þolir mengunina oft mjög illa og gæta þarf að viðkvæmum hópum eins og börnum og öldruðum.
Allt verður mjög skítugt, til dæmis sest svört þykk drulla á útihúsgögn þótt þau séu þrifin daglega. Það er ekki skemmtilegt að hugsa til þess hvað berst ofan í lungun af slíkri drullu. Glugga opnar maður ekki þegar mengun er mikil og á slíkum dögum heldur maður sig inni við ef kostur er. Mælikvarðinn á hvað er gott og vont í þessum efnum skekkist þegar maður býr við mengun og í fyrravetur, sem var sérstaklega slæmur, var allt undir 150 orðið nokkuð gott ástand og þá var hægt að fara út að hlaupa.
Það er erfitt að bera þetta saman við eitthvað sem við þekkjum frá Íslandi, kannski má þó að einhverju leyti líkja þessu við öskufok í kjölfar eldgosa.

Loftmengun er krabbameinsvaldandi
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sendi á dögunum frá sér tilkynningu þar sem sagt var að búið væri að flokka loftmengun með skæðustu krabbameinsvöldum í umhverfi manna. Í þeim flokki voru fyrir til dæmis reykingar og asbest. Einnig kom fram að loftmengun veldur lungnakrabbameini og eykur hættu á blöðruhálskrabbameini, en fyrir var vitað að hún veldur bæði hjarta- og öndunarfærasjúkdómum. Þetta eru ekki uppörvandi fréttir fyrir Kínverja og aðra sem búa í Kína.
Þó að mengunin hafi verið slæm í Shanghai í síðustu viku er borgin betur stödd en margar aðrar borgir í landinu. Ástandið er sérstaklega erfitt í norðausturhluta Kína og í höfuðstaðnum Peking. Þar sprungu til dæmis allir skalar í fyrravetur þegar mengunin fór langt yfir 500. Fyrir ekki svo löngu ríkti algjört neyðarástand í Harbin þar sem loka þurfti skólum og flugvöllum og dagurinn var sem svartnætti. Í síðustu viku kom fram í fréttum að loftmengun í Kína á árinu hefði fram að þessu verið sérstaklega slæm.
Almenningur í Kína er að vakna til meðvitundar um mengun. Stjórnvöld virðast loks hafa viðurkennt ástandið og hafa nýlega hrundið af stað miklu átaki til þess að draga úr loftmengun. Það er mikið verkefni sem kínversk stjórnvöld eiga fyrir höndum og út frá umhverfissjónarmiðum kemur það verkefni okkur öllum við, hvar sem við búum í veröldinni.

Myndirnar sem við birtum hér eru allar úr einkasafni bloggsins.













Kannski snýst herferðin um kínverska drauminn fyrst og fremst um að hvetja til bjartsýni í samfélaginu en margir Kínverjar eru vonlitlir um að leysa megi stóru vandamálin sem við blasa. Xi Jinping forseti hefur sagt að ungt fólk eigi að leyfa sér að láta sig dreyma, það geti með iðjusemi látið draumana rætast og þar með lagt sitt af mörkum við að endurlífga kínverska þjóð. Forsetinn hefur reyndar líka fyrirskipað að til þess að draumarnir geti ræst verði að fylgja kínversku leiðinni, leið sósíalisma með kínverskum sérkennum. Dæmigerðari fyrir hinn almenna borgara eru þó sennilega viðbrögð ungrar kínverskrar konu sem varð fyrir svörum við leit okkar að upplýsingum um kínverska drauminn: ,,Við erum að tala um að kínversku þjóðina skorti trú á framtíðina svo það er gott að byggja upp kínverskan draum um eitthvað sem gæti orðið. Fyrir mér er þetta þó ennþá of óljóst. Flestir vilja bara betra líf. Land sanngirni og hagsældar væri minn kínverski draumur.” Hún bætir því við að sennilega sé það svolítið stór draumur.



