Mengunardagar

Loftmengun er farin að hafa áhrif á skólahald hér í Kína á sama hátt og veður getur haft áhrif á skólahald á Íslandi. Á slæmum dögum eru viðvaranir sendar til foreldra og börnunum haldið inni við. Stundum þarf jafnvel að loka skólum vegna mengunar.

Ein slík viðvörun barst okkur í síðustu viku. Þá var loftið hér í Shanghai það sem kallað er mjög óheilnæmt, á mörkum þess að teljast hættulegt. Slíkar tilkynningar frá skólanum koma þó ekki á óvart, mengunin fer ekkert fram hjá manni og eftir nokkurra ára búsetu í Kína hafa skilningarvitin þjálfast í því að greina hana á öllum stigum.

IMG_0627

Mynd2

Svifryk og mælingar á því

Ein leið til að mæla loftmengun er að mæla svifryk (particulate matter eða PM) í andrúmsloftinu. PM10 segir til um magn svifryks undir 10 míkrómetrum að stærð og PM2,5 um svifryk undir 2,5 míkrómetrum. Smærri agnirnar eru hættulegri heilsu manna því þær ná alla leið niður í öndunarfærin og út í blóðrásina.

Það er stutt síðan farið var að mæla PM2,5 hér í Kína. Bandaríska sendiráðið í Peking reið á vaðið, kom fyrir mæli á þaki sendiráðsins og hóf að birta tölurnar á Twitter. Ræðismannaskrifstofan í Shanghai fylgdi í kjölfarið stuttu seinna. Við þetta móðguðust Kínverjar, en þetta kom þó skriði á hlutina. Nú er hægt að fylgjast með mengunar-mælingum í símanum sínum, þar sem uppfært er á klukkutíma fresti og mælt er á mörgum stöðum.

Fyrst, eftir að tölurnar tóku að birtast, var mikið ósamræmi á milli skilgreininga á því hvað þær þýddu. Á meðan bandaríska sendiráðið varaði við mikilli mengun sagði kínverska umhverfisstofnunin ástandið nokkuð gott. Báðir aðilar voru að túlka sömu tölur. Nú hefur kínverski mælikvarðinn verið færður nær þeim bandaríska svo ósamræmið er ekki eins mikið.

IMG_3682

Bandaríski mælikarðinn, sem við fylgjum hér, segir að ástandið sé gott þegar mengunin er undir 50. Ef hún er á milli 50 og 100 er ástandið þokkalegt. Þegar hún fer yfir 100 er vont fyrir þá sem viðkæmir eru, til dæmis fólk með hjarta- eða öndunarfærasjúkdóma, að vera úti. Þegar komið er yfir 150 er öllum óhollt að vera úti og mengun á milli 200 til  300 er mjög óheilnæm. Allt yfir 300 er skilgreint sem hættulegt.

PM2,5 er ekki mælt á Íslandi enn sem komið er en PM10 er mælt og þær tölur eru birtar á vef  Umhverfisstofnunar og á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Að búa við loftmengun

Loftmengun er sýnileg, hún er eins og skítug þoka sem liggur yfir öllu. Litir hverfa og gráminn er allsráðandi. Fólk er misnæmt fyrir áhrifum mengunar en einkennin eru oft sviði í augum og ónot í hálsi. Ef maður kvefast gengur oft erfiðlega að ná því úr sér og þá sérstaklega hóstanum. Fólk með öndurfærasjúkdóma, eins og astma, þolir mengunina oft mjög illa og gæta þarf að viðkvæmum hópum eins og börnum og öldruðum.

Allt verður mjög skítugt, til dæmis sest svört þykk drulla á útihúsgögn þótt þau séu þrifin daglega. Það er ekki skemmtilegt að hugsa til þess hvað berst ofan í lungun af slíkri drullu. Glugga opnar maður ekki þegar mengun er mikil og á slíkum dögum heldur maður sig inni við ef kostur er. Mælikvarðinn á hvað er gott og vont í þessum efnum skekkist þegar maður býr við mengun og í fyrravetur, sem var sérstaklega slæmur, var allt undir 150 orðið nokkuð gott ástand og þá var hægt að fara út að hlaupa.

Það er erfitt að bera þetta saman við eitthvað sem við þekkjum frá Íslandi, kannski má þó að einhverju leyti líkja þessu við öskufok í kjölfar eldgosa.

IMG_1265

Loftmengun er krabbameinsvaldandi

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sendi á dögunum frá sér tilkynningu þar sem sagt var að búið væri að flokka loftmengun með skæðustu krabbameinsvöldum í umhverfi manna. Í þeim flokki voru fyrir til dæmis reykingar og asbest. Einnig kom fram að loftmengun veldur lungnakrabbameini og eykur hættu á blöðruhálskrabbameini, en fyrir var vitað að hún veldur bæði hjarta- og öndunarfærasjúkdómum. Þetta eru ekki uppörvandi fréttir fyrir Kínverja og aðra sem búa í Kína.

Þó að mengunin hafi verið slæm í Shanghai í síðustu viku er borgin betur stödd en margar aðrar borgir í landinu. Ástandið er sérstaklega erfitt í norðausturhluta Kína og í höfuðstaðnum Peking. Þar sprungu til dæmis allir skalar í fyrravetur þegar mengunin fór langt yfir 500. Fyrir ekki svo löngu ríkti algjört neyðarástand í Harbin þar sem loka þurfti skólum og flugvöllum og dagurinn var sem svartnætti. Í síðustu viku kom fram í fréttum að loftmengun í Kína á árinu hefði fram að þessu verið sérstaklega slæm.

Almenningur í Kína er að vakna til meðvitundar um mengun. Stjórnvöld virðast loks hafa viðurkennt ástandið og hafa nýlega hrundið af stað miklu átaki til þess að draga úr loftmengun. Það er mikið verkefni sem kínversk stjórnvöld eiga fyrir höndum og út frá umhverfissjónarmiðum kemur það verkefni okkur öllum við, hvar sem við búum í veröldinni.

IMG_3674

Myndirnar sem við birtum hér eru allar úr einkasafni bloggsins.

Akademískt frelsi í alþýðulýðveldinu

Hér í Kína ríkir ekki tjáningarfrelsi. Á undanförnum mánuðum hefur eftirlit með fjölmiðlum og bloggsíðum verið hert og margir bloggarar og aðgerðasinnar hafa verið handteknir. Á meðan ráðamenn á Íslandi hittu Ma Kai var mál Xia Yeliang, sem nýverið var sagt upp störfum við Pekingháskóla, áberandi í fréttum bæði hér og erlendis. Við drögum hér fram það  helsta í fjölmiðlaumfjölluninni um Xia Yeliang enda er saga hans ágætt dæmi um hvernig kínversk stjórnvöld setja tjáningarfrelsinu mörk.

xia_Yeliang_620x350

Xia Yeliang er hagfræðingur og hefur kennt við Pekingháskóla í rúman áratug. Hann hefur talað fyrir auknu lýðræði í Kína og var einn af þjú hundruð og þremur sem skrifuðu undir Charter 08 yfirlýsinguna sem var ákall til stjórnvalda um lýðræði, mannréttindi og réttarríki. Xia er vinur Liu Xiaobo, sem stóð fyrir Charter 08, og fékk fyrir það friðarverðlaun Nóbels árið 2010. Liu Xiabob situr nú í fangelsi í Kína og konan hans í stofufangelsi.

Xia hefur opinberlega gagnrýnt stjórnvöld í Kína. Árið 2009 skrifaði hann opið bréf til Liu Yunshan þar sem hann fordæmdi ritskoðun yfirvalda. Liu, sem nú situr í æðsta ráði (politburo) kommúnistaflokksins, var þá yfirmaður áróðursstofnunar ríkisins en sú stofnun hefur umsjón með ritskoðun í landinu. Xia hefur einnig gagnrýnt núverandi forseta, Xi Jingping, fyrir herferðina um kínverska drauminn.

Í enskum fréttum ríkisfjölmiðla hér í Kína kemur fram að Xia hafi verið látinn fara vegna kvartana frá nemendum og að þær nái allt aftur til ársins 2006. Kennsluaðferðir hans og viðhorf hafi ekki fallið þeim í geð. Eitt af umkvörtunarefnunum var að Xia væri með árróður gegn kommúnistaflokknum í tímum. Ennfremur er sagt að hann hafi komið illa út úr kennslukönnunum og verið þar með lægstu einkunn allra kennara síðustu ár.

Okkur lék forvitni á að vita meira um brottrekstur Xia í meðförum kínverskra fjölmiðla, á kínversku án allra túlkana og þýðinga. Við fengum heimamann til að hjálpa okkur að gera leit að nafni hans á kínverska netinu. Fréttirnar sem þar birtust voru í samræmi við enskar þýðingar ríkisfjölmiðla. Þar var einnig að finna frétt sem sagði að stjórnvöld litu svo á að Xia Yeliang stæði í vegi fyrir því  að kínverski draumurinn gæti ræst.

Við sem erum með VPN tengingu og getum lesið á fleiri tungumálum sjáum aðrar hliðar á málinu í erlendum fjölmiðlum og fáum að heyra rödd Xia sjálfs. Hann segir í símaviðtali við breska blaðið The Guardian að háskólinn hafi látið hann fara vegna mikils þrýsings frá yfirvöldum og hann tengir það meðal annars áðurnefndri gagnrýni á æðstu menn flokksins. Hann sagðist að sjálfsögðu reiður og þá ekki síst vegna þess að verið væri að koma á hann illu orði. Hann sagði yfirlýsingar yfirvalda fullar af rangfærslum og mótsögnum.

Pekinghaskoli

Í öðru símaviðtali, nú við David Feith, blaðamann hjá The Wall Street Journal í Hong Kong, segir Xia að öllum háskólum í Kína sé stjórnað af kommúnistaflokknum. Raunverulegur yfirmaður Pekingháskóla sé ekki forseti háskólans heldur sérstakur flokksritari skólans. Xia segir frá því hvernig hann var varaður við af flokknum í júní um að til stæði að láta hann fara. Hann ætti ekki að segja skoðanir sínar opinberlega þar sem það gæti eyðilagt ímynd kommúnistaflokksins.

Xia segist hafa fengið viðvaranir af þessu tagi síðan 2009. Honum hafi verið bannað að koma fram í viðtalsþáttum í sjónvarpi, verið rekinn frá tveimur rannsóknarstofnunum, eltur af óeinkennisklæddum lögreglumönnum, endurtekið verið handtekinn og yfirheyrður, haldið í stofufangelsi svo dögum skipti, áreittur með símhringingum á nóttunni og sífellt hafi verið fylgst með honum á netinu auk þess sem brotist hefur verið inn í tölvuna hans.

Á undanförnum árum hafa margir vestrænir háskólar myndað tengsl við háskóla í Kína og jafnvel stofnað útibú í landinu. Pekingháskóli, sem talinn er einn sá besti í Kína, er í samstarfi við fjölda þekktra háskóla um allan heim, skóla sem leggja mikið upp úr akademísku frelsi. Þegar blaðamaður spyr Xia hvers vegna enginn af þeim skólum hafi mótmælt brottrekstri hans segist hann ekki vilja skella skuldinni á þá eða hvetja þá til að slíta samvinnunni. Sjálfur myndi hann þó standa með eigin sannfæringu um akademíkst frelsi ef hann væri í þeirra sporum. Hann bætir við að þegar fræðimenn og stjórnendur háskóla komi til Kína séu þeir oft meðhöndlaðir eins og þjóðhöfðingjar. Þeir fái vel launað fyrir að flytja fyrirlestra eða ræður, þeim séu haldnar miklar veislur og þeir dvelji á fimm stjörnu hótelum.

Þó að stóru þekktu skólarnir hafi ekki lýst opinberlega yfir stuðningi við Xia, stendur hann ekki einn. Kennarar í Wellesleyháskóla í New York hafa skrifað bréf þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við hann og The Committee of Concerned Scientists sendi bréf til forseta Pekingháskóla þar sem skorað var á hann að koma í veg fyrir uppsögnina en allt kom fyrir ekki.

Eins og sést á ofangreindu dæmi, sem er bara það nýjasta af mörgum, þá eru hlutirnir ekki einfaldir hér í Kína. Sannleikurinn er oft fyrir borð borinn og yfirvöld fara sínu fram.  Xia Yeliang segir að vestræn ríki líti Kína ekki réttum augum, heldur einblíni á efnahagsundrið. Það hafi hins vegar ekki gerst án fórna, mikil mengun, skortur á mataröryggi og ákaflega slæmt skólakerfi sem stjórnað er af hugmyndafræði flokksins sé hluti af þeim fórnarkostnaði. Xia segir þetta mjög hættulegt og við getum tekið undir það. Við höfum áhyggjur af því hvernig íslensk stjórnvöld líta til Kína, það má ekki gleymast að Kína er alræðisríki.

Silkileið norðursins

Ma Kai, einn af fjórum varaforsætisráðherrum Kína, heimsótti Ísland í síðustu viku. Í kjölfarið hafa fylgt fréttir þess efnis að íslenskir ráðamenn horfi nú helst til Kína við endurreisn íslensks efnahagslífs. Gagnrýnisraddir heyrast og minna á að Kína er alræðisríki þar sem lítil virðing er borin fyrir mannréttindum.

orgmaikai

Sé litið til þess að heimsókn Ma Kai til Íslands var að undirlagi íslenskra stjórnvalda hefur hún fengið fremur litla umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum. Það er einnig afar óljóst hvers vegna kínverska varaforsætisráðherranum var boðið til Íslands. Í frétt á heimasíðu forsætisráðuneytisins er fjallað um samtal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Ma Kai. Sagt er að tvíhliða samskipti ríkjanna hafi verið til umræðu, málefni norðurslóða, mannréttindamál og alþjóðamál. Ferðamál mun einnig hafa borið á góma og var vilji til að greiða fyrir flugsamgöngum á milli landanna. Vilji Íslendinga til samstarfs á sviði orkumála var einnig áréttaður. Í lok fréttarinnar frá ráðuneytinu kemur fram að kínverski ráðherrann bauð forsætisráðherra Íslands að heimsækja Kína við fyrsta tækifæri.

Hér í Kína birtist frétt um heimsókn Ma Kai til Íslands á Xinhua sem er aðalfréttaveita kínverskra ríkisins. Sama frétt er höfð orðrétt eftir í fleiri kínverskum fjölmiðlum. Í fyrirsögn fréttarinnar segir að Ma Kai hafi átti fund í Reykjavík með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Vitnað er í Ma sem segir meðal annars að á milli landanna ríki gagnkvæmt traust og einlægur vinskapur. Þá er vitnað í Ólaf Ragnar sem segir að í kjölfar íslensku fjármálakreppunnar hafi verið mikilvægt að efla viðskipti og fjárhagslega samvinnu milli landanna. Þessa samvinnu þurfi að þróa betur og hraðar er haft eftir Ólafi. Aftur er vitnað í Ma Kai og kemur þá meðal annars fram að mikilvægt sé að auka nemendaskipti á milli landanna og samhæfa stefnu og samskipti vegna málefna norðurslóða. Undir lok fréttarinnar kemur síðan fram að yfirvöld í Kína líti á Ísland sem mikilvægan samstarfsaðila á sviði jarðhita, umhverfisverndar, tækni og vísinda og ferðaþjónustu. Lokaorð fréttarinnar eru þó einna athyglisverðust en þar segir að Ísland óski eftir því að þróa „silkileið norðursins“ með Kína.

Í framhaldi af heimsókn Ma Kai hóf utanríkisráðherra Íslands upp raust sína í viðtali á Bloomberg fréttavefnum og sagði að við Íslendingar ættum að nýta þann áhuga sem Kínverjar sýna Íslandi, en gera það á okkar forsendum.

Nú er ekki víst að forsendur Íslendinga geti ráðið ferðinni í samningum við stórveldi. Kína er fjölmennasta ríki veraldar en á Íslandi búa um 320.000 manns. Kínverjar gera allt á eigin forsendum og eru mjög góðir í því. Stjórnvöld í Kína eru þekkt fyrir áætlanagerð og skipuleggja þá gjarnan langt fram í tímann. Þau eru heldur ekki þekkt fyrir að bjóða samvinnu við önnur lönd nema fá eitthvað í staðinn.

Framtíðarsýn kínverskra yfirvalda virðist miða að því að tryggja góðar samgöngur fyrir kínverskar vörur til Evrópu, einskonar nútíma silkileið. Miðstöðvar til uppskipunar og annarskonar athafnasvæði eru mikilvægur hluti af slíkum áætlunum. Kaup Kínverja á hafnarsvæðum í Grikklandi styðja þessa kenningu sem og áhugi þeirra á Íslandi og norðurslóðum.

Fyrir okkur Íslendinga er nú nauðsynlegt að fá að vita hvort íslensk stjórnvöld séu í fullri alvöru að vinna að því að gera Ísland að einhverskonar kínverskri bensínstöð á þessari nýju leið frá Kína til Evrópu.

Gyllt vika veldur vandræðum

Í dag hóf kínverska þjóðin störf á ný eftir afar viðburðarríka gyllta viku, en svo er hún kölluð frívikan sem yfirvöld hafa fyrirskipað í kringum þjóðhátíðardaginn. Með því að safna saman opinberum frídögum, hreyfa til virka vinnudaga og vinna um helgar í staðinn fær meginþorri kínverskra launþega vikufrí sem þeir nýta gjarnan til ferðalaga. Þetta óvenjulega fyrirkomulag frídaga hefur nú leitt til hálfgerðs óreiðuástands í landinu.

crowd2

Helgidagahagfræði

Í kjölfar efnahagskreppu í Asíu fyrir rúmum áratug ákváðu kínversk stjórnvöld að kynda undir efnahag landsins með því að fjölga almennum frídögum. Meðal annars var ákveðið að búa til frí í tengslum við þjóðhátíðardaginn og var það nefnt gyllta vikan. Upphaflega snerist hugmyndin um að fólk tæki sér frí, slappaði af og hefði þar með tíma til að eyða peningum sem kæmi efnahagslífinu til góða.

Fyrstu árin leiddu aukin frí til þess að persónuleg neysla jókst og fyrirtæki í verslun og ferðaþjónustu möluðu gull á ótrúlega skömmum tíma. Í þessu samhengi hefur hugtakið “holiday economy“ verið notað eða það sem kalla mætti helgidagahagfræði, til að lýsa ástandinu sem skapast þegar milljónir Kínverja halda af stað í ferðalag, allir á sama tíma, til að skoða sig um í veröldinni og versla.

Fljótlega fór þó að bera á neikvæðum áhrifum þessarar nýju hagfræði. Í samræmi við aukna kaupgetu kínversku þjóðarinnar hefur ferðagleðin aukist meira en samfélagið ræður við. Fréttir af umferðaröngþveiti, yfirfullum almenningssamgöngutækjum og óskiljanlegri mannmergð á helstu ferðamannastöðum ber nú hæst í umræðunni um gylltu vikuna. Auk þess er kvartað yfir stjórnlausu verðlagi þar sem til dæmis verð aðgöngumiða í söfn og þjóðgarða er hækkað á þessum dögum. Þá lýsa æ fleiri fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum yfir óánægju með fyrirkomulagið.

forbiddencitycrowd

Himinháar ferðamannatölur

Fjöldi fólks á faraldsfæti í gylltu vikunni er gríðarlegur og eykst frá ári til árs. Sem dæmi um himinháar tölur kínverskra ferðamanna innanlands má nefna að 2. október síðastliðinn heimsóttu 175 þúsund manns keisarahöllina í Beijing en hingað til hafa heimsóknartölur verið takmarkaðar við 80 þúsund manns á dag. Forráðamenn hallarsafnsins sáu sig hins vegar knúna til að halda áfram að selja miða til að forðast uppnám meðal fjöldans.

Sama dag heimsóttu 80 þúsund ferðalangar vinsælu ferðamannaeyjuna Gulangyu í suðausturhluta Kína. Ef allt væri eins og á verður kosið hefði fjöldinn verið 30 þúsund enda eyjan ekki nema 1,87 ferkílómetrar að flatarmáli, eða svipuð að stærð og Viðey.

Undir lok vikunnar ákváðu yfirmenn þjóðgarðs í Sichuan-fylki að fara að tilmælum yfirvalda og hætta miðasölu þegar viðmiðunarmörkum um 41 þúsund gesti á dag var náð. Það gerðist þó ekki fyrr en yfir 4000 manns höfðu lokast inni í þjóðgarðinum í 10 klukkustundir á miðvikudag þegar allar samgöngur um garðinn hrundu undan álaginu.

Í borginni Nanjing heimsóttu 230 þúsund manns grafhýsi þjóðhetjunnar Sun Yat-sen á miðvikudaginn. Í fréttum var talað við hóp ungra manna sem höfðu með sér níu sett af labbrabb-tækjum af ótta við að týnast í mannfjöldanum.

Hér í Shanghai voru borgarbúar beðnir að halda sig heima við til að gefa rými þeim 8 milljónum ferðamanna sem talið er að heimsæki borgina í gylltu vikunni.

Ofan á allt annað hafa óveður og mengun sett strik í reikninginn. Samgöngur hafa farið úr skorðum í austurhluta landsins vegna fellibylsins Fitow og í höfuðborginni þurfti að vara fólk við að dvelja utandyra sökum mengunar sem náði um helgina hæstu hæðum.

mengun

Þeir kínversku ferðamenn sem héldu út fyrir landsteinana voru heldur ekki einir á ferð. Allar ferðir frá Kína til Bandaríkjanna og Kanada á tímabilinu 18. september til 10. október seldust upp. Kínverskir ferðamenn heimsóttu einnig fjölda vinsælla áfangastaða í Evrópu og Asíu en við munum fljótlega fjalla um utanferðir Kínverja í annarri grein.

Tungldagatalið truflar

Flestir kínverskir frídagar taka mið af tungldagatalinu og eru því hreyfanlegir. Ekki ósvipað og við Íslendingar eigum að venjast með páska. Því getur það gerst að stuttur tími líði á milli fría. Í ár bar miðhausthátíðina til dæmis upp skömmu fyrir þjóðhátíðardaginn 1. október. Þetta hefur haft í för með sér dálítið ruglingslegt frídagafyrirkomulag. Þótt miðhausthátíðin feli í raun bara í sér einn frídag og þjóðhátíðin þrjá, er venjan í Kína að færa til vinnudaga svo úr verði annars vegar þriggja daga hausthátíð og hinsvegar vikulöng þjóðhátíð. Til að gera þetta mögulegt er vinnudögum víxlað og fólk þarf að vinna um helgar til að bæta upp vinnutap á virkum dögum.

Þetta er dálítið flókið! Til þess að gefa fólki hugmynd um fyrirkomulagið listum við hér upp opinbert skipulag í kringum þessa frídaga haustið 2013. Ferlið hefst fimmtudaginn 19. september:

  • Þriggja daga frí (fim, fös, lau)
  • Á sunnudegi hefst ný 6 daga vinnuvika (sun, mán, þri, mið, fim, fös)
  • Þá kemur einn frídagur (lau)
  • Við taka tveir vinnudagar (sun, mán)
  • Þá hefst 7 daga frívika (þri, mið, fim, fös, lau, sun, mán)
  • Þriðjudaginn 8. október hefst vinna á ný í 5 daga (þri, mið, fim, fös, lau).
  • Eftir hana kemur einn frídagur (sun)

Úr sambandi við umheiminn

Ekki líkar öllum peningamönnum fyrirkomulagið. Margir fjárfestar og viðskiptamenn hafa bent á glötuð tækifæri til að græða peninga þegar hlutabréfamörkuðum á meginlandi Kína er lokað í heila viku. Fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum kvarta einnig hástöfum undan truflun á starfsemi þeirra. Bent er á að afar lítið sé um að vera um helgar og því lítið gagn í að hafa fyrirtækin opin á laugardögum eða sunnudögum í stað virkra daga. Því kemur ekki á óvart að fulltrúar margra alþjóðlegra fyrirtækja og alþjóðlegra skóla í Kína hafa einfaldlega hundsað opinberar vinnuáætlanir og haldið sínu striki. Starfsmennirnir fá þá í staðinn orlofsdaga sem þeir geta kosið að nýta annaðhvort í tengslum við kínverska frídaga eða á öðrum tímum. Opinberir starfsmenn og flestir kínverskir launþegar hafa ekki um slíkt að velja og geta aðeins tekið frí á þeim tímum og með þeim skilyrðum sem yfirvöld fyrirskipa. Því má einnig bæta við að ekki eiga allir frí þessa daga því verslanir, veitingastaðir og fjölmörg önnur þjónustufyrirtæki eru opin samkvæmt venju, þ.e. í það minnsta 12 tíma á dag.

Hvort öll þessi neikvæða umræða, jafnt í kínverskum fjölmiðlum sem manna á meðal, og hin ýmsu óþægindi sem gyllta vikan hefur skapað í ár hafi áhrif til breytinga í framtíðinni er ómögulegt að segja. Mörgum þykir óreiðan þó sýna að nóg sé komið af miðstýringu yfirvalda á frítíma fólksins, jafnvel þótt ásetningurinn hafi upphaflega verið góður.

Ósýnilegi Kínamúrinn

Allir þekkja Kínamúrinn sem lengi var talinn sjást alla leið utan úr geimnum vegna stærðarinnar. Múrinn var byggður til að vernda hin fjölmörgu keisaraveldi Kínverja fyrir utanaðkomandi innrásum. Tilgangur kínverska eldmúrsins er ekki ósvipaður, því þótt hann sé ósýnilegur hindrar hann að óæskileg utanaðkomandi áhrif berist til Kína í netheimum.

eldveggurinn

Ritskoðun í Kína er nokkuð oft til umfjöllunar í vestrænum fjölmiðlum, ekki síst í tengslum við frelsissviptingu blaðamanna og rithöfunda. Amnesty International hefur til dæmis bent á að hvergi í heiminum sitji fleiri í fangelsi fyrir skoðanir sínar en í Kína. Gríðarlegt eftirlit er með allri miðlun upplýsinga og margar vestrænar samfélagssíður hljóta ekki náð fyrir augum kínverskra yfirvalda. Facebook, Twitter, Youtube og WordPress eru dæmi um síður sem eru blokkaðar og komið hafa tímabil þar sem ekki er hægt að komast inn í Google leitarvélina. Sambærilegar kínverskar síður eru leyfðar en þær eru vandlega ritskoðaðar. Færslur sem falla ekki að opinberum skoðunum yfirvalda eru látnar hverfa og einnig heyrast sögur af ríkisstarfsmönnum sem hafa af því atvinnu að pósta réttum skoðunum og reyna þar með að hafa áhrif í netsamfélaginu. Yfir 30 þúsund manns eiga að starfa hjá kínversku netlögreglunni og í öllum opinberum fjölmiðlum birtist aðeins það sem fellur að hugmyndafræði kínverska kommúnistaflokksins hverju sinni.

eldveggur2

Daglegt líf innan múrsins

Eitt er að lesa um ritskoðun, annað að lifa með henni. Internetið er er augljóslega þyrnir í augum yfirvalda enda erfitt að hafa stjórn á því. Þegar framundan eru stórir viðburðir á borð við flokksþing kommúnistaflokksins, þjóðhátíðir eða leiðtogaheimsóknir og þegar athygli heimsins beinist að umdeildum atburðum í Kína eins og uppreisnum í Tíbet og Xinjiang-héraði, svo ekki sé minnst á Nóbelsverðlaunahafann Liu Xiaobo, þá verður allt eftirlit enn meira, netið virðist hægja á sér og sjónvarpsútsendingar eru slitnar úr sambandi. Flestir geta kannski ímyndað sér hvernig þetta virkar í tölvu, að leitarvélar birti ekki upplýsingar tengdar nöfnum umdeildra einstaklinga og vefsíður komi ekki upp á skjáinn. Erfiðara getur verið að ímynda sér ritskoðun í sjónvarpi. Í miðjum fréttatíma á alþjóðlegum rásum eins og BBC og CNN er einfaldlega slökkt á útsendingunni og skjárinn verður svartur. Ekkert “afsakið hlé“, skjárinn verður bara svartur. Öll umfjöllun um Nóbelsverðlaun Liu Xiaobo var á sínum tíma blokkeruð með þessum hætti og fyrir skemmstu mátti upplifa að slökkt var á fréttunum þegar BBC var með umfjöllun um Bo Xilai. Þegar kínverskur fréttaskýrandi kom sér fyrir í sjónvarpssettinu til að ræða við fréttaþulinn um lífstíðardóminn yfir Bo varð skjárinn undireins svartur. Ekki birtist aftur mynd á skjánum fyrr en íþróttafréttir tóku við.

Hjáleiðir og VPN

Í tölvuheiminum eru alltaf einhverjar leiðir til að fara fram hjá hlutunum, jafnvel öflugri ritskoðunarvélinni í Kína. Áskrift að svokallaðri VPN-þjónustu Virtual Private Network, sem keypt er erlendis frá, kemur okkur útlendingunum til bjargar. VPN-hjáleiðir gera okkur kleift að skrifa og birta þetta blogg, halda úti Facebook síðu og yfirhöfuð að fylgjast með fjölmörgu sem er að gerast á Íslandi og í umheiminum sem ekki nær í gegnum kínverska eldvegginn. Að sjálfsögðu hefur kínverska netlögreglan horn í síðu VPN-fyrirtækja sem þó virðast eflast við hverja raun og halda aðgangnum opnum með því að uppfæra stöðugt forrit og móttökusenda sem eru staðsettir út um allan heim.

Ritskoðun er varin með lögum í Kína og um hana gilda fjölmargar reglugerðir. Tækjabúnaður sem er notaður til að ritskoða kínverska internetið er talinn sá öflugasti í veröldinni. Ekki er aðeins hægt að blokkera síður á landsvísu, heldur er mögulegt að fylgjast með netnotkun einstaklinga. Það er því alltaf dálítið ónotaleg tilfinning að lauma sér yfir kínverska eldmúrinn og hvort sem það er ímyndun eða ekki, þá er eins og “stóri bróðir” sé alltaf að fylgjast með.

Rétt er að taka það fram að ofangreind færsla endurspeglar einfaldlega okkar reynslu og upplifun og ekki er um nein sérstök vísindi að ræða.

Hlutfallslega smár

37

Eins og margir vita hefur Bo Xilai, sem áður var helsta vonarstjarna kínverska kommúnistaflokksins, verið dæmdur í ævilangt fangelsi. Réttarhöldin fóru fram fyrir skemmstu og eins og svo oft í Kína áttu þau sér skrítnar hliðar. Vangaveltur um gæslumenn sakborningsins bárust til dæmis víða um netheima. Bo Xilai er óvenju hávaxinn á kínverskan mælikvarða (186 cm) en við réttarhöldin gnæfðu tveir lögreglumenn yfir hann. Sviðsetning af þessum toga er engin nýlunda í Kína og tilgangurinn væntanlega sá að láta hinn sakfellda sýnast smærri. Við nánari eftirgrennslan netverja kom í ljós að annar gæslumannanna er að öllum líkindum fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta sem er yfir tveir metrar að hæð. Hann mun vera nokkuð þekkt nafn úr kínverskum körfubolta frá síðasta áratug og þjálfar nú körfuboltalið í Shandong-héraði þar sem réttarhöldin áttu sér stað. Ekki er vitað til þess að hann hafi áður unnið við löggæslustörf.

Kínverski draumurinn

kinadraumur4

Þegar Xi Jinping tók við embætti æðsta leiðtoga Kína á síðasta ári gerði hann kínverska drauminn að slagorði stjórnvalda. Síðan þá hefur hugmyndin um kínverska drauminn verið fyrirferðarmikil hér í Alþýðulýðveldinu, um hana er fjallað í forystugreinum dagblaða, umræðuþáttum, námsbókum, á veggspjöldum og í sjónvarpsauglýsingum. Í enskri netútgáfu dagblaðsins Shanghai Daily má til dæmis sjá auglýsingaborða sem vísar á umfjöllun um bjartsýna fulltrúa almennings sem upplifa kínverska drauminn. Á kínverskum samskiptamiðlum lætur fólk þó í ljós efasemdir.

Fyrir hvað stendur kínverski draumurinn?

Samkvæmt Xi Jinping forseta felur kínverski draumurinn í sér sameiginlega hagsæld. Yfirmaður í Frelsisher alþýðunnar hefur látið hafa eftir sér að draumurinn snúist um að Kína vilji verða númer eitt í veröldinni. Í opinberum fjölmiðlum er lögð áhersla á friðsamlega þróun. China Daily, einn af fjölmörgum kínverskum fjölmiðlum sem stýrt er af yfirvöldum, boðar að kínverski draumurinn nái til samfélagsins alls. Talað er um sameiginlega uppbyggingu velferðarsamfélags, einskonar nútíma sósíalistaríkis sem sé efnahagslega sterkt, lýðræðislegt, siðmenntað og samstillt. Þannig megi uppfylla hinn kínverska draum um stórkostlega endurreisn kínverskrar þjóðar þar sem ríkja mun hagsæld og hamingja. Eitthvað á þessa leið hjómar hin opinbera orðræða.

kinadraumur5

Herferðin boðar í raun endurvakningu kínversku þjóðinnar. Margir hafa reynt að túlka þýðingu þessara orða, jafnt innan Kína sem utan. Sumir vilja meina að verið sé að taka upp þráðinn um sameiginlegan draum alþýðunnar í sósíalískum anda, andstætt ameríska draumnum þar sem allir einstaklingar áttu að hafa sömu tækifæri. Aðrir ganga lengra og segja að þetta sé fyrst og fremst draumur um valdamikið ríki undir stjórn kínverska kommúnistaflokksins.

chinas-dream

Æskan ekki undanskilin

Í júní á þessu ári bárust fréttir af ákalli Li Yuanchao varaforseta Kína um að kínverskum skólabörnum skuli nú blásinn réttur andi í brjóst og að hefja skuli kennslu í hugmyndafræðinni um kínverska drauminn í skólum. Hann hvatti jafnframt stærstu barnahreyfingu í Kína til að stuðla að útbreiðslu hugmyndarinnar um drauminn meðal barna.

Hindranir að hagsæld 

Mikill hagvöxur á síðustu áratugum hefur eflt væntingar Kínverja um draumalandið. Leiðtogar landsins standa þó frammi fyrir fjölmörgum hindrunum og um leið vaxandi óánægju almennings. Ber þar hæst spillingu og misnotkun opinbers valds, gríðarlega stórt hagkerfi þar sem erfitt getur verið að viðhalda 7-8% árlegum hagvexti og mikla misskiptingu auðs þar sem fátækt er enn útbreidd á mörgum svæðum í Kína. Pólitísk sambönd við umheiminn eru einnig nefnd í þessu samhengi, ekki síst við nágrannalöndin þar sem víða er barist um yfirráðasvæði. Síðast en ekki síst eru umhverfismál í Kína í miklum ólestri með tilheyrandi loft- og vatnsmengun.

Stórir draumar

kinadraumur2Kannski snýst herferðin um kínverska drauminn fyrst og fremst um að hvetja til bjartsýni í samfélaginu en margir Kínverjar eru vonlitlir um að leysa megi stóru vandamálin sem við blasa. Xi Jinping forseti hefur sagt að ungt fólk eigi að leyfa sér að láta sig dreyma, það geti með iðjusemi látið draumana rætast og þar með lagt sitt af mörkum við að endurlífga kínverska þjóð. Forsetinn hefur reyndar líka fyrirskipað að til þess að draumarnir geti ræst verði að fylgja kínversku leiðinni, leið sósíalisma með kínverskum sérkennum. Dæmigerðari fyrir hinn almenna borgara eru þó sennilega viðbrögð ungrar kínverskrar konu sem varð fyrir svörum við leit okkar að upplýsingum um kínverska drauminn: ,,Við erum að tala um að kínversku þjóðina skorti trú á framtíðina svo það er gott að byggja upp kínverskan draum um eitthvað sem gæti orðið. Fyrir mér er þetta þó ennþá of óljóst. Flestir vilja bara betra líf. Land sanngirni og hagsældar væri minn kínverski draumur.” Hún bætir því við að sennilega sé það svolítið stór draumur.

chinese-dream1

Myndirnar sem fylgja færslunni sýna kynningarspjöld um kínverska drauminn sem birst hafa opinberlega í Kína.

Áróður á safni

Áróður af ýmsu tagi er órjúfanlegur hluti af sögu Kína undir stjórn kínverska kommúnistaflokksins. Veggspjöld sem gáfu rétta tóninn í samfélaginu hverju sinni voru hluti af umhverfi borga og bæja allt fram undir 1990.

mao_poster

Um svipað leyti hóf framsýnn heimamaður í Shanghai upp á sitt einsdæmi að safna slíkum veggspjöldum. Þar með kom hann í veg fyrir að mörg þeirra glötuðust þegar stjórnvöld, af pólitískum ástæðum, leituðust við að eyðileggja öll slík plaköt í kringum 1995. Safnið Shanghai Propaganda Poster Art Center hefur verið opið almenningi frá árinu 2002, frá 2012 með opinberu samþykki yfirvalda í borginni.

spropagandamuseum

Staðsetning safnsins er óvenjuleg, í illa lyktandi kjallara íbúðablokkar. Inngangurinn er baka til og ekki auðfundinn. En safnið er skemmtilegt og veggspjöldin góð heimild, til dæmis um áróður menningarbyltingarinnar. Á hverju veggspjaldinu á fætur öðru er Mao formaður, eins og guð almáttugur, altumlykjandi og verndandi, leiðtoginn og fyrirmyndin. Honum er jafnvel líkt við sjálfa sólina.

mao

Árið 2013 skín ásjóna Maos enn skært yfir Torgi hins himneska friðar í Beijing.

tianmen