Mengun á heimsmælikvarða

Hreint loft mun hafa mikil áhrif þegar gerðar eru mælingar á hamingju þjóða. Íslendingar eru svo lánsamir að búa við eitt hreinasta andrúmsloft í heimi en hér í Kína er svo komið að hreint loft er ekki lengur sjálfsagður hlutur. Mælingar á loftmengun eru hluti af daglegu lífi í Shanghai og undanfarna daga hefur mengunin sprengt alla viðmiðunarkvarða.

Sem betur fer vita fæstir hvernig svo mikil mengun lítur út né hvernig upplifunin er. ,,Nú stíg ég út á hættusvæði!” kallaði ungur sonur annarrar okkar í morgun þegar hann opnaði útihurðina á heimilinu og hélt út í daginn. Úti fyrir fitjaði hann upp á nefið og líkti lyktinni við þefinn af reyktu kjöti. Því miður er ekkert jólalegt við þá hangikjötslykt.

Við höfum áður skrifað grein um mengunina í Kína hér á blogginu en á degi sem þessum er einfaldlega ekkert annað sem kemst að í huga manns. Því birtum við hér nokkrar myndir sem við tókum í dag og tala sínu máli um ástandið.

DSC_1182

DSC_1220

photo-17

DSC_1221

DSC_1218

photo-18

DSC_1199  DSC_1173  DSC_1226

DSC_1251

DSC_1210

photo

DSC_1231

Matvælaframleiðsla í vanda

Á undanförnum árum hefur komist upp um hvert hneykslið á fætur öðru varðandi mataröryggi hér í Kína. Vesturlandabúar þekkja margir mjólkurduftsmálið þar sem að minnsta kosti 6 börn dóu og um 300.000 veiktust eftir að melamíni var blandað í mjólkurduft. Síðan hafa fjölmörg önnur mál komið upp:

Svínakjöt litað og selt sem nautakjöt; rottukjöt, refa- og minkakjöt selt sem lambakjöt; olía hirt upp úr ræsum veitingahúsa og seld; eftirlíkingar af eggjum, mjólk, gosdrykkjum, tofu og hunangi; svínshræ sem átti að farga seld til veitingastaða og svona mætti lengi telja.

Eftirlíkingar

Það virðast vera lítil takmörk fyrir því hvað er hægt að framleiða af eftirlíkingum hér í Kína og þar er matvælaiðnaðurinn ekki undanskilinn. Reglulega birtast fréttir af eftirlíkingum af þekktum vörumerkjum í matvælaframleiðslu. Þeim má skipta í tvo flokka; annars vegar eru framleiddar nákvæmar eftirlíkingar án allra leyfa og hins vegar eru vörur sem eru framleiddar með tilskildum leyfum þar sem framleiðandinn hefur nýtt sér göt í kerfinu og fengið leyfi fyrir nýju vörumerki sem er þá mjög líkt fyrirmyndinni.

Eftirlíkingarnar eru algengastar í minni borgum og bæjum þar sem þær eru seldar á lágu verði. Í sumar komst sagan af Wang í fréttir þegar hann skrapp að heimsækja ættingja sína í Shandong héraði. Á lestarstöðinni kom hann við í lítilli búð og keypti mjólk og þar sem hann var á hraðferð skoðaði hann umbúðirnar ekki nógu vel. Þegar hann kom á áfangastað tók hann eftir því að mjólkin frá Yili sem venjulega er skrifuð með tákninu  ‘伊’ var skrifuð með tákninu ‘尹’. Wang hafði því keypt eftirlíkingu af mjólk.

Annað nýlegt dæmi er af orkudrykknum Red Bull. Upp komst um um tólf verksmiðjur á víð og dreif um Kína sem framleiddu eftirlíkingar af drykknum og er áætlað að hver þeirra hafi framleitt um 2400 dósir á dag. Talið er að gróðinn af hverri seldri dós hafi numið um 75 krónum. Lögreglan handtók þrettán manns í tengslum við málið og gerði verksmiðjurnar og allt sem þeim tilheyrði upptækt, samtals eignir að virði um 500 milljóna íslenskra króna.

Redbull3

Mengaðar vörur og annað svindl

Eftirlíkingar eru ekki það eina sem þarf að hafa áhyggjur af þegar hugað er að mataröryggi í Kína því einnig berast reglulega fréttir af mat sem mengaður er af skordýraeitri, ólöglegum rotvarnar- og aukefnum og þungmálmum vegna mengunar.

Eins og allir vita þá borða Kínverjar mikið af hrísgrjónum og það voru því afar slæmar fréttir sem bárust á vormánuðum þegar fram kom að 8 af 18 sýnum úr hrísgrjónum, sem tekin voru á veitingastöðum í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína, innihéldu of mikið af kadmíum. Í tilkynningu frá yfirvöldum kom fram að menguðu hrísgrjónin kæmu úr Hunan héraði  þar sem verksmiðjur, álver og námur hafa sprottið upp. Kadmíum er notað við framleiðslu á batteríum fyrir farsíma, myndavélar og tölvur sem mikið er framleitt af í Kína.

Rice_fields_mazandaran

Á svipuðum tíma og hrísgrjónamálið var í hámæli sýndi sjónvarpsstöðin CCTV frétt um ofnotkun á skordýraeitrinu Aldicarb hjá engiferræktendum í Shandong héraði, efni sem er bannað að nota við ræktun á engiferi. Bændurnir höfðu í áraraðir notað þrefalt til sexfalt magn af efninu ef miðað er við það magn sem leyfilegt er að nota við ræktun á bómull, tóbaki, hnetum og fleiri afurðum. Í viðtali við sjónvarpsstöðina sagðist einn bændanna vita af hættunni sem þessu fylgdi og að hann notaði ekki efnið þegar hann væri að rækta til eigin nota. Annar sagðist hafa notað Aldicarb við framleiðsluna í meira en 20 ár. Sá sagði að efnið væri nauðsynlegt til þess að útrýma skordýrum og að án þess myndi framleiðslan minnka um helming.

Tvö dæmi sem tengjast svindli í matvælaiðnaðinum á þessu ári standa okkur nærri. Nokkrir starfsmenn í íslensku fyrirtæki sem hér starfar taka sig gjarnan saman í hádeginu á föstudögum og kaupa grillað lambakjöt á markaði nærri skrifstofunni sem þeir svo borða saman í mötuneytinu. Á vormánuðum bárust af því fréttir að verið væri að selja rottu-, refa- eða minkakjöt sem lambakjöt á mörkuðum í Kína. Daginn eftir þennan fréttaflutning var búið að loka markaðinum sem starfsmennir versluðu við. Hann var sem betur fer opnaður fljótlega aftur sem bendir til þess að kjötið þar hafi verið í lagi, en óvissan er til staðar.

Hitt dæmið er af kínverskum ávaxtasafa, en nýlega var einn stærsti safaframleiðandinn í Kína ásakaður um að notaða skemmda ávexti við framleiðsluna. Deginum áður hafði önnur okkar einmitt verið að fylla ísskápinn af þessum djús. Hún kaupir venjulega innfluttan safa en þennan dag hafði hún hugsað með sér að það væri auðvitað bölvuð vitleysa og að sjálfsagt væri að gefa kínverskri framleiðslu séns.

djus

Skortur á mataröryggi í Kína snertir fleiri en okkur sem hér búum og nú er til dæmis verið að rannsaka einkennilegt mál í Bandaríkjunum þar sem gæludýrasnakk sem framleitt er í Kína fyrir hin ýmsu vörumerki er talið hafa valdið veikindum meira en 3600 hunda og dauða að minnsta kosti 580 hunda frá því árið 2007.

Ástæður og viðbrögð

Það eru margar skýringar á því hvers vegna mataröryggi í Kína er ekki betra en raunin er. Framleiðslukerfið er ákaflega flókið með milljónum bænda og þúsundum söluaðila sem selja til heildsölumarkaða sem síðan selja til framleiðenda, verslana og markaða út um allt Kína. Þetta kerfi gerir allan rekjanleika mjög erfiðan og stjórnun birgðakeðjunnar verður ekki létt verk. Eftirlitskerfið er einnig flókið og fæðustaðlar misvísandi. Sé litið til einstaklinga innan kerfisins þá er líklegt að skortur á samkennd í samfélaginu, spilling í eftirlitskerfinu og mikil misskipting, sem ýtir undir löngun einstaklinga í skjótfengin gróða, eigi sinn þátt í því hvernig komið er.

Síðasta áratuginn hafa stjórnvöld fjórum sinnum gert breytingar á eftirlitskerfinu til þess að auka fæðuöryggi í landinu, síðast með setningu nýrra laga um fæðuöryggi árið 2009. Í haust var svo fimmta aðgerðin kynnt til sögunnar með stofnun China Food and Drug Administration, stofnunar sem á að stýra þessum málum. Sérfræðingar telja þetta vera skref í rétta átt en muni þó engan veginn leysa allan vandann. Of mikil miðstýring hafi önnur vandamál í för með sér og geti dregið úr sveigjanleika til þess að bregðast við vandamálum sem upp koma.

Það er því ekki að ástæðulausu sem fólk hér í Kína er farið að grípa til sinna ráða þegar fæða þarf fjölskylduna. Þeir Kínverjar sem hafa efni á því að kaupa innflutt matvæli gera það í auknum mæli og þá sérstaklega vörur eins og ungbarnamjólkurduft. Margir reyna að kaupa erlenda vöru í gegnum netið eða fá ættingja eða vini sem búa erlendis eða eru þar á ferðalagi til þess að kaupa fyrir sig. Allur almenningur verður þó að stóla á innlenda framleiðslu.

Margir útlendingar sem hér búa kjósa að kaupa innflutt matvæli þegar því verður við komið. Þau eru fáanleg í ákveðnum búðum hér í Shanghai en eru mjög dýr og úrvalið takmarkað. Sem dæmi þá kostar einn lítri af innfluttri G-mjólk um 500 krónur og lítill pakki af Cheerios um 1.800 krónur. Matarkarfan getur því orðið ansi dýr hér rétt eins og á Íslandi.

cityshop2

Mengunardagar

Loftmengun er farin að hafa áhrif á skólahald hér í Kína á sama hátt og veður getur haft áhrif á skólahald á Íslandi. Á slæmum dögum eru viðvaranir sendar til foreldra og börnunum haldið inni við. Stundum þarf jafnvel að loka skólum vegna mengunar.

Ein slík viðvörun barst okkur í síðustu viku. Þá var loftið hér í Shanghai það sem kallað er mjög óheilnæmt, á mörkum þess að teljast hættulegt. Slíkar tilkynningar frá skólanum koma þó ekki á óvart, mengunin fer ekkert fram hjá manni og eftir nokkurra ára búsetu í Kína hafa skilningarvitin þjálfast í því að greina hana á öllum stigum.

IMG_0627

Mynd2

Svifryk og mælingar á því

Ein leið til að mæla loftmengun er að mæla svifryk (particulate matter eða PM) í andrúmsloftinu. PM10 segir til um magn svifryks undir 10 míkrómetrum að stærð og PM2,5 um svifryk undir 2,5 míkrómetrum. Smærri agnirnar eru hættulegri heilsu manna því þær ná alla leið niður í öndunarfærin og út í blóðrásina.

Það er stutt síðan farið var að mæla PM2,5 hér í Kína. Bandaríska sendiráðið í Peking reið á vaðið, kom fyrir mæli á þaki sendiráðsins og hóf að birta tölurnar á Twitter. Ræðismannaskrifstofan í Shanghai fylgdi í kjölfarið stuttu seinna. Við þetta móðguðust Kínverjar, en þetta kom þó skriði á hlutina. Nú er hægt að fylgjast með mengunar-mælingum í símanum sínum, þar sem uppfært er á klukkutíma fresti og mælt er á mörgum stöðum.

Fyrst, eftir að tölurnar tóku að birtast, var mikið ósamræmi á milli skilgreininga á því hvað þær þýddu. Á meðan bandaríska sendiráðið varaði við mikilli mengun sagði kínverska umhverfisstofnunin ástandið nokkuð gott. Báðir aðilar voru að túlka sömu tölur. Nú hefur kínverski mælikvarðinn verið færður nær þeim bandaríska svo ósamræmið er ekki eins mikið.

IMG_3682

Bandaríski mælikarðinn, sem við fylgjum hér, segir að ástandið sé gott þegar mengunin er undir 50. Ef hún er á milli 50 og 100 er ástandið þokkalegt. Þegar hún fer yfir 100 er vont fyrir þá sem viðkæmir eru, til dæmis fólk með hjarta- eða öndunarfærasjúkdóma, að vera úti. Þegar komið er yfir 150 er öllum óhollt að vera úti og mengun á milli 200 til  300 er mjög óheilnæm. Allt yfir 300 er skilgreint sem hættulegt.

PM2,5 er ekki mælt á Íslandi enn sem komið er en PM10 er mælt og þær tölur eru birtar á vef  Umhverfisstofnunar og á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Að búa við loftmengun

Loftmengun er sýnileg, hún er eins og skítug þoka sem liggur yfir öllu. Litir hverfa og gráminn er allsráðandi. Fólk er misnæmt fyrir áhrifum mengunar en einkennin eru oft sviði í augum og ónot í hálsi. Ef maður kvefast gengur oft erfiðlega að ná því úr sér og þá sérstaklega hóstanum. Fólk með öndurfærasjúkdóma, eins og astma, þolir mengunina oft mjög illa og gæta þarf að viðkvæmum hópum eins og börnum og öldruðum.

Allt verður mjög skítugt, til dæmis sest svört þykk drulla á útihúsgögn þótt þau séu þrifin daglega. Það er ekki skemmtilegt að hugsa til þess hvað berst ofan í lungun af slíkri drullu. Glugga opnar maður ekki þegar mengun er mikil og á slíkum dögum heldur maður sig inni við ef kostur er. Mælikvarðinn á hvað er gott og vont í þessum efnum skekkist þegar maður býr við mengun og í fyrravetur, sem var sérstaklega slæmur, var allt undir 150 orðið nokkuð gott ástand og þá var hægt að fara út að hlaupa.

Það er erfitt að bera þetta saman við eitthvað sem við þekkjum frá Íslandi, kannski má þó að einhverju leyti líkja þessu við öskufok í kjölfar eldgosa.

IMG_1265

Loftmengun er krabbameinsvaldandi

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sendi á dögunum frá sér tilkynningu þar sem sagt var að búið væri að flokka loftmengun með skæðustu krabbameinsvöldum í umhverfi manna. Í þeim flokki voru fyrir til dæmis reykingar og asbest. Einnig kom fram að loftmengun veldur lungnakrabbameini og eykur hættu á blöðruhálskrabbameini, en fyrir var vitað að hún veldur bæði hjarta- og öndunarfærasjúkdómum. Þetta eru ekki uppörvandi fréttir fyrir Kínverja og aðra sem búa í Kína.

Þó að mengunin hafi verið slæm í Shanghai í síðustu viku er borgin betur stödd en margar aðrar borgir í landinu. Ástandið er sérstaklega erfitt í norðausturhluta Kína og í höfuðstaðnum Peking. Þar sprungu til dæmis allir skalar í fyrravetur þegar mengunin fór langt yfir 500. Fyrir ekki svo löngu ríkti algjört neyðarástand í Harbin þar sem loka þurfti skólum og flugvöllum og dagurinn var sem svartnætti. Í síðustu viku kom fram í fréttum að loftmengun í Kína á árinu hefði fram að þessu verið sérstaklega slæm.

Almenningur í Kína er að vakna til meðvitundar um mengun. Stjórnvöld virðast loks hafa viðurkennt ástandið og hafa nýlega hrundið af stað miklu átaki til þess að draga úr loftmengun. Það er mikið verkefni sem kínversk stjórnvöld eiga fyrir höndum og út frá umhverfissjónarmiðum kemur það verkefni okkur öllum við, hvar sem við búum í veröldinni.

IMG_3674

Myndirnar sem við birtum hér eru allar úr einkasafni bloggsins.

Silkileið norðursins

Ma Kai, einn af fjórum varaforsætisráðherrum Kína, heimsótti Ísland í síðustu viku. Í kjölfarið hafa fylgt fréttir þess efnis að íslenskir ráðamenn horfi nú helst til Kína við endurreisn íslensks efnahagslífs. Gagnrýnisraddir heyrast og minna á að Kína er alræðisríki þar sem lítil virðing er borin fyrir mannréttindum.

orgmaikai

Sé litið til þess að heimsókn Ma Kai til Íslands var að undirlagi íslenskra stjórnvalda hefur hún fengið fremur litla umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum. Það er einnig afar óljóst hvers vegna kínverska varaforsætisráðherranum var boðið til Íslands. Í frétt á heimasíðu forsætisráðuneytisins er fjallað um samtal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Ma Kai. Sagt er að tvíhliða samskipti ríkjanna hafi verið til umræðu, málefni norðurslóða, mannréttindamál og alþjóðamál. Ferðamál mun einnig hafa borið á góma og var vilji til að greiða fyrir flugsamgöngum á milli landanna. Vilji Íslendinga til samstarfs á sviði orkumála var einnig áréttaður. Í lok fréttarinnar frá ráðuneytinu kemur fram að kínverski ráðherrann bauð forsætisráðherra Íslands að heimsækja Kína við fyrsta tækifæri.

Hér í Kína birtist frétt um heimsókn Ma Kai til Íslands á Xinhua sem er aðalfréttaveita kínverskra ríkisins. Sama frétt er höfð orðrétt eftir í fleiri kínverskum fjölmiðlum. Í fyrirsögn fréttarinnar segir að Ma Kai hafi átti fund í Reykjavík með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Vitnað er í Ma sem segir meðal annars að á milli landanna ríki gagnkvæmt traust og einlægur vinskapur. Þá er vitnað í Ólaf Ragnar sem segir að í kjölfar íslensku fjármálakreppunnar hafi verið mikilvægt að efla viðskipti og fjárhagslega samvinnu milli landanna. Þessa samvinnu þurfi að þróa betur og hraðar er haft eftir Ólafi. Aftur er vitnað í Ma Kai og kemur þá meðal annars fram að mikilvægt sé að auka nemendaskipti á milli landanna og samhæfa stefnu og samskipti vegna málefna norðurslóða. Undir lok fréttarinnar kemur síðan fram að yfirvöld í Kína líti á Ísland sem mikilvægan samstarfsaðila á sviði jarðhita, umhverfisverndar, tækni og vísinda og ferðaþjónustu. Lokaorð fréttarinnar eru þó einna athyglisverðust en þar segir að Ísland óski eftir því að þróa „silkileið norðursins“ með Kína.

Í framhaldi af heimsókn Ma Kai hóf utanríkisráðherra Íslands upp raust sína í viðtali á Bloomberg fréttavefnum og sagði að við Íslendingar ættum að nýta þann áhuga sem Kínverjar sýna Íslandi, en gera það á okkar forsendum.

Nú er ekki víst að forsendur Íslendinga geti ráðið ferðinni í samningum við stórveldi. Kína er fjölmennasta ríki veraldar en á Íslandi búa um 320.000 manns. Kínverjar gera allt á eigin forsendum og eru mjög góðir í því. Stjórnvöld í Kína eru þekkt fyrir áætlanagerð og skipuleggja þá gjarnan langt fram í tímann. Þau eru heldur ekki þekkt fyrir að bjóða samvinnu við önnur lönd nema fá eitthvað í staðinn.

Framtíðarsýn kínverskra yfirvalda virðist miða að því að tryggja góðar samgöngur fyrir kínverskar vörur til Evrópu, einskonar nútíma silkileið. Miðstöðvar til uppskipunar og annarskonar athafnasvæði eru mikilvægur hluti af slíkum áætlunum. Kaup Kínverja á hafnarsvæðum í Grikklandi styðja þessa kenningu sem og áhugi þeirra á Íslandi og norðurslóðum.

Fyrir okkur Íslendinga er nú nauðsynlegt að fá að vita hvort íslensk stjórnvöld séu í fullri alvöru að vinna að því að gera Ísland að einhverskonar kínverskri bensínstöð á þessari nýju leið frá Kína til Evrópu.

Í hæstu hæðum

Þegar önnur okkar var á ferðalagi um Toskana héraðið á Ítalíu nýlega voru rifjaðar upp sögur af ríkum fjölskyldum í bænum San Gimignano sem kepptust á miðöldum við að byggja sem hæsta turna. Þær sýndu mátt sinn og megin með því að byggja hærri turn en óvinurinn eða nágranninn. Til að gera langa sögu stutta voru í þessum litla bæ í lok miðalda um 72 turnar, allt upp í 50 metra háir. Á endanum þurfti að grípa í taumana og setja mörk á hæð húsa. Turnarnir gerðu ásýnd bæjarins úr fjarska ógleymanlega, sem hljómar óneitanlega kunnuglega fyrir Shanghaibúa.

Í Kína rísa nú háhýsin hvert á fætur öðru.

dscf3968b

Shanghai World Financial Center (492 metrar) er hæsta bygging í Kína og fjórða hæsta bygging veraldar á eftir Burj Khalifa í Dubai (828 metrar), Makkah Royal Clock Tower Hotel í Mecca (601 metri) og Taipei 101 í Taipei (508 metrar). Möstur og útsýnisturnar eru þá ekki talin með. Til samanburðar má nefna að hæsta bygging Íslands, turninn við Smáratorg, er 77,6 metra hár svo hæsta bygging heims er rúmlega 10 sinnum hærri en okkar hæsta hús.

Mynd2

En hlutirnir breytast hratt í henni veröld og ekki síst í Kína því nú er að rísa enn hærri bygging við hlið SWFC, Shanghai Tower, sem verður annað hæsta hús í heiminum þegar byggingu hennar lýkur á næsta ári, eða 632 metrar með hæsta útsýnispalli veraldar og hraðskreiðustu lyftum í heimi. Kostnaðurinn við bygginguna er áætlaður um 300 milljarðar íslenskra króna.

shanghaitower

Shanghai Tower verður þó ekki lengi hæsta byggingin í Kína því nú þegar er verið að byggja tvær hærri í Wuhan og Shenzhen og tvær til viðbótar eru fyrirhugaðar.

Sky City í Changsha í Hunan héraði er önnur af þessum fyrirhuguðu byggingum. Undirbúningsframkvæmdir hófust í sumar og á húsið að verða það hæsta í heimi, eða 838 metrar. Það sem er sérstakt við þá byggingu er byggingarhraðinn, því til stóð að klára hana á 10 mánuðum.

sky-city-renderings3Fyrirtækið sem byggir Sky City er þekkt fyrir að nota ákveðna tækni, þar sem fyrst eru framleiddir stál- og steypukubbar í verksmiðju sem svo er raðað saman á byggingastað, ekki ólíkt legókubbum. Með þessari tækni byggði fyrirtækið fimmtán hæða hótel á sex dögum árið 2010 og þrjátíu hæða hús á fimmtán dögum ári síðar.

Aðeins nokkrum dögum eftir að framkvæmdir á Sky City hófust voru þær stöðvaðar vegna skorts á tilskildum leyfum en áður höfðu margir látið í ljós efasemdir um öryggi byggingarinnar. Ekkert hefur heyrst af málinu síðan og áhugavert verður að fylgjast með því hvort Sky City verður að veruleika.

Af tíu hæstu byggingum í smíðum í heiminum í dag eru sjö í Kína. Það er því ekkert lát á byggingu háhýsa hér og greinilegt að Kínverjar leggja mikið upp úr því að byggja mikið og hátt. Hvort þeir eru að sanna mátt sinn og megin með þessu móti líkt og Ítalirnir forðum skal ósagt látið en hún er skondin sagan af Kínverjanum sem kom til Íslands í vinnuferð árið 2007 og hélt að landið væri mjög fátækt því húsin væru svo lágreist.

Á norðurslóðum í Shanghai

DSC_0782

Fyrir um áratug var hrundið af stað skipulagsverkefni í Shanghai sem kallast Ein borg, níu bæir, þar sem byggja átti níu bæi í úthverfum Shanghai. Tilgangurinn var að dreifa byggðinni og létta þannig á miðborginni. Við skipulagsvinnuna var horft til aukinnar velmegunnar með ört stækkandi millistétt og fjölgun auðmanna. Byggt var í samræmi við það og reynt að höfða til þessara hópa.

Ákveðið var að bæirnir yrðu eftirmyndir bæja í öðrum löndum og erlendar arkitektastofur voru kallaðar til aðstoðar. Þeir spruttu svo upp einn af öðrum, Thames Town, sá breski, með sínum rauðum símaklefum, bresku vörðum og að sjálfsögðu ánni Thames og sá hollenski með vindmyllum og risastórum tréklossa svo eitthvað sé nefnt.

Við ákváðum að heimsækja einn þessara bæja og fyrir valinu varð Norður-Evrópubærinn, eða Luodian New Town. Við höfðum lesið að þar sæti lítil hafmeyja á steini og hægt væri að dást að eftirmynd af alþingishúsi okkar Íslendinga.

DSC_0830

DSC_0820

DSC_0806

Norður-Evrópubærinn var hannaður af sænskum arkitektum og fyrirmyndin er bærinn Sigtuna í Svíþjóð. Flest er í sænskum stíl, húsin, göturnar, kirkjan og vatnið í miðjum bænum heitir eftir Lake Malaren í Svíþjóð. Í kringum vatnið er stór garður með gróðri frá Norður-Evrópu, fyrir utan stöku pálmatré, sem virðast hafa villst með. Mikið er af styttum á víð og dreif um svæðið, allar af nöktu fólki í einkennilegum stellingum. Á svæðinu eru golfvöllur, hótel og ráðstefnuhöll en hótelið minnir reyndar meira á Disneykastala en hótel í Norður-Evrópu.

DSC_0791

DSC_0790

DSC_0841

DSC_0812

Í blaðaviðtali við sænskan landslagsarkitekt sem kom að hönnun bæjarins kemur fram að hönnunin og byggingin hafi tekið ótrúlega skamman tíma og að fyrsti hlutinn hafi verið tilbúinn eftir um þrjú ár. Í gegnum allt ferlið var þó stöðugt verið að breyta skipulaginu að ósk heimamanna. Hann sagðist sáttur við lokaniðurstöðuna þó að ekki sé allt nákvæmlega samkvæmt þeirra plani.

Ekki fundum við alþingishúsið og enga hafmey á steini en hún gæti einfaldlega verið horfin því hlutirnir breytast hratt hér í Kína. Þarna voru mörg brúðhjón í myndatökum og flest fyrirtækin í bænum eru ljósmyndastofur, ein slík var meira að segja i kirkjunni.

DSC_0762

DSC_0765

DSC_0758

Það var kostuleg upplifun að ganga um í eftirlíkingu af skandinavískum bæ með kínverskum skiltum og kínverskri lykt og fylgjast með brúðhjónamyndatökum.

Þó er dapurlegt að hugsa til þess að markmiðin með verkefninu Ein borg, níu bæir virðast alls ekki hafa náðst þrátt fyrir mikinn tilkostnað. Bærinn er hálfgerður draugabær þar sem fáir búa og það sama virðist gilda um flesta hina bæina í verkefninu.

DSC_0817

Á flugi inn í framtíðina

PASSENGERS

Deilan um framtíð flugvallar í Vatnsmýri virðist ósköp smá í sniðum þegar horft er til áætlana um fjölgun flugvalla í Kína. Sé tekið mark á kínverskum fjölmiðlum er gert ráð fyrir byggingu 56 nýrra flugvalla á árunum 2011-2015, auk þess sem unnið er að endurbótum og stækkunum á þeim sem fyrir eru. Samkvæmt þessu verða flugvellir landsins orðnir 230 í árslok 2015. Þetta gera Kínverjar þrátt fyrir að meirihluti flugvalla í landinu sé nú rekinn með tapi. Trúin á framtíðina á sér engin takmörk enda ljóst að flugfarþegum í Kína mun fjölga mikið á næstu árum. Spár segja að árið 2016 verði þeir orðnir fleiri en í Bandaríkjunum, en þar hefur fjöldi flugfarþega verið mestur hingað til. Umferð um flugvöllinn í Beijing hefur þrefaldast síðustu tíu ár og á næsta ári mun hefjast þar bygging nýs flugvallar, aðeins fjórum árum eftir að algjörri endurbyggingu og stækkun núverandi flugvallar lauk.

Eins og jafnan í Kína eru flugvallarframkvæmdir stórtækar. Hér má sjá nokkur dæmi:

airport_dalian

Í Dalian-borg við norðausturströndina er unnið að rúmlega 21 ferkílómetra uppfyllingu þar sem meðal annars rís nýr flugvöllur. Framkvæmdin á landfyllingunni er sú stærsta í heimi með þessu sniði en hönnun var í höndum BNA Planning sem er alþjóðlegt fyrirtæki með rætur í Frakklandi.

shennongjia

Í náttúruparadísinni Shennongjia í Hubei-héraði hafa hæðir og dalverpi verið flött út í 2,580 metra hæð yfir sjávarmáli svo byggja megi alþjóðlegan flugvöll. Fáar fréttir höfðu borist af framkvæmdinni sem hófst árið 2011, þar til tilkynnt var í sumar að flug myndi hefjast nú í október. Uppbyggingin á sér stað í friðlandi ósnortins skóglendis og hefur vakið reiði umhverfissinna. Aðrir trúa að völlurinn muni auka á lífsgæði og ferðamannastraum í héraðinu og í yfirlýsingum stjórnvalda er fullyrt að framkvæmdin muni ekki raska lífríki svæðisins.

flughofnsichuan

Í síðustu viku, nánar til tekið 16. september, hófst áætlunarflug til Daocheng Yading flugvallarins í Sichuan-héraði. Hann var byggður í 4,411 metra hæð og er þar með sá flugvöllur í heiminum sem liggur hæst yfir sjávarmáli. Frá flugvellinum má auðveldlega ferðast til ósnortinna landsvæða í Tíbet og þótt sumir Tíbetbúar fagni mögulegum ferðamannastraumi er framkvæmdin umdeild. Mörgum þykir vald flokksforystunnar í Beijing nú færast nær og óttast að unnin verði spjöll á náttúrunni í þágu “uppbyggingar hagkerfisins.“

hefeixinqiaoairport

Hefei er höfuðborg Anhui-héraðs í austurhluta Kína. Nýr alþjóðlegur flugvöllur hóf starfssemi í borginni í maí á þessu ári.

kunming

Árið 2012 opnaði nýr flugvöllur í Kunming í Yunnan-héraði. Changshui flugvöllurinn leysir af hólmi eldri flugvöll og var hannaður af Beijing Institute of Architectural Design (BIAD) sem er arkitektastofa í eigu kínverska ríkisins.

shenzhenÁrið 2008 unnu ítölsku arkitektarnir Massimiliano og Dorian Fuksas samkeppni um nýja flugstöðvarbyggingu á Bao´an flugvellininum í Shenzhen-borg í suðurhluta Kína. Flugstöðin verður byggð í þremur áföngum og sá fyrsti opnaður árið 2015.

Árið 2014 hefjast í suðurhluta Beijing framkvæmdir við annan flugvöll höfuðborgarinnar. Opnun hans er fyrirhuguð árið 2018 og verður nýi völlurinn þá sá stærsti í heimi. Flugvöllurinn í Beijing er nú þegar sá næstfjölfarnasti í heimi (á eftir Atlanta í Bandaríkjunum) auk þess að eiga met sem lengsta bygging í heimi en flugstöðvarbygging breska arkitektsins Norman Foster er 3,25 km löng.

beijing_airport