Framtíðarhönnun til sýnis

Margir hönnuðir binda vonir við að koma hugmyndum sínum á framfæri í Kína. Tækifærin virðast óendanleg á þessum nýja, risavaxna markaði og kaupgetu kínversku þjóðarinnar, eða að minnsta kosti hluta hennar, virðist engin takmörk sett. Á hinn bóginn getur verið vandasamt að finna verðugan vettvang til að kynna hönnun fyrir áhugasömum Kínverjum. Síðustliðin ár hafa verið gerðar tilraunir til að skapa slíkan vettvang hér í Shanghai, nú síðast með hönnunarsýningunni Design Shanghai sem fram fór 27. febrúar til 2. mars. Við ákváðum að kíkja á sýninguna og upplifa stemninguna.

Screen Shot 2014-03-04 at 4.36.39 PM

Þetta er í fyrsta skipti sem sýningin er haldin undir þessu nafni en tilraunir með árlegar 100% Design Shanghai sýningar frá árinu 2008 eru þó augljós undanfari hennar. 100% Design er hugmynd sem lifir góðu lífi í London og Tokyo en náði sér ekki á strik í Shanghai. Fyrirtækið sem er bakhjarl 100% sýninganna, Media 10, kemur eftir sem áður að verkefninu og að þessu sinni var kínverskur sýningarstjóri fenginn til að stjórna verkefninu. Sá heitir Gu Zhihua og hefur náð góðum árangri við uppbyggingu alþjóðlegu myndlistarmessunnar Shanghai Art Fair. Meira var lagt í hönnunarsýninguna í ár og fjölmargir erlendir framleiðendur mættu til leiks í fyrsta sinn, þar á meðal heimsþekkt vörumerki á borð við Fritz Hansen, HAY, Cappellini og Vitra. Auk hinnar hefðbundnu vörusýningar var boðið upp á fyrirlestraröð þar sem fram komu innlendir og erlendir arkitektar, listamenn og hönnuðir. Þar á meðal var að finna fræg nöfn á borð við Michael Young og Ilse Crawford, Shanghai arkitektana Neri&Hu og hina íslensku Kristjönu S. Williams. Allt fór þetta fram í boði bílaframleiðandans Jaguar Land Rover.

Heimsókn á sýninguna

Design Shanghai sýningin er kynnt sem spennandi alþjóðlegur vettvangur sem leiðir saman arkitekta, hönnuði og framleiðendur frá öllum heimshornum. Í kynningarefninu er einnig talin ástæða til að bæta því við þessa upptalningu að til leiks mæti þeir kínversku auðmenn sem áhuga hafi á hönnun.

IMG_4448

Umgjörð sýningarinnar er íburðarmikil enda er hún haldin í glæsilegri sýningarhöll sem byggð er í klassískum rússneskum stíl. Byggingin er frá árinu 1955 og hét upphaflega Sino-Soviet Friendship Building og var á sínum tíma gjöf frá kommúnistastjórninni í Moskvu. Nafninu var breytt í Shanghai Exibition Center árið 1984.

Í forsal sýningarinnar minna glæsibifreiðar frá Jaguar og Land Rover á aðalstyrktaraðila sýningarinnar og með fagurskreyttum bar frá einum frægasta kampavínsframleiðanda Frakklands er tilfinningunni um lúxusveröldina gefið enn frekar undir fótinn.

IMG_4417

Þegar komið er inn á sýninguna virðist okkur þó lítið fara fyrir kínverskum auðmönnum í samanburði við allan þann fjölda kínverskra ungmenna sem streymir um svæðið og tekur myndir af öllu sem fyrir augu ber. Og þrátt fyrir gestafjöldann virtist lítið um hefðbundin samtöl og samingaviðræður í sýningarbásunum.

IMG_4470

IMG_4439

Mörg fyrirtæki veðja á Shanghai til að hefja sölu á vörum sínum í Kína. Að sama skapi er borgin af mörgum talin vænlegur framtíðarvettvangur fyrir hverskyns hönnun. Helstu fatahönnuðir heims hafa á undanförnum árum keppst við að setja hér upp verslanir og heimsfrægir húsgagnaframleiðendur feta nú margir í fótspor þeirra.

Sýningin Design Shanghai er augljóslega liður í að kynna erlendar hönnunarvörur fyrir kínverskum neytendum. Fyrirlestarröðin sem fram fór samfara sýningunni og fjallaði um framtíð hönnunar kann að miðla faglegri þekkingu en sölumennskan var þó allsráðandi. Þema sýningarinnar var West meets East en þeir sem mættu þangað til að kynna sér það nýjasta í kínverskri hönnun hafa örugglega margir orðið fyrir vonbrigðum því þátttakendur frá Kína voru fáir.

IMG_4466

Þátttakendur frá Kína

Nútímahönnun er að feta sín fyrstu fótspor í Kína og sama gildir um flesta kínverska hönnuði frá alþýðulýðveldinu. Þeir reyna margir hverjir að skapa sér sérstöðu í alþjóðlegu umhverfi og áberandi eru hlutir sem hafa tilvísun í fortíð lands og þjóðar, ekki ósvipað og hefur verið áberandi á meðal ungra íslenskra hönnuða á undanförnum árum. Á meðan sauðkindin og náttúran eru algeng viðfangsefni á Íslandi sækja ungir hönnuðir hér í Kína fyrirmyndir sínar í kínverskar hefðir og menningu. Kínversk nútímahönnun ber til dæmis oft keim af húsgögnum frá tímum Ming ættarveldisins og hugmyndaheimurinn snýst gjarnan um að sameina gamla og nýja tíma.

pusu

PuSu Lifestyle er vörumerki kínverska hönnuðarins Cheng Yanfei. Í kynningu fyrirtækisins segir að það leggi áherslu á að skapa jafnvægi milli hefðbundinnar og nútímalegrar hönnunar.

shanliang_exhib

Shanliang heitir fyrirtæki Shan Huabiao and Liang Guanbo en með hönnun sinni leitast þeir við að sameina kínverskan menningararf og nútíma lífshætti.

danfulyang

Pearl Lam Design er hönnunargallerí í Shanghai og Hong Kong sem styður við erlenda og kínverska hönnuði. Galleríið hvetur hönnuðina til að sprengja af sér hefðbundin gildi kínverskrar menningar og nota nýja tækni og efnivið til að skapa verk sem endurspegli reynslu þeirra í Kína nútímans.

SONY DSC

Zishaoze er fyrirtæki kínverska hönnuðarins Song Tao sem trúir því að tilgangur með hönnun sé að bræða saman hefðbundin form og nútímamenningu.

neri&hu

Neri&Hu. Við fjölluðum um eigendur fyrirtækisins, arkitektahjónin Lyndon Neri og Rossana Hu hér. Þau komu að sýningunni á margvíslegan hátt enda hafa þau verið ötul við að efla umræðu um hönnun í Kína þau tíu ár sem þau hafa starfað í Shanghai.

IMG_4425

Það er fullkomlega eðlilegt að sölutækifærin í Kína freisti þeirra sem leita nýrra markaða fyrir vörur sínar. Það rímar líka ágætlega við Shanghai, sem er miðstöð fjármála og viðskipta í landinu, að hér verði í framtíðinni helsti vettvangur í Kína til að versla með hönnunarvörur. Hitt er svo annað mál að verslun með hönnun hefur sáralítið með framtíðarsýn í hönnun að gera. Það er mikilvægara, jafnt fyrir Kína og heiminn í heild sinni, að tengja hugtakið hönnun við annað og meira en aukna neyslu. Þannig gæti hönnun orðið afl sem knýr fram breytingar. Hönnun má ekki bara snúast um flottheit og nýjar vörur heldur liggja verðmætin í hugmyndum sem geta breytt lífi okkar í átt að sjálfbærari framtíð. Tækni, vísindi og hönnun geta skipt sköpum um hvernig umhverfi maðurinn mun skapa sér í framtíðinni. Framtíð sem þegar er hafin í Kína, en með því að notast við aðferðir fortíðar blasa hér nú þegar við hrikaleg umhverfis- og mengunarvandamál sem kaupstefna, þar sem lúxusbílar og rándýrar hönnunarvörur eru í forgrunni, getur engu um breytt.

IMG_4457

Fjárfesting í erlendu vegabréfi

Það voru nær eingöngu Kínverjar á flugvellinum í Vancouver þegar önnur okkar var stödd þar fyrir skemmstu. Sem er ekkert skrýtið, þetta er í byrjun febrúar og kínverska nýárshátíðin stendur sem hæst. Auk þess búa um 400 þúsund kínverskir innflytjendur í kanadísku borginni. Kínverjar hafa lengi verið áberandi i Vancouver, margir fluttu þangað frá Hong Kong eftir að yfirvöld í Beijing tóku við stjórn bresku nýlendunnar, og á allra síðustu árum hafa innflytjendur frá meginlandi Kína streymt til borgarinnar í tugþúsundatali.

Þennan sama dag má lesa í dagblaðinu South China Morning Post (SCMP), sem gefið er út í Hong Kong, að komið sé í ljós að vegabréfsáformum kanadíska yfirvalda hafi verið kollvarpað af kínverskum milljónamæringum. Svokallaðar fjárfestingaráritanir til Kanada hafa verið eftirsóttar meðal efnafólks í Kína en fjöldi umsókna var orðinn svo mikill að kanadísk yfirvöld ákváðu árið 2012 að frysta verkefnið.

Vancouverskyline

Frá Kína til Kanada

Árið 1984 gerðu Bretar og Kínverjar með sér samkomulag sem fól í sér að yfirráðin yfir Hong Kong myndu færast til Beijing árið 1997. Í kjölfarið ríkti mikil óvissa um framtíðina meðal Hong Kong Kínverja. Margir kusu að flytjast búferlum til annarra landa. Kanada var eitt þeirra ríkja sem stóð þeim opið og yfir 300 þúsund íbúar Hong Kong fluttu þangað á níunda og tíunda áratugnum. Flestir komu sér fyrir í Vancouver og kannski lögðu þeir þar með grunn að kínversku samfélagi í borginni, að minnsta kosti sækjast langflestir Kínverjar sem flytja til Kanada eftir búsetu þar.

Fólksflutningarnir frá Hong Kong náðu hámarki um 1994 en eftir 1998 fór að hægjast um og eftir aldamótin 2000 hefur fjöldi innflytjenda frá Hong Kong til Kanada að meðaltali verið um 500 á ári. En þótt færri Hong Kong búar sækist nú eftir búferlaflutningum til Kanada hafa umsóknir um dvalarleyfi sem berast kanadísku rædismannaskrifstofunni í Hong Kong aldrei verið fleiri. Talið er að 99% umsækjanda séu frá Alþýðulýðveldinu og tugþúsundir auðkýfinga frá meginlandi Kína hafa lagt inn umsóknir um svokallaða fjárfestingarleið (Investor Visa).

Fjárfest í vegabréfi

Kanada og fleiri lönd bjóða þeim sem eiga næga peninga að fjárfesta í landinu og fá í staðinn vegabréf. Um háar fjárhæðir er að ræða og í raun aðeins á færi milljónamæringa að komast yfir nýtt ríkisfang á þennan hátt. Til þess að geta sótt um í kanadíska prógramminu þurfa peningaeignir viðkomandi að vera metnar á að minnsta kosti 1,6 milljónir Kanadadollara (tæpar 170 milljónir íslenskra króna) og lána þarf Kanadastjórn helminginn af þeirri upphæð, eða 800 þúsund dollara, vaxtalaust í fimm ár. Í staðinn fær milljarðamæringurinn dvalarleyfi fyrir sig og fjölskyldu sína og að þremur árum liðnum geta þau síðan sótt um ríkisfang.

Árið 2012 voru 3.643 slíkar fjárfestingaráritanir samþykktar á heimsvísu samkvæmt frétt SCMP. Rannsókn blaðsins leiddi einnig í ljós að umsóknum til sendiskrifstofu Kanada í Hong Kong fjölgaði úr 520 árið 2002 í 34.427 árið 2012. Stjórnvöld í Kanada ákváðu að hækka peningaviðmiðin árið 2010 og í kjölfarið mun eitthvað hafa dregið úr fjölda umsókna. Eftir sem áður voru áhugasamir langtum fleiri en ráðið varð við og brugðust Kanadamenn við með því að gera hlé á afgreiðslu allra slíkra umsókna árið 2012.

CanadaPause1-400x270

Í frétt SCMP segir að 110.813 manns frá meginlandi Kína og 3.305 frá Hong Kong hafi fengið dvalarleyfi í Kanada frá árinu 2010. Flestir sækjast eftir skráningu í British Columbia fylki á austurströndinni og tugþúsundir efnaðra Kínverja hafa keypt sér húsnæði í Vancouver sem er stærsta borg fylkisins. Þetta hefur haft í för með sér mikla hækkun á fasteignaverði í borginni og fram hafa komið áhyggjur af félagslegum og efnahagslegum áhrifum þessara miklu, og fremur einsleitu, fólksflutninga á svæðið. Þá er það ekki síður áhyggjuefni að margir setjast þarna að einungis að nafninu til því margir Kínverjar sem sækjast eftir kanadísku vegabréfi halda áfram að búa og starfa í Kína.

Kanadíska leiðin hefur verið langvinsælasta aðferð kínverskra auðkýfinga til að öðlast erlent ríkisfang. Kínverskar umsóknir til Kanada eru fleiri en til Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu til samans, en þau lönd bjóða einnig upp á slíkar fjárfestingarleiðir.

Strangari reglur

Samkvæmt nýjustu fréttum hafa stjórnvöld í Kanada ekki aðeins gert hlé á afgreiðslu fjárfestingarvegabréfa, heldur hafa nú einnig verið samþykkt ný lög í kanadíska þinginu sem munu hafa mikil áhrif á málaflokkinn í framtíðinni. Nýju lögin gera ráð fyrir að innflytjendur verji meiri tíma í landinu, fylli strax út skattskýrslur og að þeir skrifi undir samning þess efnis að þeir hyggist búa í landinu í framtíðinni ef þeir vilja gerast ríkisborgarar. Einnig verða gerðar meiri kröfur um tungumálakunnáttu og gert er ráð fyrir strangari viðurlögum komist upp um svik við umsóknarferlið. Í SCMP er vitnað í Chris Alexander, ráðherra innflytjendamála, sem segir að stjórnvöld séu einfaldlega að fara fram á að þeir sem sæki um ríkisfang í landinu gefi loforð um að búa í Kanada og haft verði auga með þeim sem leggja inn villandi umsóknir. Lögheimili er skilgreint á nýjan hátt í lögunum og kröfur um að umsækjendur eyði meiri tíma í landinu eru hertar til muna. Tíminn sem dvalið er í Kanada áður en umsóknin er lögð fram telst ekki lengur með. Eða eins og kanadíski ráðherrann orðar það: Eina leiðin til að kynnast þessu landi er að dvelja hér og upplifa það.

harry´sview

Ávísun á betra líf

Líklegt er að auknar kröfur Kanadastjórnar muni fæla marga Kínverja frá því að sækjast eftir kanadískum ríkisborgararétti enda virðist markmið margra ekki endilega að búa í Kanada, heldur að komast yfir kanadískt vegabréf. Erlendur ríkisborgarararéttur opnar dyr að mörgum gáttum sem kínverskir ríkisborgarar hafa ekki aðgang að. Til dæmis veitir kanadískur passi viðkomandi rétt til að setjast að í Hong Kong og í frétt SCMP kemur fram að þar búi nú 295 þúsund Kanadamenn. Margir teljast vafalaust til þeirra sem á sínum tíma yfirgáfu landið vegna yfirtöku Kína en hafa snúið aftur eftir að ljóst varð að Hong Kong myndi áfram njóta sérstöðu. Þeir Kínverjar sem snúa til Alþýðulýðveldisins með kanadískt vegabréf geta hagað lífi sínu öðruvísi en áður, þeir verða reyndar útlendingar í eigin landi þar sem ekki er hægt að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt í Kína, en ef nægir eru peningarnir skiptir það ekki máli. Börnin þeirra eiga kost á að ganga í alþjóðlegan skóla, þeir fá jafnvel aðgang að betri íbúðahverfum og vegabréfinu fylgir aukið frelsi, til dæmis til ferðalaga. Í alþjóðlegum skólum hér í Shanghai eru fjölmörg kínversk börn með erlendan passa. Þau kenna sig þá gjarnan við vegabréfslandið, sem oftast er Kanada eða Bandaríkin, þótt þau hafi kannski aldrei komið þangað né eigi þar ættingja. Önnur ástæða fyrir því að efnafólk frá Kína sækist eftir erlendu ríkisfangi er að það opnar möguleika á fjárfestingum erlendis sem þykja tryggari en heimafyrir þar sem allt er háð alræði kommúnistastjórnarinnar.

OB-XC848_0418CR_G_20130418020456

Kínverjar eru stór hluti af íbúum jarðar og augljóst að þeir munu hafa áhrif víðar en í heimalandinu á næstu árum og áratugum. Það er að mörgu leyti skiljanlegt að fólk hér í Alþýðulýðveldinu vilji komast í burtu og njóta tækifæra sem ekki gefast undir alræðisstjórn. Og þá er gripið til ýmissa ráða. Þannig eru til að mynda fjölmörg dæmi þess að kínverskir foreldrar ferðist til Bandaríkjanna til að eignast barn. Þar er það stjórnarskrárbundinn réttur að allir sem fæðast á bandarísku yfirráðasvæði eigi rétt á bandarísku ríkisfangi. Þetta notfæra margir Kínverjar sér, konurnar fljúga yfir hafið til að fæða og snúa skömmu síðar aftur heim með útlending. Þótt barnið hafi þar með engin réttindi í Kína skiptir það ekki máli því ef peningar eru til staðar má skapa barninu framtíð sem venjulegt kínverskt alþýðubarn á enga möguleika á.

Í SCMP kemur fram að yfir 45 þúsund kínverskir auðkýfingar bíði þess að umsóknir þeirra um að flytja til British Columbia í Kanada verði afgreiddar. Auðæfi þeirra eru gríðarleg og spurning hvort yfirvöld í Kanada hafi efni að hafna þessum nýju ríkisborgurum. Á sama hátt má spyrja hvort Kína hafi efni á að missa slíka fjármuni úr landi en ekki er gott að segja hvort slíkar fréttir séu álitnar neikvæðar eða jákvæðar af kínverskum stjórnvöldum. Í öllu falli er ljóst að í augum meginlandsbúa liggur leiðin til Kanada í gegnum Hong Kong því fáar umsóknir um fjárfestingarleiðina berast til sendiráðs Kanada í Beijing.

Uppfært: Í gær á kanadískum tíma, sama dag og við birtum þessa færslu, lýsti fjármálaráðherra Kanada því yfir að fjárfestingarleiðin verði afnumin. Umsóknum 46 þúsund kínverskra milljónamæringa verður eytt og fá þeir umsóknargjaldið endurgreitt.

Spillingin í skipafélaginu

Nú þegar hið íslenska Eimskip hefur skrifað undir framtíðarsamkomulag við kínverska skipafélagið Cosco er freistandi að fara yfir það helsta sem sést hefur á prenti um þetta kínverska félag og móðurfélag þess, ríkisreknu samsteypuna China Ocean Shipping Group, eða Cosco Group.

cosco

Cosco er annað af tveimur stórum skipafélögum kínverska ríkisins og mun vera það fimmta stærsta í heimi. Nafn þess hefur komið nokkuð við sögu í alþjóðlegum fréttum á síðustu misserum vegna umfangsmikilla kaupa þess á hafnarmannvirkjum í Grikklandi. Fyrirtækið hefur einnig komist í sviðsljósið vegna tapreksturs og spillingar meðal yfirmanna. Fjölmiðlar í Kína og erlendis hafa fjallað um lélega afkomu Cosco tvö ár í röð, árið 2011 og 2012. Efnahagskreppan í heiminum á að hafa valdið afleitri afkomu fyrirtækisins. Málið vakti athygli ekki síst fyrir þá sök að fyrirtækinu var hótað afskráningu í kauphöllinni í Shanghai ef það bætti ekki afkomu sína. Til þess kom þó ekki og sýnt var fram á betri afkomu Cosco fyrir árið 2013, eftir því sem sumir segja með sölu eigna og tilfæringum innan samsteypunnar.

Spillingarmál hafa vakið enn meiri athygli á Cosco en lélegur reksturinn. Eins og oft vill verða í Kína eru upplýsingar um slík mál af skornum skammti en komið hefur fram að frá árinu 2011 hafi fjórir framkvæmdastjórar í þremur starfsstöðvum samsteypunnar verið látnir sæta rannsókn vegna spillingar. Margir eru sannfærðir um að rannsóknirnar séu hluti af herferð stjórnvalda gegn spillingu í landinu, þeirri sem Xi Jinping forseti boðaði þegar hann var settur í embætti á síðasta ári. Herferðin felst í því að berjast gegn víðtækri spillingu í kínversku samfélagi enda er hún talin geta ógnað framtíð kommúnistaflokksins.

Í yfirlýsingu frá móðurfyrirtækinu Cosco Group hefur komið fram að þar á bæ styðji menn af öllum mætti herferð kommúnistaflokksins gegn spillingu og sætti sig því við vera undir smásjá fjölmiðla og almennings. Þegar Xu Minjie, einn valdamesti maður fyrirtækisins, var sakaður um misferli í nóvember á síðasta ári birtist yfirlýsing á vefsíðu samsteypunnar. Þar kom fram að Xu sætti rannsókn viðeigandi yfirvalda en það myndi ekki hafa nein áhrif á rekstur fyrirtækisins. Sem gæti komið á óvart þar sem Xu gengdi þremur mikilvægum stöðum innan samsteypunnar; sem varaforstjóri China Ocean Shipping Group, varaframkvæmdastjóri Cosco Holding og framkvæmdastjóri Cosco Pacific. Frekari upplýsingar um málið var ekki að finna í tilkynningunni en í skilaboðum fyrirsækisins til kauphallarinnar í Hong Kong í janúar kom aftur á móti fram að Xu Minjie hefði sagt upp störfum af persónulegum ástæðum.

Fleiri yfirmenn hjá Cosco hafa verið sakaðir um spillingu. Nokkrum mánuðum áður en Xu komst í fréttirnar höfðu kínverskir ríkisfjölmiðlar birt fréttir af Meng Qinglin sem sætti rannsókn vegna spillingar í júlí. Meng Qinglin var framkvæmdastjóri Cosco Dalian sem sinnir rekstri tanksskipa og misferlið er talið tengjast kaupleigu á skipum. Nokkrum dögum síðar sagði Ma Zehua, núverandi forstjóri Cosco samsteypunnar, að það hefðu vissulega verið einhver vandræði með Cosco Dalian en skýrði það ekki frekar. Meng hætti síðan störfum hjá Cosco Dalian í janúar vegna aldurs, sextugur að aldri. Á fundi þar sem tilkynnt var um starfslokin mun framkvæmdastjórn fyrirtækisins hafa sagt að þeir kynnu vel að meta framlag Meng sem hafði unnið hjá fyrirtækinu í áratugi. Og það þótt sagan segi að starfsorka Meng hafi að mestu farið í að byggja upp sinn eigin rekstur á meðan hann var enn við störf hjá Cosco. Ekki þykir ólíklegt að svipað hafi legið að baki þegar varaframkvæmdastjóri Cosco í Qingdao, Song Jun, komst í fréttirnar árið 2011 þegar hann var handtekinn vegna gruns um spillingu. Ekki fer þó frekari sögum af því.

Frægastur þeirra Cosco kappa sem komist hafa í sviðsljósið vegna gruns um spillingu er fyrrverandi forstjóri samsteypunnar, Wei Jiafu, gjarnan kallaður Kapteinn Wei. Hann er einn áhrifamesti viðskiptamaður Kína og mun hafa notið mikillar virðingar innan skipabransans sem æðsti yfirmaður í stærsta skipafélagi landsins. Þegar sögur fóru á stjá síðasta sumar um að Wei hefði verið bannað að fara úr landi meðan á rannsókn á starfssemi Cosco samsteypunnar stæði yfir, þótti ljóst að spillingarrannsóknin hefði teygt anga sína alla leið á toppinn. Talsmenn fyrirtækisins sögðu reyndar að þetta væru bara kjaftasögur sem blöðin væru að birta en engu að síður lét kapteinninn af störfum í júlí. Sumar sögur segja að hann hafi verið látinn hætta þar sem hlutahafar hefðu gert uppreisn í kjölfar afleitrar afkomu Cosco. Annarsstaðar hefur því verið haldið fram að afsögnin skýrist af spillingu og vitnað hefur verið í heimildamenn innan fyrirtækisins sem segja að allskonar svindl og grunsamlegar aðferðir tíðkist við stjórn hinna ýmsu eininga innan samsteypunnar. Skortur á góðu regluverki hafi leitt til þess að margir yfirmenn hafi misnotað stöðu sína til að vinna að eigin hagsmunum. Aðrir skýra spillinguna með því að benda á flókna yfirbyggingu og afskipti ríkisins sem leiði til þess að starfsmönnum sé alveg sama um eignir og þjónustu fyrirtækisins.

Photo Arnaldur Halldórsson

Þetta er svona það helsta sem hægt er að grafa upp um þennan nýja bandamann Eimskipafélagsins í fljótu bragði. Cosco er stórveldi þar sem sumir hlutar fyrirtækisins eru skráðir á markað en samsteypan er þrátt fyrir það í eigu kínverska ríkisins. Eins og áður sagði eru fréttir af atburðum innan opinberra fyrirtækja og stofnana í Kína mjög óljósar og erfitt að átta sig á raunverulegri framvindu mála. Gott dæmi um slíkan rugling er að samkvæmt frásögnum, sem bæði má finna í kínverskum fjölmiðlum og á erlendum fréttaveitum á borð við Reuters, er Kapteinn Wei Jiafu ekki lengur við störf. Á heimasíðu Cosco birtist hinsvegar enn ávarp hans sem æðsti stjórnandi fyrirtækisins, dagsett 29. mars 2012.

Ekki er víst að allir myndu leggja blessun sína yfir samband við fyrirtæki þar sem svo mikið hefur gengið á síðustu mánuði. En hjá Eimskip er augljóslega litið á Cosco sem verðugan samferðamann á ferðalagi þessa fyrrverandi óskabarns íslensku þjóðarinnar inn í framtíðina.

Fjársjóðsleit á kínverska netinu

Póstsendingum frá Kína til Íslands mun hafa fjölgað um 700% í aðdraganda jóla. Flestar þeirra má rekja til kínversku netverslunarinnar AliExpress. Ekki er víst að allir Íslendingar viti að netsíðan tilheyrir kínverska stórveldinu Alibaba Group og að stofnandi þess heitir Jack Ma og er einn ríkasti maður í Alþýðulýðveldinu Kína.

Taobao, eða fjársjóðsleitin sé nafnið þýtt yfir á íslensku, heitir skærasta stjarnan í netheimum Jacks Ma. Netversluninni er gjarnan líkt við Amazon og eBay þótt kínverski netmarkaðurinn sé í raun mun stærri en á Vesturlöndum. Almennt nýtur verslun á netinu gríðarlegra vinsælda meðal Kínverja og í fjölmiðlum hefur komið fram að 60% af öllum póstsendingum innan Kína séu á vegum Alibaba Group.

logo

Segja má að Jack Ma hafi uppgötvað falinn fjársjóð þegar hann stofnaði Taobao sem nú er stærsta netverslunarsíða í heimi. Kína er langstærsti netsölumarkaður í veröldinni og fyrirtæki Alibaba samsteypunnar selja meira en Amazon og eBay til samans. Stór hluti netgreiðslna í Kína fer auk þess í gegnum greiðslugáttina Alipay sem er einnig í eigu Alibaba.

jackma

Milljarðamæringurinn Ma

Jack Ma er fæddur árið 1964 í borginni Hangzhou. Hann féll tvisvar á inntökuprófunum sem skera úr um hvort viðkomandi kemst í háskóla hér í Kína, en í þriðju tilraun árið 1984 fékk hann inngöngu í háskóla í heimaborginni. Hann útskrifaðist með gráðu í ensku árið 1988 og starfrækti í framhaldinu þýðingarþjónustu sem leiddi til þess að honum gafst kostur á að ferðast til Bandaríkjanna árið 1995. Þar komst Jack Ma í fyrsta sinn í kynni við internetið. Þegar hann sneri aftur til Kína kom hann á fót upplýsingasíðu á netinu, á borð við Gulu síðurnar, en á þessum tímum mátti ekki svo mikið sem minnast á internetið í kínverskum ríkisfjölmiðlum. Ma seldi fyrirtækið fljótlega til ríkisrekins fjarskiptafyrirtækis en hóf sjálfur störf við deild innan kínverska viðskiptaráðuneytisins. Þar komst hann í kynni við áhrifamenn sem stýra kínverska internetinu og setja um það reglur. Eftir að hafa safnað reynslu og réttu samböndunum í ráðuneytinu stofnaði Jack Ma í samstarfi við nokkra aðra netvettvanginn Alibaba árið 1999 og fékk til þess styrk frá bandaríska fjárfestingarbankanum Goldman Sachs og japanska SoftBank bankanum. Alibaba var í fyrstu starfrækt á heimili Jacks Ma í Hangzhou en er nú eitt öflugusta einkafyrirtæki í Kína og án vafa eitt hið frægasta.

Sjálfur er Jack Ma mjög þekktur maður í Kína og víðar. Hann þykir nokkuð sérstakur í útliti og miðað við það sem hann hefur sagt í fyrirlestrum sínum gekk honum illa í barnaskóla og var spáð litlum frama. Annað kom á daginn og Ma hefur hlotið margvíslegar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir árangur í viðskiptum. Hann var til dæmis tilnefndur Young Global Leader af World Economic Forum árið 2003, átti sæti á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamestu menn veraldar árið 2009 og í lok síðasta árs hlaut hann heiðursdoktorstitil við Hong Kong University of Science and Technology.

Áhrif Alibaba Group hafa á undanförnum árum teygt sig langt út fyrir landamæri Alþýðulýðveldins Kína og margir hafa dáðst að frumkvöðlinum Jack Ma. Hann er oft til umfjöllunar í erlendum viðskiptamiðlum og hefur flutt fyrirlestra við fræga háskóla á borð við Harvard og Stanford í Bandaríkjunum. Þar hefur hann gantast með þá staðreynd að hann sótti á sínum tíma tíu sinnum um inngöngu í Harvard án árangurs.  Slík er frægðarsól Jacks Ma að í þriggja daga opinberri heimsókn Davids Cameron til Kína í desember síðastliðnum átti breski forsætisráðherrann einkafund með Ma. Samkvæmt bloggsíðu Alibaba mun markmið fundarins meðal annars hafa verið að styrkja stöðu breskra vörumerkja á vettvangi Alibaba og svokölluð selfie mynd sem Cameron birti af þeim köppum á Twitter fór víða.

Baráttan við eftirlíkingar

En umræðan um fyrirtæki Jacks Ma hefur líka oft verið neikvæð. Hæst ber þar gagnrýni á sölu eftirlíkinga á Taobao og öðrum netsíðum á vettvangi Alibaba. Að vísu er það yfirlýst stefna fyrirtækisins að selja ekki óekta vörur og fyrirtækið hvetur alla til að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda. Samsteypan hefur einnig sent frá sér yfirlýsingar þar sem samstarf Alibaba við kínversk yfirvöld í baráttunni gegn sölu á eftirlíkingum er ítrekað. Herferð lögreglunnar í Nanjing í mars á síðasta ári er dæmi um slíka samvinnu en þá leiddu kvartanir til rannsóknar á Taobao verslun sem seldi próteinduft undir vörumerkinu Nutrilite. Eigendur vörumerkisins létu kanna innihaldið og í ljós kom að um eftirlíkingu var að ræða. Lögreglan gerði í framhaldinu upptækar 170.000 dósir af duftinu og var áætlað verðmæti þeirra um 22 milljóna Bandaríkjadala, eða yfir 2,5 milljarðar íslenskra króna. Í öðru slíku áhlaupi lagði lögreglan í Shanghai hald á 20 þúsund snyrtivörur sem seldar voru undir ýmsum þekktum vestrænum vörumerkjum. Virði þeirra var talið um 1,6 milljón dollara, eða 186 milljónir króna, og átta voru handteknir. Alibaba hefur einnig átt í samstarfi við þekkt tískufyrirtæki á borð við hið franska Louis Vuitton með það að markmiði að stöðva sölu á fölsuðum vörum í Kína. Loks má nefna að árið 2012 tóku bandarísk yfirvöld Taobao út af lista yfir sjóræningjasíður og af því tilefni sendu yfirmenn Alibaba frá sér yfirlýsingu og töldu það vera mikilvægt skref í rétta átt.

Þrátt fyrir allt þetta þarf ekki að leita lengi á Taobao eða AliExpress til að finna allkyns eftirlíkingar. Það geta því fylgt því bæði kostir og gallar að selja þekkt vörumerki í Kína eins og þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas hefur reynt, en vörumerkið nýtur mikilla vinsælda meðal Kínverja. Að sama skapi eru kóperingar af vörum fyrirtækisins afar algengar. Fyrirtækið átti lengi í baráttu við ýmsar smásölusíður á Taobao en í nýlegri kínverskri blaðaumfjöllun kemur fram að hjá Adidas hafi fólk hreinlega gefist upp á að eltast við smæstu aðilana og einbeiti sér nú að stærri netbúðum í þeirri von að þeim sé frekar umhugað um góðan orðstír og jákvæðar umsagnir viðskiptavina. Í greininni kemur einnig fram að það virðist þó ekki skipta miklu máli hvað fyrirtæki á borð við Adidas beiti sér hart gegn eftirlíkingum, hætti ein netsíða að selja vöru, þá skjóti hún alltaf upp kollinum einhverstaðar annarsstaðar á Taobao.

Íslenska stoðtækjafyrirtækið Össur hf. er eitt þeirra fyrirtækja sem þarf að glíma við eftirlíkingar á kínverska netinu. Í fyrra uppgötvaðist að á Taobao var rekin sölusíða með merki Össurar þar sem vörur fyrirtækisins voru seldar og því haldið fram að um opinbera sölusíðu fyrirtækisins væri að ræða. Því fór þó fjarri og tókst að stöðva söluna með aðstoð kínverskra lögfræðinga, sem beindu spjótum sínum bæði að söluaðilanum og Alibaba. Vörur frá Össuri hf. eru þó enn í boði hjá hinum og þessum smásölum á Taobao sem hafa engin tengsl við fyrirtækið. Það er því erfitt að meta hvaðan vörurnar koma, þær gætu verið notaðar, þeim gæti hafa verið stolið eða þær keyptar erlendis. Sama gildir í raun um allar aðrar vörur sem eru seldar á Taobao og AliExpress. Sá vettvangur Alibaba sem þykir öruggastur heitir Tmall en þar hafa mörg erlend fyrirtæki sett upp eigin netverslanir. Þó þykir ljóst að Alibaba þarf að setja miklu strangari reglur um sölu á falsvarningi á netsíðum sínum til að tryggja hagsmuni löglegra söluaðila.

Umdeild auglýsing

Í lok síðasta árs beindist sviðsljósið hér í Kína enn og aftur að Alibaba í kjölfar umdeildrar auglýsingarherferðar fyrir Taobao. Þar var ímynd bandaríska mannréttindafrömuðarins Martins Luther King notuð til að auglýsa sérstakan tilboðsdag, 12. desember. Myndband sýndi King veifandi rauðu umslagi, sem er tákn um ríkidæmi og peningagjafir í Kína, hrópandi hin fleygu orð sín I have a dream í átt að risavöxnu peningatré. Í framhaldinu birtist annað rautt umslag sem á stendur eitthvað á þessa leið: Ef þú sáir einu rauðu umslagi, uppskerðu mörg rauð umslög. Ekki er gott að segja hver átti að vera boðskapurinn með þessari auglýsingu og hér er á einkennilegan hátt blandað saman tilbeiðslu á ríkidæmi og peningum, sem á sér sterka hefð hér í Kína, og arfleið hugsjónamanns sem barðist fyrir mannréttindum blökkumanna í Ameríku. Skemmst er frá því að segja að mörgum þótti auglýsingin einstaklega ósmekkleg. Svo mikil umræða varð um málið á kínverskum samfélagsmiðlum að Alibaba sá ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem beðist var afsökunar á ,,menningarlegri ónærgætni”. Ekki var setið við orðin tóm því í kjölfarið var auglýsingaherferðin fjarlægð af netinu.

mlk2_0

mlk1_0

mlk3_0

Á hlutabréfamarkað 

Í maí 2013 ákvað Jack Ma að stíga af stóli sem forstjóri Alibaba, að eigin sögn til þess að hleypa að ferskara blóði. Hann mun þó áfram hafa mest áhrifavald innan fyrirtækisins og undir hans forystu er hafin vinna við að gera Alibaba að alþjóðlegu hlutafélagi. Til stóð að skrá félagið í Hong Kong en í kauphöllinni þar féllu áætlanir Ma um að vera bæði ráðandi í fyrirtækinu, en gera það jafnframt að almenningshlutafélagi, í grýttan jarðveg. Gert var ráð fyrir að Ma sjálfur og 27 aðrir yfirstjórnendur myndu ráða yfir um það bil 10% hlut af fyrirtækinu sem myndi jafnframt tryggja þeim ævilangan rétt til að skipa fólk í stjórn þess. Yfirmenn hlutabréfamarkaðins í Hong Kong bentu á að lög kveði á um að allir hluthafar séu jafn réttháir í hlutafélagi og slíkt væri því ekki gerlegt. Viðbrögð Ma voru þau að draga umsóknina til baka en freista þess í staðinn að skrá félagið á markað í New York. Síðustu fréttir herma að hann vonist nú eftir betri undirtektum á Wall Street. Á meðan situr Jack Ma ekki auðum höndum og hefur meðal annars sést við kynningar á snjallsímaappinu Laiwang sem er nýjusta afurð Alibaba. Uppboð á Taobao á málverki eftir Ma sjálfan í desember var liður í þeirri kynningu og seldist málverkið á 2,4 milljónir kínverskra yuan, eða um 46 milljónir króna, en upphæðin var látin renna til góðgerðarmála. Þótt uppboðið hafi sannarlega beint athyglinni að Laiwang forritinu hefur það þó einnig sætt gagnrýni og þykir líkjast of mikið hinu kínverska WeChat appi, sem hefur átt gríðarlegri velgengni að fagna.

malverk (1)

Hingað til hefur mest af starfssemi Alibaba verið í Kína, þar sem hundruðir milljóna notenda kaupa vörur í gegnum Taobao og Tmall og greiða fyrir vöruna í gegnum greiðslugáttina Alipay á þessu stærsta netmarkaðstorgi veraldar. Að undanförnu hefur fyrirtækið hafið sókn erlendis, meðal annars með því að fjárfesta í netfyrirtækjum á borð við ShopRunner í Bandaríkjunum sem er samkeppnisaðili Amazon. Alibaba hefur einnig fjárfest í bandaríska fyrirtækinu sem stendur að leitarvélinni Quixey. Augljóslega hafa áhrif Alibaba þegar náð til Íslands í formi AliExpress netverslunarinnar og gera má ráð fyrir að töluverður hluti ágóðans af jólainnkaupum Íslendinga í ár hafi runnið í vasa Jacks Ma.

jackma3

Kynt undir kaupæði

Kínverjar með fulla vasa fjár ferðast um heiminn og kaupa merkjavöru. Á þessum nótum er oft fjallað um kaupgetu kínverskra ferðamanna; þeir fylla Harrod’s í London, standa í biðröð fyrir utan Louis Vuitton í París og kæta kaupmenn í Kaupmannahöfn. Af þessu mætti draga þá ályktun að skortur sé á nútímalegum vörum í Kína en því fer þó fjarri og í kínverskum stórborgum, eins og hér í Shanghai, fjölgar glæsilegum verslunarmiðstöðvum og alþjóðlegum verslunum með undraverðum hraða.

IMG_1230

Til marks um hraðann þarf ekki að líta lengra aftur en til ársins 2007 þegar önnur okkar flutti hingað til Kína. Á þessum tíma flæddu Range Rover bílarnir út á göturnar í Reykjavík og á Saga Class sátu bjartsýnir Íslendingar klæddir í flotta merkjavöru sem þeir keyptu í London og New York, eða jafnvel bara í Kringlunni eða á Laugaveginum. Í samanburði við vestrænar allsnægtir var vöruúrvalið í stórborginni Shanghai fátæklegt árið 2007. Það gat verið erfitt að finna góð barnaföt, föt í vestrænum stærðum voru ekki sjálfsagður hlutur og nánast ómögulegt var að finna kvenskó stærri en númer 38. Á stöku stað í borginni glitti þó í flotta búðarglugga hátískumerkja á borð við Chanel og Gucci en úrval af venjulegum varningi var afar óspennandi fyrir okkur Vesturlandabúana. Flestar verslunarmiðstöðvar voru enn nokkuð “alþýðulýðveldislegar.“ Við vörukaup fékk maður til dæmis afhentan handskrifaðan miða í viðkomandi verslun og fór með hann á miðlægan kassa. Þar greiddi maður fyrir vöruna hjá sviplausum og einkennisklæddum gjaldkera, sneri síðan aftur í verslunina og fékk þá vöruna afhenta gegn því að framvísa greiðslukvittuninni sem gjaldkerinn var búinn að stimpla með rauðu tákni; greitt!

DSC_1071

IMG_3627

Nú, árið 2013, eru verslunarmiðstöðvarnar hér í Shanghai orðnar óteljandi og af ýmsum gerðum. Sumar þeirra minna meira á Disneyland en verslunarhús og aðrar eru meðal þeirra allra flottustu í heimi enda er veðjað á Shanghai sem eina af helstu tísku- og verslunarborgum framtíðarinnar. Á þeim rúma áratug sem liðinn er síðan fyrstu erlendu hátískufyrirtækin hófu að selja lúxusvarning í Kína hefur slíkum verslunum fjölgað svo hratt að erfitt er að henda reiður á tölu þeirra í fljótu bragði.

DSC_1090

DSC_1171

Innrás ódýrari vörumerkja frá Vesturlöndum hófst svo eftir að gerðar voru breytingar á kínversku verslunarlögunum árið 2005 og Kínverjar fengu fulla aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Þar með skapaðist betri grundvöllur til verslunarreksturs í Kína fyrir alþjóðlegar verslunarkeðjur. Í kjölfarið hafa búðir sem selja ódýrari tískufatnað rutt sér leið inn á kínverskan markað. Sem dæmi opnaði Zara sína fyrstu búð árið 2006, H&M ári síðar og GAP árið 2010. Til marks um hraða markaðssetningarinnar má nefna að aðeins fimm árum eftir að fyrsta H&M búðin var opnuð í Shanghai voru búðirnar orðnar eitt hundrað á landsvísu.

IMG_1228

DSC_1214

DSC_1095

Enn er tiltölulega lítið um að vera í öllum þessum flottu búðum, sérstaklega þeim allra dýrustu. Hagstæðara er fyrir Kínverja að versla í útlöndum því kínversk yfirvöld leggja háa tolla og gjöld á vörurnar. Það gæti þó átt eftir að breytast því stjórnvöld hafa markviss reynt að ýta undir persónulega neyslu í landinu til að halda uppi hagvexti, meðal annars með því að fjölga frídögum og opna fyrir verslun erlendra fyrirtækja. Þótt enn sé langt í land að allar þessar búðir komist á flug er augljóst að enginn kaupmaður vill missa af ævintýrinu þegar það hefst fyrir alvöru!

DSC_1079

Myndirnar tala sínu máli en þær höfum við tekið í verslunarmiðstöðvum víðsvegar um Shanghai á síðustu vikum.

IMG_3606

DSC_1198

DSC_1085

DSC_1104

Matvælaframleiðsla í vanda

Á undanförnum árum hefur komist upp um hvert hneykslið á fætur öðru varðandi mataröryggi hér í Kína. Vesturlandabúar þekkja margir mjólkurduftsmálið þar sem að minnsta kosti 6 börn dóu og um 300.000 veiktust eftir að melamíni var blandað í mjólkurduft. Síðan hafa fjölmörg önnur mál komið upp:

Svínakjöt litað og selt sem nautakjöt; rottukjöt, refa- og minkakjöt selt sem lambakjöt; olía hirt upp úr ræsum veitingahúsa og seld; eftirlíkingar af eggjum, mjólk, gosdrykkjum, tofu og hunangi; svínshræ sem átti að farga seld til veitingastaða og svona mætti lengi telja.

Eftirlíkingar

Það virðast vera lítil takmörk fyrir því hvað er hægt að framleiða af eftirlíkingum hér í Kína og þar er matvælaiðnaðurinn ekki undanskilinn. Reglulega birtast fréttir af eftirlíkingum af þekktum vörumerkjum í matvælaframleiðslu. Þeim má skipta í tvo flokka; annars vegar eru framleiddar nákvæmar eftirlíkingar án allra leyfa og hins vegar eru vörur sem eru framleiddar með tilskildum leyfum þar sem framleiðandinn hefur nýtt sér göt í kerfinu og fengið leyfi fyrir nýju vörumerki sem er þá mjög líkt fyrirmyndinni.

Eftirlíkingarnar eru algengastar í minni borgum og bæjum þar sem þær eru seldar á lágu verði. Í sumar komst sagan af Wang í fréttir þegar hann skrapp að heimsækja ættingja sína í Shandong héraði. Á lestarstöðinni kom hann við í lítilli búð og keypti mjólk og þar sem hann var á hraðferð skoðaði hann umbúðirnar ekki nógu vel. Þegar hann kom á áfangastað tók hann eftir því að mjólkin frá Yili sem venjulega er skrifuð með tákninu  ‘伊’ var skrifuð með tákninu ‘尹’. Wang hafði því keypt eftirlíkingu af mjólk.

Annað nýlegt dæmi er af orkudrykknum Red Bull. Upp komst um um tólf verksmiðjur á víð og dreif um Kína sem framleiddu eftirlíkingar af drykknum og er áætlað að hver þeirra hafi framleitt um 2400 dósir á dag. Talið er að gróðinn af hverri seldri dós hafi numið um 75 krónum. Lögreglan handtók þrettán manns í tengslum við málið og gerði verksmiðjurnar og allt sem þeim tilheyrði upptækt, samtals eignir að virði um 500 milljóna íslenskra króna.

Redbull3

Mengaðar vörur og annað svindl

Eftirlíkingar eru ekki það eina sem þarf að hafa áhyggjur af þegar hugað er að mataröryggi í Kína því einnig berast reglulega fréttir af mat sem mengaður er af skordýraeitri, ólöglegum rotvarnar- og aukefnum og þungmálmum vegna mengunar.

Eins og allir vita þá borða Kínverjar mikið af hrísgrjónum og það voru því afar slæmar fréttir sem bárust á vormánuðum þegar fram kom að 8 af 18 sýnum úr hrísgrjónum, sem tekin voru á veitingastöðum í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína, innihéldu of mikið af kadmíum. Í tilkynningu frá yfirvöldum kom fram að menguðu hrísgrjónin kæmu úr Hunan héraði  þar sem verksmiðjur, álver og námur hafa sprottið upp. Kadmíum er notað við framleiðslu á batteríum fyrir farsíma, myndavélar og tölvur sem mikið er framleitt af í Kína.

Rice_fields_mazandaran

Á svipuðum tíma og hrísgrjónamálið var í hámæli sýndi sjónvarpsstöðin CCTV frétt um ofnotkun á skordýraeitrinu Aldicarb hjá engiferræktendum í Shandong héraði, efni sem er bannað að nota við ræktun á engiferi. Bændurnir höfðu í áraraðir notað þrefalt til sexfalt magn af efninu ef miðað er við það magn sem leyfilegt er að nota við ræktun á bómull, tóbaki, hnetum og fleiri afurðum. Í viðtali við sjónvarpsstöðina sagðist einn bændanna vita af hættunni sem þessu fylgdi og að hann notaði ekki efnið þegar hann væri að rækta til eigin nota. Annar sagðist hafa notað Aldicarb við framleiðsluna í meira en 20 ár. Sá sagði að efnið væri nauðsynlegt til þess að útrýma skordýrum og að án þess myndi framleiðslan minnka um helming.

Tvö dæmi sem tengjast svindli í matvælaiðnaðinum á þessu ári standa okkur nærri. Nokkrir starfsmenn í íslensku fyrirtæki sem hér starfar taka sig gjarnan saman í hádeginu á föstudögum og kaupa grillað lambakjöt á markaði nærri skrifstofunni sem þeir svo borða saman í mötuneytinu. Á vormánuðum bárust af því fréttir að verið væri að selja rottu-, refa- eða minkakjöt sem lambakjöt á mörkuðum í Kína. Daginn eftir þennan fréttaflutning var búið að loka markaðinum sem starfsmennir versluðu við. Hann var sem betur fer opnaður fljótlega aftur sem bendir til þess að kjötið þar hafi verið í lagi, en óvissan er til staðar.

Hitt dæmið er af kínverskum ávaxtasafa, en nýlega var einn stærsti safaframleiðandinn í Kína ásakaður um að notaða skemmda ávexti við framleiðsluna. Deginum áður hafði önnur okkar einmitt verið að fylla ísskápinn af þessum djús. Hún kaupir venjulega innfluttan safa en þennan dag hafði hún hugsað með sér að það væri auðvitað bölvuð vitleysa og að sjálfsagt væri að gefa kínverskri framleiðslu séns.

djus

Skortur á mataröryggi í Kína snertir fleiri en okkur sem hér búum og nú er til dæmis verið að rannsaka einkennilegt mál í Bandaríkjunum þar sem gæludýrasnakk sem framleitt er í Kína fyrir hin ýmsu vörumerki er talið hafa valdið veikindum meira en 3600 hunda og dauða að minnsta kosti 580 hunda frá því árið 2007.

Ástæður og viðbrögð

Það eru margar skýringar á því hvers vegna mataröryggi í Kína er ekki betra en raunin er. Framleiðslukerfið er ákaflega flókið með milljónum bænda og þúsundum söluaðila sem selja til heildsölumarkaða sem síðan selja til framleiðenda, verslana og markaða út um allt Kína. Þetta kerfi gerir allan rekjanleika mjög erfiðan og stjórnun birgðakeðjunnar verður ekki létt verk. Eftirlitskerfið er einnig flókið og fæðustaðlar misvísandi. Sé litið til einstaklinga innan kerfisins þá er líklegt að skortur á samkennd í samfélaginu, spilling í eftirlitskerfinu og mikil misskipting, sem ýtir undir löngun einstaklinga í skjótfengin gróða, eigi sinn þátt í því hvernig komið er.

Síðasta áratuginn hafa stjórnvöld fjórum sinnum gert breytingar á eftirlitskerfinu til þess að auka fæðuöryggi í landinu, síðast með setningu nýrra laga um fæðuöryggi árið 2009. Í haust var svo fimmta aðgerðin kynnt til sögunnar með stofnun China Food and Drug Administration, stofnunar sem á að stýra þessum málum. Sérfræðingar telja þetta vera skref í rétta átt en muni þó engan veginn leysa allan vandann. Of mikil miðstýring hafi önnur vandamál í för með sér og geti dregið úr sveigjanleika til þess að bregðast við vandamálum sem upp koma.

Það er því ekki að ástæðulausu sem fólk hér í Kína er farið að grípa til sinna ráða þegar fæða þarf fjölskylduna. Þeir Kínverjar sem hafa efni á því að kaupa innflutt matvæli gera það í auknum mæli og þá sérstaklega vörur eins og ungbarnamjólkurduft. Margir reyna að kaupa erlenda vöru í gegnum netið eða fá ættingja eða vini sem búa erlendis eða eru þar á ferðalagi til þess að kaupa fyrir sig. Allur almenningur verður þó að stóla á innlenda framleiðslu.

Margir útlendingar sem hér búa kjósa að kaupa innflutt matvæli þegar því verður við komið. Þau eru fáanleg í ákveðnum búðum hér í Shanghai en eru mjög dýr og úrvalið takmarkað. Sem dæmi þá kostar einn lítri af innfluttri G-mjólk um 500 krónur og lítill pakki af Cheerios um 1.800 krónur. Matarkarfan getur því orðið ansi dýr hér rétt eins og á Íslandi.

cityshop2

Dálítið kínverskt í H&M

Margir sem eru áhugasamir um tísku og hrifnir af hönnun hinnar frönsku Isabel Marant hafa beðið 14. nóvember með eftirvæntingu. Dagurinn í dag markar upphafið á sölu nýrrar vörulínu sem Marant hefur gert fyrir H&M og fetar hún þar með í fótspor fleiri hátískuhönnuða sem hafa hannað fyrir sænsku verslunarkeðjuna. Okkur lék forvitni á að vita hvernig Shanghai dömur myndu bregðast við tíðindunum og eins og svo oft í Kína varð niðurstaðan allt önnur en við ætluðum.

IMG_3762

Búðin var opnuð klukkan átta í morgun og um níu var fremur rólegt um að litast. Fjöldamargir öryggisverðir voru í viðbragðsstöðu og starfsmenn deildu út armböndum til viðskiptavina þar sem fram kom klukkan hvað þeir mættu koma í Isabel Marant hornið. Þeim var svo smalað saman og hleypt inn í áföngum á viðeigandi tíma. Biðin klukkan hálftíu var innan við klukkustund.

IMG_3797

IMG_3816

Kínversku viðskiptavinirnir voru flestir mjög ungir og keyptu mest sömu flíkurnar. Þarna voru líka margar erlendar konur.

IMG_3802

Þegar bæklingi um vörulínu Isabel Marant var útdeilt í verslunum H&M hér í Kína var búið að setja inn merkingar sem sýndu að sumar af vörunum yrðu ekki í boði á meginlandi Kína. Þetta var auglýst vel og vandlega og sniðugir kínverskir sölumenn sáu þarna augljóslega strax tækifæri…

IMG_3779

…og voru búnir að opna sína eigin sölubúð á gangstéttinni beint fyrir utan verslun H&M! Vöruúrvalið hjá þeim samanstóð af Marant flíkum sem ekki voru í boði inni í versluninni og voru allar vandlega merktar, Isabel Marant pour H&M.

DSC_1159

Uppátækið vakti fljótt athygli vegfarenda og innan skamms hafði hópur fólks safnast saman í kringum sölumennina.

DSC_1162

IMG_3783

Ekki leið þó á löngu þar til starfsmaður H&M skarst í leikinn…

IMG_3767

…og ræddi síðan málin við sænskan fulltrúa frá H&M.

IMG_3782

Nokkru síðar mætti lögreglan á svæðið…

IMG_3791

IMG_3789

…og skömmu eftir það tóku félagarnir til við að pakka saman og koma vörunum yfir í bíl sem stóð þarna í götukantinum. Þeir yfirgáfu síðan svæðið. Takið eftir að annar þeirra klæðist dömupeysu úr Marant vörulínunni.

IMG_3760

Tekið skal fram að allt fór þetta ferli fram í mestu vinsemd. Ólíkt því sem oft vill verða í viðburðaríku götulífinu í Shanghai héldu allir ró sinni og svo virtist sem þetta væri bara alls ekkert svo mikið mál. Svíarnir með sitt jafnaðargeð brostu út í annað og kínversku lögregluþjónarnir voru mjög afslappaðir. Höfundarréttur var greinilega ekki til umræðu hér en hitt er svo annað mál að líklega hafa sænsku yfirmennirnir velt því fyrir sér hvaðan H&M vörurnar sem boðið var upp á á götunni voru fengnar!

IMG_3813

Ævintýralandið IKEA

Verslunarferð í IKEA er öðruvísi upplifun í Kína en víðast annars staðar og hegðun kínverskra viðskiptavina kemur flestum á óvart. Erna Lúðvíksdóttir þekkir þetta vel en hún hefur starfað sem verkefnisstjóri fyrir IKEA í Shanghai í fimm ár. Við fengum hana til að miðla aðeins af reynslu sinni. 

DSC_1155

Erna hefur góðan samanburð því hún hefur lengi unnið fyrir IKEA og í mörgum löndum; Sviss, Íslandi, Svíþjóð og nú Kína. Svissneskur eiginmaður Ernu starfar einnig fyrir fyrirtækið og hafa þau bæði verið þátttakendur í hraðri uppbyggingu þess í Kína. Fyrsta kínverska IKEA verslunin var opnuð í Shanghai fyrir fimmtán árum og á allra síðustu árum hefur fjöldi nýrra verslana farið ört vaxandi. Þær eru nú orðnar þrjár í Shanghai, önnur var opnuð árið 2010 og sú þriðja fyrir nokkrum vikum síðan. Heildarfjöldi IKEA verslana í Kína verður fjórtán frá og með morgundeginum en þá opnar ný verslun í borginni Daxing. Allar eru verslanirnar risavaxnar og með þeim allra stærstu í heimi eins og oft vill verða í Kína.

Heimilisleg hegðun

IMG_1242

En gefum Ernu orðið: ,,Fyrirtæki þurfa ætíð að mæta þörfum viðskiptavina sinna en hér í Kína eru þær mjög ólíkar því sem IKEA hefur tekist á við hingað til.” Hún segir að af hagkvæmnis-ástæðum séu vörur og verslanir fyrirtækisins yfirleitt eins allsstaðar í heiminum en í Kína krefst mannfjöldinn sveigjanleika. Breikkun gangvega úr tveimur og hálfum metra í þrjá og hönnun fleiri hjáleiða um búðirnar, til að koma í veg fyrir umferðarteppu á annatímum, eru að sögn Ernu dæmigerðar breytingar af þessum toga.

Almenn hegðun viðskiptavina hefur þó kallað eftir mestum sveigjanleika segir Erna: ,,Kínverjar gera sig mjög heimankomna í verslununum. Það þykir til dæmis ekkert óvenjulegt við það að leggja sig undir sæng í sýningardeildum eða láta börn pissa í ruslafötur og leika sér tímunum saman í barnadeildinni.“ Hún rifjar upp sögu af ungri konu sem kom sér notalega fyrir í einu rúminu í svefnherbergisdeildinni án þess að láta nærveru annarra trufla sig: ,,Stúlkan virtist ekkert setja það fyrir sig að við stæðum þarna í aðeins nokkurra metra fjarlægð, stór hópur starfsfólks, mörg okkar í fötum merktum fyrirtækinu, og sofnaði vært“ segir Erna.

Hin hefðbundna IKEA barnapössun er lítið notuð að sögn Ernu. Hún segir að yfirleitt séu margir fullorðnir á ferð með einu barni í Kína og engin þörf né skilningur sé fyrir því að skilja börnin eftir hjá ókunnugum. Afar og ömmur gæta gjarnan ungra barnabarna í Kína og Erna segir að þau komi oft með börnin og láti þau leika sér í barnavörudeildinni. Þegar börnin verða þreytt eru þau sett upp í næsta sýningarrúm og látin hvíla sig.

IMG_1288

IMG_1289

DSC_1177

Hjónabandsmiðlun í matsalnum

Kínverskir eldri borgarar kunna vel við sig í Ikea því Erna segir að um árabil hafi þeir mælt sér mót í veitingasal elstu verslunarinnar í Shanghai. Í hádeginu á þriðjudögum í viku hverri fjölmenna þeir uppáklæddir í kaffiteríuna til að fara á blint stefnumót. Samkvæmt Ernu var þetta byrjað að valda nokkrum óþægindum í rýminu en í stað þess að fæla fólkið frá brugðu stjórnendur verslunarinnar á það ráð að merkja sérstakt svæði innan veitingasalarins fyrir stefnumótin.

Erna segir að þrátt fyrir að margt undarlegt gerist í verslunum IKEA í Kína liggi leiðin upp á við. Fyrstu árin hafi oftar komið upp vandamál á borð við það að fólk kæmi í lautarferð í verslanirnar: ,,Vandamálið var líka að kínversku starfsmennirnir sáu ekkert athugavert við það þótt fólk kæmi með nesti inn í búðina og kæmi sér einhversstaðar vel fyrir til að borða. Það þurfti því að upplýsa bæði viðskiptavini og starfsfólkið um að þetta væri ekki ásættanlegt” segir Erna.

ikea_sigga

IMG_3651

IMG_3637

Notkun skýrð með myndum

Þrátt fyrir að IKEA hafi lagað sig að þörfum kínverskra viðskiptavina fer sögum af því að salan í Kína sé ekki endilega í samræmi við gífurlegan mannfjöldann sem sækir verslanirnar heim. Sem dæmi tekur verslun IKEA í höfuðborginni Peking á móti 15 þúsund manns á hverjum virkum degi og um helgar eru gestirnir 25-30 þúsund á dag. Heildartala viðskiptavina í þessari einu verslun er því yfir 45 milljónir á ári.

Beinast liggur við að spyrja Ernu næst hvort allt þetta fólk sé komið til að versla í búðunum og hvað það kaupi þá helst? Erna segir að Kínverjar kaupi mest af smávöru: ,,Búsáhöld, sængurföt, litlar hirslur og allskyns box eru vinsæl enda mikil þörf fyrir slíkt á heimilum þar sem jafnvel þrjár kynslóðir búa saman í mjög litlu rými.”  Hvað söluna snertir segir Erna okkur að þær verslanir sem lengst hafa starfað hér í Kína séu að ná upp mjög góðri veltu. Hún segir að það sýni vel uppganginn að í ár hafi IKEA verslanir í Kína í fyrsta sinn skipað efsta sæti á lista fyrirtækisins yfir aukinn hagnað á milli ára.

Að sögn Ernu er enn frekari aðlögunar þörf. Eldhúskerfið hafi til dæmis nú þegar verið einfaldað til að koma til móts við Kínamarkað. Þá hefur sala á smávöru í búsáhaldadeildunum aukist gríðarlega eftir að settar voru upp skýringarmyndir sem sýna hvernig á að nota vörurnar. Erna bendir á að vandamálin sem IKEA glímir við í Kína séu mörg af nýjum toga. Fyrirtækið sé heimsþekkt fyrir lágt vöruverð en hér í Kína á það í samkeppni við fjölmörg önnur fyrirtæki sem geta boðið lág verð. Erna segir að fyrirtækið berjist einnig við kínverskar eftirlíkingar og til séu dæmi um verslanir sem selja eingöngu eftirlíkingar af IKEA vörum.

DSC_1182

Hús og híbýli

Meðal verkefna sem Erna stýrir er að kynna nýjar áherslur og breytingar fyrir starfsfólki. Hún segir að það sé dálítið erfitt að selja Kínverjum hugmyndina um skandinavísk huggulegheit, það taki tíma og kalli á ný tilbrigði: ,,Kínverjar kaupa gjarnan klæðskerasniðnar lausnir, þeir sjá sýningarherbergi og vilja kaupa þá lausn” segir Erna. Við ræðum í framhaldinu aðeins um híbýlamenninguna í Kína. Þótt kínverska þjóðin virðist kunna vel við sig í IKEA hafa fæstir mikinn áhuga á að gera fínt í kringum sig heima við. Erna segir að kínverskir viðskiptavinir sýni textílvörum og gluggatjöldum til dæmis nær engan áhuga. Hún bætir því við að Kínverjar eyði yfirleitt ekki eins miklum tíma heima hjá sér og við erum vön að gera og því sé útlit heimilisins ekki eins mikilvægt fyrir þá: ,,Þeir bjóða ekki heim, heldur hittast úti í bæ” segir Erna og telur að þetta gæti að einhverju leyti skýrt áhugaleysi Kínverja á umgjörð heimilisins þrátt fyrir að margir hafi nú meira fé á milli handanna.

IKEA er ævintýradvalarstaður fyrir kínverskar fjölskyldur, ekki ósvipað og heimsókn í skemmtigarð. Þótt Kínverjar hafi hingað til verið áhugasamari um erlend vörumerki á borð við Starbucks, Mercedes Benz og Rolex bendir vaxandi áhugi á vörum IKEA til þess að áherslur gætu breyst í framtíðinni. Að minnsta kosti er ljóst að verkefnin eru næg fyrir Ernu.

IMG_1245

Myndirnar sem við birtum hér eru allar úr einkasafni bloggsins. Það þarf þó ekki að leita lengi á netinu til að finna fleiri skemmtilegar myndir sem hafa verið teknar í IKEA hér í Kína.