Margir hönnuðir binda vonir við að koma hugmyndum sínum á framfæri í Kína. Tækifærin virðast óendanleg á þessum nýja, risavaxna markaði og kaupgetu kínversku þjóðarinnar, eða að minnsta kosti hluta hennar, virðist engin takmörk sett. Á hinn bóginn getur verið vandasamt að finna verðugan vettvang til að kynna hönnun fyrir áhugasömum Kínverjum. Síðustliðin ár hafa verið gerðar tilraunir til að skapa slíkan vettvang hér í Shanghai, nú síðast með hönnunarsýningunni Design Shanghai sem fram fór 27. febrúar til 2. mars. Við ákváðum að kíkja á sýninguna og upplifa stemninguna.
Þetta er í fyrsta skipti sem sýningin er haldin undir þessu nafni en tilraunir með árlegar 100% Design Shanghai sýningar frá árinu 2008 eru þó augljós undanfari hennar. 100% Design er hugmynd sem lifir góðu lífi í London og Tokyo en náði sér ekki á strik í Shanghai. Fyrirtækið sem er bakhjarl 100% sýninganna, Media 10, kemur eftir sem áður að verkefninu og að þessu sinni var kínverskur sýningarstjóri fenginn til að stjórna verkefninu. Sá heitir Gu Zhihua og hefur náð góðum árangri við uppbyggingu alþjóðlegu myndlistarmessunnar Shanghai Art Fair. Meira var lagt í hönnunarsýninguna í ár og fjölmargir erlendir framleiðendur mættu til leiks í fyrsta sinn, þar á meðal heimsþekkt vörumerki á borð við Fritz Hansen, HAY, Cappellini og Vitra. Auk hinnar hefðbundnu vörusýningar var boðið upp á fyrirlestraröð þar sem fram komu innlendir og erlendir arkitektar, listamenn og hönnuðir. Þar á meðal var að finna fræg nöfn á borð við Michael Young og Ilse Crawford, Shanghai arkitektana Neri&Hu og hina íslensku Kristjönu S. Williams. Allt fór þetta fram í boði bílaframleiðandans Jaguar Land Rover.
Heimsókn á sýninguna
Design Shanghai sýningin er kynnt sem spennandi alþjóðlegur vettvangur sem leiðir saman arkitekta, hönnuði og framleiðendur frá öllum heimshornum. Í kynningarefninu er einnig talin ástæða til að bæta því við þessa upptalningu að til leiks mæti þeir kínversku auðmenn sem áhuga hafi á hönnun.
Umgjörð sýningarinnar er íburðarmikil enda er hún haldin í glæsilegri sýningarhöll sem byggð er í klassískum rússneskum stíl. Byggingin er frá árinu 1955 og hét upphaflega Sino-Soviet Friendship Building og var á sínum tíma gjöf frá kommúnistastjórninni í Moskvu. Nafninu var breytt í Shanghai Exibition Center árið 1984.
Í forsal sýningarinnar minna glæsibifreiðar frá Jaguar og Land Rover á aðalstyrktaraðila sýningarinnar og með fagurskreyttum bar frá einum frægasta kampavínsframleiðanda Frakklands er tilfinningunni um lúxusveröldina gefið enn frekar undir fótinn.
Þegar komið er inn á sýninguna virðist okkur þó lítið fara fyrir kínverskum auðmönnum í samanburði við allan þann fjölda kínverskra ungmenna sem streymir um svæðið og tekur myndir af öllu sem fyrir augu ber. Og þrátt fyrir gestafjöldann virtist lítið um hefðbundin samtöl og samingaviðræður í sýningarbásunum.
Mörg fyrirtæki veðja á Shanghai til að hefja sölu á vörum sínum í Kína. Að sama skapi er borgin af mörgum talin vænlegur framtíðarvettvangur fyrir hverskyns hönnun. Helstu fatahönnuðir heims hafa á undanförnum árum keppst við að setja hér upp verslanir og heimsfrægir húsgagnaframleiðendur feta nú margir í fótspor þeirra.
Sýningin Design Shanghai er augljóslega liður í að kynna erlendar hönnunarvörur fyrir kínverskum neytendum. Fyrirlestarröðin sem fram fór samfara sýningunni og fjallaði um framtíð hönnunar kann að miðla faglegri þekkingu en sölumennskan var þó allsráðandi. Þema sýningarinnar var West meets East en þeir sem mættu þangað til að kynna sér það nýjasta í kínverskri hönnun hafa örugglega margir orðið fyrir vonbrigðum því þátttakendur frá Kína voru fáir.
Þátttakendur frá Kína
Nútímahönnun er að feta sín fyrstu fótspor í Kína og sama gildir um flesta kínverska hönnuði frá alþýðulýðveldinu. Þeir reyna margir hverjir að skapa sér sérstöðu í alþjóðlegu umhverfi og áberandi eru hlutir sem hafa tilvísun í fortíð lands og þjóðar, ekki ósvipað og hefur verið áberandi á meðal ungra íslenskra hönnuða á undanförnum árum. Á meðan sauðkindin og náttúran eru algeng viðfangsefni á Íslandi sækja ungir hönnuðir hér í Kína fyrirmyndir sínar í kínverskar hefðir og menningu. Kínversk nútímahönnun ber til dæmis oft keim af húsgögnum frá tímum Ming ættarveldisins og hugmyndaheimurinn snýst gjarnan um að sameina gamla og nýja tíma.
PuSu Lifestyle er vörumerki kínverska hönnuðarins Cheng Yanfei. Í kynningu fyrirtækisins segir að það leggi áherslu á að skapa jafnvægi milli hefðbundinnar og nútímalegrar hönnunar.
Shanliang heitir fyrirtæki Shan Huabiao and Liang Guanbo en með hönnun sinni leitast þeir við að sameina kínverskan menningararf og nútíma lífshætti.
Pearl Lam Design er hönnunargallerí í Shanghai og Hong Kong sem styður við erlenda og kínverska hönnuði. Galleríið hvetur hönnuðina til að sprengja af sér hefðbundin gildi kínverskrar menningar og nota nýja tækni og efnivið til að skapa verk sem endurspegli reynslu þeirra í Kína nútímans.
Zishaoze er fyrirtæki kínverska hönnuðarins Song Tao sem trúir því að tilgangur með hönnun sé að bræða saman hefðbundin form og nútímamenningu.
Neri&Hu. Við fjölluðum um eigendur fyrirtækisins, arkitektahjónin Lyndon Neri og Rossana Hu hér. Þau komu að sýningunni á margvíslegan hátt enda hafa þau verið ötul við að efla umræðu um hönnun í Kína þau tíu ár sem þau hafa starfað í Shanghai.
Það er fullkomlega eðlilegt að sölutækifærin í Kína freisti þeirra sem leita nýrra markaða fyrir vörur sínar. Það rímar líka ágætlega við Shanghai, sem er miðstöð fjármála og viðskipta í landinu, að hér verði í framtíðinni helsti vettvangur í Kína til að versla með hönnunarvörur. Hitt er svo annað mál að verslun með hönnun hefur sáralítið með framtíðarsýn í hönnun að gera. Það er mikilvægara, jafnt fyrir Kína og heiminn í heild sinni, að tengja hugtakið hönnun við annað og meira en aukna neyslu. Þannig gæti hönnun orðið afl sem knýr fram breytingar. Hönnun má ekki bara snúast um flottheit og nýjar vörur heldur liggja verðmætin í hugmyndum sem geta breytt lífi okkar í átt að sjálfbærari framtíð. Tækni, vísindi og hönnun geta skipt sköpum um hvernig umhverfi maðurinn mun skapa sér í framtíðinni. Framtíð sem þegar er hafin í Kína, en með því að notast við aðferðir fortíðar blasa hér nú þegar við hrikaleg umhverfis- og mengunarvandamál sem kaupstefna, þar sem lúxusbílar og rándýrar hönnunarvörur eru í forgrunni, getur engu um breytt.






















Áhrif Alibaba Group hafa á undanförnum árum teygt sig langt út fyrir landamæri 












































