Vindur, vatn og Feng Shui

Feng er vindurinn og shui er vatnið. Saman ná þessi tvö kínversku orð yfir sambland af fornum vísindum og þjóðtrú þar sem tengsl mannsins við náttúruna og alheimsöflin eru í forgrunni. Feng shui snýst um orkuna sem umlykur okkur og hvernig má beina henni í réttan farveg svo henni fylgi hagsæld. Leiðbeiningarnar geta verið almenns eðlis eða sniðnar að þörfum hvers og eins í samráði við feng shui meistara.

Í þessum pistli ætlum við hvorki að gefa feng shui ráð né skýra að fullu kenningar feng shui heldur reyna að varpa ljósi á uppruna þessara fornu kínversku fræða. Við munum fjalla lítillega um þátt þeirra í kínverskri sögu, fara yfir nokkur grundvallarhugtök og hugmyndir og beina sjónum að stöðu feng shui í Kína nútímans.

Feng shui fjallar um heillavænlega dvalarstaði og hagkvæmt fyrirkomulag í umhverfi manna. Þetta getur átt við um staðsetningar bygginga í landslagi, hönnun rýma eða einfaldlega hvernig best er að koma hlutunum fyrir í sínu nánasta umhverfi. Á heimilum eru aðferðir feng shui notaðar til að stuðla að hamingjusamara fjölskyldulífi og það er bjargföst trú margra að gott feng shui geti hafi áhrif í viðskiptum.

Aðferðafræði og rök feng shui fræðanna gætu á köflum virðst nokkuð dularfull en flestir geta líklega fallist á að niðurstöðurnar eru oft nokkuð rökréttar. Þannig ráðlögðu feng shui meistarar fortíðarinnar smíði hárra dyraþröskulda í híbýlum til að hindra að slóttugir drekar næðu að slæðast þar inn og flytja með sér vonda orku. Í raun eru slíkir þröskuldar skynsamleg vörn gegn regnvatni. Einföld ráð eins og að forðast að hafa sorptunnur mjög nálægt aðalinngangi húsa heyrast oft í tengslum við feng shui nútímans. Sorpið kemur í veg fyrir gott orkuflæði inn á heimilið enda er það dæmi um hnignandi orku.

cheungkongtowerÞeir sem heimsækja gamlar kínverskar byggingar og söfn heyra oft talað um að hitt og þetta sé dæmi um feng shui. Dæmin tala sínu máli um fortíðina en skilningur á feng shui er þó ekki almennur hér í Alþýðulýðveldinu Kína. Þessi forna kínverska hugmyndafræði lifir aftur aftur á móti góðu lífi víða annarsstaðar í heiminum, ekki síst meðal efnaðra Kínverja sem telja ekki eftir sér að eyða miklum fjármunum í feng shui lausnir. Til eru dæmi frá Hong Kong þar sem heilu háhýsin hafa verið endurgerð með miklum tilkostnaði til þess eins að uppfylla kröfur um betra feng shui. Það vakti til að mynda athygli þegar gerður var nýr inngangur á Cheung Kong skrifstofuturninn fyrir nokkrum árum en þá höfðu forsendur fyrir hagstæðu viðskipta feng shui breyst í samræmi við hringrás kínverska dagatalsins. Þetta kann að hljóma sem fullmikið af því góða en í raun er skrifstofubyggingin ein sú eftirsóttasta í Hong Kong og þykir mikið lán að fá að stunda þar viðskipti. Ekki skemmir fyrir að eigandinn, Li Ka-Shing, hefur sjálfur notið mikillar velgengni í viðskiptalífinu og er samkvæmt nýjustu heimildum ríkasti maður Asíu.

Á Vesturlöndum vaknaði forvitni margra um feng shui í tengslum við svokallaða nýöld. Almennur áhugi er nú meiri en áður enda fellur hugmyndafræðin ágætlega að leit margra vestrænna manna að jafnvægi í lífi og starfi.

Fornar rætur Feng Shui

Segja má að rætur feng shui nái þúsundir ára aftur í tímann. Ljóst er að menn hafa alltaf gefið því góðan gaum hvar best er að búa sér dvalarstað; í skjóli frá vondum veðrum, fjarri hættulegum dýrategundum og þar sem auðvelt er að finna fæðu. Talið er að þessi vitund mannanna hafi smá saman mótað grunn að þekkingu um eðli náttúruaflanna og skilað sér í því að menn fóru að velja sér hagkvæmustu staðina til búsetu. Með tímanum mótuðu menn sér einnig skoðanir á áhrifum himintunglanna, uppgötvuðu höfuðáttirnar og smíðuðu kenningar um hin ósýnilegu öfl sem hafa áhrif á velferð manna. Margar slíkar athuganir og uppfinningar má rekja til Kína til forna enda er saga landsins lengsta samfellda saga einnar þjóðar í heiminum og nær þúsundir ára aftur í tímann.

Í kínverskri heimild frá því 250 árum fyrir Kristsburð hafa fundist ráðleggingar um val á hagkvæmum dvalarstað þar sem vindur og vatn koma mikið við sögu. Þar segir að stöðva megi slæma orku, annarsvegar með vindinum sem tvístri henni, hinsvegar með vatninu sem stöðvi hana. Lögð er áhersla á að menn skýli dvalarstað sínum fyrir vindi og að vatn sé mikilvægt til að geyma orku. Það er semsagt í þessari gömlu heimild sem í fyrsta sinn kemur fram að vindurinn og vatnið séu grundvallarþættir við að stýra orku og þaðan dregur hugmyndafræðin um feng shui nafn sitt.

palace

Í þjónustu keisarans í Kína

Feng shui varð vinsælt í Kína á tímum Han ættarveldisins á árunum 206 f. Kr – 220 e.Kr. og var uppfrá því ávallt notað þegar kom að því að ákvarða byggingar- og greftrarstaði fyrir keisarann. Ákvörðun um grafarstað var ekki síst mikilvæg enda er það stór þáttur í kínverskri hugsun að örlög þeirra sem eftir lifa mótist af því hvernig málum er háttað hjá framliðnum ættingjum.

Upp frá þessu höfðu keisaraættirnar ætíð feng shui meistara í sinni þjónustu. Með tíð og tíma komu fram nýjar hugmyndir og þekking innan hirðarinnar sem saman mynda þá hugmyndafræði sem við þekkjum í dag sem feng shui.

Hugtök og stefnur í Feng Shui

Í mjög stuttu máli snýst feng shui um að beina orku á rétta staði og finna lausnir til að koma hlutunum í jafnvægi. Til þess er notast við ýmis hugtök og hugmyndir og munum við fara yfir nokkur af þeim helstu hér á eftir. Einnig verður fjallað um þrjá helstu skóla eða stefnur feng shui; formskólann, hin átta höfuðsetur og hinar níu fljúgandi stjörnur.

En byrjum á nokkrum grundvallarhugtökum:

Qi (chi)

symbol-for-qiLykilatriði í feng shui er heildarhugmyndin um qi en orðið lýsir orkunni sem gerir tilvist okkar mögulega. Qi er allt um kring, í okkur sjálfum og náttúrunni. Samkvæmt því búa allar mannverur yfir sínu eigin innra qi, en það er sú orka sem unnið er með í hefðbundinni kínverskri læknisfræði. Feng shui fjallar um hið ytra qi, utanaðkomandi orkuna sem hefur áhrif á okkur mennina.

Orkan sem knýr alheiminn er kölluð sheng chi á kínversku en orðin lýsa því hvernig andardráttur tilverunnar kemur úr gini drekans. Andstæðan er shar chi en þar notar tungumálið eitraðar örvar til að lýsa hinni deyðandi orku. Aðferðir feng shui miða að því að stöðva neikvæðu orkuna og laða til sín þá góðu.

Frumefnin fimm

elementsEldur, jörð, málmur, vatn og viður eru þau fimm efni sem kenningin um frumefnin byggir á. Talið er að hugmyndirnar hafi komið fram 500 f. Kr. og vega þær þungt í feng shui eins og öðrum fornum kínverskum fræðum, svo sem nálastungum og stjörnuspeki. Óhætt er að segja að í kínverskri hugmyndafræði tilheyri allir hlutir tilverunnar einhverju af þessum fimm grunnelementum.

Innbyrðis samband frumefnanna og áhrif þeirra á hvert annað eru mikilvæg í feng shui. Efnin geta haft eyðileggjandi áhrif á hvert annað, byggt hvert annað upp eða dregið úr áhrifum hvers annars. Þegar gerðar eru feng shui greiningar snúast lausnirnar meðal annars um að virkja krafta frumefnanna með ýmsu móti, til dæmis með formum og litum.

Yin og yang

YinYang

Hugtökin yin og yang eru grundvallaratriði í feng shui og notuð til að skilgreina orku á ákveðnum svæðum. Sé svæði of yin þykir það óhagstætt vegna þess að ekki er til staðar nægileg orka sem skapar hagsæld. Of yang felur í sér eyðileggjandi áhrif vegna þess að þar er of mikið af orku sem getur valdið slysum og tjóni.

Taiji merkið, sem flestir þekkja betur sem yin og yang, byggir á hugmyndum sem hinn kínverski Fu Xi (Fu Hsi) setti fram fjögur þúsund árum fyrir fæðingu Krists og fjalla um hið fullkomna jafnvægi alheimsins og þar með allra hluta. Þótt yin og yang séu andstæð öfl sýnir flæðandi bogadregin línan sem skilur á milli að öflin tvö eru háð hvort öðru. Stundum er því talað um yin og yang sem einingu andstæðna.

Dæmi um yin eru kvenleikinn, tunglið, næturmyrkrið og kuldinn. Karlkynið, sólin, dagsbirtan og hitinn eru dæmi um yang.

Luo Pan áttavitinn 

Áttavitinn var fundinn upp í Kína 2700 f.Kr. og skipar hann stóran sess í feng shui mælingum. Í flóknara kenningum feng shui er notaður áttaviti sem er umkringdur myndmáli og heitir hann þá luo pan. Táknar luo netið sem umkringir allt en pan þýðir diskur. Nafnið vísar til sambands himins og jarðar og segulorkunnar sem heldur alheiminum saman.

Fyrir miðju luo pan áttavitans er hefðbundinn áttaviti nákvæmlega eins og við þekkjum hann. Táknmálið á skífunni í kring hefur þróast á löngum tíma og felur í sér margvíslegar upplýsingar. Það krefst mikillar þjálfunar að lesa af slíkum áttavita en tölurnar og táknin gera sérfræðingum í feng shui kleift að gera sínar athuganir og finna lausnir í samræmi við feng shui skóla hinna fljúgandi stjarna.

DSC_1166

Eins og áður sagði eru til mismunandi skólar eða stefnur innan feng shui. Hér verður farið yfir þær þrjár helstu:

Formskólinn – San He

Fyrst er að nefna San He skólann, eða formskólann, sem nær yfir klassískar kenningar feng shui. Stundum er  líka talað um landslagsskólann því landslagið er undirstaðan í hugmyndunum.

Fornar reglur formskólans gera ráð fyrir að hús hvíli þannig í landslaginu að fyrir aftan fái húsið stuðning af fjöllum, fyrir framan sé víðátta í suðurátt og til beggja hliða skýli lægri hæðir eða hólar húsinu fyrir veðrum og vindum. Það má líka sjá þessi áhrif fyrir sér með því að ímynda sér mannveru sem situr í stól með baki og örmum og tyllir fótunum á koll fyrir framan sig. Í feng shui eru slíkar kjöraðstæður dregnar upp á táknrænan hátt þar sem fjórar goðsagnarkenndar dýrategundir túlka áttirnar fjórar; svört skjaldbaka, grænn dreki, hvítur tígur og rauður fönix.

Skoðum þetta betur og setjum í samhengi við nútímahíbýli:

screen-shot-2013-11-23-at-10-43-21-am1-e1385189455117

Fönix: Framhliðin á heimili þínu, skrifstofunni eða jafnvel herberginu sem þú dvelur í er tengd fönix. Fönix táknar suðrið og ef allt væri fullkomið myndi renna lækur fyrir framan húsið hjá þér. En ekki snúa öll hús mót suðri, hvað þá að lækur fljóti framhjá. Það kemur þó ekki í veg fyrir að laða megi góða orku að híbýlunum og halda frá þeirri slæmu. Umferðarstraumur getur komið í staðinn fyrir flæðandi vatn og hringlaga blómabeð og lágir runnar eru dæmi um fönix feng shui lausnir.

Dreki: Tengist vinstri og austrinu (miðað við sýn frá inngangi). Drekinn þinn getur verið nærliggjandi bygging, hús nágrannans eða tré. Ef ekkert í umhverfinu skapar skjól er feng shui ráð að planta tré eða smíða meðalhátt grindverk.

Skaldbaka: Tengist bakhlið húsa og norðrinu. Fjall eða hæð aftan við húsið myndi skapa gott feng shui en í þéttbýli skapa nálægar byggingar líka gott bakland. Ef þær eru ekki til staðar er ráðlegt að koma einhverju fyrir í staðinn svo sem hárri girðingu eða  röð af trjám.

Tígrisdýr: Tengist hægri og vestrinu (miðað við sýn frá inngangi). Hér gildir það sama og um drekann, tígrísdýrið getur verið bygging, tré eða runnar. Ef tígurhliðin er hærri en drekahliðin skapar það góðan stuðning við konuna á heimilinu (yin), ef drekahliðin er hærri er það húsbóndanum í hag (yang).

Þetta eru aðeins lítið dæmi um hvernig unnið er með kenningar formskólans en meginhugmyndin er alltaf sú að umhverfið hefur áhrif á hvernig okkur mönnunum farnast í lífinu og feng shui leitast við að bæta það. Einhverjir kunna að furða sig á þessu tali um dreka og tígrísdýr en hafa ber í huga að rætur formskólans eru taldar liggja 6000 ár aftur í tímann.

Hin átta höfuðsetur – Ba Zhai (Bagua)

Hugmyndir Bai Zhai (Bagua) skólans byggja á áttavitanum og megináttum hans sem eru átta. Með því að reikna út svokallaða kua tölu er fólki skipt upp í átta hópa. Hóparnir skiptast síðan í tvo flokka, austur og vestur. Með kua tölunni má finna út hvaða áttir eru hagstæðar hverjum og einum. Byggingar tilheyra líka annaðhvort austur- eða vesturhópi en það ákvarðast af staðsetningu þeirra í landslaginu.

Þótt formskólinn gefi ágætis hugmynd um jafnvægi milli manns og umhverfis verða feng shui ráðleggingarnar persónulegri með kua tölunni. Hún er fundin út með því að gera svokallaðan ming gua útreikning og byggir hann á fæðingarári viðkomandi. Eins og svo oft gefa kínversku orðin vísbendingu um hvað er að ræða; ming þýðir líf og gua þýðir mynstur. Það má því segja að útkoman, svokölluð kua tala, tákni lífsleið einstaklingsins.

Mikilvægt er að hafa í huga þegar kua talan er reiknuð út að fæðingarár miðast við kínverska tungldagatalið. Þá eru áramót ekki fyrr en í janúar/febrúar, sjá upplýsingar hér. Þá er fæðingarár þess sem er fæddur 9. janúar 1969 til dæmis 1968.

Fyrir karla:

  • þú tekur tölurnar fjórar í fæðingarárinu þínu og leggur þær saman (t.d. 1970)
  • 1 + 9 + 7 + 0 = 17
  • og heldur áfram þar til þú færð út eins stafs tölu: 1 + 7 = 8
  • dragðu útkomuna frá tölunni 11: 11 – 8 = 3
  • útkoman er Kua talan þín (í dæminu er hún 3)
  • ef þú hefur fengið útkomuna 5, þá er 2 Kua talan þín

Fyrir konur:

  • þú tekur tölurnar fjórar í fæðingarártalinu þínu og leggur þær saman:
  • 2 + 0 + 0 + 3 = 5
  • legðu þessa tölu við töluna 4 (5 + 4 = 9)
  • útkoman er Kua talan þín (í dæminu er hún 9)
  • ef þú hefur fengið töluna 5, þá er 8 Kua talan þín

Talan sem þú hefur nú reiknað út hjálpar þér við að finna þær áttir og svæði sem henta þér best.

Kua tölurnar 1, 3, 4 og 9 mynda Austurhóp. Farsælar áttir eru: A, SA, N, S.

Kua tölurnar  2, 6, 7 og 8 mynda Vesturhóp. Farsælar áttir eru:  V, SV, NV, NA.

Taflan sýnir síðan nánar hvaða áttir henta þinni kua tölu og fyrir hvað áttirnar standa:

tafla

Þessa vitneskju má nýta sér á ýmsan hátt. Til dæmis er gott að dyrnar að heimili þínu snúi í átt sem er þér hagstæð. Gott er að vinna við borð sem snýr í eina af áttunum þínum og að sofa í herbergi sem snýr í rétta átt í húsinu. Ekki er verra að snúa höfðinu líka í rétta átt á meðan þú sefur. Í raun á þetta við um allar athafnir, hvort sem verið er að borða, læra, semja við aðra í viðskiptum eða halda fyrirlestur eða kynningar. Að sama skapi er gott að forðast að gera nokkuð af ofannefndu ef þú snýrð í óhagstæða átt.

Fljúgandi stjörnur – San Yuan

Fullkomnasti og jafnframt flóknasti feng shui skólinn heitir San Yuan eða skóli hinna fljúgandi stjarna. Byggir hann á fornum hugmyndum sem eru þekktar sem hin átta I Ching “trigram” (enska) og lo shu töfraferningurinn. Húsum og rýmum er skipt upp í níu svæði og tengist hvert svæði áttunum, frumefnunum fimm, árstíðunum, litum og formum. Meðlimir fjölskyldunnar tengjast líka vissum svæðum og sama gildir um margt fleira, jafnvel líffæri. Þessi skóli krefst dýpri skilnings á yin og yang, eðli frumefnanna fimm og kínverskri stjörnuspeki.

bagua

Luo pan áttavitinn er grundvallarmælitæki í skóla hinna fljúgandi stjarna og er notaður til að ákvarða áttir og teikna upp svæði innan heimila eða bygginga. Fæðingardagar íbúa og byggingarár húsa skipta einnig máli í tengslum við stærðfræðilega útreikningana. Til að reyna að gera þetta skiljanlegra má ímynda sér að í umhverfi (híbýlum) sérhvers manns séu til staðar níu mismunandi gerðir af orku. Orkutegundirnar eru skilgreindar með númerum frá 1-9. Þær breytast og hreyfast með síendurtæknum hætti (fljúga um) og hafa þar af leiðandi mismunandi áhrif á hamingju og velferð húsráðenda á hverjum tíma.

Við greiningar í feng shui hinna níu fljúgandi stjarna koma semsagt bæði formskólinn og hugmyndir ba zhai skólans við sögu en auk þess bætast við flóknari útreikningar þar frumefnin fimm, yin og yan, kínversk stjörnuspeki, kínverska tungdagatalið og margt fleira er skoðað. Niðurstöðurnar leiða því af sér mun nákvæmari og persónulegri feng shui lausnir sem eru sniðnar að hverjum og einum.

Það er útilokað að læra um þessar flóknu hliðar feng shui á skömmum tíma með því einu að lesa bækur eða tímaritagreinar. Þeir sem hafa tileinkað sér aðferðirnar eiga að baki langt nám undir leiðsögn svokallaðra feng shui meistara.

Feng shui meistarar

Að gefa öðrum góð feng shui ráð krefst bæði þekkingar og reynslu, ekki síst ef notast er við kenningarnar um hinar fljúgandi stjörnur. Feng shui meistarar verja ævinni í að tileinka sér fræðin og sumt af þeirri þekkingu sem er kennd í dag var lengst af vel geymt leyndarmál í fórum kínversku keisarahirðarinnar.

Eins og áður segir geta greiningar feng shui meistara verið klæðskerasniðnar að hverjum og einum og ótal þættir koma til álita. Hringrás kínverska tungldagatalsins krefst þess líka að gerðir séu nýir útreikningar ár hvert, svo ekki sé talað um á 20 ára fresti þegar þáttaskil verða í dagatalinu. Eftirsóttir feng shui meistarar hafa því nóg að gera og á stöðum eins og Hong Kong, Singapore og Dubai eru slíkir meistarar til ráðgjafar við allar meginframkvæmdir og viðburði. Dæmi um frægan kínverskan feng shui meistara er Edward Li frá Hong Kong. Hann á að hafa veitt fyrirtækjum á borð við hið ameríska Coca Cola feng shui ráð og sagt er að flestir milljónamæringar í Hong Kong hafi hann í sinni þjónustu.

Feng shui tákn

dragon_and_phoenix1

Almenningur hér í Kína notar mikið heillatákn í daglegu lífi og eiga mörg þeirra rætur í hugmyndafræði feng shui. Þannig er drekinn ótvírætt gæfutákn, jafnt í feng shui sem kínverskri þjóðtrú. Merki sem sýna tvöfalda hamingju eru vinsæl og ómissandi hluti af heillaóskum fyrir brúðhjón. Góð fyrir ástina og hjónabandið eru einnig heillatákn þar sem drekinn og fönixfuglinn birtast saman því það er til marks um að yin og yang séu í fullkomnu jafnvægi. Tvö “ljón” eða svokölluð chilin (sambland dreka, hests og fisks) við inngang húsa eru dæmigerð feng shui tákn og er ætlað að gleypa vonda orku. Fiskabúr og vatnskúlptúrar eru vinsælir en máli skiptir að koma þeim fyrir á réttum stöðum svo áhrifin verði rétt. Eitt er það merki sem oft sést í Asíu og okkur Evrópumönnum bregður við að sjá, en það er swastika (hakakrossinn). Hér er um að ræða 2000 ára gamalt tákn sem á rætur í búddisma og er kallað fa lun á kínversku. Til gamans má geta að þetta sama orð kemur fyrir í nafni Falun Gong hreyfingarinnar og þýðir lífsins hjól og getur táknað bæði framtíðina og fortíðina, allt eftir því hvernig það snýr. Snúi armar merkisins í átt til fortíðar eins og nasistar gerðu er ekki von á mikilli gæfu.

Feng shui í alþýðulýðveldinu

Gamlar kínverskar hefðir og siðir voru lagðar til hliðar þegar Kína varð kommúnistaríki árið 1949. Menningararfleifðinni hefur verið gert hærra undir höfði á síðustu árum og ekki er ólíklegt að áhugi á feng shui glæðist, líka hjá ráðamönnum í Kína. Á feng shui námsskeiði sem önnur okkar sótti var til dæmis sýnd ljósmynd af skrifstofu mjög háttsetts embættismanns í Peking sem hafði verið greind út frá kenningum feng shui. Kennari á námsskeiðinu var kínversk kona sem hefur sett sig vel inn í kenningarnar. Hún var sannfærð um að þótt hugmyndirnar hafi fylgt kínversku þjóðinni í gegnum árþúsundin viti Kínverjar á meginlandinu almennt mjög lítið um feng shui. Yngri kynslóðin virðist áhugasömust um að kynnast gömlum siðum og gildum, ekki síst þeir sem starfa við að kynna landið fyrir útlendingum.

fengshui_characters

Ljóst er að ekki er hægt að fjalla öllu ítarlegar um feng shui í stuttum pistli frá Kína. Viðfangsefnið er gríðarlega umfangsmikið og góð þekking í feng shui hefur að öllum líkindum aldrei verið á færi almúgans. Nákvæmar greiningar voru og eru í höndum sprenglærðra feng shui meistara og lærisveina þeirra. Hitt er annað mál að flestir geta haft gaman af hinum ýmsu þáttum feng shui, hvort sem fjallað er um uppröðun í rými, örlagaspá eftir höfuðáttunum eða einfaldlega hinum stórmerkilega sögulega grunni og í leiðinni má læra ótal margt um kínverska menningu og siði. Og ekki væri verra ef áhugi kínverskra ráðamanna á feng shui myndi glæðast enn frekar, því ef einhvers er óskandi í þeirri hröðu uppbyggingu sem á sér nú stað í Kína, er að betur takist að skapa gott jafnvægi milli manns og náttúru.

Matvælaframleiðsla í vanda

Á undanförnum árum hefur komist upp um hvert hneykslið á fætur öðru varðandi mataröryggi hér í Kína. Vesturlandabúar þekkja margir mjólkurduftsmálið þar sem að minnsta kosti 6 börn dóu og um 300.000 veiktust eftir að melamíni var blandað í mjólkurduft. Síðan hafa fjölmörg önnur mál komið upp:

Svínakjöt litað og selt sem nautakjöt; rottukjöt, refa- og minkakjöt selt sem lambakjöt; olía hirt upp úr ræsum veitingahúsa og seld; eftirlíkingar af eggjum, mjólk, gosdrykkjum, tofu og hunangi; svínshræ sem átti að farga seld til veitingastaða og svona mætti lengi telja.

Eftirlíkingar

Það virðast vera lítil takmörk fyrir því hvað er hægt að framleiða af eftirlíkingum hér í Kína og þar er matvælaiðnaðurinn ekki undanskilinn. Reglulega birtast fréttir af eftirlíkingum af þekktum vörumerkjum í matvælaframleiðslu. Þeim má skipta í tvo flokka; annars vegar eru framleiddar nákvæmar eftirlíkingar án allra leyfa og hins vegar eru vörur sem eru framleiddar með tilskildum leyfum þar sem framleiðandinn hefur nýtt sér göt í kerfinu og fengið leyfi fyrir nýju vörumerki sem er þá mjög líkt fyrirmyndinni.

Eftirlíkingarnar eru algengastar í minni borgum og bæjum þar sem þær eru seldar á lágu verði. Í sumar komst sagan af Wang í fréttir þegar hann skrapp að heimsækja ættingja sína í Shandong héraði. Á lestarstöðinni kom hann við í lítilli búð og keypti mjólk og þar sem hann var á hraðferð skoðaði hann umbúðirnar ekki nógu vel. Þegar hann kom á áfangastað tók hann eftir því að mjólkin frá Yili sem venjulega er skrifuð með tákninu  ‘伊’ var skrifuð með tákninu ‘尹’. Wang hafði því keypt eftirlíkingu af mjólk.

Annað nýlegt dæmi er af orkudrykknum Red Bull. Upp komst um um tólf verksmiðjur á víð og dreif um Kína sem framleiddu eftirlíkingar af drykknum og er áætlað að hver þeirra hafi framleitt um 2400 dósir á dag. Talið er að gróðinn af hverri seldri dós hafi numið um 75 krónum. Lögreglan handtók þrettán manns í tengslum við málið og gerði verksmiðjurnar og allt sem þeim tilheyrði upptækt, samtals eignir að virði um 500 milljóna íslenskra króna.

Redbull3

Mengaðar vörur og annað svindl

Eftirlíkingar eru ekki það eina sem þarf að hafa áhyggjur af þegar hugað er að mataröryggi í Kína því einnig berast reglulega fréttir af mat sem mengaður er af skordýraeitri, ólöglegum rotvarnar- og aukefnum og þungmálmum vegna mengunar.

Eins og allir vita þá borða Kínverjar mikið af hrísgrjónum og það voru því afar slæmar fréttir sem bárust á vormánuðum þegar fram kom að 8 af 18 sýnum úr hrísgrjónum, sem tekin voru á veitingastöðum í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína, innihéldu of mikið af kadmíum. Í tilkynningu frá yfirvöldum kom fram að menguðu hrísgrjónin kæmu úr Hunan héraði  þar sem verksmiðjur, álver og námur hafa sprottið upp. Kadmíum er notað við framleiðslu á batteríum fyrir farsíma, myndavélar og tölvur sem mikið er framleitt af í Kína.

Rice_fields_mazandaran

Á svipuðum tíma og hrísgrjónamálið var í hámæli sýndi sjónvarpsstöðin CCTV frétt um ofnotkun á skordýraeitrinu Aldicarb hjá engiferræktendum í Shandong héraði, efni sem er bannað að nota við ræktun á engiferi. Bændurnir höfðu í áraraðir notað þrefalt til sexfalt magn af efninu ef miðað er við það magn sem leyfilegt er að nota við ræktun á bómull, tóbaki, hnetum og fleiri afurðum. Í viðtali við sjónvarpsstöðina sagðist einn bændanna vita af hættunni sem þessu fylgdi og að hann notaði ekki efnið þegar hann væri að rækta til eigin nota. Annar sagðist hafa notað Aldicarb við framleiðsluna í meira en 20 ár. Sá sagði að efnið væri nauðsynlegt til þess að útrýma skordýrum og að án þess myndi framleiðslan minnka um helming.

Tvö dæmi sem tengjast svindli í matvælaiðnaðinum á þessu ári standa okkur nærri. Nokkrir starfsmenn í íslensku fyrirtæki sem hér starfar taka sig gjarnan saman í hádeginu á föstudögum og kaupa grillað lambakjöt á markaði nærri skrifstofunni sem þeir svo borða saman í mötuneytinu. Á vormánuðum bárust af því fréttir að verið væri að selja rottu-, refa- eða minkakjöt sem lambakjöt á mörkuðum í Kína. Daginn eftir þennan fréttaflutning var búið að loka markaðinum sem starfsmennir versluðu við. Hann var sem betur fer opnaður fljótlega aftur sem bendir til þess að kjötið þar hafi verið í lagi, en óvissan er til staðar.

Hitt dæmið er af kínverskum ávaxtasafa, en nýlega var einn stærsti safaframleiðandinn í Kína ásakaður um að notaða skemmda ávexti við framleiðsluna. Deginum áður hafði önnur okkar einmitt verið að fylla ísskápinn af þessum djús. Hún kaupir venjulega innfluttan safa en þennan dag hafði hún hugsað með sér að það væri auðvitað bölvuð vitleysa og að sjálfsagt væri að gefa kínverskri framleiðslu séns.

djus

Skortur á mataröryggi í Kína snertir fleiri en okkur sem hér búum og nú er til dæmis verið að rannsaka einkennilegt mál í Bandaríkjunum þar sem gæludýrasnakk sem framleitt er í Kína fyrir hin ýmsu vörumerki er talið hafa valdið veikindum meira en 3600 hunda og dauða að minnsta kosti 580 hunda frá því árið 2007.

Ástæður og viðbrögð

Það eru margar skýringar á því hvers vegna mataröryggi í Kína er ekki betra en raunin er. Framleiðslukerfið er ákaflega flókið með milljónum bænda og þúsundum söluaðila sem selja til heildsölumarkaða sem síðan selja til framleiðenda, verslana og markaða út um allt Kína. Þetta kerfi gerir allan rekjanleika mjög erfiðan og stjórnun birgðakeðjunnar verður ekki létt verk. Eftirlitskerfið er einnig flókið og fæðustaðlar misvísandi. Sé litið til einstaklinga innan kerfisins þá er líklegt að skortur á samkennd í samfélaginu, spilling í eftirlitskerfinu og mikil misskipting, sem ýtir undir löngun einstaklinga í skjótfengin gróða, eigi sinn þátt í því hvernig komið er.

Síðasta áratuginn hafa stjórnvöld fjórum sinnum gert breytingar á eftirlitskerfinu til þess að auka fæðuöryggi í landinu, síðast með setningu nýrra laga um fæðuöryggi árið 2009. Í haust var svo fimmta aðgerðin kynnt til sögunnar með stofnun China Food and Drug Administration, stofnunar sem á að stýra þessum málum. Sérfræðingar telja þetta vera skref í rétta átt en muni þó engan veginn leysa allan vandann. Of mikil miðstýring hafi önnur vandamál í för með sér og geti dregið úr sveigjanleika til þess að bregðast við vandamálum sem upp koma.

Það er því ekki að ástæðulausu sem fólk hér í Kína er farið að grípa til sinna ráða þegar fæða þarf fjölskylduna. Þeir Kínverjar sem hafa efni á því að kaupa innflutt matvæli gera það í auknum mæli og þá sérstaklega vörur eins og ungbarnamjólkurduft. Margir reyna að kaupa erlenda vöru í gegnum netið eða fá ættingja eða vini sem búa erlendis eða eru þar á ferðalagi til þess að kaupa fyrir sig. Allur almenningur verður þó að stóla á innlenda framleiðslu.

Margir útlendingar sem hér búa kjósa að kaupa innflutt matvæli þegar því verður við komið. Þau eru fáanleg í ákveðnum búðum hér í Shanghai en eru mjög dýr og úrvalið takmarkað. Sem dæmi þá kostar einn lítri af innfluttri G-mjólk um 500 krónur og lítill pakki af Cheerios um 1.800 krónur. Matarkarfan getur því orðið ansi dýr hér rétt eins og á Íslandi.

cityshop2

Dálítið kínverskt í H&M

Margir sem eru áhugasamir um tísku og hrifnir af hönnun hinnar frönsku Isabel Marant hafa beðið 14. nóvember með eftirvæntingu. Dagurinn í dag markar upphafið á sölu nýrrar vörulínu sem Marant hefur gert fyrir H&M og fetar hún þar með í fótspor fleiri hátískuhönnuða sem hafa hannað fyrir sænsku verslunarkeðjuna. Okkur lék forvitni á að vita hvernig Shanghai dömur myndu bregðast við tíðindunum og eins og svo oft í Kína varð niðurstaðan allt önnur en við ætluðum.

IMG_3762

Búðin var opnuð klukkan átta í morgun og um níu var fremur rólegt um að litast. Fjöldamargir öryggisverðir voru í viðbragðsstöðu og starfsmenn deildu út armböndum til viðskiptavina þar sem fram kom klukkan hvað þeir mættu koma í Isabel Marant hornið. Þeim var svo smalað saman og hleypt inn í áföngum á viðeigandi tíma. Biðin klukkan hálftíu var innan við klukkustund.

IMG_3797

IMG_3816

Kínversku viðskiptavinirnir voru flestir mjög ungir og keyptu mest sömu flíkurnar. Þarna voru líka margar erlendar konur.

IMG_3802

Þegar bæklingi um vörulínu Isabel Marant var útdeilt í verslunum H&M hér í Kína var búið að setja inn merkingar sem sýndu að sumar af vörunum yrðu ekki í boði á meginlandi Kína. Þetta var auglýst vel og vandlega og sniðugir kínverskir sölumenn sáu þarna augljóslega strax tækifæri…

IMG_3779

…og voru búnir að opna sína eigin sölubúð á gangstéttinni beint fyrir utan verslun H&M! Vöruúrvalið hjá þeim samanstóð af Marant flíkum sem ekki voru í boði inni í versluninni og voru allar vandlega merktar, Isabel Marant pour H&M.

DSC_1159

Uppátækið vakti fljótt athygli vegfarenda og innan skamms hafði hópur fólks safnast saman í kringum sölumennina.

DSC_1162

IMG_3783

Ekki leið þó á löngu þar til starfsmaður H&M skarst í leikinn…

IMG_3767

…og ræddi síðan málin við sænskan fulltrúa frá H&M.

IMG_3782

Nokkru síðar mætti lögreglan á svæðið…

IMG_3791

IMG_3789

…og skömmu eftir það tóku félagarnir til við að pakka saman og koma vörunum yfir í bíl sem stóð þarna í götukantinum. Þeir yfirgáfu síðan svæðið. Takið eftir að annar þeirra klæðist dömupeysu úr Marant vörulínunni.

IMG_3760

Tekið skal fram að allt fór þetta ferli fram í mestu vinsemd. Ólíkt því sem oft vill verða í viðburðaríku götulífinu í Shanghai héldu allir ró sinni og svo virtist sem þetta væri bara alls ekkert svo mikið mál. Svíarnir með sitt jafnaðargeð brostu út í annað og kínversku lögregluþjónarnir voru mjög afslappaðir. Höfundarréttur var greinilega ekki til umræðu hér en hitt er svo annað mál að líklega hafa sænsku yfirmennirnir velt því fyrir sér hvaðan H&M vörurnar sem boðið var upp á á götunni voru fengnar!

IMG_3813

Mengunardagar

Loftmengun er farin að hafa áhrif á skólahald hér í Kína á sama hátt og veður getur haft áhrif á skólahald á Íslandi. Á slæmum dögum eru viðvaranir sendar til foreldra og börnunum haldið inni við. Stundum þarf jafnvel að loka skólum vegna mengunar.

Ein slík viðvörun barst okkur í síðustu viku. Þá var loftið hér í Shanghai það sem kallað er mjög óheilnæmt, á mörkum þess að teljast hættulegt. Slíkar tilkynningar frá skólanum koma þó ekki á óvart, mengunin fer ekkert fram hjá manni og eftir nokkurra ára búsetu í Kína hafa skilningarvitin þjálfast í því að greina hana á öllum stigum.

IMG_0627

Mynd2

Svifryk og mælingar á því

Ein leið til að mæla loftmengun er að mæla svifryk (particulate matter eða PM) í andrúmsloftinu. PM10 segir til um magn svifryks undir 10 míkrómetrum að stærð og PM2,5 um svifryk undir 2,5 míkrómetrum. Smærri agnirnar eru hættulegri heilsu manna því þær ná alla leið niður í öndunarfærin og út í blóðrásina.

Það er stutt síðan farið var að mæla PM2,5 hér í Kína. Bandaríska sendiráðið í Peking reið á vaðið, kom fyrir mæli á þaki sendiráðsins og hóf að birta tölurnar á Twitter. Ræðismannaskrifstofan í Shanghai fylgdi í kjölfarið stuttu seinna. Við þetta móðguðust Kínverjar, en þetta kom þó skriði á hlutina. Nú er hægt að fylgjast með mengunar-mælingum í símanum sínum, þar sem uppfært er á klukkutíma fresti og mælt er á mörgum stöðum.

Fyrst, eftir að tölurnar tóku að birtast, var mikið ósamræmi á milli skilgreininga á því hvað þær þýddu. Á meðan bandaríska sendiráðið varaði við mikilli mengun sagði kínverska umhverfisstofnunin ástandið nokkuð gott. Báðir aðilar voru að túlka sömu tölur. Nú hefur kínverski mælikvarðinn verið færður nær þeim bandaríska svo ósamræmið er ekki eins mikið.

IMG_3682

Bandaríski mælikarðinn, sem við fylgjum hér, segir að ástandið sé gott þegar mengunin er undir 50. Ef hún er á milli 50 og 100 er ástandið þokkalegt. Þegar hún fer yfir 100 er vont fyrir þá sem viðkæmir eru, til dæmis fólk með hjarta- eða öndunarfærasjúkdóma, að vera úti. Þegar komið er yfir 150 er öllum óhollt að vera úti og mengun á milli 200 til  300 er mjög óheilnæm. Allt yfir 300 er skilgreint sem hættulegt.

PM2,5 er ekki mælt á Íslandi enn sem komið er en PM10 er mælt og þær tölur eru birtar á vef  Umhverfisstofnunar og á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Að búa við loftmengun

Loftmengun er sýnileg, hún er eins og skítug þoka sem liggur yfir öllu. Litir hverfa og gráminn er allsráðandi. Fólk er misnæmt fyrir áhrifum mengunar en einkennin eru oft sviði í augum og ónot í hálsi. Ef maður kvefast gengur oft erfiðlega að ná því úr sér og þá sérstaklega hóstanum. Fólk með öndurfærasjúkdóma, eins og astma, þolir mengunina oft mjög illa og gæta þarf að viðkvæmum hópum eins og börnum og öldruðum.

Allt verður mjög skítugt, til dæmis sest svört þykk drulla á útihúsgögn þótt þau séu þrifin daglega. Það er ekki skemmtilegt að hugsa til þess hvað berst ofan í lungun af slíkri drullu. Glugga opnar maður ekki þegar mengun er mikil og á slíkum dögum heldur maður sig inni við ef kostur er. Mælikvarðinn á hvað er gott og vont í þessum efnum skekkist þegar maður býr við mengun og í fyrravetur, sem var sérstaklega slæmur, var allt undir 150 orðið nokkuð gott ástand og þá var hægt að fara út að hlaupa.

Það er erfitt að bera þetta saman við eitthvað sem við þekkjum frá Íslandi, kannski má þó að einhverju leyti líkja þessu við öskufok í kjölfar eldgosa.

IMG_1265

Loftmengun er krabbameinsvaldandi

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sendi á dögunum frá sér tilkynningu þar sem sagt var að búið væri að flokka loftmengun með skæðustu krabbameinsvöldum í umhverfi manna. Í þeim flokki voru fyrir til dæmis reykingar og asbest. Einnig kom fram að loftmengun veldur lungnakrabbameini og eykur hættu á blöðruhálskrabbameini, en fyrir var vitað að hún veldur bæði hjarta- og öndunarfærasjúkdómum. Þetta eru ekki uppörvandi fréttir fyrir Kínverja og aðra sem búa í Kína.

Þó að mengunin hafi verið slæm í Shanghai í síðustu viku er borgin betur stödd en margar aðrar borgir í landinu. Ástandið er sérstaklega erfitt í norðausturhluta Kína og í höfuðstaðnum Peking. Þar sprungu til dæmis allir skalar í fyrravetur þegar mengunin fór langt yfir 500. Fyrir ekki svo löngu ríkti algjört neyðarástand í Harbin þar sem loka þurfti skólum og flugvöllum og dagurinn var sem svartnætti. Í síðustu viku kom fram í fréttum að loftmengun í Kína á árinu hefði fram að þessu verið sérstaklega slæm.

Almenningur í Kína er að vakna til meðvitundar um mengun. Stjórnvöld virðast loks hafa viðurkennt ástandið og hafa nýlega hrundið af stað miklu átaki til þess að draga úr loftmengun. Það er mikið verkefni sem kínversk stjórnvöld eiga fyrir höndum og út frá umhverfissjónarmiðum kemur það verkefni okkur öllum við, hvar sem við búum í veröldinni.

IMG_3674

Myndirnar sem við birtum hér eru allar úr einkasafni bloggsins.

Ævintýralandið IKEA

Verslunarferð í IKEA er öðruvísi upplifun í Kína en víðast annars staðar og hegðun kínverskra viðskiptavina kemur flestum á óvart. Erna Lúðvíksdóttir þekkir þetta vel en hún hefur starfað sem verkefnisstjóri fyrir IKEA í Shanghai í fimm ár. Við fengum hana til að miðla aðeins af reynslu sinni. 

DSC_1155

Erna hefur góðan samanburð því hún hefur lengi unnið fyrir IKEA og í mörgum löndum; Sviss, Íslandi, Svíþjóð og nú Kína. Svissneskur eiginmaður Ernu starfar einnig fyrir fyrirtækið og hafa þau bæði verið þátttakendur í hraðri uppbyggingu þess í Kína. Fyrsta kínverska IKEA verslunin var opnuð í Shanghai fyrir fimmtán árum og á allra síðustu árum hefur fjöldi nýrra verslana farið ört vaxandi. Þær eru nú orðnar þrjár í Shanghai, önnur var opnuð árið 2010 og sú þriðja fyrir nokkrum vikum síðan. Heildarfjöldi IKEA verslana í Kína verður fjórtán frá og með morgundeginum en þá opnar ný verslun í borginni Daxing. Allar eru verslanirnar risavaxnar og með þeim allra stærstu í heimi eins og oft vill verða í Kína.

Heimilisleg hegðun

IMG_1242

En gefum Ernu orðið: ,,Fyrirtæki þurfa ætíð að mæta þörfum viðskiptavina sinna en hér í Kína eru þær mjög ólíkar því sem IKEA hefur tekist á við hingað til.” Hún segir að af hagkvæmnis-ástæðum séu vörur og verslanir fyrirtækisins yfirleitt eins allsstaðar í heiminum en í Kína krefst mannfjöldinn sveigjanleika. Breikkun gangvega úr tveimur og hálfum metra í þrjá og hönnun fleiri hjáleiða um búðirnar, til að koma í veg fyrir umferðarteppu á annatímum, eru að sögn Ernu dæmigerðar breytingar af þessum toga.

Almenn hegðun viðskiptavina hefur þó kallað eftir mestum sveigjanleika segir Erna: ,,Kínverjar gera sig mjög heimankomna í verslununum. Það þykir til dæmis ekkert óvenjulegt við það að leggja sig undir sæng í sýningardeildum eða láta börn pissa í ruslafötur og leika sér tímunum saman í barnadeildinni.“ Hún rifjar upp sögu af ungri konu sem kom sér notalega fyrir í einu rúminu í svefnherbergisdeildinni án þess að láta nærveru annarra trufla sig: ,,Stúlkan virtist ekkert setja það fyrir sig að við stæðum þarna í aðeins nokkurra metra fjarlægð, stór hópur starfsfólks, mörg okkar í fötum merktum fyrirtækinu, og sofnaði vært“ segir Erna.

Hin hefðbundna IKEA barnapössun er lítið notuð að sögn Ernu. Hún segir að yfirleitt séu margir fullorðnir á ferð með einu barni í Kína og engin þörf né skilningur sé fyrir því að skilja börnin eftir hjá ókunnugum. Afar og ömmur gæta gjarnan ungra barnabarna í Kína og Erna segir að þau komi oft með börnin og láti þau leika sér í barnavörudeildinni. Þegar börnin verða þreytt eru þau sett upp í næsta sýningarrúm og látin hvíla sig.

IMG_1288

IMG_1289

DSC_1177

Hjónabandsmiðlun í matsalnum

Kínverskir eldri borgarar kunna vel við sig í Ikea því Erna segir að um árabil hafi þeir mælt sér mót í veitingasal elstu verslunarinnar í Shanghai. Í hádeginu á þriðjudögum í viku hverri fjölmenna þeir uppáklæddir í kaffiteríuna til að fara á blint stefnumót. Samkvæmt Ernu var þetta byrjað að valda nokkrum óþægindum í rýminu en í stað þess að fæla fólkið frá brugðu stjórnendur verslunarinnar á það ráð að merkja sérstakt svæði innan veitingasalarins fyrir stefnumótin.

Erna segir að þrátt fyrir að margt undarlegt gerist í verslunum IKEA í Kína liggi leiðin upp á við. Fyrstu árin hafi oftar komið upp vandamál á borð við það að fólk kæmi í lautarferð í verslanirnar: ,,Vandamálið var líka að kínversku starfsmennirnir sáu ekkert athugavert við það þótt fólk kæmi með nesti inn í búðina og kæmi sér einhversstaðar vel fyrir til að borða. Það þurfti því að upplýsa bæði viðskiptavini og starfsfólkið um að þetta væri ekki ásættanlegt” segir Erna.

ikea_sigga

IMG_3651

IMG_3637

Notkun skýrð með myndum

Þrátt fyrir að IKEA hafi lagað sig að þörfum kínverskra viðskiptavina fer sögum af því að salan í Kína sé ekki endilega í samræmi við gífurlegan mannfjöldann sem sækir verslanirnar heim. Sem dæmi tekur verslun IKEA í höfuðborginni Peking á móti 15 þúsund manns á hverjum virkum degi og um helgar eru gestirnir 25-30 þúsund á dag. Heildartala viðskiptavina í þessari einu verslun er því yfir 45 milljónir á ári.

Beinast liggur við að spyrja Ernu næst hvort allt þetta fólk sé komið til að versla í búðunum og hvað það kaupi þá helst? Erna segir að Kínverjar kaupi mest af smávöru: ,,Búsáhöld, sængurföt, litlar hirslur og allskyns box eru vinsæl enda mikil þörf fyrir slíkt á heimilum þar sem jafnvel þrjár kynslóðir búa saman í mjög litlu rými.”  Hvað söluna snertir segir Erna okkur að þær verslanir sem lengst hafa starfað hér í Kína séu að ná upp mjög góðri veltu. Hún segir að það sýni vel uppganginn að í ár hafi IKEA verslanir í Kína í fyrsta sinn skipað efsta sæti á lista fyrirtækisins yfir aukinn hagnað á milli ára.

Að sögn Ernu er enn frekari aðlögunar þörf. Eldhúskerfið hafi til dæmis nú þegar verið einfaldað til að koma til móts við Kínamarkað. Þá hefur sala á smávöru í búsáhaldadeildunum aukist gríðarlega eftir að settar voru upp skýringarmyndir sem sýna hvernig á að nota vörurnar. Erna bendir á að vandamálin sem IKEA glímir við í Kína séu mörg af nýjum toga. Fyrirtækið sé heimsþekkt fyrir lágt vöruverð en hér í Kína á það í samkeppni við fjölmörg önnur fyrirtæki sem geta boðið lág verð. Erna segir að fyrirtækið berjist einnig við kínverskar eftirlíkingar og til séu dæmi um verslanir sem selja eingöngu eftirlíkingar af IKEA vörum.

DSC_1182

Hús og híbýli

Meðal verkefna sem Erna stýrir er að kynna nýjar áherslur og breytingar fyrir starfsfólki. Hún segir að það sé dálítið erfitt að selja Kínverjum hugmyndina um skandinavísk huggulegheit, það taki tíma og kalli á ný tilbrigði: ,,Kínverjar kaupa gjarnan klæðskerasniðnar lausnir, þeir sjá sýningarherbergi og vilja kaupa þá lausn” segir Erna. Við ræðum í framhaldinu aðeins um híbýlamenninguna í Kína. Þótt kínverska þjóðin virðist kunna vel við sig í IKEA hafa fæstir mikinn áhuga á að gera fínt í kringum sig heima við. Erna segir að kínverskir viðskiptavinir sýni textílvörum og gluggatjöldum til dæmis nær engan áhuga. Hún bætir því við að Kínverjar eyði yfirleitt ekki eins miklum tíma heima hjá sér og við erum vön að gera og því sé útlit heimilisins ekki eins mikilvægt fyrir þá: ,,Þeir bjóða ekki heim, heldur hittast úti í bæ” segir Erna og telur að þetta gæti að einhverju leyti skýrt áhugaleysi Kínverja á umgjörð heimilisins þrátt fyrir að margir hafi nú meira fé á milli handanna.

IKEA er ævintýradvalarstaður fyrir kínverskar fjölskyldur, ekki ósvipað og heimsókn í skemmtigarð. Þótt Kínverjar hafi hingað til verið áhugasamari um erlend vörumerki á borð við Starbucks, Mercedes Benz og Rolex bendir vaxandi áhugi á vörum IKEA til þess að áherslur gætu breyst í framtíðinni. Að minnsta kosti er ljóst að verkefnin eru næg fyrir Ernu.

IMG_1245

Myndirnar sem við birtum hér eru allar úr einkasafni bloggsins. Það þarf þó ekki að leita lengi á netinu til að finna fleiri skemmtilegar myndir sem hafa verið teknar í IKEA hér í Kína.

Akademískt frelsi í alþýðulýðveldinu

Hér í Kína ríkir ekki tjáningarfrelsi. Á undanförnum mánuðum hefur eftirlit með fjölmiðlum og bloggsíðum verið hert og margir bloggarar og aðgerðasinnar hafa verið handteknir. Á meðan ráðamenn á Íslandi hittu Ma Kai var mál Xia Yeliang, sem nýverið var sagt upp störfum við Pekingháskóla, áberandi í fréttum bæði hér og erlendis. Við drögum hér fram það  helsta í fjölmiðlaumfjölluninni um Xia Yeliang enda er saga hans ágætt dæmi um hvernig kínversk stjórnvöld setja tjáningarfrelsinu mörk.

xia_Yeliang_620x350

Xia Yeliang er hagfræðingur og hefur kennt við Pekingháskóla í rúman áratug. Hann hefur talað fyrir auknu lýðræði í Kína og var einn af þjú hundruð og þremur sem skrifuðu undir Charter 08 yfirlýsinguna sem var ákall til stjórnvalda um lýðræði, mannréttindi og réttarríki. Xia er vinur Liu Xiaobo, sem stóð fyrir Charter 08, og fékk fyrir það friðarverðlaun Nóbels árið 2010. Liu Xiabob situr nú í fangelsi í Kína og konan hans í stofufangelsi.

Xia hefur opinberlega gagnrýnt stjórnvöld í Kína. Árið 2009 skrifaði hann opið bréf til Liu Yunshan þar sem hann fordæmdi ritskoðun yfirvalda. Liu, sem nú situr í æðsta ráði (politburo) kommúnistaflokksins, var þá yfirmaður áróðursstofnunar ríkisins en sú stofnun hefur umsjón með ritskoðun í landinu. Xia hefur einnig gagnrýnt núverandi forseta, Xi Jingping, fyrir herferðina um kínverska drauminn.

Í enskum fréttum ríkisfjölmiðla hér í Kína kemur fram að Xia hafi verið látinn fara vegna kvartana frá nemendum og að þær nái allt aftur til ársins 2006. Kennsluaðferðir hans og viðhorf hafi ekki fallið þeim í geð. Eitt af umkvörtunarefnunum var að Xia væri með árróður gegn kommúnistaflokknum í tímum. Ennfremur er sagt að hann hafi komið illa út úr kennslukönnunum og verið þar með lægstu einkunn allra kennara síðustu ár.

Okkur lék forvitni á að vita meira um brottrekstur Xia í meðförum kínverskra fjölmiðla, á kínversku án allra túlkana og þýðinga. Við fengum heimamann til að hjálpa okkur að gera leit að nafni hans á kínverska netinu. Fréttirnar sem þar birtust voru í samræmi við enskar þýðingar ríkisfjölmiðla. Þar var einnig að finna frétt sem sagði að stjórnvöld litu svo á að Xia Yeliang stæði í vegi fyrir því  að kínverski draumurinn gæti ræst.

Við sem erum með VPN tengingu og getum lesið á fleiri tungumálum sjáum aðrar hliðar á málinu í erlendum fjölmiðlum og fáum að heyra rödd Xia sjálfs. Hann segir í símaviðtali við breska blaðið The Guardian að háskólinn hafi látið hann fara vegna mikils þrýsings frá yfirvöldum og hann tengir það meðal annars áðurnefndri gagnrýni á æðstu menn flokksins. Hann sagðist að sjálfsögðu reiður og þá ekki síst vegna þess að verið væri að koma á hann illu orði. Hann sagði yfirlýsingar yfirvalda fullar af rangfærslum og mótsögnum.

Pekinghaskoli

Í öðru símaviðtali, nú við David Feith, blaðamann hjá The Wall Street Journal í Hong Kong, segir Xia að öllum háskólum í Kína sé stjórnað af kommúnistaflokknum. Raunverulegur yfirmaður Pekingháskóla sé ekki forseti háskólans heldur sérstakur flokksritari skólans. Xia segir frá því hvernig hann var varaður við af flokknum í júní um að til stæði að láta hann fara. Hann ætti ekki að segja skoðanir sínar opinberlega þar sem það gæti eyðilagt ímynd kommúnistaflokksins.

Xia segist hafa fengið viðvaranir af þessu tagi síðan 2009. Honum hafi verið bannað að koma fram í viðtalsþáttum í sjónvarpi, verið rekinn frá tveimur rannsóknarstofnunum, eltur af óeinkennisklæddum lögreglumönnum, endurtekið verið handtekinn og yfirheyrður, haldið í stofufangelsi svo dögum skipti, áreittur með símhringingum á nóttunni og sífellt hafi verið fylgst með honum á netinu auk þess sem brotist hefur verið inn í tölvuna hans.

Á undanförnum árum hafa margir vestrænir háskólar myndað tengsl við háskóla í Kína og jafnvel stofnað útibú í landinu. Pekingháskóli, sem talinn er einn sá besti í Kína, er í samstarfi við fjölda þekktra háskóla um allan heim, skóla sem leggja mikið upp úr akademísku frelsi. Þegar blaðamaður spyr Xia hvers vegna enginn af þeim skólum hafi mótmælt brottrekstri hans segist hann ekki vilja skella skuldinni á þá eða hvetja þá til að slíta samvinnunni. Sjálfur myndi hann þó standa með eigin sannfæringu um akademíkst frelsi ef hann væri í þeirra sporum. Hann bætir við að þegar fræðimenn og stjórnendur háskóla komi til Kína séu þeir oft meðhöndlaðir eins og þjóðhöfðingjar. Þeir fái vel launað fyrir að flytja fyrirlestra eða ræður, þeim séu haldnar miklar veislur og þeir dvelji á fimm stjörnu hótelum.

Þó að stóru þekktu skólarnir hafi ekki lýst opinberlega yfir stuðningi við Xia, stendur hann ekki einn. Kennarar í Wellesleyháskóla í New York hafa skrifað bréf þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við hann og The Committee of Concerned Scientists sendi bréf til forseta Pekingháskóla þar sem skorað var á hann að koma í veg fyrir uppsögnina en allt kom fyrir ekki.

Eins og sést á ofangreindu dæmi, sem er bara það nýjasta af mörgum, þá eru hlutirnir ekki einfaldir hér í Kína. Sannleikurinn er oft fyrir borð borinn og yfirvöld fara sínu fram.  Xia Yeliang segir að vestræn ríki líti Kína ekki réttum augum, heldur einblíni á efnahagsundrið. Það hafi hins vegar ekki gerst án fórna, mikil mengun, skortur á mataröryggi og ákaflega slæmt skólakerfi sem stjórnað er af hugmyndafræði flokksins sé hluti af þeim fórnarkostnaði. Xia segir þetta mjög hættulegt og við getum tekið undir það. Við höfum áhyggjur af því hvernig íslensk stjórnvöld líta til Kína, það má ekki gleymast að Kína er alræðisríki.

Jafnrétti í umferðinni

Umferðarmenningin hér í Kína er sérkennileg. Í Shanghai treðst hver sem betur getur og hver ökumaður hugsar um sig. Oft má sjá fleiri bíla hlið við hlið á götunum en akreinarnar segja til um. Biðskylda virðist alls ekki þýða að maður eigi að bíða eftir því að gatan sem ekið er inn á sé auð, heldur búa kínverskir bílstjórar sér til sitt pláss sjálfir og keyra bara beint inn á, í veg fyrir þá bíla sem fyrir eru á götunni. Þá eru einhverjar óskrifaðar reglur í gangi, því bílar hægja á sér og leyfa þennan átroðning. Svo eru það öll hin farartækin, hjól og mótorhjól af öllum stærðum og gerðum. Ekkert tillit er tekið til gangandi vegfarenda. Slys í umferðinni eru mjög algeng og ekki er gert ráð fyrir sjúkrabílum, þeir bíða í kösinni eins og aðrir. Það er mjög erfitt fyrir Vesturlandabúa að keyra í Kína og flestir kjósa að gera það ekki.

Nýjustu tíðindin í umferðarmenningu Kínverja eru þó af öðrum toga. Lögreglan í Peking sá sig knúna í vikunni til að gefa út sérstakar leiðbeiningar á vefsíðu sinni til kvenkyns ökumanna þar í borg undir heitinu „Kvenkyns ökumenn vinsamlega reynið að forðast eftirfarandi mistök.” Rétt er að taka fram að við þýðum hér beinar tilvitnanir úr ensku frá Sinophere, bloggi The New York Times um Kína.

Eitt vandamálið sem lögreglan virðist standa frammi fyrir er hvað konur eru áttavilltar í umferðinni. Á vefsíðunni i stendur: “Sumar konur eru áttavilltar. Þær geta oft ekki ákveðið í hvaða átt þær eiga að keyra. Þegar þær svo átta sig svo á mistökum sínum er það of seint og þær snúa þá stýrinu í örvæntingu og valda þannig slysum.” Og önnur óborganleg setning: “Þegar konur eru einar á ferð finna þær jafnvel ekki staði sem þær hafa farið margoft á.” Hin vandamálin sem kvenkyns ökumenn í Peking standa frammi fyrir að mati lögreglunnar eru; að vera í háum hælum við akstur, að fyllast skelfingu þegar slys gerast, að keyra um með handbremsuna á, að ráða ekki við alla pedalana og að gleyma að skipta um gír. 

Konur eru varaðar við að fyllast skelfingu þegar slys ber að höndum: “Það kemur gjarnan mikið fát á kvenkyns ökumenn þegar slys verða. Þær verða oft alveg tómar og þá sjá glæpamenn sér leik á borði.” Hér að neðan er skýringarmynd lögreglunnar með þessum lið.

4cd3493fjw1ea21f43lijj20ci0950u9

Sinophere tilgreinir tvö nýleg atvik sem gætu hugsanlega skýrt hvers vegna lögreglan sá sig knúna til þess að gefa út þessar leiðbeiningar til kvenna. Í öðru þeirra fór kona út úr bílnum sínum til að huga að gangandi vegfaranda sem hún hafði keyrt á og á meðan var veskinu hennar stolið úr framsæti bílsins. Hún hafði gleymt að læsa bílnum og lái henni hver sem vill. Í hinu atvikinu keyrði kona aftan á annan bíl vegna þess að hún festi hælinn á skónum sínum á milli pedalanna.

Þessum leiðbeiningum lögreglunnar hefur, eins og gefur að skilja, ekki verið sérlega vel tekið á netinu. Kannski ætti kínverska lögreglan líka frekar að leggja áherslu á mikilvægi þess að virða einfaldar umferðareglur og að sýna tillitsemi í umferðinni í sinni umferðarfræðslu.

Silkileið norðursins

Ma Kai, einn af fjórum varaforsætisráðherrum Kína, heimsótti Ísland í síðustu viku. Í kjölfarið hafa fylgt fréttir þess efnis að íslenskir ráðamenn horfi nú helst til Kína við endurreisn íslensks efnahagslífs. Gagnrýnisraddir heyrast og minna á að Kína er alræðisríki þar sem lítil virðing er borin fyrir mannréttindum.

orgmaikai

Sé litið til þess að heimsókn Ma Kai til Íslands var að undirlagi íslenskra stjórnvalda hefur hún fengið fremur litla umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum. Það er einnig afar óljóst hvers vegna kínverska varaforsætisráðherranum var boðið til Íslands. Í frétt á heimasíðu forsætisráðuneytisins er fjallað um samtal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Ma Kai. Sagt er að tvíhliða samskipti ríkjanna hafi verið til umræðu, málefni norðurslóða, mannréttindamál og alþjóðamál. Ferðamál mun einnig hafa borið á góma og var vilji til að greiða fyrir flugsamgöngum á milli landanna. Vilji Íslendinga til samstarfs á sviði orkumála var einnig áréttaður. Í lok fréttarinnar frá ráðuneytinu kemur fram að kínverski ráðherrann bauð forsætisráðherra Íslands að heimsækja Kína við fyrsta tækifæri.

Hér í Kína birtist frétt um heimsókn Ma Kai til Íslands á Xinhua sem er aðalfréttaveita kínverskra ríkisins. Sama frétt er höfð orðrétt eftir í fleiri kínverskum fjölmiðlum. Í fyrirsögn fréttarinnar segir að Ma Kai hafi átti fund í Reykjavík með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Vitnað er í Ma sem segir meðal annars að á milli landanna ríki gagnkvæmt traust og einlægur vinskapur. Þá er vitnað í Ólaf Ragnar sem segir að í kjölfar íslensku fjármálakreppunnar hafi verið mikilvægt að efla viðskipti og fjárhagslega samvinnu milli landanna. Þessa samvinnu þurfi að þróa betur og hraðar er haft eftir Ólafi. Aftur er vitnað í Ma Kai og kemur þá meðal annars fram að mikilvægt sé að auka nemendaskipti á milli landanna og samhæfa stefnu og samskipti vegna málefna norðurslóða. Undir lok fréttarinnar kemur síðan fram að yfirvöld í Kína líti á Ísland sem mikilvægan samstarfsaðila á sviði jarðhita, umhverfisverndar, tækni og vísinda og ferðaþjónustu. Lokaorð fréttarinnar eru þó einna athyglisverðust en þar segir að Ísland óski eftir því að þróa „silkileið norðursins“ með Kína.

Í framhaldi af heimsókn Ma Kai hóf utanríkisráðherra Íslands upp raust sína í viðtali á Bloomberg fréttavefnum og sagði að við Íslendingar ættum að nýta þann áhuga sem Kínverjar sýna Íslandi, en gera það á okkar forsendum.

Nú er ekki víst að forsendur Íslendinga geti ráðið ferðinni í samningum við stórveldi. Kína er fjölmennasta ríki veraldar en á Íslandi búa um 320.000 manns. Kínverjar gera allt á eigin forsendum og eru mjög góðir í því. Stjórnvöld í Kína eru þekkt fyrir áætlanagerð og skipuleggja þá gjarnan langt fram í tímann. Þau eru heldur ekki þekkt fyrir að bjóða samvinnu við önnur lönd nema fá eitthvað í staðinn.

Framtíðarsýn kínverskra yfirvalda virðist miða að því að tryggja góðar samgöngur fyrir kínverskar vörur til Evrópu, einskonar nútíma silkileið. Miðstöðvar til uppskipunar og annarskonar athafnasvæði eru mikilvægur hluti af slíkum áætlunum. Kaup Kínverja á hafnarsvæðum í Grikklandi styðja þessa kenningu sem og áhugi þeirra á Íslandi og norðurslóðum.

Fyrir okkur Íslendinga er nú nauðsynlegt að fá að vita hvort íslensk stjórnvöld séu í fullri alvöru að vinna að því að gera Ísland að einhverskonar kínverskri bensínstöð á þessari nýju leið frá Kína til Evrópu.

Kínversk stjörnuspeki

Stjörnuspeki er samofin kínverskri menningu og það virðist enn skipta Kínverja máli að eignast barn í réttu stjörnumerki. Það var til dæmis mjög vinsælt að eiga börn í fyrra, á ári drekans, enda hafa drekar haft mikla þýðingu í kínverskri menningu og þykja sterkt merki.

Kínversku stjörnumerkin eru tólf; rottan, uxinn, tígrisdýrið, kanínan, drekinn, snákurinn, hesturinn, kindin, apinn, haninn, hundurinn og svínið. Hvert stjörnumerki nær yfir tólf mánuði og er þá miðað við gamla kínverska dagatalið þar sem nýtt ár byrjar á tímabilinu frá janúarlokum og fram í miðjan febrúar.

dyrahringur

Sagan segir að endur fyrir löngu hafi Jaðakeisarinn ákveðið að dýrin yrði tákn á dagatalinu og jafnframt fyrirskipað að þau fyrstu sem myndu mæta á ákveðnum stað og tíma yrðu valin. Kötturinn og rottan voru á þessum tíma góðir vinir og þau ákváðu að verða samferða morguninn eftir. Kötturinn var morgunsvæfur og bað vin sinn rottuna um að vekja sig í bítið en því gleymdi rottan og hélt ein af stað. Á leiðinni hitti hún uxann, hestinn og fleiri dýr sem komust hraðar yfir en hún. Þá datt henni gott ráð í hug, hún fékk uxann til að bera sig á bakinu og í staðinn söng hún fyrir hann. Þau voru fljót í förum og þegar þau voru alveg að komast í mark hoppaði rottan af höfði uxans og varð því fyrsta merkið í dýrahringnum. Kötturinn svaf yfir sig og missti af öllu saman. Síðan hafa kettir hatað mýs og rottur. Margar útgáfur eru til af þessari sögu hér í Kína.

Núna er ár snáksins og þau börn sem fæðast frá 10. febrúar 2013 til 30. janúar 2014 eru snákar, nánar tiltekið vatnasnákar því grunnefnin fimm (elementin); eldur, jörð, málmur, vatn og viður tengjast þessu líka. Samkvæmt stjörnuspekinni eiga dýrin að hafa áhrif á persónuleika manna og efnin fimm hafa þar einnig sín áhrif. Snákar hafa ákveðin persónueinkenni, en vatnasnákur er öðruvísi en jarðsnákur og svo framvegis.

Stjornuspa_Elements3

Við spurðum unga menntaða konu hér í Shanghai út í stjörnuspekina og þýðingu hennar í daglegu lífi. Hún sagði stjörnuspekina snúast um svo miklu meira en dýrahringinn. Hún sagði að hjá mörgum væri hún mikilvægur hluti af lífinu og þannig væri það til dæmis hjá mömmu hennar. Hún sagði mömmu sína leita reglulega til taomunks til að fá ráðleggingar, sérstaklega fyrir stóra viðburði í fjölskyldunni eins og giftingu, fæðingu og fleira. Munkurinn notar þá stjörnuspekina til að reikna út ýmsa hluti og gefa ráðleggingar. Þegar unga konan varð ófrísk sagði mamma hennar að munkurinn hefði reiknað út að þetta yrði stelpa, sem svo gekk eftir. Margir foreldrar biðja slíka munka um ráðleggingar áður en börn þeirra ganga í hjónaband. Þá reiknar munkurinn út frá stjörnuspekinni og fleiru hvernig tilvonandi par á saman, tilgreinir veikleika og styrkleika. Foreldrarnir miðla svo þessum fróðleik áfram til verðandi hjóna. Ef parið er talið eiga vel saman eru allir ánægðir en ef ekki þá þarf að fara eftir ýmsum ráðleggingum, en það þýðir ekki að sambandið muni ekki ganga. Unga konan sagðist ekki trúa á þetta sjálf en tæki samt mark á því sem mamma hennar segði í þessu sambandi og að stundum væri bara heilmikið til í því.

Tökum nú nokkur dæmi af því hvernig merkin og grunnefnin eru túlkuð. Við ákváðum að fjalla hér um Íslendinga og Kínverja, svona að gamni, þó svo að stjörnuspekin eigi auðvitað að segja til um eiginleika einstaklinga fremur en eiginleika heillar þjóðar. Okkur er vonandi fyrirgefið þó við togum þetta aðeins og teygjum.

Lýðveldið Ísland er viðarapi. Viðarapar eru heillandi og góðir í samskiptum og eru framsýnir frumkvöðlar. Þeir hafa gott auga fyrir því nýjasta í tísku og eru oft í fararbroddi á því sviði. En allir hafa sína galla og samkvæmt stjörnuspekinni eigum við Íslendingar, viðaraparnir, það til að vera óákveðnir og nýjungagjarnir sem getur orðið þess valdandi að við hlaupum úr einu verkefninu í annað. Við höfum auk þess tilhneigingu til þess að festast í smáatriðum og eigum stundum erfitt með að sjá heildarmyndina!

Kínverjar eru jarðuxar, þar sem Alþýðulýðveldið Kína var stofnað 1. október 1949. Jarðuxar eru jarðbundnir, gera sér grein fyrir takmörkunum sínum og eru yfirleitt sáttir í þeim aðstæðum sem þeir eru í hverju sinni. Þá skortir þó ekki metnað og þeir komast þangað sem þeir vilja, þó að það taki langan tíma. Jarðuxarnir eru hvorki viðkvæmir né tilfinninganæmir en sýna þó nánustu fjölskyldu og vinum ást og umhyggju. Helsti galli jarðuxanna er skortur á sköpunargáfu. Þeir geta því misst af tækifærum og verið svo íhaldssamir og hagsýnir að þeir festast í sama farinu.

Þú getur lesið um þitt merki með því að smella hér.

Til gamans fylgir hér einnig tafla um hvernig störnumerkin passa saman í ástum.

Úr töflunni má lesa hvernig merkin eiga saman, þar sem talan einn 1 þýðir að merkin passi illa saman og 2 táknar að merkin eigi frekar illa saman. Talan 5 þýðir að þýðir að merkin eiga vel saman og talan 4 að merkin passi frekar vel saman. Talan 3 þýðir að leggja þurfi vinnu í sambandið.

Matches_Zodiac

Jaðinn

Flestir sem heimsækja Kína taka fljótlega eftir því hversu oft jaðasteininum bregður fyrir. Stórbrotin listaverk í hofum, höllum og söfnum eru skorin út í jaða og víða má sjá sölubása með jaðaskarti í verslunarmiðstöðvum og á mörkuðum. Athugulir gætu einnig tekið eftir því að Kínverjar, jafnt karlar sem konur, bera mjög oft jaðaarmbönd og hálsmen. Hægt er að verða margs vísari um Kína með því að fræðast um þennan þýðingarmikla stein sem enn í dag er vinsælt tákn fyrir mátt og fegurð.

Collages

Á kínversku heitir steinninn yù. Orðið hefur í gegnum tíðina verið notað um fleiri en eina steintegund og enn í dag tala Kínverjar um yù í almennu tali um verðmæta steina og skrautsteina. Það getur því verið erfitt að átta sig almennilega á hvað jaði er og ekki kom í ljós fyrr en eftir miðja 19. öld að orðið jaði (á ensku jade) hafði verið notað um fleiri en eina steintegund, annarsvegar jaðeít, hinsvegar nefrít. Í kínversku er gerður greinarmunur á steinunum með því að tala um þann fyrrnefnda sem harðan jaða (ying yù), hinn síðarnefnda sem mjúkan jaða (ruan yù). Báðar steintegundirnar teljast vera ósvikinn jaði og þótt þær séu í eðli sínu ólíkar er útlitið ekki ósvipað. Litbrigði jaðans eru fjölmörg en algengt er að sjá hann í grænu, allt frá fölgrænu yfir í dökkgræna tóna. Því hreinni og tærari sem steinninn er því verðmætari telst hann.

jade

Kraftmikil hjátrú 

Þótt jaðinn sé þekktur í menningarsögu fleiri þjóða er fátt sem getur keppt við langa sögu steinsins í Kína. Segir það nokkuð um mikilvægi hans að kínverska táknið fyrir jaða er aðeins einni stroku frá því að vera eins og upphaflega táknið fyrir orðið keisari. Jaði kemur fyrir í kínverskum goðsögum og einstæðir jaðasteinar tryggðu konungleg völd til forna. Innsigli skorin út í jaða eru mikilvægt tákn um vald í kínverskri sögu og keisarinn í Kína var sagður ná sambandi við æðri máttarvöld í gegnum einskæran jaðadisk. Trúin á mátt jaðasteinsins lifir enn á meðal þjóðarinnar og tengist oft allskyns hjátrú. Þannig á það til dæmis að hafa góð áhrif á alla ákvarðanatöku, ekki síst í viðskiptum, að nudda jaðastein í höndunum.

Heimspekin um hin andstæðu öfl sköpunar og náttúru, yin og yang, sem ætíð þurfa að finna jafnvægi, eru stór þáttur í öllu sem tengist menningu Kínverja. Það á einnig við um jaðann sem hefur einkenni yang. Sem slíkur er hann þekktur í kínverskri læknisfræði og þá notaður í duftformi gegn ýmsum kvillum. Því hefur einnig verið trúað að jaðinn endurspegli heilsu og örlög, ef steinninn fölnar og missir ljóma sinn bendi það til þess að eigandinn sé veikur eða eigi á hættu að verða fyrir áföllum.

IMG_1522

Jaðinn tengist mörgum eftirsóknarverðum eiginleikum og er því vinsæll sem verndargripur. Algengt er að ung börn fái að gjöf jaðaskart og margir Kínverjar bera daglega á sér jaða í einhverri mynd í þeirri trú að hann færi þeim betra líf. Á ferðalögum um heiminn má ganga að því sem vísu að þar sem verslað er með jaða hittir maður Kínverja, en jaðanámur finnast á nokkrum svæðum í heiminum, til dæmis í Bandaríkjunum og Búrma.