Feng er vindurinn og shui er vatnið. Saman ná þessi tvö kínversku orð yfir sambland af fornum vísindum og þjóðtrú þar sem tengsl mannsins við náttúruna og alheimsöflin eru í forgrunni. Feng shui snýst um orkuna sem umlykur okkur og hvernig má beina henni í réttan farveg svo henni fylgi hagsæld. Leiðbeiningarnar geta verið almenns eðlis eða sniðnar að þörfum hvers og eins í samráði við feng shui meistara.
Í þessum pistli ætlum við hvorki að gefa feng shui ráð né skýra að fullu kenningar feng shui heldur reyna að varpa ljósi á uppruna þessara fornu kínversku fræða. Við munum fjalla lítillega um þátt þeirra í kínverskri sögu, fara yfir nokkur grundvallarhugtök og hugmyndir og beina sjónum að stöðu feng shui í Kína nútímans.
Feng shui fjallar um heillavænlega dvalarstaði og hagkvæmt fyrirkomulag í umhverfi manna. Þetta getur átt við um staðsetningar bygginga í landslagi, hönnun rýma eða einfaldlega hvernig best er að koma hlutunum fyrir í sínu nánasta umhverfi. Á heimilum eru aðferðir feng shui notaðar til að stuðla að hamingjusamara fjölskyldulífi og það er bjargföst trú margra að gott feng shui geti hafi áhrif í viðskiptum.
Aðferðafræði og rök feng shui fræðanna gætu á köflum virðst nokkuð dularfull en flestir geta líklega fallist á að niðurstöðurnar eru oft nokkuð rökréttar. Þannig ráðlögðu feng shui meistarar fortíðarinnar smíði hárra dyraþröskulda í híbýlum til að hindra að slóttugir drekar næðu að slæðast þar inn og flytja með sér vonda orku. Í raun eru slíkir þröskuldar skynsamleg vörn gegn regnvatni. Einföld ráð eins og að forðast að hafa sorptunnur mjög nálægt aðalinngangi húsa heyrast oft í tengslum við feng shui nútímans. Sorpið kemur í veg fyrir gott orkuflæði inn á heimilið enda er það dæmi um hnignandi orku.
Þeir sem heimsækja gamlar kínverskar byggingar og söfn heyra oft talað um að hitt og þetta sé dæmi um feng shui. Dæmin tala sínu máli um fortíðina en skilningur á feng shui er þó ekki almennur hér í Alþýðulýðveldinu Kína. Þessi forna kínverska hugmyndafræði lifir aftur aftur á móti góðu lífi víða annarsstaðar í heiminum, ekki síst meðal efnaðra Kínverja sem telja ekki eftir sér að eyða miklum fjármunum í feng shui lausnir. Til eru dæmi frá Hong Kong þar sem heilu háhýsin hafa verið endurgerð með miklum tilkostnaði til þess eins að uppfylla kröfur um betra feng shui. Það vakti til að mynda athygli þegar gerður var nýr inngangur á Cheung Kong skrifstofuturninn fyrir nokkrum árum en þá höfðu forsendur fyrir hagstæðu viðskipta feng shui breyst í samræmi við hringrás kínverska dagatalsins. Þetta kann að hljóma sem fullmikið af því góða en í raun er skrifstofubyggingin ein sú eftirsóttasta í Hong Kong og þykir mikið lán að fá að stunda þar viðskipti. Ekki skemmir fyrir að eigandinn, Li Ka-Shing, hefur sjálfur notið mikillar velgengni í viðskiptalífinu og er samkvæmt nýjustu heimildum ríkasti maður Asíu.
Á Vesturlöndum vaknaði forvitni margra um feng shui í tengslum við svokallaða nýöld. Almennur áhugi er nú meiri en áður enda fellur hugmyndafræðin ágætlega að leit margra vestrænna manna að jafnvægi í lífi og starfi.
Fornar rætur Feng Shui
Segja má að rætur feng shui nái þúsundir ára aftur í tímann. Ljóst er að menn hafa alltaf gefið því góðan gaum hvar best er að búa sér dvalarstað; í skjóli frá vondum veðrum, fjarri hættulegum dýrategundum og þar sem auðvelt er að finna fæðu. Talið er að þessi vitund mannanna hafi smá saman mótað grunn að þekkingu um eðli náttúruaflanna og skilað sér í því að menn fóru að velja sér hagkvæmustu staðina til búsetu. Með tímanum mótuðu menn sér einnig skoðanir á áhrifum himintunglanna, uppgötvuðu höfuðáttirnar og smíðuðu kenningar um hin ósýnilegu öfl sem hafa áhrif á velferð manna. Margar slíkar athuganir og uppfinningar má rekja til Kína til forna enda er saga landsins lengsta samfellda saga einnar þjóðar í heiminum og nær þúsundir ára aftur í tímann.
Í kínverskri heimild frá því 250 árum fyrir Kristsburð hafa fundist ráðleggingar um val á hagkvæmum dvalarstað þar sem vindur og vatn koma mikið við sögu. Þar segir að stöðva megi slæma orku, annarsvegar með vindinum sem tvístri henni, hinsvegar með vatninu sem stöðvi hana. Lögð er áhersla á að menn skýli dvalarstað sínum fyrir vindi og að vatn sé mikilvægt til að geyma orku. Það er semsagt í þessari gömlu heimild sem í fyrsta sinn kemur fram að vindurinn og vatnið séu grundvallarþættir við að stýra orku og þaðan dregur hugmyndafræðin um feng shui nafn sitt.

Í þjónustu keisarans í Kína
Feng shui varð vinsælt í Kína á tímum Han ættarveldisins á árunum 206 f. Kr – 220 e.Kr. og var uppfrá því ávallt notað þegar kom að því að ákvarða byggingar- og greftrarstaði fyrir keisarann. Ákvörðun um grafarstað var ekki síst mikilvæg enda er það stór þáttur í kínverskri hugsun að örlög þeirra sem eftir lifa mótist af því hvernig málum er háttað hjá framliðnum ættingjum.
Upp frá þessu höfðu keisaraættirnar ætíð feng shui meistara í sinni þjónustu. Með tíð og tíma komu fram nýjar hugmyndir og þekking innan hirðarinnar sem saman mynda þá hugmyndafræði sem við þekkjum í dag sem feng shui.
Hugtök og stefnur í Feng Shui
Í mjög stuttu máli snýst feng shui um að beina orku á rétta staði og finna lausnir til að koma hlutunum í jafnvægi. Til þess er notast við ýmis hugtök og hugmyndir og munum við fara yfir nokkur af þeim helstu hér á eftir. Einnig verður fjallað um þrjá helstu skóla eða stefnur feng shui; formskólann, hin átta höfuðsetur og hinar níu fljúgandi stjörnur.
En byrjum á nokkrum grundvallarhugtökum:
Qi (chi)
Lykilatriði í feng shui er heildarhugmyndin um qi en orðið lýsir orkunni sem gerir tilvist okkar mögulega. Qi er allt um kring, í okkur sjálfum og náttúrunni. Samkvæmt því búa allar mannverur yfir sínu eigin innra qi, en það er sú orka sem unnið er með í hefðbundinni kínverskri læknisfræði. Feng shui fjallar um hið ytra qi, utanaðkomandi orkuna sem hefur áhrif á okkur mennina.
Orkan sem knýr alheiminn er kölluð sheng chi á kínversku en orðin lýsa því hvernig andardráttur tilverunnar kemur úr gini drekans. Andstæðan er shar chi en þar notar tungumálið eitraðar örvar til að lýsa hinni deyðandi orku. Aðferðir feng shui miða að því að stöðva neikvæðu orkuna og laða til sín þá góðu.
Frumefnin fimm
Eldur, jörð, málmur, vatn og viður eru þau fimm efni sem kenningin um frumefnin byggir á. Talið er að hugmyndirnar hafi komið fram 500 f. Kr. og vega þær þungt í feng shui eins og öðrum fornum kínverskum fræðum, svo sem nálastungum og stjörnuspeki. Óhætt er að segja að í kínverskri hugmyndafræði tilheyri allir hlutir tilverunnar einhverju af þessum fimm grunnelementum.
Innbyrðis samband frumefnanna og áhrif þeirra á hvert annað eru mikilvæg í feng shui. Efnin geta haft eyðileggjandi áhrif á hvert annað, byggt hvert annað upp eða dregið úr áhrifum hvers annars. Þegar gerðar eru feng shui greiningar snúast lausnirnar meðal annars um að virkja krafta frumefnanna með ýmsu móti, til dæmis með formum og litum.
Yin og yang

Hugtökin yin og yang eru grundvallaratriði í feng shui og notuð til að skilgreina orku á ákveðnum svæðum. Sé svæði of yin þykir það óhagstætt vegna þess að ekki er til staðar nægileg orka sem skapar hagsæld. Of yang felur í sér eyðileggjandi áhrif vegna þess að þar er of mikið af orku sem getur valdið slysum og tjóni.
Taiji merkið, sem flestir þekkja betur sem yin og yang, byggir á hugmyndum sem hinn kínverski Fu Xi (Fu Hsi) setti fram fjögur þúsund árum fyrir fæðingu Krists og fjalla um hið fullkomna jafnvægi alheimsins og þar með allra hluta. Þótt yin og yang séu andstæð öfl sýnir flæðandi bogadregin línan sem skilur á milli að öflin tvö eru háð hvort öðru. Stundum er því talað um yin og yang sem einingu andstæðna.
Dæmi um yin eru kvenleikinn, tunglið, næturmyrkrið og kuldinn. Karlkynið, sólin, dagsbirtan og hitinn eru dæmi um yang.
Luo Pan áttavitinn
Áttavitinn var fundinn upp í Kína 2700 f.Kr. og skipar hann stóran sess í feng shui mælingum. Í flóknara kenningum feng shui er notaður áttaviti sem er umkringdur myndmáli og heitir hann þá luo pan. Táknar luo netið sem umkringir allt en pan þýðir diskur. Nafnið vísar til sambands himins og jarðar og segulorkunnar sem heldur alheiminum saman.
Fyrir miðju luo pan áttavitans er hefðbundinn áttaviti nákvæmlega eins og við þekkjum hann. Táknmálið á skífunni í kring hefur þróast á löngum tíma og felur í sér margvíslegar upplýsingar. Það krefst mikillar þjálfunar að lesa af slíkum áttavita en tölurnar og táknin gera sérfræðingum í feng shui kleift að gera sínar athuganir og finna lausnir í samræmi við feng shui skóla hinna fljúgandi stjarna.

Eins og áður sagði eru til mismunandi skólar eða stefnur innan feng shui. Hér verður farið yfir þær þrjár helstu:
Formskólinn – San He
Fyrst er að nefna San He skólann, eða formskólann, sem nær yfir klassískar kenningar feng shui. Stundum er líka talað um landslagsskólann því landslagið er undirstaðan í hugmyndunum.
Fornar reglur formskólans gera ráð fyrir að hús hvíli þannig í landslaginu að fyrir aftan fái húsið stuðning af fjöllum, fyrir framan sé víðátta í suðurátt og til beggja hliða skýli lægri hæðir eða hólar húsinu fyrir veðrum og vindum. Það má líka sjá þessi áhrif fyrir sér með því að ímynda sér mannveru sem situr í stól með baki og örmum og tyllir fótunum á koll fyrir framan sig. Í feng shui eru slíkar kjöraðstæður dregnar upp á táknrænan hátt þar sem fjórar goðsagnarkenndar dýrategundir túlka áttirnar fjórar; svört skjaldbaka, grænn dreki, hvítur tígur og rauður fönix.
Skoðum þetta betur og setjum í samhengi við nútímahíbýli:
Fönix: Framhliðin á heimili þínu, skrifstofunni eða jafnvel herberginu sem þú dvelur í er tengd fönix. Fönix táknar suðrið og ef allt væri fullkomið myndi renna lækur fyrir framan húsið hjá þér. En ekki snúa öll hús mót suðri, hvað þá að lækur fljóti framhjá. Það kemur þó ekki í veg fyrir að laða megi góða orku að híbýlunum og halda frá þeirri slæmu. Umferðarstraumur getur komið í staðinn fyrir flæðandi vatn og hringlaga blómabeð og lágir runnar eru dæmi um fönix feng shui lausnir.
Dreki: Tengist vinstri og austrinu (miðað við sýn frá inngangi). Drekinn þinn getur verið nærliggjandi bygging, hús nágrannans eða tré. Ef ekkert í umhverfinu skapar skjól er feng shui ráð að planta tré eða smíða meðalhátt grindverk.
Skaldbaka: Tengist bakhlið húsa og norðrinu. Fjall eða hæð aftan við húsið myndi skapa gott feng shui en í þéttbýli skapa nálægar byggingar líka gott bakland. Ef þær eru ekki til staðar er ráðlegt að koma einhverju fyrir í staðinn svo sem hárri girðingu eða röð af trjám.
Tígrisdýr: Tengist hægri og vestrinu (miðað við sýn frá inngangi). Hér gildir það sama og um drekann, tígrísdýrið getur verið bygging, tré eða runnar. Ef tígurhliðin er hærri en drekahliðin skapar það góðan stuðning við konuna á heimilinu (yin), ef drekahliðin er hærri er það húsbóndanum í hag (yang).
Þetta eru aðeins lítið dæmi um hvernig unnið er með kenningar formskólans en meginhugmyndin er alltaf sú að umhverfið hefur áhrif á hvernig okkur mönnunum farnast í lífinu og feng shui leitast við að bæta það. Einhverjir kunna að furða sig á þessu tali um dreka og tígrísdýr en hafa ber í huga að rætur formskólans eru taldar liggja 6000 ár aftur í tímann.
Hin átta höfuðsetur – Ba Zhai (Bagua)
Hugmyndir Bai Zhai (Bagua) skólans byggja á áttavitanum og megináttum hans sem eru átta. Með því að reikna út svokallaða kua tölu er fólki skipt upp í átta hópa. Hóparnir skiptast síðan í tvo flokka, austur og vestur. Með kua tölunni má finna út hvaða áttir eru hagstæðar hverjum og einum. Byggingar tilheyra líka annaðhvort austur- eða vesturhópi en það ákvarðast af staðsetningu þeirra í landslaginu.
Þótt formskólinn gefi ágætis hugmynd um jafnvægi milli manns og umhverfis verða feng shui ráðleggingarnar persónulegri með kua tölunni. Hún er fundin út með því að gera svokallaðan ming gua útreikning og byggir hann á fæðingarári viðkomandi. Eins og svo oft gefa kínversku orðin vísbendingu um hvað er að ræða; ming þýðir líf og gua þýðir mynstur. Það má því segja að útkoman, svokölluð kua tala, tákni lífsleið einstaklingsins.
Mikilvægt er að hafa í huga þegar kua talan er reiknuð út að fæðingarár miðast við kínverska tungldagatalið. Þá eru áramót ekki fyrr en í janúar/febrúar, sjá upplýsingar hér. Þá er fæðingarár þess sem er fæddur 9. janúar 1969 til dæmis 1968.
Fyrir karla:
- þú tekur tölurnar fjórar í fæðingarárinu þínu og leggur þær saman (t.d. 1970)
- 1 + 9 + 7 + 0 = 17
- og heldur áfram þar til þú færð út eins stafs tölu: 1 + 7 = 8
- dragðu útkomuna frá tölunni 11: 11 – 8 = 3
- útkoman er Kua talan þín (í dæminu er hún 3)
- ef þú hefur fengið útkomuna 5, þá er 2 Kua talan þín
Fyrir konur:
- þú tekur tölurnar fjórar í fæðingarártalinu þínu og leggur þær saman:
- 2 + 0 + 0 + 3 = 5
- legðu þessa tölu við töluna 4 (5 + 4 = 9)
- útkoman er Kua talan þín (í dæminu er hún 9)
- ef þú hefur fengið töluna 5, þá er 8 Kua talan þín
Talan sem þú hefur nú reiknað út hjálpar þér við að finna þær áttir og svæði sem henta þér best.
Kua tölurnar 1, 3, 4 og 9 mynda Austurhóp. Farsælar áttir eru: A, SA, N, S.
Kua tölurnar 2, 6, 7 og 8 mynda Vesturhóp. Farsælar áttir eru: V, SV, NV, NA.
Taflan sýnir síðan nánar hvaða áttir henta þinni kua tölu og fyrir hvað áttirnar standa:

Þessa vitneskju má nýta sér á ýmsan hátt. Til dæmis er gott að dyrnar að heimili þínu snúi í átt sem er þér hagstæð. Gott er að vinna við borð sem snýr í eina af áttunum þínum og að sofa í herbergi sem snýr í rétta átt í húsinu. Ekki er verra að snúa höfðinu líka í rétta átt á meðan þú sefur. Í raun á þetta við um allar athafnir, hvort sem verið er að borða, læra, semja við aðra í viðskiptum eða halda fyrirlestur eða kynningar. Að sama skapi er gott að forðast að gera nokkuð af ofannefndu ef þú snýrð í óhagstæða átt.
Fljúgandi stjörnur – San Yuan
Fullkomnasti og jafnframt flóknasti feng shui skólinn heitir San Yuan eða skóli hinna fljúgandi stjarna. Byggir hann á fornum hugmyndum sem eru þekktar sem hin átta I Ching “trigram” (enska) og lo shu töfraferningurinn. Húsum og rýmum er skipt upp í níu svæði og tengist hvert svæði áttunum, frumefnunum fimm, árstíðunum, litum og formum. Meðlimir fjölskyldunnar tengjast líka vissum svæðum og sama gildir um margt fleira, jafnvel líffæri. Þessi skóli krefst dýpri skilnings á yin og yang, eðli frumefnanna fimm og kínverskri stjörnuspeki.

Luo pan áttavitinn er grundvallarmælitæki í skóla hinna fljúgandi stjarna og er notaður til að ákvarða áttir og teikna upp svæði innan heimila eða bygginga. Fæðingardagar íbúa og byggingarár húsa skipta einnig máli í tengslum við stærðfræðilega útreikningana. Til að reyna að gera þetta skiljanlegra má ímynda sér að í umhverfi (híbýlum) sérhvers manns séu til staðar níu mismunandi gerðir af orku. Orkutegundirnar eru skilgreindar með númerum frá 1-9. Þær breytast og hreyfast með síendurtæknum hætti (fljúga um) og hafa þar af leiðandi mismunandi áhrif á hamingju og velferð húsráðenda á hverjum tíma.
Við greiningar í feng shui hinna níu fljúgandi stjarna koma semsagt bæði formskólinn og hugmyndir ba zhai skólans við sögu en auk þess bætast við flóknari útreikningar þar frumefnin fimm, yin og yan, kínversk stjörnuspeki, kínverska tungdagatalið og margt fleira er skoðað. Niðurstöðurnar leiða því af sér mun nákvæmari og persónulegri feng shui lausnir sem eru sniðnar að hverjum og einum.
Það er útilokað að læra um þessar flóknu hliðar feng shui á skömmum tíma með því einu að lesa bækur eða tímaritagreinar. Þeir sem hafa tileinkað sér aðferðirnar eiga að baki langt nám undir leiðsögn svokallaðra feng shui meistara.
Feng shui meistarar
Að gefa öðrum góð feng shui ráð krefst bæði þekkingar og reynslu, ekki síst ef notast er við kenningarnar um hinar fljúgandi stjörnur. Feng shui meistarar verja ævinni í að tileinka sér fræðin og sumt af þeirri þekkingu sem er kennd í dag var lengst af vel geymt leyndarmál í fórum kínversku keisarahirðarinnar.
Eins og áður segir geta greiningar feng shui meistara verið klæðskerasniðnar að hverjum og einum og ótal þættir koma til álita. Hringrás kínverska tungldagatalsins krefst þess líka að gerðir séu nýir útreikningar ár hvert, svo ekki sé talað um á 20 ára fresti þegar þáttaskil verða í dagatalinu. Eftirsóttir feng shui meistarar hafa því nóg að gera og á stöðum eins og Hong Kong, Singapore og Dubai eru slíkir meistarar til ráðgjafar við allar meginframkvæmdir og viðburði. Dæmi um frægan kínverskan feng shui meistara er Edward Li frá Hong Kong. Hann á að hafa veitt fyrirtækjum á borð við hið ameríska Coca Cola feng shui ráð og sagt er að flestir milljónamæringar í Hong Kong hafi hann í sinni þjónustu.
Feng shui tákn

Almenningur hér í Kína notar mikið heillatákn í daglegu lífi og eiga mörg þeirra rætur í hugmyndafræði feng shui. Þannig er drekinn ótvírætt gæfutákn, jafnt í feng shui sem kínverskri þjóðtrú. Merki sem sýna tvöfalda hamingju eru vinsæl og ómissandi hluti af heillaóskum fyrir brúðhjón. Góð fyrir ástina og hjónabandið eru einnig heillatákn þar sem drekinn og fönixfuglinn birtast saman því það er til marks um að yin og yang séu í fullkomnu jafnvægi. Tvö “ljón” eða svokölluð chilin (sambland dreka, hests og fisks) við inngang húsa eru dæmigerð feng shui tákn og er ætlað að gleypa vonda orku. Fiskabúr og vatnskúlptúrar eru vinsælir en máli skiptir að koma þeim fyrir á réttum stöðum svo áhrifin verði rétt. Eitt er það merki sem oft sést í Asíu og okkur Evrópumönnum bregður við að sjá, en það er swastika (hakakrossinn). Hér er um að ræða 2000 ára gamalt tákn sem á rætur í búddisma og er kallað fa lun á kínversku. Til gamans má geta að þetta sama orð kemur fyrir í nafni Falun Gong hreyfingarinnar og þýðir lífsins hjól og getur táknað bæði framtíðina og fortíðina, allt eftir því hvernig það snýr. Snúi armar merkisins í átt til fortíðar eins og nasistar gerðu er ekki von á mikilli gæfu.
Feng shui í alþýðulýðveldinu
Gamlar kínverskar hefðir og siðir voru lagðar til hliðar þegar Kína varð kommúnistaríki árið 1949. Menningararfleifðinni hefur verið gert hærra undir höfði á síðustu árum og ekki er ólíklegt að áhugi á feng shui glæðist, líka hjá ráðamönnum í Kína. Á feng shui námsskeiði sem önnur okkar sótti var til dæmis sýnd ljósmynd af skrifstofu mjög háttsetts embættismanns í Peking sem hafði verið greind út frá kenningum feng shui. Kennari á námsskeiðinu var kínversk kona sem hefur sett sig vel inn í kenningarnar. Hún var sannfærð um að þótt hugmyndirnar hafi fylgt kínversku þjóðinni í gegnum árþúsundin viti Kínverjar á meginlandinu almennt mjög lítið um feng shui. Yngri kynslóðin virðist áhugasömust um að kynnast gömlum siðum og gildum, ekki síst þeir sem starfa við að kynna landið fyrir útlendingum.

Ljóst er að ekki er hægt að fjalla öllu ítarlegar um feng shui í stuttum pistli frá Kína. Viðfangsefnið er gríðarlega umfangsmikið og góð þekking í feng shui hefur að öllum líkindum aldrei verið á færi almúgans. Nákvæmar greiningar voru og eru í höndum sprenglærðra feng shui meistara og lærisveina þeirra. Hitt er annað mál að flestir geta haft gaman af hinum ýmsu þáttum feng shui, hvort sem fjallað er um uppröðun í rými, örlagaspá eftir höfuðáttunum eða einfaldlega hinum stórmerkilega sögulega grunni og í leiðinni má læra ótal margt um kínverska menningu og siði. Og ekki væri verra ef áhugi kínverskra ráðamanna á feng shui myndi glæðast enn frekar, því ef einhvers er óskandi í þeirri hröðu uppbyggingu sem á sér nú stað í Kína, er að betur takist að skapa gott jafnvægi milli manns og náttúru.













































