Deilan um framtíð flugvallar í Vatnsmýri virðist ósköp smá í sniðum þegar horft er til áætlana um fjölgun flugvalla í Kína. Sé tekið mark á kínverskum fjölmiðlum er gert ráð fyrir byggingu 56 nýrra flugvalla á árunum 2011-2015, auk þess sem unnið er að endurbótum og stækkunum á þeim sem fyrir eru. Samkvæmt þessu verða flugvellir landsins orðnir 230 í árslok 2015. Þetta gera Kínverjar þrátt fyrir að meirihluti flugvalla í landinu sé nú rekinn með tapi. Trúin á framtíðina á sér engin takmörk enda ljóst að flugfarþegum í Kína mun fjölga mikið á næstu árum. Spár segja að árið 2016 verði þeir orðnir fleiri en í Bandaríkjunum, en þar hefur fjöldi flugfarþega verið mestur hingað til. Umferð um flugvöllinn í Beijing hefur þrefaldast síðustu tíu ár og á næsta ári mun hefjast þar bygging nýs flugvallar, aðeins fjórum árum eftir að algjörri endurbyggingu og stækkun núverandi flugvallar lauk.
Eins og jafnan í Kína eru flugvallarframkvæmdir stórtækar. Hér má sjá nokkur dæmi:
Í Dalian-borg við norðausturströndina er unnið að rúmlega 21 ferkílómetra uppfyllingu þar sem meðal annars rís nýr flugvöllur. Framkvæmdin á landfyllingunni er sú stærsta í heimi með þessu sniði en hönnun var í höndum BNA Planning sem er alþjóðlegt fyrirtæki með rætur í Frakklandi.
Í náttúruparadísinni Shennongjia í Hubei-héraði hafa hæðir og dalverpi verið flött út í 2,580 metra hæð yfir sjávarmáli svo byggja megi alþjóðlegan flugvöll. Fáar fréttir höfðu borist af framkvæmdinni sem hófst árið 2011, þar til tilkynnt var í sumar að flug myndi hefjast nú í október. Uppbyggingin á sér stað í friðlandi ósnortins skóglendis og hefur vakið reiði umhverfissinna. Aðrir trúa að völlurinn muni auka á lífsgæði og ferðamannastraum í héraðinu og í yfirlýsingum stjórnvalda er fullyrt að framkvæmdin muni ekki raska lífríki svæðisins.
Í síðustu viku, nánar til tekið 16. september, hófst áætlunarflug til Daocheng Yading flugvallarins í Sichuan-héraði. Hann var byggður í 4,411 metra hæð og er þar með sá flugvöllur í heiminum sem liggur hæst yfir sjávarmáli. Frá flugvellinum má auðveldlega ferðast til ósnortinna landsvæða í Tíbet og þótt sumir Tíbetbúar fagni mögulegum ferðamannastraumi er framkvæmdin umdeild. Mörgum þykir vald flokksforystunnar í Beijing nú færast nær og óttast að unnin verði spjöll á náttúrunni í þágu “uppbyggingar hagkerfisins.“
Hefei er höfuðborg Anhui-héraðs í austurhluta Kína. Nýr alþjóðlegur flugvöllur hóf starfssemi í borginni í maí á þessu ári.
Árið 2012 opnaði nýr flugvöllur í Kunming í Yunnan-héraði. Changshui flugvöllurinn leysir af hólmi eldri flugvöll og var hannaður af Beijing Institute of Architectural Design (BIAD) sem er arkitektastofa í eigu kínverska ríkisins.
Árið 2008 unnu ítölsku arkitektarnir Massimiliano og Dorian Fuksas samkeppni um nýja flugstöðvarbyggingu á Bao´an flugvellininum í Shenzhen-borg í suðurhluta Kína. Flugstöðin verður byggð í þremur áföngum og sá fyrsti opnaður árið 2015.
Árið 2014 hefjast í suðurhluta Beijing framkvæmdir við annan flugvöll höfuðborgarinnar. Opnun hans er fyrirhuguð árið 2018 og verður nýi völlurinn þá sá stærsti í heimi. Flugvöllurinn í Beijing er nú þegar sá næstfjölfarnasti í heimi (á eftir Atlanta í Bandaríkjunum) auk þess að eiga met sem lengsta bygging í heimi en flugstöðvarbygging breska arkitektsins Norman Foster er 3,25 km löng.















Kannski snýst herferðin um kínverska drauminn fyrst og fremst um að hvetja til bjartsýni í samfélaginu en margir Kínverjar eru vonlitlir um að leysa megi stóru vandamálin sem við blasa. Xi Jinping forseti hefur sagt að ungt fólk eigi að leyfa sér að láta sig dreyma, það geti með iðjusemi látið draumana rætast og þar með lagt sitt af mörkum við að endurlífga kínverska þjóð. Forsetinn hefur reyndar líka fyrirskipað að til þess að draumarnir geti ræst verði að fylgja kínversku leiðinni, leið sósíalisma með kínverskum sérkennum. Dæmigerðari fyrir hinn almenna borgara eru þó sennilega viðbrögð ungrar kínverskrar konu sem varð fyrir svörum við leit okkar að upplýsingum um kínverska drauminn: ,,Við erum að tala um að kínversku þjóðina skorti trú á framtíðina svo það er gott að byggja upp kínverskan draum um eitthvað sem gæti orðið. Fyrir mér er þetta þó ennþá of óljóst. Flestir vilja bara betra líf. Land sanngirni og hagsældar væri minn kínverski draumur.” Hún bætir því við að sennilega sé það svolítið stór draumur.



