Á flugi inn í framtíðina

PASSENGERS

Deilan um framtíð flugvallar í Vatnsmýri virðist ósköp smá í sniðum þegar horft er til áætlana um fjölgun flugvalla í Kína. Sé tekið mark á kínverskum fjölmiðlum er gert ráð fyrir byggingu 56 nýrra flugvalla á árunum 2011-2015, auk þess sem unnið er að endurbótum og stækkunum á þeim sem fyrir eru. Samkvæmt þessu verða flugvellir landsins orðnir 230 í árslok 2015. Þetta gera Kínverjar þrátt fyrir að meirihluti flugvalla í landinu sé nú rekinn með tapi. Trúin á framtíðina á sér engin takmörk enda ljóst að flugfarþegum í Kína mun fjölga mikið á næstu árum. Spár segja að árið 2016 verði þeir orðnir fleiri en í Bandaríkjunum, en þar hefur fjöldi flugfarþega verið mestur hingað til. Umferð um flugvöllinn í Beijing hefur þrefaldast síðustu tíu ár og á næsta ári mun hefjast þar bygging nýs flugvallar, aðeins fjórum árum eftir að algjörri endurbyggingu og stækkun núverandi flugvallar lauk.

Eins og jafnan í Kína eru flugvallarframkvæmdir stórtækar. Hér má sjá nokkur dæmi:

airport_dalian

Í Dalian-borg við norðausturströndina er unnið að rúmlega 21 ferkílómetra uppfyllingu þar sem meðal annars rís nýr flugvöllur. Framkvæmdin á landfyllingunni er sú stærsta í heimi með þessu sniði en hönnun var í höndum BNA Planning sem er alþjóðlegt fyrirtæki með rætur í Frakklandi.

shennongjia

Í náttúruparadísinni Shennongjia í Hubei-héraði hafa hæðir og dalverpi verið flött út í 2,580 metra hæð yfir sjávarmáli svo byggja megi alþjóðlegan flugvöll. Fáar fréttir höfðu borist af framkvæmdinni sem hófst árið 2011, þar til tilkynnt var í sumar að flug myndi hefjast nú í október. Uppbyggingin á sér stað í friðlandi ósnortins skóglendis og hefur vakið reiði umhverfissinna. Aðrir trúa að völlurinn muni auka á lífsgæði og ferðamannastraum í héraðinu og í yfirlýsingum stjórnvalda er fullyrt að framkvæmdin muni ekki raska lífríki svæðisins.

flughofnsichuan

Í síðustu viku, nánar til tekið 16. september, hófst áætlunarflug til Daocheng Yading flugvallarins í Sichuan-héraði. Hann var byggður í 4,411 metra hæð og er þar með sá flugvöllur í heiminum sem liggur hæst yfir sjávarmáli. Frá flugvellinum má auðveldlega ferðast til ósnortinna landsvæða í Tíbet og þótt sumir Tíbetbúar fagni mögulegum ferðamannastraumi er framkvæmdin umdeild. Mörgum þykir vald flokksforystunnar í Beijing nú færast nær og óttast að unnin verði spjöll á náttúrunni í þágu “uppbyggingar hagkerfisins.“

hefeixinqiaoairport

Hefei er höfuðborg Anhui-héraðs í austurhluta Kína. Nýr alþjóðlegur flugvöllur hóf starfssemi í borginni í maí á þessu ári.

kunming

Árið 2012 opnaði nýr flugvöllur í Kunming í Yunnan-héraði. Changshui flugvöllurinn leysir af hólmi eldri flugvöll og var hannaður af Beijing Institute of Architectural Design (BIAD) sem er arkitektastofa í eigu kínverska ríkisins.

shenzhenÁrið 2008 unnu ítölsku arkitektarnir Massimiliano og Dorian Fuksas samkeppni um nýja flugstöðvarbyggingu á Bao´an flugvellininum í Shenzhen-borg í suðurhluta Kína. Flugstöðin verður byggð í þremur áföngum og sá fyrsti opnaður árið 2015.

Árið 2014 hefjast í suðurhluta Beijing framkvæmdir við annan flugvöll höfuðborgarinnar. Opnun hans er fyrirhuguð árið 2018 og verður nýi völlurinn þá sá stærsti í heimi. Flugvöllurinn í Beijing er nú þegar sá næstfjölfarnasti í heimi (á eftir Atlanta í Bandaríkjunum) auk þess að eiga met sem lengsta bygging í heimi en flugstöðvarbygging breska arkitektsins Norman Foster er 3,25 km löng.

beijing_airport

Tunglkökur

tunglkaka_efst

Tunglkökur eru framleiddar í tonnatali í Kína ár hvert í tengslum við miðhausthátíðina. Umbúðir og vörumerki þykja oft mikilvægari en bragð og gæði vörunnar og rándýrar tunglkökur í skrautlegum umbúðum eru orðnar að stöðutákni. Flestir kaupa tunglkökur til gjafa því margir Kínverjar eru lítt hrifnir af bragðinu, ekki síst yngri kynslóðin. Söluhæstu tunglkökurnar í Kína undanfarin ár hafa verið uppfærðar útgáfur bandaríska ísframleiðandans Häagen-Dazs.

mooncake packaging

Dæmigerðar tunglkökur eru hringlaga eins og fullt tungl. Eins og svo oft í Kína er gerð þeirra tengd alls kyns táknmyndum. Sem dæmi má nefna að í hefðbundna uppskrift eru yfirleitt notaðar fjórar eggjarauður sem standa fyrir fjóra fasa tunglsins. Kökurnar eru stundum sætar og eru þá til dæmis fylltar með sætum baunum eða lótusfræjum en geta einnig verið matmeiri og bragðsterkar, fylltar með kryddjurtum og kjöti, jafnvel Peking önd!

Framleiðsla hefðbundinnar tunglköku mun vera frekar ódýr þótt varan sé seld háu verði. Það eru því miklir peningar í húfi og margir reyna að eigna sér hlut í kínverska tunglkökuævintýrinu. Hótelkeðjur og veitingastaðir framleiða kökurnar undir eigin vörumerkjum og fyrirtæki frá Vesturlöndum sem hafa náð vinsældum í Kína markaðssetja nú sínar eigin gerðir. Þá eru tunglkökurnar gjarnan færðar til nútímalegra horfs, jafnvel er talað um tunglköku “make over” og þar sem fræg vörumerki seljast jafnan best í Kína, berast æ oftar fréttir af tunglkökueftirlíkingum.

zondag1

Hefðbundar tunglkökur eru ekki aðeins svolítið furðulegar á bragðið heldur innihalda þær gríðarlegt magn hitaeininga, allt upp í 800 kaloríur stykkið! Þetta kann að einhverju leyti að skýra vinsældir tunglkakanna frá Häagen-Dazs. Fólk kaupir slíkar kökur fremur til að borða sjálft, hinar hefðbundnu eru hafðar til gjafa. Hvað sem öðru líður hafa tilraunir til að færa tunglkökuna nær þörfum nútímans tekist ágætlega og næsta víst að tunglkökur verða áfram hluti af hátíðahöldum haustsins hér í Kína.

Hátíð á miðju hausti

Mid-Autumn-Festival-Chinese-Festival-004-485x728

Miðhausthátíðin er ein af mikilvægustu hátíðum Kínverja. Í samræmi við kínverska dagatalið ber mitt haust upp á 15. dag 8. mánaðar og af því dregur hátíðin nafn sitt. Í ár ber daginn upp á fimmtudaginn 19. september samkvæmt okkar tímatali. Því var trúað að þennan dag næði kringlótt form tunglsins og ljómi þess hámarki. Samkvæmt kínverskri þjóðtrú táknar fullt tungl endurfundi og því fagna Kínverjar deginum gjarnan í faðmi fjölskyldunnar. Tunglkökur eru einnig órjúfanlegur partur af hátíðahöldunum.

Tilbeiðsla tunglsins er aldagömul hefð í Kína. Finna má útsýnisskála til tunglskoðunar í flestum sögufrægum byggingum og í gegnum árþúsundin hafa orðið til ýmsir siðir og venjur sem tilheyra þessari árlegu hátíð. Allt frá Tang keisaratímanum hefur miðhausthátíðin verið ein af opinberum hátíðum í Kína. Á Song tímabilinu urðu almenn hátíðarhöld algengari og flykktist þá almenningur gjarnan í útsýnisskála til að njóta tunglsins, þeir efnameiri heimsóttu sína eigin skála. Fjölskyldur söfnuðust þá saman til kvöldverðar, jafnframt því að njóta þess að horfa á tunglið. Frá tímum Ming og Qing keisaraættanna hafa skapast ýmsar matarhefðir á þessum tímamótum, svo sem að borða rótarávöxtinn taro og tunglkökur.

Líkt og fyrr á tímum safnast kínverskar nútímafjölskyldur saman og borða kvöldverð á þessum frídegi. Gufusoðnar jarðhnetur, sneiðar af taro, hrísgrjónaseyði, fiskur og núðlur eru hefðbundir réttir við þessi tímamót. Enginn þeirra kemst þó í hálfkvisti við vinsældir tunglkökunnar. Vikum fyrir sjálfa hátíðina má sjá tunglkökur til sölu í öllum helstu verslunum, hótelum og kaffihúsum enda eftirsótt gjöf til vina og ættingja. Fyrirtæki nota gjarnan tækifærið til að senda tunglkökur til viðskiptavina sem þakklætisvott.

Kínverski draumurinn

kinadraumur4

Þegar Xi Jinping tók við embætti æðsta leiðtoga Kína á síðasta ári gerði hann kínverska drauminn að slagorði stjórnvalda. Síðan þá hefur hugmyndin um kínverska drauminn verið fyrirferðarmikil hér í Alþýðulýðveldinu, um hana er fjallað í forystugreinum dagblaða, umræðuþáttum, námsbókum, á veggspjöldum og í sjónvarpsauglýsingum. Í enskri netútgáfu dagblaðsins Shanghai Daily má til dæmis sjá auglýsingaborða sem vísar á umfjöllun um bjartsýna fulltrúa almennings sem upplifa kínverska drauminn. Á kínverskum samskiptamiðlum lætur fólk þó í ljós efasemdir.

Fyrir hvað stendur kínverski draumurinn?

Samkvæmt Xi Jinping forseta felur kínverski draumurinn í sér sameiginlega hagsæld. Yfirmaður í Frelsisher alþýðunnar hefur látið hafa eftir sér að draumurinn snúist um að Kína vilji verða númer eitt í veröldinni. Í opinberum fjölmiðlum er lögð áhersla á friðsamlega þróun. China Daily, einn af fjölmörgum kínverskum fjölmiðlum sem stýrt er af yfirvöldum, boðar að kínverski draumurinn nái til samfélagsins alls. Talað er um sameiginlega uppbyggingu velferðarsamfélags, einskonar nútíma sósíalistaríkis sem sé efnahagslega sterkt, lýðræðislegt, siðmenntað og samstillt. Þannig megi uppfylla hinn kínverska draum um stórkostlega endurreisn kínverskrar þjóðar þar sem ríkja mun hagsæld og hamingja. Eitthvað á þessa leið hjómar hin opinbera orðræða.

kinadraumur5

Herferðin boðar í raun endurvakningu kínversku þjóðinnar. Margir hafa reynt að túlka þýðingu þessara orða, jafnt innan Kína sem utan. Sumir vilja meina að verið sé að taka upp þráðinn um sameiginlegan draum alþýðunnar í sósíalískum anda, andstætt ameríska draumnum þar sem allir einstaklingar áttu að hafa sömu tækifæri. Aðrir ganga lengra og segja að þetta sé fyrst og fremst draumur um valdamikið ríki undir stjórn kínverska kommúnistaflokksins.

chinas-dream

Æskan ekki undanskilin

Í júní á þessu ári bárust fréttir af ákalli Li Yuanchao varaforseta Kína um að kínverskum skólabörnum skuli nú blásinn réttur andi í brjóst og að hefja skuli kennslu í hugmyndafræðinni um kínverska drauminn í skólum. Hann hvatti jafnframt stærstu barnahreyfingu í Kína til að stuðla að útbreiðslu hugmyndarinnar um drauminn meðal barna.

Hindranir að hagsæld 

Mikill hagvöxur á síðustu áratugum hefur eflt væntingar Kínverja um draumalandið. Leiðtogar landsins standa þó frammi fyrir fjölmörgum hindrunum og um leið vaxandi óánægju almennings. Ber þar hæst spillingu og misnotkun opinbers valds, gríðarlega stórt hagkerfi þar sem erfitt getur verið að viðhalda 7-8% árlegum hagvexti og mikla misskiptingu auðs þar sem fátækt er enn útbreidd á mörgum svæðum í Kína. Pólitísk sambönd við umheiminn eru einnig nefnd í þessu samhengi, ekki síst við nágrannalöndin þar sem víða er barist um yfirráðasvæði. Síðast en ekki síst eru umhverfismál í Kína í miklum ólestri með tilheyrandi loft- og vatnsmengun.

Stórir draumar

kinadraumur2Kannski snýst herferðin um kínverska drauminn fyrst og fremst um að hvetja til bjartsýni í samfélaginu en margir Kínverjar eru vonlitlir um að leysa megi stóru vandamálin sem við blasa. Xi Jinping forseti hefur sagt að ungt fólk eigi að leyfa sér að láta sig dreyma, það geti með iðjusemi látið draumana rætast og þar með lagt sitt af mörkum við að endurlífga kínverska þjóð. Forsetinn hefur reyndar líka fyrirskipað að til þess að draumarnir geti ræst verði að fylgja kínversku leiðinni, leið sósíalisma með kínverskum sérkennum. Dæmigerðari fyrir hinn almenna borgara eru þó sennilega viðbrögð ungrar kínverskrar konu sem varð fyrir svörum við leit okkar að upplýsingum um kínverska drauminn: ,,Við erum að tala um að kínversku þjóðina skorti trú á framtíðina svo það er gott að byggja upp kínverskan draum um eitthvað sem gæti orðið. Fyrir mér er þetta þó ennþá of óljóst. Flestir vilja bara betra líf. Land sanngirni og hagsældar væri minn kínverski draumur.” Hún bætir því við að sennilega sé það svolítið stór draumur.

chinese-dream1

Myndirnar sem fylgja færslunni sýna kynningarspjöld um kínverska drauminn sem birst hafa opinberlega í Kína.

Áróður á safni

Áróður af ýmsu tagi er órjúfanlegur hluti af sögu Kína undir stjórn kínverska kommúnistaflokksins. Veggspjöld sem gáfu rétta tóninn í samfélaginu hverju sinni voru hluti af umhverfi borga og bæja allt fram undir 1990.

mao_poster

Um svipað leyti hóf framsýnn heimamaður í Shanghai upp á sitt einsdæmi að safna slíkum veggspjöldum. Þar með kom hann í veg fyrir að mörg þeirra glötuðust þegar stjórnvöld, af pólitískum ástæðum, leituðust við að eyðileggja öll slík plaköt í kringum 1995. Safnið Shanghai Propaganda Poster Art Center hefur verið opið almenningi frá árinu 2002, frá 2012 með opinberu samþykki yfirvalda í borginni.

spropagandamuseum

Staðsetning safnsins er óvenjuleg, í illa lyktandi kjallara íbúðablokkar. Inngangurinn er baka til og ekki auðfundinn. En safnið er skemmtilegt og veggspjöldin góð heimild, til dæmis um áróður menningarbyltingarinnar. Á hverju veggspjaldinu á fætur öðru er Mao formaður, eins og guð almáttugur, altumlykjandi og verndandi, leiðtoginn og fyrirmyndin. Honum er jafnvel líkt við sjálfa sólina.

mao

Árið 2013 skín ásjóna Maos enn skært yfir Torgi hins himneska friðar í Beijing.

tianmen