Áróður af ýmsu tagi er órjúfanlegur hluti af sögu Kína undir stjórn kínverska kommúnistaflokksins. Veggspjöld sem gáfu rétta tóninn í samfélaginu hverju sinni voru hluti af umhverfi borga og bæja allt fram undir 1990.

Um svipað leyti hóf framsýnn heimamaður í Shanghai upp á sitt einsdæmi að safna slíkum veggspjöldum. Þar með kom hann í veg fyrir að mörg þeirra glötuðust þegar stjórnvöld, af pólitískum ástæðum, leituðust við að eyðileggja öll slík plaköt í kringum 1995. Safnið Shanghai Propaganda Poster Art Center hefur verið opið almenningi frá árinu 2002, frá 2012 með opinberu samþykki yfirvalda í borginni.

Staðsetning safnsins er óvenjuleg, í illa lyktandi kjallara íbúðablokkar. Inngangurinn er baka til og ekki auðfundinn. En safnið er skemmtilegt og veggspjöldin góð heimild, til dæmis um áróður menningarbyltingarinnar. Á hverju veggspjaldinu á fætur öðru er Mao formaður, eins og guð almáttugur, altumlykjandi og verndandi, leiðtoginn og fyrirmyndin. Honum er jafnvel líkt við sjálfa sólina.

Árið 2013 skín ásjóna Maos enn skært yfir Torgi hins himneska friðar í Beijing.


Flott hjá ykkur! Gaman að lesa 🙂
Takk Björk 🙂
Bakvísun: Afgangskonurnar í Kína | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA