Kínverski draumurinn

kinadraumur4

Þegar Xi Jinping tók við embætti æðsta leiðtoga Kína á síðasta ári gerði hann kínverska drauminn að slagorði stjórnvalda. Síðan þá hefur hugmyndin um kínverska drauminn verið fyrirferðarmikil hér í Alþýðulýðveldinu, um hana er fjallað í forystugreinum dagblaða, umræðuþáttum, námsbókum, á veggspjöldum og í sjónvarpsauglýsingum. Í enskri netútgáfu dagblaðsins Shanghai Daily má til dæmis sjá auglýsingaborða sem vísar á umfjöllun um bjartsýna fulltrúa almennings sem upplifa kínverska drauminn. Á kínverskum samskiptamiðlum lætur fólk þó í ljós efasemdir.

Fyrir hvað stendur kínverski draumurinn?

Samkvæmt Xi Jinping forseta felur kínverski draumurinn í sér sameiginlega hagsæld. Yfirmaður í Frelsisher alþýðunnar hefur látið hafa eftir sér að draumurinn snúist um að Kína vilji verða númer eitt í veröldinni. Í opinberum fjölmiðlum er lögð áhersla á friðsamlega þróun. China Daily, einn af fjölmörgum kínverskum fjölmiðlum sem stýrt er af yfirvöldum, boðar að kínverski draumurinn nái til samfélagsins alls. Talað er um sameiginlega uppbyggingu velferðarsamfélags, einskonar nútíma sósíalistaríkis sem sé efnahagslega sterkt, lýðræðislegt, siðmenntað og samstillt. Þannig megi uppfylla hinn kínverska draum um stórkostlega endurreisn kínverskrar þjóðar þar sem ríkja mun hagsæld og hamingja. Eitthvað á þessa leið hjómar hin opinbera orðræða.

kinadraumur5

Herferðin boðar í raun endurvakningu kínversku þjóðinnar. Margir hafa reynt að túlka þýðingu þessara orða, jafnt innan Kína sem utan. Sumir vilja meina að verið sé að taka upp þráðinn um sameiginlegan draum alþýðunnar í sósíalískum anda, andstætt ameríska draumnum þar sem allir einstaklingar áttu að hafa sömu tækifæri. Aðrir ganga lengra og segja að þetta sé fyrst og fremst draumur um valdamikið ríki undir stjórn kínverska kommúnistaflokksins.

chinas-dream

Æskan ekki undanskilin

Í júní á þessu ári bárust fréttir af ákalli Li Yuanchao varaforseta Kína um að kínverskum skólabörnum skuli nú blásinn réttur andi í brjóst og að hefja skuli kennslu í hugmyndafræðinni um kínverska drauminn í skólum. Hann hvatti jafnframt stærstu barnahreyfingu í Kína til að stuðla að útbreiðslu hugmyndarinnar um drauminn meðal barna.

Hindranir að hagsæld 

Mikill hagvöxur á síðustu áratugum hefur eflt væntingar Kínverja um draumalandið. Leiðtogar landsins standa þó frammi fyrir fjölmörgum hindrunum og um leið vaxandi óánægju almennings. Ber þar hæst spillingu og misnotkun opinbers valds, gríðarlega stórt hagkerfi þar sem erfitt getur verið að viðhalda 7-8% árlegum hagvexti og mikla misskiptingu auðs þar sem fátækt er enn útbreidd á mörgum svæðum í Kína. Pólitísk sambönd við umheiminn eru einnig nefnd í þessu samhengi, ekki síst við nágrannalöndin þar sem víða er barist um yfirráðasvæði. Síðast en ekki síst eru umhverfismál í Kína í miklum ólestri með tilheyrandi loft- og vatnsmengun.

Stórir draumar

kinadraumur2Kannski snýst herferðin um kínverska drauminn fyrst og fremst um að hvetja til bjartsýni í samfélaginu en margir Kínverjar eru vonlitlir um að leysa megi stóru vandamálin sem við blasa. Xi Jinping forseti hefur sagt að ungt fólk eigi að leyfa sér að láta sig dreyma, það geti með iðjusemi látið draumana rætast og þar með lagt sitt af mörkum við að endurlífga kínverska þjóð. Forsetinn hefur reyndar líka fyrirskipað að til þess að draumarnir geti ræst verði að fylgja kínversku leiðinni, leið sósíalisma með kínverskum sérkennum. Dæmigerðari fyrir hinn almenna borgara eru þó sennilega viðbrögð ungrar kínverskrar konu sem varð fyrir svörum við leit okkar að upplýsingum um kínverska drauminn: ,,Við erum að tala um að kínversku þjóðina skorti trú á framtíðina svo það er gott að byggja upp kínverskan draum um eitthvað sem gæti orðið. Fyrir mér er þetta þó ennþá of óljóst. Flestir vilja bara betra líf. Land sanngirni og hagsældar væri minn kínverski draumur.” Hún bætir því við að sennilega sé það svolítið stór draumur.

chinese-dream1

Myndirnar sem fylgja færslunni sýna kynningarspjöld um kínverska drauminn sem birst hafa opinberlega í Kína.

4 hugrenningar um “Kínverski draumurinn

  1. Bakvísun: Akademískt frelsi að hætti alþýðulýðveldisins | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA

  2. Bakvísun: Konfúsíus og hin ráðandi öfl | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA

Skildu eftir svar við medkvedjufrakina Hætta við svar