Markaðstorg hjónabandsins

Hjónabandið er afar mikilvægt í Kína og foreldrar leggja mikla áherslu á að uppkomin börn festi ráð sitt, helst vel fyrir þrítugt. Enn meiri pressa er á ungum konum en karlmönnum hvað þetta varðar.

DSC_0918

Hjónabandið sameinar fjölskyldur og foreldrar ungu hjónanna hafa meira um sambandið að segja en við Íslendingar erum vön. Það að eignast barn og síðar barnabarn/börn er sérstaklega þýðingarmikið fyrir Kínverja. Unga fólkið á helst að að mennta sig, síðan að ganga í hjónaband og svo að eignast barn. Sambúð fyrir hjónaband er ekki algeng og að eignast barn utan hjónabands er afar óæskilegt svo ekki sé meira sagt.

Það er ákveðin krafa um að karlmaðurinn eigi íbúð áður en hann kvænist og foreldrar hans reyna eftir bestu getu að hjálpa til með það. Ungar konur leita gjarnan að vel menntuðum manni sem á íbúð, er með góðar tekjur og ekki spillir fyrir ef hann er hávaxinn.

Foreldrar fara að ókyrrast þegar barnið þeirra er komið vel á þrítugsaldurinn og ekkert hefur gerst í hjónabandsmálunum. Þá þarf oft að grípa í taumana. Ein leiðin til að koma barninu út er að mæta á hjónabandsmarkaðinn í Shanghai á sunnudegi. Þar safnast áhyggjufullir foreldrar uppkominna einhleypra barna saman og reyna að finna hentuga maka fyrir syni sína og dætur. Foreldrarnir skrifa þá upplýsingar um börn sín á blöð sem eru svo til sýnis fyrir þá sem markaðinn sækja. Þar má meðal annars lesa um aldur, menntun og starf, hæð og persónueinkenni og stundum fylgir mynd. Svo gengur fólk um og skoðar og ræðir málin og skiptist á upplýsingum. Ef foreldri sér einhvern sem er álitlegur eru málin rædd og svo er skipst á símanúmerum ef líkur eru taldar á árangri. Oft eru foreldrarnir þarna í óþökk barna sinna, sem jafnvel hálfskammast sín fyrir tiltækið.

DSC_0914

DSC_0907

Við höfum rætt við nokkrar ungar konur hér í Kína um hjónabandið og þeim ber öllum saman um að pressan frá foreldrum um að þær festi ráð sitt sé mjög mikil. Ein af þeim sem við spjölluðum við sagði pressuna nærri óbærilega. Hún er ógift, komin fast að þrítugu, vel menntuð og í góðu starfi. Pressan er oft mest í kringum hátíðir þegar fjölskyldur eyða miklum tíma saman. Enda bárust af því fréttir í febrúar síðastliðnum, fyrir kínverska nýárið, að hægt væri að leigja sér kærasta á Tabao (eins konar eBay þeirra Kínverja) til að fara með heim til fjölskyldunnar!

Við spjölluðum einnig við miðaldra karlmann frá Shanghai um þessi mál. Hann á eina dóttur fædda árið 1989. Hann sagðist ákaflega glaður þessa dagana þar sem dóttir hans væri að fara að gifta sig í nóvember. Honum líst vel á verðandi tengdason þó hann hefði kosið að hann hefði meiri menntun og betri vinnu. Hann hefði einnig vonað að einkadóttirin gengi menntaveginn en sú ósk hefði ekki ræst. Hann var ánægður með fjölskyldu kærastans og framundan væri einmitt að bjóða þeim í mat. Helgina þar á undan hefðu þau hjónin verið í mat hjá foreldrum unga mannsins. Nú væri verið að efla tengslin. Hann sagðist hlakka til að eignast barnabörn og nú væri þungu fargi af honum létt.

Hér má sjá nokkur dæmi um auglýsingar á myndum sem við tókum á „markaðstorgi hjónabandsins“ í Shanghai sunnudaginn 22. september 2013:

dsc_0904

Karlmaður, fæddur 1980, háskólapróf, 1,65 á hæð, mánaðarlaun 3,500 RMB, er í fríi um helgar, er nærgætinn og traustur, leitar að heiðarlegri stúlku í fastri vinnu sem þarf að vera mannblendin. Engar kröfur um Hukou, upplýsingar í síma…

Karlmaður, ógiftur, einbirni, fæddur 1976, hæð 1,80, meistaragráða, Shanghai Hukou, á hús og vinnur hjá stóru opinberu fyrirtæki. Lítur vel út og hefur persónutöfra, er heiðarlegur og áreiðanlegur, leitar að ógiftri stúlku fæddri eftir 1980, 1,65 á hæð eða stærri, með háskólagráðu eða meira, með Shanghai Hukou, upplýsingar í síma… (betra ef hún vinnur í Hongkou-hverfi).

dsc_0901

Kona, ógift, aðstoðarmaður og þýðandi á skrifstofu fransks fyrirtækis í Shanghai, meistaragráða frá Frakklandi, fædd 1985, hæð 1,63, leitar að karlmanni á aldrinum 27-35 ára, með bachelor gráðu eða meira, 1,72 á hæð eða hærri, sem hefur ekki verið giftur áður, vinnur í Shanghai eða Nanjing, eða er Kínverji sem vinnur í Bandaríkjunum eða Kanada.

Kona, einbirni, fædd 1979, hæð 1,55, bachelor gráða í grafískri hönnun, starfar sem hönnuður hjá alþjóðlegu fyrirtæki, laun 5.000 RMB, er viðmótsþýð og blíðlynd, Shanghai Hukou, á hús í Putuo hverfi, leitar að ungum og heilbrigðum manni sem er vinalegur við foreldra.

DSC_0881

4 hugrenningar um “Markaðstorg hjónabandsins

  1. Dásamleg síðasta setningin: “ leitar að ungum og heilbrigðum manni sem er vinalegur við foreldra“ – ekki miklar kröfur það… og greinilegt hvers þarfir eru þarna hafðar að leiðarljósi 🙂

  2. Bakvísun: Kínversk stjörnuspeki | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA

  3. Bakvísun: Afgangskonurnar í Kína | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA

Skildu eftir svar við Björk Hætta við svar