Silkileið norðursins

Ma Kai, einn af fjórum varaforsætisráðherrum Kína, heimsótti Ísland í síðustu viku. Í kjölfarið hafa fylgt fréttir þess efnis að íslenskir ráðamenn horfi nú helst til Kína við endurreisn íslensks efnahagslífs. Gagnrýnisraddir heyrast og minna á að Kína er alræðisríki þar sem lítil virðing er borin fyrir mannréttindum.

orgmaikai

Sé litið til þess að heimsókn Ma Kai til Íslands var að undirlagi íslenskra stjórnvalda hefur hún fengið fremur litla umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum. Það er einnig afar óljóst hvers vegna kínverska varaforsætisráðherranum var boðið til Íslands. Í frétt á heimasíðu forsætisráðuneytisins er fjallað um samtal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Ma Kai. Sagt er að tvíhliða samskipti ríkjanna hafi verið til umræðu, málefni norðurslóða, mannréttindamál og alþjóðamál. Ferðamál mun einnig hafa borið á góma og var vilji til að greiða fyrir flugsamgöngum á milli landanna. Vilji Íslendinga til samstarfs á sviði orkumála var einnig áréttaður. Í lok fréttarinnar frá ráðuneytinu kemur fram að kínverski ráðherrann bauð forsætisráðherra Íslands að heimsækja Kína við fyrsta tækifæri.

Hér í Kína birtist frétt um heimsókn Ma Kai til Íslands á Xinhua sem er aðalfréttaveita kínverskra ríkisins. Sama frétt er höfð orðrétt eftir í fleiri kínverskum fjölmiðlum. Í fyrirsögn fréttarinnar segir að Ma Kai hafi átti fund í Reykjavík með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Vitnað er í Ma sem segir meðal annars að á milli landanna ríki gagnkvæmt traust og einlægur vinskapur. Þá er vitnað í Ólaf Ragnar sem segir að í kjölfar íslensku fjármálakreppunnar hafi verið mikilvægt að efla viðskipti og fjárhagslega samvinnu milli landanna. Þessa samvinnu þurfi að þróa betur og hraðar er haft eftir Ólafi. Aftur er vitnað í Ma Kai og kemur þá meðal annars fram að mikilvægt sé að auka nemendaskipti á milli landanna og samhæfa stefnu og samskipti vegna málefna norðurslóða. Undir lok fréttarinnar kemur síðan fram að yfirvöld í Kína líti á Ísland sem mikilvægan samstarfsaðila á sviði jarðhita, umhverfisverndar, tækni og vísinda og ferðaþjónustu. Lokaorð fréttarinnar eru þó einna athyglisverðust en þar segir að Ísland óski eftir því að þróa „silkileið norðursins“ með Kína.

Í framhaldi af heimsókn Ma Kai hóf utanríkisráðherra Íslands upp raust sína í viðtali á Bloomberg fréttavefnum og sagði að við Íslendingar ættum að nýta þann áhuga sem Kínverjar sýna Íslandi, en gera það á okkar forsendum.

Nú er ekki víst að forsendur Íslendinga geti ráðið ferðinni í samningum við stórveldi. Kína er fjölmennasta ríki veraldar en á Íslandi búa um 320.000 manns. Kínverjar gera allt á eigin forsendum og eru mjög góðir í því. Stjórnvöld í Kína eru þekkt fyrir áætlanagerð og skipuleggja þá gjarnan langt fram í tímann. Þau eru heldur ekki þekkt fyrir að bjóða samvinnu við önnur lönd nema fá eitthvað í staðinn.

Framtíðarsýn kínverskra yfirvalda virðist miða að því að tryggja góðar samgöngur fyrir kínverskar vörur til Evrópu, einskonar nútíma silkileið. Miðstöðvar til uppskipunar og annarskonar athafnasvæði eru mikilvægur hluti af slíkum áætlunum. Kaup Kínverja á hafnarsvæðum í Grikklandi styðja þessa kenningu sem og áhugi þeirra á Íslandi og norðurslóðum.

Fyrir okkur Íslendinga er nú nauðsynlegt að fá að vita hvort íslensk stjórnvöld séu í fullri alvöru að vinna að því að gera Ísland að einhverskonar kínverskri bensínstöð á þessari nýju leið frá Kína til Evrópu.

4 hugrenningar um “Silkileið norðursins

  1. Bakvísun: Akademískt frelsi að hætti alþýðulýðveldisins | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA

Skildu eftir svar við Lara Hætta við svar