Matvælaframleiðsla í vanda

Á undanförnum árum hefur komist upp um hvert hneykslið á fætur öðru varðandi mataröryggi hér í Kína. Vesturlandabúar þekkja margir mjólkurduftsmálið þar sem að minnsta kosti 6 börn dóu og um 300.000 veiktust eftir að melamíni var blandað í mjólkurduft. Síðan hafa fjölmörg önnur mál komið upp:

Svínakjöt litað og selt sem nautakjöt; rottukjöt, refa- og minkakjöt selt sem lambakjöt; olía hirt upp úr ræsum veitingahúsa og seld; eftirlíkingar af eggjum, mjólk, gosdrykkjum, tofu og hunangi; svínshræ sem átti að farga seld til veitingastaða og svona mætti lengi telja.

Eftirlíkingar

Það virðast vera lítil takmörk fyrir því hvað er hægt að framleiða af eftirlíkingum hér í Kína og þar er matvælaiðnaðurinn ekki undanskilinn. Reglulega birtast fréttir af eftirlíkingum af þekktum vörumerkjum í matvælaframleiðslu. Þeim má skipta í tvo flokka; annars vegar eru framleiddar nákvæmar eftirlíkingar án allra leyfa og hins vegar eru vörur sem eru framleiddar með tilskildum leyfum þar sem framleiðandinn hefur nýtt sér göt í kerfinu og fengið leyfi fyrir nýju vörumerki sem er þá mjög líkt fyrirmyndinni.

Eftirlíkingarnar eru algengastar í minni borgum og bæjum þar sem þær eru seldar á lágu verði. Í sumar komst sagan af Wang í fréttir þegar hann skrapp að heimsækja ættingja sína í Shandong héraði. Á lestarstöðinni kom hann við í lítilli búð og keypti mjólk og þar sem hann var á hraðferð skoðaði hann umbúðirnar ekki nógu vel. Þegar hann kom á áfangastað tók hann eftir því að mjólkin frá Yili sem venjulega er skrifuð með tákninu  ‘伊’ var skrifuð með tákninu ‘尹’. Wang hafði því keypt eftirlíkingu af mjólk.

Annað nýlegt dæmi er af orkudrykknum Red Bull. Upp komst um um tólf verksmiðjur á víð og dreif um Kína sem framleiddu eftirlíkingar af drykknum og er áætlað að hver þeirra hafi framleitt um 2400 dósir á dag. Talið er að gróðinn af hverri seldri dós hafi numið um 75 krónum. Lögreglan handtók þrettán manns í tengslum við málið og gerði verksmiðjurnar og allt sem þeim tilheyrði upptækt, samtals eignir að virði um 500 milljóna íslenskra króna.

Redbull3

Mengaðar vörur og annað svindl

Eftirlíkingar eru ekki það eina sem þarf að hafa áhyggjur af þegar hugað er að mataröryggi í Kína því einnig berast reglulega fréttir af mat sem mengaður er af skordýraeitri, ólöglegum rotvarnar- og aukefnum og þungmálmum vegna mengunar.

Eins og allir vita þá borða Kínverjar mikið af hrísgrjónum og það voru því afar slæmar fréttir sem bárust á vormánuðum þegar fram kom að 8 af 18 sýnum úr hrísgrjónum, sem tekin voru á veitingastöðum í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína, innihéldu of mikið af kadmíum. Í tilkynningu frá yfirvöldum kom fram að menguðu hrísgrjónin kæmu úr Hunan héraði  þar sem verksmiðjur, álver og námur hafa sprottið upp. Kadmíum er notað við framleiðslu á batteríum fyrir farsíma, myndavélar og tölvur sem mikið er framleitt af í Kína.

Rice_fields_mazandaran

Á svipuðum tíma og hrísgrjónamálið var í hámæli sýndi sjónvarpsstöðin CCTV frétt um ofnotkun á skordýraeitrinu Aldicarb hjá engiferræktendum í Shandong héraði, efni sem er bannað að nota við ræktun á engiferi. Bændurnir höfðu í áraraðir notað þrefalt til sexfalt magn af efninu ef miðað er við það magn sem leyfilegt er að nota við ræktun á bómull, tóbaki, hnetum og fleiri afurðum. Í viðtali við sjónvarpsstöðina sagðist einn bændanna vita af hættunni sem þessu fylgdi og að hann notaði ekki efnið þegar hann væri að rækta til eigin nota. Annar sagðist hafa notað Aldicarb við framleiðsluna í meira en 20 ár. Sá sagði að efnið væri nauðsynlegt til þess að útrýma skordýrum og að án þess myndi framleiðslan minnka um helming.

Tvö dæmi sem tengjast svindli í matvælaiðnaðinum á þessu ári standa okkur nærri. Nokkrir starfsmenn í íslensku fyrirtæki sem hér starfar taka sig gjarnan saman í hádeginu á föstudögum og kaupa grillað lambakjöt á markaði nærri skrifstofunni sem þeir svo borða saman í mötuneytinu. Á vormánuðum bárust af því fréttir að verið væri að selja rottu-, refa- eða minkakjöt sem lambakjöt á mörkuðum í Kína. Daginn eftir þennan fréttaflutning var búið að loka markaðinum sem starfsmennir versluðu við. Hann var sem betur fer opnaður fljótlega aftur sem bendir til þess að kjötið þar hafi verið í lagi, en óvissan er til staðar.

Hitt dæmið er af kínverskum ávaxtasafa, en nýlega var einn stærsti safaframleiðandinn í Kína ásakaður um að notaða skemmda ávexti við framleiðsluna. Deginum áður hafði önnur okkar einmitt verið að fylla ísskápinn af þessum djús. Hún kaupir venjulega innfluttan safa en þennan dag hafði hún hugsað með sér að það væri auðvitað bölvuð vitleysa og að sjálfsagt væri að gefa kínverskri framleiðslu séns.

djus

Skortur á mataröryggi í Kína snertir fleiri en okkur sem hér búum og nú er til dæmis verið að rannsaka einkennilegt mál í Bandaríkjunum þar sem gæludýrasnakk sem framleitt er í Kína fyrir hin ýmsu vörumerki er talið hafa valdið veikindum meira en 3600 hunda og dauða að minnsta kosti 580 hunda frá því árið 2007.

Ástæður og viðbrögð

Það eru margar skýringar á því hvers vegna mataröryggi í Kína er ekki betra en raunin er. Framleiðslukerfið er ákaflega flókið með milljónum bænda og þúsundum söluaðila sem selja til heildsölumarkaða sem síðan selja til framleiðenda, verslana og markaða út um allt Kína. Þetta kerfi gerir allan rekjanleika mjög erfiðan og stjórnun birgðakeðjunnar verður ekki létt verk. Eftirlitskerfið er einnig flókið og fæðustaðlar misvísandi. Sé litið til einstaklinga innan kerfisins þá er líklegt að skortur á samkennd í samfélaginu, spilling í eftirlitskerfinu og mikil misskipting, sem ýtir undir löngun einstaklinga í skjótfengin gróða, eigi sinn þátt í því hvernig komið er.

Síðasta áratuginn hafa stjórnvöld fjórum sinnum gert breytingar á eftirlitskerfinu til þess að auka fæðuöryggi í landinu, síðast með setningu nýrra laga um fæðuöryggi árið 2009. Í haust var svo fimmta aðgerðin kynnt til sögunnar með stofnun China Food and Drug Administration, stofnunar sem á að stýra þessum málum. Sérfræðingar telja þetta vera skref í rétta átt en muni þó engan veginn leysa allan vandann. Of mikil miðstýring hafi önnur vandamál í för með sér og geti dregið úr sveigjanleika til þess að bregðast við vandamálum sem upp koma.

Það er því ekki að ástæðulausu sem fólk hér í Kína er farið að grípa til sinna ráða þegar fæða þarf fjölskylduna. Þeir Kínverjar sem hafa efni á því að kaupa innflutt matvæli gera það í auknum mæli og þá sérstaklega vörur eins og ungbarnamjólkurduft. Margir reyna að kaupa erlenda vöru í gegnum netið eða fá ættingja eða vini sem búa erlendis eða eru þar á ferðalagi til þess að kaupa fyrir sig. Allur almenningur verður þó að stóla á innlenda framleiðslu.

Margir útlendingar sem hér búa kjósa að kaupa innflutt matvæli þegar því verður við komið. Þau eru fáanleg í ákveðnum búðum hér í Shanghai en eru mjög dýr og úrvalið takmarkað. Sem dæmi þá kostar einn lítri af innfluttri G-mjólk um 500 krónur og lítill pakki af Cheerios um 1.800 krónur. Matarkarfan getur því orðið ansi dýr hér rétt eins og á Íslandi.

cityshop2

2 hugrenningar um “Matvælaframleiðsla í vanda

  1. Já það er erfitt að að vanda vel innkaupin í Kína. Var að rifija þetta upp, var það ekki Hekla sem lenti í því að kaupa einhver ´fake´ innfluttan bjór?

  2. Bakvísun: Chollywood | MEÐ KVEÐJU FRÁ KÍNA

Skildu eftir svar við Lara Hætta við svar