Fjárfesting í erlendu vegabréfi

Það voru nær eingöngu Kínverjar á flugvellinum í Vancouver þegar önnur okkar var stödd þar fyrir skemmstu. Sem er ekkert skrýtið, þetta er í byrjun febrúar og kínverska nýárshátíðin stendur sem hæst. Auk þess búa um 400 þúsund kínverskir innflytjendur í kanadísku borginni. Kínverjar hafa lengi verið áberandi i Vancouver, margir fluttu þangað frá Hong Kong eftir að yfirvöld í Beijing tóku við stjórn bresku nýlendunnar, og á allra síðustu árum hafa innflytjendur frá meginlandi Kína streymt til borgarinnar í tugþúsundatali.

Þennan sama dag má lesa í dagblaðinu South China Morning Post (SCMP), sem gefið er út í Hong Kong, að komið sé í ljós að vegabréfsáformum kanadíska yfirvalda hafi verið kollvarpað af kínverskum milljónamæringum. Svokallaðar fjárfestingaráritanir til Kanada hafa verið eftirsóttar meðal efnafólks í Kína en fjöldi umsókna var orðinn svo mikill að kanadísk yfirvöld ákváðu árið 2012 að frysta verkefnið.

Vancouverskyline

Frá Kína til Kanada

Árið 1984 gerðu Bretar og Kínverjar með sér samkomulag sem fól í sér að yfirráðin yfir Hong Kong myndu færast til Beijing árið 1997. Í kjölfarið ríkti mikil óvissa um framtíðina meðal Hong Kong Kínverja. Margir kusu að flytjast búferlum til annarra landa. Kanada var eitt þeirra ríkja sem stóð þeim opið og yfir 300 þúsund íbúar Hong Kong fluttu þangað á níunda og tíunda áratugnum. Flestir komu sér fyrir í Vancouver og kannski lögðu þeir þar með grunn að kínversku samfélagi í borginni, að minnsta kosti sækjast langflestir Kínverjar sem flytja til Kanada eftir búsetu þar.

Fólksflutningarnir frá Hong Kong náðu hámarki um 1994 en eftir 1998 fór að hægjast um og eftir aldamótin 2000 hefur fjöldi innflytjenda frá Hong Kong til Kanada að meðaltali verið um 500 á ári. En þótt færri Hong Kong búar sækist nú eftir búferlaflutningum til Kanada hafa umsóknir um dvalarleyfi sem berast kanadísku rædismannaskrifstofunni í Hong Kong aldrei verið fleiri. Talið er að 99% umsækjanda séu frá Alþýðulýðveldinu og tugþúsundir auðkýfinga frá meginlandi Kína hafa lagt inn umsóknir um svokallaða fjárfestingarleið (Investor Visa).

Fjárfest í vegabréfi

Kanada og fleiri lönd bjóða þeim sem eiga næga peninga að fjárfesta í landinu og fá í staðinn vegabréf. Um háar fjárhæðir er að ræða og í raun aðeins á færi milljónamæringa að komast yfir nýtt ríkisfang á þennan hátt. Til þess að geta sótt um í kanadíska prógramminu þurfa peningaeignir viðkomandi að vera metnar á að minnsta kosti 1,6 milljónir Kanadadollara (tæpar 170 milljónir íslenskra króna) og lána þarf Kanadastjórn helminginn af þeirri upphæð, eða 800 þúsund dollara, vaxtalaust í fimm ár. Í staðinn fær milljarðamæringurinn dvalarleyfi fyrir sig og fjölskyldu sína og að þremur árum liðnum geta þau síðan sótt um ríkisfang.

Árið 2012 voru 3.643 slíkar fjárfestingaráritanir samþykktar á heimsvísu samkvæmt frétt SCMP. Rannsókn blaðsins leiddi einnig í ljós að umsóknum til sendiskrifstofu Kanada í Hong Kong fjölgaði úr 520 árið 2002 í 34.427 árið 2012. Stjórnvöld í Kanada ákváðu að hækka peningaviðmiðin árið 2010 og í kjölfarið mun eitthvað hafa dregið úr fjölda umsókna. Eftir sem áður voru áhugasamir langtum fleiri en ráðið varð við og brugðust Kanadamenn við með því að gera hlé á afgreiðslu allra slíkra umsókna árið 2012.

CanadaPause1-400x270

Í frétt SCMP segir að 110.813 manns frá meginlandi Kína og 3.305 frá Hong Kong hafi fengið dvalarleyfi í Kanada frá árinu 2010. Flestir sækjast eftir skráningu í British Columbia fylki á austurströndinni og tugþúsundir efnaðra Kínverja hafa keypt sér húsnæði í Vancouver sem er stærsta borg fylkisins. Þetta hefur haft í för með sér mikla hækkun á fasteignaverði í borginni og fram hafa komið áhyggjur af félagslegum og efnahagslegum áhrifum þessara miklu, og fremur einsleitu, fólksflutninga á svæðið. Þá er það ekki síður áhyggjuefni að margir setjast þarna að einungis að nafninu til því margir Kínverjar sem sækjast eftir kanadísku vegabréfi halda áfram að búa og starfa í Kína.

Kanadíska leiðin hefur verið langvinsælasta aðferð kínverskra auðkýfinga til að öðlast erlent ríkisfang. Kínverskar umsóknir til Kanada eru fleiri en til Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu til samans, en þau lönd bjóða einnig upp á slíkar fjárfestingarleiðir.

Strangari reglur

Samkvæmt nýjustu fréttum hafa stjórnvöld í Kanada ekki aðeins gert hlé á afgreiðslu fjárfestingarvegabréfa, heldur hafa nú einnig verið samþykkt ný lög í kanadíska þinginu sem munu hafa mikil áhrif á málaflokkinn í framtíðinni. Nýju lögin gera ráð fyrir að innflytjendur verji meiri tíma í landinu, fylli strax út skattskýrslur og að þeir skrifi undir samning þess efnis að þeir hyggist búa í landinu í framtíðinni ef þeir vilja gerast ríkisborgarar. Einnig verða gerðar meiri kröfur um tungumálakunnáttu og gert er ráð fyrir strangari viðurlögum komist upp um svik við umsóknarferlið. Í SCMP er vitnað í Chris Alexander, ráðherra innflytjendamála, sem segir að stjórnvöld séu einfaldlega að fara fram á að þeir sem sæki um ríkisfang í landinu gefi loforð um að búa í Kanada og haft verði auga með þeim sem leggja inn villandi umsóknir. Lögheimili er skilgreint á nýjan hátt í lögunum og kröfur um að umsækjendur eyði meiri tíma í landinu eru hertar til muna. Tíminn sem dvalið er í Kanada áður en umsóknin er lögð fram telst ekki lengur með. Eða eins og kanadíski ráðherrann orðar það: Eina leiðin til að kynnast þessu landi er að dvelja hér og upplifa það.

harry´sview

Ávísun á betra líf

Líklegt er að auknar kröfur Kanadastjórnar muni fæla marga Kínverja frá því að sækjast eftir kanadískum ríkisborgararétti enda virðist markmið margra ekki endilega að búa í Kanada, heldur að komast yfir kanadískt vegabréf. Erlendur ríkisborgarararéttur opnar dyr að mörgum gáttum sem kínverskir ríkisborgarar hafa ekki aðgang að. Til dæmis veitir kanadískur passi viðkomandi rétt til að setjast að í Hong Kong og í frétt SCMP kemur fram að þar búi nú 295 þúsund Kanadamenn. Margir teljast vafalaust til þeirra sem á sínum tíma yfirgáfu landið vegna yfirtöku Kína en hafa snúið aftur eftir að ljóst varð að Hong Kong myndi áfram njóta sérstöðu. Þeir Kínverjar sem snúa til Alþýðulýðveldisins með kanadískt vegabréf geta hagað lífi sínu öðruvísi en áður, þeir verða reyndar útlendingar í eigin landi þar sem ekki er hægt að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt í Kína, en ef nægir eru peningarnir skiptir það ekki máli. Börnin þeirra eiga kost á að ganga í alþjóðlegan skóla, þeir fá jafnvel aðgang að betri íbúðahverfum og vegabréfinu fylgir aukið frelsi, til dæmis til ferðalaga. Í alþjóðlegum skólum hér í Shanghai eru fjölmörg kínversk börn með erlendan passa. Þau kenna sig þá gjarnan við vegabréfslandið, sem oftast er Kanada eða Bandaríkin, þótt þau hafi kannski aldrei komið þangað né eigi þar ættingja. Önnur ástæða fyrir því að efnafólk frá Kína sækist eftir erlendu ríkisfangi er að það opnar möguleika á fjárfestingum erlendis sem þykja tryggari en heimafyrir þar sem allt er háð alræði kommúnistastjórnarinnar.

OB-XC848_0418CR_G_20130418020456

Kínverjar eru stór hluti af íbúum jarðar og augljóst að þeir munu hafa áhrif víðar en í heimalandinu á næstu árum og áratugum. Það er að mörgu leyti skiljanlegt að fólk hér í Alþýðulýðveldinu vilji komast í burtu og njóta tækifæra sem ekki gefast undir alræðisstjórn. Og þá er gripið til ýmissa ráða. Þannig eru til að mynda fjölmörg dæmi þess að kínverskir foreldrar ferðist til Bandaríkjanna til að eignast barn. Þar er það stjórnarskrárbundinn réttur að allir sem fæðast á bandarísku yfirráðasvæði eigi rétt á bandarísku ríkisfangi. Þetta notfæra margir Kínverjar sér, konurnar fljúga yfir hafið til að fæða og snúa skömmu síðar aftur heim með útlending. Þótt barnið hafi þar með engin réttindi í Kína skiptir það ekki máli því ef peningar eru til staðar má skapa barninu framtíð sem venjulegt kínverskt alþýðubarn á enga möguleika á.

Í SCMP kemur fram að yfir 45 þúsund kínverskir auðkýfingar bíði þess að umsóknir þeirra um að flytja til British Columbia í Kanada verði afgreiddar. Auðæfi þeirra eru gríðarleg og spurning hvort yfirvöld í Kanada hafi efni að hafna þessum nýju ríkisborgurum. Á sama hátt má spyrja hvort Kína hafi efni á að missa slíka fjármuni úr landi en ekki er gott að segja hvort slíkar fréttir séu álitnar neikvæðar eða jákvæðar af kínverskum stjórnvöldum. Í öllu falli er ljóst að í augum meginlandsbúa liggur leiðin til Kanada í gegnum Hong Kong því fáar umsóknir um fjárfestingarleiðina berast til sendiráðs Kanada í Beijing.

Uppfært: Í gær á kanadískum tíma, sama dag og við birtum þessa færslu, lýsti fjármálaráðherra Kanada því yfir að fjárfestingarleiðin verði afnumin. Umsóknum 46 þúsund kínverskra milljónamæringa verður eytt og fá þeir umsóknargjaldið endurgreitt.

1 hugrenning um “Fjárfesting í erlendu vegabréfi

Skildu eftir svar við Þórdís Hætta við svar