Þegar það berst í tal hér í Kína að maður sé frá Íslandi heyrir það til undantekninga ef viðmælandinn þekkir ekki landið. Kínverska þjóðin virðist vel með á nótunum þegar Ísland er til umræðu og margir minnast þá á bankahrunið. Þótt hlutfallslega fáir Kínverjar hafi heimsótt Ísland þá tengja það margir við náttúrufegurð og muna eftir að hafa séð landslagsmyndir í fjölmiðlum. Aðrir muna eftir Íslandi úr landafræðitímum þar sem utanbókarlærdómur vegur þungt í kunnáttu nemenda.
Landafræði
Kínverjar eru góðir í landafræði og hún er líka það fyrsta sem kínverskum viðmælendum okkar dettur í hug þegar við ákváðum að grennslast fyrir um þekkingu þeirra á Íslandi. Við höfðum oft heyrt þá skýringu að landið væri fólki ofarlega í huga vegna nafnsins, en á kínversku heitir það bīng dǎo, en bein þýðing þess er ís-eyja. Það er ekki algengt í kínverskri tungu að lönd beri svo lýsandi nöfn. Algengari eru heiti þar sem fyrsti stafurinn í nafni landins er notaður og orðinu guó, sem þýðir land, síðan skeytt við. Þannig heitir Frakkland á kínversku fà guó og Þýskaland dé guó (Deutschland). Algengt er líka að erlend nöfn landa séu einfaldlega borin fram með kínverskum framburði eins og dān mài (Danmörk) og bō lán (Pólland). Ein kona sem við töluðum við sagði að líklega myndu svona margir vel eftir Íslandi úr landafræðibókunum vegna þess hve auðvelt er að læra nafn Íslands utanbókar: ,,maður getur séð fyrir sér ísinn og snjóinn.” Annar viðmælandi benti á að margir Kínverjar væru með landakort uppi á vegg heima hjá sér og þekktu því vel staðsetningar hinna ýmsu þjóðlanda á heimskortinu.
Fjármálakreppa
Algeng skýring sem viðmælendur okkar gáfu á frægð Íslands í Kína er hversu áberandi umfjöllun um fjármálakreppuna hefur verið í kínverskum fjölmiðlum. Fréttum af bankahruninu á Íslandi árið 2007 var slegið upp af kínverskum fréttastofum eins og í fjölmiðlum víða um heim. Þótt almennt fari lítið fyrir erlendu efni í klukkutímalöngum aðalfréttatíma kínverska ríkissjónvarpsins, eða um 5-10 mínútur daglega að sögn eins viðmælanda okkar, þá fékk hrun íslenska hagkerfisins mikla athygli. Einn viðmælandi okkar mundi vel eftir því að fréttir af fjármálahruninu á Íslandi hefðu birst í fréttum dag eftir dag á sínum tíma.
Fjölmiðlaumfjöllun hér í alþýðulýðveldinu endurspeglar ætíð viðhorf stjórnvalda og mikill áhugi á bankahruninu á Íslandi er varla tilviljun. Augljóslega fylgdust kínversk fjármálayfirvöld vel með framvindunni og í heimsókn íslenska seðlabankastjórans til kollega hans í Beijing árið 2009 var lagður grunnur að gjaldeyrisskiptasamningi við Kína. Skrifað var formlega undir samninginn á Íslandi sumarið 2010. Gagnrýnisraddir heyrðust og þótti sumum óljóst með hvað hætti væri verið að liðka fyrir viðskiptum við kínverska ríkið þar sem enginn veit hvernig Kínverjar munu nýta sér sinn hluta af samingnum. Aðrir töldu að mestu skipti að samningurinn væri traustyfirlýsing frá stórveldinu Kína og myndi efla tiltrú á íslenska hagkerfinu. Í fyrra flutti forseti Íslands ræðu á Bessastöðum þar sem hann þakkaði gestum sínum, sem voru stjórnmálaleiðtogar frá Kína, fyrir að hjálpa Íslendingum að sigrast á fjármálakreppunni en aðrir hafa viðrað áhyggjur þar sem stefnt virðist að frekari gjaldeyrisskiptasamningum milli Ísland og alþýðulýðveldisins.
Heimsóknir þjóðhöfðingja
Heimsóknir forseta Íslands hingað til Kína árin 2005, 2007, 2008 og 2010 voru talsvert til umfjöllunar hér. Kínverskir viðmælendur okkar mundu eftir forseta Íslands úr kínversku sjónvarpi, dagblöðum og netmiðlum og sjálfar munum við eftir að hafa séð fréttir af einni heimsókninni á forsíðu dagblaðins Shanghai Daily.
Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var forsætisráðherra Íslands, komst einnig á forsíðu Shanghai Daily þegar hún heimsótti Kína á síðasta ári. Þeir viðmælendur okkar sem muna eftir Jóhönnu verða dálítið vandræðalegir þegar þeir segja að heimsókn hennar hafi fengið mjög mikla athygli vegna þess að hún sé samkynhneigð. Ein kona bætir feimnislega við; ,,Ísland er mjög opið land” og á þá sennilega við að íslenska þjóðin sé frjálslynd í málefnum samkynhneigðra.
Það verður að segjast eins og er að það er dálítið skrýtin tilfinning að vera Íslendingur hér í þessu risastóra landi og sjá forsíðumynd af íslenskum þjóðhöfðingjum í blaðastandi við kassann í matvörubúðinni, rétt eins og um stórveldaheimsókn væri að ræða. Á móti kemur að hinir ýmsu þjóðarleiðtogar Afríkuríkja, sem líkt og Íslendingar geta varla talist til mestu áhrifavalda í heiminum, birtast líka reglulega á forsíðum kínverskra dagblaða. Hér í Kína myndi maður heyra þá útskýringu að hér sé siður að koma eins fram við allar þjóðir, hvort sem þær eru stjórar eða smáar.
Grímsstaðir
Ekki er hægt að tala um samband Íslands og Kína án þess að minnast á Huang Nubo. Sé tekið mið af viðmælendum okkar hafa fréttir af Grímsstaðamálinu vakið gríðarlega athygli meðal almennings í Kína. Ein kona sagði að hún myndi eftir fjölmörgum fréttum ,,um manninn sem vildi kaupa jörð á Íslandi en var hafnað af íslenskum stjórnvöldum. Hann vildi kaupa landið og gera að ferðamannastað til að draga kínverska ferðamenn til Íslands vegna hreina loftsins og vatnsins og til að sýna þeim náttúru landsins. Hann hafi séð þetta sem góðan framtíðar business því fleiri og fleiri Kínverjar vilji ferðast um heiminn.” Og konan bætir því við að þetta síðasta sé alveg satt. Flestir viðmælendur sem minntust á landakaupin vissu af andstöðu íslenskra stjórnvalda. Enginn var þó viss um endanlega niðurstöðu málsins og flestir töldu að aðeins formsatriði stæðu í vegi fyrir að Huang Nubo eignaðist jörðina. Eða eins og einn viðmælandinn sagði; ,,það býr hvort sem er enginn þarna, er það nokkuð?”
Fríverslun og norðurslóðir
Aðrir atburðir tengdir Íslandi sem fólk mundi eftir úr kínverskum fjölmiðlum voru fríverslunarsamningurinn og norðurslóðir en þó töldu sumir almennan áhuga á því síðarnefnda ekki mikinn. Eins og fram kom í máli eins viðmælanda vekja sögur af landakaupum til að byggja golfvöll á Íslandi miklu meiri áhuga. Allir sögðu að fréttir um Ísland væru ætíð á jákvæðum nótum og nefndi einn sem dæmi að Ísland væri eitt af fyrstu löndum í heiminum til að gera fríverslunarsamning við Kína. Hann taldi að áhersla fjölmiðla væri á vinskap á milli landanna en sagði jafnframt að það sama gilti ekki um allar þjóðir og minnist í því sambandi á neikvæðar fréttir í kínverskum fjölmiðlum um lélega kennara í Bretlandi. Í eitt skipti spurðum við viðmælanda okkar hvort hann gæti rifjað upp fréttir um önnur lönd og tókum Svíþjóð sem dæmi. Eftir stutta umhugsun svaraði hann að í fljótu bragði gæti hann ekki munað eftir neinum fréttum um Svíþjóð.
Til að draga þetta saman virðist sem Kínverjar þekki vel til Íslands vegna þess hve vel þeir eru að sér í landafræði og hafa lært að þekkja lönd heimsins utanbókar. Auðvelt er að læra nafn Íslands og landið er því mörgum í fersku minni. Fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna ára hefur auk þess vakið athygli á landinu vegna fjármálakreppunnar, þjóðhöfðingja, fríverslunarsamningsins og Huang Nubo. Ferðir um norðurslóðir koma eitthvað við sögu og í kínverskum fjölmiðlum er lögð mikil áhersla á mikla vináttu á milli þjóðanna.
Ólíkt spjalli annarra þjóða
Þegar búið er í alþjóðasamfélagi útlendinga í Kína er eðlilegur hluti af daglegu lífi að tala um hvaðan fólk kemur og oft er spjallað um lönd og þjóðir. Þegar Ísland á í hlut eru eldgos og Eyjafjallajökull oft það fyrsta sem fólki dettur í hug. Auðvitað vita líka allir um fjármálakreppuna og ruglið í íslensku bönkunum en flestir kunna ekki við að tala mikið um svo pólitísk mál. Fólk beinir talinu frekar í jákvæðar áttir og Björk, Sigur Rós og Of Monsters And Men eru vinsælt og þægilegt umræðuefni.
Við gerð þessarar óformlegu könnunar á viðhorfum almennings í Kína til Íslands kom það okkur því dálítið á óvart að aðeins einn kínverskur viðmælandi okkar minntist á eldgos þótt gosið í Eyjafjallajökli hafi komst í fréttir hér sem annarsstaðar. Enginn viðmælanda minntist heldur á tónlist, en það þarf þó ekki að koma á óvart þar sem hér er annar menningarheimur. Ólíkt því sem gerist með öðrum þjóðum barst tal Kínverjanna heldur ekki oft að veðráttunni á Íslandi þótt þeir tengi nafn landsins óneitanlega við að þar hljóti að vera ískalt.
Samskiptin við Kína í íslenskum fjölmiðlum
Umfjöllun kínverskra fjölmiðla um samskipti Íslands og Kína mótar almenningsálitið og virðist keimlík þeirri sem margir íslenskir ráðamenn boða og er því miður oft étin upp gagnrýnislaust í íslenskum fjölmiðlum. Að einhverju leyti að má því kannski segja að íslenska þjóðinni sitji undir sama áróðri og sú kínverska. Ekki sér fyrir endann á daðri íslenskra yfirvalda við alræðisstjórnina í Beijing og fyrir nokkrum dögum hafði Xinhua ríkisfréttaveitan það eftir utanríkisráðherra Íslands að óskað sé eftir enn frekara samstarfi milli þjóðanna, meðal annars við vísindarannsóknir á norðurslóðum. Fréttin birtist hér á netsíðu Xinhua þann 5. mars og sagt var frá henni hér á RÚV fimm dögum síðar án þess að til frekari umfjöllunar kæmi.
Við Íslendingar njótum þeirrar gæfu að geta tjáð skoðanir okkar og höfum frjálsan aðgang að upplýsingum á Íslandi. Sama gildir ekki um almenning í alþýðulýðveldinu Kína sem leyfir sér ekki að viðra pólitískar skoðanir og býr við mikla ritskoðun eins og við fjölluðum nýlega um hér. Þrátt fyrir upplýsingafrelsi á Íslandi virðast staðhæfingar og áróður kínverskra yfirvalda renna gagnrýnislaust niður hjá íslenskum ráðamönnum. Skiljanlegt er að fyrirtæki og einstaklingar sjái Kína sem spennandi vettvang sé horft til framtíðar, það skiljum við vel sem hér búum. Það virðist hinsvegar afar óljóst hvert stefnt er í margvíslegri samvinnu milli íslenskra stjórnvalda og flokksherranna í Beijing. Erfitt er að sjá fyrir sér mikið jafnvægi á því sviði og enn síður að litla Ísland mun ráða þar ferðinni.





Mjög flott blogg ! Ég er franskur maður sem bý í Kína og ég er alltaf að vona að ég geti fengið að hittast við Íslendinga hér einhvern daginn (ég bjó í landinu ykkar frá 2007 til 2009). Takk fyrir að gefa mér tækifæri til þess að æfa skilninginn á íslensku, mér finnst gaman að lesa um ævyntirið ykkar í Kína !