Forgangsröð og yfirgefin börn

Kína er land andstæðna, hér ríkir ótrúlegt ríkidæmi en jafnframt skelfileg misskipting. Það er eitthvað bogið við forgangsröðunina, peningar skipta öllu máli á meðan mannúðarsjónarmið verða undir. Lítill skilningur virðist á þörfum þeirra sem eru fatlaðir eða veikir og fátækir foreldrar sem eignast fatlað barn bregða oft á það ráð að yfirgefa barnið og skilja það eftir úti á götu og sömu sögu er að segja ef barnið veikist. Á mörgum stöðum, sérstaklega í sveitum og í minni bæjum, þarf ekki fötlun eða sjúkdóma til því enn eru stúlkubörn skilin eftir á víðavangi.

Misskiptingin hér blasir við okkur á hverjum degi. Eftir að hafa lesið um yfirgefnu börnin í Kína í grein South China Morning Post fór önnur okkar í stutta bæjarferð í gær. Á hálftíma göngu rakst hún á hvern glæsibílinn á fætur öðrum, þar af tvo Porsche sportbíla, sem telst svo sem ekki til tíðinda í Shanghai. Hún kom við í H&M og á undan henni í röðinni við kassann var fín kínversk frú sem var í rándýrri merkjavöru frá toppi til táar, með stóra Louis Vuitton tösku á handleggnum og veski í stíl. Veruleiki þessarar konu er augljóslega allt annar en barnanna í blaðagreininni.

born14

Það að foreldrar yfirgefi börn sín er mikið vandamál hér í Kína. Börnin eru þá gjarnan fötluð, veik eða hreinlega af röngu kyni. Rætur vandans má rekja til margra þátta, til dæmis fátæktar, eins barns stefnunnar og afar lélegs velferðarkerfis. Til þess að bregðast við þessum vanda opnuðu stjórnvöld það sem kalla má móttökustöðvar fyrir yfirgefin börn, sú fyrsta var tekin í notkun árið 2011 en nú eru stöðvarnar orðnar 25 talsins víðsvegar um landið. Á kínversku kallast þessar stöðvar öryggiseyjur, þetta eru lítil hús með hitakassa og rimlarúmi þar sem hægt er að skilja börn eftir og fara án þess að nokkur viti hver þarna var á ferð. Um leið og barnið er yfirgefið er ýtt á bjöllu og fimm til tíu mínútum síðar kemur starfsmaður og sækir barnið og því er svo komið fyrir á stofnun fyrir munaðarlaus börn.

born10

born_3
Móttökustöð fyrir yfirgefin börn í borginni Tianjin.

Ein slík stöð var opnuð í stórborginni Guangzhou í suðurhluta Kína í janúar síðastliðnum. Í mars þurfti að loka henni, að minnsta kosti tímabundið, vegna þess að allt of mörg börn höfðu verið skilin þar eftir og ekki var hægt að sjá um þau öll. Alls hafði verið komið með 262 börn á þessum tveimur mánuðum, eða að meðaltali um fimm börn á dag. Þau voru öll fötluð eða veik, sum voru með Down´s heilkenni, önnur með annars konar þroskahömlun, einhver með hjartagalla og svo framvegis. Til þess að bregðast við þessum fjölda þurfti heimilið sem tekur við munaðarlausum börnum í borginni að fjölga plássum upp í 1.100 en það dugði ekki til.

born8
Foreldrar koma með barnið sitt í eina af móttökustöðvunum.

born6
Grátandi foreldrar yfirgefa barnið sitt.

Sögurnar í South China Morning Post eru sorglegar. Maður með litla frænku sína á stöðinni í Guangzhou segir að hún sé með hvítblæði og að foreldrarnir hafi ekki efni á að borga lækniskostnað. Hann segir að þau séu í bíl þarna skammt frá og hafi ekki treyst sér til að kveðja sína eigin dóttur. Þegar hann gengur í burtu byrjar barnið að gráta.

Annar maður kemur á stöðina með fjögurra ára son sinn. Öryggisvörður stöðvar hann til að segja honum að drengurinn sé orðinn of gamall til að hægt sé að taka við honum. Enginn vill taka við barninu mínu, segir þá maðurinn, læknar sögðu að hann væri með ólæknandi sjúkdóm.

born9

Um 10.000 börn eru yfirgefin árlega hér í Kína, langflest þeirra eru fötluð eða veik. Móttökustöðvarnar hafa verið umdeildar því sumir vilja meina að þær hvetji foreldra til að yfirgefa börn sín, en það er ólöglegt hér. Stjórnvöld hafa svarað því til að stöðvarnar geri meira gagn en ógagn og til stendur að fjölga þeim enn frekar. Það má kannski spyrja hvort þetta sé rétta leiðin til að leysa vandann og hvort ekki væri betra að koma upp öflugra velferðarkerfi í því efnahagslega stórveldi sem Kína er.

Ísland í augum almennings í Kína

Þegar það berst í tal hér í Kína að maður sé frá Íslandi heyrir það til undantekninga ef viðmælandinn þekkir ekki landið. Kínverska þjóðin virðist vel með á nótunum þegar Ísland er til umræðu og margir minnast þá á bankahrunið. Þótt hlutfallslega fáir Kínverjar hafi heimsótt Ísland þá tengja það margir við náttúrufegurð og muna eftir að hafa séð landslagsmyndir í fjölmiðlum. Aðrir muna eftir Íslandi úr landafræðitímum þar sem utanbókarlærdómur vegur þungt í kunnáttu nemenda.

world-map-chinese

Landafræði

Kínverjar eru góðir í landafræði og hún er líka það fyrsta sem kínverskum viðmælendum okkar dettur í hug þegar við ákváðum að grennslast fyrir um þekkingu þeirra á Íslandi. Við höfðum oft heyrt þá skýringu að landið væri fólki ofarlega í huga vegna nafnsins, en á kínversku heitir það bīng dǎo, en bein þýðing þess er ís-eyja. Það er ekki algengt í kínverskri tungu að lönd beri svo lýsandi nöfn. Algengari eru heiti þar sem fyrsti stafurinn í nafni landins er notaður og orðinu guó, sem þýðir land, síðan skeytt við. Þannig heitir Frakkland á kínversku fà guó og Þýskaland dé guó (Deutschland). Algengt er líka að erlend nöfn landa séu einfaldlega borin fram með kínverskum framburði eins og dān mài (Danmörk) og bō lán (Pólland). Ein kona sem við töluðum við sagði að líklega myndu svona margir vel eftir Íslandi úr landafræðibókunum vegna þess hve auðvelt er að læra nafn Íslands utanbókar: ,,maður getur séð fyrir sér ísinn og snjóinn.” Annar viðmælandi benti á að margir Kínverjar væru með landakort uppi á vegg heima hjá sér og þekktu því vel staðsetningar hinna ýmsu þjóðlanda á heimskortinu.

China in Arctic :  Iceland flag on Tiananmen square during visit of  Johanna Sigurdardottir

Fjármálakreppa

Algeng skýring sem viðmælendur okkar gáfu á frægð Íslands í Kína er hversu áberandi umfjöllun um fjármálakreppuna hefur verið í kínverskum fjölmiðlum. Fréttum af bankahruninu á Íslandi árið 2007 var slegið upp af kínverskum fréttastofum eins og í fjölmiðlum víða um heim. Þótt almennt fari lítið fyrir erlendu efni í klukkutímalöngum aðalfréttatíma kínverska ríkissjónvarpsins, eða um 5-10 mínútur daglega að sögn eins viðmælanda okkar, þá fékk hrun íslenska hagkerfisins mikla athygli. Einn viðmælandi okkar mundi vel eftir því að fréttir af fjármálahruninu á Íslandi hefðu birst í fréttum dag eftir dag á sínum tíma.

Fjölmiðlaumfjöllun hér í alþýðulýðveldinu endurspeglar ætíð viðhorf stjórnvalda og mikill áhugi á bankahruninu á Íslandi er varla tilviljun. Augljóslega fylgdust kínversk fjármálayfirvöld vel með framvindunni og í heimsókn íslenska seðlabankastjórans til kollega hans í Beijing árið 2009 var lagður grunnur að gjaldeyrisskiptasamningi við Kína. Skrifað var formlega undir samninginn á Íslandi sumarið 2010. Gagnrýnisraddir heyrðust og þótti sumum óljóst með hvað hætti væri verið að liðka fyrir viðskiptum við kínverska ríkið þar sem enginn veit hvernig Kínverjar munu nýta sér sinn hluta af samingnum. Aðrir töldu að mestu skipti að samningurinn væri traustyfirlýsing frá stórveldinu Kína og myndi efla tiltrú á íslenska hagkerfinu. Í fyrra flutti forseti Íslands ræðu á Bessastöðum þar sem hann þakkaði gestum sínum, sem voru stjórnmálaleiðtogar frá Kína, fyrir að hjálpa Íslendingum að sigrast á fjármálakreppunni en aðrir hafa viðrað áhyggjur þar sem stefnt virðist að frekari gjaldeyrisskiptasamningum milli Ísland og alþýðulýðveldisins.

Heimsóknir þjóðhöfðingja

Heimsóknir forseta Íslands hingað til Kína árin 2005, 2007, 2008 og 2010 voru talsvert til umfjöllunar hér. Kínverskir viðmælendur okkar mundu eftir forseta Íslands úr kínversku sjónvarpi, dagblöðum og netmiðlum og sjálfar munum við eftir að hafa séð fréttir af einni heimsókninni á forsíðu dagblaðins Shanghai Daily.

Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var forsætisráðherra Íslands, komst einnig á forsíðu Shanghai Daily þegar hún heimsótti Kína á síðasta ári. Þeir viðmælendur okkar sem muna eftir Jóhönnu verða dálítið vandræðalegir þegar þeir segja að heimsókn hennar hafi fengið mjög mikla athygli vegna þess að hún sé samkynhneigð. Ein kona bætir feimnislega við; ,,Ísland er mjög opið land” og á þá sennilega við að íslenska þjóðin sé frjálslynd í málefnum samkynhneigðra.

johannabeijing

Það verður að segjast eins og er að það er dálítið skrýtin tilfinning að vera Íslendingur hér í þessu risastóra landi og sjá forsíðumynd af íslenskum þjóðhöfðingjum í blaðastandi við kassann í matvörubúðinni, rétt eins og um stórveldaheimsókn væri að ræða. Á móti kemur að hinir ýmsu þjóðarleiðtogar Afríkuríkja, sem líkt og Íslendingar geta varla talist til mestu áhrifavalda í heiminum, birtast líka reglulega á forsíðum kínverskra dagblaða. Hér í Kína myndi maður heyra þá útskýringu að hér sé siður að koma eins fram við allar þjóðir, hvort sem þær eru stjórar eða smáar.

Grímsstaðir

Ekki er hægt að tala um samband Íslands og Kína án þess að minnast á Huang Nubo. Sé tekið mið af viðmælendum okkar hafa fréttir af Grímsstaðamálinu vakið gríðarlega athygli meðal almennings í Kína. Ein kona sagði að hún myndi eftir fjölmörgum fréttum ,,um manninn sem vildi kaupa jörð á Íslandi en var hafnað af íslenskum stjórnvöldum. Hann vildi kaupa landið og gera að ferðamannastað til að draga kínverska ferðamenn til Íslands vegna hreina loftsins og vatnsins og til að sýna þeim náttúru landsins. Hann hafi séð þetta sem góðan framtíðar business því fleiri og fleiri Kínverjar vilji ferðast um heiminn.” Og konan bætir því við að þetta síðasta sé alveg satt. Flestir viðmælendur sem minntust á landakaupin vissu af andstöðu íslenskra stjórnvalda. Enginn var þó viss um endanlega niðurstöðu málsins og flestir töldu að aðeins formsatriði stæðu í vegi fyrir að Huang Nubo eignaðist jörðina. Eða eins og einn viðmælandinn sagði; ,,það býr hvort sem er enginn þarna, er það nokkuð?”

Fríverslun og norðurslóðir

Aðrir atburðir tengdir Íslandi sem fólk mundi eftir úr kínverskum fjölmiðlum voru fríverslunarsamningurinn og norðurslóðir en þó töldu sumir almennan áhuga á því síðarnefnda ekki mikinn. Eins og fram kom í máli eins viðmælanda vekja sögur af landakaupum til að byggja golfvöll á Íslandi miklu meiri áhuga. Allir sögðu að fréttir um Ísland væru ætíð á jákvæðum nótum og nefndi einn sem dæmi að Ísland væri eitt af fyrstu löndum í heiminum til að gera fríverslunarsamning við Kína. Hann taldi að áhersla fjölmiðla væri á vinskap á milli landanna en sagði jafnframt að það sama gilti ekki um allar þjóðir og minnist í því sambandi á neikvæðar fréttir í kínverskum fjölmiðlum um lélega kennara í Bretlandi. Í eitt skipti spurðum við viðmælanda okkar hvort hann gæti rifjað upp fréttir um önnur lönd og tókum Svíþjóð sem dæmi. Eftir stutta umhugsun svaraði hann að í fljótu bragði gæti hann ekki munað eftir neinum fréttum um Svíþjóð.

Til að draga þetta saman virðist sem Kínverjar þekki vel til Íslands vegna þess hve vel þeir eru að sér í landafræði og hafa lært að þekkja lönd heimsins utanbókar. Auðvelt er að læra nafn Íslands og landið er því mörgum í fersku minni. Fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna ára hefur auk þess vakið athygli á landinu vegna fjármálakreppunnar, þjóðhöfðingja, fríverslunarsamningsins og Huang Nubo. Ferðir um norðurslóðir koma eitthvað við sögu og í kínverskum fjölmiðlum er lögð mikil áhersla á mikla vináttu á milli þjóðanna.

orgxi

Ólíkt spjalli annarra þjóða

Þegar búið er í alþjóðasamfélagi útlendinga í Kína er eðlilegur hluti af daglegu lífi að tala um hvaðan fólk kemur og oft er spjallað um lönd og þjóðir. Þegar Ísland á í hlut eru eldgos og  Eyjafjallajökull oft það fyrsta sem fólki dettur í hug. Auðvitað vita líka allir um fjármálakreppuna og ruglið í íslensku bönkunum en flestir kunna ekki við að tala mikið um svo pólitísk mál. Fólk beinir talinu frekar í jákvæðar áttir og Björk, Sigur Rós og Of Monsters And Men eru vinsælt og þægilegt umræðuefni.

Við gerð þessarar óformlegu könnunar á viðhorfum almennings í Kína til Íslands kom það okkur því dálítið á óvart að aðeins einn kínverskur viðmælandi okkar minntist á eldgos þótt gosið í Eyjafjallajökli hafi komst í fréttir hér sem annarsstaðar. Enginn viðmælanda minntist heldur á tónlist, en það þarf þó ekki að koma á óvart þar sem hér er annar menningarheimur. Ólíkt því sem gerist með öðrum þjóðum barst tal Kínverjanna heldur ekki oft að veðráttunni á Íslandi þótt þeir tengi nafn landsins óneitanlega við að þar hljóti að vera ískalt.

Samskiptin við Kína í íslenskum fjölmiðlum

Umfjöllun kínverskra fjölmiðla um samskipti Íslands og Kína mótar almenningsálitið og virðist keimlík þeirri sem margir íslenskir ráðamenn boða og er því miður oft étin upp gagnrýnislaust í íslenskum fjölmiðlum. Að einhverju leyti að má því kannski segja að íslenska þjóðinni sitji undir sama áróðri og sú kínverska. Ekki sér fyrir endann á daðri íslenskra yfirvalda við alræðisstjórnina í Beijing og fyrir nokkrum dögum hafði Xinhua ríkisfréttaveitan það eftir utanríkisráðherra Íslands að óskað sé eftir enn frekara samstarfi milli þjóðanna, meðal annars við vísindarannsóknir á norðurslóðum. Fréttin birtist hér á netsíðu Xinhua þann 5. mars og sagt var frá henni hér á RÚV fimm dögum síðar án þess að til frekari umfjöllunar kæmi.

Við Íslendingar njótum þeirrar gæfu að geta tjáð skoðanir okkar og höfum frjálsan aðgang að upplýsingum á Íslandi. Sama gildir ekki um almenning í alþýðulýðveldinu Kína sem leyfir sér ekki að viðra pólitískar skoðanir og býr við mikla ritskoðun eins og við fjölluðum nýlega um hér. Þrátt fyrir upplýsingafrelsi á Íslandi virðast staðhæfingar og áróður kínverskra yfirvalda renna gagnrýnislaust niður hjá íslenskum ráðamönnum. Skiljanlegt er að fyrirtæki og einstaklingar sjái Kína sem spennandi vettvang sé horft til framtíðar, það skiljum við vel sem hér búum. Það virðist hinsvegar afar óljóst hvert stefnt er í margvíslegri samvinnu milli íslenskra stjórnvalda og flokksherranna í Beijing. Erfitt er að sjá fyrir sér mikið jafnvægi á því sviði og enn síður að litla Ísland mun ráða þar ferðinni.

Stórveldi í ritskoðun

Sjónvarpsstöðin CNN í Asíu sýnir mánaðarlega áhugaverða þáttaröð, sem kallast On China, þar sem eitt ákveðið mál sem hefur verið ofarlega á baugi er skoðað ofan í kjölinn. Þátturinn í febrúar fjallaði um blaðamennsku í Kína. Þetta hentaði okkur vel þar sem við höfðum í hyggju að skrifa um ritskoðun hér á blogginu. Önnur okkar ákvað að horfa á þáttinn á sunnudagskvöldi og settist fyrir framan sjónvarpið rétt áður en hann átti að hefjast. Á skjánum voru auglýsingar en svo varð allt svart og útsendingin var rofin. Efnið var greinilega of viðkvæmt til þess að hægt væri að leyfa þeim sem hér búa að horfa á þáttinn. Óneitanlega kaldhæðið en svona er lífið í Kína, í draumalandi margra ráðamanna á Íslandi í dag. Þetta gerði umfjöllun á blogginu enn meira viðeigandi og þar sem CNN fjallaði einnig um efni þáttarins á sinni heimasíðu, gátum við leitað heimilda þar.

Stjórnvöld stýra fréttaflutningi

Fjölmiðlun er ekki frjáls hér í Kína og er landið eitt af verst stöddu ríkjum í heiminum hvað frelsi fjölmiðla varðar eða í 175. sæti af 180 þjóðum á lista sem samtökin Blaðamenn án landamæra gefa út.

carte2014_-press-freedom-index

Í okkar huga hefur ástandið farið versnandi á undanförnum árum og einn af gestum On China, Charles Hutzler yfirmaður skrifstofu The Wall Street Journal í Beijing sem er með yfir tuttugu ára reynslu af blaðamennsku hér, er greinilega sömu skoðunar og sagði ritskoðun hafa verið herta til muna á undanförnum árum. Hann benti á að ástandið væri sérlega slæmt á landsbyggðinni og í minni borgum þar sem myndavélar eru jafnvel teknar og eyðilagðar ef stjórnvöld á staðnum vilja koma í veg fyrir að fjallað sé um ákveðin mál. Aðrir gestir þáttarins, Peter Ford forseti félags erlendra blaðamann í Kína og Ying Chan prófessor í fjölmiðlafræði við Hong Kong háskóla, tóku undir þetta og fram kom að það er ákaflega erfitt að afla upplýsinga um það sem er að gerast í landinu hvort sem um er að ræða mál tengd stjórnvöldum eða aðra fréttanæma atburði.

Stjórnvöld nota ýmsar aðferðir við að beita fjölmiðla og fréttamenn þrýstingi. Í fyrra refsuðu stjórnvöld fréttastofum The New York Times og Bloomberg fyrir að fjalla um persónuleg fjármál æðstu manna í kommúnistaflokknum. Refsingin fólst í að loka vefsíðum þeirra í Kína og draga fram á síðustu stundu að endurnýja dvalarleyfi fréttamanna án nokkurra skýringa. Enn bíða þrír starfsmenn New York Times eftir dvalarleyfi.

Önnur aðferð sem stjórnvöld nota er að veita fréttamönnum eftirför og gera þannig þrýstinginn sýnilegan og stundum eru þeir jafnvel heimsóttir og þeim hótað beint. Hutzler sagðist kannast við hvoru tveggja en segir þó fyrst og fremst innlenda blaðamenn lenda í slíku og að þeir eigi á hættu að vera reknir úr starfi eða jafnvel fangelsaðir ef þeir fara út fyrir þann ramma sem stjórnvöld setja fréttamiðlum, sem oft er ansi þröngur. Í þættinum kom einnig fram að fréttamenn hafi oft miklar áhyggjur af öryggi innlendra heimildamanna sinna því hvorki þeir né kínverskir blaðamenn geta flúið land, líkt og erlendir fréttamenn geta, ef nauðsyn krefur.

Tvö nýleg dæmi um ritskoðun

Fréttamönnum frá BBC og CNN var beinlínis ýtt burt með valdi þegar þeir þóttu koma of nálægt inngangi dómhússins þar sem verið var að dæma í máli Xu Zhiyong, lögfræðings og aðgerðasinna sem barist hefur gegn spilingu í Kína. Fyrir þá sem áhuga hafa á að fræðast meira um hans mál þá fjallaði RÚV um það á dögunum. Hér má sjá myndband af því þegar fréttamaður BBC var að reyna að flytja fréttir af málinu en fékk engan frið fyrir óeinkennisklæddum lögreglumönnum.

Annað skýrt dæmi um ritskoðun yfirvalda birtist eftir hnífaárásina þann 1. mars á lestarstöðinni í Kunming í Yunnan héraði þar sem 29 manns létu lífið og yfir 130 særðust. Þá sendu stjórnvöld frá sér tilkynningu til fjölmiðla þar sem þeim var sagt að ef fjalla eigi um árásina eigi að styðjast við opinbera útgáfu Xinhua fréttastofunnar af atburðunum. Ekki megi nota stórar fyrirsagnir eða birta ljótar myndir. Fjölmiðlar voru svo beðnir að staðfesta mótttöku tilkynningarinnar. Samtökin Blaðamenn án landamæra hafa fordæmt þessa ritskoðun.

Netið, Weibo og WeChat

Tækniþróun undanfarinna áratuga gerir ritskoðun snúnari en áður, því erfitt er að ráða við internetið. Hér er það þó reynt eftir fremsta megni og fjölmargar síður eru bannaðar, til dæmis Facebook og Twitter svo ekki sé minnst á síður sem fjalla um viðkvæm málefni. Við höfum komið inn á þessi mál áður í færslunni Ósýnilegi Kínamúrinn.

Ritskodun1Vefmiðillinn Weibo hefur verið einn helsti vettvangur þjóðfélagslegrar umræðu og gagnrýni hér í Kína um nokkurt skeið. Honum má kannski helst líkja við Twitter, fólk setur þar fram sínar skoðanir og getur póstað myndum. Snjallsímaeign er orðin algeng og aðgangur almennings að netinu hefur því gjörbreyst á stuttum tíma. Weibo er opinn fyrir óskráða notendur að hluta til og fréttamenn hafa oft komist á snoðir um fréttir í gegnum miðilinn.

Rétt eins og með aðra ritskoðun þá hafa yfirvöld hert til muna eftirlit með Weibo á undanförnum árum og það hefur það fælt marga frá. Sumir segja að þar hafi vendipunkturinn verið sú mikla ritskoðun sem yfirvöld viðhöfðu þegar tvær nýjar háhraðalestir rákust á rétt við borgina Wenzhou (ekki langt frá Shanghai) árið 2011 með þeim afleiðingum að fjórir vagnar féllu af sporinu og 40 manns létust og að minnsta kosti 192 slösuðust. Viðbrögð stjórnvalda eftir slysið voru með ólíkindum, allt var gert til að fela sannleikann og þagga niður í gagnrýnisröddum og jafnvel gengið svo langt að reynt var að grafa vagnana í jörðu. Gagnrýnisfærslur um atburðinn á Weibo hurfu jafnhratt og þær birtust. Þessi mikla ritskoðun hefur síðan loðað við Weibo og orðið til þess að æ fleiri hafa snúið sér að WeChat sem er annars konar miðill, líkari Facebook að því leyti að færslur eru ekki opnar á netinu heldur aðgengilegar vinum. Í On China kom fram að sjálfstæðir fjölmiðlar í Kína hafa verið að koma sér fyrir á WeChat sem er þó einnig ritskoðað.

Það er mikil mótsögn fólgin í að á meðan að kínversk stjórnvöld og fyrirtæki hafa haslað sér völl á alþjóðavísu er upplýsingaflæði á heimavígstöðvunum í algjöru lágmarki. Þegar fyrirtæki eru skráð á markaði fylgir því ákveðin upplýsingaskylda og það hafa fréttamenn nýtt sér í óþökk kínverskra yfirvalda, sér í lagi þegar fjallað er um persónuleg fjármál háttsettra einstaklinga. Spurningin er hversu lengi stjórnvöld geta komist upp með ritskoðun af því tagi sem viðhöfð er hér í Kína, hvort sem er innávið eða gagnvart alþjóðasamfélaginu.

Í ritskoðuðu samfélagi verða þegnarnir færir í að lesa á milli línanna og einnig úr því sem ekki er sagt en þá er auðvitað hættan á oftúlkun og misskilningi til staðar. Traust á fjölmiðlum hverfur. Nien Cheng lýsir þessu ástandi ágætlega í bók sinni Life and death in Shanghai, bók sem er alveg þess virði að lesa. Ritskoðun er hluti af menningarheimi Kínverja og þó sumir kunni við henni ýmis ráð þá eru áhrifin á kínverska þjóð augljós hverjum þeim sem hér dvelur til lengri tíma.

Annað sem vert er að hafa í huga er hættan á sjálfsritskoðun, fólk spyr sig hverju það er tilbúið að fórna fyrir sannleikann. Þetta á við um alla sem hér búa eða eiga einhverra hagsmuna að gæta. Sem betur fer eru alltaf einhverjir hugsjónamenn sem þora að taka áhættuna og segja það sem þeim býr í brjósti.

Framtíðarhönnun til sýnis

Margir hönnuðir binda vonir við að koma hugmyndum sínum á framfæri í Kína. Tækifærin virðast óendanleg á þessum nýja, risavaxna markaði og kaupgetu kínversku þjóðarinnar, eða að minnsta kosti hluta hennar, virðist engin takmörk sett. Á hinn bóginn getur verið vandasamt að finna verðugan vettvang til að kynna hönnun fyrir áhugasömum Kínverjum. Síðustliðin ár hafa verið gerðar tilraunir til að skapa slíkan vettvang hér í Shanghai, nú síðast með hönnunarsýningunni Design Shanghai sem fram fór 27. febrúar til 2. mars. Við ákváðum að kíkja á sýninguna og upplifa stemninguna.

Screen Shot 2014-03-04 at 4.36.39 PM

Þetta er í fyrsta skipti sem sýningin er haldin undir þessu nafni en tilraunir með árlegar 100% Design Shanghai sýningar frá árinu 2008 eru þó augljós undanfari hennar. 100% Design er hugmynd sem lifir góðu lífi í London og Tokyo en náði sér ekki á strik í Shanghai. Fyrirtækið sem er bakhjarl 100% sýninganna, Media 10, kemur eftir sem áður að verkefninu og að þessu sinni var kínverskur sýningarstjóri fenginn til að stjórna verkefninu. Sá heitir Gu Zhihua og hefur náð góðum árangri við uppbyggingu alþjóðlegu myndlistarmessunnar Shanghai Art Fair. Meira var lagt í hönnunarsýninguna í ár og fjölmargir erlendir framleiðendur mættu til leiks í fyrsta sinn, þar á meðal heimsþekkt vörumerki á borð við Fritz Hansen, HAY, Cappellini og Vitra. Auk hinnar hefðbundnu vörusýningar var boðið upp á fyrirlestraröð þar sem fram komu innlendir og erlendir arkitektar, listamenn og hönnuðir. Þar á meðal var að finna fræg nöfn á borð við Michael Young og Ilse Crawford, Shanghai arkitektana Neri&Hu og hina íslensku Kristjönu S. Williams. Allt fór þetta fram í boði bílaframleiðandans Jaguar Land Rover.

Heimsókn á sýninguna

Design Shanghai sýningin er kynnt sem spennandi alþjóðlegur vettvangur sem leiðir saman arkitekta, hönnuði og framleiðendur frá öllum heimshornum. Í kynningarefninu er einnig talin ástæða til að bæta því við þessa upptalningu að til leiks mæti þeir kínversku auðmenn sem áhuga hafi á hönnun.

IMG_4448

Umgjörð sýningarinnar er íburðarmikil enda er hún haldin í glæsilegri sýningarhöll sem byggð er í klassískum rússneskum stíl. Byggingin er frá árinu 1955 og hét upphaflega Sino-Soviet Friendship Building og var á sínum tíma gjöf frá kommúnistastjórninni í Moskvu. Nafninu var breytt í Shanghai Exibition Center árið 1984.

Í forsal sýningarinnar minna glæsibifreiðar frá Jaguar og Land Rover á aðalstyrktaraðila sýningarinnar og með fagurskreyttum bar frá einum frægasta kampavínsframleiðanda Frakklands er tilfinningunni um lúxusveröldina gefið enn frekar undir fótinn.

IMG_4417

Þegar komið er inn á sýninguna virðist okkur þó lítið fara fyrir kínverskum auðmönnum í samanburði við allan þann fjölda kínverskra ungmenna sem streymir um svæðið og tekur myndir af öllu sem fyrir augu ber. Og þrátt fyrir gestafjöldann virtist lítið um hefðbundin samtöl og samingaviðræður í sýningarbásunum.

IMG_4470

IMG_4439

Mörg fyrirtæki veðja á Shanghai til að hefja sölu á vörum sínum í Kína. Að sama skapi er borgin af mörgum talin vænlegur framtíðarvettvangur fyrir hverskyns hönnun. Helstu fatahönnuðir heims hafa á undanförnum árum keppst við að setja hér upp verslanir og heimsfrægir húsgagnaframleiðendur feta nú margir í fótspor þeirra.

Sýningin Design Shanghai er augljóslega liður í að kynna erlendar hönnunarvörur fyrir kínverskum neytendum. Fyrirlestarröðin sem fram fór samfara sýningunni og fjallaði um framtíð hönnunar kann að miðla faglegri þekkingu en sölumennskan var þó allsráðandi. Þema sýningarinnar var West meets East en þeir sem mættu þangað til að kynna sér það nýjasta í kínverskri hönnun hafa örugglega margir orðið fyrir vonbrigðum því þátttakendur frá Kína voru fáir.

IMG_4466

Þátttakendur frá Kína

Nútímahönnun er að feta sín fyrstu fótspor í Kína og sama gildir um flesta kínverska hönnuði frá alþýðulýðveldinu. Þeir reyna margir hverjir að skapa sér sérstöðu í alþjóðlegu umhverfi og áberandi eru hlutir sem hafa tilvísun í fortíð lands og þjóðar, ekki ósvipað og hefur verið áberandi á meðal ungra íslenskra hönnuða á undanförnum árum. Á meðan sauðkindin og náttúran eru algeng viðfangsefni á Íslandi sækja ungir hönnuðir hér í Kína fyrirmyndir sínar í kínverskar hefðir og menningu. Kínversk nútímahönnun ber til dæmis oft keim af húsgögnum frá tímum Ming ættarveldisins og hugmyndaheimurinn snýst gjarnan um að sameina gamla og nýja tíma.

pusu

PuSu Lifestyle er vörumerki kínverska hönnuðarins Cheng Yanfei. Í kynningu fyrirtækisins segir að það leggi áherslu á að skapa jafnvægi milli hefðbundinnar og nútímalegrar hönnunar.

shanliang_exhib

Shanliang heitir fyrirtæki Shan Huabiao and Liang Guanbo en með hönnun sinni leitast þeir við að sameina kínverskan menningararf og nútíma lífshætti.

danfulyang

Pearl Lam Design er hönnunargallerí í Shanghai og Hong Kong sem styður við erlenda og kínverska hönnuði. Galleríið hvetur hönnuðina til að sprengja af sér hefðbundin gildi kínverskrar menningar og nota nýja tækni og efnivið til að skapa verk sem endurspegli reynslu þeirra í Kína nútímans.

SONY DSC

Zishaoze er fyrirtæki kínverska hönnuðarins Song Tao sem trúir því að tilgangur með hönnun sé að bræða saman hefðbundin form og nútímamenningu.

neri&hu

Neri&Hu. Við fjölluðum um eigendur fyrirtækisins, arkitektahjónin Lyndon Neri og Rossana Hu hér. Þau komu að sýningunni á margvíslegan hátt enda hafa þau verið ötul við að efla umræðu um hönnun í Kína þau tíu ár sem þau hafa starfað í Shanghai.

IMG_4425

Það er fullkomlega eðlilegt að sölutækifærin í Kína freisti þeirra sem leita nýrra markaða fyrir vörur sínar. Það rímar líka ágætlega við Shanghai, sem er miðstöð fjármála og viðskipta í landinu, að hér verði í framtíðinni helsti vettvangur í Kína til að versla með hönnunarvörur. Hitt er svo annað mál að verslun með hönnun hefur sáralítið með framtíðarsýn í hönnun að gera. Það er mikilvægara, jafnt fyrir Kína og heiminn í heild sinni, að tengja hugtakið hönnun við annað og meira en aukna neyslu. Þannig gæti hönnun orðið afl sem knýr fram breytingar. Hönnun má ekki bara snúast um flottheit og nýjar vörur heldur liggja verðmætin í hugmyndum sem geta breytt lífi okkar í átt að sjálfbærari framtíð. Tækni, vísindi og hönnun geta skipt sköpum um hvernig umhverfi maðurinn mun skapa sér í framtíðinni. Framtíð sem þegar er hafin í Kína, en með því að notast við aðferðir fortíðar blasa hér nú þegar við hrikaleg umhverfis- og mengunarvandamál sem kaupstefna, þar sem lúxusbílar og rándýrar hönnunarvörur eru í forgrunni, getur engu um breytt.

IMG_4457

Að hella upp á kínverskt te

Tedrykkja er hluti af menningu Kínverja og hefur verið um langan aldur, en í gegnum tíðina hefur te verið drukkið af mismunandi hópum í ólíkum tilgangi og svo er enn í dag. Te er drukkið ánægjunnar vegna, til að efla fjölskyldu- og vinatengsl, til að sýna ríkidæmi og völd, í virðingarskyni, til heilsubótar og jafnvel til innhverfrar íhugunar. Flestir drekka þó te einfaldlega af því að það er hluti af þeirra menningarheimi.

teakrar3

Tedrykkja hófst í Kína endur fyrir löngu en enginn veit hvernig það gerðist. Eins og gjarnan í Kína eru þó ýmsar þjóðsögur til um upphaf tedrykkju. Margar tengjast þessar sögur keisaranum Shennong, sem á að hafa verið uppi fyrir um 5.000 árum. Samkvæmt þjóðtrúnni er Shennong bæði faðir landbúnaðarins og hefðbundinna kínverskra læknavísinda. Eitt sinn eftir langa göngu á hann að hafa lagst undir tré til að hvíla sig. Þar sem hann var þyrstur kveikti hann undir potti til að sjóða sér vatn. Fyrir tilviljun féllu lauf af nærliggjandi runna ofan í pottinn. Shennong drakk vatnið og þótti það bæði sætt og gott og ákaflega frískandi. Sagan segir að síðan hafi telaufin verið nýtt í Kína, ýmist við trúarathafnir, til lækninga eða þau hreinlega borðuð eins og grænmeti. Te varð vinsæll drykkur á tímum Tang ættarveldisins á árunum 618  til 907 og má segja að vinsældir þess hafi haldist síðan.

Flokkun og vinnsla
Allt te er unnið úr laufum camellia sinensis runnans. Af honum eru til nokkrar undirtegundir og ótal afbrigði, sem ásamt ræktunarstað og umhverfi, týnslu og vinnslu segja til um gæði endanlegrar afurðar.Fyrsta skrefið í vinnslu tes er að týna blöðin og það er ýmist gert með höndunum eða með vélum. Mismunandi blöð eru notuð við gerð ólíkra tetegunda. Bestu blöðin eru efst á runnanum og því fíngerðari og yngri sem þau eru því betri teljast þau. Úr neðri blöðunum er unnið grófara te og þau þá oft möluð í grisjute.

IMG_0099

Te er hægt að flokka á mismunandi hátt en algengast er að flokkað sé eftir vinnsluaðferðum. Rétt er að geta þess að þó að orðið gerjun (ferment) komi fyrir í þessari flokkun þá eru það einungis tein í post-fermented flokknum sem raunverulega gerjast, ferlið í hinum flokkunum er réttara að kalla oxun.

Te sem ekki er látið oxast (non fermented)
Undir þennan flokk fellur grænt te, hvítt te og gult te (sjaldgæft). Laufin eru týnd, þurrkuð og þeim pakkað. Þurrkunin getur verið mismunandi, til dæmis bökun eða hitun á wok pönnu, og mismunandi aðferðir gefa ólíkt bragð. Grænt te er vinsælasta teið í Kína og er til dæmis ræktað í Hangzhou þaðan sem hið fræga Longjing te er ættað.

Svart te – oxað te (fermented)
Í þessum flokki er svart te sem raunar kallast rautt te í Kína, enda er drykkurinn rauður á litinn. Laufin eru geymd í hita og raka í nokkrar klukkustundir og við það verða þau svört. Þau eru svo þurrkuð á mismunandi hátt sem hefur áhrif á bragðið. Langmest af því tei sem drukkið er í hinum vestræna heimi er svart te.

Oolong te – hálfoxað te (semi fermented)
Oolong te á rætur að rekja til Fujian héraðs en eru nú ræktuð víðar í suðurhluta Kína og í Taiwan. Vinnsluaðferðin er sú sama og þegar svart te er unnið en oxunartíminn er styttri og honum er stjórnað nákvæmlega til að fá rétta oxun og þar með rétt útlit og bragð.

Pu’er te – gerjað te (post fermented)
Pu’er te eru ræktað í Yunnan héraði og eftir vinnslu er það pressuð í ákveðan lögun, oft hringlaga kökur, og látið geymast í köldum kjöllurum, stundum í mörg ár. Bragðið verður mildara og flóknara með árunum en pu’er te geymist mjög lengi. Líkt og vín verður það verðmætara með aldrinum.

Bragðbætt og breytt te
Sumum gerðum af tei er breytt í vinnsluferlinu eða í lok vinnsluferilsins til þess að ná fram ákveðnu útliti eða bragði. Bragði er ýmist breytt með náttúrulegum efnum eða gerviefnum. Jasmínute er gott dæmi um þetta því stundum eru jasmínublómin lögð ofan á telaufin í vinnslunni til þess að fá rétta bragðið en stundum er notast við gervibragðefni. Líklega falla flest te í þennan flokk og gæðin eru afar mismunandi.

Hér má sjá skemmtilega framsetningu á því hvernig kínverskt te er framleitt.

Stundum eru drykkir kallaðir te þó alls ekki sé um te að ræða og það getur til dæmis átt við um sum svokölluð ávaxtate. Ef telauf eru ekki notuð við framleiðsluna þá flokkast drykkurinn ekki sem te.

Hellt upp á te af mikilli leikni
Te er mjög misjafn að gæðum. Best er að búa til te með því að nota telaufin beint út í vatn en laufin eru einnig ólík að gæðum og verðlögð eftir því. Hér í Kína er hægt að kaupa þau í mismunandi gæðaflokkum. Gæði vatnsins skiptir líka miklu máli en þar eru Íslendingar vel settir.

Gongfu cha á kínversku þýðir hellt upp á te af mikilli leikni. Með þessari aðferð fæst besta bragðið og bestu mögulegu áhrif. Hér þarf að hafa ákveðin tæki og tól við hendina. Fyrst þarf teketil (gott ef hægt er að stjórna hitanum), tekönnu með loki (teapot), aðra tekönnu án loks til að hella í glösin (kallast chahai á kínversku), tesigti, kínverska bambusskeið eða venjulega teskeið, tangir til að meðhöndla bollana, tebolla (litla) og undirlag sem má sulla á eins og tebakka eða teborð.

IMG_0073

Áður en byrjað er að hella upp á þarf að vita hversu mikið magn af tei og vatni á að nota. Einnig þarf að vita hversu heitt vatnið á að vera og hversu langan tíma hver uppáhelling á að standa. Þetta er allt mismunandi eftir tegundum af tei. Ef vatnið er ekki nógu heitt næst ekki fram góða sæta bragðið sem á vera af svörtu tei en of heitt vatn getur eyðilagt viðkvæmt grænt te og svo framvegis. Songfang tehúsið hér í Shanghai er með góðar upplýsingar um allt þetta í töflu á sinni heimasíðu. Athugið að sama þyngd af mismunandi tei getur verið mismargar matskeiðar þar sem telaufin eru misjafnlega stór.

Svona á að hella upp á te samkvæmt gongfu aðferðinni:

1. Forhitun og hreinsun
Sjóddu vatn í tekatlinum. Helltu sjóðandi vatni í tekönnuna (gott að hella aðeins útfyrir á könnuna), lokaðu henni og helltu á lokið líka og hinkraðu í smá stund. Helltu svo úr tekönnunni í gegnum sigtið í hina könnuna og úr henni í bollana. Leyfðu vatninu að vera í bollunum. Þetta er gert til þess að hreinsa og hita. Mikil hitabreyting eftir að telaufin eru komin í könnuna geta haft áhrif á bragð og þessi forhitun kemur í veg fyrir það.

2. Telauf hreinsuð og vakin
Settu rétt magn (sjá töflu) af telaufum með skeið í tekönnuna, settu þau í hrúgu. Helltu nú vatni í réttu hitastigi (sjá töflu) yfir laufin og láttu flæða yfir þangað til að loftbólurnar hverfa (líka hægt að skafa þær af með lokinu). Ekki hella beint í miðjuna heldur nær brúnunum. Nú þarf að hafa snögg handtök, setja lokið á tekönnuna og hella vatninu í gegnum sigtið í hina könnuna til að hita hana aftur. Þegar hellt er upp á pu’er te þá má vatnið bíða örlítið lengur áður en því er hellt af því það te þarf að hreinsa betur og jafnvel tvisvar. Þegar búið er að hella vatninu í hina könnuna er lokinu tyllt á svo að gufan komist út og sjóði ekki telaufin.

3. Fyrsta uppáhelling
Helltu nú aftur vatni í réttu hitastigi í tekönnuna. Alltaf skal hella í hringi nálægt börmunum. Fylltu könnuna, settu lokið á og leyfðu teinu að standa í þann tíma sem tilgreindur er miðað við það te sem þú ert að nota (sjá töflu, gott að telja eða nota klukku). Á meðan beðið er tilvalið að nota töngina til að tæma vatnið úr tebollunum og hella úr hinni könnunni. Helltu svo teinu úr tekönnunni í hina könnuna og úr henni í bollana. Þessi aukakanna er ekki nauðsynleg en auðveldar hlutina fyrir byrjendur auk þess sem teið verður jafnara. Ef hún er ekki notuð má hella teinu í smá skömmtum í tebollana til skiptis svo það jafnist út. Sterkasta teið er neðst. Drekka skal te meðan það er heitt og í Kína er það drukkið án mjólkur og sykurs.

4. Fleiri uppáhellingar
Helltu aftur upp á teið líkt og í fyrstu uppáhellingu, bætið lítillega við tímann í hvert skipti (sjá töflu). Það fer eftir því hvaða te er verið að nota hversu margar uppáhellingar það þolir (sjá töflu).

5. Frágangur
Fjarlægðu laufin, hreinsaðu og þurrkaðu tekönnuna og önnur áhöld. Ef ekki er búið að nýta telaufin að fullu má geyma þau í tekönnunni (án vatns) í allt að tólf tíma. Athugaðu að fyrsta uppáhelling eftir slíka geymslu gæti tekið skemmri tíma en vanalega.

Hér að neðan er upptaka af því hvernig ung kona í einum af aðal temörkuðum Shanghai hellir upp á te. Þegar myndskeiðið hefst er búið að forhita og hreinsa. Háu tebollarnir eru til notaðir til að lykta af teinu.

Eins og við sögðum frá í upphafi drekkur fólk te hér í Kína af mismunandi ástæðum og tilefni, og tedrykkja er mjög sýnileg. Temenning hefur ekki verið sterk á Íslandi en tedrykkja til heilsubótar virðist vera að aukast. Á næstunni munum við fjalla sérstaklega um tengsl tedrykkju og heilsu hér á blogginu.

Kínversk hönnun

Við vitum öll um það gríðarlega magn af vörum sem framleitt er í Kína og þeir sem fylgjast með þróun mála vita líka að í landinu á sér stað geysihröð uppbygging með tilheyrandi mannvirkjagerð. Kína er einnig frægt fyrir eftirlíkingar, ekki bara á ýmsum varningi, heldur eru jafnvel heilu borgarhverfin byggð upp að erlendri fyrirmynd. Og þegar fjallað er um kínverska menntakerfið heyrast ætíð raddir sem gagnrýna áhugaleysið sem þar ríkir um kennslu í skapandi greinum. Því er ekki fjarri lagi að spyrja hvort til sé eitthvað sem heitir kínversk hönnun.

nerihu3The Waterhouse, hótel í Shanghai hannað af Neri&Hu.

Á allra síðustu árum hafa nokkrir athyglisverðir kínverskir hönnuðir og arkitektar vakið eftirtekt bæði heima og erlendis. Það er kannski ekki síst kínversk fatahönnun sem nýtur vaxandi hylli og fyrir tveimur árum hlaut í fyrsta sinn í sögunni arkitekt frá alþýðulýðveldinu hin alþjóðlegu Pritzker byggingarlistarverðlaun. Umfjöllun á ensku um kínverska hönnun hefur aukist svo aðgengilegra er að átta sig á umhverfinu fyrir útlendinga. Erlendir hönnuðir sem starfa í Kína, erlend fyrirtæki og Kínverjar sem eru fæddir og hafa alist upp utan alþýðulýðveldisins eru enn miklir áhrifavaldar í þessu umhverfi. Heimamönnum sem leggja fyrir sig hönnun fjölgar þó hratt.

Við ætlum hér, og í fleiri pistlum á næstunni, að fjalla um hönnun í Kína og byrjum á að fjalla um nokkur nöfn og vörumerki sem gjarnan ber á góma í því samhengi.

MaryChing

Mary Ching

Margir tengja framleiðslu í Kína við ódýrar vörur og ekki að ástæðulausu. Nú eru aftur á móti að koma fram á sjónarsviðið hönnuðir sem leggja mikið upp úr gæðum og góðu handverki og vilja samt tengja nafn sitt við Kína. Einn þeirra er skóhönnuðurinn Alison Yeung en hönnun hennar er oft nefnd í tengslum við kínverskar lúxusvörur. Yeung er hálfkínversk, alin upp á flakki um heiminn en foreldrar hennar unnu fyrir utanríkisþjónustuna í Hong Kong. Yeung lærði fatahönnun í London og fyrir fjórum árum setti hún sína fyrstu skólínu á markað í Shanghai undir merkinu Mary Ching. Yeung segir að hugmyndaheimur hennar sé 100% kínverskur og að hún hafi sett sér það markmið að breyta hughrifunum sem merkimiðinn “Made in China” vekur í hugum fólks.feiyueFeiyue

Ekki er öll kínversk hönnun ný af nálinni eins og sannast á Feiyue strigaskónum sem eiga rætur að rekja aftur til ársins 1920. Það var hinsvegar franskur athafnamaður að nafni Patrice Bastian sem eygði tækifærin sem strigaskórnir gætu skapað í nútímanum enda falla þeir óneitanlega vel að retrotískunni sem hefur verið vinsæl á Vesturlöndum. Árið 2006 var Feiyue merkið kynnt til sögunnar á ný og segja má að skórnir hafi staðið undir nafni, en feiyue má þýða sem ,,flogið fram á við”. Nú fást þessir frönsk-kínversku strigaskór um alla Asíu og búið er að setja upp verslun í París. Feiyue vefverslunin sendir auk þess vörur sínar um allan heim.

nerihuMercato, veitingastaður í Shanghai hannaður af Neri&Hu.

Neri&Hu

Arkitektarnir og hjónin Lyndon Neri og Rossana Hu eru bæði af kínverskum uppruna en fædd og uppalin í Bandaríkjum. Með menntun og reynslu frá Ameríku í farteskinu komu þau  til Shanghai árið 2004 og settu á fót hönnunarfyrirtækið Neri&Hu. Fyrirtækið er áberandi þegar fjallað er um hönnun í Shanghai, til dæmis eru margir af vinsælustu veitingastöðum borgarinnar hannaðir af Neri&Hu. Neri og Hu stofnuðu einnig verslunina Design Republic sem selur bæði innfluttar og kínverskar hönnunarvörur, þar á meðal þeirra eigin húsgagnalínu. Vegur Neri&Hu hefur vaxið hratt og hönnunarfyrirtækið kemur nú að verkefnum víða um heim. Athygli alþjóðlegu pressunnar beinist æ meir að þeim hjónum og þau hafa unnið til fjölmargra alþjóðlegra verðlauna.

ningbomuseumNingbo Museum, hannað af Wang Shu.

Wang Shu

Wang Shu er fæddur árið 1963 og uppalinn í Xinjiang héraði í vesturhluta Kína og höfuðborginni Beijing. Sem námsmaður fluttist hann suður á bóginn og lærði arkitektúr í Nanjing og seinna í Shanghai. Eftir námið flutti hann til Hangzhou og stofnaði þar teiknistofuna Amateur Architecture Studio ásamt Lu Wenyu konu sinni sem einnig er arkitekt. Hjónin gegna líka bæði mikilvægum stöðum við arkitektadeild Chinese Academy of Arts í sömu borg. Sem kínverskur arkitekt leitast Wang Shu við að nýta hefðbundinn efnivið og gamlar kínverskar bygginarhefðir á nýjan hátt. Ningbo Museum er sú bygging eftir Wang sem hefur fengið mesta umfjöllun til þessa, en safnið er byggt úr múrbrotum sem safnað var saman við niðurrif eldri húsa. Með slíkum hugmyndum þykir Wang hafa tekist að skapa algjörlega nýjan og nútímalegan kínverskan arkitektúr og hefur það án vafa haft mikið um það að segja að Wang hlaut hin virtu alþjóðlegu Pritzker verðlaun árið 2012.

ningbo2

smartwoodFatastandur og kollur frá Smartwood.

Smartwood

Zhao Lei heitir ungur hönnuður í Hangzhou. Hann er ágætt dæmi um þá fjölmörgu frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref í kínverskri húsgagna- og vöruhönnun. Fyrirtækið hans heitir Smartwood og eins og nafnið gefur til kynna einbeitir hönnuðurinn sér að viðarvörum. Zhou segir í viðtali að hann noti eingöngu innfluttan við frá Ameríku og Þýskalandi en með því móti geti hann haft vissu fyrir því að tréð komi úr sjálfbærum skógi. Í sömu umfjöllun segir Zhao Lei að fatastandar fyrirtækisins séu hans helsta stolt en þá hafi hann hannað þar sem fáir kínverskir hönnuðir sýni slíkri hönnun áhuga. Zhao finnst áhugaverðast að hanna hluti með notagildi og leggur áherslu á að auðvelt sé að taka hlutina í sundur og setja í flatar pakkingar. Hægt er að nálgast vörurnar frá Smartwood hér í gegnum netverslun fyrirtækisins á Taobao.

Að læra um friðsamlega frelsun Tíbets

Það er afskaplega áhugavert, en oft og tíðum erfitt, að búa í menningarheimi sem er gerólíkur þeim sem maður hefur alist upp í. Útlendingar í Shanghai búa að vissu leyti í sinni eigin veröld, einhvers konar sér samfélagi við hlið þess kínverska. Og þá skiptir ekki máli hvaðan manneskjan kemur, hún er útlendingur eða wai guo ren. Útlendingasamfélagið er þó auðvitað ekki einangrað og reglulega dettur aðkomumaðurinn inn í kínverskan heim. Þá gerast oft skrýtnir hlutir. Allir eru mótaðir af sinni menningu og Íslendingar sjá hlutina með sínum íslensku augum. Hér verður því lýst þegar íslensk kona settist á skólabekk með öðrum útlendingum til að læra um kínverska sögu og menningu hjá kínverskum kennara, sem að sjálfsögðu er einnig barn síns samfélags. Úr varð furðuleg blanda.

Þegar konan frá Íslandi var nýflutt til Shanghai ákvað hún að fara á námskeið um menningu og sögu Kína. Það var haldið í skóla sem býður útlendingum upp á alls konar fræðslu, ekki ósvipað og námsflokkarnir gerðu á Íslandi. Námskeiðið kostaði um 70.000 íslenskar krónur, kennt var einu sinni í viku í tíu vikur, þrjá tíma í senn. Konan hafði lesið sér til um skólann og vissi að kennarinn var vel menntaður með mikla kennslureynslu úr kínverskum menntaskólum. Það var því með mikilli tilhlökkun sem konan frá Íslandi mætti fyrsta kvöldið, hún var spennt að fræðast um sín nýju heimkynni og hún vonaði að þetta yrði einnig góður vettvangur til að kynnast nýju fólki sem væri í sömu sporum og hún, vinafá í framandi landi.

Konan var fimm mínútum of sein í fyrsta tímann og kennslan var hafin þegar hún kom. Kennarinn, hnellin og brosmild kínversk kona á besta aldri, lét eins og hún sæi ekki þennan nýja nemanda þegar hann læddist skömmustulegur inn. Í kennslustofunni sátu fyrir sjö konur og einn karl, fólk á ýmsum aldri, öll vestræn í útliti. Kennarinn var að fara yfir dagskrá námskeiðsins, hún var greinilega óörugg og enskan hennar ekki góð. Hún þuldi dagskrána upp eins og hún væri að lesa upp úr símaskránni. Sú íslenska varð hissa á að ekki hefði verið byrjað á léttum nótum, þar sem nemendur hefðu til dæmis kynnt sig og sinn bakgrunn.

Að loknum lestri dagskrárinnar dembdi kennarinn því út úr sér, stundarhátt, að á námskeiðinu yrði boðið upp á umræður um t-in þrjú, og átti þá við Tíbet, Taiwan og Tiananmen eða Torg hins himneska friðar, þar sem það ætti við. Hún tilkynnti líka að það yrði ekki víst að nemendum myndi líka hennar skoðanir. Svo klikkti hún út með því að segja að útlendingar vildu alltaf ræða þessi mál. Hún reyndist heppin með þennan hóp því flestir voru nýkomnir til Kína, kurteisir gestir sem greinilega treystu sér ekki í miklar rökræður. Einungis tvær konur í hópnum höfðu ensku að móðurmáli, enska hinna var misgóð. Það var helst að eini Bandaríkjamaðurinn maldaði í móinn þegar kennarinn skellti fram skrýtnum staðhæfingum en andrúmslofið bauð aldrei upp á gefandi umræður. Flestir horfðu bara niður þegar við átti og stundum heyrðist stöku fliss.

Konan frá Íslandi varð miður sín þarna á þessum fyrstu mínútunum þegar hún áttaði sig á því að hún var búin að borga 70.000 krónur fyrir námskeið sem mundi á engan hátt standast væntingar. Þegar leið á fyrsta tímann rann þó upp fyrir henni að hún mundi sennilega læra heilmikið um menningu og sögu Kína, bara á allt annan hátt en hún hafði búist við. Hún ákvað að halda sig til hlés, skrifa niður allt sem fram fór og gera sína eigin litlu rannsókn.

Dagskrá námskeiðsins var metnaðarfull og í fyrsta tímanum var gefin eins konar yfirlitsmynd af Kína þar sem farið var í landafræði landsins, fjallað um íbúa þess og sögu. Vandlega var farið yfir helstu keisaradæmin, allir keisarar og ártöl þulin upp. Íslenska konan tók eftir því að kennarinn horfði aldrei á einstaka nemendur, heldur yfir hópinn og oftast einblíndi hún á skjávarpatjaldið. Hún leit oft á klukkuna. Þetta breytist ekkert þann tíma sem sú íslenska sat í tímum.

Þegar kom að Tíbet varpaði kennarinn þeirri spurningu yfir hópinn hvort að Tíbet væri hluti af Kína en greinilegt var að hún ætlaðist ekki til að nemendur svöruðu. Í þeim töluðum orðum dreifði hún hefti til nemenda, fjórum þéttskrifuðum A4 blöðum með litlu letri og línubili. Fyrirsögnin var “History of Tibet” og undir henni stóð “For 700 years part of China.” Svo settist hún í kennarastólinn án þess að segja nokkuð. Flestir byrjuðu að lesa, það var greinilega það sem ætlast var til þó að engin fyrirmæli hefðu verið gefin. Íslenska konan gat það ekki, henni misbauð svo þó ekki væri nema bara fyrir kennsluaðferðina. Hún sat á fremsta bekk, ýtti blaðinu til hliðar og reyndi að ná augnsambandi við kennarann. Það tókst ekki. Þá fór sú íslenska að lesa tölvupóst í símanum sínum. Sumir virtust lesa, öðrum leið greinilega ekki vel. Eftir um tíu mínútur stóð kennarinn upp og sýndi nemendum myndrænt hvernig Tíbet er eins og egg hænunnar Kína á korti. Hún var augsýnilega stolt af Tíbet og reigði sig eins og montinn hani þegar hún lýsti hæstu fjöllum í heimi, Himalajafjöllunum.

Tíbet1

Heftið sem nemendur áttu að lesa lýsir því hvernig Tíbet hefur verið hluti af Kína síðan 1279 í gegnum Yuan, Ming og Qing ættarveldin og raunar óslitið allt fram til dagsins í dag. Hvergi er minnst á sjálfstæði Tíbet og orðið sjálfstæði kemur ekki fyrir. Ekkert er heldur fjallað um útlegð Dalai Lama. Kennarinn fór yfir þessa sögu í fljótheitum. Hún sagðist aldrei hafa komið til Tíbet en að landið væri hernaðarlega mikilvægt því erfitt væri að komast að Kína þeim megin frá. Þar væru einnig upptök mikilvægra áa. Hún sagði jafnframt að frelsun Tíbet hefði verið friðsamlegt stríð þar sem einungis nokkur hundruð dóu. Einn nemandinn spurði hvort ekki væri rétt að gefa fólkinu í Tíbet kost á því að kjósa um það hvort landið ætti að tilheyra Kína eða ekki. Kennarinn taldi kosningar ekkert leysa. Þessari umfjöllun um Tíbet lauk með því að kennarinn lýsti því hvernig dvöl svona hátt uppi, eins og Tíbet liggur, er erfið fyrir hjartað og að þess vegna ráðleggi læknar konum sem þangað vilja fara að vera búnar að eiga sín börn.

Eftir fræðsluna um friðsamlega freslun Tíbets fengu nemendur fimm mínútna pásu. Svo var haldið áfram þar sem frá var horfið. Konan frá Íslandi hélt áfram að fylgjast með og skrifa niður það sem fram fór en eftir því sem leið á tímana þrjá og upptalningin endalausa á staðreyndum hélt áfram var þolinmæðin næstum þrotin. Hún var farin að iða í sætinu sínu og gat ekki beðið eftir að komast út í heitt og rakt haustkvöldið.

Hér má sjá minnismerki sem Kínverjar reistu um friðsamlega frelsun Tíbets í Lhasa:

Tíbet3

Heftið sem kennarinn dreifði er stytt útgáfa af þessum texta.

PISA og Shanghai

Niðurstöður PISA könnunarinnar, sem lögð var fyrir 15 ára nemendur í 65 löndum/borgum árið 2012 og birtar voru í desember síðastliðnum, hafa verið mikið í fréttum víðs vegar um heiminn. Það var okkar heimaborg, Shanghai, sem stóð sig best allra í PISA 2012, rétt eins og í könnuninni 2009. Nemendur í Shanghai voru efstir allra þátttökuþjóða/borga í öllum þremur þáttunum sem mældir voru; í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði. En í huga okkar sem höfum búið hér í nokkur ár og kynnst samfélaginu eru kínverskir skólar ekki eftirsóknarverðir og ekki heldur skólarnir í Shanghai sem stóðu sig þó með eindæmum vel í PISA.

Ekki er allt sem sýnist?

Í umfjöllun um niðurstöður PISA, bæði núna og síðast, vill það brenna við að talað sé um Kína í stað Shanghai, sem er auðvitað alrangt. Landið Kína tók ekki þátt í PISA heldur borgin Shanghai. Það er óneitanlega sérstakt að OECD leyfi borgum að vera þátttakendur í könnuninni og Tom Loveless, hjá Brown Center on Education Policy og fyrrum prófessor við Harvard háskóla, gagnrýnir þessi vinnubrögð. Hann segir að Shanghai sé ein ríkasta borgin í Kína og alls ekki dæmigerð fyrir landið í heild sinni. Um það bil 1,7 prósent af áætluðum íbúafjölda Kína býr í Shanghai, eða um 23 milljónir. Heildarframleiðsla (GDP) Shanghai  á mann er meiri en tvöföld þjóðarframleiðsla Kína á mann og um það bil 84% af nemendum í Shanghai sem lýkur grunnnámi fer í framhaldsnám, samanborið við 24% á landsvísu.

Annað sem vert er að hafa í huga í sambandi við niðurstöður Shanghai er að um 40% íbúa hafa flutt til borgarinnar frá öðrum héruðum og hafa því ekki svokallað hukou í Shanghai sem þýðir að þetta fólk á ekki rétt á sömu samfélagslegu þjónustu og innfæddir Shanghaibúar. Hluti þessa fólks eru farandverkamenn og fjölskyldur þeirra sem eiga oft erfitt með að koma börnunum sínum í skóla í borginni þrátt fyrir einhverjar úrbætur í þeim efnum af hálfu yfirvalda á allra síðustu árum. Nýleg könnun sýnir að rúmlega helmingur barna farandverkamanna í borginni býr ekki með foreldrum sínum af þessum sökum. Börnin verða eftir í sínu héraði oft í umsjá ömmu og afa og ganga í skóla þar. Þau börn sem búa með foreldrunum í Shanghai og hafa stundað þar skóla, oft í sérstökum skólum fyrir innflytjendur sem eru alls ekki sambærilegir við aðra skóla borgarinnar, þurfa samt sem áður að fara í sitt gamla hérað til þess að stunda nám í framhaldsskóla. Þetta eru jafnvel börn sem hafa fæðst og alist upp í Shanghai þar sem hukou erfist frá foreldrum. Það er því líklegt að stór hluti af 15 ára nemendum sem ekki eiga sitt hukou í Shanghai sé ekki í skóla í borginni þó að foreldrarnir búi þar. Þessi börn eru því útilokuð frá PISA.

PisaShanghai2

Tom Loveless fjallar skilmerkilega um þetta í þremur greinum, PISA’s China ProblemAttention OECD-PISA: Your Silence on China is Wrong og PISA’s China Problem Continues: A Response to Schleicher, Zhang, and Tucker. Í kjölfarið hafa mörg blöð fjallað um málið og meðal þeirra New York Times Sinophere í greininni Shanghai test scores and the mystery of the missing children.

Hvað veldur þessum góða árangri í PISA?

Eftir stendur að þeir nemendur sem tóku PISA hér í Shanghai stóðu sig ákaflega vel og skara fram úr jafnöldrum sínum í hinum þátttökulöndunum/borgunum í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði. Á því eru margar skýringar.

Hér snýst allt um að komast inn í góðan háskóla og allt virðist lagt í sölurnar til þess að því markmiði sé náð. Samkeppnin í menntakerfinu er geysihörð og byrjar í raun áður en skólagangan hefst. Við höfum rætt við kínverskar mæður ungra barna sem eru að byrja í skóla hér í Shanghai. Þær eru áhyggjufullar yfir því hvað barnið þurfi að kunna fyrir sér í stærðfræði, lestri og skrift áður en skólaganga hefst. Foreldrarnir hafa markvisst kennt börnum sínum heima með von um að þau komist að í þeim skólum sem taldir eru betri. Metnaðarfullir foreldrar reyna hvað þeir geta til að koma börnum sínum í bestu skólana. Ein móðir sagði okkur að sonur hennar færi trúlega í sinn hverfisskóla en það væri mikilvægt að hann kynni töluvert fyrir sér áður en skólagangan hæfist því í  byrjun skólaársins yrðu börnin prófuð í stærðfræði, lestri og skrift og þau sem stæðu sig best færu í bestu tvo bekkina sem meðal annars fengju bestu kennarana.

Eftir að skólagangan byrjar er mikið lagt upp úr náminu, heimanám er mjög mikið og frítími lítill. Mikil áhersla er á próf. Mörg börn fara beint í aðra skóla, svokallaða Cram skóla, eftir að venjulegum skóladegi er lokið og þeir skólar kenna sérstaklega fyrir próf. Önnur börn fara í einkakennslu. Lítil áhersla virðist vera á sköpunargleði eða gagnrýna hugsun. Eins og áður segir virðast foreldrar leggja allt í sölurnar til þess að börnin komist í sem besta háskóla enda eiga einkabörnin samkvæmt kínverskri menningu að sjá fyrir foreldrunum í ellinni. Þegar í háskóla er komið verður líf ungmennanna auðveldara, þá má slaka á og njóta lífsins. Þetta er að því er virðist alveg öfugt við það sem gengur og gerist í hinum vestræna heimi, þar sem áherslan er á að börn séu börn og svo taki alvaran við þegar lengra dregur í náminu.

PisaShanghai3

Jiang Xueqin er aðstoðarskólastjóri í Tsinghua High School í Beijing, en sá skóli þykir mjög góður. Hann hefur ákveðnar skoðanir á skólakerfinu í Kína og segir á vefsíðu CNN að þessi góði árangur Shanghai í PISA kosti miklar fórnir. Hann tekur svo djúpt í árinni að segja að sú gríðarlega samkeppni sem ríki í skólum landsins valdi ekki einungis óhamingju nemenda  heldur leiði beinlínis af sér svindl, mútur og ósanngjarnt og óréttlátt skólakerfi. Jiang segir að vissulega sé margt jákvætt, vel skipulagðir og metnaðarfullir kennarar og viljinn til að gera vel sé oft það sem sameini skólasamfélagið. Þrautseigja nemenda í Kína geri það að verkum að fátækir nemendur standa sig betur en búast mætti við. Yfirvöld í Shanghai standi sig vel í að koma á markvissum tengslum á milli skóla sem standa sig vel og þeirra sem eiga undir högg að sækja, auk þess sem skólastjórum sem tekst að koma illa settum skólum á réttan kjöl sé umbunað með skjótum starfsframa. Kennarar eru vel launaðir á Shanghaimælikvarða og tilheyra millistéttinni í borginni. En Jiang segir að kennarar geti keyrt um á rándýrum bílum ef nemendum þeirra gengur nógu vel á prófum, því þeir fái bónusa fyrir góða frammistöðu. Aðalpeningurinn komi samt frá foreldrum og því að starfa við fyrrnefnda Cram skólana sem nemendur sækja að skóladegi loknum.

PISA3

Fasteignaverð í Shanghai er mjög hátt, sérstaklega í miðborginni þar sem bestu skólarnir eru. Foreldrar sem vilja koma börnum sínum í þá skóla vilja því búa þar. Jiang segir að ef það gangi ekki upp reyni margir að múta skólastjórnendum eða yfirvöldum til þess að koma börnum sínum að. Skólastjórnandinn Jiang segir að þetta hafi valdið sér vandræðum, hann hafi til dæmis lent í því að kona sem hann fór á stefnumót með bauð honum 200.000 yuan (4 milljónir íslenskra króna) fyrir að koma systur sinni inn í skólann hjá honum. Jiang segir ennfremur frá því að þar sem bekkir séu oft fjölmennir gefi foreldrar kennurum gjafir og bjóði þeim í mat í þeirri von að barnið þeirra fái meiri athygli. Mikil áhersla á próf í Kína hafi einnig leitt til ákveðinnar svindlmenningar og þegar yfirvöld ætluðu að stoppa svindl í skólakerfinu í fyrra varð uppi fótur og fit. Foreldrar urðu reiðir yfir því að verið væri að ráðast að þeirra barni þegar allir aðrir væru hvort sem er að svindla.

Markmiðið með þessu öllu, segir Jiang, er að börnin komist í sem besta háskóla. Mjög erfið inntökupróf eru í háskólana og allt gengur út á að undirbúa nemendur fyrir þau. Það að komast inn í góðan háskóla er Kínverjum mjög mikilvægt og mikil virðing fylgir þeirri upphefð, sem eflir svo sjálfsmynd viðkomandi. Jiang klykkir út með því að segja að langir skóladagar í Shanghai, Cram skólar og mikil heimavinna hafi ekkert með það að gera að hjálpa nemendum að læra, þetta snúist miklu frekar um að þóknast stressuðum, kröfuhörðum og allt of kappsömum foreldrum. Margir foreldrar í Kína séu þó að átta sig á þessu og þeir setji börnin sín gjarnan í alþjóðlega skóla í borginni (þá þarf barnið að vera með erlent vegabréf) eða flytji hreinlega af landi brott.

Þessar grein Jiang kemur vel heim og saman við þá mynd sem við vorum búnar að gera okkur af kínversku skólakerfi með því að tala við fólk hér. Skólakerfi sem margir í hinum vestræna heimi líta nú til með öfundaraugum eftir PISA kannanirnar 2009 og 2012.

Skrautlegur sjónvarpsáróður

Kínversku nýárshátíðinni lýkur í dag. Hátíðin, sem Kínverjar kenna við vorið, stendur yfir í fimmtán daga ár hvert. Fimmtándi dagurinn er haldinn hátíðlegur, ekki ósvipað og þegar jólin eru kvödd á þrettándanum. Dagurinn er kenndur við ljósker enda er þá til siðs að kveikja á pappírsluktum og ganga með þær um götur. Ljóskerin eru send upp í himingeiminn og gömul trú segir að þau vísi villuráfandi öndum leiðina heim.

ljosker

Við ætlum aftur á móti að nota tilefnið til að senda út á netið nokkur eftirminnileg myndbrot úr kínversku sjónvarpi.

Fyrst er að nefna atriði sem hlotið hefur mikla athygli og er úr hátíðarskemmtiþætti kínverska sjónvarpins 30. janúar. Þátturinn er sendur út um allt Kína og er þar með sá sjónvarpsþáttur heimsins sem mest áhorf hefur. Yfir 700 milljónir manna fylgdust með þessari fjögurra klukkustunda löngu dagskrá á meðan beðið var eftir að ár hestsins gengi í garð á miðnætti. Og í jafnlangan tíma sneri ung kínversk dansmær sér á sjónvarpssviðinu sem tákn um líðandi stund og árstíðaskiptin. Stúlkan heitir Wei Caiqi og er frænka hinnar víðfrægu dansmeyjar Fang Liping sem er hálfgerð goðsögn hér í Kína og þekkt fyrir geysifagra og óvenjulega dansa. Snúningsdans hinnar fimmtán ára gömlu frænku hennar vakti mikla athygli og ekki voru allir jafn hrifnir. Var jafnvel talað um grimmd í kínverskum netheimum. Sjálf líkti Wei gjörningnum við hugleiðslu í athugasemd á eigin samskiptasíðu.

Sjónvarpsgalað er mikil áróðurs- og skrautsýning og skemmtiatriðin af ýmsum toga; dans, grínatriði, leikur og söngur. Þátturinn hefur verið sendur út á þessum tímamótum frá árinu 1983 en í ár var í fyrsta sinn í sögunni aðili utan ríkissjónvarpsins ráðinn til að stýra þættinum. Fyrir valinu varð þekktur gamanmyndaleikstjóri að nafni Feng Xiaogang. Reynt var að höfða meira til ungu kynslóðarinnar og aðkoma kóresku poppstjörnunnar Lee Min-ho var augljóslega liður í því. Flutningur frönsku leikkonunnar Sophie Marceau og kínverska listamannsins Liu Huan á franska slagaranum La vie en rose ljáði þættinum einnig alþjóðlegra yfirbragð. Það kom því nokkuð á óvart þegar dansflokkur frá kínverska þjóðarballettinum fyllti sviðið og dansaði byltingarkenndan kommúnistaballett í búningum rauðu varðliðanna. Í viðtali í kínverska sjónvarpinu sagði sýningarstjóri ballettflokksins að hún væri mjög ánægð að dansararnir hefðu fengið þetta tækifæri til að koma fram og að ákveðið hefði verið að helga atriðið fortíðinni og hylla um leið klassíkina.

Skömmu síðar var komið að baráttusöngvum með þjóðlegu hernaðarívafi.

Allt verður að pólitískum áróðri hér í Kína og yfirvöld í Peking hafa nú gengið svo langt að gera áramótaþáttinn að svokölluðu þjóðarverkefni en opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking árið 2008 var einmitt skilgreind á sama hátt. Þetta þykir sýna hversu mikilvægur þátturinn er í augum stjórnvalda.

Á vefsíðu NTD sjónvarpsstöðvarinnar í New York sver Feng, leikstjórinn vinsæli sem var valinn til að stýra þættinum í ár, þess eið að hann muni aldrei aftur taka að sér slíkt verkefni. Hann segir að eftir að hann tók við stjórn þáttarins hafi samstarfsmenn hans verið farnir að halda að hann væri ekki heill á geði. Á sama stað segir að Feng hafi viljað ögra yfirvöldum með því að bjóða rokkaranum Cui Jian, sem sumir kalla föður kínverska rokksins, að koma fram í þættinum. Cui Jian sem er á bannlista kínverska kommúnistaflokksins þáði boðið en fór fram á að syngja lagið ,,Nothing to my name” sem fjallar um vanda ungu kynslóðarinnar í Kína eftir dauða Mao formanns og stúdentana sem létu lífið í óeirðunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Sumir fjölmiðlar segja að fallist hafi verið á Cui Jian flytti lagið ef hann myndi breyta textanum. Rokkarinn hafði engan áhuga á slíku samkomulagi en kannski má segja að tilganginum hafi verið náð þar sem málið beindi sjónum að ritskoðun stjórnvalda á þættinum.

NTD sjónvarpstöðin var stofnuð af amerískum Kínverjum og veitir oft annað sjónarhorn á gang mála í Kína en ríkisfjölmiðlarnir hér í Alþýðulýðveldinu gera. Þar er haft eftir Yang Hengjun, sem er ritstjóri kínverskrar útgáfu ástralska dagblaðsins Sydney Times, að þátturinn sem eigi að vera fólki til skemmtunar, sé fullkomlega pólitískur og smitaður af þjóðernislegum áróðri og heilaþvotti. Í þessari sömu frétt NTD um áramótaþáttinn er skáldið Ye Kuangzheng inntur eftir áliti og kallar hann þáttinn árlega trúarathöfn stjórnmálanna og segir hann áróðurstæki til að dreifa pólitískum goðsögum um kommúnistaflokkinn. Hann segir að þegar hann heyrði að Feng Xiaogang hefði verið fenginn til að stýra þættinum í ár hefði hann haft að orði að jafnvel þótt sjálfur Chaplin væri fenginn til að leikstýra hefði honum ekki tekist að breyta neinu.

Dæmi nú hver fyrir sig því þótt Youtube sé bannað í Kína er þar að finna fjölmörg myndbönd með atriðum úr nýársþættinum. Fyrir þá þolinmóðustu er meira að segja hægt að horfa á rúmlega fjögurra klukkustunda útgáfu af þættinum öllum hér.

Fjárfesting í erlendu vegabréfi

Það voru nær eingöngu Kínverjar á flugvellinum í Vancouver þegar önnur okkar var stödd þar fyrir skemmstu. Sem er ekkert skrýtið, þetta er í byrjun febrúar og kínverska nýárshátíðin stendur sem hæst. Auk þess búa um 400 þúsund kínverskir innflytjendur í kanadísku borginni. Kínverjar hafa lengi verið áberandi i Vancouver, margir fluttu þangað frá Hong Kong eftir að yfirvöld í Beijing tóku við stjórn bresku nýlendunnar, og á allra síðustu árum hafa innflytjendur frá meginlandi Kína streymt til borgarinnar í tugþúsundatali.

Þennan sama dag má lesa í dagblaðinu South China Morning Post (SCMP), sem gefið er út í Hong Kong, að komið sé í ljós að vegabréfsáformum kanadíska yfirvalda hafi verið kollvarpað af kínverskum milljónamæringum. Svokallaðar fjárfestingaráritanir til Kanada hafa verið eftirsóttar meðal efnafólks í Kína en fjöldi umsókna var orðinn svo mikill að kanadísk yfirvöld ákváðu árið 2012 að frysta verkefnið.

Vancouverskyline

Frá Kína til Kanada

Árið 1984 gerðu Bretar og Kínverjar með sér samkomulag sem fól í sér að yfirráðin yfir Hong Kong myndu færast til Beijing árið 1997. Í kjölfarið ríkti mikil óvissa um framtíðina meðal Hong Kong Kínverja. Margir kusu að flytjast búferlum til annarra landa. Kanada var eitt þeirra ríkja sem stóð þeim opið og yfir 300 þúsund íbúar Hong Kong fluttu þangað á níunda og tíunda áratugnum. Flestir komu sér fyrir í Vancouver og kannski lögðu þeir þar með grunn að kínversku samfélagi í borginni, að minnsta kosti sækjast langflestir Kínverjar sem flytja til Kanada eftir búsetu þar.

Fólksflutningarnir frá Hong Kong náðu hámarki um 1994 en eftir 1998 fór að hægjast um og eftir aldamótin 2000 hefur fjöldi innflytjenda frá Hong Kong til Kanada að meðaltali verið um 500 á ári. En þótt færri Hong Kong búar sækist nú eftir búferlaflutningum til Kanada hafa umsóknir um dvalarleyfi sem berast kanadísku rædismannaskrifstofunni í Hong Kong aldrei verið fleiri. Talið er að 99% umsækjanda séu frá Alþýðulýðveldinu og tugþúsundir auðkýfinga frá meginlandi Kína hafa lagt inn umsóknir um svokallaða fjárfestingarleið (Investor Visa).

Fjárfest í vegabréfi

Kanada og fleiri lönd bjóða þeim sem eiga næga peninga að fjárfesta í landinu og fá í staðinn vegabréf. Um háar fjárhæðir er að ræða og í raun aðeins á færi milljónamæringa að komast yfir nýtt ríkisfang á þennan hátt. Til þess að geta sótt um í kanadíska prógramminu þurfa peningaeignir viðkomandi að vera metnar á að minnsta kosti 1,6 milljónir Kanadadollara (tæpar 170 milljónir íslenskra króna) og lána þarf Kanadastjórn helminginn af þeirri upphæð, eða 800 þúsund dollara, vaxtalaust í fimm ár. Í staðinn fær milljarðamæringurinn dvalarleyfi fyrir sig og fjölskyldu sína og að þremur árum liðnum geta þau síðan sótt um ríkisfang.

Árið 2012 voru 3.643 slíkar fjárfestingaráritanir samþykktar á heimsvísu samkvæmt frétt SCMP. Rannsókn blaðsins leiddi einnig í ljós að umsóknum til sendiskrifstofu Kanada í Hong Kong fjölgaði úr 520 árið 2002 í 34.427 árið 2012. Stjórnvöld í Kanada ákváðu að hækka peningaviðmiðin árið 2010 og í kjölfarið mun eitthvað hafa dregið úr fjölda umsókna. Eftir sem áður voru áhugasamir langtum fleiri en ráðið varð við og brugðust Kanadamenn við með því að gera hlé á afgreiðslu allra slíkra umsókna árið 2012.

CanadaPause1-400x270

Í frétt SCMP segir að 110.813 manns frá meginlandi Kína og 3.305 frá Hong Kong hafi fengið dvalarleyfi í Kanada frá árinu 2010. Flestir sækjast eftir skráningu í British Columbia fylki á austurströndinni og tugþúsundir efnaðra Kínverja hafa keypt sér húsnæði í Vancouver sem er stærsta borg fylkisins. Þetta hefur haft í för með sér mikla hækkun á fasteignaverði í borginni og fram hafa komið áhyggjur af félagslegum og efnahagslegum áhrifum þessara miklu, og fremur einsleitu, fólksflutninga á svæðið. Þá er það ekki síður áhyggjuefni að margir setjast þarna að einungis að nafninu til því margir Kínverjar sem sækjast eftir kanadísku vegabréfi halda áfram að búa og starfa í Kína.

Kanadíska leiðin hefur verið langvinsælasta aðferð kínverskra auðkýfinga til að öðlast erlent ríkisfang. Kínverskar umsóknir til Kanada eru fleiri en til Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu til samans, en þau lönd bjóða einnig upp á slíkar fjárfestingarleiðir.

Strangari reglur

Samkvæmt nýjustu fréttum hafa stjórnvöld í Kanada ekki aðeins gert hlé á afgreiðslu fjárfestingarvegabréfa, heldur hafa nú einnig verið samþykkt ný lög í kanadíska þinginu sem munu hafa mikil áhrif á málaflokkinn í framtíðinni. Nýju lögin gera ráð fyrir að innflytjendur verji meiri tíma í landinu, fylli strax út skattskýrslur og að þeir skrifi undir samning þess efnis að þeir hyggist búa í landinu í framtíðinni ef þeir vilja gerast ríkisborgarar. Einnig verða gerðar meiri kröfur um tungumálakunnáttu og gert er ráð fyrir strangari viðurlögum komist upp um svik við umsóknarferlið. Í SCMP er vitnað í Chris Alexander, ráðherra innflytjendamála, sem segir að stjórnvöld séu einfaldlega að fara fram á að þeir sem sæki um ríkisfang í landinu gefi loforð um að búa í Kanada og haft verði auga með þeim sem leggja inn villandi umsóknir. Lögheimili er skilgreint á nýjan hátt í lögunum og kröfur um að umsækjendur eyði meiri tíma í landinu eru hertar til muna. Tíminn sem dvalið er í Kanada áður en umsóknin er lögð fram telst ekki lengur með. Eða eins og kanadíski ráðherrann orðar það: Eina leiðin til að kynnast þessu landi er að dvelja hér og upplifa það.

harry´sview

Ávísun á betra líf

Líklegt er að auknar kröfur Kanadastjórnar muni fæla marga Kínverja frá því að sækjast eftir kanadískum ríkisborgararétti enda virðist markmið margra ekki endilega að búa í Kanada, heldur að komast yfir kanadískt vegabréf. Erlendur ríkisborgarararéttur opnar dyr að mörgum gáttum sem kínverskir ríkisborgarar hafa ekki aðgang að. Til dæmis veitir kanadískur passi viðkomandi rétt til að setjast að í Hong Kong og í frétt SCMP kemur fram að þar búi nú 295 þúsund Kanadamenn. Margir teljast vafalaust til þeirra sem á sínum tíma yfirgáfu landið vegna yfirtöku Kína en hafa snúið aftur eftir að ljóst varð að Hong Kong myndi áfram njóta sérstöðu. Þeir Kínverjar sem snúa til Alþýðulýðveldisins með kanadískt vegabréf geta hagað lífi sínu öðruvísi en áður, þeir verða reyndar útlendingar í eigin landi þar sem ekki er hægt að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt í Kína, en ef nægir eru peningarnir skiptir það ekki máli. Börnin þeirra eiga kost á að ganga í alþjóðlegan skóla, þeir fá jafnvel aðgang að betri íbúðahverfum og vegabréfinu fylgir aukið frelsi, til dæmis til ferðalaga. Í alþjóðlegum skólum hér í Shanghai eru fjölmörg kínversk börn með erlendan passa. Þau kenna sig þá gjarnan við vegabréfslandið, sem oftast er Kanada eða Bandaríkin, þótt þau hafi kannski aldrei komið þangað né eigi þar ættingja. Önnur ástæða fyrir því að efnafólk frá Kína sækist eftir erlendu ríkisfangi er að það opnar möguleika á fjárfestingum erlendis sem þykja tryggari en heimafyrir þar sem allt er háð alræði kommúnistastjórnarinnar.

OB-XC848_0418CR_G_20130418020456

Kínverjar eru stór hluti af íbúum jarðar og augljóst að þeir munu hafa áhrif víðar en í heimalandinu á næstu árum og áratugum. Það er að mörgu leyti skiljanlegt að fólk hér í Alþýðulýðveldinu vilji komast í burtu og njóta tækifæra sem ekki gefast undir alræðisstjórn. Og þá er gripið til ýmissa ráða. Þannig eru til að mynda fjölmörg dæmi þess að kínverskir foreldrar ferðist til Bandaríkjanna til að eignast barn. Þar er það stjórnarskrárbundinn réttur að allir sem fæðast á bandarísku yfirráðasvæði eigi rétt á bandarísku ríkisfangi. Þetta notfæra margir Kínverjar sér, konurnar fljúga yfir hafið til að fæða og snúa skömmu síðar aftur heim með útlending. Þótt barnið hafi þar með engin réttindi í Kína skiptir það ekki máli því ef peningar eru til staðar má skapa barninu framtíð sem venjulegt kínverskt alþýðubarn á enga möguleika á.

Í SCMP kemur fram að yfir 45 þúsund kínverskir auðkýfingar bíði þess að umsóknir þeirra um að flytja til British Columbia í Kanada verði afgreiddar. Auðæfi þeirra eru gríðarleg og spurning hvort yfirvöld í Kanada hafi efni að hafna þessum nýju ríkisborgurum. Á sama hátt má spyrja hvort Kína hafi efni á að missa slíka fjármuni úr landi en ekki er gott að segja hvort slíkar fréttir séu álitnar neikvæðar eða jákvæðar af kínverskum stjórnvöldum. Í öllu falli er ljóst að í augum meginlandsbúa liggur leiðin til Kanada í gegnum Hong Kong því fáar umsóknir um fjárfestingarleiðina berast til sendiráðs Kanada í Beijing.

Uppfært: Í gær á kanadískum tíma, sama dag og við birtum þessa færslu, lýsti fjármálaráðherra Kanada því yfir að fjárfestingarleiðin verði afnumin. Umsóknum 46 þúsund kínverskra milljónamæringa verður eytt og fá þeir umsóknargjaldið endurgreitt.