Flatskjár handa framliðnum

Í dag heiðra kínverskar fjölskyldur minningu forfeðra sinna á qingming hátíðinni. Kínversku orðin standa fyrir birtu og tærleika en í ensku er hefð fyrir því að kalla daginn Tomb Sweeping Day. Það á vel við því þennan dag heimsækja Kínverjar grafstaði forfeðranna, hreinsa þar til og færa fórnir. Fórnirnar endurspegla tíðarandann hverju sinni og hafa peningaseðlar, iPad, iPhone og flatskjáir verið vinsælar gjafir á síðustu árum, en reyndar er um að ræða eftirlíkingar úr pappír. Og ekki er aðeins líkt eftir nútímatækni því nú hafa komið fram á sjónarsviðið þjónustufyrirtæki sem bjóða upp á staðgengla til að sjá um verkið gegn gjaldi.

kw_14_22

Veglegar fórnarathafnir forfeðrunum til heiðurs eiga sér langa hefð í Kína og segir sagan að gjafir til hinna látnu hafi verið orðnar svo íburðarmiklar og framferðið svo tímafrekt að keisaranum þótti nóg um. Fyrir 2500 árum síðan skipaði hann því svo fyrir að athafnirnar skyldu héðan í frá takmarkast við einn dag á ári. Æ síðan hefur qingming hátíðin verið haldin í heiðri. Miðað við það sem við höfum lesið og heyrt í spjalli við heimamenn fer fjölskyldan venjulega öll saman að grafreitnum. Þegar búið er að snyrta leiðið og leggja á það blóm, gjarnan tryggðarblóm (krýsantema), er komið að því að reiða fram uppáhaldsrétti hins látna. Víni er hellt í bolla og skammtinum í bolla grafarbúans er hellt yfir jarðveginn. Síðan borða gestirnir matinn við leiðið rétt eins og um lautarferð sé að ræða.

Þegar búið er að færa þeim framliðna mat og drykk er komið að því að tryggja góða fjárhagslega afkomu. Margir Kínverjar trúa að lífið eftir dauðann sé svipað lífinu í veruleikanum hverju sinni. Peningafórnir sem brenndar eru við grafreitina endurspegla þessa trú. Þær varpa reyndar líka ágætu ljósi á þann gríðarlega mikla áhuga á peningum sem öðru fremur einkennir Kína nútímans. Pappírsseðlarnir eru ýmist eftirlíkingar af kínversku yuan eða amerískum dollar og munu yfir 1000 tonn af pappír vera brennd í Kína á þessum tímamótum ár hvert. Fram hefur komið að andvirðið megi reikna í þúsundum milljóna þótt peningarnir séu ekki ekta.

En það eru ekki bara eftirlíkingar af peningaseðlum sem fuðra upp yfir kínverskum grafreitum. Eftirlifendur eru einnig mjög kappsamir í að deila nútímatækni með framliðnum ættingjum og pappírseftirlíkingar af tölvum, snjallsímum og spjaldtölvum seljast eins og heitar lummur. Langvinsælastar eru pappírsútgáfur af Apple vörum en flatskjáir og ýmis önnur rafmagnstæki seljast líka vel. Góðærið takmarkast ekki við heimilistæki því pappírsútgáfur af bílum, merkjatöskum, snyrtivörum af ýmsu tagi og jafnvel heilu húsunum mælast vel fyrir. Þá hafa heyrst sögur af hjúskaparvottorðum sem brenna upp í himinhvolfinu og staðfesta samband framliðinna ættingja og landsfrægra súperstjarna.

Grafreitirnir eru í úthverfum borga og bæja og í stórborgum eins og Shanghai skapast mikið umferðaröngþveiti á helstu leiðum. Í fyrra heimsóttu til dæmis 2,42 milljónir manna tvo stærstu grafreitina í borginni þessa hátíðarhelgi. Í slíku óreiðuástandi má gera ráð fyrir að fjölskylduferðin geti tekið á sig misánægjulegar myndir. Margir stórborgarbúar komast heldur ekki frá vinnu og aðrir eiga um langan veg að fara til heimahéraðanna og hafa kannski hvorki fjárráð né tíma til að vitja látinna ættingja. Það er því ekki að ástæðulausu að nú hafa menn séð viðskiptatækifæri í þessari gömlu hefð og bjóða upp á þjónustu þar sem hægt er láta aðra vinna verkin.

Á Taobao, stærstu netverslunarmiðstöð Kína, má finna ýmsa þjónustuaðila sem spara fjölskyldunni ferðalög og fyrirhöfn á qingming hátíðinni. Í nýlegri grein New York Times kemur fram að sé gerð leit á borð við ,,hreinsum fyrir þig leiðið” á Taobao poppi upp tugir fyrirtækja sem bjóða upp á slíka þjónustu í meira en tuttugu borgum í Kína.

Samkvæmt greininni í NYT er boðið upp á staðlaða pakka sem innhalda mat, blóm, hreinsun og fegrun grafreitsins, auk þess sem brenndar eru peningagjafir og reykelsi. Kyrrðarstundin mun taka um hálftíma og kostar á bilinu 100-800 yuan, eða um 1.800-15.000 íslenskar krónur. Viðskiptavinurinn fær sendar ljósmyndir af athöfninni áður en greitt er til að tryggja að ekki séu svik í tafli. Aðrir þjónustuaðilar ganga enn lengra og lofa beinni útsendingu á netinu frá grafstaðnum. Enn aðrir bjóða upp á bænastund gegn aukagreiðslu upp á 1.000-2.000 íslenskar krónur en þá beygir viðkomandi sig fram í bæn og snertir leiðið með enninu. Í annarri auglýsingu þykir rétt að taka fram að sá sem tekur að sé verkið sé ætíð látinn þvo sér vel daginn áður en verkið er unnið. Þá auglýsir þjónustufyrirtæki í höfuðborginni Beijing þjónustu gegn aukagjaldi sem felst í því að senda starfsmenn sem gráta yfir gröfinni á svæðið og telur hana henta vel fyrir Kínverja sem búa erlendis og eiga látna ættingja í Kína. Í grein NYT er talað við frú Zhang sem rekur slíka þjónustu í borginni Tianjin og segir hún að viðskiptin gangi mjög vel. Hún segir að hreinsun grafreita snúist fyrst og fremst um hugsanir og séu látnir ættingjar í huga þínum muni þeir skilja hvers vegna þú kemst ekki á svæðið í eigin persónu. Með því að kaupa þjónustu eins og hennar sértu að segja að þér standi ekki á sama.

Það er hefðbundin trú meðal Kínverja að andar forfeðranna vaki yfir eftirlifandi ættingjum og því er vel skiljanlegt að þeir vilji gera vel við þá látnu. Kannski má segja að hér ríki því ekki bara góðæri í raunheimum heldur líka meðal framliðinna Kínverja.

Qingming hátíðin er haldin ár hvert 15 dögum eftir vorjafndægur, sem að þessu sinni er 5. apríl.

Forgangsröð og yfirgefin börn

Kína er land andstæðna, hér ríkir ótrúlegt ríkidæmi en jafnframt skelfileg misskipting. Það er eitthvað bogið við forgangsröðunina, peningar skipta öllu máli á meðan mannúðarsjónarmið verða undir. Lítill skilningur virðist á þörfum þeirra sem eru fatlaðir eða veikir og fátækir foreldrar sem eignast fatlað barn bregða oft á það ráð að yfirgefa barnið og skilja það eftir úti á götu og sömu sögu er að segja ef barnið veikist. Á mörgum stöðum, sérstaklega í sveitum og í minni bæjum, þarf ekki fötlun eða sjúkdóma til því enn eru stúlkubörn skilin eftir á víðavangi.

Misskiptingin hér blasir við okkur á hverjum degi. Eftir að hafa lesið um yfirgefnu börnin í Kína í grein South China Morning Post fór önnur okkar í stutta bæjarferð í gær. Á hálftíma göngu rakst hún á hvern glæsibílinn á fætur öðrum, þar af tvo Porsche sportbíla, sem telst svo sem ekki til tíðinda í Shanghai. Hún kom við í H&M og á undan henni í röðinni við kassann var fín kínversk frú sem var í rándýrri merkjavöru frá toppi til táar, með stóra Louis Vuitton tösku á handleggnum og veski í stíl. Veruleiki þessarar konu er augljóslega allt annar en barnanna í blaðagreininni.

born14

Það að foreldrar yfirgefi börn sín er mikið vandamál hér í Kína. Börnin eru þá gjarnan fötluð, veik eða hreinlega af röngu kyni. Rætur vandans má rekja til margra þátta, til dæmis fátæktar, eins barns stefnunnar og afar lélegs velferðarkerfis. Til þess að bregðast við þessum vanda opnuðu stjórnvöld það sem kalla má móttökustöðvar fyrir yfirgefin börn, sú fyrsta var tekin í notkun árið 2011 en nú eru stöðvarnar orðnar 25 talsins víðsvegar um landið. Á kínversku kallast þessar stöðvar öryggiseyjur, þetta eru lítil hús með hitakassa og rimlarúmi þar sem hægt er að skilja börn eftir og fara án þess að nokkur viti hver þarna var á ferð. Um leið og barnið er yfirgefið er ýtt á bjöllu og fimm til tíu mínútum síðar kemur starfsmaður og sækir barnið og því er svo komið fyrir á stofnun fyrir munaðarlaus börn.

born10

born_3
Móttökustöð fyrir yfirgefin börn í borginni Tianjin.

Ein slík stöð var opnuð í stórborginni Guangzhou í suðurhluta Kína í janúar síðastliðnum. Í mars þurfti að loka henni, að minnsta kosti tímabundið, vegna þess að allt of mörg börn höfðu verið skilin þar eftir og ekki var hægt að sjá um þau öll. Alls hafði verið komið með 262 börn á þessum tveimur mánuðum, eða að meðaltali um fimm börn á dag. Þau voru öll fötluð eða veik, sum voru með Down´s heilkenni, önnur með annars konar þroskahömlun, einhver með hjartagalla og svo framvegis. Til þess að bregðast við þessum fjölda þurfti heimilið sem tekur við munaðarlausum börnum í borginni að fjölga plássum upp í 1.100 en það dugði ekki til.

born8
Foreldrar koma með barnið sitt í eina af móttökustöðvunum.

born6
Grátandi foreldrar yfirgefa barnið sitt.

Sögurnar í South China Morning Post eru sorglegar. Maður með litla frænku sína á stöðinni í Guangzhou segir að hún sé með hvítblæði og að foreldrarnir hafi ekki efni á að borga lækniskostnað. Hann segir að þau séu í bíl þarna skammt frá og hafi ekki treyst sér til að kveðja sína eigin dóttur. Þegar hann gengur í burtu byrjar barnið að gráta.

Annar maður kemur á stöðina með fjögurra ára son sinn. Öryggisvörður stöðvar hann til að segja honum að drengurinn sé orðinn of gamall til að hægt sé að taka við honum. Enginn vill taka við barninu mínu, segir þá maðurinn, læknar sögðu að hann væri með ólæknandi sjúkdóm.

born9

Um 10.000 börn eru yfirgefin árlega hér í Kína, langflest þeirra eru fötluð eða veik. Móttökustöðvarnar hafa verið umdeildar því sumir vilja meina að þær hvetji foreldra til að yfirgefa börn sín, en það er ólöglegt hér. Stjórnvöld hafa svarað því til að stöðvarnar geri meira gagn en ógagn og til stendur að fjölga þeim enn frekar. Það má kannski spyrja hvort þetta sé rétta leiðin til að leysa vandann og hvort ekki væri betra að koma upp öflugra velferðarkerfi í því efnahagslega stórveldi sem Kína er.

Ísland í augum almennings í Kína

Þegar það berst í tal hér í Kína að maður sé frá Íslandi heyrir það til undantekninga ef viðmælandinn þekkir ekki landið. Kínverska þjóðin virðist vel með á nótunum þegar Ísland er til umræðu og margir minnast þá á bankahrunið. Þótt hlutfallslega fáir Kínverjar hafi heimsótt Ísland þá tengja það margir við náttúrufegurð og muna eftir að hafa séð landslagsmyndir í fjölmiðlum. Aðrir muna eftir Íslandi úr landafræðitímum þar sem utanbókarlærdómur vegur þungt í kunnáttu nemenda.

world-map-chinese

Landafræði

Kínverjar eru góðir í landafræði og hún er líka það fyrsta sem kínverskum viðmælendum okkar dettur í hug þegar við ákváðum að grennslast fyrir um þekkingu þeirra á Íslandi. Við höfðum oft heyrt þá skýringu að landið væri fólki ofarlega í huga vegna nafnsins, en á kínversku heitir það bīng dǎo, en bein þýðing þess er ís-eyja. Það er ekki algengt í kínverskri tungu að lönd beri svo lýsandi nöfn. Algengari eru heiti þar sem fyrsti stafurinn í nafni landins er notaður og orðinu guó, sem þýðir land, síðan skeytt við. Þannig heitir Frakkland á kínversku fà guó og Þýskaland dé guó (Deutschland). Algengt er líka að erlend nöfn landa séu einfaldlega borin fram með kínverskum framburði eins og dān mài (Danmörk) og bō lán (Pólland). Ein kona sem við töluðum við sagði að líklega myndu svona margir vel eftir Íslandi úr landafræðibókunum vegna þess hve auðvelt er að læra nafn Íslands utanbókar: ,,maður getur séð fyrir sér ísinn og snjóinn.” Annar viðmælandi benti á að margir Kínverjar væru með landakort uppi á vegg heima hjá sér og þekktu því vel staðsetningar hinna ýmsu þjóðlanda á heimskortinu.

China in Arctic :  Iceland flag on Tiananmen square during visit of  Johanna Sigurdardottir

Fjármálakreppa

Algeng skýring sem viðmælendur okkar gáfu á frægð Íslands í Kína er hversu áberandi umfjöllun um fjármálakreppuna hefur verið í kínverskum fjölmiðlum. Fréttum af bankahruninu á Íslandi árið 2007 var slegið upp af kínverskum fréttastofum eins og í fjölmiðlum víða um heim. Þótt almennt fari lítið fyrir erlendu efni í klukkutímalöngum aðalfréttatíma kínverska ríkissjónvarpsins, eða um 5-10 mínútur daglega að sögn eins viðmælanda okkar, þá fékk hrun íslenska hagkerfisins mikla athygli. Einn viðmælandi okkar mundi vel eftir því að fréttir af fjármálahruninu á Íslandi hefðu birst í fréttum dag eftir dag á sínum tíma.

Fjölmiðlaumfjöllun hér í alþýðulýðveldinu endurspeglar ætíð viðhorf stjórnvalda og mikill áhugi á bankahruninu á Íslandi er varla tilviljun. Augljóslega fylgdust kínversk fjármálayfirvöld vel með framvindunni og í heimsókn íslenska seðlabankastjórans til kollega hans í Beijing árið 2009 var lagður grunnur að gjaldeyrisskiptasamningi við Kína. Skrifað var formlega undir samninginn á Íslandi sumarið 2010. Gagnrýnisraddir heyrðust og þótti sumum óljóst með hvað hætti væri verið að liðka fyrir viðskiptum við kínverska ríkið þar sem enginn veit hvernig Kínverjar munu nýta sér sinn hluta af samingnum. Aðrir töldu að mestu skipti að samningurinn væri traustyfirlýsing frá stórveldinu Kína og myndi efla tiltrú á íslenska hagkerfinu. Í fyrra flutti forseti Íslands ræðu á Bessastöðum þar sem hann þakkaði gestum sínum, sem voru stjórnmálaleiðtogar frá Kína, fyrir að hjálpa Íslendingum að sigrast á fjármálakreppunni en aðrir hafa viðrað áhyggjur þar sem stefnt virðist að frekari gjaldeyrisskiptasamningum milli Ísland og alþýðulýðveldisins.

Heimsóknir þjóðhöfðingja

Heimsóknir forseta Íslands hingað til Kína árin 2005, 2007, 2008 og 2010 voru talsvert til umfjöllunar hér. Kínverskir viðmælendur okkar mundu eftir forseta Íslands úr kínversku sjónvarpi, dagblöðum og netmiðlum og sjálfar munum við eftir að hafa séð fréttir af einni heimsókninni á forsíðu dagblaðins Shanghai Daily.

Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var forsætisráðherra Íslands, komst einnig á forsíðu Shanghai Daily þegar hún heimsótti Kína á síðasta ári. Þeir viðmælendur okkar sem muna eftir Jóhönnu verða dálítið vandræðalegir þegar þeir segja að heimsókn hennar hafi fengið mjög mikla athygli vegna þess að hún sé samkynhneigð. Ein kona bætir feimnislega við; ,,Ísland er mjög opið land” og á þá sennilega við að íslenska þjóðin sé frjálslynd í málefnum samkynhneigðra.

johannabeijing

Það verður að segjast eins og er að það er dálítið skrýtin tilfinning að vera Íslendingur hér í þessu risastóra landi og sjá forsíðumynd af íslenskum þjóðhöfðingjum í blaðastandi við kassann í matvörubúðinni, rétt eins og um stórveldaheimsókn væri að ræða. Á móti kemur að hinir ýmsu þjóðarleiðtogar Afríkuríkja, sem líkt og Íslendingar geta varla talist til mestu áhrifavalda í heiminum, birtast líka reglulega á forsíðum kínverskra dagblaða. Hér í Kína myndi maður heyra þá útskýringu að hér sé siður að koma eins fram við allar þjóðir, hvort sem þær eru stjórar eða smáar.

Grímsstaðir

Ekki er hægt að tala um samband Íslands og Kína án þess að minnast á Huang Nubo. Sé tekið mið af viðmælendum okkar hafa fréttir af Grímsstaðamálinu vakið gríðarlega athygli meðal almennings í Kína. Ein kona sagði að hún myndi eftir fjölmörgum fréttum ,,um manninn sem vildi kaupa jörð á Íslandi en var hafnað af íslenskum stjórnvöldum. Hann vildi kaupa landið og gera að ferðamannastað til að draga kínverska ferðamenn til Íslands vegna hreina loftsins og vatnsins og til að sýna þeim náttúru landsins. Hann hafi séð þetta sem góðan framtíðar business því fleiri og fleiri Kínverjar vilji ferðast um heiminn.” Og konan bætir því við að þetta síðasta sé alveg satt. Flestir viðmælendur sem minntust á landakaupin vissu af andstöðu íslenskra stjórnvalda. Enginn var þó viss um endanlega niðurstöðu málsins og flestir töldu að aðeins formsatriði stæðu í vegi fyrir að Huang Nubo eignaðist jörðina. Eða eins og einn viðmælandinn sagði; ,,það býr hvort sem er enginn þarna, er það nokkuð?”

Fríverslun og norðurslóðir

Aðrir atburðir tengdir Íslandi sem fólk mundi eftir úr kínverskum fjölmiðlum voru fríverslunarsamningurinn og norðurslóðir en þó töldu sumir almennan áhuga á því síðarnefnda ekki mikinn. Eins og fram kom í máli eins viðmælanda vekja sögur af landakaupum til að byggja golfvöll á Íslandi miklu meiri áhuga. Allir sögðu að fréttir um Ísland væru ætíð á jákvæðum nótum og nefndi einn sem dæmi að Ísland væri eitt af fyrstu löndum í heiminum til að gera fríverslunarsamning við Kína. Hann taldi að áhersla fjölmiðla væri á vinskap á milli landanna en sagði jafnframt að það sama gilti ekki um allar þjóðir og minnist í því sambandi á neikvæðar fréttir í kínverskum fjölmiðlum um lélega kennara í Bretlandi. Í eitt skipti spurðum við viðmælanda okkar hvort hann gæti rifjað upp fréttir um önnur lönd og tókum Svíþjóð sem dæmi. Eftir stutta umhugsun svaraði hann að í fljótu bragði gæti hann ekki munað eftir neinum fréttum um Svíþjóð.

Til að draga þetta saman virðist sem Kínverjar þekki vel til Íslands vegna þess hve vel þeir eru að sér í landafræði og hafa lært að þekkja lönd heimsins utanbókar. Auðvelt er að læra nafn Íslands og landið er því mörgum í fersku minni. Fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna ára hefur auk þess vakið athygli á landinu vegna fjármálakreppunnar, þjóðhöfðingja, fríverslunarsamningsins og Huang Nubo. Ferðir um norðurslóðir koma eitthvað við sögu og í kínverskum fjölmiðlum er lögð mikil áhersla á mikla vináttu á milli þjóðanna.

orgxi

Ólíkt spjalli annarra þjóða

Þegar búið er í alþjóðasamfélagi útlendinga í Kína er eðlilegur hluti af daglegu lífi að tala um hvaðan fólk kemur og oft er spjallað um lönd og þjóðir. Þegar Ísland á í hlut eru eldgos og  Eyjafjallajökull oft það fyrsta sem fólki dettur í hug. Auðvitað vita líka allir um fjármálakreppuna og ruglið í íslensku bönkunum en flestir kunna ekki við að tala mikið um svo pólitísk mál. Fólk beinir talinu frekar í jákvæðar áttir og Björk, Sigur Rós og Of Monsters And Men eru vinsælt og þægilegt umræðuefni.

Við gerð þessarar óformlegu könnunar á viðhorfum almennings í Kína til Íslands kom það okkur því dálítið á óvart að aðeins einn kínverskur viðmælandi okkar minntist á eldgos þótt gosið í Eyjafjallajökli hafi komst í fréttir hér sem annarsstaðar. Enginn viðmælanda minntist heldur á tónlist, en það þarf þó ekki að koma á óvart þar sem hér er annar menningarheimur. Ólíkt því sem gerist með öðrum þjóðum barst tal Kínverjanna heldur ekki oft að veðráttunni á Íslandi þótt þeir tengi nafn landsins óneitanlega við að þar hljóti að vera ískalt.

Samskiptin við Kína í íslenskum fjölmiðlum

Umfjöllun kínverskra fjölmiðla um samskipti Íslands og Kína mótar almenningsálitið og virðist keimlík þeirri sem margir íslenskir ráðamenn boða og er því miður oft étin upp gagnrýnislaust í íslenskum fjölmiðlum. Að einhverju leyti að má því kannski segja að íslenska þjóðinni sitji undir sama áróðri og sú kínverska. Ekki sér fyrir endann á daðri íslenskra yfirvalda við alræðisstjórnina í Beijing og fyrir nokkrum dögum hafði Xinhua ríkisfréttaveitan það eftir utanríkisráðherra Íslands að óskað sé eftir enn frekara samstarfi milli þjóðanna, meðal annars við vísindarannsóknir á norðurslóðum. Fréttin birtist hér á netsíðu Xinhua þann 5. mars og sagt var frá henni hér á RÚV fimm dögum síðar án þess að til frekari umfjöllunar kæmi.

Við Íslendingar njótum þeirrar gæfu að geta tjáð skoðanir okkar og höfum frjálsan aðgang að upplýsingum á Íslandi. Sama gildir ekki um almenning í alþýðulýðveldinu Kína sem leyfir sér ekki að viðra pólitískar skoðanir og býr við mikla ritskoðun eins og við fjölluðum nýlega um hér. Þrátt fyrir upplýsingafrelsi á Íslandi virðast staðhæfingar og áróður kínverskra yfirvalda renna gagnrýnislaust niður hjá íslenskum ráðamönnum. Skiljanlegt er að fyrirtæki og einstaklingar sjái Kína sem spennandi vettvang sé horft til framtíðar, það skiljum við vel sem hér búum. Það virðist hinsvegar afar óljóst hvert stefnt er í margvíslegri samvinnu milli íslenskra stjórnvalda og flokksherranna í Beijing. Erfitt er að sjá fyrir sér mikið jafnvægi á því sviði og enn síður að litla Ísland mun ráða þar ferðinni.

Skrautlegur sjónvarpsáróður

Kínversku nýárshátíðinni lýkur í dag. Hátíðin, sem Kínverjar kenna við vorið, stendur yfir í fimmtán daga ár hvert. Fimmtándi dagurinn er haldinn hátíðlegur, ekki ósvipað og þegar jólin eru kvödd á þrettándanum. Dagurinn er kenndur við ljósker enda er þá til siðs að kveikja á pappírsluktum og ganga með þær um götur. Ljóskerin eru send upp í himingeiminn og gömul trú segir að þau vísi villuráfandi öndum leiðina heim.

ljosker

Við ætlum aftur á móti að nota tilefnið til að senda út á netið nokkur eftirminnileg myndbrot úr kínversku sjónvarpi.

Fyrst er að nefna atriði sem hlotið hefur mikla athygli og er úr hátíðarskemmtiþætti kínverska sjónvarpins 30. janúar. Þátturinn er sendur út um allt Kína og er þar með sá sjónvarpsþáttur heimsins sem mest áhorf hefur. Yfir 700 milljónir manna fylgdust með þessari fjögurra klukkustunda löngu dagskrá á meðan beðið var eftir að ár hestsins gengi í garð á miðnætti. Og í jafnlangan tíma sneri ung kínversk dansmær sér á sjónvarpssviðinu sem tákn um líðandi stund og árstíðaskiptin. Stúlkan heitir Wei Caiqi og er frænka hinnar víðfrægu dansmeyjar Fang Liping sem er hálfgerð goðsögn hér í Kína og þekkt fyrir geysifagra og óvenjulega dansa. Snúningsdans hinnar fimmtán ára gömlu frænku hennar vakti mikla athygli og ekki voru allir jafn hrifnir. Var jafnvel talað um grimmd í kínverskum netheimum. Sjálf líkti Wei gjörningnum við hugleiðslu í athugasemd á eigin samskiptasíðu.

Sjónvarpsgalað er mikil áróðurs- og skrautsýning og skemmtiatriðin af ýmsum toga; dans, grínatriði, leikur og söngur. Þátturinn hefur verið sendur út á þessum tímamótum frá árinu 1983 en í ár var í fyrsta sinn í sögunni aðili utan ríkissjónvarpsins ráðinn til að stýra þættinum. Fyrir valinu varð þekktur gamanmyndaleikstjóri að nafni Feng Xiaogang. Reynt var að höfða meira til ungu kynslóðarinnar og aðkoma kóresku poppstjörnunnar Lee Min-ho var augljóslega liður í því. Flutningur frönsku leikkonunnar Sophie Marceau og kínverska listamannsins Liu Huan á franska slagaranum La vie en rose ljáði þættinum einnig alþjóðlegra yfirbragð. Það kom því nokkuð á óvart þegar dansflokkur frá kínverska þjóðarballettinum fyllti sviðið og dansaði byltingarkenndan kommúnistaballett í búningum rauðu varðliðanna. Í viðtali í kínverska sjónvarpinu sagði sýningarstjóri ballettflokksins að hún væri mjög ánægð að dansararnir hefðu fengið þetta tækifæri til að koma fram og að ákveðið hefði verið að helga atriðið fortíðinni og hylla um leið klassíkina.

Skömmu síðar var komið að baráttusöngvum með þjóðlegu hernaðarívafi.

Allt verður að pólitískum áróðri hér í Kína og yfirvöld í Peking hafa nú gengið svo langt að gera áramótaþáttinn að svokölluðu þjóðarverkefni en opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking árið 2008 var einmitt skilgreind á sama hátt. Þetta þykir sýna hversu mikilvægur þátturinn er í augum stjórnvalda.

Á vefsíðu NTD sjónvarpsstöðvarinnar í New York sver Feng, leikstjórinn vinsæli sem var valinn til að stýra þættinum í ár, þess eið að hann muni aldrei aftur taka að sér slíkt verkefni. Hann segir að eftir að hann tók við stjórn þáttarins hafi samstarfsmenn hans verið farnir að halda að hann væri ekki heill á geði. Á sama stað segir að Feng hafi viljað ögra yfirvöldum með því að bjóða rokkaranum Cui Jian, sem sumir kalla föður kínverska rokksins, að koma fram í þættinum. Cui Jian sem er á bannlista kínverska kommúnistaflokksins þáði boðið en fór fram á að syngja lagið ,,Nothing to my name” sem fjallar um vanda ungu kynslóðarinnar í Kína eftir dauða Mao formanns og stúdentana sem létu lífið í óeirðunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Sumir fjölmiðlar segja að fallist hafi verið á Cui Jian flytti lagið ef hann myndi breyta textanum. Rokkarinn hafði engan áhuga á slíku samkomulagi en kannski má segja að tilganginum hafi verið náð þar sem málið beindi sjónum að ritskoðun stjórnvalda á þættinum.

NTD sjónvarpstöðin var stofnuð af amerískum Kínverjum og veitir oft annað sjónarhorn á gang mála í Kína en ríkisfjölmiðlarnir hér í Alþýðulýðveldinu gera. Þar er haft eftir Yang Hengjun, sem er ritstjóri kínverskrar útgáfu ástralska dagblaðsins Sydney Times, að þátturinn sem eigi að vera fólki til skemmtunar, sé fullkomlega pólitískur og smitaður af þjóðernislegum áróðri og heilaþvotti. Í þessari sömu frétt NTD um áramótaþáttinn er skáldið Ye Kuangzheng inntur eftir áliti og kallar hann þáttinn árlega trúarathöfn stjórnmálanna og segir hann áróðurstæki til að dreifa pólitískum goðsögum um kommúnistaflokkinn. Hann segir að þegar hann heyrði að Feng Xiaogang hefði verið fenginn til að stýra þættinum í ár hefði hann haft að orði að jafnvel þótt sjálfur Chaplin væri fenginn til að leikstýra hefði honum ekki tekist að breyta neinu.

Dæmi nú hver fyrir sig því þótt Youtube sé bannað í Kína er þar að finna fjölmörg myndbönd með atriðum úr nýársþættinum. Fyrir þá þolinmóðustu er meira að segja hægt að horfa á rúmlega fjögurra klukkustunda útgáfu af þættinum öllum hér.

Fjárfesting í erlendu vegabréfi

Það voru nær eingöngu Kínverjar á flugvellinum í Vancouver þegar önnur okkar var stödd þar fyrir skemmstu. Sem er ekkert skrýtið, þetta er í byrjun febrúar og kínverska nýárshátíðin stendur sem hæst. Auk þess búa um 400 þúsund kínverskir innflytjendur í kanadísku borginni. Kínverjar hafa lengi verið áberandi i Vancouver, margir fluttu þangað frá Hong Kong eftir að yfirvöld í Beijing tóku við stjórn bresku nýlendunnar, og á allra síðustu árum hafa innflytjendur frá meginlandi Kína streymt til borgarinnar í tugþúsundatali.

Þennan sama dag má lesa í dagblaðinu South China Morning Post (SCMP), sem gefið er út í Hong Kong, að komið sé í ljós að vegabréfsáformum kanadíska yfirvalda hafi verið kollvarpað af kínverskum milljónamæringum. Svokallaðar fjárfestingaráritanir til Kanada hafa verið eftirsóttar meðal efnafólks í Kína en fjöldi umsókna var orðinn svo mikill að kanadísk yfirvöld ákváðu árið 2012 að frysta verkefnið.

Vancouverskyline

Frá Kína til Kanada

Árið 1984 gerðu Bretar og Kínverjar með sér samkomulag sem fól í sér að yfirráðin yfir Hong Kong myndu færast til Beijing árið 1997. Í kjölfarið ríkti mikil óvissa um framtíðina meðal Hong Kong Kínverja. Margir kusu að flytjast búferlum til annarra landa. Kanada var eitt þeirra ríkja sem stóð þeim opið og yfir 300 þúsund íbúar Hong Kong fluttu þangað á níunda og tíunda áratugnum. Flestir komu sér fyrir í Vancouver og kannski lögðu þeir þar með grunn að kínversku samfélagi í borginni, að minnsta kosti sækjast langflestir Kínverjar sem flytja til Kanada eftir búsetu þar.

Fólksflutningarnir frá Hong Kong náðu hámarki um 1994 en eftir 1998 fór að hægjast um og eftir aldamótin 2000 hefur fjöldi innflytjenda frá Hong Kong til Kanada að meðaltali verið um 500 á ári. En þótt færri Hong Kong búar sækist nú eftir búferlaflutningum til Kanada hafa umsóknir um dvalarleyfi sem berast kanadísku rædismannaskrifstofunni í Hong Kong aldrei verið fleiri. Talið er að 99% umsækjanda séu frá Alþýðulýðveldinu og tugþúsundir auðkýfinga frá meginlandi Kína hafa lagt inn umsóknir um svokallaða fjárfestingarleið (Investor Visa).

Fjárfest í vegabréfi

Kanada og fleiri lönd bjóða þeim sem eiga næga peninga að fjárfesta í landinu og fá í staðinn vegabréf. Um háar fjárhæðir er að ræða og í raun aðeins á færi milljónamæringa að komast yfir nýtt ríkisfang á þennan hátt. Til þess að geta sótt um í kanadíska prógramminu þurfa peningaeignir viðkomandi að vera metnar á að minnsta kosti 1,6 milljónir Kanadadollara (tæpar 170 milljónir íslenskra króna) og lána þarf Kanadastjórn helminginn af þeirri upphæð, eða 800 þúsund dollara, vaxtalaust í fimm ár. Í staðinn fær milljarðamæringurinn dvalarleyfi fyrir sig og fjölskyldu sína og að þremur árum liðnum geta þau síðan sótt um ríkisfang.

Árið 2012 voru 3.643 slíkar fjárfestingaráritanir samþykktar á heimsvísu samkvæmt frétt SCMP. Rannsókn blaðsins leiddi einnig í ljós að umsóknum til sendiskrifstofu Kanada í Hong Kong fjölgaði úr 520 árið 2002 í 34.427 árið 2012. Stjórnvöld í Kanada ákváðu að hækka peningaviðmiðin árið 2010 og í kjölfarið mun eitthvað hafa dregið úr fjölda umsókna. Eftir sem áður voru áhugasamir langtum fleiri en ráðið varð við og brugðust Kanadamenn við með því að gera hlé á afgreiðslu allra slíkra umsókna árið 2012.

CanadaPause1-400x270

Í frétt SCMP segir að 110.813 manns frá meginlandi Kína og 3.305 frá Hong Kong hafi fengið dvalarleyfi í Kanada frá árinu 2010. Flestir sækjast eftir skráningu í British Columbia fylki á austurströndinni og tugþúsundir efnaðra Kínverja hafa keypt sér húsnæði í Vancouver sem er stærsta borg fylkisins. Þetta hefur haft í för með sér mikla hækkun á fasteignaverði í borginni og fram hafa komið áhyggjur af félagslegum og efnahagslegum áhrifum þessara miklu, og fremur einsleitu, fólksflutninga á svæðið. Þá er það ekki síður áhyggjuefni að margir setjast þarna að einungis að nafninu til því margir Kínverjar sem sækjast eftir kanadísku vegabréfi halda áfram að búa og starfa í Kína.

Kanadíska leiðin hefur verið langvinsælasta aðferð kínverskra auðkýfinga til að öðlast erlent ríkisfang. Kínverskar umsóknir til Kanada eru fleiri en til Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu til samans, en þau lönd bjóða einnig upp á slíkar fjárfestingarleiðir.

Strangari reglur

Samkvæmt nýjustu fréttum hafa stjórnvöld í Kanada ekki aðeins gert hlé á afgreiðslu fjárfestingarvegabréfa, heldur hafa nú einnig verið samþykkt ný lög í kanadíska þinginu sem munu hafa mikil áhrif á málaflokkinn í framtíðinni. Nýju lögin gera ráð fyrir að innflytjendur verji meiri tíma í landinu, fylli strax út skattskýrslur og að þeir skrifi undir samning þess efnis að þeir hyggist búa í landinu í framtíðinni ef þeir vilja gerast ríkisborgarar. Einnig verða gerðar meiri kröfur um tungumálakunnáttu og gert er ráð fyrir strangari viðurlögum komist upp um svik við umsóknarferlið. Í SCMP er vitnað í Chris Alexander, ráðherra innflytjendamála, sem segir að stjórnvöld séu einfaldlega að fara fram á að þeir sem sæki um ríkisfang í landinu gefi loforð um að búa í Kanada og haft verði auga með þeim sem leggja inn villandi umsóknir. Lögheimili er skilgreint á nýjan hátt í lögunum og kröfur um að umsækjendur eyði meiri tíma í landinu eru hertar til muna. Tíminn sem dvalið er í Kanada áður en umsóknin er lögð fram telst ekki lengur með. Eða eins og kanadíski ráðherrann orðar það: Eina leiðin til að kynnast þessu landi er að dvelja hér og upplifa það.

harry´sview

Ávísun á betra líf

Líklegt er að auknar kröfur Kanadastjórnar muni fæla marga Kínverja frá því að sækjast eftir kanadískum ríkisborgararétti enda virðist markmið margra ekki endilega að búa í Kanada, heldur að komast yfir kanadískt vegabréf. Erlendur ríkisborgarararéttur opnar dyr að mörgum gáttum sem kínverskir ríkisborgarar hafa ekki aðgang að. Til dæmis veitir kanadískur passi viðkomandi rétt til að setjast að í Hong Kong og í frétt SCMP kemur fram að þar búi nú 295 þúsund Kanadamenn. Margir teljast vafalaust til þeirra sem á sínum tíma yfirgáfu landið vegna yfirtöku Kína en hafa snúið aftur eftir að ljóst varð að Hong Kong myndi áfram njóta sérstöðu. Þeir Kínverjar sem snúa til Alþýðulýðveldisins með kanadískt vegabréf geta hagað lífi sínu öðruvísi en áður, þeir verða reyndar útlendingar í eigin landi þar sem ekki er hægt að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt í Kína, en ef nægir eru peningarnir skiptir það ekki máli. Börnin þeirra eiga kost á að ganga í alþjóðlegan skóla, þeir fá jafnvel aðgang að betri íbúðahverfum og vegabréfinu fylgir aukið frelsi, til dæmis til ferðalaga. Í alþjóðlegum skólum hér í Shanghai eru fjölmörg kínversk börn með erlendan passa. Þau kenna sig þá gjarnan við vegabréfslandið, sem oftast er Kanada eða Bandaríkin, þótt þau hafi kannski aldrei komið þangað né eigi þar ættingja. Önnur ástæða fyrir því að efnafólk frá Kína sækist eftir erlendu ríkisfangi er að það opnar möguleika á fjárfestingum erlendis sem þykja tryggari en heimafyrir þar sem allt er háð alræði kommúnistastjórnarinnar.

OB-XC848_0418CR_G_20130418020456

Kínverjar eru stór hluti af íbúum jarðar og augljóst að þeir munu hafa áhrif víðar en í heimalandinu á næstu árum og áratugum. Það er að mörgu leyti skiljanlegt að fólk hér í Alþýðulýðveldinu vilji komast í burtu og njóta tækifæra sem ekki gefast undir alræðisstjórn. Og þá er gripið til ýmissa ráða. Þannig eru til að mynda fjölmörg dæmi þess að kínverskir foreldrar ferðist til Bandaríkjanna til að eignast barn. Þar er það stjórnarskrárbundinn réttur að allir sem fæðast á bandarísku yfirráðasvæði eigi rétt á bandarísku ríkisfangi. Þetta notfæra margir Kínverjar sér, konurnar fljúga yfir hafið til að fæða og snúa skömmu síðar aftur heim með útlending. Þótt barnið hafi þar með engin réttindi í Kína skiptir það ekki máli því ef peningar eru til staðar má skapa barninu framtíð sem venjulegt kínverskt alþýðubarn á enga möguleika á.

Í SCMP kemur fram að yfir 45 þúsund kínverskir auðkýfingar bíði þess að umsóknir þeirra um að flytja til British Columbia í Kanada verði afgreiddar. Auðæfi þeirra eru gríðarleg og spurning hvort yfirvöld í Kanada hafi efni að hafna þessum nýju ríkisborgurum. Á sama hátt má spyrja hvort Kína hafi efni á að missa slíka fjármuni úr landi en ekki er gott að segja hvort slíkar fréttir séu álitnar neikvæðar eða jákvæðar af kínverskum stjórnvöldum. Í öllu falli er ljóst að í augum meginlandsbúa liggur leiðin til Kanada í gegnum Hong Kong því fáar umsóknir um fjárfestingarleiðina berast til sendiráðs Kanada í Beijing.

Uppfært: Í gær á kanadískum tíma, sama dag og við birtum þessa færslu, lýsti fjármálaráðherra Kanada því yfir að fjárfestingarleiðin verði afnumin. Umsóknum 46 þúsund kínverskra milljónamæringa verður eytt og fá þeir umsóknargjaldið endurgreitt.

Fölleit og fögur

Hugmyndir um kvenlega fegurð virðast nokkuð fastmótaðar hér í Kína; konur eiga að vera ofurgrannar, ljósar á hörund, og með stór augu. Egglaga andlit og smávaxið nef þykja mesta prýði og ekki er verra að vera hávaxin, helst hærri en 165 cm. Ýmsar aðferðir eru notaðar til að mæta þessum kröfum, allt frá einföldum ráðum á borð við háa hæla og sólhlífar til afdrifaríkra skurðaðgerða. 

Þótt fegurðarímyndin í Kína sé nokkuð dæmigerð á asískan mælikvarða má velta því fyrir sér hvort útlit þeirra kínversku kvenna sem öðlast hafa alþjóðlega frægð á undanförnum árum hafi áhrif á almenn viðhorf, en útlit þeirra er ekki alltaf í fullu samræmi við tíðarandann í heimalandinu. Súpermódelið Liu Wen og leikkonan Zhang Ziyi þykja til dæmis báðar afar glæsilegar á vestrænan mælikvarða – nafn hinnar síðarnefndu hefur jafnvel komið fyrir á lista yfir fegurstu konur heims – en heima í Kína þykir útlit þeirra frekar hversdagslegt.

kinabeauty

Mismunandi menningarheimar hafa ólík viðmið þegar kemur að fegurð og hugmyndir um hið fullkomna útlit eru líka breytilegar á hverjum tíma í sögunni. Af andlitsmyndum af hásettum konum á tímum Qing ættarveldisins að dæma, var ímyndin af kvenlegri fegurð þá að mörgu leyti lík þeirri sem enn gildir í Kína. Keisaraynjan Xiao Xianchun (1712-1748) með sína reglulegu andlitsdrætti er enn  talin falleg kona. Á málverkinu sjást hins vegar ekki fætur hefðarkonunnar sem hafa vafalaust verið agnarsmáir í samræmi við kröfur sem gerðar voru til kínverskra kvenna um aldir. Við fimm ára aldur voru beinin í fótum ungra telpna brotin og fótunum upp frá því haldið í skorðum með föstum línvafninum. Með þessu móti urðu fæturnir örsmáir og þóttu þá afar kvenlegir og fagrir. Varla er hægt að ímynda sér hversu sársaukafullt þetta hefur verið og sem betur fer lagðist hefðin um að reyra fætur kvenna smám saman af eftir fall síðasta keisaraveldisins í byrjun 20. aldar.

528

Stóreygð, föl og létt eins og lauf í vindi

Séu fegurðarviðmið í nútíma Kína skoðuð kemur einkum þrennt upp í hugann:

1. Stór augu

Nú vitum við öll að augu Kínverja og margra annarra Asíubúa eru öðruvísi að lögun en algengast er í Vesturheimi. Ekki er talið að konur hér í Asíu hafi veitt augnumgjörð sinni mikla athygli fyrr en í seinni tíð. Líklegt þykir að viðkynningin við Vesturlandabúa hafi leitt til þess að á tuttugustu öld fór að bera á því að litið væri á konur sem ekki höfðu sýnileg augnlok, og augun þá minna áberandi, sem ólaglegar. Þessar hugmyndir lifa enn góðu lífi og algengasta fegrunaraðgerð meðal asískra kvenna í dag er aðgerð á augnlokum sem leiðir til þess að augun virðast stærri.

augu

2. Fölleit húð

Sólin skín sjaldan á kínverskar konur því hvít og jafnlit húð er mikilvægt tákn um fegurð. Kínverjar segja hlutina gjarnan hreint út og leyna ekki andúð sinni ef þeim finnst húð einhvers illa farin og blettótt eftir sólarljós. Á sama hátt höfum við báðar, sem hér skrifum, í fyrsta sinn á ævinni uppskorið mikið hrós fyrir litarhaftið sem á norðurslóðum er í neikvæðum tón kallað glært! Verra er að óbeit margra Kínverja á dökkri húð beinist einnig að fólki með náttúrulega dökkan húðlit, til dæmis blökkumönnum. Og þótt andúð á dekkri húðlit sé sprottin úr menningu sem sér ljósa húð sem tákn um fegurð er erfitt að horfa framhjá því að hér ráði líka ferð fordómar og hrein fáfræði.

Skýringin á því hvers vegna Kínverjar (og margar aðrar Asíuþjóðir) eru svona uppteknir af hvítri húð snýst þó fyrst og fremst um stétt og stöðu. Dökk húð er tengd við þrældóm og útivinnu á meðan ljós húð þykir merki um velmegun og ríkidæmi. Svipaðar hugmyndir eru þekktar úr sögu annarra menningarheima, til dæmis í Evrópu þar sem fölleit yfirstéttin gerði það sýnilegt með litarhaftinu að hún hefði efni á að láta aðra þræla fyrir sig. Hugmyndin um fegurð ljósrar húðar á sér líka langa sögu í Kína og tengist ætíð upphefð. Oft eru konurnar við Han keisarahirðina nefndar sem dæmi en hvítmáluð andlit þeirra, umkringd síðu svörtu hárinu, þóttu nánast yfirnáttúrulega fögur. En þótt hefðin eigi sér djúpar rætur í sögunni má líka leiða rök að því að húðlitur hvíta mannsins, mestu forrréttindastéttar veraldar síðustu aldir, eigi einnig þátt í því að margir Kínverjar setja fölan húðlit í samhengi við efnahagslega hagsæld og yfirburði.

ad

Í nútímanum keppast margar kínverskar konur ekki aðeins við að halda húðinni frá sólarljósinu heldur eyða líka drjúgum peningum í allskyns hvíttunaraðferðir. Þær taka pillur, fara í leysigeislaaðgerðir og bera á sig allskyns krem í von um að verða fallegri og þá væntanlega hamingjusamari. Í sjónvarpi, kvikmyndum og tískublöðum hér í Kína er fræga og fallega fólkið hvítt, oftar en ekki með hjálp Photoshop og Airbrush (sama tækni og notuð er á Vesturlöndum til að gera fólk útitekið!). Nær öll andlits- og líkamskrem sem seld eru í Kína eru hvíttunarkrem og þeir erlendu framleiðendur sem ætla sér stóra hluti hafa allir sett á markað ,,hvítar” vörulínur. Fleiri hafa séð markaðstækifæri í þessu hvíttunarfári og jafn furðulegar vörur og hið svokallaða Facekini hafa náð vinsældum á kínverskum sólarströndum, en það er einskonar lambhúshetta sem hylur hár og andlit svo sólin nái ekki að skína á hörundið. Þegar bjart er í veðri ganga kínverskar konur gjarnan um með regnhlífar til að skýla sér frá geislum sólarinnar og allskyns derhúfur, hattar og armhlífar eru algeng sjón á sólríkum dögum.

facekini

3. Tágrannur líkami

Það er ekki aðeins á Vesturlöndum sem grannar konur þykja fallegastar. Kínverskar konur eru alltaf í megrun því þótt okkur finnist þær flestar frekar fíngerðar og grannvaxnar finnst þeim sjálfum þær aldrei nægilega mjóar og nettar. Ef kínversk kona er feitlagin þykir heldur ekkert feimnismál að segja það við hana. Þótt slík hreinskilni sé talin nokkuð eðlileg í Kína eru þessar kínverskar konur þó ekkert betur undirbúnar til að taka slíkri gagnrýni en aðrar konur í heiminum. Konur frá Kína sem búa á Vesturlöndum tala gjarnan um hvað þeim finnst gott að losna undan ofurkröfunum um að vera tágrannar því í augum Vesturlandabúa eru þær flestar fínlegar og mjóar. Þess má geta að þessu er alveg öfugt farið hjá erlendum konum sem búa í Kína, flestar höfum við einhverntíma heyrt að við séum stórar, ef ekki hreinlega feitar.

Engin feimni við lýtaaðgerðir

Augljóslega eru það ekki bara kínverskar konur sem láta staðalímyndir um útlit hafa áhrif á sig. Konur út um allan heim eru sífellt að reyna að grenna sig og sumar fara í lýtaaðgerðir til að fullkomna útlitið. Það sem kann að vera ólíkt er að í Kína virðist það ekki sérlega mikið feimnismál að láta breyta útliti sínu. Hér í Shanghai eru ótrúlega margar lýtaaðgerðastofur. Utan á byggingunum hanga auglýsingaspjöld svo það fer ekkert á milli mála hvað fer þar fram og oft sér maður sjúklinga koma út með allkyns umbúðir án þess að nokkuð sé verið að reyna að fela það. Frægar eru líka sögur af kínverskum konum sem fljúga til S-Kóreu í lýtaaðgerðir, en það er vinsælt meðal þeirra efnameiri, og lenda svo í vandræðum í vegabréfseftirlitinu á heimleið því þar þekkjast þær ekki aftur á myndinni í passanum. Hátt fór líka saga af hjónaskilnaði kínverskra hjóna í kjölfar þess að upp komst að konan hafði farið í svo margar lýtaaðgerðir að hún var sem ný. Eiginmaðurinn uppgötvaði það sem hann kallaði svik þegar þessum laglegu hjónum fæddist óvenju ófríð dóttir. Manninn grunaði konuna um framhjáhald en á daginn kom að hún hafði eytt háum fjárhæðum í lýtaaðgerðir áður en þau kynntust. Enn ótrúlegra er kannski sú hlið sögunnar að manninum voru dæmdar bætur. En hvað sem öllum slíkum kjaftagangi líður, aðgerðirnar virðast sífellt umsvifameiri og nýjustu fréttir herma að lýtaaðgerð sem felst í því að láta hækka kinnbeinin og skafa af kjálkabeinunum svo lögun andlitsins verði egglaga sé nú að verða ein sú vinsælasta hér í Asíu.

beforeafter

August-Cover-2013_1280

Alþjóðleg fegurð

Á tímum alþjóðavæðingar og alheimsnets berast hugmyndir um fegurð hratt á milli menningarheima. Þegar erlend tískublöð á borð við Vogue og Elle hófu að gefa út kínverskar útgáfur fyrir nokkrum árum prýddu vestræn andlit oftar en ekki forsíður þeirra. Nú hafa hlutföllinn breyst og augljóslega selur kínversk fegurð á forsíðu líka vel. Á sama tíma hafa ungar kínverskar konur á borð við áðurnefnda Liu Wen og leikkonuna Fan Bingbing náð frama á Vesturlöndum og andlit þeirra birtast oft í auglýsingum vestrænna vörumerkja, nú síðast hjá Louis Vuitton. Fan Bingbing er ein vinsælasta leikkona Kína og í augum samlanda sinna þykir hún fullkomlega fögur.

fanbingbing

Um fegurð mannslíkamans gildir ekkert náttúrulögmál og ekki er gott að segja hvernig fegurð verður skilgreind í framtíðinni. Augljóslega munu kínverskar konur verða sýnilegri og hafa mótandi áhrif á útlitshugmyndir um allan heim. Þó er erfitt að sjá fyrir sér að ímyndin um fölleitu og stóreygu kvenveruna sem sveiflast eins og viðkvæmt blóm í vindi muni ná alþjóðlegri fótfestu enda í fullkominni andstöðu við nútíma kröfur um jafnrétti. Kínversk vinkona okkar telur að 90% ungra kvenna hér í alþýðulýðveldinu eltist þó enn við þessi óraunhæfu viðmið. Sjálfri finnst henni mikilvægara að kínverskar konur beini sjónum sínum að heilbrigðari lífsstíl, hreyfi sig meira og borði heilsusamlegra fæði. Og vonandi mun aukin menntun kvenna í Kína opna augu þeirra fyrir öðrum mannkostum og tækifærum en þeim sem felast í útlitinu. Þrátt fyrir að náttúruleg fegurð kínverskra kvenna sé augljós öllum sem koma hingað til Kína er staðan því miður sú að sífellt fleiri kínverskar konur fara í róttækar lýtaaðgerðir til að breyta útliti sínu.

MissUniverseChina872

 

Afgangskonurnar í Kína

Í fyrstu greininni hér á blogginu fjölluðum við um áróður kínverskra stjórnvalda á tímum Mao. Áróður sem stjórnunaraðferð lifir enn góðu lífi hér í Kina þar sem stjórnvöld beita ríkisfjölmiðlum fyrir sig og jafnvel ríkisstofnunum og samtökum.

Ógiftar, vel menntaðar konur um þrítugt hafa undanfarin ár verið fórnarlömb slíkrar herferðar þar sem þeim og öðrum í samfélaginu er talin trú um að þær séu að kasta lífi sínu á glæ með því að sinna starfsframanum í stað þess að giftast og eignast börn.

Afgangsstærð

Einhleypum vel menntuðum konum hefur fjölgað undanfarna áratugi hér í Kína. Stúlkur, líkt og drengir, eru hvattar til náms og gríðarleg áhersla er lögð á mikilvægi menntunar fyrir framtíðina. Allt kapp er lagt á að komast inn í góðan háskóla. Þegar svo þessar ungu konur ljúka námi og hefja störf er of stór hluti þeirra einhleypur að mati stjórnvalda.

Ógiftar vel menntaðar konur á framabraut, 27 ára og eldri, eru kallaðar sheng nu eða afgangskonur, í ríkisfjölmiðlum hér í Kína. Sheng í kínversku vísar til afganga eða þess sem er eftir. Enginn vill vera afgangs og þetta hefur því sett gífurlega pressu á þennan hóp kvenna að giftast. Foreldrar þessara ógiftu ungu kvenna vilja heldur ekki eiga afgangsdætur og ýta því á þær að ná sér í eiginmenn og ganga jafnvel enn lengra með því að sækja hjónabandsmarkaði fyrir þeirra hönd. Stefnumótaiðnaðurinn blómstrar sem aldrei fyrr.

Shengnu2

Saga herferðarinnar og líklegar ástæður hennar

Umfjöllun um afgangskonurnar hefur verið áberandi í fjölmiðlum í meira en fimm ár, eða síðan 2007. Eins ótrúlega og það hljómar birtist nafngiftin, sheng nu, þá í grein á vefsíðu All China Women’s Federation (ACWF) en hlutverk stofnunarinnar er að berjast fyrir réttindum og hagsmunum kvenna og stuðla að jafnrétti í landinu. Um svipað leyti var orðasambandið sett inn á orðalista kínverska menntamálaráðuneytisins á netinu. Í kjölfarið tóku fleiri greinar að birtast á vefsíðunni, meðal annars með alls konar leiðbeiningum til þessara kvenna um hvernig þær gætu náð sér í mann. Ríkisfjölmiðlar tóku svo við kyndlinum og hafa haldið honum uppi meira eða minna síðan.

Samkvæmt Leta Hong Fincher, doktorsnema sem er að skrifa bók um þessi mál, birtist fyrsta greinin um afgangskonurnar á vefsíðu ACWF stuttu eftir að ríkisráð Kína setti fram tilskipun um að styrkja skyldi stefnu í íbúa- og fjölskyldumálum í þeim tilgangi að koma til móts við áður óþekkt vandamál á borð við ójafnvægi í kynjahlutfalli og „lítil gæði almennings.“ 

Eins og margir vita þá hafa Kínverjar síðustu áratugi, með örfáum undantekningum, einungis mátt eiga eitt barn. Flestir vilja eignast drengi og því hefur mörgum kvenkyns fóstrum verið eytt. Þetta hefur orðið til þess að karlmenn í landinu eru mun fleiri en konur.

Kínverjar eru duglegir við að skilgreina hlutina og í umræðu um þessi mál er þjóðinni gjarnan skipt í ákveðna gæðaflokka, A, B, C og D þar sem í A flokki er besta fólkið og svo koll af kolli.  Afgangskonurnar tilheyra hæsta gæðaflokki kvenna, þetta eru gáfaðar og vel menntaðar konur í góðum störfum. Í karlaveldinu Kína hefur það tíðkast að karlmenn kvænist niður fyrir sig, þannig að A karlar kvænast til dæmis B konum og B karlar kvænast C konum og svo framvegis. Eftir standa því A konurnar og D karlarnir og þeir hópar passa, samkvæmt umræðunni, ákaflega illa saman.

Tilgangur herferðarinnar var því trúlega, fyrir utan að kynbæta kínverska þjóð, að koma sem flestum í hjónaband bæði til þess að viðhalda ríkjandi karlaveldi og koma festu á sem flesta einhleypa karlmenn, sem væru þá síður líklegri til að taka þátt í uppþotum eða óeirðum. Stjórnvöldum hefur trúlega fundist D karlarnir líklegastir til vandræða og viljað beisla þá.

Ráðleggingar til kvenna

Til að gefa innsýn í umræðuna og þær leiðbeiningar sem konum hafa staðið til boða fylgja hér nokkur dæmi úr greinum sem birtst hafa á vefsíðu ACWF síðan 2007.

Fallegar stúlkur geta gifst inn í ríka og valdamikla fjölskyldu án þess að vera mikið menntaðar en það sama gildir ekki um konur sem eru venjulegar í útliti eða ljótar. Slíkar stúlkur binda vonir við að menntunin auki tækifæri þeirra. Það sorglega er að þær gera sér ekki grein fyrir því að með aldrinum verða konur minna og minna virði svo að þegar þær loks klára meistara- eða doktorspróf þá hafa þær elst og eru orðnar eins og gulnaðar perlur.

Aðalástæða þess að stúlkur verða afgangskonur er sú að þær gera of miklar kröfur í makavali. Ef stúlkur eru ekki of vandlátar ætti það að ná sér í mann að vera jafn auðvelt og að blása í burtu ryki.

Það er bara óskhyggja að leita að manni sem er ríkur, klár, rómantískur og vinnusamur. Er slíkur maður til? Kannski er hann til en hvers vegna í ósköpunum myndi hann þá vilja giftast þér?

Í sumum greinanna má einnig finna ráð til kvenna sem hafa náð sér í mann. Þá er til dæmis kennt hvernig bregðast eigi við framhjáhaldi:

Þegar þú kemst að því að eignmaðurinn heldur framhjá þér er líklegt að þú fyllist mikilli reiði. Þú verður þó að muna að ef þú gerir mál úr þessu þá ertu að gera lítið úr honum … Enginn maður er fær um að vera trúr einni konu, sem aldrei breytist, allt lífið … Reyndu til dæmis að breyta um hárgreiðslu. Konur þurfa sífellt að breytast til hins betra.

Það sem að baki liggur og staðan í dag

Eins og sjá má af þessum dæmum er ungu konunum álasað fyrir að vera of vandlátar í makavali. Málið er þó ekki alveg svona einfalt því niðurstöður nýlegrar doktorsritgerðar Sandy To við Cambridge háskóla benda til að þeim sé hreinlega hafnað vegna þess að körlum standi ógn af þeim. To tók viðtöl við fimmtíu konur í Shanghai og í ljós kom að konurnar ungu vildu langflestar giftast, enda sterk félagsleg krafa um slíkt í Kína. Flestar fundu þær fyrir áðurnefndri höfnun eða þá kröfum frá verðandi maka um að þær þyrftu að breyta sínum lífsháttum, eins og að hætta að vinna þegar þær gengju í hjónaband.

A vendor stands next to wedding dresses during the China International Wedding Expo in Shanghai

Það er því ekki einfalt mál að vera ung og vel menntuð kona í Kína í dag. Skilaboð samfélagsins eru að konur eiga að mennta sig og leggja allt í sölurnar til þess að komast inn í góðan háskóla og svo er starfsframinn næstur á dagskrá. Þær eiga samt sem áður að giftast sem allra fyrst og þá þarf að ná í eiginmann sem er helst með meiri menntun og betri tekjur en þær sjálfar og með svipaðan eða betri félagslegan bakgrunn. Slíkir menn virðast þó alls ekki vera að leita að vel menntuðum konum á framabraut. Ef þeir hafa áhuga gera þeir oft kröfur um að konan fórni starfi sínu. Á sama tíma hljómar í eyrum þessara ungu kvenna sífelldur áróður um að þær séu afgangsafurðir og geri allt of miklar kröfur.

Eins og gefur að skilja hafa margar konur mótmælt þessu óréttlæti. Það er hinsvegar ekki auðvelt að mótmæla opinberlega hér í Kína og því hefur það verið styrkur að vestrænir fjölmiðlar hafa tekið málið upp. Þeir hafa allra síðustu ár fjallað um þessi mál og nýlega voru greinarnar á vefsíðu ACWF fjarlægðar. Vonandi er það skref í rétta átt.

Fjársjóðsleit á kínverska netinu

Póstsendingum frá Kína til Íslands mun hafa fjölgað um 700% í aðdraganda jóla. Flestar þeirra má rekja til kínversku netverslunarinnar AliExpress. Ekki er víst að allir Íslendingar viti að netsíðan tilheyrir kínverska stórveldinu Alibaba Group og að stofnandi þess heitir Jack Ma og er einn ríkasti maður í Alþýðulýðveldinu Kína.

Taobao, eða fjársjóðsleitin sé nafnið þýtt yfir á íslensku, heitir skærasta stjarnan í netheimum Jacks Ma. Netversluninni er gjarnan líkt við Amazon og eBay þótt kínverski netmarkaðurinn sé í raun mun stærri en á Vesturlöndum. Almennt nýtur verslun á netinu gríðarlegra vinsælda meðal Kínverja og í fjölmiðlum hefur komið fram að 60% af öllum póstsendingum innan Kína séu á vegum Alibaba Group.

logo

Segja má að Jack Ma hafi uppgötvað falinn fjársjóð þegar hann stofnaði Taobao sem nú er stærsta netverslunarsíða í heimi. Kína er langstærsti netsölumarkaður í veröldinni og fyrirtæki Alibaba samsteypunnar selja meira en Amazon og eBay til samans. Stór hluti netgreiðslna í Kína fer auk þess í gegnum greiðslugáttina Alipay sem er einnig í eigu Alibaba.

jackma

Milljarðamæringurinn Ma

Jack Ma er fæddur árið 1964 í borginni Hangzhou. Hann féll tvisvar á inntökuprófunum sem skera úr um hvort viðkomandi kemst í háskóla hér í Kína, en í þriðju tilraun árið 1984 fékk hann inngöngu í háskóla í heimaborginni. Hann útskrifaðist með gráðu í ensku árið 1988 og starfrækti í framhaldinu þýðingarþjónustu sem leiddi til þess að honum gafst kostur á að ferðast til Bandaríkjanna árið 1995. Þar komst Jack Ma í fyrsta sinn í kynni við internetið. Þegar hann sneri aftur til Kína kom hann á fót upplýsingasíðu á netinu, á borð við Gulu síðurnar, en á þessum tímum mátti ekki svo mikið sem minnast á internetið í kínverskum ríkisfjölmiðlum. Ma seldi fyrirtækið fljótlega til ríkisrekins fjarskiptafyrirtækis en hóf sjálfur störf við deild innan kínverska viðskiptaráðuneytisins. Þar komst hann í kynni við áhrifamenn sem stýra kínverska internetinu og setja um það reglur. Eftir að hafa safnað reynslu og réttu samböndunum í ráðuneytinu stofnaði Jack Ma í samstarfi við nokkra aðra netvettvanginn Alibaba árið 1999 og fékk til þess styrk frá bandaríska fjárfestingarbankanum Goldman Sachs og japanska SoftBank bankanum. Alibaba var í fyrstu starfrækt á heimili Jacks Ma í Hangzhou en er nú eitt öflugusta einkafyrirtæki í Kína og án vafa eitt hið frægasta.

Sjálfur er Jack Ma mjög þekktur maður í Kína og víðar. Hann þykir nokkuð sérstakur í útliti og miðað við það sem hann hefur sagt í fyrirlestrum sínum gekk honum illa í barnaskóla og var spáð litlum frama. Annað kom á daginn og Ma hefur hlotið margvíslegar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir árangur í viðskiptum. Hann var til dæmis tilnefndur Young Global Leader af World Economic Forum árið 2003, átti sæti á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamestu menn veraldar árið 2009 og í lok síðasta árs hlaut hann heiðursdoktorstitil við Hong Kong University of Science and Technology.

Áhrif Alibaba Group hafa á undanförnum árum teygt sig langt út fyrir landamæri Alþýðulýðveldins Kína og margir hafa dáðst að frumkvöðlinum Jack Ma. Hann er oft til umfjöllunar í erlendum viðskiptamiðlum og hefur flutt fyrirlestra við fræga háskóla á borð við Harvard og Stanford í Bandaríkjunum. Þar hefur hann gantast með þá staðreynd að hann sótti á sínum tíma tíu sinnum um inngöngu í Harvard án árangurs.  Slík er frægðarsól Jacks Ma að í þriggja daga opinberri heimsókn Davids Cameron til Kína í desember síðastliðnum átti breski forsætisráðherrann einkafund með Ma. Samkvæmt bloggsíðu Alibaba mun markmið fundarins meðal annars hafa verið að styrkja stöðu breskra vörumerkja á vettvangi Alibaba og svokölluð selfie mynd sem Cameron birti af þeim köppum á Twitter fór víða.

Baráttan við eftirlíkingar

En umræðan um fyrirtæki Jacks Ma hefur líka oft verið neikvæð. Hæst ber þar gagnrýni á sölu eftirlíkinga á Taobao og öðrum netsíðum á vettvangi Alibaba. Að vísu er það yfirlýst stefna fyrirtækisins að selja ekki óekta vörur og fyrirtækið hvetur alla til að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda. Samsteypan hefur einnig sent frá sér yfirlýsingar þar sem samstarf Alibaba við kínversk yfirvöld í baráttunni gegn sölu á eftirlíkingum er ítrekað. Herferð lögreglunnar í Nanjing í mars á síðasta ári er dæmi um slíka samvinnu en þá leiddu kvartanir til rannsóknar á Taobao verslun sem seldi próteinduft undir vörumerkinu Nutrilite. Eigendur vörumerkisins létu kanna innihaldið og í ljós kom að um eftirlíkingu var að ræða. Lögreglan gerði í framhaldinu upptækar 170.000 dósir af duftinu og var áætlað verðmæti þeirra um 22 milljóna Bandaríkjadala, eða yfir 2,5 milljarðar íslenskra króna. Í öðru slíku áhlaupi lagði lögreglan í Shanghai hald á 20 þúsund snyrtivörur sem seldar voru undir ýmsum þekktum vestrænum vörumerkjum. Virði þeirra var talið um 1,6 milljón dollara, eða 186 milljónir króna, og átta voru handteknir. Alibaba hefur einnig átt í samstarfi við þekkt tískufyrirtæki á borð við hið franska Louis Vuitton með það að markmiði að stöðva sölu á fölsuðum vörum í Kína. Loks má nefna að árið 2012 tóku bandarísk yfirvöld Taobao út af lista yfir sjóræningjasíður og af því tilefni sendu yfirmenn Alibaba frá sér yfirlýsingu og töldu það vera mikilvægt skref í rétta átt.

Þrátt fyrir allt þetta þarf ekki að leita lengi á Taobao eða AliExpress til að finna allkyns eftirlíkingar. Það geta því fylgt því bæði kostir og gallar að selja þekkt vörumerki í Kína eins og þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas hefur reynt, en vörumerkið nýtur mikilla vinsælda meðal Kínverja. Að sama skapi eru kóperingar af vörum fyrirtækisins afar algengar. Fyrirtækið átti lengi í baráttu við ýmsar smásölusíður á Taobao en í nýlegri kínverskri blaðaumfjöllun kemur fram að hjá Adidas hafi fólk hreinlega gefist upp á að eltast við smæstu aðilana og einbeiti sér nú að stærri netbúðum í þeirri von að þeim sé frekar umhugað um góðan orðstír og jákvæðar umsagnir viðskiptavina. Í greininni kemur einnig fram að það virðist þó ekki skipta miklu máli hvað fyrirtæki á borð við Adidas beiti sér hart gegn eftirlíkingum, hætti ein netsíða að selja vöru, þá skjóti hún alltaf upp kollinum einhverstaðar annarsstaðar á Taobao.

Íslenska stoðtækjafyrirtækið Össur hf. er eitt þeirra fyrirtækja sem þarf að glíma við eftirlíkingar á kínverska netinu. Í fyrra uppgötvaðist að á Taobao var rekin sölusíða með merki Össurar þar sem vörur fyrirtækisins voru seldar og því haldið fram að um opinbera sölusíðu fyrirtækisins væri að ræða. Því fór þó fjarri og tókst að stöðva söluna með aðstoð kínverskra lögfræðinga, sem beindu spjótum sínum bæði að söluaðilanum og Alibaba. Vörur frá Össuri hf. eru þó enn í boði hjá hinum og þessum smásölum á Taobao sem hafa engin tengsl við fyrirtækið. Það er því erfitt að meta hvaðan vörurnar koma, þær gætu verið notaðar, þeim gæti hafa verið stolið eða þær keyptar erlendis. Sama gildir í raun um allar aðrar vörur sem eru seldar á Taobao og AliExpress. Sá vettvangur Alibaba sem þykir öruggastur heitir Tmall en þar hafa mörg erlend fyrirtæki sett upp eigin netverslanir. Þó þykir ljóst að Alibaba þarf að setja miklu strangari reglur um sölu á falsvarningi á netsíðum sínum til að tryggja hagsmuni löglegra söluaðila.

Umdeild auglýsing

Í lok síðasta árs beindist sviðsljósið hér í Kína enn og aftur að Alibaba í kjölfar umdeildrar auglýsingarherferðar fyrir Taobao. Þar var ímynd bandaríska mannréttindafrömuðarins Martins Luther King notuð til að auglýsa sérstakan tilboðsdag, 12. desember. Myndband sýndi King veifandi rauðu umslagi, sem er tákn um ríkidæmi og peningagjafir í Kína, hrópandi hin fleygu orð sín I have a dream í átt að risavöxnu peningatré. Í framhaldinu birtist annað rautt umslag sem á stendur eitthvað á þessa leið: Ef þú sáir einu rauðu umslagi, uppskerðu mörg rauð umslög. Ekki er gott að segja hver átti að vera boðskapurinn með þessari auglýsingu og hér er á einkennilegan hátt blandað saman tilbeiðslu á ríkidæmi og peningum, sem á sér sterka hefð hér í Kína, og arfleið hugsjónamanns sem barðist fyrir mannréttindum blökkumanna í Ameríku. Skemmst er frá því að segja að mörgum þótti auglýsingin einstaklega ósmekkleg. Svo mikil umræða varð um málið á kínverskum samfélagsmiðlum að Alibaba sá ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem beðist var afsökunar á ,,menningarlegri ónærgætni”. Ekki var setið við orðin tóm því í kjölfarið var auglýsingaherferðin fjarlægð af netinu.

mlk2_0

mlk1_0

mlk3_0

Á hlutabréfamarkað 

Í maí 2013 ákvað Jack Ma að stíga af stóli sem forstjóri Alibaba, að eigin sögn til þess að hleypa að ferskara blóði. Hann mun þó áfram hafa mest áhrifavald innan fyrirtækisins og undir hans forystu er hafin vinna við að gera Alibaba að alþjóðlegu hlutafélagi. Til stóð að skrá félagið í Hong Kong en í kauphöllinni þar féllu áætlanir Ma um að vera bæði ráðandi í fyrirtækinu, en gera það jafnframt að almenningshlutafélagi, í grýttan jarðveg. Gert var ráð fyrir að Ma sjálfur og 27 aðrir yfirstjórnendur myndu ráða yfir um það bil 10% hlut af fyrirtækinu sem myndi jafnframt tryggja þeim ævilangan rétt til að skipa fólk í stjórn þess. Yfirmenn hlutabréfamarkaðins í Hong Kong bentu á að lög kveði á um að allir hluthafar séu jafn réttháir í hlutafélagi og slíkt væri því ekki gerlegt. Viðbrögð Ma voru þau að draga umsóknina til baka en freista þess í staðinn að skrá félagið á markað í New York. Síðustu fréttir herma að hann vonist nú eftir betri undirtektum á Wall Street. Á meðan situr Jack Ma ekki auðum höndum og hefur meðal annars sést við kynningar á snjallsímaappinu Laiwang sem er nýjusta afurð Alibaba. Uppboð á Taobao á málverki eftir Ma sjálfan í desember var liður í þeirri kynningu og seldist málverkið á 2,4 milljónir kínverskra yuan, eða um 46 milljónir króna, en upphæðin var látin renna til góðgerðarmála. Þótt uppboðið hafi sannarlega beint athyglinni að Laiwang forritinu hefur það þó einnig sætt gagnrýni og þykir líkjast of mikið hinu kínverska WeChat appi, sem hefur átt gríðarlegri velgengni að fagna.

malverk (1)

Hingað til hefur mest af starfssemi Alibaba verið í Kína, þar sem hundruðir milljóna notenda kaupa vörur í gegnum Taobao og Tmall og greiða fyrir vöruna í gegnum greiðslugáttina Alipay á þessu stærsta netmarkaðstorgi veraldar. Að undanförnu hefur fyrirtækið hafið sókn erlendis, meðal annars með því að fjárfesta í netfyrirtækjum á borð við ShopRunner í Bandaríkjunum sem er samkeppnisaðili Amazon. Alibaba hefur einnig fjárfest í bandaríska fyrirtækinu sem stendur að leitarvélinni Quixey. Augljóslega hafa áhrif Alibaba þegar náð til Íslands í formi AliExpress netverslunarinnar og gera má ráð fyrir að töluverður hluti ágóðans af jólainnkaupum Íslendinga í ár hafi runnið í vasa Jacks Ma.

jackma3

Kynt undir kaupæði

Kínverjar með fulla vasa fjár ferðast um heiminn og kaupa merkjavöru. Á þessum nótum er oft fjallað um kaupgetu kínverskra ferðamanna; þeir fylla Harrod’s í London, standa í biðröð fyrir utan Louis Vuitton í París og kæta kaupmenn í Kaupmannahöfn. Af þessu mætti draga þá ályktun að skortur sé á nútímalegum vörum í Kína en því fer þó fjarri og í kínverskum stórborgum, eins og hér í Shanghai, fjölgar glæsilegum verslunarmiðstöðvum og alþjóðlegum verslunum með undraverðum hraða.

IMG_1230

Til marks um hraðann þarf ekki að líta lengra aftur en til ársins 2007 þegar önnur okkar flutti hingað til Kína. Á þessum tíma flæddu Range Rover bílarnir út á göturnar í Reykjavík og á Saga Class sátu bjartsýnir Íslendingar klæddir í flotta merkjavöru sem þeir keyptu í London og New York, eða jafnvel bara í Kringlunni eða á Laugaveginum. Í samanburði við vestrænar allsnægtir var vöruúrvalið í stórborginni Shanghai fátæklegt árið 2007. Það gat verið erfitt að finna góð barnaföt, föt í vestrænum stærðum voru ekki sjálfsagður hlutur og nánast ómögulegt var að finna kvenskó stærri en númer 38. Á stöku stað í borginni glitti þó í flotta búðarglugga hátískumerkja á borð við Chanel og Gucci en úrval af venjulegum varningi var afar óspennandi fyrir okkur Vesturlandabúana. Flestar verslunarmiðstöðvar voru enn nokkuð “alþýðulýðveldislegar.“ Við vörukaup fékk maður til dæmis afhentan handskrifaðan miða í viðkomandi verslun og fór með hann á miðlægan kassa. Þar greiddi maður fyrir vöruna hjá sviplausum og einkennisklæddum gjaldkera, sneri síðan aftur í verslunina og fékk þá vöruna afhenta gegn því að framvísa greiðslukvittuninni sem gjaldkerinn var búinn að stimpla með rauðu tákni; greitt!

DSC_1071

IMG_3627

Nú, árið 2013, eru verslunarmiðstöðvarnar hér í Shanghai orðnar óteljandi og af ýmsum gerðum. Sumar þeirra minna meira á Disneyland en verslunarhús og aðrar eru meðal þeirra allra flottustu í heimi enda er veðjað á Shanghai sem eina af helstu tísku- og verslunarborgum framtíðarinnar. Á þeim rúma áratug sem liðinn er síðan fyrstu erlendu hátískufyrirtækin hófu að selja lúxusvarning í Kína hefur slíkum verslunum fjölgað svo hratt að erfitt er að henda reiður á tölu þeirra í fljótu bragði.

DSC_1090

DSC_1171

Innrás ódýrari vörumerkja frá Vesturlöndum hófst svo eftir að gerðar voru breytingar á kínversku verslunarlögunum árið 2005 og Kínverjar fengu fulla aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Þar með skapaðist betri grundvöllur til verslunarreksturs í Kína fyrir alþjóðlegar verslunarkeðjur. Í kjölfarið hafa búðir sem selja ódýrari tískufatnað rutt sér leið inn á kínverskan markað. Sem dæmi opnaði Zara sína fyrstu búð árið 2006, H&M ári síðar og GAP árið 2010. Til marks um hraða markaðssetningarinnar má nefna að aðeins fimm árum eftir að fyrsta H&M búðin var opnuð í Shanghai voru búðirnar orðnar eitt hundrað á landsvísu.

IMG_1228

DSC_1214

DSC_1095

Enn er tiltölulega lítið um að vera í öllum þessum flottu búðum, sérstaklega þeim allra dýrustu. Hagstæðara er fyrir Kínverja að versla í útlöndum því kínversk yfirvöld leggja háa tolla og gjöld á vörurnar. Það gæti þó átt eftir að breytast því stjórnvöld hafa markviss reynt að ýta undir persónulega neyslu í landinu til að halda uppi hagvexti, meðal annars með því að fjölga frídögum og opna fyrir verslun erlendra fyrirtækja. Þótt enn sé langt í land að allar þessar búðir komist á flug er augljóst að enginn kaupmaður vill missa af ævintýrinu þegar það hefst fyrir alvöru!

DSC_1079

Myndirnar tala sínu máli en þær höfum við tekið í verslunarmiðstöðvum víðsvegar um Shanghai á síðustu vikum.

IMG_3606

DSC_1198

DSC_1085

DSC_1104

Dálítið kínverskt í H&M

Margir sem eru áhugasamir um tísku og hrifnir af hönnun hinnar frönsku Isabel Marant hafa beðið 14. nóvember með eftirvæntingu. Dagurinn í dag markar upphafið á sölu nýrrar vörulínu sem Marant hefur gert fyrir H&M og fetar hún þar með í fótspor fleiri hátískuhönnuða sem hafa hannað fyrir sænsku verslunarkeðjuna. Okkur lék forvitni á að vita hvernig Shanghai dömur myndu bregðast við tíðindunum og eins og svo oft í Kína varð niðurstaðan allt önnur en við ætluðum.

IMG_3762

Búðin var opnuð klukkan átta í morgun og um níu var fremur rólegt um að litast. Fjöldamargir öryggisverðir voru í viðbragðsstöðu og starfsmenn deildu út armböndum til viðskiptavina þar sem fram kom klukkan hvað þeir mættu koma í Isabel Marant hornið. Þeim var svo smalað saman og hleypt inn í áföngum á viðeigandi tíma. Biðin klukkan hálftíu var innan við klukkustund.

IMG_3797

IMG_3816

Kínversku viðskiptavinirnir voru flestir mjög ungir og keyptu mest sömu flíkurnar. Þarna voru líka margar erlendar konur.

IMG_3802

Þegar bæklingi um vörulínu Isabel Marant var útdeilt í verslunum H&M hér í Kína var búið að setja inn merkingar sem sýndu að sumar af vörunum yrðu ekki í boði á meginlandi Kína. Þetta var auglýst vel og vandlega og sniðugir kínverskir sölumenn sáu þarna augljóslega strax tækifæri…

IMG_3779

…og voru búnir að opna sína eigin sölubúð á gangstéttinni beint fyrir utan verslun H&M! Vöruúrvalið hjá þeim samanstóð af Marant flíkum sem ekki voru í boði inni í versluninni og voru allar vandlega merktar, Isabel Marant pour H&M.

DSC_1159

Uppátækið vakti fljótt athygli vegfarenda og innan skamms hafði hópur fólks safnast saman í kringum sölumennina.

DSC_1162

IMG_3783

Ekki leið þó á löngu þar til starfsmaður H&M skarst í leikinn…

IMG_3767

…og ræddi síðan málin við sænskan fulltrúa frá H&M.

IMG_3782

Nokkru síðar mætti lögreglan á svæðið…

IMG_3791

IMG_3789

…og skömmu eftir það tóku félagarnir til við að pakka saman og koma vörunum yfir í bíl sem stóð þarna í götukantinum. Þeir yfirgáfu síðan svæðið. Takið eftir að annar þeirra klæðist dömupeysu úr Marant vörulínunni.

IMG_3760

Tekið skal fram að allt fór þetta ferli fram í mestu vinsemd. Ólíkt því sem oft vill verða í viðburðaríku götulífinu í Shanghai héldu allir ró sinni og svo virtist sem þetta væri bara alls ekkert svo mikið mál. Svíarnir með sitt jafnaðargeð brostu út í annað og kínversku lögregluþjónarnir voru mjög afslappaðir. Höfundarréttur var greinilega ekki til umræðu hér en hitt er svo annað mál að líklega hafa sænsku yfirmennirnir velt því fyrir sér hvaðan H&M vörurnar sem boðið var upp á á götunni voru fengnar!

IMG_3813