Í dag heiðra kínverskar fjölskyldur minningu forfeðra sinna á qingming hátíðinni. Kínversku orðin standa fyrir birtu og tærleika en í ensku er hefð fyrir því að kalla daginn Tomb Sweeping Day. Það á vel við því þennan dag heimsækja Kínverjar grafstaði forfeðranna, hreinsa þar til og færa fórnir. Fórnirnar endurspegla tíðarandann hverju sinni og hafa peningaseðlar, iPad, iPhone og flatskjáir verið vinsælar gjafir á síðustu árum, en reyndar er um að ræða eftirlíkingar úr pappír. Og ekki er aðeins líkt eftir nútímatækni því nú hafa komið fram á sjónarsviðið þjónustufyrirtæki sem bjóða upp á staðgengla til að sjá um verkið gegn gjaldi.

Veglegar fórnarathafnir forfeðrunum til heiðurs eiga sér langa hefð í Kína og segir sagan að gjafir til hinna látnu hafi verið orðnar svo íburðarmiklar og framferðið svo tímafrekt að keisaranum þótti nóg um. Fyrir 2500 árum síðan skipaði hann því svo fyrir að athafnirnar skyldu héðan í frá takmarkast við einn dag á ári. Æ síðan hefur qingming hátíðin verið haldin í heiðri. Miðað við það sem við höfum lesið og heyrt í spjalli við heimamenn fer fjölskyldan venjulega öll saman að grafreitnum. Þegar búið er að snyrta leiðið og leggja á það blóm, gjarnan tryggðarblóm (krýsantema), er komið að því að reiða fram uppáhaldsrétti hins látna. Víni er hellt í bolla og skammtinum í bolla grafarbúans er hellt yfir jarðveginn. Síðan borða gestirnir matinn við leiðið rétt eins og um lautarferð sé að ræða.

Þegar búið er að færa þeim framliðna mat og drykk er komið að því að tryggja góða fjárhagslega afkomu. Margir Kínverjar trúa að lífið eftir dauðann sé svipað lífinu í veruleikanum hverju sinni. Peningafórnir sem brenndar eru við grafreitina endurspegla þessa trú. Þær varpa reyndar líka ágætu ljósi á þann gríðarlega mikla áhuga á peningum sem öðru fremur einkennir Kína nútímans. Pappírsseðlarnir eru ýmist eftirlíkingar af kínversku yuan eða amerískum dollar og munu yfir 1000 tonn af pappír vera brennd í Kína á þessum tímamótum ár hvert. Fram hefur komið að andvirðið megi reikna í þúsundum milljóna þótt peningarnir séu ekki ekta.
En það eru ekki bara eftirlíkingar af peningaseðlum sem fuðra upp yfir kínverskum grafreitum. Eftirlifendur eru einnig mjög kappsamir í að deila nútímatækni með framliðnum ættingjum og pappírseftirlíkingar af tölvum, snjallsímum og spjaldtölvum seljast eins og heitar lummur. Langvinsælastar eru pappírsútgáfur af Apple vörum en flatskjáir og ýmis önnur rafmagnstæki seljast líka vel. Góðærið takmarkast ekki við heimilistæki því pappírsútgáfur af bílum, merkjatöskum, snyrtivörum af ýmsu tagi og jafnvel heilu húsunum mælast vel fyrir. Þá hafa heyrst sögur af hjúskaparvottorðum sem brenna upp í himinhvolfinu og staðfesta samband framliðinna ættingja og landsfrægra súperstjarna.

Grafreitirnir eru í úthverfum borga og bæja og í stórborgum eins og Shanghai skapast mikið umferðaröngþveiti á helstu leiðum. Í fyrra heimsóttu til dæmis 2,42 milljónir manna tvo stærstu grafreitina í borginni þessa hátíðarhelgi. Í slíku óreiðuástandi má gera ráð fyrir að fjölskylduferðin geti tekið á sig misánægjulegar myndir. Margir stórborgarbúar komast heldur ekki frá vinnu og aðrir eiga um langan veg að fara til heimahéraðanna og hafa kannski hvorki fjárráð né tíma til að vitja látinna ættingja. Það er því ekki að ástæðulausu að nú hafa menn séð viðskiptatækifæri í þessari gömlu hefð og bjóða upp á þjónustu þar sem hægt er láta aðra vinna verkin.
Á Taobao, stærstu netverslunarmiðstöð Kína, má finna ýmsa þjónustuaðila sem spara fjölskyldunni ferðalög og fyrirhöfn á qingming hátíðinni. Í nýlegri grein New York Times kemur fram að sé gerð leit á borð við ,,hreinsum fyrir þig leiðið” á Taobao poppi upp tugir fyrirtækja sem bjóða upp á slíka þjónustu í meira en tuttugu borgum í Kína.
Samkvæmt greininni í NYT er boðið upp á staðlaða pakka sem innhalda mat, blóm, hreinsun og fegrun grafreitsins, auk þess sem brenndar eru peningagjafir og reykelsi. Kyrrðarstundin mun taka um hálftíma og kostar á bilinu 100-800 yuan, eða um 1.800-15.000 íslenskar krónur. Viðskiptavinurinn fær sendar ljósmyndir af athöfninni áður en greitt er til að tryggja að ekki séu svik í tafli. Aðrir þjónustuaðilar ganga enn lengra og lofa beinni útsendingu á netinu frá grafstaðnum. Enn aðrir bjóða upp á bænastund gegn aukagreiðslu upp á 1.000-2.000 íslenskar krónur en þá beygir viðkomandi sig fram í bæn og snertir leiðið með enninu. Í annarri auglýsingu þykir rétt að taka fram að sá sem tekur að sé verkið sé ætíð látinn þvo sér vel daginn áður en verkið er unnið. Þá auglýsir þjónustufyrirtæki í höfuðborginni Beijing þjónustu gegn aukagjaldi sem felst í því að senda starfsmenn sem gráta yfir gröfinni á svæðið og telur hana henta vel fyrir Kínverja sem búa erlendis og eiga látna ættingja í Kína. Í grein NYT er talað við frú Zhang sem rekur slíka þjónustu í borginni Tianjin og segir hún að viðskiptin gangi mjög vel. Hún segir að hreinsun grafreita snúist fyrst og fremst um hugsanir og séu látnir ættingjar í huga þínum muni þeir skilja hvers vegna þú kemst ekki á svæðið í eigin persónu. Með því að kaupa þjónustu eins og hennar sértu að segja að þér standi ekki á sama.
Það er hefðbundin trú meðal Kínverja að andar forfeðranna vaki yfir eftirlifandi ættingjum og því er vel skiljanlegt að þeir vilji gera vel við þá látnu. Kannski má segja að hér ríki því ekki bara góðæri í raunheimum heldur líka meðal framliðinna Kínverja.

Qingming hátíðin er haldin ár hvert 15 dögum eftir vorjafndægur, sem að þessu sinni er 5. apríl.





























Áhrif Alibaba Group hafa á undanförnum árum teygt sig langt út fyrir landamæri 






























